Hér er gerð grein fyrir nokkrum þekktum miðum í Kollsvík og nágrenni; fiskimiðum og siglingaleiðum.

 

Efni:  (Flýtival með músarsmelli á efnisflokk)

Yfirlitsmyndir 
Mið á Kollsvík 
Siglingaleiðir í Kollsvík
Önnur mið í Útvíkum og innan Blakks

midaskra kollsvikur

 Kortið sýnir nokkur mið á Kollsvík, en gerð er grein fyrir þeim hér á eftir.  Þysja má inn á kortið með því að hægrismella og opna í nýjum glugga.  Brúnlitað svæði merkir helstu lóðamiðin á Kollsvík en græneitu svæðin eru grásleppumið.

Mið á Kollsvík

Almennt.  Varðandi mið frammi á Kollsvík:  „Oftast var miðað á Kóp.  Þar voru margir dalir og var miðað við þá þegar þeir komu undan Blakk.  Dalirnir eru (talið utan frá): Skandadalur, Kálfadalur, Krossadalur, Stapadalur, Sellátradalur, Fagridalur, Laugardalur“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Á Hyrnunum nefnist það að vera í Blakknesröstinni, þannig að Hænuvíkurhyrnu beri við Láturdalshyrnu.  Þangað er iðulega róið til skakveiða, en ekki með línu.
Reki norður af Hyrnum eru eftirtalin viðmið notuð:

Ljósar Hyrnur, þegar verið er lítið eitt norður af Hyrnum.
Flöskuhlíðarhornið, þegar múlann milli Litla- og Mikladals á Geirseyri ber í Brellur.
Dýpra Sandnes, þegar Skersmúlinn kemur framundan Háanesi.
Grynnra Sandnes, þegar múlinn innan Kvígindisdals kemur framundan Háanesinu.
Sandlækur, þegar Sandgilið milli Blakks og Núps ber í Hryggina.
Opinn Flói þegar rekið er langt norður af Hyrnum og sér inn Patreksfjörð og Tálknafjörð.

Reki suður af Hyrnum er komið á:

Blindar Hyrnur, þegar fyrst hverfur Hænuvíkurhyrna og síðan Láturdalshyrna fyrir Blakk.
Opin víkin, þegar rekur enn lengra, svo sér heim Hryggi.  Þá taka við önnur mið á víkinni.

Þvermið er breytilegt, þegar farið er dýpra úteftir Hyrnum; eftir því hvað djúpt er verið:

Breiðavíkurver fyrir; þegar Breiðavíkurver sést fyrir Breiðstána
Breiðavíkurbærinn fyrir, þegar bæinn ber í Breið.
Sléttanes.  Ysta táin á skaganum norðan Arnafjarðar birtist framundan Kóp.
Dalsdalur
.  Dalsdalur fyrir Kóp; hann er norðan Arnarfjarðar; utan við Lokinhamradal.
Grynnri Skeggi
.  Skeggi er innra klettahorn Lokinhamradals á norðurströnd Arnarfjarðar.
Dýpri Skeggi
.  Dýpri Skeggi er annað heiti á Kaldbak; í botni Fossdals í Arnarfirði. 
Hvalbakur
.  Dýpsta mið eftir Hyrnum er Hvalbakur, sem er annað nafn á Álftamýrarheiði norðan Arnarfjarðar.  Hákarlamið. 

