Fundagerðabækur Rauðasandshrepps geyma mikinn fróðleik um mannlíf og athafnir.  Hér eru birtar fundargerðir almennra hreppsfunda og stiklað á málefnum hreppsnefndarfunda frá vorinu 1958 til haustsins 1976.

Hér er „farið á hundavaði“ yfir gerðabækur hreppsnefndar Rauðasandshrepps sem varðveittar hafa verið á Láganúpi frá oddvitatíð Össurar Guðbjartssonar, en skilað Þjóðskjalasafni í júní 2018, þar sem enn skortir héraðsskjalasafn.  Stiklað á málefnum hreppsnefndarfunda en orðrétt ritað upp af almennum hreppsfundum.  Bækurnar eru fjórar.  Elsta fundargerð í þeim er frá 3.júlí 1958, en sú yngsta frá 7.sept 1976.  Síðustu bókinni úr oddvitatíð Össurar var skilað til Árnheiðar Guðnadóttur sem tók við oddvitastarfi eftir að hann veiktist. Þá höfðu almennir hreppsfundir lagst af vegna fækkunar í hreppnum.

talning 1971Hér má sjá hreppsnefnd Rauðasandshrepps, líklega kringum 1970, fara yfir atkvæði eftir einhverja atkvæðagreiðslu í Fagrahvammi.  Snæbjörn J. Thoroddsen er þarna í þungum þönkum; Össur Guðbjartsson skrifar og Ívar Ívarsson telur uppúr "kjörkassanum", sem þarna var stór pottur úr eldhúsinu.

 

 

03.07.1958.  Skipað verkum eftir kosningar og ákveðin þóknun starfsmanna hreppsins.  Lán til vegalagningar yfir Kollsvík og við Hvalsker.  Greiðsluskylda hreppsbúa sem vinna í öðrum sveitarfélögum.  Verðlaun nautgripa.  Eyðing refa og minka.  Viðhald Örlygshafnar- og Hvalskersbryggja.  Ástand eyðijarða.

09.08.1958.  Kærufundur vegna útsvarskæru.

01.09.1958.  Kauptilboð jarðarinnar Efra-Lambavatn.  Undirskriftasöfnun margra hreppsbrúa um að Hnjótsá verði brúuð samtímis Mikladalsá.

06.09.1958.  Ráðstafað fjallskilum; gefnir út fjallskilaseðlar.  Réttargjald.  Sauðfjárbaðanir verði annaðhvert ár.  Útsvarsgreiðslur fjarvinnandi hreppsbúa.  Þátttaka í kostnaði við hrútasýningar.

12.10.1958.  Lán á sviði samkomuhúss til barnakennslu.  Rætt um sullaveiki; samþykkt að byggja hundalækningahús.

11.11.1958.  Fundur bryggjunefndar Örlygshafnarbryggju.  Rædd virðingargjörð vegna viðgerða.

09.12.1958.  Erfiðleikar sem skapast vegna eyðijarða, t.d. við smölun.  Reglugerð um fasteignaskatt.  Vanræksla fjallskila.

10.12.1958.  Ívar Ívarsson afhendir söfnunarfé til endurbyggingar fjárrétta.

16.01.1959.  Greiðsla fóðurbætislána bænda.  Útsvarskærur.  Lokið byggingu Skógarréttar.  Ástand vegna eyðijarða.

13.02.1959.  Ársreikningur liðins árs.  Styrkt kaup á röntgentækjum.  Kvöldverður þingfulltrúa á rafveituþingi.  Hreppsfundur.

Almennur hreppsfundur 14.04.1959 í Fagrahvammi

Oddviti, Snæbjörn J. Thoroddsen setti fundinn.  Þessi mál voru tekin fyrir og rædd:

 1. Reikningar hreppsins voru lesnir upp af oddvita.  Nokkrar umræður urðu um það hvort greiða ætti kjörstjórnum þóknun fyrir störf sín eða ekki.  Var þetta síðan borið undir atkvæði og fellt að greiða þóknun, með jöfnum atkvæðum.
 2. Ívar Ívarsson hafði framsögu um fjallskilamál. Las hann í því sambandi 45.gr fjallskilareglugerðar V-Barð og fjallar hún um svelti og meðferð fjár í sveltum og kostnað vegna þess.  Ræddi hann m.a. um nauðsyn þess að girða eða gera veg að sveltum í sveitinni.  Júlíus Kristjánsson gat þess að hann hefði verið með í að taka úr svelti í um 20 stöðum.  Með tilliti til þess hve mikinn fjölda staða hér væri um að ræða sem mögulegt væri að kindur gætu lent í svelti í, myndi það verða nær ógerlegt að setja örugga vörslu um þau.  Í þessu sambandi drap oddviti á ákvæði reglugerðarinnar um endurbyggingu og viðhald réttanna.  Gat hann þess að hreppsnefndin hefði lagt á sl ári 1 kr á kind sem ganga á til endurbyggingar réttanna.  Fáeinir menn höfðu neitað að greiða þetta gjald á þeim forsendum að hreppsnefndin hefði ekki heimild til að leggja það á.  Tillaga kom fram um að kjósa 3 manna nefnd til þess að athuga möguleika á að setja vörslu um sveltin.  Þessir menn voru kjörnir:  Þórður Jónsson, Hafliði Halldórsson og Bragi Ívarsson.  Oddviti óskaði eftir að heyra álit manna um það hvort kjósa ætti alla fjallskilanefnd og stofna fjallskilasjóð, svo sem reglugerðin gefur heimild til.  Björn Loftsson taldi ekki nauðsynlegt að skipa fjallskilanefnd, en taldi þó æskilegt að fjallskilasjóður væri til.  Fleiri ræddu málið frá ýmsum hliðum.  Málið var svo tekið út af dagskrá.
 3. Oddviti gat þess að hreppsnefndin hefði orðið sammála um að leggja til að sveitarsjóður legði fram kr 5.000 til kaupa á röntgentækjum til sjúkrahússins á Patreksfirði. Samþykkt samhljóða.
 4. Ný reglugerð um innheimtu fasteignaskatts. Hreppsnefndin lagði fram frumvarp að slíkri reglugerð fyrir Rauðasandshrepp, sem sýslunefnd þarf að samþykkja til þess að hún taki gildi.  Oddviti las upp frumvarpið og skýrði ýmis atriði þar að lútandi.  Nokkrar umræður urðu um málið og voru menn yfirleitt fylgjandi frumvarpinu.  Það var síðan samþykkt samhljóða.
 5. Fræðslumál. Oddviti óskaði að heyra álit skólanefndar og kennara um hvernig gefist hefði að nota Fagrahvamm sem kennslustað, og framtíðarhorfur í þeim málum.  Formaður skólanefndar gerði grein fyrir málinu frá sjónarmiði skólamálanna á síðasta hausti.  Össur Guðbjartsson gat þess að reynsla sín sem kennara af félagsheimilinu fyrir kennslustað væri góð, en ekki mætti reikna með því sem framtíðarkennslustað, og nefndi hann til þess nokkur rök svo sem að koma fyrir krökkum o.fl.  Drap hann á að framtíðarlausnin yrði að vera heimavistarskóli.  Fleiri tóku til máls og voru yfirleitt sammála um að ekki væri fært að hverfa aftur að hinu gamla fyrirkomulagi með kennslu; þ.e. að kenna á heimilum.  Framtíðarlausnin væri heimavistarskóli.  Oddviti gerði grein fyrir störfum nefndar er kosin var í fyrra til þess að vinna að skólabyggingarmálum.  Samkvæmt því er ekkii að vænta opinberrar aðstoðar til skólabyggingarinnar á næstunni.  Málið var síðan tekið út af dagskrá.
 6. Samgöngumál og sýslunefndarmál. Óskaði oddviti eftir að heyra frá sýslunefndarmanninum um mál sem hann kynni að hafa áhuga á að leggja fyrir sýslufund.  Sýslunefndarmaður, Kr. Júl. Kristjánsson tók til máls og óskaði að heyra frá mönnum um mál sem þeir óskuðu að leggja fyrir sýslufund.  Ólafur Guðbjartsson fór fram á að fá verulegt framlag í sýsluveginn frá Gjögrum að Kollsvík.  Snæbjörn Thoroddsen taldi miklar líkur til þess að Rauðasandshreppur fengi töluverðan hluta af fjárframlagi til sýsluvega í Barðastrandasýslu.  Þá kom fram tillaga frá Snæbirni J. Thoroddsen:  „Leiðin Gjögrar yfir Örlygshöfn nálægt sjó að þjóðveginum við Hafnarmúla var um skeið talin annaðtveggja; sýsluvegur eða þjóðleið, eftir því hvar þjóðvegurinn yrði lagður um Örlygshöfn að Gjögrum.  Var þá svo um talað að sú leiðin sem ekki yrði tekin í tölu þjóðvega yrði sýsluvegur.  Þjóðvegurinn var lagður kringum Örlygshöfn með byggðinni eins og eðlilegt var.  Margur vegfarandi; innan- og utansveitar, hefur látið í ljósi sterka ósk um að akfær vegur lægi um þessa beinu leið niðri, með traustri bílgengri brú á Hafnarvaðli.  Fyrir því beinir fundurinn því til næsta sýslufundar að hann taki þessa leið upp í tölu sýsluvega og veiti til hennar fé af sýsluvegasjóði þegar/ svo fljótt sem ástæður leyfa“.  Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.  Tillaga kom fram frá Ólafi Guðbjartssyni og Össuri Guðbjartssyni:  „Almennur hreppsfundur beinir þeirri áskorun til sýslufundar V-Barð að á þessu ári verði verulegum hluta sýsluvegafjár varið til umbóta á veginum yfir Hænuvíkurháls.  Ennfremur skorar fundurinn á sýslunefnd að fjárveiting af fjallvegafé verði veitt til sama vegar“.  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.  Tillaga kom fram frá Ívari Ívarssyni og Agli Ólafssyni, svohljóðandi:  „Fundurinn beinir þeim tilmælum til sýslunefndar að hún beiti sér fyrir því að sem fyrst verði veitt fé úr brúarsjóði til byggingar brúar á Suðurfossá á Rauðasandi“.  Viðbótartillaga kom frá Snæbirni Thoroddsen, svohljóðandi:  „Fáist ekki fé af brúarsjóði til þessa verks telur fundurinn svo aðkallandi brú á þessa á að hann treystir sýslufundi til að gera allt sem hægt er til þess að hrinda verkinu í framkvæmd sem allra fyrst“.  Tillagan ásamt viðbótartillögunni borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.  Þá flutti oddviti eftirfarandi tillögu:  „Fundurinn lýsir því yfir að hann telur vá fyrir dyrum í íslenskum landbúnaði (sauðfjárbúskap) ef mæðiveikin kemst í Vestfjarðastofninn.  Hann beinir því þessvegna til næsta sýslufundar að hann beiti sér fyrir því að strax á næsta vori verði tvöfölduð varnargirðing á leiðinni Klettháls-Ísafjarðardjúp, og hin eldri girðing treyst svo að örugg sé, og aukin varsla á þeirri leið.  Komi það svo á daginn að við haustslátrun finnist mæðiveiki víðar en á Reykjanesi, þá verði allt fé í þessu hólfi strax skorið niður“.  Tillagan samþykkt samhljóða.  Enn flutti oddviti tillögu:  „Fundurinn beinir því til næsta sýslufundar að hinn væntanlegi dýralæknir á svæðinu Barðastrandasýsla – V.Ísafjarðarsýsla verði staðsettur á Patreksfirði eða næsta nágrenni, með tilliti til þess að hann sé sem best miðsvæðis og því auðveldast fyrir alla að ná til hans“.  Tillagan samþykkt samhljóða.
 7. Félagsheimilið Fagrihvammur. Þórður Jónsson las upp reikninga félagsheimilisins og gerði grein fyrir störfum húsnefndar og framtíðarhorfum reksturs.  Ræddi hann málið frá ýmsum hliðum.  Nokkrar umræður urðu um skýrslu Þórðar.  Þá var kosin húsnefnd; aðalmenn voru kjörnir: Þórður Jónsson með 16 atkv; Ragnheiður Magnúsdóttir 15 atkv; Árni Helgason 13 atkv; Fríða Guðbjartsdóttir 11 atkv; Dagbjört Torfadóttir 10 atkv.  Varamenn:  Ólafur Sveinsson 16 atkv; Kristbjörg Guðmundsdóttir 14 atkv; Anna Hafliðadóttir 13 atkv; Dagbjörg Ólafsdóttir 12 atkv; Óli Ingvarsson 10 atkv. 
 8. Fóðurbætislán. Snæbjörn J. Thoroddsen gerði grein fyrir afborgunum fóðurbætislána og eftirgjöf nokkurra lána.  Vegna dráttar á afborgunum af lánunum og dráttar hjá stjórn Bjargráðasjóðs að taka ákvörðun um eftirgjöf til einstakra manna, taldi hann, þ.e. oddvitinn, ekki ástæðu að greiða til Bjargráðasjóðs þær afborganir sem þegar hafa verið greiddar og eru þær nú geymdar á vöxtum, þar til ákvarðanir verða teknar hjá Bjargráðasjóði um málið.
 9. Þá var borin undir atkvæði tillaga stjórnar Sjúkrasamlags Rauðasandshrepps um að sjúkrasamlagið gæfi kr 3.000 til kaupa á áðurnefndum röntgentækjum til Sjúkrahússins á Patreksfirði. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
 10. Kjördæmamálið. Kristján Júlíus Kristjánsson hafði framsögu í málinu.  Drap hann m.a. á það að með því að kjördæmabreytingin kæmist á myndu sveitirnar missa áhrif á Alþingi, sem þær nú hafa.  Þá taldi hann að algert hlutfallskosningafyrirkomulag myndi leiða til myndunar margra flokka, sem aftur myndi leiða til glundroða í stjórnmálum.  Ívar Ívarsson talaði einnig og mjög á sömu lund og fyrri ræðumaður.  Fram kom svohljóðandi tillaga:  „Almennur hreppsfundur ályktar að breytingartillaga sú við stjórnarskrá Íslands sem fram er komin á Alþingi, og felur í sér sameiningu allra einmennings- og tvímenningskjördæma í fá og stór kjördæmi, myndi leiða til þess fyrst og fremst að réttur hinna dreifðu byggða, og þá fyrst og fremst sveitanna, verði mjög fyrir borð borinn á löggjafarsamkomu þjóðarinnar; þar sem þingmönnum eru með því gefnar frjálsar hendur um það hvaða hópa manna þeir vinna fyrir.  Mun það tvímælalaust verða til þess að fjárframlög til opinberra framkvæmda renna fyrst og fremst til kaupstaða og kauptúna.  Ennfremur lítur fundurinn svo á að aðeins hlutfallskosningar til Alþingis leiði til myndunar fjölda smáflokka, en slík þróun hefur með öðrum þjóðum reynst hættuleg.  Fyrir því skorar fundurinn á Alþingi að fella framkomna tillögu um kjördæmamálið“.  Allheitar umræður urðu um málið og skiptust menn í flokka með og móti.  Oddviti tók fram að hann myndi ekki bera tillöguna undir atkvæði og fela öðrum fundarstjórn.  Þá kom fram svohljóðandi dagskrártillaga frá Birni Loftssyni:  „Fundurinn telur ekki hollt að draga að ástæðulausu stórpólitísk mál inn á sveitarfundi.  Og þar sem orðið er áliðið dags og menn þurfa að hraða sér heim telur fundurinn rétt að vísa þessu máli frá“.  Oddviti neitaði algerlega að bera ofanritaðar tillögur undir atkvæði.  Varaoddviti bar þá undir atkvæði fundarmanna hvort bera ætti tillögurnar undir atkvæði.  Var það fellt.  Var síðan fundi slitið.

            Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)      Ívar Ívarsson (varaoddviti)    Össur Guðbjartsson (fundarritari)        

14.05.1959.  Fundur hr.nefndar með þeim sem tóku óþurrkalán 1955-56.  Bjargráðasjóður býður 20% afföll endurgreiðslu lána.  Fundurinn samþykkir að fara fram á 50% afföll.

08.06.1959.  Niðurjöfnun útsvara 1959; alls kr. 159.805.  Afsláttur 10% til skilvísra.  Niðurjöfnun fasteignaskatts.  Rædd 17.júní hátíðahöld.  Ásgeir og Bragi fengnir til grenjavinnslu.  Rætt um eitt hundahreinsunarhús fyrir alla hreppa sýslunnar.  Ákveðið að hætta fjárveitingum til gömlu hreppsveganna (hestaveganna) þar sem þeir eru fallnir úr notkun.  Hreppurinn láni fé til að klára veg yfir Kollsvíkina, standi á fjárveitingum.  Húsþrifareikningi vegna heimvistar hafnað þar sem leiga var greidd.  Bjargráðasjóðslán gefið eftir.  Skipaðar kjörstjórnir í fjórum kjördeildum hreppsins.

02.07.1959.  Fóðurbætislán gefið eftir.  Málefni Bjargráðasjóðslána.  Sparisjóðurinn lánar fé til brúará Litladalsá hjá Hvalskeri.

22.07.1959.  Fjallað um útsvarskærur.  Hreppurinn mun liðka fyrir vegagerð í Örlygshöfn og Víkum.  Umboð til Þ.J. til að koma fram f.h. hreppsins í veislu.

19.09.1959.  Gengið frá kjörskrám.  Útsvarskærur.  Fyrstu leitir felldar niður vegna langvarandi óþerris.

26.11.1959.  Bjargráðasjóðslánin; sjóðurinn vill ekki fallast á aukna eftirgjöf.  Útsvarsskuldir.  Húsaleiga skóla í Fagrahvammi.  Athugasemdir forðagæslumanna um fóðurvöntun.  Listi um greiðendur réttargjalda.

Almennur hreppsfundur 12.03.1960 í Fagrahvammi

 1. Oddviti las upp reikninga sveitarsjóðs fyrir sl ár. Ívar Ívarsson ræddi nokkuð um sameiningu Ekkna- og munaðarleysingjasjóðs við Styrktarsjóð Rauðasandshrepps.  Vakti hann athygli á afstöðu sinni til þeirrar ákvörðunar og taldi að verkefni hans sem sjálfstæðrar stofnunar væri enn fyrir hendi.  Þá taldi hann reikningsuppgjör Félagsheimilisins ófullnægjandi.  Þórður Jónsson gerði grein fyrir reikningum Félagsheimilisins og kvaðst albúinn að breyta formi reikninganna.  Össur Guðbjartsson mótmælti aðferð þeirri sem notuð var á árinu við úthlutun úr Styrktarsjóði, en hún var sú að 3 menn af 7, sem um það eiga að fjalla, veittu styrk úr honum.  Snæbjörn talaði og gerði frekari grein fyrir þeim atriðum ýmsum sem til umræðu voru.  Séra Grímur gat þess í sambandi við úthlutun úr Styrktarsjóði að það skyldi ekki henda aftur að úthluta úr honum án þess að þeir sem um það ættu að fjalla væru allir viðstaddir.  Þá lagði hann til að fjölrituð yrðu ca 30 eintök af hreppsreikningunum og send bændum til athugunar og glöggvunar.
 2. Oddviti gat þess að komið hefði fram ósk um það að leggja niður kjördeildina á Hvalskeri. Össur Guðbjartsson gat þess að hann væri fylgjandi einni kjördeild í hreppnum; að minnsta kosti að Kollsvík ætti kjörsókn að Örlygshöfn.  Ólafur Guðbjartsson og Ingvar Guðbjartsson lýstu sig sammála því.  Ívar Ívarsson taldi ekki rétt að sameina hreppinn í eina kjördeild og lýsti sig því andvígan.  Þá kom fram tillaga frá sr. Grími Grímssyni þess efnis að fækka kjördeildum úr fjórum í eina, sem staðsett væri í Fagrahvammi.  Oddviti lýsti því yfir að hann teldi ekki tímabært að greiða atkvæði um þessa tillögu vegna þess að ekki hefði verið löglega til fundarins boðað.  Þá var borið undir atkvæði hvort leggja ætti niður Hvalskerskjördeild og sameina hana Hafnarkjördeild.  Var það samþykkt samhljóða.
 3. Oddviti ræddi nokkuð um samgöngumál sveitarinnar og gat þess hvaða tillögur hann hefði gert, aðspurður um þessi mál. Gat hann þess að hreppsnefndarmennirnir hefðu ekki verið til kvaddir um þessi mál.  Þessir töluðu: Kristján Júlíus Kristjánsson, Ólafur Guðbjartsson, Ívar Ívarsson, Össur Guðbjartsson, Snæbjörn Thoroddsen og Bjarni Sigurbjörnsson.  Þá kom fram svohljóðandi tillaga:  „Fundurinn mælir eindregið með því að Víknavegur og Melanesvegur verði teknir í þjóðvegatölu, næst þegar vegalög verða opnuð“.  Samþykkt samhljóða.
 4. Staðsetning dýralæknis. Málið var til umræðu í fyrra og gerð samþykkt í því .  Þá þakkaði fundurinn Ólafi Magnússyni vel unnin störf við dýralækningar í sveitinni og samþykkti að skrifa Búnaðarþingi því sem nú situr, og fá viðurkenningu og þóknun honum til handa.  Þá var fundurinn sammála um að mæla með því að væntanlegur dýralæknir yrði staðsettur á Patreksfirði. 
 5. Þá las oddviti upp nokkrar nýjar reglur varðandi útsvarsálagningu.
  Kaffihlé. Í kaffihléi skýrði Daníel Eggertsson frá rekstri og afkomuhorfum Sjúkrasamlags Rauðasandshrepps.
 6. Oddviti þakkaði húsnefndinni vel unnin störf, og gaf síðan orðið frjálst.  Þórður Jónsson kvaddi sér hljóðs og skýrði nánar frá rekstri heimilisins en tekið var fram í reikningunum.  Kvað hann veturinn sl ár hafa orðið mjög góðan, því líta þyrfti á fleira en peningahliðina eina.  Drap hann á margt fleira í sambandi við reksturinn.  Gat hann þess að rætt hefði verið um það við Tungubændur að fá rafmagn til heimilisins frá virkjun þeirra.  Snæbjörn lagði til að þetta mál yrði falið húsnefndinni og hún gæfi upplýsingar um það á næsta hreppsfundi.  Var það samþykkt.  Snæbjörn gat þess að á fimmtugsafmæli Sparisjóðsins myndi hann sjá um viðgerð á girðingu kringum lóð heimilisins.  Ræddi hann síðan nokkuð um þá hlið reksturs hússins sem snertir kennslumál.  Árni Helgason ræddi einnig nokkuð um þessa hlið málsins.  Þá var gengið til kosninga í húsnefnd.  Þessir hlutu kosningu sem aðalmenn:  Þórður Jónsson með 22 atkv; Árni Heldgason 15; Ragheiður Magnúsdóttir 20; Dagbjört Torfadóttir 15; Fríða Guðbjartsdóttir 18.  Til vara: Ólafur Sveinsson; Óli Ingvarsson; Kristbjörg Guðmundsdóttir; Anna Hafliðadóttir og Dagbjörg Ólafsdóttir.
 7. Ýmis mál. Ingvar Guðbjartsson hóf máls á því að hreppsnefndin beitti sér fyrir því að merktir yrðu sjúkraflugvellir það í sveitinni sem aðstaða væri til.  Þá drap hann á að hreppsnefndin sæi um að keypt væri a.m.k. ein vatnsdæla við Ferguson traktor, sem nota mætti ef bruna bæri að höndum, og yrði hún staðsett miðsvæðis í sveitinni.  Var gerður góður rómur að þessu.  Var fyrra málinu beint til aðalfundar Bræðrabandsins, en því síðara til umboðsmanns Brunabótafélags Íslands til frekari athugunar.  Fleira var ekki rætt á fundinum.

        Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)              Össur Guðbjartsson (fundarritari)

 

09.04.1960.  Umsókn Sláturfélagsins Örlygs um framlag til atvinnuaukningar vegna byggingarkostnaðar sláturhússins; styrkurinn hækki í kr 300.000.  Lagðar kr 500.000 til samgöngubóta, mest til brúar á Suðurfossá.  Mælt með framlagi Atvinnujöfnunarsjóðs til illa stæðs bónda.  Samþ að skipa sérstaka 17.júní-nefnd: sr. Grímur Grímsson, Guðrún Jónsdóttir, Björn Loftsson, Anna Hafliðadóttir og Kristján Júl. Kristjánsson.

06.07.1960.  Niðurjöfnun útsvara.  Viðurkenning til Ólafs Magnússonar fyrir dýralækningar.  Hreppurinn greiði kostnað við dauðaleit vegna slys í Vatndal.  Hundahreinsun verði undir stjórn Ólafs Magnússonar.  Vistheimilið Breiðavík greiði til almennra þarfa hreppsins.  Vegna erindis Dýraverndunarfélags Íslands var sent bréf til bænda sem þurfa að laga hús og girðingar, þ.m.t. eigendum eyðijarða.

28.08.1960.  Samning fjallskilaseðla; 1 á hvert réttarsvæði.  Réttargjald 1 kr á kind, nema 2 á Rauðasandi.  Rædd réttarbygging í Sauðlauksdal.  Valur Thoroddsen skipaður forðagæslumaður í stað Helga Elíassonar.  Umsögn um lög um sveitarstjórnarkosningar; ákvæði óskýrt um varamenn; ekki rétt að afnema heitið „oddviti“.  Beiðni Slf. Örlygs um styrk til slátúrhúsbyggingar vísað til almenns hreppsfundar.  Beiðni send Bjargráðasjóði vegna illa stadds bónda.  Útsvarskærur.

