Hér eru birtar frásagnir af listiðkun og menntamálum fyrr á tímum.

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti).
Söngur og tónlist  Torfi Össurarson frá Kollsvík segir frá tónlistariðkun fyrr á tíð.
Lestur og skrift  Hér segir Torfi frá barnalærdómi og bóklestri fyrrum.

 


Söngur og tónlist

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa gerði hann að beiðni Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1988.

Systur mínar sungu oft við vinnu sína.  Næsta heimili stóð 20-30 fet frá mínu heimili. Þar bjó ekkjan Guðbjörg, systir föður míns, með uppkomnum sumum börnum sínum, einkum dætrum.  Ein þeirra spilaði á orgel, en orgeltónarnir þykir mér ávallt fegurstu hljóðfæratónar; nema þó helst fiðlutónar.  Gamall maður átti gamla fiðlu og spilaði á hana (líklega Karl Kristjánsson, Stekkjarmel), fleiri áttu fiðlur á unglingsárum mínum; jafnvel ég sjálfur þó kunnáttan væri alltof lítil enda tilsögn engin.  Þó gat ég náð lagi á fiðluna og fleiri hljóðfæri. 

Í fyrstu voru það dætur Guðbjargar sem spiluðu, og synir síðan og systkini mín og fl. Litlu síðar kom Helgi Árnason með orgel og spilaði hann víst í 20 ár í Breiðuvíkurkirkju, en þangað sóttum við kirkju. Um miðjan annan áratug þessarar aldar var U.M.F. Vestri stofnað; það náði yfir svokallaðar Útvíkur. Á ungmennafélagsfundum var ávallt sungið fyrir og eftir fund og upp úr því fór Helgi að æfa söngflokk með ungum félögum og tóku flestir félagar þátt í þessum kór, sem einnig söng í kirkjunni. 

Auðvitað voru sungin íslensku þjóðlögin og ættjarðarlög; einnig voru sálmar sungnir og æfðir. Söngæfingar voru helst á kvöldin og um helgar en minna var um það að sumrinu. Sungið var raddað var á söngæfingum; allar raddir; einnig hver af öðrum. Helgi æfði raddirnar og tók saman og stjórnaði söngnum, einkum meðan Vestri var í blóma. Einu tónlistarbókmenntirnar var lítill bæklingur  fyrir byrjendur í tónlist. Mig minnir að Valdimar, bróðir minn, kæmi með hann frá Núpsskóla; sennilega eftir séra Sigtrygg Guðlaugsson en hann var mikill áhugamaður um sönglist.  Hefi ég heyrt eftir honum að aðeins voru tveir af nemendum hans sem hann hefði ekki getað tjónkað við í þeim efnum.  

Tónlistarþjálfun mín varði aðeins stuttan tíma, á orgel sem Helgi Árnason átti, en á þetta orgel lærði ég að þekkja nóturnar og lærði mörg lög úr Söngvasafni Sigfúsar Eymundssonar og fleiri nótnabókum, þetta var veturinn 1918-19.   Tónlistarkennarinn var aðallega Helgi Árnason; hann spilaði allskonar lög og sálmalög, mörg eru ennþá sungin, þó sakna ég sumra eins og „Fannaskautar faldi háum“, „Gunnar og Njáll“, „Skein yfir landið sól á sumardegi“ og fl. Hljóðfæri voru í Kollsvík og Grundum; í Breiðavík; í Sauðlauksdal, prestssetrinu; í Króki, Rauðasandi; á Saurbæjarkirkju og líklega á hinu fornfræga höfuðbóli Saurbæ á Rauðasandi. Á þessum heimilum voru orgel; engin píanó. 
Í Kollsvík var helsti söngvarinn áðurnefndur Helgi og tvær systur Torfadætur.  Í Breiðavík var það aðallega Ólöf Ólafsdóttir og Haraldur hennar bróðir. Í Sauðlauksdal, dóttir prestsins Þorvaldar Jakobssonar og í Króki Jón Guðmundsson. Áður hef ég sagt hvað var sungið í Kollsvík og held ég að það hafi verið hjá öðrum, þ.e. kvæðalög og sálmar.  Lítið var um tvísöng sem ég man eftir nema „Gunnar og Njáll“.  Rímur voru eitthvað kveðnar en ég þekkti lítið um það.  Helst munu rímur hafa verið kveðnar í Kollsvíkurveri í landlegum. 
Ekki þekkti ég gítarspil á yngri árum, en eftir að ég kom í Dýrafjörð heyrði ég séra Sigtrygg Guðlaugsson spila á hörpu  eða langspil, það lá flatt á borði, strengjahljóðfæri og í sama sinn spilaði Björn Guðmundsson síðar skólastjóri á Núpi, á fiðlu, það var samspil hjá þeim. 

