Skemmtileg leiðarlýsing Ingvars Guðbjartssonar um leiðir og örnefni milli Kollsvíkur og Breiðavíkur.  Ingvar ólst upp á Láganúpi og var lengi bóndi í Kollsvík.

ingvar gIngvar Jón Guðbjartsson (31.05.1925 – 14.05.1999) fæddist á Grund í Kollsvík.  Var bóndi á Stekkjarmel frá 1953 til 1962, er hann flutti að Kollsvík þar sem hann stundaði búskap til 1971.  Þá fluttist hann í Kópavog og hóf vinnu hjá Jarðborunum ríkisins.  Kona Ingvars var Sigurlína Jóna Snæbjörnsdóttir frá Kvígindisdal, og eignuðust þau 5 börn.  Ingvar var flestum fróðari um sögu og staðhætti í Kollsvík, og var góður sögumaður.  Þessar leiðarlýsingar lýsa vel þessum eiginleikum, en þær lét hann eftir sig íhandriti.  

Sagt til vegar I

Góði félagi!  Vilt þú nú ekki fara með mér í smá ferðalag vestur í Kollsvík.  Ferðin verður þér ekki dýr.  Hún kann að kosta þig nokkra þolinmæði, en ekki erfiði.  Ég ætla að fá þig til að ganga með mér nokkrar aðal göngu- og smalaleiðir sem lágu úr Víkinni til annarra og næstu byggða.  Ég skal segja þér til örnefna og atvika sem rifjast upp á þessum leiðum

laganupur gamlahusVið leggjum upp frá Láganúpi, sem er annar tveggja bæja sem eru í byggð í Víkinni (þá) og er syðst á sléttlendinu; undir lágum hjöllum.  (Myndin er tekin um 1970).  Þar fæddist ég og átti heima fram yfir tvítugt.  Við erum vel búnir undir gönguferðina, eftir góðgerðir hjá bróður mínum og mágkonu (Össuri og Sigríði á Láganúpi), og með nestisbita í vasa.  Við skulum fara út á Hnífa, en það eru lágir sjávarklettar sem byrja lágt á Hreggnesa, rétt fyrir sunnan Grundatúnið, og ná út að Breið.  Það er fallegt og margt að skoða úteftir Hnífunum.  Við förum yfir Stóragilið, fyrir utan húsið.  Þar er sandur í botni, og var aðal leiksvæði okkar systkina.  Þar áttum við báta sem reru til fiskjar, en aflinn var fiskbein.  Allt var þetta eftir fyrirmynd þeirra fullorðnu í Kollsvíkurveri.  Við förum framhjá fjárrétt á Brunnsbrekkunni.  Við hana eru margar minningar tengdar; frá því að pabbi byrjaði að byggja hana með aðstoð okkar yngri systkina fjögurra, en ég var elstur þeirra; þá tíu ára.  Ótrúlega stórir eru sumir steinarnir sem þar eru, en hjálpartæki voru ekki nema járnkarl, skófla og planki sem notaður var sem vog.  Næst staðnæmumst við hjá Nónvörðu, en hún var eyktamark frá Grundum sem var býli niður við sjóinn.  Þar standa hlið við hlið, gamli og nýi tíminn; varðan og sjónvarpsloftnet frá Láganúpi í æpandi ósamræmi.

kollsvik af hjollumVið skulum líta yfir Kollsvíkina.  Hvít skeljasandsfjara er með sjónum, frá Grundatöngum norður undir Blakk; um 2 km að lengd.  Þar væri hráefni fyrir stóra sementsverksmiðju.  Ofar taka við sendnir melar; svo mýrlendi.  Ræktanlegt land í Víkinni er ca 90 til 100 ha.  Oft hefur sandurinn gert mönnum lífið leitt, þegar allt er freðið og norðanstormur flæðir hann yfir allt og fyllir í lautir.  Úr Víkinni var stutt á góð fiskimið, og sóttu þangað bændur víða að, meðan róið var á árabátum.  Flest reru 25 bátar úr Kollsvíkurveri. 

