Ari Ívarsson frá Melanesi er manna fróðastur um vélvæðingu og vegagerð í Rauðasandshreppi.  Hér er gluggað í skrif hans, m.a. frásögn í Árbók Barðastrandasýslu 2012.

ari ivarssonAri Ívarsson er fæddur 21.07.1931 og uppalinn á Melanesi á Rauðasandi.  Hann hefur stundað hin ýmsu störf, en lengst af var hann ýtustjóri, vegaverkstjóri og verkstjóri í sláturhúsi.  Einnig hefur Ari stundað ýmsa fræðimennsku, einkum varðandi byggð á Rauðasandi og í Rauðasandshreppi.  Hann hefur skrifað ýmsar greinar um þau efni, og árið 2013 kom út bók eftir hann; „Sveitin vestur lengst í sjá“; sem er safn mannlífsþátta frá Rauðasandi.  Í Árbók Barðastrandasýslu 2012 birtist samantekt Ara; Vélvæðing í Rauðasandshreppi og nábrenni.  Í því sem hér fer á eftir eru teknir upp nokkrir kaflar úr þeirri samantekt, og þá einkum horft til fyrstu vélvæðingar í Rauðasandshreppi en sleppt mörgu því sem viðkemur öðrum byggðum eða t.d. vegagerð almennt á svæðinu, sem Ari er þaulkunnugur.  Skáletruð innskot eru frá Valdimar Össurarsyni, sem einnig ber ábyrgð á styttingu frásagnarinnar.

Þegar litið er til fyrsta tugar tuttugustu aldar má segja að Rauðsendingar hafi ekki þekkt hjólið nema af afspurn.  Sennilega hafa þó einhversstaðar verið til hjólbörur, og rokkar voru til á hverjum bæ.  Sláttuvél kom að Saurbæ 1908 en var skilað aftir sakir þess að greiða hennar var gerð fyrir grófara gras en hér óx, þrátt fyrir það að störin á Bæjaráveitunum var nú ekki talin til þeirra grasa sem fíngerðust voru.  Hestakerrur koma ekki fyrr en á öðrum áratugnum en verða ekki almennar fyrr en á þeim fjórða.  …

Árabátaflotinn vélvæddur

Vélvæðing báta hér um slóðir hefst ekki mikið seinna en á Ísafirði 1904.  Það er Pétur A. Ólafsson útgerðar- og kaupmaður sem hefur forgöngu um þau mál á Patreksfirði.  Hann fær umboð fyrir DAN bátavélar og seldi mikinn fjölda þeirra.  Og það snemma er hann á ferðinni að hann fær vélamann frá Danmörku til að annast viðhald vélanna.  Þessi maður, Jens Andersen (faðir Karls á Arnórsstöðum), var einnig bátasmiður.  Pétur er búinn árið 1907 að setja á fót bátasmíðastöð fyrir þennan mann sem aðalsmið og þar eru smíðaðir 25 til 30 bátar, 4 til 6 rúmlesta, næstu árin (Skútuöldin; Gils Guðmundsson).  Eitthvað er nú málum blandið við þessa frásögn.  Þessir bátar sem Gils segir frá hafa ekki sótt sjóinn frá Patreksfirði eða nágrenni; e.t.v. seldir burtu, því það er staðreynd að í nágrannasveitunum hefst vélvæðing bátanna minnsta kosti tíu árum síðar. 

Vélvæðing báta í Rauðasandshreppi hefst 1915.  Þá er báturinn Hrefna smíðuð þar af eiganda sínum; Jóni Guðjónssyni (Silfur-Jón) í Breiðavík, og smiðnum Árna Arentssyni frá Höfðadal.  Hrefna var síðar um langan tíma í eigu Látramanna.  Í Hrefnu var sett KIEL vél; 3,5 hestöfl.  Báturinn Tjaldur sem einnig var í Breiðavík var einnig vélvæddur þetta vor.  Hann var í eigu bræðranna Haraldar og Guðmundar Ólafssona, sem síðar fórust í sjóslysi við Vestmannaeyjar.  Sett var sama vélarstegund og stærð  og í Hrefnu.  (Sbr grein eftir JG).  Jón segir einnig frá því að skömmu síðar er einnig sett vél í bátinn Kóp frá Látrum. 

Víknamenn tóku vel við sér með þessa nauðsynlegu nýjung, og má sjá í pappírum frá Rauðasandshreppi að einir sex eigendur báta bjóða í flutninga í Rauðasandshrepp árið 1921; allir úr Rauðasandshreppi.  Það er fróðlegt að líta yfir listann og skoða stærð bátanna og vélanna.  Sennilega hafa fleiri vélbátar verið komnir í Rauðasandshrepp en þessir hafa sennilega verið stærstir.  Bátur nr 1 er 4 tonn og 6 hestöfl; nr 2 er 2tn og 2,5hö; nr 3 er 2,5tn og 2,5hö; nr 4 er 3,5tn og 6hö; nr 5 er 2tn og 2,5hö, og nr 6 er 1,5tn og 2,5hö.  Þessi árin er veittur styrkur á svona flutninga og þess vegna hefur þetta varðveist.  Bátar voru síðar notaðir til allra flutninga í Víkur og á vesturströnd Patreksfjarðar, þar til vegir og síðar bílar leystu þá af hólmi á fimmta og sjötta áratug 20.aldarinnar.  Báturinn sem er nr 1 eða 4 gæti hafa verið út Kollsvík.  Hann var flutningaskip þeirra og stærri en gerðist, og bar nafnið Fönix.  Hann var með Ford bílvél, sem síðast var að velkjast í fjörunni á Hvalskeri.

