Á hátíðum og tyllidögum gerði fólk sér ávallt dagamun með einhverju móti og tók sér hvíld frá daglegum störfum.  Hér lýsa Kollsvíkingar ýmiskonar hátíðarhaldi, fyrr og síðar.  Margir staðnæmast þar við jólin; mestu hátíð ársins.

Efni:    (Flýtival með smelli á kaflaheiti)
Hátíðir og merkisdagar  Einar Guðbjartsson frá Láganúpi segir frá hátíðahaldi fyrri tíma.
Trúlofun og gifting   Sigríður Guðbjartsdóttir fjallar um þessa merkisviðburði.
Trúlofun og gifting   Torfi Össurarson frá Kollsvík bætir enn við þann fróðleik.
Fyrsta jólatréð í Kollsvík   Merk frásögn Jónu Valgerðar Jónsdóttur af þessum viðburði.
Jól í Kollsvík 1920  Hér minnist Torfi Össurarson jóla í sinni æsku.
Jól bernsku minnar  Guðrún A.M. Guðbjartsdóttir frá Láganúpi minnist jóla litlu síðar.
Jól í bernsku minni  Guðbjartur Össurarson lýsir jólum á Láganúpi um 1960-70.
Lýðveldisdagurinn 17. júní Hér segir Sigríður á Láganúpi frá þjóðhátíðarhöldum.

 

Hátíðir og merkisdagar

einar gEinar Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) var fæddur Láganúpi í Kollsvík og ólst þar upp.  Stundaði búskap  og sjómennsku með foreldrum sínum og systkinum, og var öflugur drifkraftur í því mikla félagslífi sem þá var á svæðinu.  Hann var um skeið kaupfélagsstjóri á Gjögrum og vann eftir það við kaupfélög víða um land; síðast lengi við Kaupfélag Borgnesinga og bjó í Borgarnesi ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Kollsvík, og dóttur, Maríu Jónu Einarsdóttur.  Samantekt þessa ritaði Einar árið 1976, og er hún birt á Sarpi; vef þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins.

Hér verður rifjað það sem ég man um dagamun sem gerður var á mínum bernskuárum og bernskustöðvum; nánar tiltekið í Kollsvík vestur á öðrum og þriðja tug 20. aldar. Tvennt veldur því einkum að þetta verður fátækleg upprifjun. Annað er það að á þessum tíma var allmjög tekið að losna um forna siði, en hitt að foreldrar mínir voru mjög fátækir og því sjaldan efni til að gera þann mun á dögum sem þau hefðu eflaust óskað. Á heimilinu dvöldust aldraðar manneskjur um lengri eða skemmri tíma og kann að verða vitnað til þess sem ég heyrði af vörum þessa fólks um eldri venjur. 

Nýársdagurinn var mikill hátíðisdagur og þótti þá sjálfsagt að klæðast sínum bestu fötum svo sem á öðrum stórhátíðum. Hátíðleikinn mun þó að mestu hafa falist í vitundinni um að nýtt ár væri hafið. Að loknum 
morgungegningum snyrtu menn sig og snæddu morgunmat en þá var ennþá borðað þrímælt eins og kallað var, þ.e. þrjár máltíðir á dag. Að loknum morgunverði var postillan tekin fram og lesinn lestur sá er deginum 
tilheyrði. Það má geta þess hér að húslestur var þá lesinn á hverjum helgidegi árið um kring. Það hygg ég að hafi verið að mestu tilviljun háð hvaða postilla var lesin á hverju heimili. Pabbi átti og las húslestrabók Helga lektors Hálfdánarsonar. Tveir bræður pabba bjuggu þarna í Kollsvíkinni, Össur á Láganúpi og Gísli á Grænumýri. Össur las postillu dr. Péturs Péturssonar, biskups, en Gísli Vídalínspostillu, enda var hann elstur þeirra bræðra. Aldrei mun það hafa hvarflað að þeim bræðrum að hafa skipti á bókum þó að þeir iðkuðu þessa guðrækni áratugum saman, eða allt þar til útvarpsmessurnar bundu endi þar á. Sálmar voru alltaf lesnir eða sungnir fyrir og eftir hvern lestur og fór það eftir sönghæfni fólks hvort sungið var eða lesið.  

