Einar Jónsson í Kollsvík var héraðshöfðingi og ættfaðir Kollsvíkurættar.  Hann var merkur frumkvöðull á ýmsum sviðum og litríkur persónuleiki.  Hér eru rifjaðar upp nokkrar sagnir.

sg kollsvik gamlibaer

(Mynd:  Gamli Kollsvíkurbærinn.  Málverk Sigríðar Guðbjartsdóttur á Láganúpi.  Málað á steinhellu.) 

Í Árbók Barðastrandasýslu 1980-90 birtist eftirfarandi frásögn, sem Ólafur E. Thoroddsen skráði eftir sögnum Helgu Einarsdóttur; fósturdóttur Einars Jónssonar í Kollsvík, sem Kollsvíkurætt er rakin til.   Ólafur E. Thoroddsen var bóndi í Vatnsdal og sjósóknari.  M.a. var hann skipstjóri á skútum og rak um árabil einskonar skipstjórnarskóla í Vatnsdal.  Formaður var hann um tíma á bátum í Kollsvíkurveri.  Ólafur skráir frásagnir Helgu í mars 1933, og segir svo frá:  "Eftirfarandi frásögn er skráð eftir frásögn Helgu Einarsdóttur sem var fósturdóttir Einars Jónssonar í Kollsvík (1797-1836).   Helga var fædd 1800 og dáin á öndverðu vori 1895.  Ólst hún upp í Kollsvík frá barnæsku til fullorðinsára og mundi glöggt þessa atburði, enda var hún skýr og stálminnug til æviloka.  Helga fóstraði mig í æsku, því  hún dvaldið hjá foreldrum mínum, Sigríði Ólafsdóttur og Einari J. Thoroddsen í Vatnsdal, síðustu 25 ár ævi sinnar og sagði mér margar sögur frá ýmsu sem við bar um hennar ævi; ærinn fróðleik nú á dögum ef skrásett væri.  Þegar Helga dó, var ég kominn yfir tvítugt.  Margt í þessari frásögn hefur staðfest Guðmundur Jónsson, sonarsonur Einars í Kollsvík, sem enn var á lífi1933; til heimilis í Tungu í Örlygshöfn.  Hann var vel skýr maður og sögufróður.  en sögn Guðmundar er ekki eins vel fyllt og sögn Helgu um það sem hér er skráð, sem tæpast er von þar sem Helga var bæði heyrnar- og sjónarottur að þessum atburðum".

Síðar eru hér rifjaðar upp aðrar frásagnir af þessum mikla sveitar- og ættarhöfðingja, en í byrjun eru fáeinar staðreyndir um Einar.

 

Um Einar Jónsson

Einar fæddist á Hallsteinsnesi við Þorskafjörð árið 1759 en lést í Kollsvík 13.12.1836.  Hann var af Grafarætt.  Einar hefur líklega komið í Rauðasandshrepp um 1790.  Hann var fyrst á Vatneyri og þar kvæntist hann Guðrúnu Jónsdóttur (12.02.1756-14.04.1836) frá Vesturbotni, sem var af Sellátraætt og dótturdóttir Halldórs Jónssonar sem bjó á Láganúpi 1703.  Með Guðrúnu átti Einar 4 syni og eina dóttur, en tvo syni átti hann í framhjáhaldi.  Til Einars er rakin Kollsvíkurætt, sem nú er fjölmenn og dreifð um heim allan.  Um 1797 fluttist Einar að Kollsvík; eignaðist jörðina alla og bjó þar til dauðadags.  En Einar var ekki einungis stórbóndi; hann stundaði allmikla útgerð frá Kollsvíkurveri; var frumkvöðull í skútuútgerð hérlendis; hreppstjóri í Rauðasandshreppi og m.a. saksóknari í Sjöundármálinu.  

Síðastur til að stunda rauðablástur

raudablasturÁ fyrri hluta 19. aldar bjó bóndi sá í Kollsvík í Rauðasandshreppi er Einar hét Jónsson, ættaður frá Gröf í Gufudalssveit í Austur-Barðastrandasýslu.  Hann var hreppstjóri; búhöldur góður og athafnamaður hinn mesti.  Smiður var hann á tré og járn.  Járnið vann hann úr mýrum á jörð sinni með rauðablæstri.  Mælt var að hann hefði fengið járn er nægði í einn hestskónagla úr hverri hitun.  Má af því marka hve erfitt var að afla sér smíðajárns með rauðablæstri í þá daga.  Einar mun hafa verið hinn síðasti sem vann járn með þessari aðferð hér í Vestursýslunni.  (Síðastur Íslendinga til að stunda rauðablástur á landinu öllu.  VÖ). 

Frumkvöðull í skútuútgerð

bellaSkip átti hann í förum milli Íslands og Danmerkur í félagi við danskan kaupmann á Patreksfirði; Thomsen að nafni.  Það skip týndist í hafi eitt sinn síðla sumars á útleið, með öllu sem á því var, og mun það hafa verið óvátryggt.  Skipið hét Delphin, og var fremur lítil jakt.  Eftir þetta óhapp mun efnahagur Einars hafa gengið mjög til þurrðar, en bú hans stóð þó enn með allmiklum blóma meðan hann entist.    (Sjá nánar um útgerð Delphin hér síðar.  Myndin er teikning af skútunni Bellu sem strandaði í Bellubás innan Blakks).

Skörulegur héraðshöfðingi

Jafnan var hann talinn héraðshöfðingi og þótti bera höfuð og herðar yfir flesta samtíðarmenn sína í sínu héraði, með skörungsskap og ýmsar athafnir er til framkvæmda lutu.  Kunni hann því illa ef hann kom því ekki fram sem hann vildi vera láta, við hvern sem í hlut átti, og vildi einn öllu ráða.  Þótti hann stundum allráðríkur og yfirgangssamur ef honum bauð svo við að horfa, og hirti þá stundum lítt um lög og rétt.  En höfðingslund hafði hann til að bera, við sér minni menn og þá er bágt áttu.