(Kristján Júlíus Kristjánsson segir eftirfarandi í ritgerð sinni um Kollsvíkurver:  „Um 1920 var síðari Fönix, 3ja lesta vélbátur, keyptur.  Var hann smíðaður fyrir Kollsvíkinga af Gísla Jóhannssyni skipasmið á Bíldudal.  Var bátur þessi nær eingöngu notaður til flutninga, þar til útgerð dróst svo mjög saman úr Kollsvíkurveri uppúr 1930, ásamt því að fólk fluttist þaðan burt.  Þá var báturinn seldur til Patreksfjarðar; tveim Kollsvíkingum, sem áður höfu verið, þeim Guðmundi Gestarsyni og Andrési Karlssyni“).

Fyrstu bílarnir

Fyrsti bíllinn sem ég veit um hér í sýslu var í Breiðuvík, þó einkennilegt megi virðast.  Hann mun hafa komið þar 1926.  Þannig stóð á að þáverandi sýslumaður Einar Jónasson hafði keypt á jörð og hóf þar búskap með miklum myndarbrag.  Byggði hann íbúðarhús sem nú er hluti af hinum miklu byggingum sem þar eru.  Einnig voru í hans tíð byggð mikil fjárhús.  Flutti hann á staðinn Ford vörubíl af T gerð; ¾ eða 1 tonn.  Var hann notaður til aðdrátta á byggingarefnum frá sjónum, svo sem sandi, möl og því sem flutt var sjóleiðina.  En ekki var neinn vegur til Breiðuvíkur og bíllinn var fluttur þangað á báti.  Jens Árnason var bílstjóri á honum.  Fljótlega eftir þetta varð Einar uppvís að fjárdrætti frá sjóðum sýslunnar og var allt af honum tekið.  Þannig komst Breiðavík í eigu ríkisins.  Bílinn keypti Jens Árnason og var hann á Patreksfirði um tíma, eða meðan Jens átti þar heima.

Á Rauðasandi gerðist það árið 1934, þegar bílfært varð yfir Skersfjall, að Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni kaupir nýjan Ford A vörubíl.  Það var þó aðeins grindin með öllum vélbúnaði og húddi, ásamt frambrettum.  Þá komu þessir bílar oftast þannig búnir og gert ráð fyrir að smíða hús og vörupall heima.  Ætluðu Lambvetningar einnig að hafa sama hátt á, enda hæg heimatökin með smíði á báðum bæjum.  Eftir að bilgrindin hafði verið flutt á bát að Hvalskeri ók Jens Árnason bílnum vestur og sat við það á trékassa. 

Bíllinn, sem mun hafa verið með 1 til 1 ½ tonn burðargetu, var talinn of stór í hinar kröppu beygjur í Bjarngötudal.  Var hann því seldur Vatneyrarfyrirtækinu eftir hálfan mánuð og var honum þá ekið aftur yfi Skersfjall og fluttur á Patreksfjörð.  Þessi bíll hlaut skráningarnúmerið B 4 og varð hinn mesti happabíll hjá Vatneyringum, sem áttu hann alla þá tíð sem hann var við lýði.  Var hann fyrsti bíll þess fyrirtækis. 

Næsti bíll Rauðsendinga var svo T módelið af Ford; sennilega ¾ tonn, sem keyptur var af Kristjáni Sigurðssyni á Bíldudal.  Var sá bíll annar í röðinni sem kom á Bíldudal.  Þessi bíll var með skrásetningarnúmerið B 3.  Haustið 1934 er hann í förum yfir Skersfjall og flutti sláturvörur, ásamt fóðurbæti og fleiri vörum til vetrarins, heim til Rauðsendinga.  Var hann þá undir stjórn fyrri eiganda, Kristjáns, og gekk sá flutningur nokkuð vel.  Eftir það vantaði Rauðsendinga bílstjóra og eigendur bílsins, sem voru nokkrir þarna úr sveitinni, fengu Þórð Halldórsson á Mábergi til að fara suður til Reykjavíkur að taka bifreiðapróf. 

En ekki gekk bíldruslan vel undir Þórði; enda kannske ekki við að búast.  Þórður hafði aldrei umgengist neitt sem hét vél og gat ekki sótt neina ráðgjöf, því enginn var fær um að aðstoða við slíkt þar í sveit.  Man ég að Ívari á Melanesi hrutu ljót orð af munni þegar hann tók sér eitt sinn far með tómum bílnum að Skeri.  Hann var með einn kartöflupoka í farteski sínu og varð að bera hann langleiðina upp Dalinn, sakir kraftleysis bifreiðarinnar.  Varð því bíllinn til lítilla nota og var lagt fljótlega. Rauðsendingar höfðu þó ætlað honum notalegan stað til geymslu á vetrum.  Byggðu þeir bílskúr undir Bjarngötudalnum, sem enn má sjá.  Þar má einnig líta grind þessa bíls sem bar þarna „beinin“. 

