Fróðlegt yfirlit Ívars Ívarssonar í Kirkjuhvammi um fyrstu ár kaupfélaga og samvinnufélaga í Rauðasandshreppi og á Patreksfirði.

ivar ivarsson ungurÍvar Ívarsson (25.09.1889-10.09.1974) ólst upp í Kirkjuhvammi á Rauðasandi og var síðan bóndi þar alla sína ævi, ásamt systkinum sínum.  Hann var mikill gáfumaður og félagsmálamaður, og í raun forystumaður Rauðsendinga í félagsmálum á sinni tíð.  Hann var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Rauðsendinga; hreppsnefndarmaður; fulltrúi Brunabótafélagsins; forystumaður í ungmennafélgs-, bókasafns- og safnaðarmálum, auk margs fleira.  Ívar var margfróður og hafði skemmtilegan frásagnarmáta.  Hér segir hann af málefnum kaupfélaga í Rauðasandshreppi en á því sviði var hann gjörkunnugur.  Pistillinn birtist í árbók Barðastrandasýslu 1949, en þar er Ívar ranglega sagður Lárusson.

Þann 1. águst 1948 minntist Kaupfélag Rauðasands 40 ára samvinnustarfs í Rauðasandshreppi, með samsæti í húsi ungmennafélagsins Vonar.  Samsætið sóttu 90-100 manns, víðsvegar úr hreppnum.  Yfir borðum voru margar ræður fluttar.  Á eftir sýndi erindreki Sambands Íslenskra Samvinnufélaga, Baldvin Þ. Kristjánsson, kvikmyndir.  Síðan var dansað frameftir nóttu.

Staðan við hreppaskiptingu 1907

Á síðustu áratugum nítjándu aldarinnar voru ástæður manna í hreppnum mjög misjafnar.  Sumir, og þá helst þeir er sjó stunduðu samhliða landbúnaði, voru vel efnum búnir á þess tíma mælikvarða, en fjölskyldumenn sem ekkert höfðu annað en landbúnað og hásetahlut sinn að vorinu til að lifa af, vissu stundum ekki hvað til matar skyldi hafa næsta dag.  Má nærri geta hversu þungt slíkt ástand hefur verið húsmóðurinni með barnahópinn.  Til engra var að leita um matbjörg, nema til kaupmannsins.  Gekk sú málaleitan stundum erfiðlega fátækum manni, sem ekki hafði ættgöfgi að kynna sig með.  Flestir fengu þó einhverja ásjá til næstu kauptíðar, eða gegn hreppsábyrgð.  Menn sem nú (1949) eru fimmtugir og eldri, muna vel þetta ástand, og minnast þess með hálfgerðum hryllingi.

Sjórinn við strendur landsins var sú gullkista sem ausið var úr, en á miklu frumstæðari hátt þá en nú.  Sjórinn fyrir Látrabjargi og Víkunum var lífæð sveitarinnar.  Þangað var sótt björg í bú, auk þess sem selt var kaupmönnum til útflutnings, enda voru sjóróðrar stundaðir af miklu kappi með vökum, þreytu, vosbúð og áhættu.  Er varla ofsagt að áætla að til jafnaðar hafi verið gerðir út 20 árabátar vor hvert á tímabilinu 1900-1920, því að eitt vorið var róið 25 bátum úr Kollsvík einni saman.

Verslun var öll á þessum árum við kaupmenn á Patreksfirði.  Þar fengu menn það lítið sem hægt var að fá af kornmat, kaffi, sykri og það sem þurfti til útgerðar.  Flestra annarra vara varð fjöldinn að vera án.  Þangað var seld öll framleiðsla, sem var nær eingöngu saltfiskur og ull; lítið af fuglafiðri og lýsi.  Kjöt var enn ekki þekkt verslunarvara.  Barnmargir fátæklingar voru hreppsnefndinni og efnameiri mönnum mikið áhyggjuefni.  Þannig var ástandið í Rauðasandshreppi er honum var skipt, og kauptúnið Patreksfjörður varð sérstakt sveitarfélag árið 1907.