Mjög hefði hann harmað að Bjarni, sá er átti í Sjöundármálinu, náði ekki fundi hans þegar hann strauk úr varðhaldinu og var tekinn fastur á Móbergi á Rauðasandi á flóttanum.  Þá er haft eftir Einari að „ef Bjarni hefði komist undir mína vernd, þá skyldi sýslumaður aldrei hafa náð honum frá mér til þess að framselja hann til lífláts“. 

Hvalreki og skutull galdramanns

Í þann tíð var maður uppi í Arnarfirði er Benedikt Gabríel nefndist, og var Jónsson.  Hann var hvala- og selaskutlari mikill.  Talinn var hann forn í skapi og fjölkunnugur, og ekki góður viðfangs ef á hluta hans var gert. 

1416225Þá var eitthvert sumar, að Benedikt skutlaði hnýðing stóran, en missti hann með skutulinn í sér.  Skömmu seinna rak hnýðinginn í Láturdal, sem er gömul verstöð og liggur skammt fyrir innan Blakknes í vestanverðum Patreksfirði.  Er í Hænuvíkurlandi, sem er ysti bær þeim megin fjarðarins, en utantil við Blakknesið, hinumegin, er Kollsvík næsti bær við Láturdal.

Nú spyr Einar bóndi í Kollsvík hvalrekann.  Bregður hann skjótt við með húskarla sína og fer á hvalfjöruna.  Sker hann síðan hnýðinginn; finnur í honum skutulinn og kennir mark Benedikts, sem var á skutlinum.  Biður hann menn sína að leyna því að járn hafi verið í hvalnum.  Síðan lætur hann flytja heim til sín hvalinn allan á hestum tveim sem hann átti, og þeim þriðja sem hann fékk lánaðan á Láganúpi; bæ þar nærri í Kollsvíkinni.  Á sjó gat hann ekki flutt hvalinn vegna ógæfta, en vildi fyrir hvern mun ná honum sem fyrst heim til sín.

Ekki höfðu Hænuvíkurbændur neitt af hvalnum, þótt þeir ættu rekaland til.  Þorðu þeir ekki að hreyfa því máli opinberlega.  Ekki er þess heldur getið að Einar hafi goldið kirkjuvættir af hvalnum til Saurbæjarkirkju á Rauðasandi, er þá var venja til.  Kirkjan var talin eiga tíundu hverja vætt af öllum hvalreka sem á land kom á svæðinu frá Skor að Tálkna. 

Benedikt Gabríel reiðist

Nú fregnar Benedikt Gabríel hvalrekann, og það með að skutull hans hafi í honum fundist; og svo það að Einar bóndi í Kollsvík hafi tekið upp hvalinn allan og flutt á hestum heim til sín.  Leitar hann nú eftir við bónda hvort hann vilji ekki greiða sér skotmannshlut af hvalnum.  En því neitar Einar með öllu.  Segir hann að Benedikt hafi engin gild rök fyrir því að hann hafi átt járn í hvalnum.  Sló í orðasennu milli þeirra út af þessu.  neitaði Einar harðlega að láta laust neitt af því er hann hafði handfest.  Er þá sagt að Benedikt hafi mælt af þjósti til Einars:  „Illa er það farið, ef þú lætur flytja heim stolinn hval á hestum þínum Einar, á næsta sumri“.  Og skildu þeir að því.  Ekki hélt Benedikt máli þessu til haga.  Er nú allt kyrrt um hríð.

Kollsvíkurhestar ærast

Veturinn eftir að þetta gerðist var harður er leið á þorra.  Gerði þá jarðbönn og stórhríðar með frosti; svo taka varð hross á hús og hey.  Hélst tíðarfar þetta um hríð.  Undir þorralok var það einn dag, er veður var bjart en djúpfenni mikið, að Einar bóndi í Kollsvík lét brynna hestum sínum tveimur í læk er rann þar skammt frá í víkinni.  Sama var gert á hinum bæjunum í Kollsvíkinni; Grundum og Láganúpi.  Á Láganúpi var einn hestur, Glói að nafni; stólpagripur.  Það var sami hestur og Einari hafði verið léður til hvalflutninganna sumarið áður.  Tveir hestar voru frá Grundum sem brynnt var þennan dag.

Þegar Kollsvíkurhestarnir voru látnir út úr húsinu var sem þeir yrðu óðir.  Hlupu þeir fyrst til hinna hestanna og ærðust þeir þá líka og hlupu nú öll hrossin með æði miklu.  Fyrst hlupu hestarnir um Víkina með miklu æði, og síðan til fjalls.  Fóru menn þá til og vildu handsama hrossin.  Eftir miklar eltingar náðust Grundahrossin, en hinir hestarnir þrír ekki.  Héldu þeir á fjall upp; á háls þann er liggur milli Kollvíkur og Breiðavíkur.  Var þeim veitt eftirför, en menn komust ekki fyrir þá.  Tók þá að halla degi, og veður að spillast.  Sneru leitarmenn þá aftur.  Um kvöldið sást það síðast til hestanna frá Breiðavík, að þeir hlupu fram eftir Víkinni; fram svonefndar Stæður, og stefndu á fjall upp.  Gekk þá á með norðaustan byl, svo ekki var hægt að veita þeim eftirför um kvöldið.  Hélst bylurinn næstu dægur, svo ekki var hægt að hyggja að hestunum.

Þegar upp stytti hríðina var hafin leit að hestnum á ný.  En þeir fundust ekki.  Hugðu menn að þeir mundu hafa hrapað fyrir björg eða hamra, og í sjó fram, þar sem ekki fannst neitt af þeim.  Líður svo til páska.

Á skírdag átti ferðamaður leið um Rauðsand.  Er hann var staddur milli Brekku og Lambavatns, sem eru ystu bæirnir á Rauðasandi, varð honum litið til fjallsins sem liggur þar þverhnípt fyrir ofan; meðfram Sandinum utanverðum.  Sér hann þá hest koma þar fram á brúnina.  Gat maðurinn þessa er hann kom til bæja.

