Jónína H. Jónsdóttir listakona frá Kollsvík minnist hér æskustöðva sinna.

joninaJónína Helga Jónsdóttir fæddist í Kollsvík 21.07.1925; elsta barn Jóns Torfasonar útvegsbónda í Kollsvík; síðar Vatnsdal og Patreksfirði, og konu hans Bergþóru Egilsdóttur.  Hún ólst upp í Kollsvík; flutti 15 ára til Reykjavíkur og síðar til Danmerkur með fyrri manni sínum, en þau eignuðust 3 börn.  Síðar giftist hún Kristjáni Júlíusi Ólafssyni sjómanni og bjuggu þau á Patreksfirði og eignuðust 3 börn.  Jónína starfaði sem handavinnukennari og vann ötullega að slysavarnarmálum.  Hún var fær og afkastamikill listamaður á ýmsum sviðum.  Einkum sem málari, en ekki síður á sviði ljóðagerðar.  Jónína lést 24.01.2008.  Þessar vísur orti hún þegar hún með systrum sínum heimsótti æskustöðvarnar í Kollsvík.

 Sumarferð til Kollsvíkur

Til Kollsvíkur við lögðum leið
einn ljúfan sumardag.
Okkur fannst sú gatan greið,
allt gekk í okkar hag 

Æskubyggðin unaðsleg
okkar huga dró.
Lilja hafði vanda og veg
af vorum fararjó. 

Hugur vekur horfnar stundir,
hálfgleymd atvik líða hjá,
er aftur minnar æsku grundir
iðjagrænar fæ að sjá. 

Oft í Mónum undi þar
með ærslum snótin unga,
er faðirinn á baki bar
bagga af mónum þunga.

Ekki lét hún ærslum af
og engu sinnti banni.
Í mógröf sökk á svartakaf
svo hinn ungi svanni. 

Faðirinn við í flýti brá,
fljótt hann náði í „leppinn“.
Með andköfum hún æpti þá
„Ó hvað þú varst heppin“. 

Því úti er hafði að atvinnu
er ei von þú hrósir.
Ég klíndi oft í kátínu
Úr kúaskítnum rósir.

 

Örnefnavísur

 Oft ég var við Ána smeik
ei þorði að leggja í hana,
er fisk ég huggði færa keik
fólkinu á Rana.

Kallamelinn könnumst við.
Krían í Fit á heima.
Með Umvarpi að öldnum sið
andann látum sveima.

Núpurinn gnæfir himinhátt
hlífir við austanvindum.
Unaðsstundir hef ég átt
að Grænubrekkulindum. 

Biskupsþúfan blasir við
með blessað gullið falið.
Henni að hreyfa og ýta við
óráðlegt var talið. 

Krakkar léku um Kallatún
á kvöldum sumarkyrrum.
Landpóstur á brekkubrún
blés í lúður fyrrum. 

Roðasteinninn aldni er
enn í sömu skorðum.
Systrahundruð sýnist mér
svipuð vera og forðum. 

Oft og tíðum ærslast var
upp við Smiðjukofa.
Á Steinbólinu stelpurnar
Stínu létu sofa. 

Trantalinn hann tyllir sér
tæplega undir Bekknum.
Gíslahillan ennþá er
upp af gamla Stekknum. 

Blakknes, Hæð og Breiðurinn
bera af hæstu fjöllum.
Hnífar Leiti og Lynghjallinn
Láganúpi og Hjöllum. 

Um Völlur, Hryggi og Vallagjá
Valla á lengstu sporin.
Lambánum hún þurfti þá
þrátt að sinna á vorin. 

Hún um fjöllin fetar sig
fljót og létt um tærnar.
Skekkinga um skakkan stíg
skundar hún með ærnar.

Í Skolladýi skepna dó
til skaða oft á vorin.
Um Mýrar Holt og Harðató
heilmörg liggja sporin. 

Í Vatnadal er gatan greið
í göngu ef vilt þér skella.
En ennþá styttri er þó leið
út á milli Fella. 

Gvendarbrunni ei gleyma á
hann geymir vatnið tæra.
Það lækna öll þín meinin má
Og mjög þig endurnæra.

 

Líður að kvöldi

Líðinn er dýrðlegur dagur.
Í djúpanna skaut er brátt hniginn
rósrauður röðull svo fagur.
Ró yfir dalinn er sigin. 

Lognaldan létt sér leikur
laðast að sandi með glettur.
Á útfalli alltaf keikur
upp kemur Þórðarklettur.

Hér var svo indælt að una;
aftur að sjá þessar grundir.
Í andanum ennþá að muna
æskunnar glaðværu stundir.