Helst var sunginn samsöngur á samkomum og mannamótum.  Ég man eftir að U.M.félagði Vestri hafði söng, raddaðan, á íþróttamóti í Örlygshöfn og stjórnaði þeim kór Helgi Árnason sem ég hefi áður nefnt.  Auk þess söng þessi kór í Breiðuvíkurkirkju og oft á samkomum heima í Kollsvík og Breiðavík.  Á orgel spiluðu Helgi Árnason, Anna Torfadóttir og Dagbjört systir hennar og í Breiðavík spilaði Ölöf Ólafsdóttir. 

Samkomuhús var ekkert í Rauðasandshreppi nema þinghúsið í Örlygshöfn og var því notast við litlar stofur undir lofti, þar sem baðstofa var yfir. Nú er löngu síðan komið gott samkomuhús og barnaskóli fyrir allan hreppinn.
Píanó voru engin til svo ég vissi á mínum verustöðum.  Fyrir dansi var aðallega spilað á harmoniku í Rauðasandshreppi; þó mun Kristinn Valdimarsson hafa spilað á seinni árum á orgel.  Í Kollsvík spilaði Grímur Árnason, Jón Torfason, Guðbjartur Torfason og í Breiðuvík Haraldur Ólafsson á harmoniku. 
Í Breiðavíkurkirkju man ég eftir að borið var orgel, í kirkjuna að sumarlagi, áður en keypt var orgel, sem ekki var langur vegur eftir sléttum grundum, en það mun hafa verið um 1920 eða nálægt því. Um aðrar kirkjur veit ég ekki með vissu en líklega ekki löngu síðar; líklega fyrst í Sauðlauksdal. 
Organistar:  Í Breiðavíkurkirkju spilaði Helgi Árnason eins og ég hefi áður sagt og í Saurbæjarkirkju spilaði Anna Torfadóttir eftir að hún fór að búa í Stekkadal á eða um 1920. Í Sauðlauksdalskirkju hefur það líklega verið einhver dóttir séra Þorvaldar Jakobssonar sem spilað á orgelið.  Hinn áðurnefndi blandaði kór dofnaði þegar U.M.F.skapurinn lagðist niður nema þá helst í kirkjunni, fólksflóttinn úr sveitinni var orsökin. 

 

Lestur og skrift

Sami höfundur.

