Hvert sem litið er í Kollsvík blasa við mannvirki frá ýmsum tímum, þó eflaust sé það fleira sem horfið er.  Grjót var mikilvægt byggingarefni og hleðslumenn snjallir, en um hinsvegar var endurnýtingin í fyrirrúmi.  Því sjást t.d. engar minjar um hið mikla Láganúpsver, meðan flestar tóftir hins yngra Kollsvíkurvers eru sýnilegar.  Hér eru birtar greinar um þetta efni.  

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti).
Rústir   Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi segir frá minjum og minjavernd í Kollsvík.
Rústir og fornminjar  Hér fjallar Torfi Össurarson frá Kollsvík um sömu málefni.
Láganúpsver minjaskráning.  Guðmundur Stefán Sigurðarson fornl.fræðingur ritaði.

 

Rústir

sg sg

Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1992. 

Ég er hrædd um að of lítil virðing hafi verið borin fyrir gömlu rústunum og margir talið landhreinsun að slétta yfir þær; og það sem enn verra er, að róta þeim burt með jarðýtum. Þá leið fór gamli bæjarhóllin á Lambavatni sem var mest uppbyggður af hleðslum, þeim elstu áreiðanlega ævafornum. Þegar grafnar voru votheysgryfjur þarna í hólinn þegar ég var unglingur, náðu veggir það langt niður sem grafið var. Þar voru sagnir um að ekki mætti byggja bæi nema á hólnum vegna grjóthruns úr fjallinu annarsvegar en stórstraumsflæða hinsvegar.

Fornar hleðslur eru til á Melanesi á Rauðasandi sem munu taldar utanum akra og hafa verið rannsakaðar frá Þjóðminjasafni. Ekki kann ég að segja frá beitarhúsum í sveitinni en þau munu hafa verið á Skógi á Rauðasandi þar sem Saurbær (Saurbær átti Skóg) átti ítök og Bæjarfé var beitt fram á vetur a. m. k. fram til síðurstu aldamóta eða lengur. Ekki kann ég að staðsetja þau. Hér í Kollsvík er örnefni og sést raunar fyrir tótt, út á svonefndum Hústóttarbökkum sem eru yst á Hnífum en það eru háir sjávarklettar með graslautum og slökkum í brúninni. Engar sagnir eru nú um þessa tótt en hún gæti hafa verið beitarhús eða kannske heytótt eða smalakofi en þó tæplega þar sem hún er trúlega of stór til þess. Bæjarhúsatóttir eru hér víða en ég held flestar frá þessari öld en margar trúlega byggðar upp úr eldri tóttum.  Gott hleðslugrjót var notað öld eftir öld, kynslóð eftir kynslóð.

Hér á Láganúpi var í túninu hjáleiga sem hét Hólar. Þeir voru í byggð þegar Jarðamatsbók Árna og Páls var skrifuð þar er sagt að þar hafi byggst fyrir um 50 árum og síðast sem ég veit til er getið um Hólabónda í málsskjölum frá Sjöundármálum um aldam. 1800. Þessar bæjartóttir eru vel sýnilegar enn, þó sjálfsagt hafi verið rifið úr þeim grjót. Til gamans má geta þess að eitt af útihúsum Hólabónda er notað enn en efri hluti veggja verið byggðir upp og þak gert upp en það var með helluþaki þar til fyrir 3-4 árum. Þessi kofi er enn notaður hér fyrir reykhús. Þessi hluti túnsins heitir enn Hólar. Svo er hér upp með Gilinu gömul tótt að mestu horfin í sandfok en mótar aðeins fyrir. Engin deili vita menn á henni.

Gömlu bæjarhúsin á Láganúpi stóðu, bær fram af bæ, á Bæjarhólnum en því miður var sléttað yfir tóttirnar þegar bæjarstæðið var flutt neðar (frá Hjöllunum) 1934. Að vísu voru þá ekki komin stórvirk tæki til að róta öllu um, svo undirstöður eru þar enn undir sverðinum.

Gamlir grjótgarðar hafa fundist hér á kafi í sandi og gróið yfir svo engin merki sjást á yfirborði. Þeir hafa ekki verið kannaðir en virðast liggja þvert á norðanáttina sem hefur verið skæð með að ausa hér sandi úr fjörunni upp á túnið svo til vandræða hefur horft. Hefur mönnum því dottið í hug að þetta hafi verið sandvarnargarðar (kannske hefur Björn í Sauðlauksdal fengið þar hugmynd að sínum fræga Ranglát?) Túngarður hlaðinn er hér fram Hjallana fyrir ofan túnið. Tengdafaðir minn hlóð þennan garð á einum vetri árið 1927-´28. Eldri garður var þarna hlaðinn en orðinn ónýtur og notaði Guðbjartur tengdafaðir minn grjót úr þeim garði. Hann liggur fram hjallana og svo niður brekkuna í svonefnt Garðsendadý sem var foraðskelda undir brekkunni.