Gamlárskvöld.  Á öðrum tug aldarinnar eimdi enn eftir af þeim sið að gefa fólki stóra matarskammta á gamlárskvöld. Það mátti heita fastur siður þegar ég man fyrst eftir mér að sjóða hangikjöt og skötu á gamlársdag; það ríflega að entist til neyslu fram yfir áramótin. Skatan var stöppuð í miklu floti og borðuð köld, sneidd niður eins og kæfa. Önnur 
tilbreyting í mat mun helst hafa verið sú að eldaður var hrísgrjónagrautur með rúsínum í sem þótti hátíðamatur. Sjálfsagt þótti að baka einhverjar kökur. Man ég snemma eftir pönnukökum, kleinum og rúsínuköku [jólaköku] og naumast meiri fjölbreytni nema þá á heldri manna heimilum. Ég minnist þess sérstaklega að oftar en einu sinni fékk ég herðablað af hangikjöti sem einkaskammt og entist það í nokkra daga. En þetta var ekki aðeins 
matarskammtur heldur var þetta bæði alheimurinn og hinum megin kóngsríkið og Garðshorn. Almennust skemmtun á nýársdag var spilamennska. Mest var spiluð vist en einnig lomber, landi o.fl. 

Ekki minnist ég þess að þrettándinn væri talinn sérstök hátíð. Þó man ég eftir að bál voru almennt kynt á þrettándakvöld og einnig man ég eftir álfadansi með tilheyrandi grímubúningum yngra fólksins. Ekki mun 
grímudansinn hafa verið gamall siður, líklega jafngamall öldinni og man ég að ég heyrði um andúð eldra fólks á slíkum leikjum. 

Pálsmessa og Kyndilmessa voru að vísu ekki helgidagar en gleymdust aldrei vegna þess spádóms um væntanlegt veðurfar sem við þá var bundinn og þarf ekki að rekja. Ekki fullyrði ég að menn hafi almennt trúað þessum 
veðurboðum en öllum þótti betra að þeir bentu á hagstætt veðurfar. En Pálsmessan var líka dagur hrafnsins. Þjóðtrúin sagði að þeir sem gæfu hrafninum ríflegan skammt á Pálsmessu ættu ekki á hættu að hann legðist á 
lömb þeirra að vorinu. Ég tel að þessi þjóðtrú hafi átt nokkuð sterk ítök fram á tuttugustu öldina og ef til vill lifir hún ennþá. 

Ekki má gleyma að geta sólardagsins þ.e. dagsins þegar sólin hafði hækkað svo á lofti að hún sást frá viðkomandi bæ. Ég man eftir sólarkaffi hjá ömmu minni, Önnu Jónsdóttur, sem lengi bjó á Láganúpi. Nú man ég ekki lengur hvaða dagur er sólarkomudagur á Láganúpi þó að ég ætti þar heimili um áratugi. 