Við skulum nú snúa nefinu í rétta átt og rölta áfram.  En hérna á hægri hönd er gamall stekkur; Þúfustekkur, en þar var stíað kvíaám áður.  Litlu utar er Katrínarstekkur í lítilli skjóllegri laut.  Í klettunum þar fyrir neðan er Smérhellir.  Áfram út yfir Strengbergið, en það eru standklettar beint í sjó; ca 60-70 metra háir.  Þarna á blábrúninni er mjög strengberg tofuhusgamalt skothús sem notað var til skamms tíma.  Þar var borið út hræ og legið fyrir tófu.  Utan við Strengbergið taka við grösugar lautir sem heita Kálfalágar.  Þarna fram af eru Hnífar lægstir og ganga fram í nef sem heitir Hnífaflaga.  Auðvelt er að fara þar niður í fjöru.  Þarna norðan við Flöguna strandaði enskur togari árið 1914 (British Empire).  Hann fór upp á smá vog og lagðist eins og að bryggju.  Allir björguðust, og voru komnir á leið til bæja þegar þeir fundust.  Þarna niðri á Flögunni er sérkennilega veðrað grjót.  Sumt er örþunnt og götótt eins og víravirki, og allstkonar kynjamyndanir koma í ljós ef vel er skoðað.

storhollÚt yfir Grófarnefin.  Grófarstekkur; djúp laut með tóttum í botni.  Framan í Grófarnefinu er Tröllkarlshellir; stór hvelfing og hola innúr sem á að vera leið í Tröllkonuhelli, sem er norðan í Blakknum.  Stór slakki er þarna utanvið, niður í klettana, og heitir það Undirlendi.  Leið okkar liggur fyrir neðan Stórhólinn.  Líttu vel til hólsins, því þar er huldufólksbyggð og oft hefur sést þar huldufólk.  Ég þekkti fólk grofarstekkursem sá þetta.  Beint niður af hólnum; efst í klettunum, er Sandhellir.  Hann er töluvert stór þegar inn er komið; svipaður sjóvettling í laginu, með einum þumli; og heitir Þumall.  Inn af honum er hola sem á að vera inngangur huldufólksins í Stórhólinn.  Utan við Stórhólinn taka við grasbalar sem heita Flatir.  Neðan við smá hjalla eru Hústóftarbakkar; þar var heyjað hér áður (eins og víðar).  Pabbi heyjaði hér einusinni og ég reiddi heim heyið.  Hérna sat ég stundum yfir kvíaánum.  Fært var frá einu sinni eftir að ég man eftir.  Það var árið 1934.  Lömbin voru rekin inn í Sauðlauksdal til sumargöngu.

Hérna fram á Vatnadalsbótinni er mið sem heitir Bjarni Gíslason.  Bjarni var unglingur á Látrum; ættaður úr Tálknafirði.  Hann fór ungur til Danmerkur til náms, og bjó þar til dauðadags.  Hann var stórvirkur rithöfundur og kennari.  Hann vann manna mest að heimsendingu íslensku handritanna á sínum tíma.  Mér finnst Íslendingar ekki hafa þakkað honum sem skyldi.  Nafnið á miðinu er þannig til komið að menn létu reka þarna á skaki og fengu sæmilegt kennsli á þessum bletti.  Þorskurinn var hausstór og einhver sagði að hann væri líkur Bjarna; því var miðið skírt í höfuðið á honum.  Þessa einu vísu kann ég eftir Bjarna, úr bréfi til fóstru sinnar sem hann kallaði ömmu.  Hann missti föður sinn ungur og fór til frænku sinnar á Látrum.

Heim að Látrum hugur fer;
hlýjar kveðjur amma.
Þú mátt heilsa þar frá mér
þeim sem við mig kannast.