16.11.1960 fundaði hreppsnefndin með stjórn Sláturfélagsins Örlygs um fyrirhugaða sláturhúsbyggingu og styrkbeiðnir vegna hennar.  Ágreiningur, þar sem Rauðsendingar vilja halda sínu sláturhúsi.  Málið rætt á sértstökum hreppsfundi.  Önnur hreppsnefndarmál:  Álag á framlög til lestrarfélaganna í hreppnum.  Framlag til Slvd. Bræðrabandsins.  Fyrirhugað allsherjarmanntal.  Girðing við Skógarrétt.  Listi greiðenda réttargjalda.

19.02.1961.  Reikningar hreppsins.  Fjallskilareglugerð verði breytt varðandi leitardaga.  Skýli við Skógarrétt.  Hugsanleg stækkun Félagsh. Fagrahvamms vegna barnaskóla.  Leitað álits stofnana varðandi byggingu sláturhúss.  Umræður um fækkun kjördeilda.

Almennur hreppsfundur 22.03.1961 í Fagrahvammi

 1. Oddviti gerði grein fyrir reikningum og fjárhagsafkomu sveitarsjóðs. Engar umræður urðu um reikningana og málið tekið út af dagskrá.
 2. Skipulagsskrá fyrir Styrktarsjóð Rauðasandshrepps. Kosin hafði verið nefnd á síðasta hreppsfundi til að semja þessa skrá og leggja hana svo fyrir næsta almennan hreppsfund.  Nefndin hafði lokið störfum, og var frumvarp að skipulagsskránni lesið upp af oddvita.  Umræður urðu nokkrar um ýmsar greinar frumvarpsins, einkum um stjórnarskipun sjóðsins.  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórnina skipi sóknarprestur, oddviti og hreppstjóri sem aðalmenn.  Varastjórn; formaður Búnaðarfélagsins Örlygs, safnaðarfulltrúi Sauðlauksdals og formaður Bræðrabandsins.  Ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson mæltu gegn því og töldu að með því móti gæti jafnvel einn maður orðið í stjórninni.  Þórður talaði og mælti með frumvarpinu.  Oddviti talaði og flutti þá breytingartillögu við umrædda grein að stjórnin skyldi skipuð 3 mönnum sem allir skyldu kjörnir á almennum hreppsfundi.  Ívar Ívrsson gerði enn breytingartillögu og lagði til að oddviti væri fastur maður en hinir 2 kjörnir af almennum hreppsfundi.  Eftir þetta mæltist oddviti til þess að Ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson semdu skriflega tillögu um þetta.  Var það gert.  Tillagan er á þessa leið:  „Stjórnin skal skipuð 3 aðalmönnum og er oddviti Rauðasandshrepps formaður hennar.  Hinir 2 skulu kjörnir á almennum hreppsfundi í fyrsta skipti 1961, og ganga þeir úr á víxl; sinn á hverju ári, og í fyrsta skipti eftir hlutkesti sem stjórnin framkvæmir.  Varamenn skulu vera 3, kosnir á almennum hreppsfundi.  Ganga þeir úr á víxl, þannig að á næsta ári gengur 1 úr og á öðru ári 2.  Fer eftir hlutkesti hver gengur úr á fyrsta ári“.  Skipulagsskráin var síðan samþykkt með áorðnum breytingum.  Voru síðan kjörnir 2 aðalmenn í stjórn sjóðsins; kjörnir voru:  Grímur Grímsson og Þórður Jónsson.  Þá voru kjörnir 3 varamenn:  Ívar Ívarsson, Össur Guðbjartsson og Daníel Eggertsson.
 3. Oddviti gat þess að óskir hefðu komið fram um að fá fjallskilareglugerðinni breytt þannig að fjölgað yrði leitardögum, vegna þess hve mannfæð er mikil í sveitinni. Oddviti lagði fram eftirfarandi ályktunartillögu:  „Almennur hreppsfundur, haldinn í Fagrahvammi, samþykkir eftirfarandi:  Vegna stöðugt fækkandi vinnufærs fólks í hreppnum, en jafnframt fjölgun eyðibýla, eru með hverju ári vaxandi erfiðleikar á að framkvæma fjallskil svo sem lög og reglur mæla fyrir.  Síðastliðið haust voru af þessum ástæðum hafnar fjallleitir laugardag og sunnudag og réttað á tilskildum degi.  Aðeins þannig var hægt að framkvæma leitir á vel viðunandi hátt.  Fundurinn beinir því til sýslunefndar V-Barð að hann á næsta fundi heimili íbúum Rauðasandshrepps að framkvæma fjallskil svo sem að ofan greinir meðan mannfæð í hreppnum er svo sem nú er“. 
 4. Óskir höfðu komið fram um að hreppurinn kostaði byggingu skýlis við Rauðasandsrétt fyrir heimamenn. Hreppsnefndin varð sammála um að leggja það fyrir fundinn.  Allmiklar umræður urðu um þetta mál.  Samþykkt var að kosta byggingu slíks skýlis.  Kostnaði skyldi stillt mjög í hóf og var þetta samþykkt með þeim fyrirvara að hinar réttirnar í hreppnum nytu sömu hlunninda ef á þarf að halda. 
 5. Tekin ákvörðun um fækkun kjördeilda. Oddviti skýrði málið og rakti gang þess til þessa.  Rætt var um málið á þeim grundvelli að sameina hreppinn í eina kjördeild.  Umræður urðu allmiklar og skoðanir allskiptar.  Samþykkt var að Kollsvíkingar sameinuðust Hafnarkjördeild en aðrar kjördeildir yrðu að öðru leyti óbreyttar.
 6. Kosið var í framkvæmdanefnd Fagrahvamms. Kjörnir voru þessir menn sem aðalmenn:  Þórður Jónsson, Árni Helgason, Ragnheiður Magnúsdóttir, Fríða Guðbjartsdóttir, Guðrún Jónsdóttir.  Varamenn voru þessir kjörnir:  Anna Hafliðadóttir, Emma Kristjánsdóttir, Dagbjörg Ólafsdóttir, Ólafur Sveinsson og Óli Ingvarsson.  Í sambandi við umræður um Fagrahvamm stakk oddviti upp á því að umsjón um töðugjöldin skyldi skipt í sömu hverfi og verið hafa um þorrablótin, og stakk hann upp á því að Breiðavík og Látrar sæju um það næsta ár.  Var þetta samþykkt.
 7. Lögð voru fram bréf frá aðilum sem óskað hafði verið umsagnar frá, varðandi byggingu sláturhúss í hreppnum. Var það framhald af fyrri samþykktum sem gerðar höfðu verið í málinu.  Hafði málið verið reifað við þessa aðila í bréfi oddvita sem hann las, ásamt útdrætti úr fundargerð hreppsnefndar.  Þessum aðilum var skrifað um málið og óskað umsagnar:  Framleiðsluráðs landbúnaðarins, yfirdýralæknis landbúnaðarráðuneytinu og yfirkjötmatsmanns.  Svörin voru yfirleitt á þá leið að stefna bæri að því að færa sláturstaðina saman og bent er á að eigi muni vera bolmagn til þess að byggja nýtísku hús fyrir svo litla slátrun sem hér sé um að ræða.  Svar frá yfirkjötmatsmanni hafði ekki borist.  Allmiklar umræður spunnust út af þessum svörum, og virtust skoðanir mjög   Málið var síðan tekið út af dagskrá.
 8. Oddviti drap á það hvort fundurinn vildi ekki samþykkja áskorun til sýslunefndar að veitt yrði það ríflegt framlag til Víknavegar að hægt væri að gera fært fyrir vörubíla milli Gjögra og Hænuvíkur. Ennfremur að sækja um fjárveitingu til sama vegar af fjallvegafé.  Þetta var samþykkt.
 9. Ívar Ívarsson las upp bréf frá Brunabótafélagi Íslands varðandi brunadælur.  Skýrslusöfnun í sambandi við það var falin byggingarnefnd sveitarinnar.  B.  Oddviti las upp bréf frá Skógræktarfélagi V-Barð þar sem farið er fram á að sveitarsjóður leggi fram fé til styrktar starfsemi þess.  Össur Guðbjartsson lýsti sig andvígan slíkum fjárframlögum.  Magnús Ólafsson lýsti þeirri skoðun að hann teldi eðlilegt að styrkja bæri þetta.  Samþykkt var að veita eina krónu af hverjum íbúa.  C.  Oddviti óskaði að heyra raddir manna um það hvað ætti að gera varðandi brúna á Örlygshafnarvaðli.  Ýmsar raddir komu fram.  Að lokum var það samþykkt að fela byggingarnefndinni að athuga hvað skynsamlegast væri að gera við brúna, og loka henni þar til annað verður gert.  D.  Össur Guðbjartsson bar fram þá fyrirspurn til sýslunefndarmannsins um hvort útgáfa Árbókar Barðastrandarsýslu væri fallin niður.  Taldi hann það miður farið ef svo væri.  Kr. Júlíus Kristjánsson svaraði og taldi að það myndi vera vanrækslu sýslunefndarmanna að útvega efni sem væri aðalástæðan fyrir því að bókin hefði ekki komið út.  E.  Samþykkt var að greiða 1 kr af hverjum íbúa hreppsins til Rauðakross Íslands.  Oddviti lagði fram þessa tillögu.  F.  Þórður Jónsson sagði frá starfrækslu Fagrahvamms á síðasta ári.  Þá drap hann einnig á fleiri mál; m.a. þakkaði hann hreppsnefnd afstöðu hennar til dragnótaveiðinnar.  Þá taldi hann rétt að þessi fundur gerði samþykkt til stuðnings tillögu búnaðarþings um útvíkkun landhelginnar.  Rætt var allmikið um þetta mál.  Var Þórði Jónssyni og Össuri Guðbjartssyni falið að semja tillögu í málinu sem beint yrði til Alþingis.  Lögðu þeir síðan fram eftirfarandi tillögu:  „Fundurinn mælir eindregið með framkominni samþykkt Búnaðarþings um útfærslu nethelgi fyrir sjávarjörðum.  Fundurinn skorar á hæstvirt Alþingi að framkvæma útfærsluna og nethelgin verði eigi minni en 500 m frá stórstraums fjöruborði“.  Tillagan var samþykkt samhljóða.  Fleira var ekki gert.  Fundi slitið.

      Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)        Össur Guðbjartsson (fundarritari) 

13.04.1961.  Sent skeyti til Alþingis Reykjavík:  Fjölmennur fundur í Rauðasandshreppi sammþykkti í gær einróma eftirfarandi:  Fundurinn mælir eindregið með framkominni samþykkt Búnaðarþings um útfærslu nethelgi fyrir sjávarjörðum.  Fundurinn skorar á hæstvirt Alþingi að framkvæma útfærsluna og nethelgin verði eigi minni en 500 m frá stórstraums fjöruborði“. 
Einnig sent svohljóðandi skeyti til Fiskifélags Íslands varðandi takmarkanir dragnótaveiða:  „Teljum mjög misráðið að leyfa dragnótaveiði næsta sumar á svæðinu Snæfellsnes-Horn“.  Hreppsnefnd Rauðasandshrepps.

29.05.1961.  Samin áætlun um gjöld næsta árs og jafnað niður útsvörum.  Bréf frá skrifstofu Ríkisspítalanna um að óheimilt væri að leggja útsvar á Vistheimilið í Breiðavík.  Verður heimilið því endurkrafið um ýmislegt sem hreppurinn leggur því til: sveitarstjórnarkostnað, forðagæslukostnað, kostnað við sauðfjárböðun, útgj til menntamála, heilbrigðismála, almannatrygginga, sýslusjóð, sýsluvegasjóðs og verðlauna á búfé, ásamt fasteignaskatti.  Samþykkt að styrkja áburðardreifingu úr flugvél um 20% kostnaðar.  Ekki unnt að styrkja Styrktarfélag vangefinna.  17.júní-nefndin endurskipuð sama fólki.  Láta byggja 10 m² skýli við Rauðasandsrétt.  Bragi Ívarsson og Ólafur Halldórsson ráðnir til grenjavinnslu.  Gerð krafa í útsvör manneskju sem vinnur í Breiðavík.

06.09.1961.  Fjallskilum ráðstafað.  Samþykkt að láta sækja fé á utansveitarréttir á bíl en ekki með rekstri; samið við Páma Guðbjartsson um það.  Leiðrétt útsvar.

15.10.1961.  Afgreiddar útsvarskærur og -leiðréttingar.

10.11.1961.  Fundur oddvita með forðagæslumönnum og GJH Hnjóti vegna fóðurvöntunar.  Honum gert að kaupa hey eða skera af fóðrum.

15.10.1961.  Sameiginlegur fundur hreppsnefndar, framkvæmdanefndar Fagrahvamms, stjórnar Umf Smára og Leikfélags Rauðasandshrepps, ásamt formanni skólanefndar.  Einkum rætt um nýtingu Fagrahvamms og leigukjör.  Lítillega rætt um möguleika á byggingu heimavistar fyrir skólabörn.

14.01.1962.  Þóknun hreppsnefndarmanna.  Vegýtusjóður verði lagður inn í skólabyggingarsjóð.  Kvörtun frá bókafulltrúa ríkisins Guðm. G. Hagalín um slæm skýrsluskil lestrarfélaga; þeim verður ekki greiddur styrkur fyrr en úr er bætt.  Ríkisspítalar og ráðuneyti synja um endurgreiðslur gjalda til hreppsins.  Fjallað um heimilisfesti og gjaldskyldu nokkurra manneskja í hreppnum.

Almennur hreppsfundur 24.03.1962 í Fagrahvammi

 1. Reikningar sveitarsjóðs árið 1961. Reikningurinn hafði að venju verið sendur á hvert heimili í sveitinni og taldi oddviti því eigi ástæðu til þess að lesa hann upp á fundinum.  Í sambandi við reikningana gat hann þess að gjald til Almannatrygginga myndi sennilega hækka enn á yfirstandnandi ári.  Ívar Ívarsson tók einnig til máls og ræddi frumvarp til nýrra útsvarslaga er nú liggur fyrir Alþingi.  Þessir tóku einnig til máls og ræddu útsvarstillögurnar nýju: Þórður Jónsson, Snæbjörn J. Thoroddsen og Össur Guðbjartsson.
 2. Styrktarsjóður Rauðasandshrepps. Kosinn einn maður í stjórn sjóðsins til tveggja ára.  Kosinn var aðalmaður Þórður Jónsson 21 atkv.  Varamaður var kosinn Össur Guðbjartsson 16 atkv.
 3. Kosið í framkvæmdanefnd.  Aðalmenn:  Guðrún Jónsdóttir 20 atkv, Ragnheiður Magnúsdóttir 13, Fríða Thoroddsen 18, Þórður Jónsson 20, Árni Helgason 15.  Varamenn:  Óli Ingvarsson 17, Ólafur Sveinsson 15, Anna Hafliðadóttir 16, Dagbjörg Ólafsdóttir 17, Dagbjört Torfadóttir 9.
 4. Samgöngumál. Oddviti ræddi í þessu sambandi um veginn frá Gjögrum að Láganúpi, og taldi að eðlilegt væri að fundurinn krefðist þess að sá vegur yrði fullgerður sem fyrst.  Þá drap hann á að gera þyrfti við bryggjuna á Hvalskeri og fleira.  Þessir tóku einnig til máls um samgöngumálin yfirleitt:  Ívar Ívarsson, Grímur Grímsson og Össur Guðbjartsson.  Þá kom fram tillaga frá Össuri Guðbjartssyni:  „Almennur hreppsfundur gerir kröfur til þess við sýslunefnd að veitt verði þegar á þessu ári nægilegt fé til þess að fullgera sýsluveginn frá Gjögrum að Kollsvík.  Vill fundurinn í því sambandi benda á að á seinustu árum hefur þessi vegur borið mjög skarðan hlut frá borði hvað varðar fjárveitingar“.  Samþykkt samhljóða.  Enn tóku nokkrir til máls og drápu m.a. á flutninga á mjólk o.fl.  Þá kom fram tillaga frá Snæbirni J. Thoroddsen svohljóðandi:  „Í tilefni af framkominni tillögu nokkurra þingmanna Framsóknarflokksins á Alþingi um sérstök auka-fjárframlög til vega á Austfjörðum og Vestfjörðum, með því að þessir landshlutar væru mjög á eftir öðrum landshlutum í vegaframkvæmdum, vill fundurinn beina því til hreppsnefndar að hún, með aðstoð vegaverkstjóra héraðsins, geri athugun á ástandi veganna og sendi vegamálastjóra og þingmönnum Vestfjarðakjördæmis svo fljótt sem hægt er niðurstöðu af þeirri athugun“.  Samþykkt samhljóða.  Enn urðu nokkrar umræður.
 5. Önnur mál: Ívar Ívarsson tók til máls og ræddi um fjallskilamál útfrá samþykkt í því máli sem gerð var á hreppsnefndarfundi í fyrra, en sýslunefnd samþykkti ekki.  Þessir tóku einnig til máls:  Össur Guðbjartsson, Grímur Grímsson, Björn Loftsson, o.fl.  Ræddu þeir framkvæmd fjallskilanna í sveitinni.  Þá kom fram svolátandi tillaga frá ívari Ívarssyni:  „Meðan það ástand ríkir að jarðir fara í eyði og eyðijarðir byggjast ekki, og þar af leiðandi fólksfæð til að inna fjallskil af hendi skv 30.gr heimilast hreppsnefnd að láta fjallskil fyrja fyrr.  Enda hafi hún tryggt sér afnot lands til geymslu fjárins á viðunandi hátt til réttardags“.  Tillagan samþykkt samhljóða.  Enn urðu nokkrar umræður um málið.  Þá kom fram tillaga frá Grími Grímssyni:  „Almennur hreppsfundur samþykkir að fela hreppsnefndinni að kveðja einn mann til þess að fara um og líta eftir hvernig fjallskil eru framkvæmd á hverjum stað í sveitinni.  Skal hann gefa hreppsnefndinni skýrslu um þetta á hverju hausti“.  Samþykkt að beina málinu til hreppsnefndar.
 6. Þórður Jónsson kvað sér hljóðs og drap á nauðsyn þess að leggja ruddan veg af Hafnarfjalli í Keflavík. Beindi hann máli sínu til hreppsnefndarinnar og ýtustjóranna.  Kvaðst hann mundi flytja málið á æðri stöðum.  Málið var rætt nokkuð og kom fram svohljóðandi tillaga:  „Fundurinn beinir því til næsta sýslufundar að hann beiti sér fyrir fjárveitingu af fjallvegafé og vegafé ríkisins til þess að leggja akfæran veg af þjóðveginum að skipbrotsmannaskýlinu í Keflavík án þess að skerða fjárveitingu af fjallvegafé til Hænuvíkurhálsvegar“.  Tillagan samþykkt samhljóða.
 7. Tillaga kom fram frá Agli Ólafssyni og Kr. Júl. Kristjánssyni, svohljóðandi: „Fundurinn samþykkir, eftir framkominni áskorun nokkurra bænda í Rauðasandshreppi, að samþykkt verði gerð samkvæmt lögum um eyðingu svartbaks frá 1936 og breytingu á þeim lögum frá 1962“.  Tillagan samþykkt samhljóða.

      Fleira var ekki á dagskrá.  Oddviti þakkaði að lokum samstarf við sveitungana.  Lagði hann áherslu á að samheldni héldist í sveitinni og bæri nauðsyn til þess, eftir því meir sem fólkinu fækkaði.  Þórður Jónsson þakkaði hreppsnefndinni fyrir störf sín yfir útlíðandi kjörtímabil.  Síðan var fundi slitið.

       Snæbjörn J. Thoroddsen  (oddviti)       Össur Guðbjartsson  (fundarritari)

 

03.06.1962.  Niðurjöfnun útsvara.  Samþykkt að fjarlægja Hafnarvaðalsbrú sem er úr sér gengin og hættuleg.  Menntamálaráðuneytið verður krafið um greiðslur vegna Vistheimilisins í Breiðavík.  Árni Helgason ráðinn í grenjavinnslu.  17.júní-hátíðahöld.  Samþykkt að styrkja bændur að hálfu með áburðardreifingu úr flugvél.  Bjargráðasjóður beðinn um að afskrifa óþurrkalán bænda frá 1955.  Undirbúningur kosninga.

11.06.1962.  Samgöngumál:  íbúar Kollsvíkur illa settir án beins vegasambands við sinn kirkjustað í Breiðavík; beint til vegamálastjóra að hefja framkvæmd við veg þar í milli.  Ræddar aðrar vegabætur.

22.07.1962.  Nýkjörin hreppsnefnd skiptir verkum:  Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen; varaoddviti Ívar Ívarsson og þriðji hreppsnefndarmaður er Össur Guðbjartsson.  Skólanefndarmenn: Grímur Grímsson og Össur Guðbjartsson, en Tryggvi Eyjólfsson og Anna Hafliðadóttir til vara.  Aðalsáttagerðarmenn: Grímur Grímsson og Þórður Jónsson, en varamenn Daníel Eggertsson og Kr. Júlíus Kristjánsson.  Aðalmatsmaður fyrir Brunabótafélag Íslands; Þórður Jónsson, en Hafliði Halldórsson til vara.  Endurnýjað var umboð Ívars Ívarssonar fyrir hönd hreppsnefndar.  Áfengisvarnarnefnd; Ívar Ívarsson og Ingibjörg Júlíusdóttir, en til vara Vilborg Torfadóttir og Jóhanna Gunnlaugsdóttir.  Í stjórn Læknisvitjunarsjóðs; Daníel Eggertsson og Kr. Júlíus Kristjánsson, en til vara Hafliði Halldórsson og Ingvar Guðbjartsson.  Aðalúttektarmaður Ívar Ívarsson, en til vara Ólafur Sveinsson.  Byggingarnefnd; Egill Ólafsson, Þórður Jónsson og Ingvar Guðbjartsson, en varamenn Árni Helgason, Þórir Stefánsson og Ólafur Sveinsson.  Fulltrúi á landsþing Sambands ísl sveitarfélaga; oddviti, en varaoddviti til vara.  Forðagæslumenn; Hafliði Halldórsson og Valur Thoroddsen, en til vara Ásgeir Erlendsson og Bragi Ívarsson.  Lendingabótanefnd á Hvalskeri; Ívar Ívarsson, Þórir Stefánsson og Tryggvi Eyjólfsson, en varamenn Ólafur Lárusson, Bragi Ívarsson og Reynir Ívarsson.  Lendingabótanefnd Örlygshafnar; Árni Helgason, Jón Hákonarson og Marinó Kristjánsson, en varamenn Ólafur Sveinsson, Kr. Júlíus Kristjánsson og Bjarni Sigurbjörnsson.  Endurskoðendur hreppsreikninga; Daníel Eggertsson og Egill Ólafsson.  Stjórn Sjúkrasamlags Rauðasandshrepps; Ólafur Magnússon og Þórður Jónsson, varamenn Ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson.  Í stjórn lestrarfélaganna; Tryggvi Eyjólfsson fyrir Lestrarfélag Rauðasands; sr. Grímur Grímsson fyrir Lestrarfélag Sauðlauksdalssóknar; Össur Guðbjartsson fyrir Lestrarfélag Breiðavíkursóknar.  Ákveðnar þóknanir fyrir störf nefndarmanna.  Fjallað um útsvarskærur.

25.08.1962.  Fjallskilamál.  Ekki talið fært að einn maður líti eftir fjallskilum á öllum svæðum skv tillögu GG.  Sýslunefnd heimilar ekki breytingu reglugerðar varðandi leitardaga.  Samdir fjallskilaseðlar fyrir réttarsóknir hreppsins.  Vanræksla réttarhalds í Vesturbotnsrétt; nýr réttarstjóri.  Réttargjald 1 kr á kind en 2 á Rauðasandi.

06.11.1962.  Endurbætur vegar í Skápadal.  Gjöf til kaupa á „fóstru“ til Sjúkrahússins.  Kostnaður við sveltistöku.

31.01.1963.  Hlutast til um framlag úr Atvinnubótasjóði til sláturhúsbyggingar Gjögrum.  Bjargráðasjóði greitt upp í eftirstöðvar óþurrkalána 1955. 