Lestrarkennslan byrjaði á því að þekkja stafina.  Að því loknu var kennt að kveða að smáorðum og smátt og smátt bætt við fleiri atkvæðum og svo að taka saman atkvæði og gera úr þeim orð og síðan setningar. Mikið lagt upp úr því að gera stopp við punkt og kommu. Ekki get ég sagt hve gamall ég var þegar mér voru sýndir stafirnir, en 6-7 ára var ég orðinn allvel læs, kannski ekki bænabókafær. Yfirleitt varð ég þess ekki var að lestrarkennslan væri neitt vandamál hjá systkinum mínum eða börnum okkar hjóna og svo var um fleiri heimili sem ég þekkti til. Ég held að ef börn læra ekki að lesa 7-8 ára sé uppheldi ekki gott.   Eitt barna okkar hjóna lærði að lesa að mestu tilsagnar laust eftir að hann þekkti stafina, hann notaði mest sálmabókina mína sem ég fékk í fermingargjöf.  Foreldrar okkar kenndu okkur að lesa; þó meira móðir okkar.  Þó man ég vel eftir að faðir minn sat með mig í fangi og sat á rúmi sínu og vorum við með nýtt stafrófskver, en oftast var móðir mín með prjóna er hún sagði okkur til við lesturinn, og það gat verið hvenær sem var.  En þegar faðir minn sat með mig með nýja kverið var ljós á 14 línu lampanum í baðstofunni. Kennslustund mun hafa verið mislöng, líklega korter til hálftíma.  Ekki var sett fyrir, en eftir að maður gat eitthvað stautað, reyndi maður sjálfur, og þá kom þetta fljótt, en fljótlega lét móðir mín okkur lesa upphátt, því án þess lærir enginn maður að lesa svo viðunandi sé, þar með að lesa málið skýrt og réttan framburð.  Aðeins var einn í einu með lesturinn. Lítið eða ekki kenndi ég systkinum mínum. Það var aldrei neitt vandamál. Þegar presturinn kom að húsvitja, lét hann okkur æfinlega lesa úr ................., það var með allstóru og skýru letri.  

Engin orð voru notuð í skriftarkennslu til að byrja með, aðeins hallandi strik síðan komu litlir stafir, síðan stórir eða upphafsstafir og síðan orð og setningar. Það var mikið lagt upp úr því að vera vel skrifandi. Ég kannast vel við orðin hrafnaspark og kattarklór.  Forskriftin sem við höfðum var eftir Morten Hansen; falleg bogaskrift með grönnum og djúpum dráttum, síðan kom forskrift sem var eins og mykjureinar; allir drættir eins líflausir og engin tilþrif.   Eftir að við fórum að læra biblíusögur og kverið var það elsti bróðir okkar, Valdimar, sem kenndi okkur og síðan umferðakennari.   Fljótlega var byrjað á skriftarkennslu eftir að við gátum eitthvað í lestri. Valdimar kenndi mér að skrifa og var all strangur. Forskriftinni hefi ég sagt frá áður.   Ritföngin voru penni í pennastöng og blek. Í aðalatriðum hefi ég stafagerðina sem ég lærði sem barn, en útlitið er mikil afturför nú orðið. Því miður á ég ekki forskriftarbók frá bernsku minni.

Víst var fylgst með árangri alls náms í bernsku, sérstaklega móðir mín. Ekki var ég leystur frá verkum vegna námsins, enda ekki mikill að vexti til og við systkynin mörg á mismunandi aldri. Foreldrar mínir höfðu aldrei vinnufólk svo ég muni; aðeins eina fyrir mitt minni.   Eftirlit hafði presturinn; þá aðallega með lestri, svo komu umferðakennararnir.    Líklega hefi ég verið 7-8 ára þegar ég fór til kennara. Þetta eftirlit var aðeins fólgið í því að presturinn lét okkur lesa, en það þótti afleitt ef maður stóð sig illa, en móðir mín sá um það og síðar elsti bróðir okkar.    Mér hefur aldrei staðið stuggur af því að fara í próf.

Enginn kynjamismunur eða tal um að stúlkur þyrftu ekki að læra eins og strákar, slíkt var óþekkt í Kollsvík meðan ég var þar til 21 árs aldurs.   Lestrarnám sem og annað nám líkaði mér vel og svo er enn, þó hausinn sé farinn að bila við það, en tíminn nógur.   Reikningurinn var mér ávallt erfiðastur, árangur var aldrei nógu góður.    Kennarinn var ekki strangur, hins vegar frekar óþolinmóður, lítið man ég eftir hrósi í minn garð við nám.   Allir mínir kennarar voru góðir menn og samviskusamir.   Ég man ekki eftir barni sem ekkert gat lært, en mjög misjafnir hæfileikar.    Aldrei datt mér það í hug að ég gæti ekki lært, en mest langaði mig til að halda áfram að læra þegar ég var búinn að læra í barnaskóla.  Úr því rættist þegar ég var 21 árs, en þá fór ég á skólann á Hvanneyri og var þar í þrjú misseri.  Það voru yndislegir dagar.  Lestrar- og skriftarnám held ég að hafi verið með líkum hætti í Rauðasandshreppi í bernsku minni. Kennaraskipti voru ekki tíð, ég mun hafa numið hjá þremur kennurum þ.e. farkennurum.   Það er ekki mikill munur á aðferð og námi okkar barna og var í minni bernsku, þau voru öll 7 námsfús, en eitt hvarf okkar tilverusviði 12 ára gamalt en það hefur líklega verið bestum gáfum gætt.  