Næsti bíll sem kemur á þennan veg er einnig Ford; en stærri; A módelið.  Var hann B 27.  Þá eru liðin 10 ár síðan T módelið dó þar drottni sínum  Sá bíll mun hafa verið skráður 1 ½ tonn að burðargetu.  Þá hafði Jón Jónsson (Jón á öllum fjörðum) sem uppalinn var að hluta í Saurbæ, keypt þá jörð og rak þar í eitt ár „búskap“ sem byggðist á því að heyja og selja heyið í burtu.  Var þessi bíll notaður til heyflutninganna að Hvalskeri, undir stjórn Þorláks Guðmundssonar frá Seljabrekku í Mosfellssveit.  Var þessi bíll sá fyrsti sem kom Rauðsendingum að notum.  Ekki síst eftir að Þórir Stefánsson á Hvalskeri eignaðist hann, og átti lengi.  …

Næst ber að nefna þegar Halldór Júlíusson fær sér Willysjeppa, eftir að hann flytur að Saurbæ.  Jeppinn mun hafa komið til hans 1947.  Sama árið hefur Sigurvin Einarsson framkvæmdir í Saurbæ og byggir mikil útihús á næstu árum.  Kom hann með kanadískan Chevrolet; herbíl sem þekktir voru undir steinbítshausnafninu.  Báðum þessum bílum var skipað upp á Hvalskeri úr Ríkisskip, og voru notaðir tveir trillubátar til þess, en þar var ekki bryggja sem skip komst uppað.

Það er þó 1946 sem fyrsti Willysjeppinn kemur í Rauðasandshrepp.  Eigandi hans var Magnús Ólafsson í Vesturbotni, en skráður var bíllinn á bróður hans, Ásbjörn sem þá var bóndi í Skápadal.  Var það vegna þess að ekki var frjáls innflutningur á þessum bílum, en bændur fengu það sem kom af þeim eftir úthlutun jeppanefndar.  Þessi jeppi var með skiptingu í stýri.  Það mun hafa verið svo, fyrsta árið sem Willysjepparnir voru fluttir inn.  Þessi bíll fékk númerið B 46. 

Þá er þess að geta að Agnar Sigurbjörnsson í Hænuvík fær sér notaðan Chevrolet vörubíl nokkru seinna, eða þegar vegur opnast þangað.  Var það notaður bíll og var þar við lýði um tíma.  Landrover bíll kom að Lambavatni 1951 og var sá fyrsti hér á svæðinu af þeirri tegund.  Landroverinn átti eftir að verða vinsæll um áratuga skeið.  Einnig kom Willysjeppi að Hnjóti. …

(Bílvegur kom ekki að Kollsvík fyrr en 1953, og var ekki kláraður yfir víkina fyrr en eftir 1960.  Ýmsir bíleigendur hlupu undir bagga fyrstu árin, þegar flutninga var þörf; s.s. Árni Helgason í Tungu og Jón Hákonarson á Hnjóti.  Fyrsti bíll í eigu bræðranna Össurs og Ingvars Guðbjartssona í Kollsvík var Willysjeppinn „Sigga dýra“ sem þeir keyptu 1963 (?).  Ingvar hafði áður unnið við akstur strætisvagna í Reykjavík, en Össur hafði lokið bílprófi á Hvanneyri.  Þegar bræðurnir hófu mjólkursölu fengu þeir sér Rússajeppa með blæjum,en fengu Bjarna Sigurbjörnsson í Hænuvík til að smiða yfir hann vandað hús nokkrum árum síðar.  -VÖ-)

Dráttarvélar

Fyrsta dráttarvélin sem kom í Vestur Barðastrandasýslu var Fordson traktor sem Búnaðarfélag Barðastrandar keypti, ásamt Búnaðarfélagi Múlasveitar.  Var hún eingöngu ætluð til jarðræktar.  Væntanlega hefur plógur og herfi fylgt henni.  Mér sýnist að hún hafi komið skömmu fyrir 1930. …  Löngu eftir að henni hafði verið lagt á Barðaströnd var hún keypt að Hvalskeri.

Sú næsta er International Harvester W-4, sem flestir Rauðsendingar stóðu að, og ráku um árabil.  Einnig voru menn handan af Patreksfirði eigendur að henni.  …  Hinn 29.ágúst 1943 er vélin komin til Patreksfjarðar ásamt plóg og herfi, og kostaði 12.644 krónur og 59 aura. … Ef ég man rétt var dráttarvélin sett saman á Hvalskeri, og hefur kostað nokkuð erfiði að koma kassanum sem vélin var í; hjólalaus, undan sjó. …

Magnús Ólafsson frá Botni var sá fyrsti sem vann með vélinni, og er mér minnisstætt þegar ég sá vélina fyrst við vinnu undir stjórn hans.  Það var á Mábergi; hausttíma í blautu veðurfari.  Vélin var á járnhjólum með stórum göddum á afturhjólum, en járnkambi á framhjólum sem minnkaði eða stöðvaði hliðarskrið að framan.  Var Magnús að herfa svæði neðan hússins, en þá var æði rakt land þar.  Nú var ástandið hjá Magnúsi þannig að mjög hlóðst í gadda afturhjólanna, og hafði sýnilega gert áður, því Magnús var búinn að smíða sér áhald til að hreinsa afturhjólin.  Var það meterslangur oddhvass járnteinn með handfangi þvert að aftan.  Hamaðist hann nú við að halda hjólunum sæmilega hreinum, en eftir nokkra hringi hjólanna var ástandið orðið jafnslæmt.  Mátti því segja að vergur tími væri í smærra lagi, en þrjóska og þrautseigja Magnúsar var jafnvel þá orðin þekkt.  Þetta hefur eflaust verið fyrsta vélknúna vinnutækið sem Magnús stjórnaði, utan trillu sem hann átti, en tveim eða þrem árum síðar byrjaði hann á ýtustjórn, sem átti eftir að gera hann kunnan víðs vegar.