Almennur hreppsfundur 30.03.1963 í Fagrahvammi

 1. Snæbjörn J. Thoroddsen oddviti skýrði hreppsreikningana 1962 og bar saman ýmsa liði við fyrra ár, en las þá ekki í heild þar sem þeir höfðu verið sendir á hvert heimili í hreppnum fjölritaðir. Umræður urðu ekki og málið tekið út af dagskrá. 
 2. Samgöngumál. Að tilhlutan oddvita og samkvæmt ósk vegamálastjóra var Bragi Ó. Thoroddsen vegamálastjóri mættur á fundinum.  Hóf hann umræður í málinu og gerði grein fyrir fjárveitingum til vega í hreppnum á sl ári.  Gerði hann síðan grein fyrir samtali sem hann nýskeð hefði átt við vegamálastjóra um hina ýmsu vegi í sveitinni.  Oddviti tók til máls og taldi að það sem við þyrftum að gera okkur grein fyrir væri hvort við vildum að hreppurinn tæki á sig vexti af ca 100-150 þúsund krónum í 1 eða 2 ár ef verða mætti til þess að Víknavegur kæmist fyrr í þjóðvegatölu með því, en það hefði komið fram í samtali Braga við vegamálastjóra.  Þessir tóku til máls:  Þórður Jónsson, Össur Guðbjartsson, Snæbjörn j. Thoroddsen og Ívar Ívarsson.  Umræður urðu ekki meiri að sinni.  Þá kom fram tillaga um að kosnar yrðu 2 nefndir í málið sem báðar skyldu skila áliti eftir væntanlegt fundarhlé:  A  Til þess að gera tillögur um vegamál í útsveitinni voru þessir menn kjörnir; Þórður Jónsson og Össur Guðbjartsson.  B í innsveitinni; Ívar Ívarsson og sr Grímur Grímsson.   Bragi Ó. Thoroddsen lofaði að verða nefndunum til ráðuneytis.  Þá var gefið kaffihlé.  Eftir kaffihlé var fundi fram haldið.  Kom þá fram svohljóðandi tillaga frá þeirri nefnd sem fjallaði um vegi í útsveitinni:  „Almennur hreppsfundur telur að ekki verði lengur hjá því komist að endurbæta verulega veginn yfir Hafnarfjall í Hnjúkum og í Látrahálsi og veginn yfir Hænuvíkurháls.  Samkvæmt áliti vegaverkstjóra Braga Ó. Thoroddsen mun varla verða hægt að gera neitt verulegt til bóta fyrir minna fjármagn en ca 100-120 þúsund á hvorum vegi fyrir sig.  Fundurinn felur því hreppsnefndinni að vinna að því að fá fjárveitingar til vega á Vestfjörðum.  Bregðist það að sú fjárveiting fáist felur hann nefndinni að fá lánsheimild og útvega lán til framkvæmdanna“.  Tillagan samþykkt samhljóða.  Þá kom fram svohljóðandi tillaga frá nefnd þeirri sem hafði með samgöngumál innansveitarinnar að gera:  „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi skorar á sýslunefnd Vestur-Barð að hraða sem mest, og helst á þessu ári, byggingu brúar á Suðurfossá á Rauðasandi“.  Þessir tóku til máls um tillöguna og voru yfirleitt sammála um hana:  sr Grímur Grímsson, Ívar Ívarsson, Kr. Júl. Kristjánsson, Snæbjörn J. Thoroddsen.  Tillagan síðan samþykkt samhljóða.  Hallgrímur Sveinsson forstjóri Vistheimilisins í Breiðavík bauðst til þess að sjá um vaxtagreiðslu af því fé, ef til láns yrði tekið sem fara myndi til að laga veginn í Hnjúkum, og taldi hann sjálfur að það myndi eigi kosta minna fé en ca um 70 þúsund kr.
 3. Oddviti las upp bréf frá Fiskifélagi Íslands varðandi leyfi til dragnótaveiða innan landhelgi undan Vestfjörðum. Er þar óskað umsagnar hreppsnefndarinnar um málið svo sem gert hefur verið nokkur undanfarin ár.  Hefur þessu jafnan verið svarað neitandi.  Gat oddviti þess að hreppsnefndin myndi nú leggja málið fyrir fund.  Þórður Jónsson lýsti sig fylgjandi áliti hreppsnefndar.  Oddviti lagði þá fram tillögu í málinu, svohljóðandi.  Skyldi tillagan, ef samþykkt yrði, send Fiskifélaginu í símskeyti:  „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi, haldinn að Fagrahvammi 30.mars 1963, mótmælir eindregið að dragnótaveiðar verði leyfðar á þessu ári á svæðinu Látrabjarg – Horn“.  Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
 4. Oddviti las upp bréf frá fundi sem haldinn var á Patreksfirði og fjallaði um stofnun mjólkursamlags sem næði yfir þessa hreppa: Barðastrandarhrepp, Rauðasandshrepp, Patrekshrepp og Tálknafjarðarhrepp.  Fundinn sátu 10 menn úr framantöldum hreppum; mismunandi margir frá hverjum.  Grímur Grímsson sem sat fundinn, einn manna úr Rauðasandshreppi, gerði nokkra nánari grein fyrir þessum fundi og gat þess m.a. að eining hefði ríkt þar um að leysa þessi mál, og þá helst með því að byggja mjólkurvinnslustöð á Patreksfirði.  Bréfið gerir ráð fyrir að hver hreppurkjósi þriggja manna nefnd til frekari framkvæmda í málnu.  Nokkrar umræður urðu um málið og voru menn sammála um að mjólkurstöð yrði að koma.  Þessir tóku til máls, auk oddvita og sr Gríms Grímssonar:  Ívar Ívarsson, Þórður Jónsson, Kristján Júl. Kristjánson, Egill Ólafsson og Össur Guðbjartsson.  Þá kom fram svolátandi tillaga frá Snæbirni Thoroddsen:  „Almennur hreppsfundur felur stjórn Mjólkurfélags Rauðasandshrepps að mæta, eða láta mæta, á væntanlegan undirbúningsfund að stofnun mjólkursamlags þess sem rætt er um hér að framan; enda boði hún til almenns fundar í hreppnum og geri hreppsbúum grein fyrir því sem þar gerist“.  Smþykkt samhljóða.
 5. Einn maður í stjórn Styrktarfélags Rauðasandshrepps.  Aðalmaður sr Grímur Grímsson; varamaður Daníel Eggertsson.  Framkvæmdanefnd Fagrahvamms; aðalmenn Ragneiður Magnúsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Fríða Guðbjartsdóttir, Þórður Jónsson, Ólafur Sveinsson; varamenn Anna Hafliðadóttir, Dagbjört Torfadóttir, Dagbjörg Ólafsdóttir, Árni Helgason og Óli Ingvarsson.  Oddviti beindi því til fundarins hvort hann féllist á að húsnefndin sæi um að halda skemmtanir á 17.júní og töðugjöld.  Sr Grímur Grímsson taldi vafasamt að leggja þetta á sama fólkið.  Lagði hann til að töðugjöldin væru látin falla niður, vegna þess að öðrum kosti félli sá þjóðlegi siður niður á heimilunum.  Þórður Jónsson gerði nokkra nánari grein fyrir reikningum Félagsheimilisins.  Taldi hann að sá halli sem reikningarnir sýndu væri ekki raunverulegur, vegna þess að í því væri fólgið kaup á ýmsum munum til heimilisins.  Samþykkt voru tilmæli til húsnefndarinnar um að hún sæi um áðurnefnd hátíðahöld.
 6. Oddviti hóf umræður um það vandamál hversu margar jarðir fara í eyði. Taldi hann eðlilegt að stjórn Búnaðarfélagsins aflaði sem gleggstra upplýsinga um orsakir þess að jarðir fara í eyði.  Þá drap hann á þá hugmynd að hvert heimili yrði myndað á 10 ára fresti, og heimilisfólkið líka.  Össur Guðbjartsson gerði grein fyrir ályktun Búnaðarþings um vandamálið um eyðijarðir og viðhorfum í því máli á þinginu.  Ívar Ívarsson drap á ýmsar ástæður fyrir því að jarðir fara í eyði.  Þórður Jónsson beindi því til hreppsnefndarinnar að hún hlutaðist til um að jarðir í sveitinni yrðu auglýstar til sölu og ábúðar.  Sr Grímur Grímsson gat þess að Snæbjörn J. Thoroddsen og Þórdís kona hans hefðu gefið segulbandstæki í því skyni að m.a. taka upp raddir gamalla manna og ræður á mannfundum.  Þessir menn tóku til máls og ræddu málin á breiðum grundvelli:  Snæbjörn J. Thoroddsen og Ingvar Guðbjartsson.
 7. Ingvar Guðbjartsson bar fram fyrirspurn um hvers vænta mætti um möguleika á því að koma börnum fyrir til dvalar til náms, þar sem vaxandi erfiðleikar væru að skapast í þessu efni með vaxandi barnafjölda á skólaskyldualdri. Snæbjörn J. Thoroddsen gerði grein fyrir því sem gerst hefur varðandi byggingu heimavistar við Fagrahvamm.  Drap hann á að það hefði lauslega verið rætt, sem bráðalausn á málinu, að fá keypt eða leigt húsið á Gjögrum.  Formaður skólanefndar, Kr. Júlíus Kristjánsson, taldi ýmis vandkvæði á því að fá íbúðarhúsið á Gjögrum.  Taldi hann nær að athuga möguleika á því að fá íbúðarhúsið gamla í Neðri-Tungu.  Össur Guðbjartsson drap á þá hugmynd að koma á fót unglingadeild í Sauðlauksdal.  Sr Grímur Grímsson tók til máls og bar fram svohljóðandi tillögu í málinu; taldi hann eðlilegt að hreppsnefnd og skólanefnd ynnu að framgangi málsins:  „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi, haldinn 30.mars 1963, fer þess á leit að skólanefnd, í samráði við hreppsnefndina, reyni að finna einhverja leið út úr því óviðunandi ástandi sem ríkir í skólamálum sveitarinnar með tilliti til húsnæðiserfiðleika, og svo þess að engin tök hafa verið á því fyrir fullnaðarprófsbörn að njóta frekari skólamenntunar innan sveitarinnar“.  Samþykkt samhljóða.
 8. Össur Guðbjartsson bar fram fyrirspurn um hvað liði útkomu Árbókar Barðastrandasýslu. Kvað hann mikla eftirsjá ef þessi útgáfustarfsemi félli niður.  Sr Grímur Grímsson og Þórður Jónsson gáfu þær upplýsingar að til myndi vera handrit að einni bók.  Að öðru leyti bar þeim ekki saman um upplýsingar eða hvað raunverulega tefði útgáfuna.  Fleira var ekki gert og fundi slitið.

                 Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)              Össur Guðbjartsson (fundarritari) 

05.04.1963.  Marinó Kristjánsson varamaður í veikindaförföllum Ívars Ívarssonar.  Bragi Ó. Thoroddsen vegaverkstjóri viðstaddur.  Bragi ræði við þingmennina Sigurvin Einarsson og Gísla Jónsson um framkvæmd tillagna frá hreppsfundi og m.a. veitingar af svonefndu millibyggðafé.  Oddviti fari til Reykjavíkur til að ræða vegamál og fræðslumál.

05.06.1963.  Kjörskrár vegna Alþingiskosninga.  Í grenjavinnslu ráðnir Árni Helgason, Ásgeir Erlendsson og Bragi Ívarsson.  Heimavist barna í N-Tungu eða á Gjögrum.

29.07.1963.  Niðurjöfnun útsvara.  Almannavarnir.  Eftirgjöf Bjargráðasjóðsláns til illa stæðs bónda.  Hreppurinn verði tekinn inn í 10 ára áætlun um rafvæðingu.  Fulltrúi á þing Samb.ísl sveitarfélaga; honum falið að ræða gjaldskyldu Vistheimilisins í Braiðavík.  Endurgreiðsla ferðakostnaðar.  Viðbrögð við því að minkur telst nú landlægur í hreppnum.  Afsláttur sveitargjalda fyrir skilvísa.  Sívaxandi fjöldi skólaskyldra barna og vandamál við vistun þeirra.  Hannes Pálsson ráðinn til að taka myndir í hreppnum.  Niðurjöfnunarskrá samin og framlögð.

14.08.1963.  Sameiginlegur fundur hreppsnefndar, skólanefndar og framkvæmdanefndar Fagrahvamms.  Rætt um vistun í Efri-Tungu; skólabíl; byggingu veitingasalar og heimavistar við Fagrahvamm.

10.09.1963.  Útsvarskærur og heimilisfesti.  Álagning gjalds í Skólabyggingarsjóð.  Fjallskilaseðlar útgefnir.  Raðuneyti telja Vistheimilið Breiðavík ekki gjaldskylt til hrepps- eða sýslusjóðs. 

Almennur hreppsfundur 18.09.1963 í Fagrahvammi

 1. Mættir 19 menn í fundarbyrjun. Fyrir fundinum lá:  Tekin ákvörðun um byggingu heimavistar við Fagrahvamm.  Oddviti gerði grein fyrir viðhorfi til skólamálanna í sveitinni eins og þau liggja nú fyrir, og vísast í því efni til fundargerða næst hér á undan, þar sem rakinn er gangur þeirra mála undanfarna mánuði.  Ívar Ívarsson lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi frá vissum sjónarmiðum óheppilegt að kenna á sama stað og skemmtistaður væri.  Drap hann og á það að ákveðið hefði verið fyrir alllöngu að byggja heimavistarskóla í Sauðlauksdal.  Valborg Pétursdóttir lýsti þeirri skoðun sinni að hún teldi eðlilegt að skóli væri í Sauðlauksdal, vegna þeirra andlega hollu áhrifa sem börn og unglingar væru þar undir.  Ívar Ívarsson gerði fyrirspurn um störf skólabyggingarnefndar þeirrar er kjörin var fyrir nokkrum árum.  Sr Grímur Grímsson formaður skólanefndar kvað þessa nefnd ekki hafa unnið mikið.  Kvð hann nefndina þó hafa skrifað suður og leitað eftirfjárframlagi ríkisins til skóla í Sauðlauksdal, en fengið það svar að það væri ekki til reiðu næstu ár.  Þá ræddi hann viðhorfið til þeirra mismunandi sjónarmiða að byggja skóla í Sauðlauksdal eða Fagrahvammi.  Dró hann fram ýmsa kosti þess að skóli væri í Sauðlauksdal.  Taldi þó fjárhagslega hagstæðara að byggja við Fagrahvamm.  Þórður Jónsson hreppstjóri rakti sögu kennslunnar í Fagrahvammi og þess sem gert hefði verið í skólamálum í framhaldi af henni.  Lagði hann áherslu á fjárhagslegu hlið málsins.  Efaðist hann um að lítið sveitarfélag sem þetta gæti staðið undir rekstri félagsheimilis og heimavistarskóla ef aðskilið væri.  Júlíus Kristjánsson fyrrverandi skólanefndarformaður rakti að nokkru sögu skólamálanna á undanförnum áratugum.  Drap hann á þá staðreynd að kennt hefði verið í samkomuhúsum um langt skeið, og ekki teldi hann að það út af fyrir sig hefði haft neikvæð áhrif á árangur kennslunnar.  Ræddi hann einnig fjárhagshliðina og taldi að sveitarfélaginu væri það lítt kleyft að halda sjálfstæðan skóla.  Ívar Ívarsson svaraði nokkrum orðum ræðu Kr. Júlíusar.   Sr Grímur Grímsson ræddi nokkuð um fyrirkomulag kennslunnar.  Taldi hann að kennsla í sveitum væri yfirleitt lakari en í þéttbýlinu.  Össur Guðbjartsson taldi að með ekki fleiri íbúa væri sveitarfélaginu ofviða að byggja sérstakan heimavistarskóla.  Egill Ólafsson tók einnig undir þau orð og taldi eðlilegt að unnið væri að því að koma á stofn héraðsskóla í Sauðlauksdal.  Þessir tóku til máls:  Valborg Pétursdóttir, Kr. Júlíus Kristjánsson, Snæbjörn J. Thoroddsen.  Talaði hann um málið á breiðum grundvelli, með tilliti til fortíðar og framtíðar.  Taldi hann að enda þótt eigi mætti gera lítið úr þeim góðu áhrifum sem skóli væri undir í Sauðlauksdal væri þó fjárhagsatriðið alltaf veigamikið.  Enn tóku nokkrir til máls:  Valborg Pétursdóttir, Snæbjörn J. Thoroddsen, sr Grímur Grímsson.  Lauk hann máli sínu með því að óska þess að fundurinn mætti bera gæfu til þess að leysa þetta mál á sem heilladrýgstan hátt.  Lagði hann fram þá munnlegu tillögu að málinu yrði frestað um óákveðinn tíma, eða til ákvörðunar fundar sem boðað yrði til síðari hluta oktobermánaðar.  Var hún felld með 8 atkvæðum gegn 6.  Fór þá fram nafnakall um það hvort byggja ætti heimavist við félagsheimilið Fagrahvamm.  Þeir sem samþykkja að byggja hana sögðu já; þeir sem voru á móti segja nei:  Valborg Pétursdóttir nei, Bjarni Sigurbjörnsson já, Valur Thoroddsen já, Óli Ingvarsson já, Árni Helgason já, Tryggvi Eyjjólfsson greiðir ekki atkvæði, Egill Ólafsson já, Ásgeir Erlendsson já, Ólafur Lárusson greiðir ekki atkvæði, Ingvar Guðbjartsson já, Agnar Sigurbjörnsson já, sr Grímur Grímsson greiðir ekki atkvæði, Kr. Júlíus Kristjánsson greiðir ekki atkvæði, Þorvaldur Bjarnason nei, Reynir Ívarsson nei, Ívar Ívarsson nei, Þórður Jónsson já, Össur Guðbjartsson já, Snæbjörn j. Thoroddsen greiðir ekki atkvæði.  Þannig samþykkt með 10 atkvæðum gegn 4.  Fimm greiddu ekki atkvæði.
 2. Oddviti gat þess að vegir hér byggju við önnur og verri kjör en vegir nærri þéttbýlinu. Greiðir ríkið allan snjómokstur þar, en aðeins að hálfu í mesta dreifbýlinu.  Bar oddviti fram svohljóðandi tillögu í þessu máli:  „Almennur hreppsfundur í Fagrahvammi, haldinn 18.sept 1963, beinir því til þingmanna kjördæmisins að þeir beiti sér fyrir því við vegamálastjóra að sama regla gildi í öllum byggðarlögum landsins varðandi greiðslu kostnaðar við snjómokstur af þjóðvegum“.  Tillagan var ekki rædd og samþykkt samhljóða.
 3. Þá lagði oddviti einnig fram svohljóðandi tillögu: „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi vill enn vekja athygli á hinum mikla og hættulega farartálma Suðurfossá á Rauðasandi og beinir því til vegamálastjórnar að hún láti þegar á næsta ári gera brú yfir ána er svari til krafna umferðarinnar“.  Tillagan var samþykkt samhljóða, umræðulaust.
 4. Enn lagði oddviti fram svohljóðandi tillögu og talaði fyrir henni nokkrum orðum. Drap hann á að menn þyrftu að vera á verði til að verða ekki útundan með fjárframlög til vega í héraðinu.  Einnig tóku til máls Valborg Pétursdóttir og Kr. Júlíus Kristjánsson.  „Öllum sem leið eiga að sunnan á landi um (vegi) í V-Barð má ljóst vera af reynslu síðustu ára hversu Þingmannaheiði er ill samgönguleið; haust, vetur og vor.  Vegurinn fljótt ófær, oft í fyrstu snjóum, og þá lokuð leið öllum vetrum; jafnvel allt fram í júnímánuð.  Fyrir nokkrum árum var hafin vegagerð með Nesjum meðfram heiðinni, og var þá hugsað að leggja heiðina niður sem þjóðveg.  Seinustu 2-3 árin hefur samt ekkert verið unnið að þessum Nesjavegi, og mjög óvíst hvenær vinna verður hafin þar að nýju.  Allir er til þekkja og um þetta hafa rætt fullyrða að Nesjavegurinn yrði öllum bílum fær mikið lengur en heiðin, og telja að sá vegur sé aðkallandi samgöngubót.  Fyrir því beinir fundurinn því til vegamálastjórnar og þingmanna kjördæmisins að láta nú á þessu hausti ganga til verks á þessari leið, þar sem fyrr var frá horfið, og vill í því sambandi benda á ýtur Magnúsar Ólafssonar og félaga og Ræktunarsambands V-Barð“.  Tillagan samþykkt samhljóða.
 5. Sr Grímur Grímsson kvað sér hljóðs. Sagði hann að sér hefði í gær borist skeyti þess efis að hann væri skipaður formaður skólanefndar, og vildi hann þess vegna nota tækifærið til þess að þakka Kristjáni Júl. Kristjánssyni fyrrverandi formanni og heimili hans fyrir mikið framlag til kennslu og skólamála í sveitinni á síðustu áratugum.  Bað hann fundarmenn að taka undir þau orð með lófataki.  Var það gert.
 6. Oddviti gerði það að tillögu sinni að eftirtaldir menn yrðu samþykktir af fundinum til þess að afgreiða skólabyggingarmálið heiman að: Snæbjörn J. Thoroddsen, Þórður Jónsson og sr Grímur Grímsson.  Var það samþykkt.
 7. Rafmagnsmál. Oddviti gerði grein fyrir viðhorfi til þeirra mála, að því leyti er varðar hreppinn.  Gat hann þess að raforkumálastjóri hefði lýst því yfir við sig og oddvita Barðastrandarhrepps að þessir hreppar kæmu ekki til greina á ríkisrafveitur næstu 10 árin.  Vegna þessara upplýsinga var farið að vinna að kostnaðaráætlun um virkjun Suðurfossár á vegum nefndra hreppa.  Á héraðsþingi Vestfjarða var það hinsvegar upplýst að allri þjóðinni yrði gefinn kostur á rafmagni frá ríkisrafveitum fyrir árið 1970.  Vegna þess breytta viðhorfs sem skapaðist við þessar upplýsingar var, a.m.k. í bili, hætt við frekari virkjunaráætlanir á vegum hreppanna.  Lagði oddviti síðan fram svohljóðandi tillögu:  „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi skorar á Alþingi og raforkumálastjórn að hlutast til um að hreppurinn geti orðið aðnjótandi rafmagns frá Ríkisrafveitum fyrir árið 1970, með því að hann verði tekinn inn á væntanlega áætlun um framkvæmdir í raforkumálum“.  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 
  Fleira var ekki gert á fundinum.  Fundi slitið.

                Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)       Össur Guðbjartsson (fundarritari) 

20.11.1963.  Beiðni Sláturfél. Örlygs um meðmæli hreppsins með umsókn til Alþingis um framlag til atvinnuaukningar; samþykkt að verða við henni.  Forkaupsréttur ekki nýttur vegna sölu á Vatnsdal. 

08.02.1964.  Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.  Ekki nýtt að sinni heimild til álagningar aðstöðugjalds.  Samúðarskeyti vegna fráfalls Ara Kristinssonar sýslumanns. 