Pöntunarfélag Rauðasandshrepps (1908-1923)  

Samvinnuverslanir voru sem örast að ryðja sér braut, og samvinnuhugsjónin að grípa hugi fjöldans.  Margra ára reynsla hér og erlendis hafði gefið vonir um bjartari framtíð.  Framsýnir menn í hreppnum sáu að nú var röðin komin að þeim að gangast fyrir samvinnuverslun; þrátt fyrir að enginn mun hafa talið að hér ríkti kaupmannaokur.  Var því veturinn 1907 – 1908, á fundi í Saurbæ, samþykkt stofnun samvinnufélags; Pöntunarfélags Rauðasandshrepps.  Frumkvöðull félagsstofnunarinnar var séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal, eftir því sem sagt er í „Fra Islands Næringsliv“, er út kom á norsku í Kristjaníu 1914.  Auk séra Þorvaldar sátu fund þennan Ólafur Ó. Thorlacius yngri í Surbæ, sem var framkvæmdastjóri félagsins; Jón Guðjónsson útgerðarmaður frá Breiðavík og, að því er menn minnir, Davíð Jónsson bóndi á Kóngsengjum í Örlygshöfn.  Félagssvæðið var Rauðasandshreppur hinn forni; þ.e. strandlengjan frá Skor að Tálkna.  („Gengið var á fund Péturs A. Ólafssonar kaupmanns á Geirseyri og síðan Ólafs Jóhannessonar faktors á Vatneyri.  Báðir neituðu eindregið að greiða fyrir pöntunarfélagsmönnum“  Guðjón  Friðriksson; Upphaf þorps á Patreksfirði; Árb.Barð. 2013).  Samið var við Björn Olsen kaupmann á Patreksfirði að annast innkaup og vörusölu fyrir félagið, en hann varð gjaldþrota skömmu síðar.  Lá nærri að þar tapaðist allmikið af fiskverði sem félagið átti, en fyrir milligöngu séra Þorvaldar hlaust ekki tjón af; þar eð sannanlegt var að fiskurinn var í umboðssölu en ekki eign þrotabúsins.  Árið 1908 var umsetning félagsins ekki nema 5 þúsund krónur, því að aðrir gátu ekki orðið aðnjótandi viðskiptanna en þeir er vörur höfðu að leggja inn fyrirfram. 

Næsta ár var fengið rekstrarlán á ábyrgð félagsmanna, svo fleiri gátu orðið viðskiptanna aðnjótandi.  Aðal verslunarvaran var bátafiskur, ull og kjöt, sem þá var fyrst að verða eftirspurð vara hér.  Árið 1910 var umsetningin 14 þúsund krónur; 1911 28 þúsund, og fram í ágústmánuð 1912 var búð að selja fyrir 27 þúsund krónur en kaupa inn fyrir 19 þúsund.  Þessi öri vöxtur félagsins varð kaupmönnum nokkur þyrnir í augum.  Tilboð fóru að berast í fisk og aðrar framleiðsluvörur félagsmanna, en þeim tilboðum var lítið eða ekkert sinnt.  Útgerðarmenn verkuðu sjálfir fyrstu árin mest allan fiskinn og um tíma komu skip Sameinaða félagsins við á Víkunum og tóku fiskinn til útflutnings.  Aðal viðskiptasambönd sem félagið hafði fyrstu árin voru heildverslanir Garðars Gíslasonar og Jakobs Gunnlaugssonar.  Síðar voru mestöll viðskiptin hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga.  Því miður er ekki hægt að fylgja þróunarsögu félagsins; til þess vanta heimildir.

(„Björn Olsen sagði í bréfi 28.07.1913 til Jakobs Gunnlaugssonar að pöntunarfélagið geri allt til að skemma fyrir kaupmönnum.  Þann . maí sagði hann að á Patreksfirði sé nú aðeins á útvegnum að byggja, þar sem öll verslun sé komin í hendur pöntunarfélagsins.  Þetta var áfall fyrir þá kaupmenn sem höfðu keypt fisk af bændum í Útvíkum í stórum stíl, en þar var jafnan mikill bátaútvegur“  Guðjón  Friðriksson; Upphaf þorps á Patreksfirði; Árb.Barð. 2013). 