Síðar unnu á þessari vél til dæmis Gunnar Gíslason frá Hvammi á Barðaströnd; Þórir Stefánsson á Hvalskeri; Svavar Guðbjartsson á Lambavatni og undirritaður var einhverntíma að gugta við hana; en frekar var það lítið.  Þórir var einn af þeim sem sótti dráttarvélanámskeið að Hvanneyri.  Annar úr Rauðasandshreppi sótti einnig dráttarvélanámskeið að Hvanneyri og var fyrir tilvonandi ýtumenn.  Það var Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík.

Allnokkur árangur varð af vinnu þessarar vélar.  Fyrst og fremst var það á þýfinu í gömlu túnunum, en framræslu skorti víðast hvar til að geta aukið ræktunina.  Þar var þó við ramman reip að draga, því vegir voru með þeim hætti að ekki var mögulegt að flytja skurðgröfur um svæðið.  Þessari vél var lítill sómi sýndur undir lokin, og segja mátti að hún drabbaðist niður.  Síðast var hún notuð 1959.  Leifar hennar eru á Hvalskeri. …

Fyrstu heimilisdráttarvélar í Rauðasandshreppi hafa sennilega komið sama árið að Kollsvík og Hvallátrum. Mætti þar giska á 1946.  (Samningur um „Jarðræktarverkefni Kollsvíkinga“ vegna kaupa á þessari dráttarvél er dagsettur 27.desember 1945, svo þetta lætur nærri).  Þar var um að ræða Farmall A.  Báðir voru þeir fluttir á bátum til síns heima, því ekki voru vegir fyrir hendi.  Sennilega hefur ekki þurft að nota „tveggja trillu aðferðina“ því Farmallinn kom víst sundurtekinn í kössum og var raunar ekki þungur þó búið væri að setja hann saman.  (Bjarni Sigurbjörnsson flutti Farmalinn í Kollsvík á trillu sinni, og var kassanum rennt á sliskjum af síðu bátsins upp í sandinn).  Á báðum þessum stöðum voru nokkrir bændur sem áttu þessar vélar saman; en þó ekki allir.

Næst var það Massey Harris sem kom að Saurbæ.  Sennilega hefur það verið 1948.  Þetta var nokkuð stór vél og þægileg.  Til dæmis var efsti gír hennar það hár að í Eyjafirði voru þessar vélar þekktar fyrir það að taka framúr Dalvíkurrútunni!  Allis Chalmers kom að Stökkum um þetta leyti.  Síðan eru Fergusynirnir sem komu að Króki úr fyrstu (?) sendingunni vorið 1949, og annar eign þriggja bænda í Örlygshöfn skömmu síðar.

Það sýnir glöggt fjárhagsgetu bænda hversu algengt var að fleiri en einn bóndi ætti hverja vél.  Eins má benda á að næsta bylgja traktoranna er yfirleitt Farmall Cub.  Eingöngu vegna verðsins, því víðast voru þeir of litlir, þó svo verulega munaði um þá, og voru víða notaðir til margra ára.

Nú fór einnig að bera á pólitíkinni í dráttarvélakaupunum.  Það var verulega erfitt fyrir sjálfstæðismann að kaupa þessar vélar af S.Í.S eða dótturfélagi þess, Dráttarvélum hf.  Fór samt vart á milli mála að Farmall og Ferguson stóðu öðrum á sporði að gæðum.  Því sátu framsóknarmenn sólarmegin að þessu leyti; vitandi að SÍS flutti inn langbestu dráttarvélarnar.

Reyndu sjálfstæðismenn að nota aðrar tegundir og kom þá eitthvað af Deutz vélum sem voru með eins sýlinders dísilvél þá í stað Farmals Cuc og fleiri voru einnig í gangi; s.s. Ford og Massey Harris sem báðar voru góðar vélar en af einhverjum ástæðum urðu ekki mjög útbreiddar hér.  Svo var ein ólík öðrum; Lans Alldog. 

Sumir reyndu að létta sér sláttinn með garðtraktorum og komu fyrst tveir í Rauðasandshrepp, að Hvalskeri og Efra Lambavatni.  Þessi tæki hétu Rotortiller og voru með ábyggðan tætara að aftan en sláttuvélagreiðu þvert fyrir miðju að framan.  Eitt tæki af svipaðri gerð mun hafa komið að Hlaðseyri og sennilega einnig að Sauðlauksdal til Gríms prests Grímssonar.  Ganga varð með tækinu og stjórna því þannig.  Var hægt að stilla sköft stjórntækjanna á hvora hlið sem var, og beint aftur.  Komu þessi tæki að talsverðum notum við slátt, og ekki síður við garðrækt sem þá var enn stunduð af krafti; aðallega þó til heimaneyslu.  Vart var sá bær sem ekki ræktaði kartöflur og rófur til heimaneyslu, en það átti eftir að breytast.

Á seinni hluta fimmta áratugarins er verið að grafa út Vatneyrarvatn og gera núverandi Patrekshöfn.  Var það mikið verk og skorti tækjabúnað til þessara miklu framkvæmda.  Hafnarsjóður gerði þá einhverskonar pakkakaup við herinn …  Voru keyptir nokkrir vörubílar af gerðinni GMC með aldrifi og einnig Diamond trukkar sem voru sýnu stærri og öflugri.  …  En þessum pakka fylgdu svokallaðir Dentorar, sem voru af Fordson gerð, og voru raunar ekkert annað en stórar vélknúnar steypuhjólbörur..  Þetta var Fordson traktor sem sneri öfugt, og var stýrt á litlum afturhjólum, en stærri hjólin, sem í þessu tilfelli voru að framan, báru uppi mikla skúffu sem hægt var að sturta úr með einu handtaki frá sæti vélarinnar.  Einn þessara Dentora kom að Hvalskeri og annar, að mig minnir, að Stökkum.  Annarhvor þeirra var síðan seldur að Botni í Tálknafirði, ef ég man rétt.  Þetta voru tæki sem notuðust lítið af mörgum ástæðum.  Þau voru, sakir hæðarinnar, stórhættuleg ef hlass var komið á þau, og erfitt var að sjá „fótum sínum forráð“ þegar þurfti að horfa gegnum hlassið ef háfermi var sett í skúffuna.  Pétur Stefánsson á Hvalskeri keypti þá Fordson traktorinn af Barðstrendingum og byggði upp úr honum og leifum af Dentor eitthvað sem líktist dráttarvél.  Mun sá bastarður hafa borið beinin suður í Hraungerðishreppi; fór þangað með Einari Þórðarsyni úr Skápadal. … 