Almennur hreppsfundur 12.03.1964 í Fagrahvammi

Mættur 21 atkvæðisbær fundarmaður

 1. Í upphafi fundar minntist oddviti Ara heitins Kristinssonar sýslumanns, sem nýlega er látinn. Viðstaddir heiðruðu minningu hans með því að rísa úr sætum.
 2. Þá las oddviti upp reikninga sveitarsjóðs yfir sl ár. Gat hann þess að reikningarnir myndu verða sendir fjölritaðir á hvert heimili í sveitinni.  Reikningarnir voru áritaðir af endurskoðendum athugasemdalaust.  Í sambandi við reikningana gat oddviti þess að ef ekki væri þegar komið á reglu í sambandi við bókasafn Lestrarfélags Sauðlauksdalssóknar myndi það verða svift styrk frá sveitarsjóði og bókasafnið afhent héraðsbókasafni Barðastrandarsýslu.  Umræður urðu nokkrar um nefnt bókasafn.  Þórður Jónsson ræddi nokkuð um reikningana almennt og kvað ekki ástæðu til annars en vera ánægður með afkomu sveitarsjóðs.  Þá ræddi hann nokkuð um fasteignagjald af Breiðuvík og kvað nauðsyn til bera að fá úr því skorið hvort hún væri gjaldskyld í þessu tilliti.  Oddviti upplýsti að samkvæmt símtali sínu við viðkomandi ráðuneyti væri hún ekki gjaldskyld, og þýddi því ekki að reikna með því.  Enn tóku þessir til máls:  Ívar Ívarsson, Snæbjörn J. Thoroddsen.  Reikningarnir voru síðan teknir út af dagskrá.
 3. Þórður Jónsson hreppstjóri las upp reikninga og gerði grein fyrir rekstri félagsheimilisins Fagrahvamms. Halli á rekstri hússins hafði orðið kr 1.500.  Það óhapp henti síðla sumars að rafstöð hússins bilaði og varð því ekki af frekari starfrækslu þess þar til kennsla hófst á síðasta hausti.  En ætla hefði mátt að frekari starfræksla hefði gefið eitthvað í aðra hönd.  Á húseigninni hvíla nú 46.000,oo kr, að frádregnum eignum.  Sagði Þórður að nú þyrfti að kaupa nýja rafstöð sem henta myndi fyrir skóla.  Oddviti ræddi nokkuð um rekstur hússins og tilhögun í sambandi við hann.
 4. Kosin framkvæmdanefnd fyrir Fagrahvamm. Kosningu hlutu sem aðalmenn: Ragnheiður Magnúsdóttir, Anna Hafliðadóttir, Dagbjört Torfadóttir, Þórður Jónsson, Árni Helgason.  Varamenn voru kjörnir: Dagbjörg Ólafsdóttir, Valgerður Jónsdóttir, Fríða Guðbjartsdóttir, Óli Ingvarsson, Marinó Kristjánsson.
 5. Bygging heimavistar fyrir skólabörn við félagsheimilið Fagrahvamm. Oddviti gat þess að stjórn Félagsheimilasjóðs og Fræðslumálastjórnin hefðu nú formlega samþykkt þessa tilhögun.  Á fjárlögum hefur verið veitt kr 270 þúsund til þessara framkvæmda.  Oddviti bar fram þá tillögu að kjörnir yrðu 3 menn af þessum fundi sem hefðu, ásamt 1 manni frá hreppsnefnd og 1 manni frá skólanefnd, umsjón með framkvæmdunum.  Össur Guðbjartsson lagði til að nefndin yrði skipuð 3 mönnum, þannig að einn yrði úr hreppsnefnd, 1 úr skólanefnd og 1 úr framkvæmdanefnd Fagrahvamms.  Ívar Ívarsson lýsti andstöðu sinni við málið í heild.  Umræður urðu nokkrar um þetta mál og tóku þessir enn til máls:  Snæbjörn J. Thoroddsen, Þórður Jónsson, Össur Guðbjartsson, Ívar Ívarsson.  Þá var samþykkt tillaga Snæbjarnar J. Thoroddsen um að kjósa 3 manna nefnd sem starfi með 1 manni úr hreppsnefnd og 1 úr skólanefnd að framkvæmd umræddrar byggingar.  Kosningu hlutu:  Þórður Jónsson, Egill Ólafsson, Árni Helgason.  Varamenn í sömu röð:  Ingvar Guðbjartsson, Ólafur Sveinsson, Marinó Kristjánsson.
 6. Styrktarsjóður Rauðasandshrepps. Oddviti gat þess að ekki hefði verið veittur styrkur úr sjóðnum á sl ári.  Umræður urðu ekki.  Kosning í stjórn.  Þórður Jónsson var endurkjörinn aðalmaður og Össur Guðbjartsson til vara.  Aðalmaður í stað sr Gríms Grímssonar var kjörinn Ívar Ívarsson og til vara Daníel Eggertsson.
 7. Samgöngumál. Málshefjandi var Bragi Ó Thoroddsen.  Hóf hann máls á því að gefa yfirlit yfir fjárveitingar til vega í sveitinni á sl ári.  Gat hann þess að í krónutölu hefði aldrei verið veitt meira til vega á sínu vinnusvæði áður.  Taldi hann að ekki myndi verða fé til stórra framkvæmda í þessum málum á yfirstandandi ári, þar sem mikið af fjárveitingu þessa árs er áður uppétið.  Þá ræddi hann nokkuð og gerði grein fyrir hvaða breytingar hefðu orðið á vegum samkvæmt hinum nýju vegalögum.  Oddviti þakkaði Braga upplýsingarnar og taldi æskilegt að fundurinn léti frá sér fara samþykkt í þessum málum.  Ennfremur tóku þessir til máls:  Ívar Ívarsson, Össur Guðbjartsson, Þórður Jónsson, Snæbjörn J. Thoroddsen.  Að umræðum loknum var samþykkt eftirfarandi ályktun frá fundinum:  „Almennur hreppsfundur beinir því til hreppsnefndarinnar að hún beiti sér fyrir því við Alþingi og vegamálastjóra að veitt verði fé þegar á þessu ári til:    Byggingar brúar á Suðurfossá.  B. Til þess að vinna að endurbótum og nýbyggingu á Víknavegi frá Gjögrum um Hænuvík, Kollsvík að Breiðuvík.  Þar sem vegurinn frá Gjögrum að Kollsvík er í algerlega óviðunandi ástandi, og það svo að eigi verður komist um hann nema á jeppabifreiðum, leggur fundurinn sérstaka áherslu á að veitt verði kr 300.000 til vegarins.  C. til nýbyggingar á Keflavíkurvegi“.  Ályktunin var samþykkt samhljóða.
 8. Þá var, eftir nokkrar umræður, samþykkt eftirfarandi ályktun varðandi flugsamgöngur: „Almennur fundur í Rauðasandshreppi lýsir megnri óánægju yfir því ástandi er hér ríkir í flugsamgöngum byggðarlagsins.  Enda þótt flugvélar þær sem notaðar eru til flugþjónustunnar séu góðar og flugmennirnir öruggir, þá verður það að teljast óæskilegt og lítt viðunandi að auk þess sem þeir er fljúga með þessum flugvélum um völlinn í Sauðlauksdal eru látnir greiða hærra flugfar en aðrir Vestfirðingar búa við, þá verða þeir að auki sjálfir að kosta bílfar að og frá flugvelli.  Þetta er óeðlilegt og ekki réttlátt.  Það þarf að lengja flugvöllinn og breikka, svo að flugvélar Flugfélags Íslands geti fengið aðstöðu til þess að nota hann.  Myndu þá fargjöld verða í réttu samræmi við vegalengd flugs og alla aðstöðu.  Vafalaust myndu þá flugvélar verða notaðar mikið meira á þessari flugleið en nú er.  Fyrir því skorar fundurinn á Flugmálastjórn Íslands að láta nú þegar á næsta sumri lengja flugvöllinn á Sauðlauksdalssöndum og breikka svo að flugvélar Flugfélags Íslands geti haft viðskipti við hann“.  Samþykkt í einu hljóði.
 9. Ýmis mál.   Ívar Hallddórsson hóf máls á því að segja frá stofnun Mjólkursamlags sem nær yfir Rauðasands-, Barðastrandar- og Tálknafjarðarhreppa.  Gat hann þess að fyrir dyrum stæði að stofna þetta samlag og stæði til að taka ákvörðun um byggingu mjólkurvinnslustöðvar á Patreksfirði.  Beindi ræðumaður þeirri spurningu til hreppsnefndarinnar hvaða fjárhagslegar aðstoðar væri að vænta frá hendi sveitarsjóðs.  Snæbjörn J. Thoroddsen taldi að sveitarsjóður myndi ekki skorast undan sinni skyldu ef hinir hrepparnir leggðu fé fram.  Ívar Ívarsson lýsti sig samþykkan því og taldi nauðsyn til bera að gera eitthvað; þó ekki væri nema frá heilbrigðislegu sjónarmiði.  Össur Guðbjartsson taldi sig skorta upplýsingar, svo sem um rekstraraðstöðu og fleira, til þess að taka afstöðu í málinu.  Umræður urðu enn nokkrar um málið.  Samþykkt var að veita hreppsnefndinni heimild til þess, fyrir hönd sveitarsjóðs, að ábyrgjast allt að 200 þúsund króna lán í þessu skyni.  B.  Össur Guðbjartsson bar fram þá fyrirspurn hvað dveldi útkomu Árbókar Barðastrandasýslu.  Þórður Jónsson, sem er í ritnefnd, gaf þau svör að óverjandi drátt ritstjóra væri um að kenna.  Snæbjörn J. Thoroddsen sagði að áhuginn fyrir þessu máli myndi hafa farið með Jóni Ísfeld og Jóhanni Skaftasyni.  Þá kom fram eftirfarandi tillaga frá Össuri Guðbjartssyni:  „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi lýsir óánægju sinni með þann drátt sem orðið hefur á útkomu Árbókar Barðastrandasýslu.  Telur hann það óumdeilanlega menningarlega afturför að láta útgáfu hennar falla niður.  Fundurinn skorar því á ritnefnd bókarinnar og sýslunefnd að láta útkomuna eigi dragast lengur en orðið er“.  Samþykkt samhljóða.  Fleira ekki gert.  Fundi slitið.

               Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)       Össur Guðbjartsson (fundarritari) 

02.04.1964.  Umsókn um hækkun ellilífeyris.  Tilkynning um fóðurvöntun bónda.  Skoðun forðagæslumanna leiddi í ljós næg hey en léleg hús.  Kostnaður viðgerða læknisbústaðar á Patreksfirði.  Sýsluvegir.

14.05.1964.  Bréf bókafulltrúa um skort á skýrsluskilum Lestrarfélaga og tilmæli um sameiningu þeirra.  Styrkur til söfnunar vegna jarðskjálfta í Skopje.  Ekki nýttur forkaupsréttur vegna sölu á Lambavatni-Efra.  Bygging sameiginlegs fangahúss hreppanna á Patreksfirði; Rauðasandshreppur tekur þátt í henni.  Framlag til mjólkurstöðvarbyggingar á Patreksfirði.

21.07.1964.  Niðurjöfnun útsvara.  Orlof húsmæðra.  Fyrirhugaðar hrútasýningar.  Minkaeyðing; Ólafur Sveinsson ráðinn minkaeyðir og fær æfðan minkahund.  5 dýrabogar verða í vörslu hans og Ásgeirs Erlendssonar.  Lántökukostnaður vegna framkvæmda á Víknavegi.  Flokkun vega.  Suðurfossárbrú.

30.08.1964.  Niðurjöfnun fjallskila; 3 fjallskilaseðlar sendir, hver á sína boðleið.  Umsókn Sláturfél. Örlygs um framlag; vísað til næsta árs.  Útsvarskærur. 

22.01.1965.  Álagning 1% aðstöðugjalds. 

Almennur hreppsfundur 19.03.1965 í Fagrahvammi

21 maður mættur

 1. Oddviti, Snæbjörn J. Thoroddsen, setti fundinn og las reikninga sveitarsjóðs fyri sl ár og bar saman ýmsa liði þeirra við reikninga fyrra árs. Gat oddviti þess að ennþá væri eigi lokið fjölritun reikninganna, en þeir yrðu sendir á hvert heimili í sveitinni þegar þeir væru tilbúnir.
 2. Formaður framkvæmdanefndar Fagrahvamms skýrði frá rekstri hússins sl ár og las reikninga þess. Nokkur hagnaður eða liðlega kr 15.000 varð af rekstri hússins.  Gat formaður þess að hann væri búinn að starfa í húsnefndinni í 10 ár og í byrjun hefði hann ekki ætlað sér að starfa lengur, en myndi þó gefa kost á sér í 1 ár enn.  Snæbjörn J. Thoroddsen minnti á að flestir sem væru í nefndum væru búnir að vera það í 10 ár og hefði hreppsnefndin í huga, ef hægt væri, að minnast þess eitthvað.  Júlíus Kristjánsson lét í ljós þá skoðun að ekki væri það í samræmi við upphaflegan tilgang hússins að ekki væri haldið uppi einhverju skemmtanalífi, en sl ár hefði verið snautt af slíku.  Í sambandi við ræðu hans sagði Þórður Jónsson að ekki væri rekstursgrundvöllur, fjárhagslega séð, fyrir samkomur fyrir aðkomið fólk.  Þessir voru kjörnir í framkvæmdanefnd:  Aðalmenn Þórður Jónsson, Anna Hafliðadóttir, Ragnheiður Magnúsdóttir, Dagbjört Torfadóttir, Árni Helgason.  Varamenn:  Valgerður Jónsdóttir, Dagbjörg Ólafsdóttir, Fríða Thoroddsen, Marinó Kristjánsson, Óli Ingvarsson. 
 3. Þórður Jónsson skýrði frá störfum stjórnar Styrktarsjóðs Rauðasandshrepps Stjórnin hélt einn fund á árinu.  Ekki var veittur styrkur úr sjóðnum á árinu.  Endurkjörinn var sem aðalmaður í stjórn sjóðsins Ívar Ívarsson og til vara Daníel Eggertsson.
 4. Formaður byggingarnefndar heimavistar fyrir barnaskóla sveitarinnar; Þórður Jónsson, skýrði frá störfum nefndarinnar og byggingaframkvæmdum. Kvað hann bygginguna nú vera að nálgast 2 milljónir eins og hún nú er.  Gat hann þess að ríkisframlag til byggingarinnar myndi greiðast á 2 árum; þessu og næsta ári.  Byggingin er áætluð að kosti kr 6 milljónir; fullgerð með nauðsynlegum tækjum.  Ræddi hann nokkuð um fjárhagshorfur varðandi bygginguna og taldi að best væri að jafna sem best niður á hreppsbúa, en mynda ekki skuldir nema minnst.  Ívar Ívarsson talaði og kvaðst ætíð hafa gagnrýnt meðferð þessa máls.  Rakti hann síðan gang málsins á almennum hreppsfundi sem haldinn var til ákvörðunar í málinu.  Taldi hann að byggingarnefndinni hefði borið að kalla saman almennan fund til samþykktar eða synjunar nýrri iteikningu fyrir heimavistarbygginguna, sem hann sagði allt aðra en þá er samþykkt var á nefndum fundi.  Enn var málið rætt nokkuð frá ýmsum hliðum og tóku þessir til máls:  Þórður Jónsson, Össur Guðbjartsson, Snæbjórn J. Thoroddsen, sem rakti í stórum dráttum sögu skólabyggingarmálsins frá 1930 og til þessa dags.  Ívar Ívarsson talaði aftur; þá drap hann á þá hugmynd hvort ekki mætti; til að afla fjár til byggingarinnar, efna til happdrættis.  Enn talaði Snæbjörn J.Th og Ívar Ívarsson.  Málið var síðan tekið út af dagskrá.
 5. Oddviti las upp bréf frá bókafulltrúa ríkisins, Guðmundi Hagalín, þar sem lagt er fyrir oddvita að vinna að því í samráði við stjórnir lestrarfélaganna að bókasöfn þeirra verði sameinuð á einum stað í sveitinni. Fylgdi bréfinu fyrirmynd að samningi milli hreppsnefndar og stjórna félaganna um rekstur sameiginlegs bókasafns.  Gat oddviti þess að bókafulltrúi hefði áréttað þetta í símtali.  Þórður Jónsson taldi að ekki hefði verið um húspláss í þessu skyni að ræða fyrr en ef það yrði þegar heimavistin kæmi upp, en taldi að þá sköpuðust skilyrði til þess.  Ívar Ívarsson taldi að bókafulltrúi hefði tæplega þann íhlutunarrétt sem fram kemur í bréfi hans.  Efaðist hann mjög um hagkvæmari rekstur eins bókasafns en við núverandi skipulag.  Össur Guðbjartsson lýsti sig fylgjandi því að sameinuð væru lestrarfélögin, með tilliti til breyttra viðhorfa í samgöngumálum.  Svohljóðandi tillaga kom fram í málinu og var samþykkt samhljóða:  „Bréf bókafulltrúa dags 21.. og 22. sept 1964 var lagt fram á almennum hreppsfundi 1965.  Málið var rætt og allmargir tóku til máls.  Öllum var ljóst að eins og nú er er ekki til húsnæði fyrir sameinaðar bækur lestrarfélaganna.  Í smíðum er hér heimavistarskóli og í von um að þar skapist skilyrði til varðveislu bókanna en það ósk fundarins að fresta að taka ákvörðun um málið að þessu sinni“.
 6. Þá las oddviti upp bréf frá Sláturfélaginu Örlygi. Þar er farið fram á 26.000 kr fjárframlag til byggingar sláturhúss félagsins.  Jón Hákonarson framkvæmdastjóri Sláturfélgsins Örlygur gat þess að síðan bréfið hefði verið skrifað hefði framkvæmdum verið haldið áfram og væru nú alllangt komið, en fjárhagur ekki sem skyldi.  Ívar Ívarsson taldi að þetta mál væri ekki sambærilegt við mjólkurvinnslustöðina.  Þórður Jónsson taldi að hreppnum bæri að sýna það í verki að hann virti það framtak sem hér er um að ræða.  Össur Guðbjartsson ræddi nokkuð um hina félagslegu hlið málsins frá sjónarmiði sveitarfélagsins.  Kvað hann sig fylgjandi því að styrkur yrði veittur.  Snæbjörn J. Thoroddsen bar fram svohljóðandi tillögu í málinu:  „Þetta fámenna og févana sveitarfélag er dreift í tvö kaupfélög; eða jafnvel í þrjú félög.  Við þetta lamast framkvæmdamáttur þeirra beggja, borið saman við það ef þau gengju sameinuð til starfa.  Fyrir því er það ósk mín að stjórnir beggja félaganna ræði með sér hugsanlega möguleika á að sameinast í eitt félag.  Við slíka sameiningu myndu hugir fóksins betur leiðast saman um sameiginleg áhugamál byggðarlagsins og félagsstarfsemin verða sterkari og betur þess umkomin að leiða velferðarmál sveitarinnar fram; öllum til gagns og farsældar.  Að löglega frágenginni slíkri sameiningu samþykkir fundurinn að veita þeim nýja félagsskap vaxtalaust framlag af Framkvæmdasjóði hreppsins kr 100.000, til þess að styrkja starfsemi sína og koma henni á traustan grundvöll.  Að fimm ára tímabili liðnu endurgreiðist framlag þetta til Framkvæmdasjóðs, hafi ekki á fimm ára tímabilinu viðskipta- og félagsmálum sveitarfélagsins skipast á þann veg að sveitarstjórn og framkvæmdastjórn félagsins verði sammála um að ráða þessum málum á annan veg, er betur megi til heilla horfa íbúum hreppsins.  Hreppstjóri Rauðasandshrepps er beðinn að kalla stjórnir félaganna saman til viðræðna um sameiningu og stjórna viðræðum“.  Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.  Enn urðu allmiklar umræður um málið og tóku þessir til máls:  Ívar Ívarsson, Össur Guðbjartsson, Þórður Jónsson.  Þá var samþykkt með 12 atkvæðum gegn 4 að verða við beiðni Sláturfélagsins Örlygur um fjárstyrk að upphæð kr 25.000 til byggingar Sláturhúss á Gjögrum.
 7. Samgöngumál. Oddviti fór fram á það við Braga Ó Thoroddsen að hann segði frá horfum um framkvæmdir í samgöngumálum á árinu.  Tók þá vegaverkstjóri Bragi Ó Thoroddsen til máls.  Rakti hann fyrst fjárveitingar til vega á sl ári og hvað gert hefði verið.  Í viðhaldsfé fékk svæði hans kr 1.700 pr km.  Þá rakti hann áætlun um framkvæmdir í sveitinni næstu 4 árin.  Ræddi hann síðan almennt um vegamálin og taldi að þessari áætlun myndi tæplega verða breytt mikið.  Oddviti fór þess á leit við verkstjóra að hann mætti á hreppsnefndarfundi til viðræðna um þessi mál, og tók hann vel í það.  Málið var síðan tekið út af dagskrá.
 8. Önnur mál.   Dreifing áburðar úr lofti.  Oddviti hafði framsögu í málinu og drap á mikilvægi þess að viðhalda beitilandinu með áburðargjöf, og væri því fremur ástæða til þess að leggja á þetta sérstaka áherslu þar sem von væri um aukna aðstoð hins opinbera að ræða.  Kr. Júlíus Kristjánsson kvað sig málinu fylgjandi, enda þótt misjöfn reynsla hefði af því orðið áður.  Fleiri lýstu sig fylgjandi málinu.  Þessir tóku til máls:  Össur Guðbjartsson, Þórður Jónsson, Egill Ólafsson.  Þá kom fram tillaga svohljóðandi og var samþykkt samhljóða:  „Fundurinn beinir því til næsta sýslufundar að hann beiti sér fyrir að dreift verði áburði úr lofti á næsta ári, á beitilönd í V-Barð í mikið stærra mæli en áður hefur verið“.  B.  Oddviti hóf máls á því hvort ekki væri rétt að hreyfa því í sýslunefnd að Barðastrandarhreppur leggði til menn í fjárleitir undir Skörðin og í öðru landi milli Rauðasands og Barðastrandar.  Nokkrar umræður urðu um málið og tóku þessir til máls og voru málinu fylgjandi:  Ívar Ívarsson, Reynir Ívarsson.  Svohljóðandi tillaga var lögð fram:  „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi beinir þeirri eindregnu ósk til sýslunefndar V-Barð að hún reyni að fá Barðstrendinga til sameiginlegrar smölunar með Rauðsendingum, sökum mikils og sívaxandi ágangs fjár frá Barðstrendingum á fjalllendi Rauðsendinga“.  Samþykkt samhljóða.  C.  Byggingafulltrúi.  Oddviti gat þess að enn hefði eigi verið fullnægt ákvæði í lögum að ráða byggingafulltrúa fyrir sýslufélagið.  Umræður urðu nokkrar, og m.a. um mannvirkjagerð við þjóðvegi.  Samþykkt var svohljóðandi tillaga í málinu:  „Fundurinn beinir því til sýslumanns að hann, í samráði við sýslunefnd, ráði þegar á þessu ári byggingafulltrúa fyrir V-Barð, eins og gildandi lög gera ráð fyrir“.   D.  Ívar Ívarsson sagði frá ferðalagi sínu um sveitina á sl ári í þeim tilgangi að safna skýrslum um vanhöld á sauðfé og orsakir þeirra.  Gat hann þess að samskonar eyðublöð hefðu borist til skýrslugerðar á þessu ári.  Sagði ræðumaður það uggvænlega háa tölu fjár er hrapaði úr klettum.  Ræddi hann í því sambandi nokkuð um sveltatökur og hversu þeim málum bæri að haga í framtíðinni með tilliti til breyttra viðhorfa frá samningu gildandi fjallskilareglugerðar.  Taldi hann brýna nauðsyn til bera að endurskoða ákvæði hennar að því er þetta varðar.  Eftir nokkrar umræður kom fram svohljóðandi tillaga sem samþykkt var samhljóða:  „Fundurinn skorar á sýslunefnd V-Barð að breyta 45.gr gildandi fjallskilareglugerðar þannig að sú kvöð verði tekin af umráðamanni lands að kosta girðingu til varnar því að fé fari í svelti, og að allur slíkur kostnaður greiðist úr sýslusjóði“.  E.  Ívar Ívarsson ræddi mörk og markaskrá, og taldi nauðsyn til bera að samræma útkomu markaskráa í V-Barð og A-Barð.  Sérstaka áherslu lagði hann á að markaskrá fyrir V-Barð yrði prentuð á þessu ári.  Tillaga kom fram svohljóðandi og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum:  „Fundurinn skorar á næsta sýslufund að láta prenta markaskrá fyrir V-Barð nú á þessu ári og hraða prentun svo að hún geti komið að notum við næstu fjallskil“.  Fleira ekki gert.  Fundi slitið.

       Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)       Össur Guðbjartsson (fundarritari)

 

28.07.1965.  Niðurjöfnun útsvara.  Fyrirhugaður fundur með Barðstrendingum um fjallskil.  Keyptur minkahundur.  Ekki nýttur forkaupsréttur að Koti, Krókshúsum, ½ Króki og ½ Stökkum.  8.000 til Fagrahvamms vegna 10 ára byggingarafmælis.

23.08.1965.  Lækkun útsvara hjá nokkrum greiðendum.

03.09.1965.  Niðurjöfnun fjallskila; þriðju leitir felldar niður í samráði við aðra hreppa.  Leyfi til tveggja Barðstrendinga að sækja fé á Sauðlauksdalsrétt sem þeir höfðu upprekstrarleyfi fyrir.  Ófremdarástand vega átalið.  Innt eftir framlagi til vegar milli Kollsvíkur og Breiðavíkur.

08.08.1965.  Sameiginlegur fundur hreppsnefnda Rauðasandshrepps og Barðastrandarhrepps um fjallskilamál.  Þriðji leitardagur felldur niður.  Barðstrendingar leggja til tvo í leitir undir Skörðum.

18.11.1965.  Bréf forðagæslumanna um fóðuskort og húsleysi bónda.  Honum gefinn stuttur frestur til úrbóta; annars sent sýslumanni.

09.02.1966.  Rafveitumál.  Hafsteinn Davíðsson rafbeitustjóri kynnir raflínulögn um hreppinn.

10.02.1966.  Sameiginlegur fundur hreppsnefnda Rauðasands- og Barðastrandarhrepps um raflínulögn.  Fulltrúar hreppanna munu fara suður að ræða málin. 