Konur skyldu fagna þorra en karlar góu. Þetta var þó meira í orði en á borði þegar ég man eftir. Hér verð ég að setja litla frásögn sem ég hef jafnan tengt við fyrsta dag góu þó að vel geti verið að um einhvern annan dag hafi verið að ræða. Frá því að ég man eftir mér og fram undir 1920 var á heimilinu afabróðir minn [d. 1919], Gísli Ólafsson, og einnig kona hans, Vigdís Ásbjörnsdóttir, bæði háöldruð, fædd um miðja 19. öldina. Vigga gamla var í miklu uppáhaldi hjá okkur systkinum enda var hún okkur mjög góð. Auk þess var hún ótæmandi sagnabrunnur og óþreytandi að segja okkur sögur. En eftirfarandi frásögn heyrði ég hana segja mömmu minni: Hún var þá ung stúlka og var í vist á prestsetrinu í Sauðlauksdal. Prestur mun þá hafa verið séra Magnús Gíslason. "Hann hafði fjölda hjúa, líklega miklu fleiri en hann hafði þörf fyrir", segir Sigurður Árnason í æviminningum sínum "Með straumnum". Prestur átti hjall einn ágætan og var þar jafnan birgur af hvers konar lostæti sem ekki var á borðum daglega og munu ýmsir betri bændur hafa sett metnað sinn í að eiga slíkt forðabúr. Sá var siður prests, árviss, að þennan umrædda dag gekk hann jafnan í hjall sinn og sótti þangað góðmeti og úthlutaði með eigin hendi sem aukaskammti til vinnufólks. Var þetta hjúunum jafnan mikið tilhlökkunarefni. Svo er það einu sinni, fyrstan góudag, að vinnukonur sitja við tóvinnu fullar eftirvæntingar. En skriftarkamers prests var afþiljað í enda baðstofunnar.  En með því að þær höfðu ekki heyrt til hans alllengi þá hefst ein þeirra upp úr eins manns hljóði og segir stundarhátt: "Nú er hann kominn í hjallinn". En naumast hafði hún sleppt orðinu þegar svarað var innan úr skrifstofu prests: "O, hann situr nú hérna, kallinn". Litlu síðar gekk svo prestur út og úthlutaði skammtinum sem venja hans hafði verið. Vafalaust er það endarímið í hinum tilfærðu setningum sem hefur hjálpað til að þetta hefur geymst mér í minni í sextíu ár. En sem áður er nefnt er ég ekki hárviss um að þetta hafi átt við fyrsta góudag eða einhvern annan dag en þá væri aðeins um sprengidag að ræða sem ég man þó ekki eftir að væri sérstaklega haldið til í mat eða drykk. 

Um bollur eða bolludag man ég ekki að ég heyrði í bernsku minni.  Öskudagur var hins vegar tilefni skemmtunar hjá börnum og unglingum.  Stelpur reyndu að láta stráka bera öskupoka en strákarnir hengdu smásteina á stelpurnar. Ég man að það var því aðeins talinn fullgildur burður á öskupoka að hann væri borinn gegnum þrennar dyr. Á seinustu áratugum voru ungar stúlkur farnar að setja metnað sinn í að gera sem íburðarmesta poka, jafnvel bróderaða úr silki og sendu vinum sínum í umslagi. Þá fór þessi skemmtun að missa gildi sitt því það var síður en svo hneisa að eignast slíkt listaverk sem gjöf frá ungri blómarós. Svo lagðist þessi siður alveg niður upp úr 1930. 

Sunnudaginn í föstuinngang 
það er mér í minni, 
þá á hver að falla í fang 
á þjónustunni sinni. 

Þessi húsgangur lifði góðu lífi en hvort sá siður sem hann greinir frá hefir nokkurn tíma verið ríkjandi kann ég ekki að staðfesta. Í minni bernsku var það ekki lengur til siðs að menn hefðu ákveðnar þjónustur enda vinnumennska að leggjast niður. En með níu vikna föstu hófst lestur Passíusálmanna og var lesinn einn sálmur að kveldi hvers virks dags til páska. Einnig voru lesnar föstuhugvekjur en sálminum skipt eftir smekk lesara og annar hluti lesinn fyrir en hinn eftir lestur. Svo sem áður er getið voru sálmarnir sungnir þar sem söngfólk var á bæjum. Var það kallað "að syngja til lesturs".  Bænadagarnir, svokölluðu, þ.e. skírdagur og föstudagurinn langi, voru að sjálfsögðu heilagir haldnir. Þó minnist ég þess að skírdagur var naumast helgur fyrr en eftir miðjan dag. Á sama hátt var meiri helgi fyrri hluta föstudagsins langa. 