Flestir sem eignuðust dráttarvélar höfðu ekki haft neinskonar vélar undir höndum.  Minnist ég þá sögunnar af bóndanum sem ekki kom Fergusyni sínum í gang.  Gekk svo lengi að vélarfjandinn tók ekki eitt einasta púst.  „Þá sá ég hvað var að“, sagði bóndinn mér; „eitt hjólið var loftlítið.  Ég dældi í það og sá grái rauk í gang“!  … Ég man vel að sjá roskna bændur ríghalda um „rattið“ og leggja sig fram um að ná árangri við stjórnina.  Einnig að sjá ánægjuna sem lýsti af þeim þegar vel tókst til… 

Enn var sumsstaðar langur tími í bílana og urðu traktorar víða samgöngutæki sem ferðast var á; stundum svo tugum kílómetra skipti.  Man ég vel þegar fólk úr Kollsvík kom á þorrablót í Örlygshöfn á Farmalnum.  Tjaldað hafði verið yfir kerru sem var aftan í dráttarvélinni og í henni sátu allir farþegarnir.  Einnig man ég þegar Jóhannes í Gröf flutti líkkistu ömmu sinnar að Sauðlauksdal; einn saman, með kerru aftan í Fergusyninum. …

Skurðgröftur

Það var 1953 að fyrsta skurðgrafan kom í Vestur-Barðastrandasýslu.  Veruleg þörf var á slíku tæki, en það hafði ekki verið talið mögulegt að gera tilraun til slíks fyrr, vegna þess að bílvegir til flutninga á slíkum vekfærum voru ekki til fyrr en þetta.  Bændur, sérstaklega á Rauðasandi, höfðu þó verið vakandi fyrir skurðgreftri, því án hans var ekki neitt land sem hét til ræktunar.  Samþykkti Búnaðarfélagið Örlygur áskorun til Búnaðarfélags Íslands hinn 14.03.1947 um að láta mæla út skurði. … Sex árum síðar er svo Sigurvin Einarsson farinn að búa í Saurbæ, og það er hann sem rekur endahnútinn á þessar áskoranir til Búnaðarfélags Íslands sem verða til þess að Vélasjóður sendi Priestman Cub til vinnu á Rauðasandi vorið 1953.  Priestmaninn vann þrjú sumur í Rauðasandshreppi og fór síðan á Tálknafjörð og Arnarfjörð.  Priestman Wolf grafa kom á Barðaströnd vorið 1956.  Síðar fóru gröfur Vélasjóðs aðrar umferðir um svæðið, en síðan hafa verið að verki gröfur einkaframtaksins.  Nú er samt langt síðan að frést hefur af skurðgreftri, enda búskapur á hröðu undanhaldi svo ræktunar er ekki lengur þörf.

Jarðýturnar

Fyrsta jarðýtan sem kom hér á svæðið var International TD9 sem Vegagerðin átti.  Það var árið 1946.  Kom hún með skipi á Patreksfjörð.  Vegasambandi var þann veg háttað að verið var að vinna í Skarðsbrekkunni á Kleifaheiði; auðvitað með hakanum og skóflunni, en þar hóf ýtan störf.  Henni fylgdi maður frá Vegagerðinni sem hét Sigurður, og hafði viðurnefnið 100%.  Gamansaga er af því þegar verið var að setja tönnina á ýtuna við Patrekshöfn.  Þá lenti hún ofan á fæti vegaverkstjórans, Kristleifs Jónssonar og missti hann aðra stóru tána.  Sigurður huggaði Kristleif og sagði; „vertu kátur Leifi; það eru hundrað prósent líkur fyrir því að hún vaxi aftur“!

Árið eftir er svo þessi ýta við vinnu á Kleifaheiði og Skápadalshlíð.  Það ár kemur svo vélskófla frá Vegagerðinni á svæðið.  Var það beltavél af tegundinni TD6, með skóflu að framan.  Varð að bakka henni frá stálinu og þá bakkaði bíllinn undir hana.  Sennilega hefur það verið sama árið að Chevrolet herbíll með frámokstursbúnaði kom á vegum Vegagerðarinnar á Barðaströnd.

Skömmu síðar kom svo önnur TD6 með skóflu á Barðaströnd.  Var hún öllu betur búin en hin fyrri.  Til skamms tíma hefur sú vél verið gangfær, og er varðveitt við Áhaldahús Vegagerðarinnar á Selfossi.