Um Tálknann er það nefnt þegar  Tálkna ber fyrir Blakk.  Þegar róið var norður og út á víkina, þannig að Tálknatáin birtist við Blakkinn raðast þessi mið til vesturs:

Tálkni og Klettakví  Tálkninn fyrir Blakk og (líklega) Klettakví undir Þúfustekk vel opin.
Á Tálkna og Trýnum.  Trýni; fremstu tána á Breið, ber í Hnífaflögu.  
Tálkni og Breiðavíkurbær  Tálkni fyrir Blakk og gamli Breiðavíkurbærinn fyrir Breið. 
Tálkni og Sandhóll.  Tálkni fyrir Blakk og Sandhóll í Breiðuvík fyrir Breið. Skötumið. 
Tálkni og Barðsbrekkur  Tálkni fyrir Blakk og Barðsbrekkur fyrir Bjarnarnúp. 
Hrútanef.  Hrútanef á Látrabjargi fyrir Bjarnanúp og Tálkni fyrir Blakk. 
Tálkni og Flyðruhnjótur  Tálkni fyrir Blakk og Flyðruhnjótur sést yfir Breið.

Um Krossann nefnist það þegar Krossadal ber fyrir Blakk.  Þar eru þessi þvermið:

Krossinn og Sandhóll  Krossi fyrir Blakk og Sandhóll í Breiðuvík fyrir Breið.
Krossinn og Breiðavíkurbær    Gamli Breiðavíkurbærinn fyrir Breið.  Nálægt Blettum.
Krossinn og Barðsbrekkur  Krossi fyrir Blakk og Barðsbrekkur fyrir Bjarnarnúp.  Nálægt Krossa og Sandhól.

Önnur norðurmið fyrir Blakk.  Þvermið þau sömu og að ofan:

Skandadalur; Skandatennur; Skandinn; Skandadalsaugað; Gilin; Krossinn; Norðari Krossi; Kálfadalur; Kálfinn og Kinnin; Fagradalsaugað; Laugardalsaugað

Bætur / Bótin.  Bætur eru víða í Útvíkum, og þá í tvennum skilningi.  Annarsvegar er átt við sandfláka á grunnslóð en í jöðrum þeirra eru gjarnan góð fiskimið, bæði fyrir færi og lóð.  Heitið er  einnig notað um krika eða voga við landið.  Þannig er Bót á norðanverðri Kollsvík og Vatnadalsbót er undan Vatnadal.  Í Kollsvík skiptir máli hvort heitið er í eintölu eða fleirtölu:  Að róa norður á Bótina er að róa grunnt norður- og framfyrir Kollsvíkurver.  Að róa fram á Bætur þýðir hinsvegar að róa út á lóðamiðin vestur af Kollsvíkurveri.

Haugar - Stekkar.  Tvö nöfn á sömu fiskimiðum.  Varða upp af Strengbergi í Hnífum nefnist Stekkavarða.  Miðað er við að hún beri milli Hauga í Haugabrún milli Hafnarlauta og Vatnadalsbotns.  Þarna er hraunbotn.  Stekkavarðan á Strengbergi er eina þekkta varðan í grennd Kollsvíkur sem sérstaklega virðist hafa verið hlaðin sem fiskimið.  (Grynnstasundsvarða á Blakknesi var innsiglingamerki).  Guðbjartur Össurarson lagfærði vörðuna (um 1990), sem þá hafði hrunið úr. 

Blettir.  Blettahjalli, sem er heiman Urðahryggs í Breiðnum, kemur framundan Hnífum, en Þórðarklett ber í Kollsvíkurbæ. Sandblettir.

Bæir / Bæjarhlein.  Kollvíkurbæinn gamla ber fyrir Hnífa en Breiðavíkurbærinn gamli vakir undan Breið.  Gjarnan látið reka norður sandinn og um Stekkana.

Kinnarhlein.  „Krossadalskinn og Trýni (Breiðs og Hnífaflögutrýni). Þvermið: Þórðarklettur í nyrstu gömlu bæjartóftina í Kollsvík“ (EÓ; minjaskráning með ankeri Helga Árnasonar sem aflagaðist er það festist í Kinnarhlein 1918). 