Ekki dugir þetta slór!  Við höldum því eins og leið liggur; út yfir Árdalinn; upp hjá Blettahjalla; upp undir efri kletta og út yfir Urðahrygginn.  Þar byrjar hin eiginlega leið fyrir Breiðinn.  Fyrst eru gróðurlitlir hryggir niður á sjóarkletta.  Þá erum við komnir út á Skútahrygg.  Þarna eykst brattinn og sjávarklettar hækka, en hér byrjar kafgras og allstaðar er hér kál og hvönn á syllum.  Nógur er áburðurinn frá fuglinum, bæði svartbak, hvítmáf og múkka.  Sauðfé sækir mikið í Breiðinn, en mikil vanhöld voru þar.  Þarna heyjaði Ólafur Halldórsson á Grundum, en erfitt er að standa að slætti í svona bratta og bera svo heyið á bakinu heim á Bakka.  Niðri í sjávarklettum er Lundafles.  Þangað var sigið til að ná í múkkaegg.  Einu sinni tók Einar bróðir okkur Össur með, og við áttum að halda við vaðinn þegar hann sigi í flesið.  Þetta tókst, en þá hét ég því að láta engvan mannlegan mátt teyma mig í brattlendi!  Því fer ég ekki með þér lengra en á næsta hrygg, sem heitir Landamerkjahryggur.  Þar tekur við Breiðavíkurland.  Nú er brattara það sem eftir er; grasgangar framan í klettinum.  Þú heldur áfram en ferð varlega, því ógætilegt fótmál verður ekki aftur tekið.  En ég hitti þig við Gjána þegar þú kemur út í Fjarðarhornið. 

Hægt er að fara fyrir Breið um háfjöru með sjó, en þar er stórgrýtt og sleipar hleinar.  Landamerkjahlein er fram af Hryggnum.  Þar liggja oft selir.  Einu sinni sem oftar var ég þar á ferð með byssu, og ætlaði að læðast að sel.  En svartbakurinn var á vakt, og stóð við sinn hluta samningsins sem hann gerði við selinn í árdaga.  Hann var þannig að svartbakurinn átti að vaka yfir selnum þegar hann fengi sér blund á landi; gegn því að svartbakurinn fengi alla afganga af veiði selsins.  Jæja; selurinn hló að mér úr vognum, en á hleininni sat fugl sem ég segi þér ekki hvað hét; var oft kallaður pokaönd.  Þennan fugl skaut ég, en hann valt í sjóinn.  Með mér var mjög góður skothundur sem mér þótti mjög vænt um.  Hann setti sig strax í sjóinn eftir fuglinum, en náði honum ekki því þarna er sterkur straumur sem liggur frá landi og suður á Breiðuvík.  Þarna hurfu þeir mjög fljótt; fuglinn og hundurinn.  Ég hélt að ég sæi nú Móra ekki meira og hélt því áfram út með klettunum.  Eftir svona tuttugu mínútur heyrði ég ýlfur við hleinarnar.  Þar var þá Móri kominn, og var ég fljótur að bjarga honum upp á hleinina.  Ekki hvekktist hann neitt við sjóinn, þrátt fyrir þetta volk. 

Jæja; við hittumst eins og til stóð, sunnan við Gjána.  Fjarðarhornið er fallegur grösugur blettur í skjóli fyrir norðri.  Þar grær því snemma að vorinu, og sótti fé því á að komast þangað, að heiman.  Þarna sér fyrir beitarhúsatóttum og fjárrétt, og ef til vill kofa fyrir sauðamann.  Hornið er eins og vin í eyðimörk; afgirt af Breiðnum og klettum fyrir ofan.  Svo taka við Breiðavíkursandar.  Um sauðburðinn þurftum við systkinin að fara annan hvern dag út í Breiðuvík að líta eftir fénu, meðan ekki var farið að hafa það í girðingum.

Áfram skal haldið.  Við skáskerum Sandahlíðina fyrir ofan Sandhólana; upp undir kletta.  Þarna er gjóta sem hægt er að fara á brún, en það heitir að fara Dulu.  Við höldum norður brúnina.  Hérna í klettunum skaut ég fyrstu tófuna, en hún loddi uppi og ég þorði ekki að klifra og ná í hana.  Eftir mikið grjótkast valt hún niður í Sandahlíð og sótti ég hana þangað.  Við förum yfir Sandargilið, neðan við Sanddali, og áfram norður brúnina.  Á hægri hönd er hábunga Breiðsins.  Efst er tveggja metra há og eftir því sver varða.  Svona vörður vor hlaðnar á hæstu fjöllum í sambandi við landmælingar danska herforingjaráðsins, þegar Ísland var mælt og kortlagt.  Norðan bungunnar er Breiðsvatn.  Það er alltaf jafnt í vatninu þó ekki sé nema 200 metrar á tvo vegu fram á brúnir.  Ekkert vatn kemur fram úr klettunum fyrr en niður í sjávarklettum.