Páskarnir voru að sjálfsögðu stórhátíð en ekki man ég eftir neinu sem séreinkenndi þá. Þó að reynt væri að hafa tilbreytingu í mat og drykk þá var þetta á þeim árstíma þegar vetrarforði hinna efnaminni var yfirleitt mjög á þrotum og reikningsstaða í kaupstaðnum ekki slík að hún leyfði neina "óspilunarsemi". Ég var kominn á fullorðinsár þegar ég heyrði talað um páskaegg og þau voru óþekkt fyrirbæri í minni bernsku. 

Sumardagurinn fyrsti.  Eins og fullorðna fólkið fagnaði þorra og góu, svo skyldu ungar stúlkur taka á móti einmánuði og ungir piltar vera fyrstir á fætur á sumardaginn fyrsta til að taka á móti hörpu. Man ég að við bræður tókum þetta hlutverk alvarlega og reyndum að verða fyrstir út á sumardaginn fyrsta.  Sumardagurinn fyrsti var ekki talinn helgidagur en hann var eigi að síður mikil hátíð og meiri en nú er og þarf ekki að greina nánar frá þeim ástæðum sem til þess orkuðu. Ekki fylgdi sumarveður alltaf sumarkomunni og raunar var þó nokkuð sterk trú á að það væri æskilegra að svo væri ekki, samanber trúna á að boðaði gott ef saman fraus sumar og vetur. Einnig orðtakið: „Fölnar fardagagróður“. En í Kollsvíkinni hófst um sumarmálin aðal annatími ársins: vorvertíð sem stóð til Jónsmessu. Fjölgaði þá fólki í Vikínni um helming eða þar um bil.  Nú voru ekki lesnir húslestrar en aldrei var róið á sunnudögum og helst ekkert gert sem tilheyrði sjóferðum eða veiðiskap. Voru þá lesnir húslestrar á bæjum og komu aðkomumenn úr verinu oft heim á bæina til að hlýða lestri og auðvitað í fleiri erindum. 

Hátíðahald á hvítasunnu var að því leyti ólíkt öðrum stórhátíðum að þá gafst Útvíknamönnum kostur á að fara í kirkju enda var þá oftast fermt. Það hygg ég að aldrei hafi verið embættað í Breiðuvíkurkirkju að vetri til nema við jarðarfarir. 

Sjór var allhart sóttur af Víknarmönnum enda var fiskurinn höfuðstoðin undir lífsafkomu þeirra en landbúskapurinn meira til uppfyllingar. Sem áður er getið stóð vorvertíð til Jónsmessu eða messudaga sem svo voru nefndir og með því að þá voru bæði skinnklæði og veiðarfæri farin að ganga úr sér. Var það því að orðtaki um ýmsa hluti, sem orðnir voru lélegir, að komnir væru messudagar í þá. Enginn sérstakur fagnaður var þegar vorvertíð lauk, með því líka að heimamenn héldu áfram róðrum eftir því sem gæftir leyfðu allt fram á vetur. Voru þá landbúnaðarstörfin unnin í landlegum að svo miklu leyti sem þau voru unnin af karlmönnum. Var það virt búlitlum mönnum til vansæmdar ef þeir "sátu í landi" þegar sjóveður var og unnu að heyskap eða smölun. 

Töðugjöld voru helst falin í því að gefið var kaffi og pönnukökur þegar taða af túni var að mestu komin í hlöður en engin stórhátíð var það enda ekki glögg skil milli töðu og útheys þó að æskilegast væri talið að ljúka heyskap fyrir höfuðdag en eftir hann þótti allra veðra von. Þá vildi oft fara svo að sláttarlokin drógust fram undir göngurnar. Það var því oft svo að slægnalambið varð jafnframt gangnalambið. 

