Það hefur ekki gengið andskotalaust að opna augu stjórnvalda fyrir hinni gríðarlegu eyðileggingu sem herjar á verminjar á vestan- og norðanverðu landinu.  Segja má að þessi sjávarþorp fyrri tíma séu öll að hverfa.  Með þeim týnast stórir kaflar úr sögu þjóðarinnar, líkt og þegar handrit Árna Magnússonar fuðruðu upp á sínum tíma.  Litlar sem engar rannsóknir hafa farið fram á hinum fornu verstöðvum frá tímum skreiða2020 jan5rverkunar; þeim atvinnuvegi sem um aldir skapaði þjóðinni auðsæld þó misskipt væri.  Gríðarleg eyðing hófst á þessum láglendu svæðum fyrir nokkrum áratugum og fer ört vaxandi.  Ástæður hennar eru líklega einkum tvær:  Annarsvegar offjölgun ígulkersins skollakopps, en afrán hans veldur minnkun þaraskóga sem áður drógu úr krafti brimöldu á grunnslóð.  Hinsvegar hörfun ísjaðarsins, sem veldur því að vindur af norðri og vestri blæs lengur um opið haf og nær að rífa upp stærri báru.  Þar við bætist ofsafengnara veðurlag sem rekja má til hlýnunar jarðar. 

Eftir langa baráttu tókst loksins að herja út lítilsháttar fjárveitingu; 7,5 milljónir sem, samkvæmt fjárlögum, átti að duga til að gera 120 metra langan sjóvarnargarð við Grundabakka, þar sem stórskemmdir hafa orðið á hinni fornu Láganúpsverstöð.  Vegagerðin, sem er framkvæmdaaðili stjórnvalda, valdi að bjóða verkið út þó slíkt sé ekki skylda.  Tafir vegna þess ollu frekari skemmdum.  Verktakinn sem Vegagerðin valdi var Lás hf á Bíldudal, en Vegagerðin gekk framhjá heimamanni sem hafði reynslu af gerð sjóvarnargarðs við Brunnaverstöð.  Annað klúður Vegagerðarinnar var hönnun garðsins, en það var tröllaukið mannvirki sem gnæft hefði yfir láglendi Kollsvíkur grafa sjovorn 2020og ekki nema helmingur af lengdinni.  Tókst að ná fram skynsamlegri lækkun hans.  Verkið komst loks af stað síðla vetrar 2020 og gerði verktaki 65 metra langan varnargarð frá Garðsenda norðurundir tóft Bakkabæjarins.  Enginn eftirlitsaðili var að hálfu Vegagerðarinnar, en Kári Össurarson sá um eftirlit að hálfu landeigenda. Virtist verkið takast vel, svo langt sem það náði.

Þrátt fyrir að verkið væri einungis hálfnað, sendi Vegagerðin tvo verkfræðinga til að gera „lokaúttekt“ á því.  Þeir gerðu þó engar mælingar.  Aðspurðir sögðu þeir það ekki hafa neina þýðingu því „fjárveitingin væri búin“.  Með þessu braut Vegagerðin ekki eingöngu reglur um eftirlit með opinberum framkvæmdum heldur einnig það ákvæði fjárlaga sem sagði að þarna skyldi koma 120 metra langur brimvarnargarður.  Valdimar Össurarson hefur kært þessi atriði til Ríkisendurskoðunar, en einnig farið formlega fram á það við samgönguráðuneytið og menntamálaráðuneytið að tafarlaust verði útveguð fjárveiting til að ljúka verkinu.  Engir af þessum opinberu aðilum höfðu sýnt viðleitni til viðbragða nú áður en árið 2020 rann sitt skeið.  Verða þeir ekki látnir í friði með það.

Mikilvægi þessarar framkvæmdar má sjá á því sem segir í bréfi Minjastofnunar Íslands til samgöngu- og sveitarstj.ráðuneytisins 24.11.2020:  „… óskar Minjastofnun Íslands eftir því að Vegagerðin setji í forgang að ljúka sjóvörnum við Láganúpsver í Kollsvík í samræmi við upphaflega áætlun … um 1000 m³ og 120 m langan sjóvarnargarð“.  Ennfremur:  „… er ljóst að þar er enn að finna umfangsmiklar heimildir um lífsviðurværi og sjávarnytjar þjóðarinnar fyrr á ldum, auk þess sem ríkulegt safn fiskbeina getur gefið margvíslegar vísbendingar um stofnstærðir og lífríki í hafinu á þessum slóðum fyrr á öldum.  Minjastofnun telur því afar áríðandi að framkvæmdum við sjóvarnir í Láganúpsveri verði lokið sem fyrst til að koma megi í veg fyrir frekara tjón og tryggja varðveislu þessara menningarverðmæta“.  Undir það skrifa Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar og Guðmundur Stefán Sigurðarson minjavörður Norðurlands vestra, sem haft hefur umsjón með verminjum fyrir hönd Minjastofnunar.   Landeigendur munu fylgja því eftir að stjórnvöld geri skyldu sína í þessum efnum. 

Leita