Á vinstri hönd er Steinanefið.  Þaðan fóru þeir niður í klettana til að ná í múkkaeggin, en af þeim var mikið tekið í Breiðnum.  Þarna var það sem Össur bróðir kastaði nýrri glansderhúfu fram af í misgripum fyrir stein, þegar hann var að grýta fé úr Breiðnum.  Hér var það líka sem Skuggi, fjárhundur Torfa móðurbróður, fauk framaf og var allur.  Skugga hafði hann keypt af Halldóri bróður mínum á 5 krónur.  Dóri var smá polli og kunni rétt að nefna krónur, en Skuggi var afbragðs fjárhundur.  Þarna sigu þeir Aðalsteinn í Breiðuvík og Júlíus á Grundum niður fyrir miðja kletta; að ná í lamb sem þvælst hafði þarna niður.  Lambið var svo sólbrunnið að eyrun voru af við hlustir.

Nú erum við komnir norður á Grenjalág, en þarna má heita að klettarnir slitni í sundur og gott að fara niður bratta aurskriðu og urð neðst.  Við göngum fyrir neðan Litlavatn, sem er neðsta vatnið í Vatnadal.  Þangað var oft farið á hlýjum sumardegi til að baða sig og synda.  Þarna eru grasbakkar og mjúkur botn í vatninu, og hlýnar vel í sólskini.

Í ferðarlok höldum við heim yfir Ormana, sem er sléttlendi; lyngi og grasi vaxið.  Þar heimast eru Strympurnar; hjallakast.  Á þeim er tjörnin Langisjór, með miklu broki sem var oft slegið.  Síðast taka við Flatir; heim á Hjallana fyrir ofan Láganúp.  Þá er þessari ferð lokið. Ef til vill, ef vilji er fyrir hendi, gætum við farið í aðra ferð seinna.

 

Sagt til vegar  II

Við leggjum nú af stað í aðra gönguferð frá Láganúpi.  Nú göngum við aðal leiðina úr Kollsvík að Breiðuvík.  Þar var rudd hestagata sem alltaf var hreinsuð á hverju vori.  Þetta var eina leiðin sem fær var með hesta.  Við höldum upp með Litlagili, sem var rétt utan við Bæjarhólinn við gamla bæinn á Láganúpi.  Þarna er brekka, nokkuð brött; þar var aðal leiksvæði okkar.  Sleðabrekka var mjög góð og síðar þegar ég eignaðist fyrstu skíðin mín, en þau pantaði Einar bróðir frá Noregi, ásamt skíðum fyrir Árna í Tröð og Halldór bróður.  Ég átti fimm krónur og það passaði fyrir skíðum.  Þegar voraði voru horn, leggir, kuðungar og kúskeljar tekin úr vetrargeymslu og farið að stunda búskap af ormatjornfullum krafti; í og undir Hjöllunum.  Þegar við erum komin upp á Efrihjallana förum við fyrir ofan Flatirnar með Ormatjörnum, en þær eru tvær; sú ytri er vaxin töluverðu broki sem var slegið hér áður.  Þar utan við á vinstri hönd er graslaut sem heitir Pálslaut.  Við förum yfir Vatnadalsána sem er farvegur; oftast þurr, en getur orðið ófær í leysingum. 

Rétt utan við Ána tekur við Vörðubrekkan.  Gatan liggur í nokkrum sniðum upp bröttustu brekkuna; síðan vægur halli upp á Kjölinn.  Í framhaldi af Kjölnum til vinstri taka við klettaslefrur fram með Vatnadalnum; það heitir Ívarsegg.  Utan við Kjölinn fer að halla ofaní Sanddalina, en brekkan ofanvið þá heitir Kjölur; alveg út að Flosadal.  Þegar út fyrir Sanddali kemur kallast Horn; þar skiptist gatan.  Áður varð að fara fram Breiðavíkurhjalla og niður Hjallagötu, en við beygjum til hægri, eftir götu sem félagar úr Ungmennafélaginu Vestra lögðu; niður á Breiðavíkurhjalla og niður Flosagil.  Flosagilið var ekki fært nema gangandi mönnum áður.  Skömmu eftir að UMF Vestri var stofnað, var byrjað á því í sjálfboðavinnu að lagfæra þarna veg.  Hlaðin voru upp nokkur snið í Gilið; sumar hleðslurnar voru allt að 3 metrar á hæð, en víða minna.  Þetta þótti góð samgöngubót og stytti leiðina til muna.  Norðan við Gilið er Meðhjálparagjóta.  Hún er kennd við Halldór Ólafsson á Grundum, en hann fór þarna oftast, á leið til Breiðavíkurkirkju; en þar var hann meðhjálpari mjög lengi.