Stekkir hafa verið hér allmargir; flestir þó á Hnífunum. Þar eru, eins og áður var getið, lautir og bollar í brúninni og þar eru nafngreindir fjórir stekkir og sést vel fyrir hleðslum á þeim öllum. Hér næst er Þúfustekkkur og er hann undir smá klöpp þar sem Brunnsbrekkan tekur við norður af Hnífunum og nær niður að sjó. Stuttan spöl þar fyrir utan en smálaut heimantil við Strengbergið sem er hæsta brúnin á Hnífunum. Þar er Eyvararstekkur en utantil við Strengbergið er önnur svipuð laut með áþekkum smátóttum sem heitir Katrínarstekkur. Engin munnmæli eru til um við hvaða konur þessir stekkar eru kenndir en þeir eru mjög gamlir og mjög litlir. Sama má segja um fjórða stekkinn sem heitir Grófarstekkur. Hann er utar á Hnífunum upp af svonefndu Undirlendi í litlum djúpum bolla á brúninni. Hér í Víkinni voru mörg grasbýli þar sem fólk lifði á sjávarfangi og átti kannske örfáar kindur og líkur eru til að konurnar hafi haft þessa fáu ær í kvíum og stekkirnir verið nefndir eftir þeim enda eru þeir með ólíkindum litlir.

Bærinn Grundir var hér niðri við sjóinn. Hann fór í eyði um 1945. Þar standa allar tóttir að vísu nokkuð hrundar en þó furðu lítið. Bæjartóttir eru þar allgamlar; hafa verið byggðar upp í sama form gegn um tíðina. Ég held að sá bær hafi verið nokkuð dæmigerður fyrir byggingarlag hér í sveit (riss af bæjarhúsagrunni). Stigi var úr eldhúsi. Baðstofan var ekki þiljuð sundur.

Svo er í Grundatúninu fjóstótt og undirstæður undan hlöðu. Einnig smiðjutótt og yngri hlöðutótt. Niðri á bökkunum var byggt grasbýli framan af þessari öld og sér fyrir þeim tóttum. Þarna á sjávarkambinum er annars tótt við tótt. Þar voru fjárhús frá Grundum og Láganúpi ásamt lambhúsum, hrútakofum og fjárrétt. Þarna voru fyrir löngu verbúðir, en upp úr þeim tóttum munu fjárhúsin hafa verið byggð. Í jarðabókinni segir að til forna hafi þarna verið 18 búðir en lending hefur þar verið mjög slæm. Þar sést fyrir ruddri vör. Á kambinum er hlaðinn túngarður sem stendur sumstaðar mjög vel. Sagt var að bóndi fengi vermenn til að hlaða þennan garð í landlegum. Annars segja þeir Árni M og Páll V. að Grundir hafi byggst upp úr stekk fyrir um 50 árum sem hjáleiga frá Láganúpi. Fyrir ofan þennan garð voru hlaðnir veggir um kartöflugarða sem seinna standa það vel að þeir væru enn skepnuheldir með litlum lagfæringum.

Í rifinu með sjónum sjást öðru hvoru koma úr sandi nokkrir fornir steinbítsgarðar en þegar þeir hafa verið í notkun hefur ekki verið svo mikill sandur í fjörunni og nú er, annars hefði fokið í steinbítinn sandur. Stekkjarmelur heitir býli; hús í miðri Víkinni sem ber með sér að það er einnig byggt upp úr stekk. Í Tröð er mikið af tóttum, reyndar ekki mjög gamlar; byggt um 1910 af tengdaföður mínum, en þær standa mjög vel. Hann hlóð líka garð um túnblettinn. Hann hóf þar búskap um 1909. Á gamla bæjarhólnum í Kollsvík eru margar tóttir. Þar var jafnan tví og þríbýlt og væri kannske þess virði að þessar rústir væru rannsakaðar betur. T. d. sést vel fyrir tótt af baðstofu sem hrundi eða fauk árið 1857 og varð af mannskaði. Í svokölluðum Bergjum er gömul rétt; hlaðin, og þar og á Stöðlinum er bókstaflega allt morandi í hleðslum, garðar og kálgarðaveggir o. fl. sem mest er fallið í gleymsku. Önnur hlaðin rétt; yngri, er við túngarðinn á Tröð, hún var notuð fram á síðustu ár. Gamall kálgarður er á svo kölluðum Tranthala norður og upp af Kollsvíkurtúni með hlöðnum veggjum.

Í Kollsvík var hálfkirkja sem lögð var af við siðaskipti. Enn vita menn hér nokkurnveginn hvar sú kirkja stóð og smávegis mótar fyrir horni á Kirkjugarðinum enda hafa komið þar upp nokkrar beinagrindur þegar grafið hefur verið þar fyrir skepnuhúsum. Það mun hafa verið venja eftir siðaskipti að óvirða pápískar kirkjur og kirkjugarða með því að byggja þar gjarnan fjós og önnur útihús enda hefur fjósið og fjóshlaðan staðið þarna í aldir.