Yngra-Jóns mið.  Boði/mið út og suður af Djúpboða.  „Það er af Hákoni að segja að hann lagði lóðirnar suður af Yngra-Jónsmiði, en það er út og suður af Djúpboða í Kollsvík“  (Frásögn Guðbj.Guðbj. af upphafi lóðafiskirís í Kollsvíkurveri; EÓ skráði; Minjas.EÓ)

Bjarni Gíslason.  Mið á Vatnadalsbót; opinn Árdalurinn og vörðu í Kóngshæð ber í Árdalinn.  Nafnið er ekki gamalt; gárungar nefndu miðið í höfuðið á Bjarna Gíslasyni sem var um tíma á Látrum en síðar virtur fræðimaður, m.a. á sviði íslenskra handrita. „Þorskurinn var hausstór og einhver sagði að hann væri líkur Bjarna“ (IG). 

Flyðruhnjótur.  Kollsvíkurbær fyrir Hnífa og Flyðruhnjótur yfir Sandahlíð, sem er upp af Fjarðarhorni.  Flyðruhnjótur er hæsti hnjóturinn á Breiðnum utanverðum.  Sprökumið.

Lóðamiðin í Kollsvík.  Allmikill sandfláki fram undan Víkinni, Hnífunum og nokkuð suður fyrir Hnífaflögu, en þrengist nokkuð í syðri endann frá djúpi.  Framan við þaragarðinn, sem liggur í nokkuð beinni línu fyrir Víkinni og áfram suður eftir, en var jafnframt skemmra undan landi undan Hnífum og Hnífaflögu.  Þó er ekki allsstaðar hrein sandgljá framan við aðal-þaragarðinn, boðar og hleinar eru hér og þar, og þurftu formennirnir fyrrum að vita á þeim glögg deili og mið (KJK).

Lóðamiðin byrja þannig norðantil:  Djúpmið; Krossinn.  Þvermið; Þórðarklettur í gamla bæinn í Kollsvík.  Þar byrjar sandurinn og hægt að leggja 45 lóðir suður á Grjótholt í Fjarðarhorni; þá langstykkjaður Kópurinn (IG).   

Hrognkelsamið.  Í Kollsvík eru netalagnir á svæðinu undan Sandagili, Bótunum, og heim á Melsendakletta; best að leggja eins grunnt í þaragarðinn og hætt er vegna sjólags.  Varast þarf sandbletti því þar fyllast net af óþverra, jafnvel í sjóleysu.  Þarbeltið nær norður til móts við Straumsker, en varasamt er að fara langt út vegna straums og þaraburðar í honum. 

 

Siglingaleiðir í Kollsvík

siglingaleidir

Lægið í Kollsvíkurveri.   Fram undan Verinu er Lægið.  Þar lágu bátar ef bíða þurfti lags til landtöku; þegar seila þurfti út, eða meðan sjóferðabæn var beðin áður en haldið var í róður.  Lægið myndast af þremur boðum framundan.  Nyrstur þeirra er Bjarnarklakkur sem er framundan Verinu norðanverðu; þá er Miðklakkur og syðstur er Selkollur.  Hann er á hleinum  sem heita Selkollshleinar og eru fram af Syðriklettum.  Selkollur líkist kolli á sel þegar farið er yfir hleinarnar.  Sundið milli Bjarnarklakks annarsvegar og lands og Þórðarskerja hinsvegar heitir Grynnstasund (1).  Leiðin um það var miðuð við vörðu; Grynnstasundsvörðu á Blakknesinu og átti hún að fylgja klettabrúninni upp af Skekkingum.  Milli Bjarnarklakks og Miðklakks er Miðleið (2).  Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollsvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem var ein búðin á Norðariklettunum.  Í stað þessa miðs komu leiðarvörður sem Umf Vestri hlóð á fyrstu starfsárum sínum. 
Milli Miðklakks og Selkolls er Syðstaleið (3).  Er hún er farin ber Kollsvíkurbærinn í norðustu búðirnar. 
Bæði Þórðarsker og Selkollshleinar fara í kaf á flóði.  Öruggasta sundið inn á Lægið var Syðstaleiðin talin, hvort heldur brimaði af norðri eða vestri, en það eru brimaáttirnar.  Þegar Bjarnarklakkar rísa úr sjó og öldur brotna á Miðklakk er talin örugg lending í norðanátt, meðan fært er inn á Lægið.  En brim frá vestri á greiðari leið þarna inn um Syðstuleið, sem er alldjúp.

