Örnefni

Svalt er um sjói vestra,
sýlað um látur og börð.
Vor er þó snemma í verum,
um Víkur og Patreksfjörð.

Hafnar rís múli við hafi,
hér stendur Tálkninn vörð.
Eyrar með kaupstað og kirkju,
Kollsvík með gnúinn svörð.

Bjarggæft er margt í Bjargi,
búsælt um Nes og Höfn.
Hnjótar við Tungum hlæja,
hagsælt um land og dröfn.

Fuglar í gæfum flokkum,
fiskur og nóg af sel.
Rennur lýsið í lækjum,
lepja það börnin úr skel.

Hörð eru veður á haustum,
hrönn treður Rauðan sand,
válegt um myrkva vetur,
velkjast þar spýtur á land.

jon ur vorJón úr Vör er jafnan talinn í hópi öndvegisskálda þjóðarinnar á síðari tímum.  Fullu nafni hét hann Jón Jónsson (21.01.1917-04.03.2000), sonur Jóns Indriðasonar skósmiðs og Jónínu Guðrúnar Jónsdóttur á Patreksfirði.  Á þriðja ári var hann sendur í fóstur hjá Þórði Guðbjartssyni verkamanni og Ólínu Jónsdóttur á Patreksfirði, enda var þröngt í búi hjá foreldrunum og börnin mörg.  Jón stundaði nám á Núpi að loknum barnaskóla; síðan í lýðháskóla í Svíþjóð og Genf.  Ritstjóri Útvarpstíðinda og kom töluvert að útgáfustarfsemi og bóksölu.  Bókavörður í Kópavogi.  Átti þátt í stofnun Rithöfundasambands Íslands og sat í stjórn þess.  Ljóðabækur Jóns eru þessar:  Ég ber að dyrum 1937; Stund milli stríða 1942; Þorpið 1946; Með hljóðstaf 1951; Með örvalausum boga 1951; Vetrarmávar 1960; Maurildaskógur 1965; 100 kvæði úrvarl 1967; Mjallhvítarkistan 1968; Stilt vaker ljoset 1972; Vínarhús 1972; Blåa natten över havet 1976; Altarisbergið 1978; Regnbogastígur 1981 og Gott er að lifa 1984.  Jón varð þjóðþekktur fyrir ljóðabókina Þorpið.  Hann var talinn „helsti forkólfur raunsæis; undanfari atómskáldanna“ og eitt mesta áhrifaskáld síðari tíma.  Óbundinn kveðskapur, eða svonefnd atómljóð, voru verulega umdeild í fyrstu og sumir unnendur hefðbundinnar ljóðagerðar áttu ekki nógu sterk orð til að lýsa fyrirlitningu sinni á þeim.  En í dag er Jón úr Vör óumdeild stórskáld.  Hann átti einnig létt með að yrkja bundið mál, eins og þetta kvæði sýnir, sem birtist í Samvinnunni árið 1966 ásamt tveimur óbundnum ljóðum (Þingvallaferð og Jarðarför), undir heitinu „Þrjú ljóð“.  Jón bar ávallt sterkar taugar til heimahaga sinna; þorpsins Patreksfjarðar og Rauðasandshrepps, eins og kveðskapur hans bert vitni um.