Fóru menn nú á fjallið upp, til að huga að þessu.  Fundu þeir þar Glóa frá Láganúpi.  Var hann aðframkominn af megurð, en komst þó til byggða og varð hjúkrað, svo hann lifði af.  Skammt frá honum fundu þeir hestana frá Kollsvík dauða.  Lágu þeir þar á hól einum, og var allur mosi og gras þar um kring uppétinn, og ekki nema svart flag og grjót eftir þar sem þeir höfðu verið.

Þótti þessi aburður með undarlegum hætti, og kenndu menn göldrum Benedikts Gabríels.  Höfðu menn það fyrir satt að hann hefði sent Einari draug þann er ært hefði hestana og gengið af þeim dauðum að lyktum, en hestinn frá Láganúpi, sem Einar átti ekki, hafi draugurinn látið óáreittan.  Hafi hann lifað þarna af um veturinn; mest á mosa og grasstráum sem stóðu upp úr gaddinum, en ekki viljað yfirgefa hin hrossin þótt dauð væru, enda ekki ratað til byggða; eða draugurinn aftrað honum þess.

Draugur í nautslíki

Draugur þessi er sagt að gert hafi Einari bónda margt fleira til tjóns og erfiðleika, og eru margar sögur til um það.  Að lokum varð draugur þessi svo nærgöngull Einari að honum þótti ekki lengur viðvært.  Hitti hann þá eitt sinn drauginn að kvöldlagi fyrir neðan bæ einn á túninu, og var hann þá í nautslíki.  Einar hafði reipi í hönd sér.  Gat hann þá handsamað bola og mýlt, og lagði af stað með hann með sér sem leið liggur frá Kollsvík; inn yfir Hænuvíkurháls, og batt hann þar við stein einn stóran á innanverðum Hálsinum.  Mælti hann svo um að ekki skyldi hann gera sér eða sinni ætt mein framar, og hefur það áunnist.  En reimt þótti lengi eftir á staðnum, þar sem draugnum hafði verið komið niður. 

 (Við frásögn Helgu bætir áðurnefndur Guðmundur Jónsson í Tungu, sonarsonur Einars):

Eftir að sendingin sem Benedikt Gabríel sendi Einari í Kollsvík hafði gengið að hesti hans dauðum, sem áður er greint frá, glettist hún við hann á ýmsan hátt á heimili hans og gerði þar margskonar glettingar.

Kvöld nokkurt heyrðu menn að eitthvað óvanalegt var á seyði á túninu í Kollsvík.  Fór þá Einar til  og vildi vita hvað um væri að vera.  Þegar hann kemur ofan fyrir túnbrekkuna sér hann að þar er draugurinn kominn í nautslíki, og lætur allófriðlega.  Ræðst hann þegar á bónda, en hann tekur mannalega á móti.  Einar hafði hrosshársreipi í hönd sér, og með því gat hann bundið bola.  Mýlir hann svo kauða, og leggur með hann af stað upp Hænuvíkurháls.  Bannaði hann heimamönnum sínum að hlutast til um viðureign þeirra og bað þá ekki að leita að sér þó hann kæmi ekki heim þá nótt.

Heldur nú Einar sem leið liggur með bola upp á Hálsinn innanverðan.  Þar er stór steinn á Hálsinum.  Við þann stein bindur hann drauginn, og mælti svo um að hann skuli ekki gjöra sér eða sinni ætt mein framar; og hefur það þótt ásannast.  Eftir það hvarf allur reimleiki af völdum draugsins í Kollsvík, en reimt þótti eftir þetta í námunda við steininn, og villugjarnt.  

Einar sagði draugnum að ef hann gæti losað sig frá steininum skyldi hann fara til þess sem sendi hann, og leika það sama við hann og hann hefði átt að leika við sig.

Það höfðu menn fyrir satt að draugurinn hafi losað sig skömmu síðar og farið heim til Benedikts og áreitt hann, því svo brá við að hann lagðist sjúkur og lá lengi.  En þó átti hann að hafa ráðið niðurlögum draugsins með kunnáttu sinni, og eftir það náði hann fullum bata.

 Frásagnir Trausta Einarssonar í bókinni „Kollsvíkurætt“

Trausti Ólafsson, efnaverkfræðingur og prófessor (21.06.1891-23. 01.1961) ritaði bókina Kollsvíkurætt, sem gefin var út 1960.  Í henni eru raktar ættir frá Einari Jónssyni i Kollsvík til þess dags, og er ritið uppistöðuheimild í þeim efnum, auk þess að vera hafsjór af margskonar fróðleik.  Aftast í bókinni ritar Trausti frásagnir, þar sem Einar í Kollsvík kemur við sögu.  Þar er sama frásagnarefni og greinir í sögum Helgu og Guðmundar hér að framan, en um sumt ber þó þar á milli, eins og síðar verður vikið að. 

Fræðimaðurinn Trausti leitar víða heimilda og kafar ofaní sannleiksgildi og hliðstæður sagnanna; kemur þar margt fróðlegt í ljós.  Svo er að sjá að honum hafi ekki verið kunnugt um frásagnir Helgu og Guðmundar. 

Þessar frásagnir, og sá munur sem á þeim er, bera þess vitni að um Einar ættföður hafa snemma spunnist sögur; líklega strax í lifanda lífi.  Sagnaskemmtun var þá enn í hávegum höfð, og hinn svipmikli sveitarhöfðingi hefur mjög verið milli tanna á samtíðarfólki.  Sögurnar eru í nokkuð þjóðsagnakenndum hetjustíl, en í því efni þarf að hafa í huga að  þær voru bornar uppi af íbúum Rauðasandshrepps, sem að meirihluta hafa verið afkomendur Einars.  

Harðindaveturinn Klaki og hvalrekar

Í janúarmánuði árið 1802 rak hafís að landi, sem umkringdi Norðurland, Austfirði og Vestfirði, og lá allt vorið og sumarið; þar til um höfuðdag.  Stöfuðu af þessu hin mestu harðindi til lands og sjávar, og mundi enginn jafnharðan vetur.  Líktu menn honum við Lurk (1601), og var hann á Vestfjörðum kallaður Klaki.  Mikill fjöldi manna varð bjargþrota og margir bændur flosnuðu upp.  Í Barðastrandasýslu lentu jafnvel börn á húsgangsflakki, en þeir sem best voru stæðir björguðu öðrum eftir föngum, og flosnuðu svo sumir þeirra einnig upp að lokum.