Kollsvíkurver er kapítuli út af fyrir sig en þar vísa ég í kver sem ég sendi með bréfi með svörum um ígangsföt frá Þjóðháttadeild f. ca 2 árum. Þar er kort af öllum tóttum þar. Þetta er niðjatal Guðbjartar og Hildar á Láganúpi.

Norðan til við Kollsvíkurtún er lítil lind sem heitir Gvendarbrunnur, enda átti Guðmundur góði að hafa vígt hana á flandri sínu um landið. Mikil trú var á lækningamætti þessa vatns; allt fram á þessa öld. T. d. færðu tvær systur sem fóru í heimsókn til systur sinnar í Dakota (hún flutti út ca 1920) flösku með vatni úr lindinni.  Þær voru fæddar og uppaldar í Kollsvík. Ef börn eru skírð heima hér í Víkinni þá er enn tekið skírnarvatn úr lindinni. Síðan var talið heilsusamlegt fyrir augun að baða þau úr margvígðu skírnarvatninu.

Hér á rifinu handan til við Kollsvíkurver er gömul lending og þar eru tvær vörður sem bera saman þegar bátar voru komnir í stefnu á lendinguna. Þær heita Snorravörður og eru orðnar vel fornar, a. m. k. er týnd saga af því hver þessi Snorri var. Tvær gamlar vörður eru hér sem voru eyktamörk. Önnur heitir Nónvarða og er á Hjallabrúninni þar sem sól ber í hana um nónleytið (kl. 3 síðdegis) frá Grundum. Hin er Hádegisvarða sem stendur við Hádegisskarð sem er smáskarð í Hjallana í hádegisstað frá gamla bænum á Láganúpi. Vörður eru að sjálfsögðu með öllum gömlu hestagötunum sem lágu hér um öll fjöll. Ein stóð hér við götuna yfir Hænuvíkurháls þar sem komið var upp Steilurnar sem liggja upp Húsadalinn. Hún hét Grasvarða sjálfsagt vegna þess að grasblettur var umhverfis hana þar sem hestar og menn höfðu áð þar gegnum aldirnar með tilheyrandi áburði. Annars er þarna urð og grjót. Þarna var lagður vegspotti að fjarskiptamastri sem reist var fyrir fáum árum og ekki var virðingin fyrir gömlum minjum meiri en það að þessi gamla varða ásamt tilheyrandi ræktunarlandi lenti undir veginum. Inn á Skersfjalli er ein ævaforn varða sem heitir Digra Tobba og hefur borið nafn með rentu, en farin að hrörna.

Eitt örnefni er hér fram á svokölluðu Umvarpi niður af Öxlinni sem er fremsti endi Hjallanna sem liggja í boga ofan við Láganúpstúnið. Þar er lítill hóll og lágur nokkuð aflangur sem heitir Fornmaður. Kannske hefur það helgast af nafninu að eitt sinn (fyrir um 50-60 árum) grófu strákar holu í hólinn en komu niður á klöpp eða stóran stein (kannske hellu!) Engar sagnir hef ég annars heyrt um þennan fornmann.

Þá er eftir að geta um refaskotbyrgi sem vitað er um a. m. k. sjö í Kollsvíkinni. Þar sem ég veit ekki til að þau séu annarsstaðar skráð þá held ég að ég megi til að bæta því hér við. Eitt byrgið er hér úti á Strengbergsbrúninni, alveg fram á blábrún svo tófan komst ekki framhjá nema fyrir ofan byrgið. Byrgin voru ekki meira en tæpur metri á lengd að innan máli, smá bálkur í endanum til að sitja á og rétt rými fyrir einn mann. Hlaðnir smá veggir og tyrft yfir. Dyr voru rétt hæfilegar til að skotmaður gæti skriðið um. Gjarnan var reynt að gera holu niður í brúnina, svo þetta yrði sem lægst og bæri minna á því. Svo var niðurburðurinn; dauð kind eða slíkt, hafður í hæfilegu skotfæri og grjót sett yfir svo rebbi rifi þetta ekki allt í sig þegar enginn var í byrginu. Þetta byrgi átti Ólafur Ásbjörnsson afabróðir minn, sem bjó á Láganúpi um síðustu aldamót og sagt var að hann hefði verið vanur að leggja sig í rökkrinu og sofna og ef hann dreymdi tófu fór hann út í byrgið og náði þá venjulega tófunni.