Pöntunarfélag Rauðasandshrepps hafði aðsetur á Patreksfirði.  Húsleysi var því mjög til baga, en samkomulag náðist við fyrrverandi kaupmann, Sigurð B. Bachmann, um vörugeymsluhús og fiskmóttöku.  Bachmann var í tengdum við Ólaf Ó. Thorlacius framkvæmdastjóra, með því að síðari kona hans var hálfsystir móður Ólafs.  Félaginu var skipt í deildir.  Tók hver deildarstjóri móti vörum fyrir sína deild, eftir fyrirframgerðum pöntunum.  Hann sá um dreifingu varanna og hafði á hendi reikningshald og fjárreiður deildarinnar.  Eftir fráfall Sveinbjarnar Sveinssonar kaupmanns á Geirseyri keypti félagið sölubúð hans og hafði þar á eftir húsin og allmikið fiskverkunarland hjá tengdaföður Sveinbjarnar, Markúsi Snæbjörnssyni fyrrverandi kaupmanni og eiganda Geirseyrar.  Þótt Markús Snæbjörnsson væri, á þeim árum  er hann stundaði verslun á Geirseyri, kaupmaður í fyllsta skilningi; var hann samvinnuþýður maður og unni hverri nýjung og hverri viðleitni til sjálfsbjargar.  Hann var fyrstur manna hér að láta taka kúfisk og nota hann til beitu á lóðir með góðum árangri.  Hann var hvatamaður að byggingu barnaskóla áPatreksfirði og lagði til lóðir bæði undir kirkju og sjúkrahús.  Og hann gat þess við þann sem þetta ritar hversu stórt spor á framfarabraut hefði verið stigið með stofnun Pöntunarfélags Rauðasandshrepps. 

Eins og gengur og gerist voru ekki allir félagsmenn á sama máli um framkvæmd verslunarmálanna.  Ávallt finnast menn sem meta sinn hag meira en fjöldans.  Eitt dæmi þess er að bæði framkvæmdastjóri og endurskoðendur lögðu til að 1% af andvirði seldra vara væri lagt í varasjóð, félaginu til tryggingar, en sú tillaga fékk ekki stuðning á félagsfundum.  Síðar voru bornar fram miðlunartillögur um ½%  og að lokum ¼%, en engar þessar tillögur fengu samþykki aðalfundar.  Félagið hafði því ekkert tryggingarfé.

Á stríðsárunum 1914 – 1918, og fyrstu árin eftir stríðið, var nokkur vöxtur í verslun yfirleitt.  Vöruverð hækkaði og eftirspurn var mikil.  Félagið tók þá ákvörðun að gerast kaupfélag og starfa á þeim grundvelli.  Fékkst til þess samþykki mikils meirihluta félagsmanna.  Þá var farið að leggja drög að því að auka starfsemi félagsins, víkka félagssvæðið og undirbúa húsbyggingu sem nægði félaginu og starfsfólki þess, að minnsta kosti framkvæmdastjóra.  Við Íslendingar höfðum þá enga reynslu á eftirköstum stríðsáranna, og sú reynsla sem þá fékkst virðist nú vera flestum gleymd, en eftirspurn mikil, var nokkuð af honum geymt til vorsins 1920.  Aðstaða hjá félaginu til fiskverkunar var ekki samkeppnisfær, svo það varð að yfirkaupa fólk í ákvæðisvinnu til þess að fá fiskinn verkaðan; auk þessa komu upp í honum allmiklar skemmdir.  af þessum ástæðum varð félagið fyrir miklum halla á fiskkaupum.  Árið 1918 var hjá bændum allmikið grasleysi vegna kals á túnum, eftir undangenginn frostavetur.  Afleiðinga kalsins gætti nokkur ár á heyafla.  Ofan á þetta bættust tveir snjóavetur; veturinn 1919 – 1920 og 1920 – 1921, svo gera varð stórfelld kaup á dýrum fóðurbæti til að komast hjá almennum fjárfelli.  Bændur söfnuðu þá allmiklum skuldum.  Allt þetta stuðlaði að því að þrengja hag kaupfélagsins, sem þá var nýstofnað og með enga varasjóði; svo það að lokum komst í greiðsluþrot, seinnihluta ársins 1923.  Stjórnin og framkvæmdastjórinn voru  ekki sammála um leiðir til þess að komast út úr örðugleikunum; stjórnin hafði úrskurðarvaldið.  Félagið var því tilkynnt gjaldþrota snemma í febrúar árið 1924, eftir árangurslausa umleitan um skuldaeftirgjöf við aðal skuldaeigendur; SÍS og Landsbanka Íslands; annað þótti ekki tilkomumál.  Samningsmaður var einn af helstu andstæðingum framkvæmdastjórans.  Einnig var unnið að gjaldrotauppgjöf félagsins frá öðrum stöðum.  Gjaldþrotamálsmeðferð félagsins verður ekki sögð hér, því hún er enn mörgum viðkvæmt mál.  en margir af félagsmönnum urðu fyrir þungum búsifjum af gjaldþrotinu og ekki síst þeir er nokkuð höfðu umhendis og stunduðu bátaútgerð.