Víða bættu hvalrekar nokkuð úr bjargarskortinum.  Í Málmey á Skagafirði rak 40 álna langan hval er menn nefndu hafurkitti (sléttbakur), og var innan í honum vænn kálfur.  Sá hvalur kom þó að frekar litlum notum, af því að bóndinn á eyjunni leyndi hvalrekanum.  Sléttbak rak á Naustum við Hofsós.  Hinn þriðja rak á Siglunesi nyrðra; kálf, 20 álna langan.  Fjórði náðist upp um ís, nokkuð frá landi í Héðinsfirði; fimmta rak í Eyjafirði; sjötta við Flateyjardal og sjöunda á Langanesströndum.

Á Vestfjörðum urðu einnig nokkur not af hvalrekum.  Um sumarið skutluðu Arnfirðingar hvalkálf, en þeir misstu hann og er sagt að hann hafi rekið tveim dögum síðar á land Guðmundar Schevings.  Ekki er nánar sagt hvar þetta var, en ekki væri ótrúlegt að þetta hafi verið í Breiðavík í Rauðasandshreppi, því þá jörð átti Guðmundur Scheving.  Hafði hann erft hana eftir föður sinn, Bjarna Einarsson sem dó 1799; fyrrum sýslumann, en Bjarni var seinustu 4 ár ævi sinnar í Breiðavík.  Þá er einnig getið um tvo hvalreka í Ísafjarðarsýslu.

Hvalurinn Þæfingur róinn í land í Kollsvík

En sögulegasta happið þar um slóðir mun vafalaust hafa verið er Kollsvíkingar fundu hval á reki og tókst eftir langa mæðu að bjarga honum á land í Kollsvík.  Þetta var um sumarmál vorið 1802.  Einar í Kollsvík var í róðri, en líklegt er að fleiri bátar hafi verið á sjó, með því að bændur voru einnig á Láganúpi og Grundum, sunnantil í Kollsvíkinni.  Ekki er ljost hvort aðkomumenn hafi verið komnir til róðra, en að réttu lagi hefðu þeir átt að koma í Verið um þetta leyti; ef komin hafa verið sumarmál.  Hinsvegar er óvíst hve nákvæmt það orðalag er.

Ekki er kunnugt um nánari atvik við hvalfundinn, en nokkuð er það að róið var að hvalnum og hann festur með taug við bátinn.  En nú var það erfiðasta eftir; að koma stórhveli að landi með árunum einum saman, á lítilli bátskel.  Það vildi til að kjör stóðu í hálfan mánuð um þetta leyti, en vikutíma tók það að koma hvalnum í land; sumir nefna enn lengri tíma. 

Hvalurinn var aldrei yfirgefinn, en matur og drykkur fluttur úr landi.  Er því auðsætt að margir hafa átt sinn þátt í björgun hvalsins.  Einhverja hvíld hafa mennirnir orðið að fá meðan á þessu stóð, þó líklegt sé að hún hafi verið af skornum skammti.  Má segja að eftir atvikum hafi nafn það sem hvalnum var gefið átt vel við, en hann var nefndur Þæfingur.  Rifin úr Þæfingi voru notuð í búðir í Kollsvíkurveri, sunnantil á norðurklettunum og e.t.v. víðar.

Í annál 19. aldar árið 1802 segir svo:  „Um vorið fundu sjómenn í Kollsvík hvalskrokk á sjó, beinlausan, er þeir hugðu drepist hafa í ís; var hann róinn á Bæjarkirkjuland og voru á honum 200 vættir“.  Ekki hefur hvalurinn samt verið alveg beinlaus, en vafalaust hefur meira eða minna af rifjum hans brotnað í ísnum.

Bæjarkirkjuland var Láganúpur og Grundir; eða suðurhluti Víkurinnar.  Sennilega hafa straumar og vindur ráðið því að hvalinn bar að landi í sunnanverðri Víkinni, því að Einar gamli hefur vafalaust ekki gert það viljandi að draga hvalinn á land skammt frá Kollsvíkurveri, sem var í hans landareign. 

Einar sker hval Benedikts Gabríels

Einhverntíma í búskapartíð Einars gamla Jónssonar í Kollsvík (1797-1836) eiga eftirfarandi atburðir að hafa gerst.  Þó að ekki verði beinlínis um það fullyrt af neinum heimildum, mætti ætla að frekar hafi það verið fyrr en síðar á þessu tímabili, með því að Einar var orðinn fjörgamall er hann lést (f. 1759 – d. 1836).  Ástæða er til að ætla að atburðirnir hafi gerst sumarið 1813 og næstkomandi vetur.

Frásögnum ber ekki alveg saman, að því er fyrsta þætti viðvíkur, en réttust mun vera sögn Hjörleifs Ólafssonar, er hann hefur eftir föður sínum, Ólafi Guðbjartssyni í Hænuvík /f. 1861-d. 1948), sem var sonardóttursonur Einars í Kollsvík og fæddur 25 árum eftir lát Einars langafa síns.  Er því fullvíst að sagnir um þetta hafa lifað á vörum afkomenda Einars í ungdæmi Ólafs Guðbjartssonar, er var sonur Magdalenu Halldórsdóttur Einarssonar.  Sögnin er á þessa leið:

Smali eða smalar frá Einari í Kollsvík fundu eða sáu hval inni við Láturdal í Patreksfirði, en þar er fjall á milli og Kollsvíkur.  Ekki er víst að hvalurinn hafi verið landfastur, eða hve langt hann kann að hafa verið frá landi, en skammt mun það hafa verið.  Einar brá þegar við, og fór sjóleiðis inn fyrir Blakknes.  Kom hann taug í hvalinn og tókst að róa með hann í eftirdragi út í Kollsvík, en þar var hann dreginn á land.  Hefur óefað verið sætt suðurfalli út fyrir Nesið.  Þetta var sagður stór reyðarhvalur.  Ekki er annars getið en að hvalurinn hafi verið nýttur að fullu af þeim sem til gátu náð.  Var hann skorinn í landareign Kollsvíkurjarðar, en eigandi hennar var Einar, svo að þetta hefur vafalaust verið ábatasamt fyrir hann.