Annað byrgi var niðri við sjó, á svokölluðum Hreggnesa. Það munu Grundamenn hafa notað. Útbúnaður var sá sami á þessum byrgjum var eins og byggt fram á blábrún.
Svo var eitt byrgi á Kollsvíkurnúpnum og eitt á Sanddalsbrúnum rétt við Vallagjánna. Eitt ævafornt er á brúninni við Katrínarstekk og annað frammi á brún við Þúfustekk. Enn eitt er á Melsendaklettunum fyrir norðan Kollsvíkurverið.

Nokkur orð um vatnsmyllur: Ein var í Torfalæk og sést nokkuð til rústa, önnur í ánni en þar sést ekkert af henni, svo voru tvær í lækjum í Kollsvík, þar sem ég held að sjáist enn smávegis hleðslur.

Einu gleymdi ég næstum í sambandi við Guðmund góða en í Kollsvíkurtúni er nokkuð stór þúfa sem heitir Biskupsþúfa. Þar á Guðmundur biskup að hafa hvílt sig þegar hann gekk heim túnið frá lindarvígslunni. Túnið var sléttað þar í kring en þúfunni alltaf hlíft. Í þessari þúfu er steinn, en undir þeim steini átti Kollur landnámsmaður að hafa fólgið fé sitt. Svo átti hann að hafa lagt fyrir að heygja sig norður á Blakknestá en þaðan er sjónlína í þúfuna. Mátti þar engu hreyfa; að því viðlögðu að bærinn átti að brenna ef raskað yrði þúfum. Að lokum vil ég segja að ég hlýt að hafa verið vegghleðslumaður í einhverri fyrri tilveru; svo meinilla sem mér er við að hreyfa nokkrum grjóthleðslum! Kannske ber þessi langloka þess merki þó  margt sé enn ósagt, en þetta er það helsta.


Rústir og fornminjar

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa gerði hann fyrir Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1992.

Af fornum minjum í Kollsvík má nefna Gvendarbrunn. Hann er norðanverðu við gamla túnið í Kollsvík; niður undan Sandarhlíðinni heiman til. Þetta er tær lind, sem notuð er til hressingar sjúkra. Brunnurinn er djúpt grafinn inn í sandbrekku, sem er þó gróin í kringum brunninn. Brunnhús er yfir lind skammt frá gamla bæ. Bænhús var í Kollsvík í kaþólskum sið, og grafreitur. Hafa þar fundist mannabein. Þetta bænhús og grafreitur var skammt framan við bæjarhúsin.  Stöðull var fyrir framan túngarðinn, en kvíararinnar við túngarðinn, en í mínu barnsminni var byggð allstór fjárrétt fram við svokallaða Tröð. Stekkurinn var all langt fyrir framan Leitið. Þar var rétt og 2 lambakrær.    Útræði og uppsátur voru við sjóinn í verinu, þar réru heimamenn og margt aðkomumanna. 

Munu í Kollsvíkurveri hafa róið um og eftir síðustu aldamót 25-30 fjögurra manna för, sem voru sexróin flest. Verbúðir voru því margar og man ég eftir amk. 20, og voru 2 fyrir 2 skipshafnir. Þarna voru fiskgarðar og fiskhjallar, sem steinbítur var hertur á. Fiskhjallar þessir voru aðeins á stólpum með hjalltré og rár úr tré. Stólpar og garðar hlaðnir úr grjóti og torfi. Sumt af verbúðunum var notað fyrir fé að vetri. Þær voru með grindum í gólfi, þegar féð var á húsi, þ.e. rimlum á slám. Munnmæli segja að Kollur landnámsmaður í Kollsvík sé heygður á Blakknestánni.  Þegar komið er niður á túnbrekkuna niður af gamla bænum er stór steinn að hálfu grafinn í jörð að ofan og undir þessum steini er sagt að Kollur hafi grafið fé sitt.  Úr haugnum sér hann Biskupsþúfuna, en svo heitir steinn þessi. 

En víðar er grafið fé í jörð í Kollsvík. Það er nokkuð framarlega á Leitinu og sést þess glögg merki að leitað hafi verið á þessum stað að fé. Vel man ég gryfjuna sem gríðar stór hella hefur verið grafið upp eða velt upp úr gryfjunni, en þá sér á aðra hellu í gryfjunni. Sagt var að vermenn hefðu verið þarna að verki í landlegu, en þegar fyrri hellunni var lyft var komið gott sjóveður og var þá hætt við, en við það situr enn í dag.   Þinghúsi man ég eftir í Örlygshöfn í Rauðasandshreppi, en mun nú vera lítið eða ekki notað, því það var skammt frá þeim stað sem heimavistarskólinn er nú.  Þetta hús var hlaðið úr grjóti og steinlímt.   Gamall vegur liggur úr Kollsvík inn á Rauðasand, sem var fjölfarinn áður, en nú algert niðurlagðar ferðir þangað.  Einnig var vegsmynd yfir Breiðavíkurháls áður, sem var kirkjusókn úr Kollsvík, en ekki verður lagður akvegur um þann háls.    Naust var í Kollsvíkurveri, gamalt, fyrir áttróið hákarlaskip (Fönix eldri). Þetta naust var endurbyggt að mestu úr torfi og grjóti þegar þriggja tonna vélbátur (Fönix yngri) kom í Kollsvík og aðallega hafður til flutninga. Fjárrétt var sett við Grundatúnið, sem var einnig fyrir Láganúp. Þar voru einnig fjárhús með  rimlagólfum; þó eitt sandhús, þ.e. sandur borinn á gólfið og endurnýjaður eftir þörfum.    