Snorralending.  Sunnan við Selkollshleinar og Verið er Snorralending (4).  Mið á hana eru tvær vörður ofan rifsins.  Snorralending var talin líflending, en varasöm vegna þess að brotið getur á hleinarkanti.

Láganúpslending.  Hún er niður undan Láganúpsbænum; norðan Grundatúns; milli Grundatanga og Langatanga.  Þar má á fjöru sjá tvær ruddar varir.  Ytri vörin (5) er eldri, en Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi ruddi yngri vörina (6) með sonum sínum, líklega eftir 1940.  Ekki er ljóst hvar lent var á tímum Láganúpsvers; það kann að hafa verið upp í Grjótin sunnan Grundatanga.

Djúpboði / Giljaboði /Þemba.  Djúpboði er beint út af Breiðaskersklakk en Giljaboði norðar, álíka langt frá landi.  Þessir tveir boðar koma aldrei upp úr, en brýtur á þeim ef slæmt er í sjó; fyrr þó á Djúpboða en Giljaboða“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Norðar eru Leiðarboðar.  Setið var á sjó þó að á þeim félli grunnbrot um fjöru.  Aftur á móti er ósætt á sjó þegar grunnbrot fellur á Giljaboða og Þembu, þá er ófær lending í Kollsvíkurveri.  Nokkrar fleiri hleinar eru á Kollsvík; t.d. Yngra-Jónsmið, Kinnarhlein, Blettir, Haugar, Stekkar og Bæjarhlein.  Fiskvænlegt þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum.  Þegar siglt er grunnt fyrir Kollsvík þarf að hafa Skandatennur í Kóp fyrir Blakk til að vera öruggur djúpmegin við Djúpboða (7). 

Grunnleið fyrir Blakk.  Fram af Syðstutrumbu í Blakknum er Blakknesboði.  Hann kemur aldrei uppúr.  Miðið í sundið milli Blakknesboða og lands er að halda Bræðragjám (8) þar til Tálkni kemur fram undan (9).

 

Önnur mið fyrir Útvíkum og í Patreksfirði

Látraröst er í daglegu tali nefnd Röstin.  Þar hafa löngum verið gjöful fiskimið, og m.a. reru Kollsvíkingar gjarnan „suður á Röst“.  Röstin nær langt til hafnorðurs og er mesta annesjaröst við Ísland.  Hún getur orðið illfær og hættuleg, jafnvel stórskipum, einkum ef saman fer stór straumur og mótvindur.  Til maks um góða steinbítsveiði á Röstinni er þessi vísa Guðfinns Björnssonar frá Litla-Galtardal:  „Renndum við á Röstinni/ rétt með vissum fjöllum./  Best er þar um bjargræði/ bítinn steins við köllum“.

Siglingaleið suður fyrir Bjargtanga.  „Þegar komið er siglandi vestan af fjörðum, eftir venjulegri skipaleið eða grynnra, og Skor kemur fram þá er óhætt að beygja fyrir Bjargtanga og láta horfa inn á Breiðafjörð.