Skutull hafði fundist í hvalnum; merktur Benedikt Gabríel Jónssyni í Arnarfirði, og barst honum þetta til eyrna.  Því má skjóta hér inn í að Benedikt var talinn einhver snjallasti galdrameistari sem sögur hafa farið af á þessum slóðum.  Ekki stóð á því að hann kæmi boðum til Einars um það að hann vildi fá sinn hlut sem skotmaður.  Hvernig sem á því stendur, virðist svo sem Einar hafi haft þessa kröfu að engu; nema svo hafi verið að Benedikt þætti hluturinn illa útilátinn.  Mátti Einar þó vita hvaða orð fór af Benedikt, og gat búist við því að hann sætti sig ekki við skarðan hlut.

Forystusauðurinn drepinn

Nú líður fram undir hátíðar.  Þá er það eitt sinn að smalamaður Einars í Kollsvík kom með þær fréttir að forystusauður eða besti sauður Einars hafi fundist fótbrotinn og dauður, svo að ekki geti talist einleikið.  Fór Einar þá með smalanum og lét hann urða sauðinn svo örugglega sem kostur var á; en harðbannaði jafnframt að nokkur kæmi þar nálægt til þess að eiga við hræið.  Átti hann að hafa grunað að eitthvað óhreint lægi á bakvið, og öruggast væri að eiga ekki neitt á hættu með því að hafa sauðinn til matar. 

Kollsvíkurhestar ærast

Næst gerist sá sögulegi atburður að hestar Einars í Kollsvík ærast eitt sinn, og hlaupa að heiman er verið var að reka þá að vatnsbóli heima í Kollsvík í norðanbyl; eða meðan verið var að brynna þeim.  Veðrið hefur verið það vont að hestarnir hafa ekki verið á beit.  Með Kollsvíkurhestunum hafði verið hestur er bóndinn á Láganúpi átti, en hann var hinn rólegasti þó að hinir hestarnir hlypu allt hvað af tók undan veðri; fram eftir Vatnadal, sem er mikill dalur fram af Kollsvíkinni.  Sumir segja að hestarnir væru eltir framundir Vatnadalsbrekkur, en aðrir telja að hestarnir hafi ekki verið eltir svo langt fram í dal; enda er það sennilegra fyrst veður var vont og þeir hafa farið hratt yfir.

Þetta hafði gerst um miðjan vetur, eða þegar komið var framá.  En líklega hefur verið komið fram undir vor þegar hestarnir fundust; á svonefndum Mávaflötum, á fjalli uppi af Lambavatni á Rauðasandi.  Þangað mundu vera um 18 km í beina loftlínu frá Kollsvík.  Hestarnir voru taldir hafa verið 3, og fundust 2 dauðir en einn var hjarandi; þó svo aðframkominn að honum var engin lífsvon.

Ekki taldi almenningur það efamál að hér væri Benedikt Gabríel að verki, og hefndi sín þannig út af hvalamálinu.  Það styrkti mjög þessa trú að Einar hafði átt að smíða skeifur úr skutuljárni því sem fannst í hvalnum, og þær skeifur voru einmitt undir hestunum er þeir fóru sína feigðarför.  Þá lifir enn sú saga að Benedikt hafi átt að segja að Einar í Kollsvík skyldi ekki reiða hval á hestunum sínum næsta sumar. 

Um aðkomu Hænuvíkureigenda að eftirmálum

Samkvæmt annarri frásögn átti eigandi Hænuvíkur, en þeirri jörð tilheyrir Láturdalur, að hafa gert kröfu til landshlutar a.m.k., en óvíst er hvernig þeirri kröfu hefur reitt af.  Ætla ég að helst beri að skilja þetta þannig, að enda þótt hvalurinn væri dreginn á land í Kollsvík, hafi eigendur Hænuvíkur talið hvalinn hafa verið í sinni landareign, þar sem hann var upphaflega rekinn.  Tilgreindur var í þessu sambandi sem jarðareigandi, Jón ríki Þórðarson á Felli í Tálknafirði, og hafi hann átt hlut að því sem fyrir kom í Kollsvík, með því að leita aðstoðar Benedikts Gabríels; sem sjálfur virðist raunar hafa haft ástæðu til þeirra aðgerða sem honum eru eignaðar.  Bendir þessi saga til þess að eigandi eða eigendur Hænuvíkur hafi þóst verða undir í sambandi við kröfu um réttindi til hvalsins.  Ekki væri þetta í eina skiptið sem deilt hefur verið á hvalfjöru eða um hvalreka.

Í dagbók Árna Sigurðssonar í Flatey, sem nær yfir fyrri hluta 19. aldar, er þess getið að árið 1813 hafi rekið stóran reyðarhval í Kollsvík vestra.  Um engan hvalreka er getið í Láturdal.  Hér virðist ekki geta verið um annan hval að ræða en þann sem Einar dró á land í Kollsvík, að því er sagnir herma.  Verður því að halda sér við það að hvalurinn hafi verið dreginn í land í Kollsvík, og gera ráð fyrir að þetta hafi gerst árið 1813.