Í Kollsvík þekkti ég engan álagablett, en í Keflavík heyrði ég sagt frá einum slíkum alllangt frá bænum fram í dalverpinu. Þá má nefna Heiðarkinn í Látrarbjargi, er Guðmundur góði lét vígja.    Álfabyggðir voru víða, því nóg eru fjöllinn í Rauðasandshreppi; fell og hólar. T.d. Stórhóll í suður frá Láganúpi, skammt frá sjávarklettum austur af Hnífum.  Skammt frá Stórhóli er all myndarlegur hellir í sjávarklettum með litlu opi, en sléttur með sandgólfi og er auðvelt að ganga í þennan helli. Tófuhúsbyrgi var út í Hnífabrún fast við húsið; notað frá Láganúpi, og annað norður á Blakk;, notað frá Kollsvík.

Bæjarhúsin gömlu stóðu ofarlega á túninu í Kollsvík.  Standa tóftirnar vel ennþá og eru í röð frá vestri til austurs, það er 1925. Smiðjuhús, síðar eldiviðar og hlóðaeldhús eftir að stóra timburhúsið var byggt. Þá skemma, grjóthlaðin með helluþaki en timburþil að framan; þá aflahjallur, grjótveggir; gömul tóft, íbúð föður míns, grjótveggir nema framveggir úr timbri og lítill skúr að framan; allt húsið timburklætt uppi og niðri. Þá göng  uppistandandi að gömlu baðstofunni, var fallin þegar ég man eftir.  Þar næst skemma föður míns grjóthlaðin; timburþil að framan; grjótveggir og helluþak á sterkum sperrum.  Síðast eldiviðshús og hlóðir fram við dyr; grjóthlaðið með helluþaki og tvöföldu torfi. En þannig voru öll útihús í Kollsvík þegar ég var ungur, nema stóra timburhúsið sem Torfi Jónsson byggði, löngu fyrir aldamót.

Grjótgarðar voru að vestanverðu við túnið í Kollsvík, frá Árnateig og niður að Mýri, síðan torfgirtur þar niður sem mýrin náði.  Gvendarbrunnur var vestur á melunum, stórt sandholt þar sem hún lindin spratt upp úr sandinum.  Bænhús eða jafnvel kirkja stóð lengi í Kollsvík og eru víst til heimildir um bæði.  Stór kirkjugarður er í Kollsvík, ofan á honum voru byggð löng hlaða og tvö fjós. Það heyrði ég að Kollsvíkurjörðin hafi áður heitið Kirkjuból.

Timburhúsið kjallari og hvor hæðin 3 stofur og eldhús, á loftinu var svefnverelsi, áður nefnt. Baðstofan gamla sem var óvenjustór, stafninn snéri fram á hlaðið og voru 2 góðir gluggar uppi og 2 niðri, timburþil suður að neðri gluggum neðst.  Allstór kví var austast við hlaðinn grjótgarð og stórsteina, önnur stærri var byggð austan við Tröðina en kring um all stóran túnblett þar var hár grjóthlaðinn veggur, fjárheldur.  Þar var búið um langa tíð; allt fram á þessa öld, ekki var það lögbýli.  Stekkur var langt fram í vík, þar voru tvær lambakrór með helluþaki flötu og svo allstór rétt.  Stöðullinn var rétt fyrir framan túngarðinn, þar voru kýrnar mjólkaðar að sumrinu.

Fjórar kornmyllur voru í Kollsvík, þó voru þær ekki allar í notkun þegar ég man eftir.  Fjárhús voru verbúðirnar í verinu, nema lambhús og hrútakofar efst í túninu.  Tvö hesthús voru í Kollsvík og bæði á Láganúpi og Grundum, en á þessum bæjum voru tvístæð fjárhús við sjóinn auk lambhúss og hrútakofa.  Tvö naust voru í Kollsvíkurveri; annað fyrir 10 róið skip. Annað mun hafa verið sauðahús við sjóinn það var allbreitt.  Hvalrif voru í þekjum, en þeim var farið að fækka þegar ég man fyrst eftir, og torfþökin rifin.