1949 skiptir Vegagerðin svo á TD9 í aðra af tveim stærstu jarðýtum sínum; þá nýjum, TD18.  Var hún hér þar til haustið 1954 að hún var tekin af svæðinu; enda þá margt búið að ske í ýtumálum.  Var Sigurður Sigurðarson á Patreksfirði að mestu með þessa vél, en Magnús í Botni og fleiri með TD9.  TD18 var alvöru jarðýta og vann fyrst og fremst að vegagerð.  Hún var á Skersfjalli 1949 þegar gamli handlagði vegurinn frá 1933 var endurnýjaður.  Einnig ruddi hún slóða yfir Hálfdán, sem síðar varð að vegi sem var notaður þar framyfir 1960, að farið var að endurbyggja veg þar.  TD18 var einnig í stórátakinu á Hafnarfjalli 1954, þegar lagður var vegur frá Hafnarmúla alla leið í Breiðuvík, vegna fjárframlags sem sett var í vegi í Rauðasandshreppi í sambandi við björgunina af Dhoon við Látrabjarg 1947.  Til er saga af ýtustjóra einum sem vann á TD9 og sagðist geta afkastað því sama og þessi risi, TD18.  Ekki þyrfti annað en fara tvær ferðir meðan hún færi eina; eða vissu menn ekki að 2 sinnum 9 væri 18!  Þessi vél var með tvískiptu heddi og hafði þar af leiðandi tvö púströr sem vísuðu til himins.

Sýsluýtan Ásaþór.  Vestur Barðastrandasýsla kaupir TD14 ýtu árið 1949.  Var sýslunefndin þar að verki, og flestir vissu að sýslumaðurinn Jóhann Skaftason var þar mestur áhrifamaður.  Hann flutti til Húsavíkur árið 1956.  Var hann fenginn til að gera grein fyrir störfum sínum þau 21 ár sem hann sat í embætti hér.  Birtist það í Árbók Barðastrandasýslu, og þar segir m.a. svo:

  „Vestursýslan keypti stóra vegýtu vorið 1949.  Hefur hún síðan stöðugt unnið að vegagerð í héraðinu og orðið að miklu liði.  Á árinu 1951 náði ég samkomulagi við vegamálastjóra um það að sýsluýtan ryddi Þingmannaheiði á kostnað fjallvegasjóðs.  Ruddi hún bílfæran veg yfir heiðina á nokkrum vikum.  1952 ruddi hún og byggði upp akveg yfir Fossaháls á kostnað sýsluvegasjóðs og síðar um Hjarðarnes að Auðshaugi.  Mest vann ýtan þó að byggingu þjóðveganna.  1953 ruddi hún og byggði upp veg yfir Klettháls og komst þá á jeppafært vegasamband eftir endilangri sýslunni.  Lánaði ýtan kr. 160.000 til vegarins, til að flýta þessum framkvæmdum.  Eru þessi dæmi tekin sem sýnishorn af viðleitni sýslunefndarinnar til að hraða vegalagningu um héraðið“.  Á þann veg farast Jóhanni orð, og er hvergi ofsagt.  Þessi umrædda jarðýta (oftast nefnd vegýta í bókum sýslunnar) var nefnd Ásaþór. 

Magnús Ólafsson frá Botni var lengi með þessa ýtu og gat sér gott orð fyrir afköst og verklagni.  Hann samdi sig ekki alltaf að siðum annarra og sagt var til dæmis að klukkan væri ekki endilega það sem réði byrjun vinnu eða hættutíma.  Sængina sína var hann oft með í ýtunni, og þá loks að svefn sótti hann fór hann iðulega út á milli þúfna og lagði sig.  Illa þoldi hann afskipti verkstjóra af vinnu sinni og einnig stefnu hins nýja vegar.  Það vissi hann sjálfan sig langfærastan að meta.  Vinnustikur voru honum sem rauða dulan víganautunum í Spáníá.  Til eru örnefni sem geyma átök hans við „misvitra“ yfirmenn sína, svo sem Snerruholt á Þingmannaheiði.  Á þessari vél ól hann upp sem ýtumenn frændur sína; Ólaf Sveinsson á Sellátranesi og Marinó Kristjánsson í Efri-Tungu, og stofnaði síðar með þeim félag um kaup og rekstur jarðýtna; þar á meðal Ásaþórs sem þeir eignuðust nokkru síðar.  Rigningasumarið mikla 1955 vann undirritaður á þessari vél á móti Páli Jakobssyni á Hamri.  Var hún þá í eigu sýslunnar.  Nú stendur Ásaþór í túni Laugabóls við Ísafjarðardjúp; eign Jóns Guðjónssonar fyrrverandi bónda og búnaðarráðunauts.  Hefur hann sýnt henni mikinn sóma og vinnur nú að endurnýjun mótorsins.

Jarðýta Rauðasandshrepps.  Árið 1947 má sjá í fundargerð Búnaðarfélagsins Örlygs að oddviti Rauðasandshrepps er farinn að huga að jarðýtukaupum fyrir hreppinn.  Sennilega er það árinu áður að einhver ónefndur gefur hreppnum kr 20.000 til kaupa á jarðýtu. … Af þessu fé var stofnaður jarðýtusjóður hreppsins sem vinna skyldi að því að eignast jarðýtu.  Í fundargerðinni er farið á fjörurnar af oddvita hvort hægt sé að komast inn í styrkjakerfið sem stofnað var með lögum um ræktunarsambönd 1945.  Ekki taldist það hægt, En sjá má að einn hreppsnefndarmaðurinn leggst gegn því að ræktunarsamband sé stofnað, og verður vart litið framhjá því að oddviti (þá Snæbjörn Thoroddsen) telur það samkeppnisaðila. 

(Sjá má í sjóðbók Rauðasandshrepps frá 1949 færsluna: „Keypt jarðýta, kr 65.701,73“.  Innsk. VÖ).