Viðvíkjandi eignarhaldi Jóns á Felli á Hænuvík er það að segja að vel mætti vera um einhverja missögn að ræða.  Árið 1703 er eigandi Hænuvíkur séra Halldór Pálsson í Selárdal, en þeir feðgar; hann og séra Páll Björnsson faðir hans, áttu nokkrar jarðir í Rauðasandshreppi.  Eftir séra Halldór hefur sonur hans Björn eignast jörðina.  Björn bjó í Laugardal í Tálknafirði og víðar, og var kvæntur Ólöfu Jónsdóttur frá Sveinseyri.  Þau hjón voru barnlaus, og erfðu Ólaf sýslumann Árnason í haga að hálfum eignum sínum, en Sigurð son hans að hinum helmingnum.  Þegar Halldóra í Laugardal, ekkja Ólafs sýslumanns, var orðin fátæk og eignalaus að lokum; þrátt fyrir fyrra ríkidæmi, hefur Hænuvík komist í eigu eins eða fleiri manna.  Árið 1805 eiga hana Halldór Magnússon, sem var efnaður bóndi í Hænuvík o.fl.  Ekki er mér kunnugt um hverjir þessir eigendur voru, en einn þeirra hefði t.d. getað verið Sigurður Þórðarson; hreppstjóri og bóndi á Sveinseyri.  Dóttir hans var Ingibjörg, sem átti Bjarna Ingimundarson, en sonur þeirra var Bárður sem fluttist að Hænuvík 1875, en drukknaði þar í lendingu 4 árum síðar.  Hann var eigandi að nokkrum hluta Hænuvíkur a.m.k.  hafa því afkomendur Sigurðar á Sveinseyri átt í Hænuvík, en vant að sjá að Jón á Felli hafi verið meðal eigenda þessarar jarðar, þótt margt ætti hann.

Það er ekki ólíklegt að sagnir hafi ruglast þannig að Jón Þórðarson hafi komið í stað Sigurðar Þórðarsonar, með því að nafn  Jóns hefur lifað lengur en nafn Sigurðar í sambandi við auðlegð og fjáröflun.

Ekki er ólíklegt að nokkur rekistefna hafi orðið út af landshlut í hvalnum, þó óvíst sé hvernig henni hefur lyktað.  En hinsvegar er ólíklegt að eigna megi nokkrum eiganda Hænuvíkur hlut í glettum Benedikts við Einar gamla út af skotmannshlutnum, ef nokkrar hafa verið.

III hluti:  Fleira af Einari í Kollsvík.  Úr „Kollsvíkurætt“, bók Trausta Einarssonar 

Einar flytur að Kollsvík

Einar var fæddur á Hallsteinsnesi við Þorskafjörð 1759; dáinn í Kollsvík 13. desember 1836.  Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi á Hallsteinsnesi og Margrét Arfinnsdóttir.  Við Gröf er Jón kenndur og ætt niðja hans kölluð Grafarætt.  Margt fólk af Grafarætt staðfestist í Rauðasandshreppi, auk Einars í Kollsvík.

Einar mun hafa komið vestur í Rauðasandshrepp nokkru fyrir 1790.  Hann mun fyrst hafa verið á Vatneyri og kvænst þar um 1790.  En 1797 eða 1798 hefur hann flust að Kollsvík og bjó þar til dauðadags, eða að heita má full 40 ár.  

Allvel efnum búinn

Í minningabók sinni segir Þorvaldur Thoroddsen að Einar hafi þá átt hálfa jörðina Kollsvík í Rauðasandshreppi.  Líklega er þar átt við að hann hafi átt alla Kollsvíkurjörðina, en ekki jarðirnar sunnantil í víkinni; Láganúp og Grundir.  Bjó Einar einn á allri Kollsvíkurjörðinni, en hún var að fornu mati 24 hundruð.  Árið 1801 voru heimilismenn 14 og svipað 1808 og 1817.  Vinnumenn voru 4 og 4 vinnukonur árið 1801.  Að sögn Gísla Konráðssonar átti Einar Kollsvík með tollverum öllum; hafi þar að jafnaði gengið 11-12 skip, en 15 steinbítar goldnir fyrir hvern mann.  Hefur Einar því verið allvel efnum búinn.

Fyrrum var róið í Láganúpsveri, en lending var slæm, svo að sú verstöð lagðist niður.  Í tíð Einars gamla hafa því allir bátar róið í Kollsvíkurveri, sem tilheyrði Kollsvíkurjörðinni.  Samkvæmt gamalli venju að reikna 3 steinbíta í alin hefur vertollur verið 5 álnir eða ¼ vættar.  Til samanburðar má geta þess að um 1700 eða nokkru fyrr komst vertollur á þessum slóðum upp í ½ vætt, en lækkaði svo verulega vegna aflaleysis og hefur sennilega haldist lægri tollur úr því.  Vertollur Einars í Kollsvík hefur því getað verið 6-7 hundruð af steinbít, eða 200-240 álnir.  Með 60 aura verði á alin, svipað því sem var um 1900, hefði þetta getað í mesta lagi samsvarað ca 150 kr yfir vorið. 

Vitur maður og lesinn

Í Látramanna- og Barðstrendingaþætti segir Gísli Konráðsson nokkuð meira frá Einari í Kollsvík.  Er þar sagt að Einar hafi verið kallaður vitur maður og lesinn og búhöldur mikill.  Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt.  

Fornótt

En Gísli segir ennfremur að kunnugir hafi talið að lítill myndi hann trúmaður, og læsi jafnan „villurit“ það er kallast „Jesús og skynsemin“ og héldi mjög af því.  Bjarni Þórðarson skáld á Siglunesi, sem var trúmaður mikill, orti sálm til Einars er nefnist Fríþenkjarasálmur.  Tekur Gísli í þátt sinn 3 síðustu erindin, en ekki telur hann að Einar hafi svarað þessu.

Sú sögn gekk þar vestra á æskuárum mínum (TÓ) um síðustu aldamót (1900) að Einar gamli í Kollsvík, eins og hann var jafnan nefndur, hefði átt bók er „Fornótt“ hét, og geymt hana vandlega.  Er þetta líklega afbökun úr „Fornuft“. með því að bókin hefur óefað verið á dönsku og heitið „Jesus og Fornuften“. 