Útræði var mikið í Kollsvík fyrir og eftir síðustu aldamót. Guðbjartur föðurbróðir minn segist muna flesta 25 báta róa þar, með viðlegu í verbúðunum sem bændur ljáðu mönnum; uppsátur og verbúðir, og borguðu þeir bændum 6 kr uppsátur og 6 kr búðarpláss fyrir 4 menn, einnig fengu þeir áður að rífa lyng til uppkveikju í hlóðunum sem voru í kró úti.  Lögbýli voru aðeins þrjú í Kollsvík en lausamenn voru 4 í Kollsvík sem gerðu út báta, þessari útgerð fór mjög fækkandi af aðkomnu fólki, þó man ég eftir mönnum af Barðastr. sem gerðu út báta í Kollsvík og jafnvel úr Breiðafjarðareyjum.

Fyrsta steinhúsið var byggt í Kollsvík vorið 1917. Áður var byggt stórt steinhús í Saurbæ á Rauðasandi líklega á fyrsta tug þessarar aldar, síðar var byggt steinhús í Breiðavík um miðjan annan áratug þessarar aldar.  Sel var ekki í Kollsvík, en á Látrum var sel og læt hér eina frásögn um huldukonu sem þar gerði vart við sig og jafnvel núlifandi kona gæti sagt þessa sögn, en sagan er á þessa leið: Fólkið var að flytja sig heim úr selinu en daginn eftir er einn karlmaður sendur á selið til þess að sækja sitt rúmfatadót, en þegar hann kemur í selið sér hann að kona liggur í rúminu, sér líka að þetta er huldukona, hún ávarpar hann og biður hann að koma til sín í rúmið en það vill hann alls ekki gera og segir þá huldukonan að “aðrar konur skuli þá ekki þíðast hann úr því hann vilji ekki þíðast sig” og fór maðurinn heim við svo búið. En þessi maður giftist aldrei og kom þannig fram við huldukonuna. Þess skal getið að selið á Látrum var úti á bjargi því þar voru grösugir dalir.

Brunnhús var í Kollsvík, byggt yfir lind neðarlega nokkuð í túninu, einnig var brunnur hlaðinn þar sem tekið var fyrir hjá föður mínum, annar brunnur hlaðinn var við hitt fjósið, en hann var þurr á sumrin.  Allir bændur gerðu út báta, jafnvel allt sumarið. Heyskapur var meira í landlegum.

Sandhellir. Í Láganúps- og Grundarlandi var allstór hellir í sjávarklettum ofarlega og var auðvelt að ganga í hann; opið var vel manngegnt, gólfið slétt, þetta var Sandhellir. Tveir eða þrír hellar voru í klettum, mikið minni. Sandhelli gátu kindur gengið í.

Á svonefndu Náttmálaholti sjást enn leifar af grjótgörðum sem áður var hertur á steinbítur. Búðirnar í verinu eru rústir einar og fiskreitir úr grjóti sem saltfiskur var þurrkaður á nokkuð fram á þessa öld en að mestu horfnir í sand. Þrír lækir renna til sjávar í Kollsvíkurveri og heita þeir Norðasti lækur, Miðlækur og Syðstilækur, fjölmenni var mest við Miðlæk.  (Líklega misminni hjá TÖ;  „Norðasti lækur“ heitir Steingrímslækur og „Miðlækur“ er Búðarlækur. -VÖ-). 

Biskupsþúfa heitir stór steinn neðarlega á Túnbrekku, en þau munnmæli fylgja þessum steini að Kollur, landnámsmaður Kollsvíkur, hafi fólgið fé sitt undir.  Sjálfur á hann að vera heygður á Blakknestánni en þaðan sést þessi steinn og sér hvernig fer um fé það sem er fólgið undir honum; þ.e. fé Kolls.  Ég gæti trúað að steinninn sé klettanef sem jöklarnir hafi ekki jafnað við jörðu og held ég að þessi saga um Koll sé eintómt bull. Eins er landnámssagan rugl eitt, því í Kollsvík er nógur sandur til þess að lenda við en þar þurfti ekki að brjóta skipið.

Nafnkenndasti steinn í Kollsvík er Kryppukall efst í túninu, á aðra mannhæð.  Þennan stein notuðu smástrákar til þess að æfa sig í að síga í bjargi. Þá er Hempulág; nafnkenndur staður yst á Stórurðinni efst í eða við túnröndina, opið er að framanverðu; grasi gróin en stórgrýti kring.  Rétt fyrir ofan kvíagötuna um mitt leytið fram á stekkinn er talinn fólginn fjársjóður að sögn.  Þar var sagt að eitt vor í landlegu sjómanna í verinu tóku þeir sig til nokkrir hraustir strákar og tókst þeim að grafa upp stóra og þykka hellu og liggur hún á barmi gryfjunnar, en þá var komið sjóveður og var svo ekki meira af gullgreftrinum gert í það sinn. Oft hef ég komið og skoðað helluna sem þeir veltu upp og vel sést að önnur stór hella er eftir óhreyfð en hvenær þetta var gert veit ég ekki; sennilega eitthvað fyrir aldamót, þegar vermenn voru flestir þar í Kollsvíkurveri.