Almennur hreppsfundur 07.05.1966 í Fagrahvammi

10 mættir

 1. Skýrsla framkvæmdanefndar Fagrahvamms. Formaður framkvæmdanefndar Þórður Jónsson gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og las upp reikninga hússins.  Var húsið leigt sl ár til íbúðar fyrir byggingarstarfsmenn heimavistarinnar og auk þess notað til fundahalda innan sveitarinnar.  Reikningarnir voru síðan samþykktir með öllum atkvæðum fundarmanna.  Þá var kosin framkvæmdanefnd Fagrahvamms fyrir næsta ár.  Voru bæði aðal- og varamenn endurkjörin.
 2. Formaður byggingarnefndar heimavistar barnaskólans Þórður Jónsson gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og hversu byggingunni miðaði áfram. Einnig gerði hann grein fyrir kostnaði sem til fallinn var á síðustu áramótum.  Um síðustu áramót stóð byggingin í ca 4 milljónum króna.  Taldi formaður nefndarinnar að kostnaður byggingarinnar myndi fara allt að 25% fram úr upphaflegri áætlun, en það er sem næst hækkun byggingarvísitölu síðan byrjað var á byggingunni og yrði þá kostnaðarverð byggingarinnar fullgerðrar ca 7,5 milljónir kr.  Umræður urðu ekki um málið og var það tekið út af dagskrá.
 3. Oddviti gat þess að ekki hefði verið veittur styrkur úr Styrktarsjóði Rauðasandshrepps á sl ári þar sem engin umsókn hefði borist.
 4. Vegaverkstjóri Bragi Ó Thoroddsen gerði grein fyrir vegaframkvæmdum í sveitinni. Gat hann þess að eini vegurinn sem unnið hefði verið á sl ár væri Patreksfjörður að flugvelli.  Eini vegurinn sem væntanlega verður unnið á er Kollsvíkurvegur; fjárhæð 150 þúsund.  Þá gat hann þess að vilyrði væri fyrir veginn út á Bjarg (Keflavíkurbjarg).  Samkvæmt vegaáætluninni eru 24 milljónir veittar í sýslunni á 4 árum.  Taldi vegaverkstjóri að aðalvandamálið í vegamálum sveitarinnar væri skortur á viðhaldsfé, og þyrfti að þrýsta meira á ráðamenn til að fá aukið viðhaldsfé til veganna.  Taldi hann að stöðva þyrfti, eða takmarka mjög, þunga vöruflutninga á vegum.  Þórður Jónsson gerði fyrirspurn um hvenær yrði unnið á Keflavíkurvegi.  Taldi verkstjóri að hann gæti ekki sagt um það fyrr en í júní.  Þá gerði oddviti það að tillögu sinni að þrír menn yrðu kjörnir til þess að semja ályktunartillögu fundarins í þessu máli.  Ívar Ívarsson tók til máls.  Össur Guðbjartsson spurði um möguleikana á því að fá lánsheimild til aukinna framkvæmda á Kollsvíkurvegi.  Júl. Kristjánsson ræddi um hversu ábótavant væri viðhaldi veganna.  Bragi Ó Thoroddsen svaraði fyrirspurnum.  Kr. 200.000 á Örlygshafnarveg voru notaðar til að bæta veginn við byggingu flugvallar.  Þá sagði hann að svellavinna og snjómokstur færi ekki á viðhaldsfé.  Þá voru eftirtaldir menn kjörnir til þess að gera tillögu í vegamálum sveitarinnar:  Magnús Ólafsson, Bjarni Sigurbjörnsson og Össur Guðbjartsson.
 5. Skýrsla frá horfum í málum varðandi rafvæðingu Rauðasandshrepps. Hafsteinn Davíðsson gerði grein fyrir áætlun sem hann, ásamt hreppsnefndum Rauðasandshrepps og Barðastrandarhrepps, hafa látið gera af fagmönnum um rafvæðingu þessara hreppa.  Hefur þingmönnum kjördæmisins verið gerð grein fyrir því sem gert hefur verið í málinu; m.a. verið kynnt fyrir þeim nefnd áætlun.  Einnig hefur áætlunin verið lögð fyrir raforkumálaráð.  Endanlegt álit þessara aðila liggur enn ekki fyrir.  Álit raforkumálastjóra er væntanlegt í næsta mánuði.  Taldi ræðumaður það litlu skipta hvert álit raforkumálastjóra væri í málinu, þar sem eðlilegast væri að hrepparnir stofnuðu hlutafélag um framkvæmd í málinu; enda væri í áætlunum raforkumálaskrifstofunnar ekki gert ráð fyrir að rafmagn kæmi í þennan hrepp næstu árin, og kannski aldrei.  Oddviti þakkaði ræðumanni hans upplýsingar og önnur störf í sambandi við málið.  Þá ræddi oddviti áætlunina og bar saman áðurnefnda áætlun og áætlun raforkumálastjóra, en þar ber á milli um 50% í stofnkostnaði, sem raforkumálastjóri er hærri en frumáætlunin.  Taldi oddviti einu leiðina til þess að fá úr því skorið hvor rétt hefði fyrir sér , að hreppsnefndirnar biðu verkið út án þess að stofna hlutafélag fyrst.  Taldi oddviti ekki rétt að gera neitt bindandi í þessu máli fyrr en skjalfest áætlun kæmi frá raforkumálastjóra.  Ívar Ívarsson gerði fyrirspurn um það hvort kostnaður við breytingar á símalínum vegna rafvæðingarinnar kæmi á rafveituna.  Hafsteinn Davíðsson taldi sig ekki geta svarað þessu, en taldi það ólíklegt.  Bragi Ó Thoroddsen gerði að umtalsefni þá nauðsyn að Patrekshreppur gerði sér ljóst að hann stæði og félli með sveitunum í kring.  Þessvegna bæri að styðja framfarir þar, og gera engar áætlanir þar sem ekki væri tekið fullt tillit til sameiginlegra þarfa.  Þórður Jónsson taldi að hér væri ekki aðeins um baráttu fyrir rafmagni í þessa hreppa að ræða, heldur fyrir alla þá sem enn hefðu ekki fengið rafmagn.  Gat hann þess að hann hefði nýverið átt tal við Pál Hafstað, og taldi hann (þ.e. Páll) að ýmis atriði í henni fengju ekki staðist, svo sem notkun rafmagnsins.  Taldi hann rétt að bjóða verkið út, enda þótt ekki yrði stofnað hlutafélag áður.  Taldi hann að framkvæmd þessa máls myndi ekki verða okkur ofviða.  Gerði oddviti það að tillögu sinni að öllum frekari ákvörðunum í málinu yrði frestað þar til svar bærist frá raforkumálastjóra.  Hafsteinn Davíðsson taldi að strax bæri að leita tilboða í verkið og lýsti því yfir að það væri ekki bindandi.  Magnús Ólafsson taldi að athuga ætti betur um línustæði yfir í Rauðasandshrepp en gert hefði verið, með tilliti til bæjanna inn með firðinum.  Össur Guðbjartsson taldi að ekki væri rétt að stefna að einkarekstri í þessum málum, en það ætti að vera hlutverk þjóðfélagsins að framkvæma þetta eins og aðrar almennar framkvæmdir.  Taldi hann samt stóran ávinning að áætluninni, þar sem hún hefði vakið ráðamenn til umhugsunar um þörf á lausn þessara mála.  Hafsteinn Davíðsson áréttaði fyrri yfirlýsingu sína, um hagkvæmni einkareksturs í þessu máli.  Þá var það borið undir atkvæði hvort leita skyldi tilboða í þessar framkvæmdir, án þess að þau séu að nokkru leiti bindandi fyrir sveitina.  Var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
 6. Kosnir voru í stjórn Styrktarsjóðs Rauðasandshrepps; Þórður Jónsson sem aðalmaður og Daníel Eggertsson sem varamaður.
 7. Önnur mál.   Oddviti gat þess að dregist hefði að gefa út markaskrá vegna endurskoðunar laga í því efni.  Kvaðst hann myndi beita sér fyrir því að hún kæmi út á árinu.  Málið var ekki rætt og tekið út af dagskrá.  B.  Oddviti ræddi að lokum ýmis verkefni sem bíða úrlausnar náinnar framtíðar.  Nefndi hann í því sambandi vegamál; dreifingu áburðar á beitilönd; dreifingu vöru í sveitinni; nauðsynlegar hafnarbætur á Gjögrum og framtíð Sauðlauksdals.  Í framhaldi af þessu drap hann á hvort ekki væri athugandi að gera framkvæmdaáætlun fyrir sveitinni.  Snæbjörn J. Thoroddsen þakkaði síðan hreppsbúum fyrir góða samvinnu.  Einnig þökkuðu Ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson meðhreppsnefndarmönnum fyrir ánægjulegt samstarf.  Bragi Ó. Thoroddsen þakkaði oddvita fyrir góða samvinnu á undanförnum árum.  Kr. Júl. Kristjánsson gerði störf fundarins að umtalsefni og taldi þennan hreppsfund þann besta sem hann hefði setið.  Ræddi hann einnig um ýmis mál sveitarinnar m.a. menntamál.  Hafsteinn Davíðsson þakkaði fundinum fyrir það traust sem hann hefði sýnt sér.  Þá var gefið fundarhlé meðan nefnd sú sem semja átti tillögu í vegamálum starfaði.  Skilaði nefndin svofelldu áliti, sem síðan var samþykkt af fundinum:  „Almennur hreppsfundur skorar á vegamálastjórn og þingmenn Vestfjarða að beita sér fyrir eftirfarandi:  1.  Að auknar verði stórlega fjárveitingar til viðhalds vega í sveitinni.  Með tilliti til vaxandi vöruflutninga á landi eykst í sama hlutfalli þörfin fyrir aukið viðhaldsfé.  Má til dæmis nefna að nú fara mjólkurflutningar úr sveitinni til Patreksfjarðar fram á landi, en til skamms tíma fóru allir þeir flutningar fram á sjó.  Veldur þetta, með öðru, auknu sliti á vegum.  Þá má benda á að þá kafla sem verða ófærir af svellum á hverjum vetri, og eytt er fé í að halda opnum, er mjög mikilvægt að laga.  Má segja að þeir vegir sem lagðir voru fyrir fáum árum séu nú að verða ónýtir; eingöngu fyrir skort á viðhaldi.  2.  Að við væntanlega endurskoðun viðhaldsáætlunar á næsta ári verði aukið nýbyggingafé í samræmi við eftirfarandi: a)  Lagt verði nægilegt fé til þess að gera veginn frá Patreksfirði að flugvelli öruggan vetrarveg.  b)  Áætlunarleiðir mjólkurflutninganna (vegurinn á Rauðasand og út með Patreksfirði að vestan að Hænuvík) verði gerðir öruggir vetrarvegir.  c)  Ennfremur leggur fundurinn höfuðáherslu á að lokið verði, á tímabili nefndrar áætlunar áætlunar, nýbyggingu vegarins frá Kollsvík að Vistheimilinu að Breiðavík, sem mun tryggja því og Hvallátrum öruggar vetrarsamgöngur og auk þess tengja sveitina saman í félagslega heild. 

Fleira var ekki gert á fundinum.  Fundi slitið.

                                      Ívar Ívarsson                                           Össur Guðbjartsson (fundarritari)

                                                          Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti) 

  06.06.1966.  Skipun í kjörstjórnir Rauðasandskjördeildar, Hafnarkjördeildar og Breiðavíkurkjördeildar vegna sveitarstjórnarkosninga.  Ógreiddar útsvarsskuldir.  Dagpeningar oddvita vegna ferða.

16.08.1966.  Endurkjörin hreppsnefnd; Snæbjörn J. Thoroddsen; Ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson.  Snæbjörn verður áfram oddviti; Ívar varaoddviti.  Skólanefnd: Anna Hafliðadóttir og Júlíur R. Ívarsson; varamenn Þórir Stefánsson og Dagbjörg Ólafsdóttir.  Sáttagerðarmenn; Þórður Jónsson og Árni Helgason; varamenn Daníel Eggertsson og Kr. Júl. Kristjánsson.  Matsmaður Brunabótafélags Íslands Þórður Jónsson; varamaður Hafliði Halldórsson.  Í stjórn Söfnunarsjóðs; oddviti og varaoddviti.  Í áfengisvarnarnefnd; Ívar Ívarsson og Jóhanna Gunnlaugsdóttir; varamenn Vilborg Torfadóttir og Ívar Halldórsson.  Í stjórn Læknisvitjanasjóðs; Daníel Eggertsson og Kr. Júl. Kristjánsson; varamenn Hafliði Halldórsson og Ingvar Guðbjartsson.  Aðalúttektarmaður Ívar Ívarsson; varamaður Ólafur Sveinsson.  Bygginganefnd; Þórður Jónsson, Egill Ólafsson og Ingvar Guðbjartsson; varamenn Árni Helgason, Þórir Stefánsson og Ólafur Sveinsson.  Fulltrúi á landsþing Sam.ísl sveitarfél; oddviti og varaoddviti; Forðagæslumenn; Bragi Ívarsson og Árni Helgason; varamenn Ásgeir Erlendsson og Júl. R. Ívarsson.  Lengingabótanefnd Örlygshafnarbryggju; Árni Helgason, Jón Hákonarson og Marinó Kristjánsson; varamenn Ólafur Sveinsson, Kr. Júl. Kristjánsson og Bjarni Sigurbjörnsson.  Endurskoðendur hreppsreikninga; Daníel Eggertsson og Egill Ólafsson.  Stjórn Sjúkrasamlags Rauðasandshrepps; Ólafur Magnússon og Þórður Jónsson; varamenn Ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson.  Í stjórn lestrarfélaganna voru kjörnir; Tryggvi Eyjólfsson fyrir Lestrarfél. Rauðasands; Jón Hákonarson fyrir Lestrarfélag Sauðlauksdalssóknar og Össur Guðbjartsson fyrir Lestrarfélag Breiðavíkursóknar.  Barnaverndarnefnd; Þórður Jónsson, Dagbjört Torfadóttir, Össur Guðbjartsson; varamenn Þorir Stefánsson, Jóna Snæbjörnsdóttir og Árni Helgason.  Ekki ástæða til skipunar í lendingarbótanefnd hvalskersbryggju þar sem hlutverki hennar virðist lokið.  Ekki fulltrúi á framkvæmdaráðstefnu S.í.svfél.  Oddviti mæti á fund Samb.ísl rafveitna.  Rauðasandshreppur verði hluthafi í Vestfjarðaflugi hef.  Skulda- og lyfsölumál Patr.læknishéraðs.  Niðurjöfnun útsvara og yfirlit um tekjugrunn margra hreppsbúa.

08.09.1966.  Niðurjöfnun fjallskila í leitarsvæðunum 3.  Ívar Ívarsson hefur umsjón með skilum óskilafjár.  Sr Þórarinn Þór upplýsir að Bjarni í Haga eigi að sjá um fjallskil í Sauðlauksdal, þar sem hann hefur upprekstur.  Samráð við hreppsnefnd Barðastr.hr um fjallskil.  Leiðrétt eignaútsvör nokkurra.  Össur Guðbjartsson fer á stofnfund Vestfjarðaflugs hf.  Hreppurinn kostar girðingu við Setnagjá ef landeigendur girða, eða þeir sem þar hafa hagagöngu.

13.09.1966.  Fundur með hreppsn Barðastr.hrepps um fjallskil.  Barðstrendingar munu ekki leggja til menn í smalanir undir Skörðum og ekki var jákvætt tekið í beiðni þeirra um að smala fé þar eftir leitir.

08.11.1966.  Breytingar á álögðum útsvörum nokkurra.  Áherslur í vegamálum:  Fullgera veginn yfir Hænuvíkurháls; byrjun vegar úr Kollsvík að Breiðavík; endurbætur í Vörðubrekku; Keflavíkurvegur skráist sem fjallvegur; stóraukið verði viðhaldsfé.  Hreppsábyrgðir tveggja lána.  Laun hreppsnefndarmanna.  Framlag hreppsins til skólabyggingarinnar.

14.12.1966.  Grár ómarkaður gemlingur sem heimtist í Kvígindisdal telst eign Reynis Ívarssonar.  Bryggjunefnd Örlygshafnar bent á að innheimta bryggjugjöld af grásleppubátum.  Frumrannsókn á virkjanamöguleikum vatnsfalla í Rauðasandshreppi:  Einkum tilnefnd tvö; Skalladalsá og Hagagilsá.  Frekari rannsókna er þörf.  Oddviti kanni heilbrigðismál sýslufélagsins.  Ábyrgð Bjargráðasjóðsláns.  Upplýsinga verði aflað um forsjá búsins í Vestur-Botni.    Óbreytt framlag til lestrarfélaga.  Risna og kostnaður oddvita.  Fjárhagsáætlun.  Hreppurinn kaupi 5 eintök af myndabók hreppsins.

29.01.1967.  Raforkumál.  Í tilefni af nýjum raforkulögum er nauðsynlegt að stofna til héraðsveitu og setja henni reglugerð eða gera „almenna búenda samþykkt“.

09.05.1967.  Hreppurinn greiði ráðskonulaun í skólanum.  Mælt með beiðni skólanefndar um framlag úr Atvinnujöfnunarsjóði til frágangs skólalóðar.  Mótmælt skerðingu Jöfnunarsjóðsframlags.  Tekin verði lán úr Lánasjóði sveitarfélaga.  Upprekstur utansveitarfjár í Sauðlauksdal verði bannaður, enda óheimill skv reglugerð nema að innansveitarmönnum frágengnum.  Kjörstjórnir verði óbreyttar við alþingiskosningar.  Málefni næsta hreppsfundar. 

 Almennur hreppsfundur 12.05.1967 í Fagrahvammi

Mættir 14 heppsbúar

 1. Oddviti las upp reikninga sveitarsjóðs yfir seinasta ár og skýrði einstaka liði. Hrein eign í árslok var 1.679 þúsund kr.  Þórður Jónsson gerði fyrirspurn um hvort innifalið væri í liðnum „landbúnaðarmál“ kostnaður við eyðingu refa og minka.  Einnig minnti hann á að sveitarsjóður ætti ógreitt til mjólkurstöðvarinnar á Patreksfirði.  Oddviti sagði að kostnaður við eyðingu refa og minka væri innifalinn í liðnum „landbúnaðarmál“.
 2. Formaður skólabyggingarnefndar Þórður Jónsson gerði grein fyrir störfum nefndarinnar á árinu. Kvað hann m.a. mikinn aukakostnað hafa orðið við bygginguna vegna fjarlægðar þeirra iðnaðarmanna sem að byggingunni vinna.  Taldi hann að kostnaður við bygginguna stæði áætlun til þessa, þegar tekið er tillit til hækkaðrar byggingavísitölu.  Einnig gat hann þess að samkvæmt áætlun myndi frágangur á lóð skólans kosta kr 700-800 þúsund.  Sagði hann að húsið væri að verða fullgert og tækist væntanlega að fullu á þessu sumri.  Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen, sem er fjárhaldsmaður byggingarinnar, gerði síðan grein fyrir fjárhag byggingarinnar.  Sagði hann í því sambandi að húsið væri orðið 1,5 milljónum dýrara vegna fjarlægðar frá iðnaðarmönnum o.fl.  Ræddi hann síðan nokkuð um tildrög til þessarar framkvæmdar og framtíðarverkefni.
 3. Þórður Jónsson fjárhaldsmaður framkvæmdanefndar Fagrahvamms gerði grein fyrir störfum nefndarinnar sl ár. Gat hann þess m.a. að keyptir hefðu verið borð og stólar fyrir kr. 36.000 á árinu.  Las hann síðan upp rekstrarreikning hússins.  Reksturskostnaður á árinu varð rúmar 30.000 kr.  Össur Guðbjartsson drap á nauðsyn þess að haldið væri uppi einhverskonar skemmtanalífi í sveitinni; sérstaklega með tilliti til uppvaxandi ungs fólks í sveitinni.  Þórður Jónsson tók undir nauðsyn þess að halda uppi skemmtanalífi, en taldi að þær skemmtanir sem slíkar yrðu ekki haldnar svo að þær stæðu fjárhagslega undir sér.  Taldi hann að fela þyrfti meira ungu fólki að sjá um undirbúning slíks.  Fleiri tóku til máls; Snæbjörn, Þórður og Össur.  Kom m.a. fram að nauðsynlegt væri, ef hægt væri að koma upp samkomu 17.júní í ár.  Kosning í framkvæmdanefnd Fagrahvamms:  Nefndin var endurkjörin öll í einu hljóði, samkvæmt upptalningu; bæði aðalmenn og varamenn.
 4. Samgöngumál. Samkvæmt beiðni hreppsnefndarinnar mætti Bragi Ó Thoroddsen vegaverkstjóri á fundinn  og hafði framsögu um málið.  Kvað hann lítið sem ekki hafa breyst viðhorf í málinu frá því í fyrra og kvð ekki hafa fram komið að þær tillögur sem samþykktar voru í málinu þá hefðu haft nein áhrif við endurskoðun vegaáætlunarinnar á seinasta Alþingi.  Taldi hann mikilvægast ef hægt væri að koma vegamálastjórninni í skilning um að viðhaldsfé væri svo lítið að vegirnir gengju stöðugt úr sér; svo mjög að innan stundar komi að því að loka yrði vegum ef ekki yrði aukið fé til viðhalds.  Gat hann þess að unnið hefði verið eins og hægt hefði verið, bæði af oddvita og verkstjóra að fá fé í Kollsvíkurveginn og Vörðubrekkuna.  Að síðustu lagði hann áherslu á að fundurinn ítrekaði samþykktir sínar frá í fyrra.  Oddviti gerði grein fyrir störfum sínum í þessum málum og skiptum vínum við þingmenn kjördæmisins og vegamálastjóra.  Þá drap hann á nauðsyn þess að fá bættan veginn yfir Kleifaheiði vegna fyrirhugaðrar mjólkursölu til Patreksfjarðar.  Allmiklar umræður urðu um málið.  Hnigu þær mjög í sömu átt og ræður frummælenda. Þessir tóku til máls:  Össur Guðbjartsson, Þórhallur Hálfdánarson, Snæbjörn J. Thoroddsen, Bragi Thoroddsen, Ívar Ívarsson o.fl.  Þá var samþykkt tillaga:  „Fundurinn ítrekar í höfuðatriðum samþykkt sína í þessu máli frá í fyrra.  Felur hann hreppsnefndinni, ásamt Þórhalli Hálfdánarsyni, að semja ályktun með tilliti til breyttra viðhorfa.  Þeir fái til liðs við sig Braga Ó Thoroddsen vegaverkstjóra.
 5. Rafmagnsmál. Hafsteinn Davíðsson mætti á fundinn að beiðni hreppsnefndarinnar og hafði framsögu í málinu.  Raddi hann í fyrstu um álit raforkumálaskrifstofunnar á áætlun sem gerð hefur verið yfir rafvæðingu sveitarinnar, og gerði grein fyrir þeim mismun sem er á þessum tveim áætlunum.  Taldi hann að einmitt þessi áætlun og annað sem gert hefði verið í málinu á undanförnum árum hefði haft sín jákvæðu áhrif til framgangs þess hjá stjórnvöldum, sem best mætti marka á því að nú væri ákveðið að leggja rafmagn yfir á flugvöll nú á þessu ári.  Fleira margt fróðlegt kom fram í ræðu frummælanda.  Oddviti þakkaði Hafsteini Davíðssyni hans ræðu.  Rakti hann það sem gert hafði verið í málinu á árinu.  Var samin reglugerð fyrir hugsanlega rafveitu Rauðasandshrepps sem send var raforkumálaráðherra og raforkumálastjóra.  Þá hafði oddviti átt tal við báða þessa aðila.  Ekki var um ákveðnar niðurstöður að ræða enn sem komið er í þessu máli.  Taldi oddviti nauðsynlegt að nú á þessu sumri yrði að fá úr því skorið hvort hagkvæmara væri fyrir sveitina að efna til sjálfstæðrar virkjunar innan sveitarinnar eða að kaupa rafmagn af ríkisveitunum.  Þórður Jónsson tók mjög í sama streng og frummælendur.  Taldi hann að leggja bæri sérstaka áherslu á að koma raflínum um sveitina.  Þórhallur Hálfdánarson spurði hvort sá strengur sem leggja á yfir á flugvöll yrði svo sver að hann bæri næga orku fyrir sveitina.  Kvað Hafsteinn svo vera.  Enn tóku þessir til máls:  Bragi Ó. Thoroddsen, Snæbjörn J. Thoroddsen.  Að loknum umræðum var samþykkt að vísa málinu til hreppsnefndarinnar til frekari aðgerða.
 6. Sýslufundarmál. Össur Guðbjartsson ræddi um nauðsyn þess að tekin væri upp aftur útgáfa Árbókar Barðastrandasýslu.  Taldi hann að með stöðugri útgáfu bókarinnar myndi geymast ýmislegur fróðleikur úr héraðinu, sem fengur væri að þegar tímar líða.  Þórður Jónsson og Snæbjörn J. Thoroddsen tóku í sama streng.  Einnig vék hann að því að hann teldi að minnismerki um Eggert Ólafsson hefði fremur átt að vera í Sauðlauksdal en í Skor.  Fundurinn samþykkti svolátandi tillögu í málinu:  „Fundurinn felur sýslunefndarmanni sínum að beita áhrifum sínum að því, við sýslunefnd, að hún hlutist til um það að hafin verði þegar á þessu ári útgáfa Árbókar Barðastrandasýslu að nýju.  B.  Þórður Jónsson fór fram á að sýslunefndarmaður beitti sér fyrir fjárveitingu sýslunnar til Keflavíkurvegar.  Sýslunefndarmaður kvaðst myndu hreyfa málinu á sýslufundi.  C., vegna þess að farið hefði verið fram á útgáfu viðauka við markaskrá er út kom á síðasta ári.  Kvað hann slíkt ekki koma til greina.  D.  Ingvar Guðbjartsson ræddi um að gera þyrfti umkvörtun um slæma símaþjónustu, þar sem hringingar heyrist mjög illa til skiptiborðsins á Patrkesfirði frá heimilum í sveitinni.  Fleiri tóku í sama streng.  Samþykkt var að fela hreppsnefndinni að koma þessari umkvörtun á framfæri við stöðvarstjórann.  E.  Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen ræddi um notkun utanhreppsmanna á upprekstrarlandi í Sauðlauksdal, en samkvæmt fjallskilasamþykkt er óheimilt að leyfa utanhreppsmönnum upprekstur nema að innansveitarmönnum frágengnum.  Samþykkt var svohljóðandi tillaga:  „Af ítrekuðu gefnu tilefni beinir fundurinn því til hreppsnefndar að hún fylgi vel eftir ákvæðum 18.gr fjallskilareglugerðar og standi í því efni vel á verði um hag bænda í hreppnum“

Fleira ekki gert.  Fundi slitið

                   Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)                       Össur Guðbjartsson (fundarritari) 

13.06.1967.  Samgöngumál áherslur.  Rafmagnsmál; m.a. athuganir á fallvötnum í hreppnum.  Fá Ólaf Sveison í grenjavinnslu.  Lán úr Lánasjóði sveitarfélaga.