Kúfiskamið.  Kúfiskur var mikilvægasta beitan í Kollsvíkurveri á síðari tímum útgerðar þar.  Kúfiskur var tíndur með höndum um stórstraumsfjöru í Skersbug í sérstökum ferðum, og var það nefnt að „fara í Bug“.  Einnig var kúfiskur plægður upp með sértökum aðferðum.  Voru notaðir við það tveir bátar; spilbátur og plógbátur og sérstakur kúfiskplógur.  „Það var allvíða sem kúfiskamið voru skammt undan landi, en aldrei féll útaf.  Voru hin helstu þau sem hér verða nefnd; Kúfisklegan undan Breiðavíkurrifi norðarlega.  Þar var plægður upp kúfiskur þegar ég man fyst eftir, en þótti erfið og ófengsæl beitutekja og lagðist þá niður.  Þá var lengst af plægð upp skel undan Tungurifi í Örlygshöfn.  Einnig framundan Vatnsdal og Kvígindisdal, einkum af heimabændum.  Plægt var einnig undan Hvalskeri, svo og undan Tálknahlíðum; innanvið Hliðardal“ (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskimið á Hvallátrum:  „Aðallega voru stundaðar handfæraveiðar frá Látrum, en lítið var verið með lóðir.  Fiskimið voru mest og best kringum Látraröst ef gott var veður.  Steinbítsmið voru rétt fyrir innan Bjargtangana.  Miðað var við Hrólfsvirki (á Sandsheiði), en ekki farið svo langt fyrr en seinni part vetrar.  Hákarlamið var þó fyrr en Hrólfsvirki, en man ekki við hvað það var miðað.  Róið var suður á Bætur, rétt fyrir sunnan Bjargtanga.  Skorin sást þá fyrir framan Barðið.  Bótasteinbítur var talinn stór og feitur.  Mið var nefnt „Á Giljum“; að norðanverðu var miðið í Flosagjáí Breiðuvík og þegar Barðsbrekkur komu undan Brunnanúp.  Róið var út af víkunum og suður á Breiðafjörð eftir að mótorbátar komu“  „Gat (í Bjarnanúpnum) var notað sem fiskimið sunnan við Látraröst“.  (DE; Örn.skrá Hvallátra).

Tálkni og Jafnir Tangar. „Þegar rekið hafði um tíma sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst; líklega á Tálkna og Jafna Tanga“  (ÖG; Fiskiróður).

Hjallblettur.  Djúpmið; högg á Skandanum.  Þvermið; Tröllhóll í hjall á Flötinni.  (Blöð I.G.) (Hlýtur að vera mið undan Hvallátrum, þar sem ekki er Tröllhóll í Kollsvík.  VÖ).

 

Fiskimið innan Blakks:   „Grásleppu- og rauðmagamið eru á þarasvæðum með allri ströndinni; nær frá Kofuhleinum yst; innundir Gjögra; einnig frammi á Flóanum yst og sumsstaðar inn marbakkann.  Kollsvíkingar lögðu á þessi mið er þeir reru í nokkur ár frá Hænuvík frá því um 1970, og síðar frá Gjögrum.  Helstu lagnir næst landi eru; talið utanfrá; Kofuhleinar; Bænagjóta; Klauf; Láturdalur; Bás; Magnúsarhelmur; Grenshjalli; Forvaði; Kálhelmur; Selsker; Bakkar; Hestlækur; Vörin; Klakkur; Gildrubót.  Eru þá upp taldar lagnir næst fjöru undan Hænuvíkurlandi.  Fjær landi er þaragarður á marbakkanum undar sömu miðum.  Innst var í Hænuvíkurlandi lagt á ljósum Hnjót, en yst á Láturdal, séu frátalin mið miklu lengra úti, sem „Ólarnir“ fundu og nýttu.  Undan Sellatranesslandi áttu heimamenn lagnir undan lendingunni en aðrir lögðu stundum undir Háanesinu.  Innar voru lagnir undan Tungulandi framundan Urðavellinum og alla leið inn á Læki, utanvert við Grímssonatanga á Gjögrum.  Ég stundaði þarna hrognkelsaveiðar, fyrst með pabba og Inga, síðar gerðum við pabbi út saman og í nokkur ár veiddi ég þar á bátum Guðna í Breiðuvík“ (VÖ).