Þó nokkuð var af bókum sem ég hafði aðgang að. Best man ég eftir sögunni af Mjallhvít og fyrsta bókin sem ég átti sjálfur hét Bláskjár, útlend þýðing af ræningjum og ungum dreng af góðu fólki. Bernskan var lesin og svo stóra Biblían í skinnbandi með gotnesku letri, sem ég lærði fyrirhafnarlítið að lesa, og svo síðast en ekki síst, Íslendingasögurnar allar sem elsti bróðir minn átti, þær las ég flestar og var fljótur að skilja forna lesmálið. Ég tel að það hafi verið alger óþarfi að gefa Íslendingasögurnar út á nýmóðins stafsetningu, unga fólkið hefði ekki veitt af að leggja rækt við móðurmálið og læra þessa fornu stafsetningu.    Lestrarfélagsbækur komu á heimilið, ég man sérstaklega eftir því að faðir minn las á kvöldin Brasilíufarana, ekki man ég eftir því að lesið hafi verið fyrir mig í bernsku, en móðir mín sagði okkur oft sögur, vers og vísur og gátur. Elsti bróðir minn las mikið og fékk bækur og bæklinga frá Arthur G.... sem var á Akureyri.   Elsti bróðir minn las stundum sögur á kvöldin eftir Einar H. Kvaran o.fl. Ég man ekki eftir því að börnin læsu húslestur.    

Fyrstu búskaparár mín las ég húslestur á mínu heimili. Það voru ræður eftir prófessor Harald Níelsson; Árin og eilífðin, en það eru þær bestu ræður sem ég hefi heyrt fyrr og síðar og hafa haft varanleg áhrif á allt líf mitt mér til góðs.  Áður hafði faðir minn lesið Árin og eilífðin í stað Péturspostillu.    Það mætti margt segja um menntamál á Íslandi. Snar þáttur voru hinir fyrstu alþýðu- og bændaskólar. Þar ber hæst og fyrst Ólafsdalsskóli Torfa Bjarnasonar, sem var bæði verklegur og bóklegur og stóð langt á undan þeim bændaskólum s.s. Hólum og Hvanneyri, sérstaklega í verklegri mennt, og nú á síðari árum er verkleg mennt í bændaskólum að mestu hjá betri bændum að ég held. Flensborgarskólann sóttu menn utan af landi sér til gagns og ánægju.    Héraðsskólarnir gengdu ágætu hlutverki meðan fólk bjó í sveitunum, en nú er fólksfæðin orðin svo mikil að þeir eru ekki orðnir svipur hjá sjón. 

Nú er úr svo mörgu að velja að margur unglingurinn á erfitt með að velja sér námsbraut. Háskólinn er nú eitthvað að átta sig á því að það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt að mennta aðeins embættismenn og lögfræðinga. Ég gæti trúað að sá vísir að háksóla sem er (1984) í mótun á Akureyri verði þjóðinni allri til gagns.   Einnig hefi ég góða trú á Tækniskólanum. En mjög mikið veltur á að hin ráðandi öfl í þjóðfélaginu séu þessum stofnunum hliðholl og hvetjandi.    Séra Þorsteinn Kristjánsson sagði mér og fleirum þá sögu, að bóndi var í flagi með vinnumanni sínum að skera torf. Bóndi segir þá:

Lausamenn þeir lifa á tólg,
lúsugir með kláða.
                                            Vinnumaður bætti þá við:
Þeir eru bara fyrir fólk,
til framkvæmda og dáða.