Þessi jarðýta kom 1949 og tók þegar til starfa undir stjórn Bjarna Sigurbjörnssonar í Hænuvík.  Þetta var Caterpillar D4.  Þær voru ekki þekktar hér þá, svo önnur sjónarmið hafa ríkt við val á tegund, en fyrir voru aðeins International Harvester sem SÍS flutti inn.  Reynslan leiddi hinsvegar í ljós gæði Kötunnar fram yfir Nallann.  Þessi ýta var gerð út á svipuðum forsendum og sýsluýtan; lánaði oft meira og minna til að þoka vegum lengra áleiðis en annars hefði verið.  Má þar til nefna veginn frá Gjögrum að Kollsvík. 

1954 kom svo upp alveg ný staða í ýtumálum í Rauðasndshreppi, en komum að því síðar.  Í júlímánuði var vant manns til að vinna með þessari ýtu í Melanesvegi.  Lenti undirritaður í því starfi, og átti þá fyrir höndum ein 17 ár við jarðýtur og önnur 10 viðriðinn jarðýtur og fleiri þungavinnuvélar í hjáverkum.  D4 var seld þetta haust á Akranes til Þorgeirs og Ellerts hf.  Lami af henni mun vera til á býli undir Akrafjalli.

(Ari fjallar þessu næst um tilkomu ræktunarsambanda sem stofnuð voru í hreppunum á grundvelli laga frá 1945.  Þrjú voru stofnuð í V-Barð; í Barðastrandahreppi; Ketildala- og Suðurfjarðahreppi og eitt sameiginlega fyrir Tálknafjarðar- og Rauðasandshrepp.  Fyrstu vélarnar komu 1949; Barðstrendingar fengu litla Cletrac-vél; Arnfirðingar TD6 og Tálknfirðingar-Rauðsendingar Cletrac og W4). 

Cletracinn var aðallega undir stjórn Davíðs Davíðssonar (frá Kóngsengjum í Örlygshöfn en bjó á Sellátrum í Tálknafirði).  Vann hann einnig í vegagerð ásamt garðrækt.  Lítið kom hann í Rauðasandshrepp en þó man ég eftir honum í Saurbæ. … Ekki veit ég hversvegna þessi vélategund var valin, en giska má á að þar hafi verð ráðið nokkru, því ekki höfðu neinir þeir sem komu að þeim málum vit á þessum vélum.  Þessar litlu Cletrac vélar, sennilega um sex tonn, voru fyrst og fremst byggðar sem dráttarvélar.  En á þær hafði verið sett nokkuð stór tönn.  Þær þoldu ekki þá erfiðu vinnu sem vegagerð hér um slóðir var, og sérstaklega var þeim hætt að brjóta öxul sem beltasleðabúnaður þeirra valt um.  Þar var allt öðruvísi umbúnaður en á öðrum ýtum.  …  Þessar vélar lentu í reiðuleysi þegar stofnað var Ræktunarsamband V-Barðastrandasýslu.  … Þessar fyrstu vélar Ræktunarsambandanna komu að talsverðum notum á Barðaströnd og í Arnarfirði; nánast engu í Rauðasandshreppi og sennilega einhverju í Tálknafirði. …

Í fundargerðum Búnaðarfélagsins Örlygs er greinilegt að farið er að undirbúa slit á samstarfi við Tálknfirðinga, enda sáust þess lítil merki að ræktunarsamband væri fyrir hendi.  Snæbjörn J. Thoroddsen oddviti beitir sér fyrir því að stofnað verði Ræktunarsamband Rauðasandshrepps, og e.t.v. með þátttöku Barðstrendinga, en þó aðeins til málamynda; það skyldi vera aðskilinn fjárhagur.  Hann gerir einnig út ýtuna Cat D4 og hefur eflaust ætlað að tengja saman þá útgerð við áformað ræktunarsamband.  Allavega pantar hann og fær Caterpillar D6 ýtu vorið 1954 á nafni Ræktunarsambands Rauðasandshrepps sem þó var formlega ekki til.  Þessar sviptingar eru greinilega gerðar með tilliti til styrkja ríkisins vegna vélakaupa ræktunarsambandanna, sem námu 50% af stofnverði.

Þetta vor er fleira að gerast.  Magnús Ólafsson og þeir frændur hans, Marinó og Ólafur, kaupa nýja TD14.  Með þeim í kaupunum var einnig Kristinn Kristjánsson í Botni.  Þó hann ætti í útgerðinni vann hann aldrei við hana.  Þessar vélar báðar unnu við veginn á Hafnarfjalli ásamt TD18 vél Vegagerðarinnar, við áður umgetnar stórframkvæmdir.  TD14 vél þeirra frænda var nefnd Sleipnir.  Fór hún fjallasýn úr Hænuvík að Breiðuvík og vann þaðan á móti hinum.   Þótti það umtalsvert að þeir félagar komust nær því á Aurholt efst á Hafnarfjalli á móti hinum tveimur, sem að vísu unnu á efiðara landi.  Um haustið vann svo TD14 við vegarspottann frá Essi og niður fyrir Bjarngötudal; um Hraunin.

1955 er svo Magnús orðinn vegaverkstjóri á Barðaströnd og þurfti þar af leiðandi ekki að kvíða verkefnaskorti ýtu sinnar.  Vegagerðinni þótti nú að Vestur-Barðstrendingar væru orðnir sjálfbjarga með ýtukost og tóku TD18 því burtu um haustið 1954.  Sumarið 1955 er svo lagður vegur frá Breiðuvík að Hvallátrum.  Var þar að verki Cat D6 með Bjarna Sigurbjörnsson aftan við stengurnar.

