Lýsing Einars Guðbjartssonar frá Láganúpi á mannlífi í Kollsvík á fyrri hluta 20.aldar.  

Einar Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) var fæddur Láganúpi í Kollsvík og ólst þar upp.  Stundaði búskap  og sjómennsku með foreldrum sínum og systkinum.  Hann var um skeið kaupfélagsstjóri á Gjögrum og vann eftir það við kaupfélög víða um land; síðast lengi við Kaupfélag Borgnesinga og bjó í Borgarnesi ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Kollsvík, og dóttur, Maríu Jónu Einarsdóttur.  Einar var næstelstur sinna systkinaog mundi vel þá tíma þegar fjölmennt var í Kollsvíkinni.  Minningarbrot þessi birtust í Niðjatali Hildar og Guðbjartar, foreldra hans, sem út kom árið 1989.  Frásögn Einars fer hér á eftir:

Árum saman hefur sú hugsun sótt á mig að rétt væri að festa á blöð lýsingu á því mannlífi sem lifað var á þeim slóðum sem ég er borinn og barnfæddur.  Þetta hef ég nú komist lengst.  Tvær stílakompur hef ég keypt í því skyni að festa á blöð þeirra svipmyndir úr heimi bernsku minnar.  Það sem hvetur mig einkum til þessara hluta er sú vissa að þeir lífshættir sem ríkjandi voru fyrir hálfri öld, munu innan skamms öllum ókunnir.  Engan gat órað fyrir því þá að svo snögg yrði byltingin; að svo gjörsamlega yrði kollvarpað þeim lifnaðarháttum sem litlum breytingum höfðu tekið um hundruð ára.

Um tilganginn með þessum skrifum er það helst að segja að hann er fyrst og fremst að njóta ánægju af að rifja upp svipmyndir frá bernskudögunum.  En þetta á ekki að vera ævisaga og þætti mér þá best, ef ég gæti látið mína eigin persónu hverfa á bakvið sögusviðið.

Hér segir frá íbúum Kollsvíkur, og er þá miðað við árin 1915-20.  Getið er lauslega húsráðenda og heimilisfólks á hverjum bæ.  Bæirnir eru taldir frá norðri til suðurs.

Í Tröð bjuggu foreldrar mínir; Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir.  Þegar hér var komið sögu (1920) höfðu þau eignast fimm börn.  Eitt þeirra; Jón Ingvar, dó úr kíghósta árið 1920.  Auk þess voru á heimilinu þessi ár hjónin Gísli Ólafsson og Vigdís Ásbjörnsdóttir.  Gísli var föðurbróðir pabba.  Þau höfðu til íbúðar helming af loftinu, en áttu sér skemmu, þar sem Vigga gamla hafði matseld og geymdi flestar eigur þeirra.  Þá var einnig á heimilinu Guðríður Árnadóttir, föðursystir mömmu, og hafði hún til ábúðar eystri helming loftsins.  Einnig voru á heimilinu um tíma Jón Árnason, kallaður frá Krókshúsum, og Gvendur Jónsson; einhleypur og heldur kjarklítill karl, sem jafnan var í vinnumennsku.  Frá Tröð og niður í Ver mun vera um 1 km.

Jörðin Kollsvík var að sjálfsögðu höfuðból í norðurhluta Kollsvíkur.  Þar bjó föðursystir mín, Guðbjörg Guðbjartsdóttir, ásamt börnum sínum 13.  maður hennar, Torfi Jónsson, drukknaði í Snorralendingu 1904.  Þetta var stærsta búið í norðanverðri Víkinni.  Giska ég á að bústofninn hafi verið 3 kýr; nær 100 ær og tveir hestar; einnig nokkur hænsni.

Á Grænumýri bjó Gísli Guðbjartsson, föðurbróðir minn.  Hann átti hluta úr aðaljörðinni eins og pabbi.  Bú hans var fremur lítið; ekki yfir 50 kindur og 1 kýr.  Kona Gísla hét Ólína Þorgrímsdóttir, ættuð af Barðaströnd, og áttu þau einn son.