Þrjár kirkjur eru í Rauðasandshreppi; í Sauðlauksdal, Saurbæ á Rauðasandi og í Breiðavík, sú kirkja var höfð útundan því þar var aðeins messað fimmta hvern (messudag). Grafreitur var með þessum kirkjum og þarna voru þrjár sóknir.  Þingstaður var í Örlygshöfn; þar var byggt þinghús á öðrum tug þessarar aldar eða fyrr.

Skotbyrgi voru úti á Blakknesi og annað úti á Hnífum.  Þessi byrgi voru á blábrún hengiflugs og þar var borið niður æti fyrir refina.  Annars var algengt að skotmenn lægju fyrir tófu við sjóinn, og svo voru þær eltar uppi og skotnar; stundum eftir langan eltingarleik. Einu sinni mætti ég frænda mínum með tvær tófur, hvítar, sem hann hafði skotið úti á Blakknesi, en þær lágu saman er hann komst í skotfæri og féllu þær báðar í einu skoti.

Eyðibýli í Rauðasandshreppi og byggð býli (1984):  Sjöundá (fór í eyði 1913); Kirkjuhvammur; Melanes; Stekkadalur; Krókur; Naustabrekka; Keflavík; Látrar (þar voru áður margir bændur, núein kona með systur sína sjúka og nokkrar kindur); Breiðavík (ein hjón sem reka ferðaþjónustu); Kollsvík (einn bóndi með konu og fjögur börn); Láganúpur (einn bóndi farlama, konan hress); Grundir (í eyði); Hænuvík (einn bóndi, áður þrír eða fjórir; Nes (einn bóndi); í Örlygshöfn eru tvö eyðibýli; Vatnsdal (eyðibýli); Kvígindisda ( hjón með fáar kindur); Sauðlauksdalur (í eyði); Kóngsengjar og Hólar; á Hvalskeri er eitthvað fólk; Kot (löngu farið í eyði); Botn eða Vesturbotn (í eyði).  Á Rauðasandi eru þessi býli í byggð:  Lambavatn, Stakkar, Gröf, Saubær og Móberg.

Vegir gamlir eru eða voru úr Kollsvík út í Breiðuvík; inn í Hænuvík yfir Hænuvíkurháls; inn í Örlygshöfn bak við Hænuvík og Nes (Tunguheiði); inn á Rauðasand um Víknafjall, sem var lengsti vegur í hreppnum.  Þriggja stunda gangur á auðri jörð. Svo var all fjölfarinn vegur inn með öllum firði og yfir Kleifaheiði inn á Barðaströnd.  Eftir ströndinni var ágætur reiðvegur.


Láganúpsver minjaskráning

Skýrsla Minjastofnunar um Láganúpsver.  Unnin af Guðmundi Stefáni Sigurðarsyni hjá Minjastofnun.

Strandminjar – Skráningarskýrsla fyrir minjaheildir

Skráningarsvæði:  Útvíkur
Sveitarfélag (núverandi):  Vesturbyggð
Sveitarfélag (árið 1990):  Rauðasandshreppur
Sýsla:  Vestur-Barðastrandarsýsla
Jörð:  Láginúpur
Nafn:  Láganúpsver
Skráningaraðili:  Guðmundur Stefán Sigurðarson
Hlutverk minjaheildar:  Verstöð
Aldur frá:  9. öld.    Aldur til:  18. öld
Annað hlutverk minjaheildar:  Býli
Aldur frá:  18. öld    Aldur til:  20. öld


Staðhættir
Láganúpsver er sunnarlega í Kollsvík sem er ein af svonefndum Útvíkum. Hún er nyrsta víkin norður af Látrabjargi vestast á Vestfjörðum. Láganúpsver er í landi jarðarinnar Láganúps og eru minjarnar við sjávarbakkann um 700m norður af bæ á Láganúpi. Bæjartóftir býlisins Grunda eða Láganúpsgrunda (í eyði síðan 1963) eru um 150m suður af verstöðinni en tóftir kotsins Grundarbakka (í eyði frá 1943) eru á sama stað og verstöðvarminjarnar.

Sýnilegar minjar eru allar úr torfi og grjóti að undanskyldum stórum járnkatli í fjörunni sem tilheyrði skipi sem strandaði í víkinni árið 1913. Bygginga- og mannvirkjaleifar eru túngarður/sjóvarnargarður sem liggur meðfram bakkanum suður af verstöðinni. Skotbyrgi við norðurenda þessa garðs.
Strandminjar – Skráningarskýrsla fyrir minjaheildir
Leifar fjárhúsa frá Grund, leifar kotbýlisins Grundarbakka, a.m.k ein tóft og líklega öskuhaugur auk leifa sjálfrar verstöðvarinnar Láganúpsvers, 18 sjóbúðir eiga vera þar samkvæmt heimildum, en svo margar eru ekki sýnilegar á yfirborði. Fjöldi smáhóla og dælda benda hins vegar til minja undir sverði, auk þess sem hleðslur og aska sjást í rofabakka á stóru svæði.