Ræktunarsamband Vestur-Barðastrandasýslu.  5.nóvember 1955 er haldinn afdrifaríkur fundur í Búnaðarfélaginu Örlygi. … Þar er ákveðið að gera Vestursýsluna að einu ræktunarsambandi og lofað er styrkjum til kaupa á tveim ýtum að auki við Cat D6 sem komin var árið áður.  Magnús í Botni gerir hvað hann getur til að gera bændum frjálst hvort þeir vildu vera í Ræktunarsambandinu eða ekki.  Hann veit vel að það geta komið tímar sem ýta þeirra félaga hafi ekki vinnu, svo honum finnst öllu vænlegra að einhverjir séu ekki siðferðilega bundnir félagslegum skyldum.  Það fékk þó ekki hjómgrunn.  Nokkurn tíma tók að vinna þau mál hjá hinum búnaðarfélögunum, en fyrsta Cat D6 vélin er rekin af sr Grími Grímssyni í Sauðlauksdal á meðan málin þróuðust.  Það er því hann sem ræður Ara Ívarsson sem fyrsta starfsmann RSVB.  Átti hann eftir að vinna við sambandið í ein 16 ár.

Tvær Cat D6 eru pantaðar; einnig stórt Rome brot- eða plógherfi, ásamt Skerpeplóg.  Einnig var smíðaður vagn til að flytja þessi jarðvinnslutæki.  Síðar var fenginn kílplógur frá Þorgeir og Ellert á Akranesi, á Cat D6.  Var það sá fyrsti sem gat unnið á báða vegu; fram eða aftur.

Það er ekki ætlunin að skrá sögu RSVB þó svo að það sé áhugavert efni.  En í grófum dráttum sagt þá var ávallt ein ýtan í vinnu hjá bændum en hinar tvær unni fyrir henni í vegagerð og öðrum verkefnum á svæðinu, ásamt því að grípa í vinnu hjá bændum þegar milli bar. … Auðvitað var um samkeppni að ræða við þá Magnús í Botni og frændur hans, en ekki varð það til vandræða.  Segja mátti að einn andstæðing átti Ræktunarsambandið alltaf, og það voru bændurnir, eigengur þess.  Kröfur þeirra voru oftar en ekki óbilgjarnar.  Stjórnarmönnum þeirra kom ekki við heildarrekstur Sambandsins, en rifist var um forgang bæði hreppsfélaga og einstaklinga.  …

Þeir Magnús og frændur hans keyptu 1962 International BTD 20 sem nefnd var Mjölnir.  Það kom strax í ljós hversu mikla yfirburði hún hafði yfir Cat D6.  RSVB pantaði eftir áramótin Massey Ferguson 65S dráttarvél með tætara og gröfusamstæðu.  Skyldi hún notuð til að fullvinna flög hjá bændum, ásamt því að hreinsa skurði og vinna minniháttar verkefni; húsgrunna og fleira.  Þessari vél var því miður aldrei haldið úti af neinu viti og var að lokum seld Ragnari Jónssyni á Hvammeyri eftir eitt og hálft ár; hún varð upphafið að vélarekstri hans sem stóð í mörg ár.  …

1964 kemur svo önnur Cat D7E, vökvaskipt með U-tönn og ripper, til Magnúsar og félaga.  Sú vél var nefnd Óðinn og var lengst af undir stjórn Bjarna Sigurbjörnssonar.

 

 

Hér hefur verið gripið niður í þessa fróðlegu samantekt Ara, en mörgu verið sleppt. Ari segir frá ýmsu fleiru í niðurlagi greinar sinnar; t.d. herfi sem Magnús og félagar útbjuggu á ýtu sína; ýtuútgerð Matthíasar á Fossi og sína sýn á þróun mála hjá Ræktunarsambandi V-Barð.  Saga ýtuútgerðar á þessu svæði var ævintýraleg á margan hátt þegar verið var að koma byggðum í vegasamband á þessu svæði sem er líklega eitt það erfiðasta á landinu í þeim efnum.  Og um leið riðu yfir landbúnað og sjávarútveg mestu umbyltingar sem orðið höfðu frá landnámi.  Margt mætti segja í framhaldi af samantekt Ara, en niðurlag hennar er lýsing á lokaárum RSVB.  Ýtuútgerð Magnúsar í Botni og frænda hans var blómleg framá árið 1980.  Í desember það ár lést Marinó Kristjánsson í Efri-Tungu í dráttavélarslysi.  Þórður Jónsson á Hvallátrum hafði séð um bókhald þeirra frænda en var orðinn roskinn. Magnús sjálfur hafði um tíma hætt ýtuvinnu og verið frumherji í farandverslun, en á efri árum keypti hann jarðýtuna Óðinn af frændum sínum og hóf stórfelldar framkvæmdir á Ósum, þar sem hann hugðist koma upp laxarækt og virkjunum.  Honum entist ekki aldur til þess, en hann andaðist 1998.  Magnús var um margt einstakur frumkvöðull og hugsaði lengra en samtímamenn í mörgum efnum.  Ýtuútgerð og vegagerð var einn þáttur í því, en Magnús var einnig frumkvöðull í verslunarmennsku, virkjunum, laxarækt og fleiru.  Hann teiknaði jarðgöng undir Kleifaheiði kringum 1970; löngu áður en nokkur annar lét sig dreyma um gangagerð á Vestfjörðum.  Hann var einnig sá fyrsti sem ég (VÖ) heyrði nefna möguleika þess að virkja sjávarföll við Vestfirði.  Má vera að þar hafi kveiknað neisti að mínum verkefnum á því sviði. -VÖ-