Hreppstjóri og sækjandi í Sjöundármálinu

Svo er að sjá að Einar hafi verið hreppstjóri, mikið af sinni búskapartíð í Kollsvík.  Hann er talinn hreppstjóri 1801 og 1808, en við manntalið 1817 virðist hann ekki vera það, og ekki næstu ár þar á eftir.  Síðan er hann hreppstjóri 1822-1833, en þá tók við af honum Einar sonur hans, bóndi á Hnjóti, og gegndi því starfi í nokkur ár.  Einar yngri var m.a. sáttanefndarmaður, en því starfi hafði faðir hans einnig gegnt.

Einar í Kollsvík var ákærandi heima í héraði í hinu alræmda Sjöundármáli; nefndur monsjör Einar í skáldsögunni Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. 

svartfugl lr 1986Myndin er frá uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur á Svartfugli árið 1986.  Sitjandi t.v. er Gísli Rúnar Jónsson í hlutverki Guðmundar Scheving; standandi Steindór Hjörleifsson í hlutverki Einars í Klollsvík og sitjandi hægra megin Margrét Helga Jóhannsdóttir í hlutverki Steinunnar.  

 

 

 

Vel giftur en „kvennakær“

Kona Einars var Guðrún Jónsdóttir (1756-1836); bónda í Botni Guðmundssonar; bónda í Raknadal og í Sauðlauksdaldhúsum.  Guðrún var af Sellátraætt; móðir hennar, Hólmfríður var dóttir Vilborgar; dóttur Halldórs Jónssonar.  Sá Halldór bjó á Láganúpi 1703, og var einn hinna kunnu Sellátrabræðra, sem rómaðir voru fyrir atorku og hreysti.  Bróðir Halldórs; Bjarni Jónsson, bjó í Kollsvík.  Hann var kunnur skipasmiður; smíðaði m.a. teinæring 19 ára gamall og fór á honum fjölda byrðingsferða norður á Strandir.  Meðal afkomenda Bjarna var Bergljót, kona Þórodds Þóroddssonar beykis á Patreksfirði, og þar með Thoroddsenættin öll.

Með Guðrúnu konu sinni átti Einar í Kollsvík 4 syni og eina dóttur.  Tvo syni átti Einar framhjá Guðrúnu. 

Gísli Konráðsson segir að Guðrún hafi þótt stórlynd, en mikilhæf í mörgu og Einari hafi farist vel við hana þótt jafnan héldi hann framhjá henni, eins og Gísli orðar það.  Verður því sjálfsagt ekki neitað með neinum rökum að Einar gamli hafi verið nokkuð kvennakær, með því að hann á barn framhjá þegar hann er 65 ára gamall, með tvítugri stúlku.  Gísli segir að Einar hafi orðið gamall og afar feitlaginn. 

„Skammarnær að hafa barnið hjá sér“

Gunnar, annar sonur Einars utan hjónabands, ólst fyrst upp hjá vandalausum þar til hann var 11-12 ára, og hafði ekki farið vel um hann þar.  En þá lét Guðrún Einar taka hann til sín, og fórst vel við hann að sögn.  Átti Guðrún að hafa sagt við mann sinn að „skammarnær hefði honum verið að láta Gunnar aldrei í burtu, en að taka við honum horuðum og máttvana“.  Líklega hefur það upphaflega verið vel meint að láta hinn meingetna son ekki alast upp á heimilinu.

IV:  Úr ýmsum áttum  (Valdimar Össurarson smalaði). 

Um rauðablástur Einars

Samkvæmt frásögn Ólafs E. Thoroddsen í Vatnsdal var Einar í Kollsvík hagur smiður á tré og járn.  Hann vann járn úr mýrarrauða og var síðasti Íslendingurinn til að stunda rauðablástur, svo vitað sé.  „Mælt er að hann hefði fengið járn er nægði í einn hestskónagla úr hverri hitun.  Má af því marka hve erfitt far að afla sér smíðajárns með þessari aðferð“, segir í frásögn Helgu hér að framan.

Fátt er nú vitað um þessa merkilegu iðju Einars.  Járn var þá farið að flytjast til landsins, en hefur líklega þótt dýrt.  Hvati þess að Einar stundar járnbræðslu á þessum tímum kann að stafa af sparnaðarhugsun eða sérviskulegri íhaldssemi á forna þekkingu.  Hitt er þó e.t.v. líklegri skýring sem lesa má út úr tölulið 2 hér á eftir; að hann hafi séð möguleika á að nýta auðlindir svæðisins. 

Hér verða settar fram tvær hugmyndir um staðsetningu þessa rauðablásturs.

  1. Í Kollsvík. Mýrarauða er víða að finna í Kollsvík, og eru lækir sumsstaðar rauðlitaðir af honum.  Hinsvegar hefur enginn skógur verið í víkinni svo sögur fari af, þó lurkalag í Mýrunum vitni um skóglendi fyrri tíma.  Ekki er ólíklegt að til þess hafi hann m.a. nýtt hinn hitagæfa mó úr Harðatorfspytti (153), og víða er mýrarauða að finna í Kollsvík.  Ekki er vitað hvar í víkinni Einar hafði sinn rauðablástur.  Mór er nægur í víkinni, en yfirleitt ekki mjög hitagæfur nema á einum stað:  Í Harðatorfspytti er mólag sem unnið var um tíma.  Sá mór er mjög þéttur í sér og óvanalega hitagæfur.  Hugsanlegt er að Einar hafi getað notað hann við sína járvinnslu, og e.t.v. nýtt rekavið til kolagerðar.  Þar á Melaröndunum er ákjósanlegur staður til þurrkunar. 
  2. Í Vesturbotni. Ari Ívarsson fjallar um járnvinnslu í Árbók Barð. 2006, og segir þar m.a. frá því að fundist hafi ummerki um járnvinnslu við Arnarstapaá í Patreksfjarðarbotni.  Er hann ræddi þetta við Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörð, hafði Þór þegar vitneskju um staðinn frá Friðþjófi Ó. Jóhannessyni forstjóra og konsúl á Vatneyri.  Friðþjófur var á þeirri skoðun að þarna hefði Einar Jónsson haft járnvinnslu, en ekki fylgdi sögunni hvar hann fékk þá vitneskju.  Þvert á skoðun Ara má telja mjög líklegt að þetta sé rétt, og styður það þá sögn að Einar var tengdasonur Jóns Guðmundssonar, bónda í Vesturbotni sem landið átti; giftur Guðrúnu Jónsdóttur.   Jón hefur vitað af  rauða á þessum slóðum og veitt tengdasyni sínum leyfi til skógarhöggs og kolagerðar.  Ummerki um járnvinnsluna segir Ari vera á stað við Arnarstapaána, ekki langt frá gamla veginum, uppi á holtunum; á eyrum neðanvið lítið gljúfur og foss í ánni.  Þar á innri bakka árinnar má finna viðarkolasmælki og járngjall.  Í gljúfrinu er 10-12 metra þykkt rauðbrúnt lag, og segir Ari að efni þess hafi dregist að segli þegar prófað var.  Þarna kann því að vera að járnvinnsla hafi verið stunduð beint úr bergi, en ekki með rauðablæstri úr mýrum.  Væri þörf á rannsóknum í því efni.