09.08.1967.  Niðurjöfnun útsvara og athugasemdir við framtöl.  Lokun síma í Sauðlauksdal.  Oddviti sitji landsþing Sam.ísl sveitarfélaga.  Greiðslur fyrir hreppsnefndarstörf.  Fjárhagsáætlanir.

07.09.1967.  Niðurjöfnun fjallskila.  Álit félagsmálaráðuneytis um frávik útsvarsprósentu.  Athugasemdir við útsvör.

15.10.1967.  Fundur hreppsnefndar með skólanefnd og framkv.nefnd Fagrahvamms til að fjalla um leigumál o.fl.  Greiðslur fyrir aukakennslu.  Handavinnukennsla.  Leiga skólastjóra.  Varsla bókasafna.

18.10.1967.  Fundur oddvita með Þórði Jónssyni formanni skólanefndar og Ingólfi Þórarinssyni skólastjóra um kostnað vegna aukakennslu.

13.11.1967.  Tekið undir erindi Félags ísl vegfarenda sem mótmæla lögum um hægri umferð.  Kaup skólaráðskonu.  Uppgjör skólamötuneytis.  Kauptilboð í skólalóð.  Lán Bjargráðasjóðs.  Dómsmál um heimilisfesti manns.

25.01.1968. Álagning aðstöðugjalda.  Áfrýjun dóms um heimilisfesti GBA Breiðavík.  Fjárhagsáætlun.

 

06.02.1968.  Ársreikningar framlagðir.  Snjómokstur.  Málaferli um heimilisfesti; innfærðir dómar og bréf.

15.04.1968.  Oddviti sækir námskeið um sveitarstjórnarmál.  Samgöngumál; áherslur.  Kjörskrá athuguð.

01.05.1968.  Bréf Efnahagsstofnunar um áætlanagerð. Rekstur söluskúrs á Hvallátrum.  Umsókn Barðstrendingafélagsins um afnot barnaskólans að sumarlagi.  Kvörtun til símstöðvarstjóra vegna símasambands.  Kjörskrár til forsetakjörs.  Bóndi neitar að greiða réttargjald.    Mál til hreppsfundar.  Gjafir til barnaskólans renni í styrktarsjóð.  Skipan 17.júni nefndar.

Almennur hreppsfundur 11.05.1968 í Fagrahvammi 

 1. Reikningar sveitarsjóðs lagðir fram prentaðir.
 2. Þórður Jónsson formaður Skólabyggingarnefndar gerði grein fyrir framkvæmdum við bygginguna. Kvað hann sjálfri byggingunni lokið, en eftir væri að ganga frá lóðinni.  Ennfremur gat hann þess að landeigendur hefðu ekki viljað selja lóðina undir skólann, en fremur leigja hana.  Sagði hann að það mál væri nú í höndum hreppsnefndar.  Oddviti gerði því næst grein fyrir fjárhag byggingarinnar.  Skólinn kostar nú 9 milljónir; af því eru 2.150 þús skuldir.  Móti því er innstæða hjá ríkissjóði 1.300 þús.  Fleira margt kom fram í ræðu oddvita.  Júlíus Kristjánsson sagði að talað væri um skólabyggingu en enginn skóli væri þó fyrir hendi.  Enn fremur rakti hann gang máls þess er fjallar um kaup á lóðinni.  Kvð hann verðtilboð það er landeigendum hefði borist ekki virðandi svars.  Þessir tóku enn til máls:  Snæbjörn J. Thoroddsen, Þórður Jónsson, Össur Guðbjartsson.
 3. Formaður framkvæmdanefndar Þórður Jónsson gerði grein fyrir rekstri hússins sl starfsár og las upp reikninga þess.  Sagði hann að það lægi í hlutarins eðli að hlutverk hússins sem samkomustaðar væri nú minna sem slíkt, þar sem það væri nú leigt sem kennslustaður.  Umræður urðu ekki um málið.  Kosin var framkvæmdanefnd félagsheimilisins.  Öll nefndin sem gengt hefur störfum baðst undan endurkosningu, en þau hafa flest gegnt því starfi frá upphafi.  Oddviti bar fram þá ósk að nefndin endurskoðaði afstöðu sína og tæki kosningu.  Þórður Jónsson, Dagbjört Torfadóttir, og Ragnheiður Magnúsdóttir gáfu kost á sér fyrir tilmæli oddvita.  Kosning fór fram skriflega; þessi voru kosin:  Valgerður Jónsdóttir, Þórður Jónsson, Marinó Kristjánsson, Dagbjört Torfadóttir, Ragnheiður Magnúsdóttir.  Varamenn:  Dagbjörg Ólafsdóttir, Fríða Guðbjartsdóttir, Gréta Árnadóttir, Egill Ólafsson, Ingólfur Þórarinsson.
 4. Oddviti gat þess að hreppsnefndin hefði ákveðið að halda hátíðlegan 17.júní í ár, en þau hátíðahöld hfa fallið niður undanfarin ár vegna skólabyggingarinnar. Skipuð hefur verið nefnd til framkvæmda.
 5. Í stjórn Styrktarsjóðs Rauðasandshrepps var endukjörinn Þórður Jónsson og varamaður hans Daníel Eggertsson til eins árs. Í sömu stjórn í stað Ívars Ívarssonar var kjörinn Össur Guðbjartsson og til vara Ingvar Guðbjartsson til tveggja ára.
 6. Oddviti gerði grein fyrir fjárhag réttanna. Áttu þær allar nokkrar eignir.  Össur Guðbjartsson hóf máls á því hvort ekki væri tímabært að hefja byggingu nýrrar réttar eða endurbætur á þeirri gömlu.  Þórhallur Hálfdánarson kvað það skoðun sína að fremur ætti að viðhalda gömlu réttinni en byggja nýja.  Þórður Jónsson tók í sama streng.  Ívar Ívarsson gat um nokkra erfiðleika á að innheimta réttargjald af fé utansveitar sem rekið er upp í afrétt innan sveitarinnar, og ræddi um ýmis atriði sem snerta fjallskilin.  Össur Guðbjartsson lagði til að Þórði Jónssyni, Óla Ingvarssyni og Þórhalli Hálfdánarsyni yrði falið að boða til fundar um endurbyggingu Breiðavíkurréttar.  Tillagan samþykkt samhljóða.  Ívar Ívarsson gerði sérstaklega grein fyrir fjárhag Rauðasandsréttar og skilaði reikningi hennar til oddvita.  Allmiklar umræður urðu vegna skila á vafalambi sem sent var af Breiðavíkurrétt á Rauðasandsrétt; slátrað og lagt inn á sérstakan reikning.  Samþykkt var, eftir tillögu Þórhalls Hálfdánarsonar, að andvirði þess yrði gefið Slysavarnardeildinni Bræðrabandið.
 7. Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen gat þess sem kunnugt er, að erfiðleikar væru á að ná símasambandi milli línanna. Sagði hann að þetta mál væri í athugun tæknilega hjá póst- og símamálastjóra.  Lagði hann fram þá tillögu að símtöl sem færu fram innan sveitarinnar gegnum skiptiborð á Patreksfirði gengju fyrir samtölum innan hverrar línu.  Þórhallur ræddi mjög í sama dúr um málið og frummælandi og kvaðst hafa rætt málið við póst- og símamálastjóra.  Þórður Jónsson kvaðst hafa þurft að ná í símstöðina á Patreksfirði gegnum talstöð þar sem ekki voru tiltök, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fá stöðina til þess að svara.  Tillaga Snæbjarnar var síðan samþykkt samhljóða.  Enn urðu nokkrar umræður um málið og komu fram margar óánægjuraddir með símaþjónustuna á Patreksfirði.
 8. Samgöngumál. Bragi Ó Thoroddsen vegaverkstjóri var mættur á fundinn að boði hreppsnefndarinnar.  Var hann fummælandi og hóf máls með því að rekja framkvæmdir þær sem unnar voru á sl ári.  Gat hann þess að ekki væru neinar framkvæmdir í nýbyggingu vega væntanlegar í sveitinni á þessu ári.  Þá gat hann þess að ný reglugerð um snjómokstur hefði tekið gildi síðastliðið haust.  Samkvæmt henni nýtur sveitin aðeins ½ greiðslu á kostnaði við snjómokstur.  Oddviti gerði grein fyrir samþykktum hreppsnefndarinnar varðandi samgöngumál og vísast til fundargerðar nefndarinnar um það.  Þórður Jónsson þakkaði framkomnar upplýsingar og ræddi einkum um framkvæmdir með tilliti til þess að gera mjólkurflutningana framkvæmanlega að vetri til.  Fleira kom fram í ræðu hans.  Bragi Ó Thoroddsen taldi að ekki væri hægt að una við (annað en) það að fá mokaða mjólkurleiðina.  Fundurinn fól Snæbirni og Braga að semja tillögu í málinu til vegamálastjóra.
 9. Þórhallur taldi að leggja bæri aðaláhersluna á vegabætur á mjólkurleiðinni. Enn urðu nokkrar umræður; aðallega um framkvæmd snjómoksturs á sl vetri, og kom fram nokkur óánægja hjá Össuri Guðbjartssyni um það.
 10. Rafmagnsmál. Hafsteinn Davíðsson mætti á fundinn.  Ræddi hann einkum um að koma upp mælingum á orkumagni í Suðurfossá.  Sagði hann í því sambandi að leitað hefði verið eftir láni til þeirra framkvæmda.  Þá sýndi hann og kort yfir hvernig Vestfirðir skiptast í orkusvæði.  Gat Hafsteinn þess að mikið öryggi yrði að því að fá sérstaka virkjun á suðursvæði Vestfjarða, þar sem sá möguleiki væri alltaf fyrir hendi að strengur frá Mjólkárvirkjun bilaði.  Kvað hann virkjunina í Suðurfossá geta leyst þann vanda.  Einnig ræddi hann um kaup og sölu rafmagns og taldi að sveitarfélögin ættu ekki að sleppa í hendur ríkisins öllum slíkum rekstri.  Fleira margt fróðlegt kom fram í ræðu hans.  Oddviti þakkaði Hafsteini fyrir hans ræðu.  Vék hann m.a. að því yrði komið hefðu fram raddir víðsvegar á landinu um að færa rekstur rafveitna í héruðin fremur en að ríkið ræki þær.  Rakti hann síðan í stórum dráttum hvað gert hefði verið á seinustu árum í þessum málum.  Kom fram í ræðu hans að ráðherra hefði frestað að taka ákvörðun um staðfestingu á reglugerð fyrir Rafveitu Rauðasandshrepps.  Einnig las oddviti upp bréf til raforkumálaráðherra út af þessu máli, og frekari bréfaskipti í því sambandi.  Einnig skýrði hann frá persónulegu viðtali sínu við ráðherra, en af honum, þ.e. ráðherra, fengust engar skýringar á neitun ráðherra á staðfestingu reglugerðarinnar.  Bragi Ó Thoroddsen lét í ljós þá skoðun að stefna bæri að virkjun Suðurfossár. Frekari umræður urðu ekki um málið. 
 11. Snæbjörn J. Thoroddsen sagði frá fræðslunámskeiði fyrir oddvita sem hann sat f.h. sveitarinnar. Oddviti þakkaði síðan fundarmönnum fyrir komuna og hvatti til samvinnu.  Einnig þakkaði Þórður Jónsson.

Fleira ekki gert.  Fundi slitið.

    Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)     Ívar Ívarsson (varaoddviti)   Össur Guðbjartsson (fundarritari) 

23.06.1968.  Niðurjöfnun útsvara.  Styrkur til lestrarfélaga.  Hrútasýningar.  Rekstur veitingaskála á Sandodda.  Laun kjörstjórnarmanna.  Bragi Ívarsson og Ólafur Sveinsson fengnir í grenjavinnslu.  Fjárhagsafkoma.

12.07.1968.  Engin útsvarskæra.  Endurskoðun fjallskilareglugerðar.  Hall Sjúkrahússins á Patreksfirði.  Áburðardreifing úr flugvél styrkt.  Kal í túnum og slæmar horfur um heyfeng.

10.09.1968.  Niðurjöfnun fjallskila; útgefnir 3 fjallskilaseðlar.  Hundahreinsanir.

20.10.1968.  Umframkostnaður vegna skólabyggingarinnar.  Samgöngumál.  Vextir af vangreiddum gjöldum.  Endurkrafa Patrekshrepps vegna útsvara í kjölfar dóms.  Leiðréttingar Skattstofu. 

10.02.1969.  Samvinna sveitarfélaga á Vestfjörðum.  Lagður á hámarks fasteignaskattur; aðstöðugjald úr 1,5% í 2%.  Útsvarskæra.  Endurkrafa Patrekshrepps vegna sundlaugargjalds.  Krafa kennara fyrir húsvörslu.  Mismunandi gjaldstofnar fasteignagjalda athugaðir.  Ársreikningar athugaðir án athugasemda.

27.04.1969.  Fundur hreppsnefndar með bryggjunefnd Örlygshafnarbryggju.  Þegar fari fram bráðabirgðaviðgerð vegna skemmda á bryggjunni.  Gjaldtaxtar verði endurskoðaðir.

29.04.1969.  Rekstraráætlun hreppsins.  Grenjavinnsla.  Ívar Ívarsson ráði mann fyrir Innfjörð og Rauðasand, en Össur Guðbjartsson fyrir útsveitina.  Styrkt áburðardreifing með flugi.  Hugsanleg heykögglaverksmiðja á Rauðasandi.  Fyrirhugaður hreppsfundur. 

Almennur hreppsfundur 03.05.1969 í Fagrahvammi

17 fundarmenn

 1. Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen setti fundinn og gat þess að reikningum sveitarsjóðs hefði verið útbýtt fjölrituðum á fundinum. Óskaði hann eftir umræðum um reikningana.  Þær urðu þó engar.
 2. Þá gerði formaður skólabyggingarnefndar grein fyrir gangi byggingarinnar. Sagði hann að nú mætti heita að skólahúsið væri fullbúið og ætla mætti að vinnu við lóðina lyki á þessu sumri og yrði þá fullbúin.  Ræddi hann um pláss fyrir sameiginlegt bókasafn fyrir hreppinn, sem yrði með þeim hætti að færa saman bókasöfn sveitarinnar.  Taldi hann að pláss væri fyrir hendi í kjallara heimavistarinnar.  Taldi hann að stigið hefði verið mikið gæfuspor er ráðist var í þessa framkvæmd.  Oddviti gerði þessu næst grein fyrir fjármálahlið byggingarinnar.  Heildarkostnaður við bygginguna var orðinn um síðustu áramót kr 9 millj. 491 þúsund.  Ekki taldi hann að myndi þurfa að óttast það að ekki myndi reynast kleyft að ljúka þeim skuldum sem nú hvíla á hreppnum vegna þessarar byggingar.  Kvað hann að ekki hefði verið um neinn kost annan að gera en ráðast í bygginguna, þar sem þær leiðir sem farnar voru til þessa hefði verið orðnar lokaðar.  Þá var nokkuð rætt um upphitunarkostnað sem nú greiðist að fullu af sveitarsjóði.  Össur Guðbjartsson gerði fyrirspurn um hvað gert hefði verið til þess að fullnægja fræðsluskyldunni innan skólahéraðsins.  Formaður skólanefndar sagði að málið yrði athugað í sumar.  Það hefði verið í athugun og fræðslumálastjóri hefði tekið vinsamlega á málinu.  Oddviti taldi einnig nauðsynlegt að koma á kennslu í söng og leikfimi; með því að fá stundakennara frá Patreksfirði ef ekki væri um annað að ræða.  Formaður skólanefndar taldi of mikinn ferðakostnað koma til svo kleyft yrði.  Júl Kristjánsson sagðist hafa rætt við Magnús Gestsson kennara sem hefði talið á allan hátt mjög æskilegt ef hægt væri að koma á skyldunáminu.  Taldi hann að skólanefnd væri skylt að reyna að fara eins langt og komist yrði í þessu efni við fræðslumálastjóra.  Ingvar Guðbjartsson tók í sama streng og fyrri ræðumenn varðandi framkvæmd skyldunámsins.  Össur Guðbjartsson ræddi nauðsyn þess að foreldrafundir yrðu haldnir einhverntíma yfir veturinn, með kennara og foreldrum.  Formaður skólanefndar viðurkenndi nauðsyn þessa, en bar við veður og færð að ekki hefði orðið úr því sl vetur.  Oddviti lagði til að skólanefndin boðaði nú á næstunni til fundar með foreldrum og skólastjóra, þar sem rætt væri skólahaldið og framkvæmd þess. 
 3. Formaður framkvæmdanefndar Fagrahvamms Þórður Jónsson gerði grein fyrir rekstri hússins. Sagði hann að um raunverulegan rekstur hefði vart verið að ræða.  Gat hann þess að meint væri að nota félagsheimilið til kennslu, enda þótt það hefði ekki verið gert nema einn vetur af þrem síðan heimavistin tók til starfa.  Sagði hann að um sameiginlega olíunotkun hefði verið að ræða fyrir skólann og félagsheimilið.  Þá sagði hann að félagsheimilið nyti rafmagns frá skólanum, þar sem það ætti nú enga rafstöð.  Taldi hann að húsið væri of lítið til almenns samkomuhalds.  Þessu næst minntist hann á ýmislegt sem gera þyrfti fyrir húsið, svo sem tvöfalda gler í glugga.  Fleira kom fram í ræðu formanns, svo sem nauðsyn góðrar samvinnu húsnefndar or skólanefndar.  Þá las Þórður reikninga hússins yfir sl ár.  Var orðið síðan gefið frjálst.  Oddviti þakkaði húsnefndinni vel unnin störf frá upphafi.  Drap hann á að vel væri þess vert að reyna að fá afslátt af heildarolíukaupum hreppsins.  Kosning framkvæmdanefndar Fagrahvamms.  Formaður nefndarinnar Þórður Jónsson gaf ekki kost á sér, en hann hefur gegnt starfi frá upphafi.  Þá gáfu ekki heldur kost á sér þær Ragnheiður Magnúsdóttir, Dagbjört Torfadóttir og Valgerður Jónsdóttir.  Kosning féll þannig við skriflega atkvæðagreiðslu:  Aðalmenn Dagbjörg Ólafsdóttir, Gréta Árnadóttir, Marinó Kristjánsson, Guðmunda Halldórsdóttir, Ingvar Guðbjartsson.  Varamenn: Jóna Snæbjörnsdóttir, Fríða Guðbjartsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Ólafur Sveinsson, Jón Hákonarson (með hlutkesti á Helga Árnason).  Þórður Jónsson fráfarandi formaður þakkaði samstarfsfólki sínu í nefndinni og oddvita fyrir gott samstarf.  Einnig óskaði hann nýju nefndinni gæfuríks starfs.  Oddviti þakkaði einnig fráfarandi nefnd og bauð hina nýju nefnd velkomna til starfa.
 4. Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen hóf máls á því að ekki væri vansalaust að hátíðahöld 17.júní hefðu fallið niður nokkur undanfarin ár. Sagði hann að hreppsnefndin hefði áhuga á því að þessi hátíðahöld væru tekin upp aftur.  Þórður tók mjög í sama streng og taldi að 7 manna nefnd þyrfti að vera til undirbúnings.  Reynir Ívarsson taldi þetta einmitt vel til fallið, þar sem í ár væri 25 ára afmæli lýðveldisins.  Samþykkt var að kjósa 7 manna nefnd til þess að sjá um og undirbúa í samráði við oddvita hátíðahöld 17.júní nk.  Þessir voru kosnir:  Þórhallur Hálfdánarson, Reynir Ívarsson, Anna Hafliðadóttir, Guðmunda Halldórsdóttir, Ragnheiður Magnúsdóttir, Vigdís Þorvaldsdóttir, Helgi Árnason.
 5. Oddviti hreyfði þeirri tillögu að það erindi yrði sent sýslufundi að sýslan ábyrgðist þau lán sem hún byði Rafmagnsveitum ríkisins vaxtalaust ef þær sæju um virkjun sunnan Arnarfjarðar og rafvætt væri hvert býli í sveitinni. Þórður Jónsson taldi að a.m.k. þeir sem ekki hefðu einkarafstöðvar ættu að hafa áhuga fyrir þessu, og var því mjög fylgjandi.  Ívar Ívarsson ræddi m.a. um verðjöfnun á olíum sem hann sagði vera einu vörutegundina sem allir fengju á sama verði, hvar sem þeir væru á landinu.  Út frá því taldi hann verðjöfnun á rafmagni nauðsynlega.  Þá vék oddviti að þeim möguleika að heykögglaverksmiðja yrði reist á Rauðasandi sem, ef af yrði, myndi kalla á rafmagn.  Össur Guðbjartsson ræddi þessi mál og tók mjög í sama streng og fyrri ræðumenn.  Frekari umræður urðu ekki um málið.  Oddviti þakkaði síðan fundarmönnum nokkrum orðum komuna á fundinn og góða fundarsetu.

Fleira ekki gert.  Fundi slitið.

     Snæbjörn J. Thoroddsen (oddviti)     Ívar Ívarsson (varaoddviti)   Össur Guðbjartsson (fundarritari) 

15.05.1969.  Fundur með skólanefnd.  Hugsanlegar lausnir á framkvæmd unglingafræðslu; Patreksfjörður eða Reykhólar.  Talið æskilegast að koma upp unglingafræðslu í Fagrahvammi; útilokað á Reykhólum vegna samgangna.  Þórði Jónssyni falið að ræða við menntamálaráðuneytið um fframahald málsins. 

15.05.1969.  Framlag úr Atvinnujöfnunarsjóði verður notað til viðgerða bryggjunnar á Gjögrum.

18.06.1969.  Niðurjöfnun útsvara.  Framlengt leyfi til reksturs sölubúðar á Hvallátrum.  Ábyrgð vegna Bjargráðasjóðslána.   Kristján á Lambeyri ráðinn til bryggjuviðgerða; bryggjugjöld hækkuð um 150%. 

Almennur hreppsfundur 17.08.1969 í Fagrahvammi; með alþingismanni

 Boðað var til fundarins að tilhlutan hreppsnefndar og Sigurvins Einarssonar alþingismanns. 
Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen setti fundinn með nokkrum orðum og bauð fundarmenn, og þá sérstaklega Sigurvin Einarsson, velkomna.  Gat hann þess að nú væri mjög haldið að mönnum sameiningu smærri sveitarfélaga, og myndi það verða aðalmál fundarins, án þess þó að samþykktir yrðu gerðar á fundinum.  Þá gaf hann Sigurvin Einarssyni alþm orðið:  Ræddi hann fyrst um sameiningarmálið.  Sagði hann m.a. að hann sæi ekki neina kosti við þessa sameininga ef um ekkert annað væri að ræða en sameininguna.  Einnig spurðist hann fyrir um hvort áhugi væri fyrir hendi um sameiningu hér í sveitinni á þeim grundvelli sem gert er ráð fyrir; þ.e. Patrekshreppur, Tálknafjarðarhreppur, Barðastrandarhreðður og Rauðasandshreppur.  Þá spurðist hann fyrir um það hvort mönnum þætti eðlilegt að hreppsnefndin ein hefði úrslitaráð um hvort leggja ætti niður hrepp og sameina hann öðrum hrepp.  Rakti hann ýmsa fleiri liði frumvarpsins um sameiningu sveitarfélaga sem lagt verður fyrir næsta Alþingi.  Taldi hann þar ýmsa vankanta á; sérstaklega að því er snerti sveita- og kaupstaðahreppa.  Gat hann þess að tilgangurinn með þessum fyrirspurnum væri að fá innsýn í vilja manna þegar umrætt frumvarp kæmi til afgreiðslu á Alþingi. 
Oddviti þakkaði framsögu alþingismannsins og skilgreiningu og skýfingar á þessu máli.  Rakti oddviti síðan sögu máls þessa eftir því sem það sneri að hreppsbúum og vitnaði í því sambandi til fundar þess sem nýlokið er á Patreksfirði og haldinn var að tilhlutan sýslumanns með hreppsnefndum umræddra hreppa.  Kom þar fram að erindreki sá; Unnar Stefánsson, sem mætti á þeim fundi átti erfitt um svör við ýmsum þeim spurningum sem fram komu; svo sem hversu innheimtu sveitargjalda yrði háttað og um kjör hreppsnefndar.  Þá las oddviti upp tillögu sem hreppsnefnd Rauðasandshrepps lagði fram á sameiginlega fundinum á Patreksfirði.  Afhenti hann Sigurvin Einarssyni afrit af tillögunum.
Ívar Ívarsson gat þess að hann, ásamt Össuri Guðbjartssyni, hefði mótmælt því á sameiginlega fundinum á Patreksfirði að hreppsnefndirnar hefðu umboð til þess, án almennrar atkvæðagreiðslu, að taka ákvörðun um sameiningu.  Þá rakti hann ýmis fleiri atriði frá fundinum á Patreksfirði.  Fordæmdi hann í flestum atriðum frumvarp það til laga um sameiningu sem fyrir liggur. 
Þórður Jónsson taldi höfuðatriði að menn gerðu upp við sig kosti og galla sameiningarinnar.  Fann hann sameiningu ýmislegt til foráttu og helst þá mismunandi hagsmuni sveitabænda og kaupstaðarbúa.  Einnig ræddi hann heilbrigðismál og skólamál og taldi að við ynnum lítið við sameiningu í þeim málum framyfir það sem nú er.  Lýsti hann því yfir að hann væri á móti sameiningu.
Daníel Eggertsson sagði að leitun myndi vera á jafn góðum efnahag og í Rauðasandshreppi og taldi hann að ekki myndi verða sótt gull né grænir skógar með sameiningu við Patrekshrepp.  Kvaðst hann vera á móti sameiningu.