Ástand Minjaheildar
Minjarnar eru í misjöfnu ástandi og misjafnlega greinilegar á yfirborði. Engin þeirra telst heilleg samkvæmt stöðlum MÍ. Tvær þeirra eru „vel greinanlegar“ þ.e. enn er hægt að sjá upprunalegt lag eða form þeirra þótt veggir séu grónir. Hinar teljast ýmist „greinanlegar“ eða „illgreinanlegar“ samkvæmt stöðlunum. Greinanlegar eru minjar sem má vel koma auga á en hleðslur eru signar eða hrundar að því marki að lögun er orðin ógreinileg. Illgreinanlegar teljast fornleifarnar sem hafa orðið fyrir töluverðu raski af völdum náttúru eða manna eða þar sem hleðslur eru mjög útflattar. Um helmingur sýnilegra minja sem gera má ráð fyrir að tengist verstöðinni lendir í þessum flokki. Tvær tóftir eru að hluta til brotnar í sjó og þá eru bæði hleðslur og mannvistarlög, rusl með dýra- og fiskibeinum, sýnileg í rofabakka. Auk sýnilegra minja má gera ráð fyrir umtalsverðum minjum í jörðu á svæðinu.
Hættumat:  Mikil hætta
Landbrot:  Viðvarandi landbrot


Landbrot; lýsing/saga
Samkvæmt samtali við Valdimar Össurarson frá Láganúpi, urðu breytingar á aðstæðum í Kollsvík uppúr 1980. Valdimar er fæddur og uppalinn á Láganúpi og stundaði m.a. Grásleppuveiðar þar á áttunda og níunda áratugnum, en um 1990 eyðilögðust hryggningarstöðvar grásleppunnar þegar þaraskógur eyddist sökum ofbeitar ígulkerja. Þessi þróun hófst þó fyrr og segir Valdimar að landbrot hafi aukist í sunnanverðri víkinni við Láganúpsver uppúr 1980 en sandburður aukist norðanvert við Kollsvíkurver. Lítið er vitað um sögu landbrots fyrir þann tíma en þó er greinilegt að einhverjar breytingar hafa orðið á aðstæðum í víkinni um aldamótin 1700 þegar aðallendingin er flutt frá Láganúpsveri að Kollsvíkurveri sökum brims og grynninga.
Sjóvarnir:  Nei
Aðgengi:  Gott aðgengi-engar hindranir , Aðgengilegt fótgangandi (gönguleið) , Aðgegnilegt af landi á bíl/tæki

Lýsing á aðgengi
Merkt gönguleið er að minjunum um 500 metra leið frá afleggjaranum að Láganúpi. Fara þarf um gróið þurrt land sem er vel fært á bíl.
Kunnugleiki:  Hefur staðbundna tengingu/sögu, Oft heimsóttur
Upplifunargildi:  Upplifunargildi staðarins er mikið, þrátt fyrir að minjarnar séu ekki mjög heillegar. Á skiltum er gerð grein fyrir sögu verstöðvarinnar og skipsstrands árið 1913, en minjar úr strandinu eru þarna í fjörunni. Að auki er mikil náttúrufegurð í víkinni sem eykur enn á upplifunargildi staðarins.
Staðbundin tenging/saga:  Staðurinn hefur tengingu við Landnámasögu og kemur fyrir í ýmsum heimildum frá síðari öldum.
Notkunargildi:  Svæðið er nú þegar nýtt til útivistar fyrir ferðafólk og hefur aðdráttarafl vegna bæði náttúru og menningarminja.
Rannsóknargildi:  Ekki er að fullu ljóst hve mikið er eftir af sjálfri verstöðinni. Gera má ráð fyrir að einhver hluti hennar sé nú þegar horfinn vegna landbrots. Engu að síður er ljóst að þar er heilmikill efniviður til rannsókna, öskuhaugar og byggingaleifar sem geta veitt miklar upplýsingar um sögu staðarins og sjávarnytja.
Mögulegar aðgerðir:  Lagt er til að reynt verði að verja bakkann framan við minjar Láganúpsvers t.a.m. með svipuðum hætti og gert var við Brunnaverstöð í Látravík. Slík framkvæmd þarf þó að vera unnin í nánu samstarfi við Minjastofnun Íslands, enda eru minjar í bakkanum sem auðveldlega geta orðið fyrir raski við slíka framkvæmd sem og uppi á bakkanum sjálfum.