Rétt ofanvið Kollsvíkurverið var grasbýli sem hét Strákamelur, en gekk oftast undir nafninu Gestarmelur.  En þar bjó Gestur Jósepsson með konu sinni, Ingibjörgu Runólfsdóttur, og tveimur sonum.  Af bústofni mun hann hafa átt 20-30 kindur, en enga kú.  Þá er að nefna syðsta býlið norðan ár, en það hét Stekkjarmelur.  Bjó þar á þessum tíma Karl Kristjánsson ásamt konu sinni; Mikkalínu Guðbjartsdóttur, föðursystur minni og fjórum börnum.  Þau áttu smáhluta í Kollsvíkurjörðinni en höfðu þó lítinn bústofn; um 30 kindur en lengi vel enga kú.

Eins og fram hefir komið sátu allir þeir bændur sem nú hafa verið nefndir, í landi jarðarinnar Kollsvíkur.  Allir, nema Gestur Jósepsson, áttu þeir einhvern hlut í jörðinni; þó mismikinn.  Strákamelur, þar sem Gestur bjó, var rétt ofanvið Kollsvíkurver, og er ekki ólíklegt að nafnið sé komið af leikjum vermanna í landlegum.  Oft munu menn hafa haft fasta búsetu í Kollsvíkurveri árið um kring.  En á þeim tíma sem hér um ræðir var þar enginn, þó síðar yrði.

Áin, sem svo heitir þó víða myndi hún kölluð lækur, skipti löndum milli Kollvíkurjarðarinnar og býla í sunnanverðri Víkinni.  Það eru Grundir og Láganúpur, og voru þeir einatt kallaðir „Handanbæirnir“.

Á Láganúpi bjuggu Össur Guðbjartsson og amma mín, Anna Jónsdóttir.  Á þessu tímabili munu öll börnin hafa verið heimilisföst hjá foreldrum sínum, og heimilisfólkið líklega 14-15 manns.  Á Grundum bjuggu Kristján Ásbjörnsson og Guðbjörg Halldórsdóttir ásamt börnum sínum.  Í Grundarbænum bjuggu þá einnig Ólafur Halldórsson, bróðir Guðbjargar (konu Kristjáns) og Halldóra Halldórsdóttir móðir þeirra.  Þau ólu upp að verulegu leyti Ásbjörn Helga Árnason og Dómhildi Ásbjörnsdóttur.  Heimilisfólk á Grundum mun ekki hafa verið undir 15 manns.  Um bústofn á Láganúpi man ég ekki glöggt að segja.  Sauðfjáreign hjá hvorum bónda mun hafa verið milli 50 og 100 ær og 2-3 kýr á hvorum bænum.

Bakkar voru grasbýli á Grundatúni, og stóð íbúðarhúsið neðst í túninu; alveg á sjávarbakkanum.  Þar bjó um þessar mundir Þórarinn Bjarnason með konu sinni, Guðmundínu Einarsdóttur; hún var ættuð af Rauðasandi.  Um 1920 munu þau hafa verið búin að eignast 4-5 börn.  Í Bakkahúsinu bjó einnig Steinn Bjarnason, bróðir Þórarins.  Hann hélt hús með móður þeirra bræðra; Önnu Sigurðardóttur.  Hafði hún eldamennsku í skemmu sem var rétt vestanvið íbúðarhúsið; einnig alveg á sjávarbakkanum.  Þeir bræður höfðu litla grasnyt og fáar skepnur; Þórarinn líklega 20-30 kindur en Steinn 10-20.  Enga kú höfðu þeir, og urðu því að kaupa alla mjólk

Hér hafa verið taldir upp bæir og getið lauslega húsráðenda og heimilisfólks.  Rétt er að geta um bæjarstæði sem nýlega voru aflögð á þessum tíma.  Á Bergjum, efst í Kollsvíkurtúni, byggði Gísli Guðbjartsson íbúðarhús er hann kvæntist fyrri konu sinni, Dagbjörtu.  Rétt norðanvið Stekkjarmel var nýlenda og íbúðarhús sem Jens Sigurðsson og Henríetta Guðbjartsdóttir byggðu.  Þau fóru til Ameríku; að ég hygg árið 1911, og fór þá þessi ræktun í eyði.  Hús þetta hafði Jens byggt að verulegu leyti af viði úr Breiðavíkurkirkju, en hún mun hafa verið endurbyggð um aldamótin 1900.  Faðir minn keypti svo þetta hús og byggði af viðum þess íbúðarhús í Tröð, er hann fór að búa þar.