Gangnadagarnir voru í margra augum mestu hátíðisdagar ársins, þó var þetta ekki um langa vegu að fara. Smalað var, réttað og rekið heim allt á sama degi. Sjaldan var farið í róður á gangnadaginn þó að það kæmi fyrir. Þó að leitarsvæðin væru ekki mikil yfirferðar gátu sum þeirra verið allerfið, einkum átti þetta við um Bjargið og annað brattlendi sem hvarvetna finnst þarna milli víknanna. Sem unglingi fannst mér mikið til um þá sem fengust við að smala björgin enda var það engan veginn á allra færi. 

Þá vil ég ekki láta ógetið þess dags þegar bátunum var ráðið í vetrarsátur og þeim hvolft. Þetta var að vísu enginn sérstakur dagur og ekki heldur neinn hátíðisdagur. Í vetrarbyrjun þegar von var frosta og snjóa var bátunum hvolft. Hlaðnir voru lágir grjótpallar og á þá lögð svokölluð hvolftré, tvö með hæfilegu millibili þannig að annað yrði undir barka en hitt undir skut bátsins. Þó að þetta væru yfirleitt ekki stórir bátar þurfti þó helst ekki færri en sex menn til þess að áhættulaust væri að hvolfa þeim. Hér þurfti því að kveðja til góðviljaða granna. Aldrei voru goldin laun fyrir slíka aðstoð sem þótti sjálfsögð hvernig sem á stóð og oftast gagnkvæm. Það var að vísu alltaf siður að veita slíkum aðstoðarmönnum einhverjar góðgerðir en ég minnist þess að ég var nokkrum sinnum vitni að því að bátseigandinn bauð hjálparmönnum í búð sína og skar niður hert rafabelti og skipti á milli þeirra. Ég held að þetta hafi verið gamall siður og e.t.v. föst regla meðan lúðan var ennþá algengur fiskur í aflanum. [Þegar hér var komið voru Bretar og fleiri þjóðir því nær búnir að eyða þeim fiskistofni og fékkst enginn um].  Ekki er hægt að segja að fyrsti vetrardagur væri hátíðisdagur en hann fór ekki fram hjá án þess að menn óskuðu hver öðrum gleðilegs vetrar og þökkuðu fyrir sumarið. 

Jólafasta.  Fjórum vikum fyrir jól, í byrjun jólaföstu, var farið að hugsa til jólanna. Þá var það gert til gamans á sumum bæjum að skrá alla gestkomandi á jólaföstunni.  Kölluðust þá karlkynsgestir jólasveinar en konur nýársdísir.  Það var svo haft að gamni um jólin að heimilisfólkið dró um jólasveinana og nýársdísirnar. Ekki veit ég hvort þetta hefir verið útbreiddur siður því ekki mun hafa verið venjan að ræða þetta við gestina en kunnugt var mér um að þetta var gert og var aðeins græskulaus þáttur í jólatilbreytingunni. Að sjálfsögðu fór það mjög eftir efnum og ástæðum hvernig menn bjuggust um fyrir jólin. Allir þeir sem bændur gátu kallast slátruðu kind eða kindum rétt fyrir jólin en hjá hjáleigubændum var þetta tilviljanabundnara. Oft mun þetta hafa verið roskið fé og þá jafnvel lambsugur sem tekið höfðu haustbatanum sem kallað var. Heldur var kökubakstur fábreyttur enda var ekki langt um liðið síðan hveiti varð algengt sem matvara og stundum lítið til af því, t.d. á stríðsárunum 1914-18 en þá var oft mjög lítið um ýmsa nauðsynjavöru. [Mér eru í minni rúgmjöls- og maísmjölsgrautar sem ég átti mjög erfitt með að koma niður og var því kallaður matvandur]. Það voru einkum jólakökur [rúsínubrauð] og kleinur sem bakaðar voru og svo lummur á aðfangadag. 