Össur Guðbjartsson rakti frekar gang málsins á fundinum á Patreksfirði.  Taldi hann að eftir því sem félagsheildir stækkuðu yrði einstaklingurinn minni og nyti sín lakar.  Ýmsa fleiri ókosti drap hann á við sameiningu.  Lagði hann áherslu á að hreppsnefnd hefði ekki rétt til sameiningar nema til kæmi samþykki hreppsbúa.

Oddviti ræddi nokkuð um heilbrigðismál og læknamiðstöð á Patreksfirði.  Taldi hann óeðlilegt hve mikill kostnaður væri við sjúkrahúsið á Patreksfirði, sem að nokkru leyti væri vegna þess að ekki hefði verið farið að samþykktum sýslufundar.  Þórður ræddi nokkru frekar um heilbrigðismál.

Sigurvin Einarsson spurðist fyrir um hvort áhugi myndi vera fyrir sameiningu á Patreksfirði.  Ræddi hann einnig nokkuð um skólamál, sérstaklega með tilliti til þess hversu erfitt er orðið fjárhagslega að mennta fólk úr dreifbýlinu.  Sagði hann að nú væru 3/5 menntaskólanema heimangöngunemar.  Sagði hann að þetta gæfi góða mynd af þróuninni í þessum málum.  Össur spurðist fyrir um það hvaða afstaða væri ríkjandi í skólamálum að þessu leyti á Alþingi.  Sigurvin sagði að flutt hefði verið þingsályktunartillaga í málinu og samþykkt að láta fram fara athugun í málinu, og niðurstaða ætti að liggja fyrir næsta Alþingi. 

Oddviti gat þess að heimavistin hér væri nú að verða fullgerð og kostaði rúmar 9 milljónir.  Gat hann þess að allverulegur þungi hefði orðið af vöxtum vegna lántöku, sem mest hefði myndast vegna vanskila ríkisins á þess framlagi.  Hinsvegar hefur þetta ekki fengist viðurkennt sem byggingarkostnaður.  Ýmis dæmi eru þó fyrir því að það hafi verið gert annarsstaðar á landinu.  Hefur það ekki verið viðurkennt vegna þess að hreppurinn er einn um bygginguna.  Fór oddviti þess á leit að alþingismaðurinn ynni að því að þessi vaxtaliður yrði viðurkenndur sem byggingarkostnaður.

Sigurvin taldi að ekki væri hægt að færa þau rök fyrir neitun um viðurkenningu á vaxtakostnaði, þar sem lögin um skiptingu byggingarkostnaðar skóla hefðu ekki verið komin til framkvæmda þegar bygging þessa skóla hófst. 

Oddviti gat þess að sérfræðingur frá vita- og hafnarmálaskrifstofunni hefði nú rannsakað skemmdir bryggjunnar á Gjögrum og áætlað kostnað við viðgerðir á henni sem er allverulegur og varla viðráðanlegur hreppnum ef hann þarf að greiða 3/5 af kostnaðinum.  Hinsvegar mun ríkissjóður greiða að fullu svokallaðar ferjubryggjur.  Taldi oddviti að það væri eina leiðin til þess að viðráðanlegt myndi að framkvæma nauðsynlega viðgerð.  Sigurvin taldi að helst væri að reyna að fá til hennar sérstaka fjárveitingu á fjárlögum.  Kvaðst hann fús að veita sína aðstoð til þess að svo mætti verða.

Reynir Ívarsson spurði hvað væri að frétta af rafmagnsmálum.  Oddviti rakti það sem reynt hefur verið að gera í málinu frá fundi hreppsnefndar og sagði frá samvinnu nágrannahreppanna um þau.  Sigurvin rakti það sem gert hefur verið í málinu af hendi þingmanna Vestfjarða.  Kom fram í máli hans og oddvita að raforkumálaráðherra hefði lofað fyrir 2 árum að beita sér fyrir lagningu rafstrengs í Sandodda, með það fyrir augum að frá honum yrðu lagðar línur um Rauðasandshrepp og Barðastrandarhrepp.  Á þessum framkvæmdum er enn ekki byrjað.  Nokkrar frekari umræður urðu um rafmagnsmálin.  Oddviti þakkaði fundarmönnum og þá sérstaklega þingmanninum komuna hingað.

Í dag er áttræður Gísli Jónsson fyrrverandi alþingismaður og sendi fundurinn honum afmælisskeyti.

Fleira ekki gert.  Fundi slitið.

Össur Guðbjartsson (fundarritari), Snæbjörn J. Thoroddsen, Ívar Ívarsson, Óli Ingvarsson, Guðmundur Jón Hákonarson, Daníel Eggertsson, Ingvar Guðbjartsson, Kristinn Ólafsson, Helgi Árnason, Bjarni Sigurbjörnsson, Marinó Kristjánsson, Kristján Júlíus Kristjánsson, Júlíus Reynir Ívarsson, Þórður Jónsson, Ólafur Sveinsson, Árni Helgason, Sigurvin Einarsson. 

04.09.1969.  Niðurjöfnun fjallskila.  Tilnefndir menn í samvinnunefnd sameiningar sveitarfélaga skv ákvörðun fundar hreppsnefnda Táknafj-Patr-Rauð og Barð.hreppa:  Þórður J‘onsson og Jón Hákonarson.

06.12.1969.  Bréf Harðærisnefndar með boði um lán Bjargráðsjóðs til bænda vegna kals og sprettuleysis.

19.01.1970.  Álaning aðstöðugjalds.

22.01.1970.  Fjárhagsáætlun 1970.  Raforkumál; léleg lína frá Mjólká; virkjun í hreppnum.  Skuldamál bónda.

24.03.1970.  Undirbúningur hreppsfundar.  

Almennur hreppsfundur 05.04.1970 í Fagrahvammi

13 fundarmenn 

 1. Lagðir voru fram reikningar sveitarinnar sl ár og fékk hver fundarmanna eintak. Oddviti gerði nokkru nánari grein fyrir þeim, einkum þeim kostnaði við skólabygginguna sem skapast hefur vegna lántöku í sambandi við bygginguna.  Út frá því ræddi hann nokkuð um útsvarsálagninguna.  Þórður Jónsson taldi minni ástæðu til að fara framúr útsvarsstiga í sveitum en kaupstöðum, þar sem minna væri gert í almenningsþágu.  Þá taldi hann of gróft farið í álagningu aðstöðugjalda og taldi eðlilegt að hægt væri farið í að hækka það.  Oddviti svaraði Þórði nokkrum orðum.  Taldi hann ógerning á þessu ári að breyta aðstöðugjaldsfæti, þar sem það yrði að ákveða slíkt í febrúarmánuði.  Þá benti hann einnig á að fyrir lægi að gera við bryggjuna á Gjögrum og fleiri verkefni sem kölluðu á fjármagn, en um það væri að ræða að kippa að sér hendinni með framkvæmdir og lækka gjöldin; slíkt væri að vísu hægt ef það væri æskilegt.  Ívar Ívarsson benti á að eitt af því sem réttlætti aðstöðugjald væru afskriftir af vélum, þar sem eignin rýrnaði jafnframt en ætti að standa í stað.
 2. Samgöngumál. Bragi Ó Thoroddsen talaði fyrst um viðhaldsfé vega og upplýsti m.a. að það væri um 6.000 á km.  Hinsvegar væri kostnaður við að bera ofaní hvern km um kr 100.000.  Mætti á þessu sjá hversu mikið væri hægt að gera í viðhaldi.  Þá ræddi hann um fjárveitingar til vega samkvæmt vegaáætlun.  Hér í sveit sagði hann að fé væri fyrir hendi á Rauðasandsvegi kr 900 þúsund; á Kollsvíkurvegi 300 þúsund.  Varðandi snjómokstur sagði hann að Rauðasandshreppur fengi engan snjómokstur greiddan af ríkinu, þar sem nágrannahreppar fengju minnst greiddan snjómokstur einu sinni í mánuðu og sumir vikulega.  Ívar Ívarsson taldi mikla nauðsyn á að gert væri svo við veginn í Bjarngötudal að ekki lægi á honum vatn.  Össur Guðbjartsson spurðist fyrir um hugsanlegar framkvæmdir á veginum úr Kollsvík á Aurholt.  Þá lagði hann á það áherslu að unnið væri að því að fá að minnsta kosti einn snjómokstur í mánuði greiddan af ríkinu.  Bragi kvaðst ekki geta upplýst um framkvæmdir á umræddum vegi þar sem það færi að sjálfsögðu eftir fjárveitingum til hans.  Enn urðu nokkrar umræður um samgöngumálin, og tóku þessir til máls:  Ívar Ívarsson, Þórður Jónsson, Bragi Thoroddsen, Snæbjörn J. Thoroddsen.  Drap hann meðal annars á hvort ekki væri rétt að gera samþykkt um vegamál á þessum fundi.  Bragi taldi að ekki myndi koma eins mikið út úr fundarsamþykkt nú eins og þegar málið væri til umræðu og ákvörðunar Alþingis, en vbegaáætlun yrði ekki til umræðu á þessu þingi.

Í framhaldi af umræðum um samgöngumál las oddviti upp bréf frá Lionsklúbb Patreksfjarðar.  Þar er mælst til þess að Rauðasandshreppur styðji það að grædd séu upp flög sem myndast hafa við vegalagningu í Vatnsfirði.  Ennfremur að unnið verði að því að fá lagðan strax í sumar þann vegarspotta sem eftir er að leggja í Vatnsfirði.

 1. Rafmagnsmál. Málshefjandi var Hafsteinn Davíðsson.  Ræddi hann í upphafi um nauðsyn á frekari rannsóknum á virkjunarmöguleikum Suðurfossár.  Taldi hann slæmt að missa tímann frá sér varðandi þetta.  Síðan ræddi hann um hugsanlega virkjun vatnasvæðisins á Skersfjalli (Skersvirkjun) og skýrði frá athugunum sínum á þeim möguleika.  Til skýringar máli sínu sýndi hann kort af virkjunarsvæðinu.  Út úr þessari virkjun er talið að hægt væri að fá 3-3,5 millj kWst, eða nær tvöfalt það rafmagn sem Patreksfjörður notar nú.  Áætlað kostnaðarverð virkjunarinnar er 15-18 milljónir kr með núverandi verðlagi.  Taldi Hafsteinn að þessi virkjun yrði sérlega hagstæð, meðal annars með tilliti til þess að markaður væri fyrir hendi fyrir allt það rafmagn sem þarna fengist; ef virkjunin væri tengd Vestfjarðaveitu.  Taldi hann eðlilegast, ef um framkvæmdir yrði að ræða, að þá yrði þetta sameiginlegt félag hreppanna í vestursýslunni.  Oddviti þakkaði Hafsteini mál hans og áhuga sem hann hefur sýnt málefninu.  Gat hann þess að hann hefði rætt rafmagnsmál sveitrarinnar við 3 þingmenn kjördæmisins fyrir skömmu.  Töldu þeir nauðsynlegt að fá eitthvað heimanfrá, sem grundvöll til þess að vinna að málinu.  Taldi hann nauðsynlegt að fundurinn gerði samþykkt um að unnið yrði að því að fá fé til fullnaðarrannsókna þessarar virkjunar.  Júl. Kristjánsson þakkaði Hafsteini fyrir fórnfúst starf í þessum málum og taldi fráleitt annað en að honum yrði mætt á myndarlegan hátt.  Þá ræddi hann nauðsyn þess að flugvöllurinn yrði lýstur.  Össur Guðbjartsson tók undir þakklæti til Hafsteins Davíðssonar og lýsti stuðningi sínum við þá tillögu oddvita að kjósa nefnd til þess að semja tillögu í málinu.  Þórður Jónsson tók undir það.  Hafsteinn Davíðsson tók aftur til máls og ræddi einkum um þá möguleika sem fyrir hendi eru til þess að Rauðasandshreppur fengi rafmagn frá samveitum samkvæmt áætlunum Orkustofnunarinnar.  Taldi hann að það yrði ekki gert fyrr en einhverntíma í fjarlægri framtíð.  Það var skoðun hans að fyrst ættii að ljúka fullnaðarrannsóknum á þessum virkjanamöguleikum og síðan að tala við þingmennina.  Oddviti upplýsti að fyrir seinustu Alþingiskosningar hafi raforkumálaráðherra sagt 3 þingmönnum Vestfirðinga að sæstrengur yrði lagður yfir Patreksfjörð á komandi sumri.  Þegar gengið var eftir efndinni í þessu efni sagði ráðherra það hafa verið misskilning.  Samþykkti fundurinn að fela hreppsnefndinni undirbúning þessa máls.
 2. Ívar Ívarsson gat þess að á hreppsnefndarfundi til undirbúnings þessa fundar hefði borið á góma það mál að útlit er fyrir, með sífelldri sókn í veiðar hrognkelsi, gæti það ástand skapast að öngþveiti yrði á þessum miðum og nauðsyn þess að fá einkarétt hreppsbúa á þessari veiði fyrir löndum hreppsins. Oddviti gat þess að hann hefði leitað upplýsinga um rétt manna í þessu efni.  Er ekki um annan rétt í þessu að ræða en hægt er að útiloka aðra en þá sem búa innan fjarðarins allt.  Þórður Jónsson taldi að sjávarútvegsmálaráðherra myndi ekki getað neitað að takmarka veiðar þessa fisks við hreppsbúa eina, ef hægt væri að sanna að annars væri um ofveiði eða þrengsli á miðum að ræða.  Bragi Thoroddsen taldi að þetta mál væri þess eðlis að varlega ætti að fara í samþykktir í þessu máli, þar sem menn væru búnir að leggja í mikinn kostnað.  Össur Guðbjartsson gat þess að á Búnaðarþingi hefði verið gerð samþykkt þess efnis að rýmkuð yrði nethelgi jarða.  Fleiri ræddu málið, og komu ýmis sjónarmið fram.  Engin samþykkt gerð.
 3. Sjónvarpsmál. Oddviti gat þess að þess væri kostur að fá athugun um uppsetnngu endurvarpsstöðvar til þess að sjónvarp sæist þar sem það sést ekki núna, ef hreppurinn lánaði andvirði þeirra með vöxtum í 2-4 ár.  Var samþykkt heimild til hreppsnefndarinnar þess efnis.
 4. Skólamál. Formaður skólanefndar Þórður Jónsson sagði í stórum dráttum frá byggingu skólans.  Gat hann þess að fengist hefði, fyrir forgöngu oddvita, viðurkenndur vaxtakostnaður sem byggingarkostnaður.  Umræður engar.
 5. Ívar Ívarsson gat þess að borist hefði á sinni tíð bréf yfirkjörstjórnar, þess efnis að lagt var til stækkun kjördeilda; að minni kostnaður yrði ef kjördeildir yrðu færri. Oddviti varpaði fram þeirri spurningu hvort menn vildu fækka kjördeildum niður í eina.  Ívar Ívarsson bauðst til þess að kosta kjördeildina á Rauðasandi, fremur en hún yrði lögð niður.  Nokkrar umræður urðu um þetta mál.  Samþykkt var að skipan kjördeilda verði þannig að ein kjördeild verði í Örlygshöfn (Fagrahvammi) og á Rauðasandi (Saurbæ).
 6. Snæbjörn J. Thoroddsen ræddi um fjármál sjúkrahússins. Sagði hann frá ýmsum gjöldum, löngu áföllnum, sem komið hefðu fram síðan á seinasta sýslufundi, eða á aðra milljón króna.  Ræddi hann í framhaldi af því um heilbrigðismálin; þar á meðal væntanlega læknamiðstöð á Patreksfirði.  Taldi hann að við þyrftum að láta frá okkur heyra um þessi efni.  Bragi Thoroddsen ræddi þetta mál mjög á sama veg.  Komu fram ýmsir fleiri liðir sem um er að ræða, svo sem óeðlilega háa símsreikninga sjúkrahússins.  Össur Guðbjartsson taldi að víta bæri harðlega þá fjármálaóstjórn sem hér væri um að ræða.  Snæbjörn ræddi nokkru nánar um þessi mál.  Las hann upp samþykktir sýslufundar um þessu mál frá 1968, sem hann kvað hafa verið hafðar að engu.  Ívar Ívarsson taldi eðlilegt að útsvar lækna rynnu til sjúkrahússins, en ekki til viðkomandi sveitarfélags.  Málið var síðan rætt á víð og dreif, en ekki var gerð í því samþykkt.
 7. Kjörin var framkvæmdanefnd Fagrahvamms. Aðalmenn:  Jón Hákonarson, Fríða Guðbjartsdóttir, Gréta Árnadóttir, Dagbjört Ólafsdóttir, Ingvar Guðbjartsson.  Varamenn:  Helgi Árnason, Jóna Snæbjörnsdóttir, Valgerður Jónsdóttir, Vigdís Þorvaldsdóttir, Árni Helgason.
 8. Ívar Ívarsson gat þess að það hefði verið samþykkt á fulltrúaráðsfundi Samb.ísl sveitarfélaga og birt í blöðum, að leggja til verulega hækkaða fasteignaskatta er nýja fasteignamatið gangi í gildi. Taldi Ívar það mjög rangláta skattlagningu, þar sem fasteignir væru notaðar sem grunnur að ýmsum öðrum sköttum.  Lagði hann til að fundurinn gerði samþykkt til Samb.ísl svetiarfélaga að hver sú tillaga sem fjallaði um þetta yrði send sveitarstjórnum til umsagnar.  Fleiri tóku einnig til máls og ýmis sjónarmið komu fram.
 9. Ívar Ívarsson sagði í stórum dráttum frá störfum sínum að félagsmálum, sem hafa verið margháttuð; vék að skoðunum sínum á ýmsum almennum málum og innansveitarmálum og dró fram ýmsar hliðar þeirra. Sagði hann að lokum að hann hefði mælt þessi orð hér á fundinum sem væntaleg kveðjuorð til sveitunganna.  Að lokum mælti oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen.  Þakkaði hann samstarfsmönnum sínum í öllum hreppsnefndum sem hann hefði setið í störfin.  Sagði hann það heitustu ósk sína að samheldni mætti jafnan ríkja í sveitinni.  Þórður Jónsson þakkaði þeim Ívari Ívarssyni og Snæbirni J. Thoroddsen sérstaklega þeirra störf í þágu sveitarinnar.  Össur Guðbjartsson þakkaði þeim Ívari og Snæbirni samstarfið í hreppsnefndinni um 12 ára skeið.  Fleira ekki gert.  Fundi slitið.

                Snæbjörn J. Thoroddsen                Ívar Ívarsson            Össur Guðbjartsson (fundarritari)

Hafsteinn Davíðsson, Daníel Eggertsson, Bragi Ó Thoroddsen, Ingvar Guðbjartsson, Árni Helgason, Ásgeir Erlendsson, Þórður Jónsson, Bjarni Sigurbjörnsson. 

14.04.1970.  Fundur með Hafsteini Davíðssyni rafveitustjóra.  Rafmagnsmál; unnið að kostnaðaráætlun vegna Skersvirkjunar; reglugerð Rafveitu Rauðasandshrepps.  Lög um barnsmeðlög.  Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga.  Framkv.nefnd Fagrahvamms sjái um 17.júní hátíðahöld.  Heyvöntun hjá bónda.

20.05.1970.  Fundur með framkvæmdanefnd Fagrahvamms.  Hátíðahöld 17.júní.  Tilnefnt í kjörstjórnir.  Ferðakostnaður oddvita.  Bragi á Melanesi og Ólafur á Sellátranesi ráðnir til grenjavinnslu.

16.07.1970.  Fyrsti fundur nýkjörinnar hreppsnendar; skipað verkum:  Össur Guðbjartsson verður oddviti og Árni Helgason varaoddviti, en þriðji maður í hreppsnefnd er Valur Thoroddsen.  Skólanefnd Anna Hafliðadóttir og Júlíur R. Ívarsson.  Varamenn Þórir Stefánsson  og Dagbjörg Ólafsdóttir.  Sáttagerðarmenn; Þórður Jónsson og Árni Helgason, en til vara Daníel Eggertsson og Kr. Júl. Kristjánsson.  Matsmaður fyrir Brunabótafélaag Íslands; Þórður Jónsson; til vara Jón Hákonarson en f.h. hreppsnefndar Árni Helgason.  Í stjórn Söfnunarsjóðs var kjörinn oddviti og varaoddviti til vara.  Í áfengisvarnarnefnd voru kjörin Ívar Ívarsson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir; varamenn Valborg Torfadóttir og Ívar Halldórsson.  Aðalúttektarmaður Ívar Ívarsson en Ólafur Sveinsson til vara.  Byggingarnefnd:  Þórður Jónsson, Egill Ólafsson og Ingvar Guðbjartsson.  Varamenn Árni Helgason, Þórir Stefánsson og Ólafur Sveinsson.  Fulltrúi á landþing Samb.ísl svfélaga verður oddviti og varaoddviti til vara.  Forðagæslumenn voru skipaðir Bragi Ívarsson og Óli Ingvarsson en til vara Reynir Ívarsson og Ingvar Guðbjartsson.  Lendingarbótanefnd Örlygshafnarbryggju:  Árni Helgason, Jón Hákonarson og Marinó Kristjánsson.  Varamenn Ólafur Sveinsson, Kr. Júl. Kristjánsson og Bjarni Sigurbjörnsson.  Endurskoðendur hreppsreikninga; Daníel Eggertsson og Egill Ólafsson, en Guðm. Jón Hákonarson og Tryggvi Eyjólfsson til vara.  Sjúkrasamlag Rauðasandshrepps:  Þórður Jónsson og Ólafur Magnússon, en ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson til vara.  Lestrarfélögin:  Tryggvi Eyjólfsson; Jón Hákonarson og Ingvar Guðbjartsson.  Barnaverndarnefnd:  Dagbjört Torfadóttir, Þórður Jónsson og Jóhanna Gunnlaugsdóttir.  Varamenn:  Jóna Snæbjörnsdóttir, Árni Helgason og Jónína Ingvarsdóttir.

16.07.1970.  Samúðarskeyti til ríkisstjórnarinnar vegna andláts forsætisráðherrahjónanna Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Björnsdóttur, sem fórust í eldsvoða ásamt dóttursyni sínum.

24.07.1970.  Niðurjöfnun útsvara, aðstöðugjalda og fasteignaskatts.  Heimild til Ingvars Guðbjartssonar að láta meta jörðina Kollsvík vegna hugsanlegrar sölu.  Össur tekur sæti Snæbjarnar í skólabyggingarnefnd.  Þóknanir kjörstjórnamanna og hreppsnendarmanna.

01.09.1970.  Niðurjöfnun fjallskila.  Skipan í heilbrigðisnefnd; Þórður Jónsson, Þórhallur Hálfdánarson og Valur Thooddsen.  Útgjöld vegna reksturs skóla.  Hreppurinn gerist aðili að Fjórðungssambandi Vestfjarða og verður oddviti fulltrúi hans.

14.10.1970.  Leiðréttingar álagðra gjalda.  Áætlun um viðgerðakostnað vegna Örlygshafnarbryggju; óskað eftir framlagi á fjárlögum Alþingis.  Ívar Ívarsson tilnefndur umboðsmaður Brunabótafélags Íslands.  Innheimta útsvarshluta brottflutts íbúa.

02.11.1970. Kærufundur með gjaldanda vegna útsvars.  Peningagjöf frá Sparisjóði Rauðasandshrepps til hreppsins til að minnka skuldir barnaskólans.  Gjaldfrestur Bjargráðasjóðslána.  Akstursgjald hreppsnefndar.

24.11.1970.  Fundur með skólanefndarformanni, Þórði Jónssyni, og skólastjórahjónum, Guðmundi Friðgeirssyni og Margréti Sverrisdóttur.  Samningar um aukastörf, orkunotkun, leigu og þrif.

05.12.1970.  Fundur með fyrrverandi oddvita og sýslunefndarmanni.  Rætt um fyrirhugaðan samráðsfund sveitarstjórna í V-Barð.

20.12.1970.  Styrkir Bjargráðasjóðs.  Endurgreitt Barðastrandarhreppi vegna sundkennslu barna.  Sauðfjárskoðun að beiðni baðstjóra V-Barð.

20.01.1971.  Álagning aðstöðugjalds.  Ráðning manns til grenjavinnslu.  Ívar Ívarsson tilkynnir að hann muni ekki þiggja Bjargráðasjóðslán.

07.03.1971.  Viðbótarlífeyrir til öryrkja.  Söfnun vegna flóttamanna.  Skólalóðin boðin til kaups.

06.04.1971.  Ábyrgð vegna Bjargráðasjóðsláns.  Kjörskrár vegna Alþingiskosninga.  Keypt skólalóð.  