Þegar kemur niður úr Gilinu er komið á graslendi sem nær heim að Vaðli.  Á smá hól við Gilið var Vestri með kartöflugarð um nokkur ár, sem fjáröflunarleið.  Vestri var með félagssvæði um Breiðavíkursókn; þ.e. Látra, Breiðavík og Kollsvík.

rekstur af rett safn emYfir Vaðalinn varð að vaða berfættur þegar farið var gangandi til kirkju.  Eitt sinn voru þrjú systkin á leið til kirkju; Bjarni Bjarnason og tvær systur hans.  Bjarni var hrekkjóttur og gamansamur.  Þegar að Vaðlinum kom, þá dettur Bjarni niður eins og dauður.  Systurnar stumra yfir honum, og töldu að hann hefði orðið bráðkvaddur.  Þær fara úr sokkum og skóm og bera líkið á milli sín yfir, en þarna er nokkuð breitt.  Þær töluðu um að láta nú líkið ekki blotna.  Þegar yfir kom, settust þær til að fara í sokkana og skóna og sneru sér frá líkinu.  En þegar þær ætla að halda áfram með það, þá er líkið á harðaspretti heim að Breiðuvík.  Bjarni sagði á eftir að mikið hefði verið grátið yfir líkinu.  En þetta var nú útúrdúr.

Undir Flosagili beygjum við til vinstri og förum fram með Hjöllunum.  Rétt strax komum við að lágum hól með hlöðnum tóftum á.  Þetta er kallaður Stekkur.  Þarna er mjög grösugt og skjólgott og góð beit hefur verið fyrir kvíaærnar hér í kring, og með Hjöllunum.  Þarna er upplagt að fá sér bita og láta líða úr sér.  Áfram skal halda, fram undir Hjallagötu sem áður er getið.  En mitt á milli Gilsins og Götunnar er slitur í Hjallana sem heitir Rauðagil.  Þar fórum við stundum upp eða niður í smalamennsku.  Við förum nú ekki upp Hjallagötuna, en þegar upp kemur liggur gatan með brekkunni fyrir ofan Hjallana, og kemur aftur saman á Horninu sem áður er getið.  Á miðri leið er stór graslaut sem heitir Bolli.  Þar sá Össur bróðir huldustrák hlaupa með tveim krökkum í smalamennsku.  Ekki var nema hundrað metrar á milli þeirra, og sól og blíða, svo varla var um missýningu að ræða.  Á hægri hönd ber mest á felli sem heitir Flyðruhnjótur, en það var notað sem mið á sjónum.  Þar norðanvið er dalverpi sem heitir Flosadalur.  Ekki er vitað um uppruna þessara örnefna.  Örstuttu framar er Hafnargilið; þar förum við upp.  Þetta er gamla leiðin úr Breiðuvík til Örlygshafnar og Hænuvíkur.  Þessa leið fórum við ekki oft, en stundum ef við ætluðum að gá að fé í Vatnadalnum.

Niður með Gilinu lá símalínan að Breiðuvík og Látrum.  Þarna á brúninni laust eldingu niður í línuna og af þremur staurum voru einungis eins meters stubbar upp úr jörð; og næstu klofnir niður í jörð.  Ég var þá með eftirlit með símanum og tjaslaði þessu upp til bráðbirgða.  Ofan Hafnargils taka við Hafnarlautir, og ná upp undir Aurholt.  Þar komum við á krossgötur sem koma þvert á okkar leið; Víknafjallsvegur, sem var nokkuð fjölfarinn leið úr Kollsvík til Keflavíkur og Rauðasands.  Rauðsendingar voru mikið í skipsrúmi í Kollsvík.  Víknamenn áttu kirkjusókn í Saurbæ þangað til Breiðavíkursókn var tekin upp, og byggð kirkja í Breiðavík.  Við beygjum til vinstri, og brátt fer að halla ofan í Vatnadalinn og niður Dalbrekkurnar.  Þetta er gróðurlítið land; lyngbrekkur, fjalldrapi og á stökustað einiberjabreiður, sem þangað voru sóttar á jólatréð.  Grastór eru sitthvorumegin í Dalnum; Breiðavíkurtó til vinstri og Hænuvíkurtó til hægri.