Viðskipti ársins 1924 voru nokkuð í molum.  Allmargir fengu Snæbjörn J. Thoroddsen í Kvígindisdal að annast sölu á fiski, kjöti og sennilega ull; og gera kaup á helstu nauðsynjum.  Sumir komu vörum sínum í umboðssölu hjá Sambandinu og fengu vörur á móti, en aðrir höfðu viðskipti við kaupmenn; ýmist á Patreksfirði eða Reykjavík.

Pöntunarfélagið Patrekur / Kaupfélag Rauðsendinga (1925-1934)

Strax að afstöðnu gjaldþroti Kaupfélags Rauðasandshrepps var hafinn undirbúningur að stofnun nýs félags; Pöntunarfélagsins Patreks, sem tók til starfa með kaupfélagsfyrirkomulagi snemma ársins 1925.  Helstu hvatamenn þess voru þeir Pétur Jónsson á Stökkum og séra Þorsteinn Kristjánsson í Sauðlauksdal.  Fékk Pétur Ólaf Þórarinsson, sem nú (1949) er skrifstofumaður hjá SÍS að taka að sér framkvæmdastjórastarfið.  Félagið hafði sölubúð á Patreksfirði, á sama stað og fyrra félagið; þar sem nú (1949) er Kaupfélag Patreksfjarðar.  Síðar var skipt um nafn á félaginu og nefnt Kaupfélag Rauðsendinga.  Félaginu ukust brátt vinsældir og gaf vonir um langt starf.

Á Hvalskeri hófst slátrun hjá Pöntunarfélagi Rauðasandshrepps strax og það byrjaði kjötsölu og fékk skipaðan þar matsmann, en sýslumönnum var veitt heimild til þess með lögum.  Árið 1933 var sem oftar deila um kaup og kjör milli Verkalýðsfélags Patreksfjarðar og vinnuveitenda þar.  Kaupfélagið áleit sér ekki fært að samþykkja þau skilyrði er verkalýðsfélagið fór fram á og aðrir atvinnurekendur gengu að.  Var því kaupfélagið í verk- og afgreiðslubanni það sem eftir var ársins, eða um 9 mánuði.  Kom þetta mjög hart niður á allri starfrækslu félagsins, því að vörur sem fengust með ýmsum krókaleiðum voru mjög af skornum skammti.  Til að sýna hvað verkbannið gekk langt má geta þess að eggjakassi sem kaupfélagsstjóranum var sendur af kunningja hans í Flatey á Breiðafirði fór þrjár ferðir með strandferðaskipi kringum landið.  Verkbannið, ásamt ýmsum agnúum innbyrðis, varð til þess að félagið hætti störfum í ársbyrjun 1934.  Skilanefnd gerði félagið upp, og fékk hver það sem hann átti í því.

Sláturfélagið Örlygur (1931-

Árið 1931 var stofnað Sláturfélagið Örlygur.  Það var stofnað til að hafa sláturhús á Gjögrum í Örlygshöfn; með framlagi frá fjáreigendum sjálfum að stofnfé.  Þarna var slátrað á vegum Kaupfélagsins Rauðsendinga meðan það starfaði.  Þegar það hætti störfum var ekkert kaupfélag starfandi í vestara hluta hreppsins.  En 1936 breytti Sláturfélagið Örlygur starfsemi sinni og gerðist neytendafélag með kaupfélagsfyrirkomulagi.  Framkvæmdastjóri þess var Sigurbjörn Guðjónsson, bóndi í Hænuvík um nokkur ár.  Síðar varð framkvæmdastjóri Einar T. Guðbjartsson frá Láganúpi.