Miðunarsteinn er steinn í brúninni í Hænuvíkurhyrnu, neðst á Litladal.  Þegar hann kemur framundan er óhætt að beygja fyrir Selskerið inn á Hænuvíkina.  Selskerið er alltaf í kafi um flæði“. (SbG ofl; Örn.skrá Hænuvíkur).

Hóllinn í Flóanum:  Miðað er eftir Hlíðardalsmúla, og er Hóllinn 3,7 mílur undan Tálkna; ca 4 mílur í Blakk.

Eftirfarandi miðaskrá er tekin saman af Sigurjóni Bjarnasyni frá Hænuvík.  Heimildarmenn eru Kristinn Ólafsson Hænuvík og Ólafur Sveinsson Sellátranesi, ásamt Örnefnaskrá Hænuvíkur:

Hyrnurnar (langmið í Sellátraneslandi).  Þegar Hænuvíkurnúpur og Innri Hyrnan koma framundan Gjögrafjalli.

Blakkur (langmið í Sellátraneslandi).  Blakkurinn kemur framundan Hænuvíkurhyrnu.

Láturdalshyrna (langmið í Sellátraneslandi.  Láturdalshyrnan kemur framundan Innri Hyrnunni.

Kolla.  Dýpi fram af Nesboða, sem er grynning fram af bænum á Sellátranesi.  Mið: Magnúsarhelmur í jaðar á Láturdalshyrnu.  Sellátrabær fyrir Tálkna.  Fyrr var miðað við þegar klettum í Hafnarmúla sleppir við Kálfadal í Örlygshöfn.

Hæðin.  Fram af Hænuvík.  Hnútan uppaf Urðavallardal kemur framundan innri brúninni og Hádegishæð framundan Hænuvíkurnúp.  Í botni er sandblettur.

Miðaftanshögg.  Utanvið Hænuvík.  Miðaftanshögg (lágur hjalli í Stórhæð) ber í Rauðkunef og Desið (þúst) í Hafnarmúlanum kemur framundan Gjögrafjallinu.

Kóngshæðarhögg.  Lága klettabrún í Kóngshæð ber í Rauðkunef.  Sama djúpmið og í Miðaftanshöggi.

Hnjóturinn.  Stórahnjót ber í Rauðkunef.  Sama djúpmið og á tveim hinum fyrri.  Nokkuð misdýpi í botni.

Ýsugil.  Ýsugil (utan við Stórahnjót) ber í Rauðkunef.  Þvermið.

Helmsmið.  Magnúsarhelm ber í stóran stein í hlíðinni uppaf honum.  Sama djúpmið og hér á undan.

Heiðaröxl.  Undan Láturdal.  Heiðaröxlin í Krossadal (í Tálknafirði) kemur framundan Krossanum.  Djúpmið: „Flöskuhlíð“.  Þá sér eftir Mikladalshlíðinni fyrir framan Geirseyri og ber hana í snjóskafl fremst í Mikladal.

Barðshóll.  Barði fyrir Kóp.  Bæir í Hænuvík (Fremri bærinn) framundan Leitinu.  Hóll í botni.

Fimmhundraðahæð.  Fram af Láturdal.  Fimmhundraðahæðin kemrur framundan Láturdalshyrnu.  Djúpmið: Hafnarmúlinn framundan Hyrnunum.  Þar áttu að fást fimm hundruð fiskar þegar rennt var og fiskur var í göngu.

Hafnarmúli.  Múlinn kemur framundan Hyrnunum.

Núpar.  Brunnanúpur og Bjarnanúpur koma framundan Blakk.  Núpar eru svæðið þar fyrir utan; allt norður á Hafnarmúla, eða jafnvel norðar.

Sandnes.  Skersmúli og Sandmúli koma í ljós inni í firði.  Háanes ber í Skersmúla.

Kerling.  Næst innanvið Kattarholu eru tveir drangar; Karl og Kerling.  Það er mið af sjó þegar drangana ber saman.  Djúpmið: Háanes í Skápadal um Sandnes.  Sandhólar í sandbotni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leita