startj vidilaekirÞegar niður í Dalinn kemur, komum við að Startjörnum.  Þær eru grunnar, og vex stör og brok með bökkum; þar var slegið.  Þarna er komið á smávegis graslendi.  Frá Hænuvíkurtó og heim að Stórahnjót er brekka sunnar í Dalnum; kölluð Víðilækir.  Ofan við hana eru klettar; einu nafni Ívarsegg.  Leið okkar liggur norðanmegin í Dalnum; heim yfir Kollsvíkurtóna en það er lækjarsytra og graslendi, sem stundum var slegið.  galgasteinarHeim yfir Gálgasteinabrekkur, þar sem eru tveir rúmlega mannhæðarháir steinar með stuttu millibili.  Þeir segja sína sögu, þó ekki séu til af þeim neinar sögur um aftökur.  Neðan við brekkuna er Stóravatn.  Það er nokkuð djúpt, og tæpur einn kílómetri á lengd; engin veiði er í vatninu.  Við settum einusinni nokkur hundruð seiði af bleikju þangað; hún óx mjög vel, en klak virtist ekki takast.  Aldrei tók hún á stöng, en síðustu fiskarnir sem við veiddum í net voru 9,5 pund; þá 8 ára.  Við höldum heim um Bjarnarskarð og á milli Kjóavatna, en þau eru þrjú lítil og eitt þornar í þurrkum.  Þá er lítið skarð sunnanvið strákar vid sandslagarvatnLitlafellið.  Í laut vestanvið fellið er Sandslágarvatn.  Það er ekki stórt, en það var uppáhalds leiksvæði stráka í Kollsvík með báta og skútur.  Láta skipin sigla beitivind, eða lensa með fast stýri yfir vatnið.  Stundum var heppnin með; bátum hvolfdi og farmur losnaði, og þá flaut skipið upp og rak að landi.  Oftast var gerð varðúðarráðstöfun ef það brygðist.  Þá voru sett upp mið sem hægt var að átta sig á hvar skipið lægi.  Þá var að bíða þess að glær ís kæmi á vatnið; ef heppnin var með, var hægt að krækja skipið upp.

Oft voru veiddar bröndur eða lækjalontur í Torfalæk og Ánni niður í Vík, og bornar í vatnsfötum fram í Sandslágarvatn.  Við héldum að þetta væru silungaseyði og vonuðumst til að koma upp silungi sem við gætum veitt seinna, en þær vonir brugðust sem von var.

Þegar kemur heim úr Sandslágarskarði komum við niður á Fremrihjallana.  Þar var gott berjaland og stutt að fara, því þeir eru rétt við túngarðinn sem pabbi hlóð um túnið á Láganúpi; fyrsta og annan veturinn sem hann bjó þar, að mestum parti á kvöldin þegar tunglskin var.  Garðurinn er um 500 – 600 metra langur; tvíhlaðinn neðst en einhlaðinn að ofan, og ein gaddavírssnúra ofan á honum.  Nú er bara eftir að labba heim gamla túnið og niður Flötina að Láganúpi.  Þökk fyrir samfylgdina.

Við skulum samt skreppa í huganum og ljúka lýsingu á leiðinni af Aurholti í Keflavik og á Rauðasand.  En það er Víknafjall, eins og áður getur.  Af krossgötunum á Aurholti liggur leiðin til austurs og brátt er komið á Urðarhjalla.  Hann liggur utan í brekku sem myndar hnjúk efst til vinstri, og heitir hann Napi.  Þegar Hjallanum sleppir komum við í Brúðgumaskarð, en þar hallar vötnum til Dalverpis, sem liggur þvert á leiðina; úr Sauðlauksdal í Keflavík.