Almennur hreppsfundur 13.05.1971 í Fagrahvammi 

 1. Oddviti minntist þeirra Kr. Júl Kristjánssonar sem lést 9. oktober 1970 og Sigurbjarnar Guðjónssonar sem lést 18. apríl 1971, og vottuðu fundarmenn þeim virðingu sína mað því að rísa úr sætum.
 2. Oddviti lagði fram reikninga sveitarinnar sl ár og fékk hver fundarmanna eintak af þeim. Oddvti gerði nokkra grein fyrir þeim; einkum minntist hann á að rekstur barnaskólans færi síhækkandi, einkum þó rekstur og viðhald ljósavéla skólans.  Þessir tóku til máls um reikningana; Snæbjörn J. Thoroddsen, Þórður Jónsson og Ívar Ívarsson.  Síðan bar oddviti reikningana upp til atkvæðagreiðslu og voru þeir samþykktir samhljóða.
 3. Guðmundur Jón Hákonarson las og skýrði reikninga Fagrahvamms og ræddi um rekstur hans. Þórður Jónsson tók til máls og ræddi um húsaleigu í Fagrahvammi.  Taldi hann að gæta þyrfti þess að stilla henni ávallt í hóf.  Einnig taldi hann veitingar hafa verið seldar alltof dýrar á hátíðahöldunum 17.júní síðastliðinn.  Jón Hákonarson upplýsti að búið væri að gera ráðstafanir til að síminn komi aftur inn í húsið.  Síðan var kosið í framkvæmdanefnd Fagrahvamms:  Aðalmenn:  Jón Hákonarson, Ingvar Guðbjartsson, Fríða Guðbjartsdóttir, Gréta Árnadóttir, Margrét Sverrisdóttir.  Varamenn:  Helgi Árnason, Guðmundur Friðgeirsson, Valgerður Jónsdóttir, Jóna Snæbjörnsdóttir, Sigríður Guðbjartsdóttir.
 4. Rafmagnsmál. Hafsteinn Davíðsson flutti framsöguræðu um rafmagnsmál.  Gat hann þess að athuganir hefðu verið verðar á virkjunarmöguleikum í Suðurfossá á Rauðasandi.  Einnig að Rafmagnsveitur ríkisins mundu ætla að ganga framhjá þeim möguleikum sem í Suðurfossá eru, og væru Rafmagnsveiturnar að láta gera áætlanir um endurvirkjun Mjólkár á hagstæðari máta en virkjun í Suðurfossá.  Hvatti hann eindregið til þess að þessi fundur samþykkti áskorun til viðkomandi yfirvalda um stuðning við framkomnar áætlanir um rafvæðingar- og virkjanamál í héraðinu, sem unnar hafa verið á vegum Sýslunefndar V-Barð.  Einnig tók til máls Snæbjörn Thoroddsen og hvatti hann einnig til hins sama og Hafsteinn.  Þá var borin upp og samþykkt einróma eftirfarandi tillaga um rafvæðingar- og virkjanamál:  „Almennur hreppsfundur haldinn í Fagrahvammi í Rauðasandshreppi fimmtudaginn 13.maí 1971, lýsir eindregnum stuðningi við framkomnar áætlanir um rafvæðingu og virkjanir í héraðinu sem unnar hafa verið á vegum sýslunefndar V-Barðastrandasýslu.  Fundurinn lýsir því jafnframt yfir að hreppurinn sé reiðubúinn að taka á sig nauðsynlegar skuldbindingar með öðrum hreppum sýslunnar og/eða sýslufélaginu varðandi framangreind mál.  Ennfremur skorar fundurinn á stjórnvöld að veita sýslufélaginu nauðsynleg leyfi og fyrirgreiðslu til virkjunar Suðurfossár á Rauðasandi, og stefnt verði að því að framkvæmdir hefjist nú þegar.  Þá skorar fundurinn á viðkomandi stjórnvöld að sjá til þess að fyrst lögð verður rafmagnslína á flugvöllinn og til Barðastrandar á komandi sumri skuli hún lögð til Rauðasands og þaðan Sandsheiði til Barðastrandar“.
 5. Skólamál. Þórður Jónsson ræddi um rekstur barnaskólans og framtíðarhorfur.  Gat hann þess að ennþá væri ekki fullgengið frá skólanum og skólalóðinni og taldi nauðsynlegt að á þessu sumri yrði fullgengið frá því sem eftir væri.  Einnig gat hann þess að nauðsynlegt væri að lagfæra vatnsból skólans.  Einnig tóku til máls Guðmundur Friðgeirsson, Snæbjörn Thoroddsen og Össur Guðbjartsson.
 6. Samgöngumál. Oddviti gat þess að hann hefði talað við vegaverkstjóra Braga Thoroddsen og beðið hann að mæta á þessum fundi en hann taldi sér það ekki fært vegna anna.  Oddviti taldi því ekki fært að gera ákvarðanir eða samþykktir um þetta mál; aftur ræddi hann nokkuð um bryggjuna á Gjögrum og endurbætur sem gera þarf á henni.  Einnig tók til máls Snæbjörn Thoroddsen og taldi hann að hreppsnefndin ætti að reyna að vinna að því að bryggjan verði gerð að ferjubryggju.
 7. Oddviti gat þess að mikið bæri á því að sorp og annar óþrifnaður frá sorphaugum Patreksfjarðar bærist á fjörur hér sunnan fjarðar. Í því sambandi bar oddviti fram eftirfarandi tillögu:  „Almennur hreppsfundur haldinn að Fagrahvammi beinir þeim ákveðnu tilmælum til hreppsnefndar Patrekshrepps að þannig sé unnið að sorpeyðingu staðarins að sorpreki sunnan fjarðarins valdi ekki óþrifnaði á fjörum eða öðru landi“.  Samþykkt samhljóða.
 8. Ýmis mál. Snæbjörn Thorodden tók til máls og minnti á ártölin 1874 og 1974.  Óskaði hann eftir í því sambandi að húsráðendur heimilanna í hreppnum fegruðu og snyrtu heimili sín eftir mætti.  Einnig gat hann þess að refur, og þó sérstaklega minkur, væri að auka ágang í hreppnum.  Oddviti gat þess að búið væri að ráða menn til að sjá um og annast eyðingu refs og minks. 
  Þórður Jónsson spurði hvað liði stofnun læknamiðstöðvar á Patreksfirði.  Oddviti og Snæbjörn Thoroddsen gerðu grein fyrir því sem gerðist á fundi á Patreksfirði síðastliðinn vetur í sambandi við læknamiðstöðina.  Einnig tók til máls Ívar ívarsson.  Oddviti gerði fyrirspurn til Ívars Ívarssonar um hvað liði samningu fjallskilareglugerðar.  Ívar Ívarsson upplýsti að búið hefði verið að semja drög að fjallskilareglugerð en hún myndi vera glötuð.  Oddviti beindi þeim tilmælum tl sýslunefndarmannsins að hann herti á útgáfu nýrrar reglugerðar.  Snæbjörn Thoroddsen minntist á hvort ekki mundi vera athugandi að færa skilaréttina úr Vesturbotni að Skápadal.
  Fleira ekki gert.  Fundi slitið.

Valur Thoroddsen (fundarritari)                     Össur Guðbjartsson (oddviti)       Árni Helgason (varaoddviti)

Ívar Ívarsson, Júlíus R. Ívarsson, Bjarni Sigurbjörnsson, Marinó Kristjánsson, Óli Ingvarsson 

04.08.1971.  Niðurjöfnun útsvara.    Endurskoðuð fjárhagsáætlun.  Hluti Rauðasandshrepps í kostnaði við heilbrigðisþjónustu.  Skorað á stjórnvöld að hraða lagningu raflínu um sveitina; þrýst á um Suðurfossárvirkjun.  Samvinna við Patrekshrepp um brunavarnir.  Orlofssjóður húsmæðra.  Beiðni um að Örlygshafnarbryggja skráist sem ferjubryggja.  Fellt niður útsvar öryrkja.

05.09.1971.  Niðurjöfnun fjallskila.  Tillögur í vegamálum.  Hækkaður ellilífeyrir hreppsbúa.

26.10.1971.  Hreppurinn kosti áttræðisafmæli Snæbjarnar J. Thoroddsen.  Útsvarskæra gjaldanda.  Fundur Fjórðungssamb Vestfirðinga um heilbrigðismál.  Tillögur í vegamálum og snjómokstursmálum.

08.02.1972.  Fjárhagsáætlun.  Álagning aðstöðugjalds.  Kostnaður við snjómokstur.

 

04.04.1972.  Bréf skattstofu varðandi álagningu útsvara og aðstöðugjalda.  Hlutabréf í Flókalundi.  Vegvísar við þjóðvegi.  Erindi Náttúruverndarsamtaka.  Tannviðgerðir barna. 

15.07.1972.  Fundur með skólanefnd og skólastjórnendum um fræðslumál. 

24.07.1972.  Niðurjöfnun útsvara og aðstöðugjalda.  Framlag í Orlofssjóð kvenna og til Skógræktarfélags V-Barð.  Þóknun fyrir húsnæði og risnu.  Eftirgjöf Bjargráðasj.láns.

28.08.1972.  Niðurjöfnun fjallskila.  Fulltúi á þing Fjórðungssamb Vestjarða.  Tannlækningar barna.

04.09.1972.  Fundur mað Jóhanni T. Bjarnasyni frkvstj. Fjórðungssamb. Vestfjarða um skólamál.  Einnig um réttarstöðu bænda gagnvart þeim aðgerðum lögreglunnar á Patreksfirði að „taka fast fé úr Rauðasandshreppi sem flækist í nágrenni Patrekshrepps og láta þá kaupa það út“.  Framlag í landhelgissöfnunina (útfærsla í 50 mílur).

05.11.1972.  Bjarni Sigurbjörnsson í heilbrigðisnefnd í stað Þórhall Hálfd sem er burtfluttur.  Úsvarsbreytingar.  Girðing um minningarlund í Sauðlauksdal.

21.01.1973.  Endurbætur Örlygshafnarbryggju.  Athugasemdir forðagæslumanna vegna ásetnings nokkurra bænda.

28.01.1973.  Styrkur til sveitarsjóðs Vestmannaeyja vegna eldgoss í Heimaey.    Trúnaðarmaður Tryggingastofnunar ríkisins í Rauðasandshreppi; Þórður Jónsson tilnefndur.

24.03.1973.  Fjárhagsáætlun.  Áætlanir um rafvæðingu.  Mótmælt niðurskurði á fjárlögum til Vestfirðinga.

 

Almennur hreppsfundur 21.04.1973 í Fagrahvammi

12 fundarmenn 

 1. Oddviti Össur Guðbjartsson setti fundinn og minntist þriggja hreppsbúa sem látist höfðu síðan síðasti almenni fundur var haldinn, en þeir eru: Árni Dagbjartsson, Guðbjartur Hákonarson og Ólafía Magnúsdóttir. 
 2. Oddviti útbýtti fjölrituðum reikningum sveitarsjóðs fyrir árið 1971 og gat þess að reikningar fyrir árið 1972 væru í fjölritun og yrðu þeir sendir á hvert heimili er þeir bærust. Síðan las oddviti og skýrði reikningana.  Þórður Jónsson spurði um fjárhag bryggjunnar á Gjögrum vegna væntanlegra viðgerða sem fram eiga að fara á henni á komandi sumri.  Oddviti upplýsti að bryggjan ætti nú í sjóði kr 252.520,43 og áætlað væri til hennar nú á þessu ári kr 100.000.  Einnig væri komið loforð um styrk úr Byggðasjóði kr 300.000.  Síðan voru reikningarnir bornir undir atkvæði og samþykktir í einu hljóði.
 3. Félagsheimilið. Guðm. Jón Hákonarson las upp og skýrði reikninga Félagsheimilisins fyrir árin 1971 og 1972.  Gat hann þess einnig að húsið væri komið undir töluvert viðhald; sérstaklega væri miðstöðin orðin úr sér gengin og ekki hægt að fá til hennar varahluti.  Þórður Jónsson tók undir það að húsið væri komið undir viðhald; sérstaklega miðstöðin.  Snæbjörn Thoroddsen benti á að sækja um styrk eða aðstoð til Félagsheimilasjóðs áður en byrjað væri á framkvæmdum.  Síðan voru reikningar bornir undir atkvæði og samþykktir í einu hljóði.  Kosningar í stjórn félagsheimilisins:  Aðalmenn:  Guðmundur Friðgeirsson, Jón Hákonarson, Fríða Guðbjartsdóttir.  Varamenn:  Anna Hafliðadóttir, Ragnheiður Magnúsdóttir, Vigdís Þorvaldsdóttir, Helgi Árnason og Marinó Kristjánsson.  Varamenn taki sæti í sömu röð fyrir aðalmenn og þeir eru bókaðir.  Árni Helgason skýrði frá því að þorrablótsnefnd 1971 hefði gefið húsinu tjöld fyrir senu, ásamt brautum.  Oddviti þakkaði þessa gjöf.  Egill Ólafsson minntist á hvort ekki væri rétt að hækka leiguna á félagsheimilinu til kennslustarfa.  Ýmsir tóku til máls um þetta og kom fram að rétt væri að athuga þetta mál. 
 4. Skólamál. Oddviti Össur Guðbjartsson skýrði frá því að nú væri skólabyggingunni lokið og greindi frá kostnaði við bygginguna, sem er orðinn kr 10.521.338,60.  Einnig skýrði hann frá fundi sem hann og skólastjóri Guðmundur Friðgeirsson sátu á Núpi um framtíð skólamála almennt.  Kom þar fram að menntamálaráðuneytið meinar að draga mjög úr að kennsla fari fram hér í skólanum, og kennslan verði flutt til Patreksfjarðar.  Oddviti skýrði einnig frá fundi sem hreppsnefndin og skólanefndin héldu, og ályktun sem sá fundur sendi frá sér til menntamálaráðuneytisins.
 5. Rafmagnsmál. Oddviti skýrði frá áætlun Orkustofnunar um rafvæðingu hreppsins, en í henni segir að leggja skuli rafmagn um hreppinn sumarið 1973.  Einnig gat hann um þann orðróm sem gengið hefur um að fresta ætti þessum framkvæmdum, og þær bréfaskriftir sem hann hefur átt í sambandi við þetta mál.  Fram kom eftirfarandi tillaga í þessu máli.  „Almennur hreppsfundur í Rauðasandshreppi, haldinn í Fagrahvammi 21.apríl 1973, leggur á það sérstaka áherslu að staðið verði að fullu við framkvæmdaáætlun Orkustofnunar frá 01.09.1971, þannig að raflínur verði lagðar á alla bæi í hreppnum á árinu.  Telur fundurinn að verði það ekki gert sé sú hætta fyrir hendi að fólk flytji brott úr sveitinni í stórauknum mæli; og verður þá ekki þörf á neinni raflínu.  En sú þróun mála væri svik við byggðarlagið og þá margumtöluðu byggðastefnu sem allir vilja eiga og telja sig vinna fyrir“.  Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
 6. Samgöngumál. Oddviti skýrði frá að meint hefði verið að fá vegaverkstjóra Braga Thoroddsen á fundinn, en hann var á förum til útlanda og gat því ekki orðið af veru hans hér.  Oddviti ræddi nokkuð um snjómokstur og gat þess að vegaverkstjóri Bragi Thoroddsen hefði tilkynnt sér að nú mundi koma einhver hluti af kostnaði við snjómokstur á heppana.  Þórður Jónsson greindi frá flutningsstyrk sem komið hefði í vestursýsluna undanfarin ár og notaður hefur verið til snjómoksturs og dugað til þess þar til nú.  Eftirfarandi tillaga kom fram frá Snæbirni Thoroddsen:  „Almennur hreppsfundur samþykkir að fela hreppsnefnd að senda sýslunefnd erindi þess efnis að sýslusjóður greiddi þann hluta kostnaðar við snjómokstur sem ríkisframlag til vetrarsamgangna nægir ekki til“.  Samþykkt samhljóða.
 7. Ýmis mál. Oddviti bar fram þakkir fyrir viðbrögð hreppsbúa í sambandi við famlög til landhelgisgæslunnar.  Einnig bar hann fram þakkir bæjarsjóðs Vestmannaeyja og Rauðakross Íslands fyrir framlög hreppsbúa til Vestmannaeyja.  Snæbjörn Thoroddsen gerði nokkrar fyrirspurnir, m.a. um hvort búið væri að semja skipulagsskrá fyrir minningarsjóð Þorvaldar Jakobssonar.  Oddviti upplýsti að svo væri ekki.  Einnig minntist Snæbjörn á minningarlund Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og mæltist til þess að hreppsnefndin hefði forgöngu í því máli.  Þá varpaði hann því fram að viðeigandi væri að reist væri stytta af Ívari Ívarssyni á Skersfjalli.  Einnig taldi hann að vinna þyrfti meira en gert hefði verið að því að fá áburði dreift úr lofti á beitilönd.  Þá minntist hann á þörf á því að sett verði upp neyðartalstöð á Melanesi; einnig að sett yrði upp björgunarskýli með síma á Skersfjalli og Hafnarfjalli.  Svohljóðandi tillaga kom fram frá Reyni Ívarssyni:  „Fundurinn telur þörf á auknum brunavörnum í hreppnum, m.a. með kaupum á slökkvitækjum.  Ennfremur að athuga með möguleika á hentugum vagni eða vögnum með dælu og leiðslubúnaði, sem flytja mætti á milli staða á auðveldan hátt“.  Tillagan samþykkt samhljóða.
  Þá kom fram svohljóðandi tillaga frá Snæbirni Thoroddsen:  „Fundurinn beinir því til sveitarstjórnar og stjórnar Búnaðarfélagsins Örlygur að þær í sameiningu annist gerð á góðri standmynd af Ívari Ívarssyni í Kirkjuhvammi á hentugum stað á Skersfjalli og sé þetta gert sem þakklætisvottur fyrir áralöng farsæl störf Ívars í þágu sveitarstjórnar og Búnaðarfélagsins“.  Samþykkt í einu hljóði. 
  Þá þakkaði Össur Guðbjartsson Snæbirni Thoroddsen og komu hans Þórdísi Thoroddsen fyrir bókagjöf sem þau gáfu sveitarsjóði.  Bók þessi ier í vönduðu bandi og í hana er skráð (handskrifað) upplýsingar um heimilisfólk á hverju heimili sveitarinnar frá árinu 1907.  Skal síðan viðkomandi oddviti færa breytingar þær sem verða inn í bókina jafnóðum.

Fleira ekki gert. Fundi slitið.

          Valur Thoroddsen (fundarritari)     Össur Guðbjartsson (oddviti)       Árni Helgason (varaoddviti)

Snæbjörn J. Thoroddsen, Þórður Jónsson, Bjarni Þórhallsson, Bjarni Sigurbjörnsson, Ívar Halldórsson, Júlíus R. Ívarsson, Ívar Ívarsson, Guðmundur Jón Hákonarson, Egill Ólafsson. 

26.06.1973.  Beiðni um afnot skólahúss fyrir raflínuflokk hafnað að ráði skólastjóra.  Sótt um lán/styrk vegna Örlysgshafnarbryggju úr Byggðasjóði.  Beiðni bónda um styrk úr Styrktarsjóði.  Oddviti hafi samráð við Bf Örlyg um gerð styttu af Ívari Ívarssyni.

28.07.1973.  Niðurjöfnun gjalda.  Fjárhagsáætlun.  Merking staða vegna þjóðhátíðarárs.

27.08.1973.  Útsvarskæra.  Fjárstyrkut til Skógræktarfélags V-Barð.  Niðurjöfnun fjallskila.

07.10.1973.  Beiðni bónda um hreppsábyrgð búfjárkaupaláns.  Tillögur í vegamálum. 

21.10.1973.  Gefinn eftir forkaupsréttur að ½ Vatnsdalsjörð.  Skipulagsskylda sveitarfélaga.  Aðstoð við aldraða og öryrkja.  Breytingar á útsvörum

28.10.1973.  Fundur oddvita með formanni skólanefndar og skólastjóra.  Samningar um aukastörf og leigu.

10.12.1973.  Heilbrigðismál.  Áætlanir um heilsugæslustöð á Patreksfirði.  Niðurlagnng Sjúkrasamlags Rauðasandshrepps.  Framlög til lestrarfélaga felld niður.  Laun nefndarmanna.

12.01.1974.  Ábyrgð Stofnlánadeildarláns fyrir bónda.

18.03.1974.  Uppgjör og fjárhagsáætlun hreppsins.  Aðstöðugjöld.  Hlutafé í Gesti hf.  Möguleiki á hreppsfundi.  Rekstur læknamiðstöðvar.  Landgræðslumál.  Fyrirframgreiðslur gjalda.

17.04.1974.  Ábyrgð fyrir láni bónda.  Hugsanleg samvinna hreppa um skólamál.  Happdrættislán ríkisins vegna Skeiðarárbrúar.  Skipað í kjörstjórnir vegna hreppsnefndarkosninga og kjörskrár yfirfarnar.

08.06.1974.  Yfirfarin kjörskrá vegna Alþingiskosninga.

25.07.1974.  Verkaskipting hreppsnefndar óbreytt.  Skipað í nefndir. 

05.08.1974.  Niðurjöfnun útsvara og annarra gjalda.

03.09.1974.  Niðurjöfnun fjallskila.  3 fjallskilaseðlar; 1 á hverja réttarsókn.  Réttargjald 2 kr á kind.

21.09.1974.  Frumvarp að nýrri fjallskilareglugerð.  Bætt inn greinum um viðurlög við vanræsklu fjallskila og um sveltatökur.  Áætlanir í vegamálum.  Rætt um sundlaug við heimavistarskólann í Örlygshöfn.

14.11.1974.  Upphitun barnaskólans.  Landgræðslumál.  Hundarheinsunarmál. 

15.02.1975.  Hundahreinsunarhús; Gunnar Össurarson fenginn til að teikna.  Fjárhagsáætlun hreppsins.

18.03.1975.  Álagning aðstöðugjalds.  Forkaupsréttur ekki nýttur vegna sölu á Stökkum, Króki og Krókshúsum.  Heilsugæslustöð á Patreksfirði.  Sláturhúsamál.

03.06.1975.  Forkaupsréttur ekki nýttur vegna sölu á Stakkadal.  Kostnaðarskipting heilsugæslustöðvar.

31.07.1975.  Niðurjöfnun útsvara.  Endurskoðuð fjárhagsáætlun.  Hlutafé í Byggingafélaginu Höfn hf.

07.09.1975.  Niðurjöfnun fjallskila.

25.10.1975.  Fundur oddvita með formanni skólanefndar og skólastjóra um aukastörf og leigu.

14.11.1975.  Lóð undir hundahreinsunarhús í landi Hnjóts og kostnaður við bygginu.  Raforkumælir fyrir skólastjóraíbúð.  Fulltrúar á fjármálaráðstefnu Samb.ísl sveitarfélaga.  Þóknun hreppsnefndarmanna.

06.12.1975.  Tillögur við endurskoðun vegaáætlunar.  Framlög til Orlofssjóðs kvenna; Slvd Bræðrabandið og lestrarfélaganna þriggja.

11.09..1976.  Álagning aðstöðugjalds.  Skattstofa sér um útsvarsálagningu.  Fjárhagsáætlun.

31.04.1976.  Bréf forðagæslumanna, Óla Ingvarssonar og Braga Ívarssonar, um vöntun á fóðri nokkurra bænda.  Heykaup frá Kristni Kristjánssyni í Vesturbotni.  Styrkur til Þjóðháttanefndar til söfnunar þjóðhátta í hreppnum.  Fulltrúi á Fjórðungsþing Vestfjarða, Össur Guðbjartsson.

09.05.1976.  Fundur hreppsnefndar með skólanefnd og skólastjóra til að ræða bréf menntamálaráðuneytisins um skiptingu landsins í skólahverfi.  Fundur hreppsnefndar:  Dýralæknamál.  Sauðfjárböðun.

11.07.1976.  Brunavarnamál; kaup á slökkvidælu og öðrum búnaði.

06.08.1976.   Niðurjöfnun gjalda.  Slátuhúsamál; mælt með breytingum á Hraðfrystihúsi Patreksjarðar fremur en byggingu nýs húss á Barðaströnd.  Þátttaka í ferð Sparisj. Rauðasandshr vegna skemmtiferðar hreppsbúa að Melanesi.  Lóðamál vegna hundahreinsunarhúss.

07.09.1976.  Niðurjöfnun fjallskila í 3 réttarsóknum; gefnir út jafn margir fjallskilaseðlar sem ganga hefðbundnar boðleiðir.  Athuguð ný lög um almenningsbókasöfn.  Samningur við skólastjóra um kostnað og leigu.

 

Hér lýkur þeim gerðabókum Rauðasandshrepps sem varðveittar hafa verið á Láganúpi frá oddvitatíð Össurar Guðbjartssonar.  Sumarið 1986 veiktist hann skyndilega af heilablóðfalli og bjó við mikla lömun eftir það til dauðadags 30.04.1999.  Árnheiður Guðnadóttir varaoddviti í Breiðavík tók við oddvitastörfum og jafnframt þeirri gerðabók sem þá var virk.  Hinn 01.07.1987 var hinn forni Rauðasandshreppur lagður niður sem stjórnsýslueining er hann sameinaðist aftur kaupstaðnum Patreksfirði, en í það samstarf runnu einnig Barðastrandarhreppur og Bíldudalshreppur og úr varð Sveitarfélagið Vesturbyggð. 

 

Uppritað í júníbyrjun 2018;  Valdimar Össurarson.