Kaupfélag Rauðasands (1933-

Þann 13. ágúst 1933 var stofnað Kaupfélag Rauðasands sf, með aðsetri á Hvalskeri.  Þetta félag var í fyrstu stofnað til að annast útflutning á framleiðsluvörum fyrir Kaupfélag Rauðsendinga, og til að flytja inn vetrarforða fyrir félagsmenn þess.  Félagssvæði Kaupfélags Rauðasands var var takmarkað af Rauðasandinum og bæjunum kringum Patreksfjörðinn, að Vatnsdal.  Heimilt var að taka félaga utan þessa svæðis, en bundið vissu hlufalli við félagatölu á félagssvæðinu.  Framkvæmdastjóri þess var ráðinn Egill Egilsson; gegndi hann því starfi til ársins 1944, er hann fluttist að Innri-Njarðvík og er verkstjóri þar (1949).

Þegar Kaupfélag Rauðsendinga hætti störfum byrjaði kaupfélagið á Hvalskeri að starfa fyrir alvöru.  Framkvæmdastjóri þess er (1949) Ívar Ívarsson bóndi í Kirkjuhvammi.

 

Bæði Sláturfélagið Örlygur og Kaupfélag Rauðasands hafa (1949) heimili i Rauðasandshreppi. Bæði eru lítil, en þó í samræmi við fólksfjöldann á hvorum stað.  Mikil vinna er lögð fram; meira af þegnskap við sitt áhugamál er af von um kaupgreiðslu.  Með þeirri ráðstöfun að starfrækja tvö samvinnufélög í hreppnum má fullyrða að skapast hafi tryggari samvinna og meira öryggi fyrir framtíðarskipulagi viðskiptamálanna.  Er þetta mjög eðlileg og skiljanleg afleiðing víðáttu í hreppnum.  Og það skipulag viðskiptamálanna sem nú er hefur stytt fjarlægðina; bætt samgönguleiðir til viðskiptanna; dreift tortryggni og yfirleitt skapað heilbrigðari hugsunarhátt.

Hér að framan hefur í stórum dráttum verið lýst viðgangi samvinnumálanna í hreppnum um síðastliðin 40 ár.  Æskilegt hefði verið að geta gefið skýrslu um árlegan vöxt viðskiptanna, en slíkar upplýsingar eru ekki fyrir hendi; enda eru þær mjög háðar árgæsku eða vondu árferði.  Þar að auki hafa á síðustu 40 árum geisað tvær heimsstyrjaldir sem raskað hafa öllum samanburði.  En árið 1947 keyptu bæði félögin inn vörur fyrir um 220 þúsund kr.  Sala framleiðsluvara hefur verið breytileg síðustu árin; sumar vörur seldar á einu ári sem framleiddar voru á mörgum árum, og allur fiskur seldur í frystihús.  Er því ekki að finna neinar ábyggilegar tölur um verðmæti árlegrar framleiðslu.

Hvað hefur svo unnist í þessi 40 ár?  Hver er árangurinn af 40 ára samvinnustarfi?  Þótt ekki liggi fyrir sjóðir frá árunum 1908 – 1933 hefur fengist mikil reynsla sem núverandi (1949) starf byggist á; og sú þekking sem fæst í skóla reynslunnar byggist á meiri menningu en sumir stærðfræðilegir útreikningar.  Augljós ávinningur er sparifé þeirra félaga sem nú starfa:  Séreignasjóðir, stofnsjóðirnir kr 53.800 og varasjóðirnir kr 86.800; og svo þann verðmismun sem kynni að hafa orðið ef félögin hefðu ekki verið til.

Með samvinnustarfseminni rækjum við okkar persónulegu, þjóðfélagslegu, trúarlegu og mannúðlegu skyldu; að rétta svöngum mat; veita þyrstum svaladrykk og hlúa að nöktum vegfaranda.  Flestir þeir sem framarlega stóðu í samvinnumálum í hreppnum eru til moldar gengnir (1949).  Þeim öllum, og fyrst og fremst brautryðjandanum séra Þorvaldi Jakobssyni, eru þakkir færðar.

Ívar Ívarsson