 Jaktin Delphin

Helga Einarsdóttir segir í frásögn sinni hér að framan:  „Skip átti hann í förum milli Íslands og Danmerkur, í félagi við danskan kaupmann á Patreksfirði; Thomsen að nafni.  Skipið hét Delphin og var fremur lítil jakt“.

 Jón Þ. Þór segir þetta um Delphin í bókinni „Sjósókn og sjávarfang“.  „Delphin keypti upphaflega Guðmundur Ingimundarson, bóndi í Breiðholti í Reykjavík, í félagi við aðra, árið 1801 frá Noregi á 1400 ríkisdali.  Delphin var 13 ½  commerciallest að burðargetu, eða rúm 35 tonn.  Skipið var selt árið eftir til Guðmundar Scheving sýslumanns í Haga (eiganda Breiðavíkur í Rauðasandshreppi).  Guðmundur Ingimundarson var áfram skipsstjóri á skipinu og fórst með því árið 1813“. 

Delphin var meðal fyrstu þilskipa í eigu Íslendinga; kom til landsins örfáum árum eftir að Bjarni Sívertsen eignaðist Johanne Charlotte og hóf verslun í Hafnarfirði árið 1794, en við það miðast upphaf skútualdar á Íslandi.  Um það leyti hófu dönsk stjórnvöld að styrkja útgerð þilskipa hérlendis; 10 rd/comm.lest.  Einar í Kollsvík hefur líklega nýtt sér þessa styrki, sem nefndir voru „fiskveiðiverðlaun“,  er hann hóf skipaútgerð í félagi við Thomsen; síðasta einokunarkaupmanninn á Patreksfirði. 

Í „Skútuöldinni“ eftir Gils Guðmundsson segir að Guðmundur Ingimundarson í Breiðholti  í Reykjavík hafi keypt Dephin um 1801, er hann fékk til þess 1000rd lán úr Kollektusjóði.  Guðmundur seldi skipið 1806 til Guðmundar Scheving, sem þá var sýslumaður í Haga.  Í Skútuöldinni er Einar í Kollsvík ekki nefndur, en líkast til hefur hann fyrst og fremst komið að skútuútgerðinni sem fjárfestir, enda var hann vel efnum búinn og þeir náfrændur; hann og Guðmundur Scheving.  Aflabrögð voru góð og verulegur hagnaður varð af útgerð Delphin.  Mun þar hafa ráðið miklu að á skipið voru eingöngu ráðnir vanir sjómenn; og hafa líkast til einhverjir vanist róðrum í Kollsvík.  Eftir missi Delphin gerðist Guðmundur Scheving mikill athafnamaður og útgerðarmaður í Flatey, og stóð þar fyrir merkum framkvæmdum sem enn sér stað. 

Um hvalrekann í Láturdal

Sögum um hvalrekann í Láturdal, sem getið er hér að framan, ber ekki fyllilega saman, þó stefið sé það sama.  Einkum ber þar á milli að í sögu Helgu Einarsdóttur og Guðmundar Jónssonar rekur hvalinn endanlega á land í Láturdal.  Hann er skorinn þar og þjósirnar fluttar á hestum að Kollsvík, þar sem sjóleiðin er ófær.  Í frásögninni sem Trausti hefur eftir feðgunum Hjörleifi og Guðbjarti segir að vissulega hafi hvalurinn sést grunnt á Láturdal, en að Einar hafi mannað bát og róið hann út í Kollsvík.  Því undrast Trausti hví Hænvíkingar hafi gert slíkt veður útaf hvalnum. 

Erfitt er nú á tímum að greina hvað rétt er.  Þó er freistandi að ætla að saga Helgu sé nákvæmari í þessum efnum, sem og jafnvel öðrum sem þessu tengjast.  Hafi hvalurinn rekið í Láturdal; verið skorinn þar og matan flutt á hestum að Kollsvík, skýrir það óánægju landeiganda í Hænuvík.  Auk þess skýrir það þann kjarna sögunnar að galdrar Benedikts Gabríels beinast að hestunum fremur en öðru; jafnvel þó þeim hafi verið gerðar skeifur úr skutlinum.  Vissulega ætti að vera unnt að róa hval úr Láturdal í Kollsvík á stórum og vel menntum báti, en til þess þarf að standa blíðskaparveður um nokkurn tíma.  Má í því efni benda á að viku tók að róa hvalnum Þæfingi í land, samkvæmt framangreindri sögn.  Kann að vera að afkomendur hafi síður viljað halda því á lofti að hafi Einar ekki skilað landshlut, braut hann á rétti landeigandans í Láturdal og Hænuvík. 

Vættarhlutur Bæjarkirkju var einnig sniðgenginn, en þar hefur líklega enginn haft uppburði til innheimtu á þessum tímum.  Ekki er þó annað vitað en að sú kvöð sé enn í fullu gildi; a.m.k. var það skoðun Árna Jóhannessonar, bónda í Saurbæ undir lok 20.aldar.  Lagði hann nokkra vinnu í að viðhalda fornum rétti þessa gamla höfuðbóls, þó lítt yrði ágengt. 

í nóvember 2015

Valdimar Össurarson