Þorláksmessa var að sjálfsögðu ekki haldin heilög en sjálfsagður matur á Þorláksmessu voru reyktar bringur og skata, söltuð og lítið eitt kæst. Þó að oft væri smátt um kjötmetið á sumum bæjum var alls staðar nóg af skötu.  Stundum voru steinbítsroð soðin í hangikjötssoðinu og þótti sumum afbragðsmatur. Oftast var farið í kaupstað fyrir jólin en sjaldan var fært sjóleiðis utan úr víkunum á þeim árstíma. Varð því að ganga inn með firðinum og fá flutning yfir eftir því sem hægt var og hélst þetta svo þar til Víknamenn stofnuðu sitt eigið félag upp úr 1930. Það mátti segja að væri trúaratriði að allir fengju einhverja nýja flík fyrir jólin og þó fyrst og fremst börnin svo að þau færu ekki í jólaköttinn. En að öðru leyti var lítið um jólagjafir. Ég man þó eftir að einu sinni færði pabbi okkur þremur elstu systkinunum sína bókina hvoru fyrir jólin og höfum við því líklega verið búin að læra að lesa en það lærðum við snemma. Þessar bækur voru: Barnagaman, Ferðir Munchausens og Bók náttúrunnar eftir Topelius.  Alltaf fengum við líka kerti og einnig man ég eftir krítarlitum sem mér fannst mjög til um.  

Jólin.  Þá er komið að því sem var hámark jólahaldsins, allt frá því að ég man fyrst eftir mér og fram á fullorðinsár, en það var jólatrésskemmtun ungmennafélagsins.  Á þessari skemmtun var öllum úr Víkinni boðið og stundum var hún sameiginleg fyrir Kollsvík og Breiðavík. Þykir mér rétt að segja nánar frá hvernig þessi skemmtun fór fram í aðalatriðum. Það var ungmennafélagið sem sá um þessa skemmtun frá upphafi og svo lengi fram eftir öldinni sem hún fór fram [en ungmennafélagið mun stofnað um 1909]. Á öndverðum vetri var á fundi í félaginu kosin nefnd til þess að hafa yfirumsjón með skemmtuninni og sjá um allan undirbúning. En undirbúningurinn fólst í því að afla þess sem kaupa þurfti í kaupstað en það voru fyrst og fremst kertin og eitthvað af sælgæti. Heima var unnið að því að búa til körfur og kramarhús og einnig ýmiss konar pappírsskraut og reynt að gera það sem fjölbreytilegast. Þá þurfti að ná í eini til þess að binda á tréð og var það stundum nokkrum erfiðleikum bundið, einkum ef snjóalög voru orðin mikil og þurfti þá að moka ofan af einirunnunum sem voru jarðlægir og niðri í lautum. Aldrei var notað grenitré heldur smíðað tré sem einirinn var bundinn á með fínum þræði sem fyrr segir og líktist þetta þá mjög lifandi barrtré. Slíkt jólatré mun hafa verið til áður en ungmennafélagið var stofnað. [Svo sagði mér móðir mín, Hildur Magnúsdóttir, að föðurbróðir hennar, Torfi Jónsson, hefði smíðað slíkt tré og sett upp á heimili sínu en Torfi drukknaði í Kollsvíkurlendingu árið 1905]. Skömmu fyrir jólin gengu nefndarmenn á alla bæi á félagssvæðinu og buðu öllum til skemmtunarinnar á tilteknum bæ og tíma sem oftast var kl. 6 síðdegis á jóladagskvöld. Ekki voru alls staðar svo rúmgóð bæjarhús að hægt væri að hafa þessa samkomu þegar fjölmennast var og því var hún oftast í Kollsvíkurhúsinu, sem kallað var, en það var hús Guðbjargar, ekkju Torfa Jónssonar sem áður er nefndur, enda voru flest börn hennar heima við fram á þriðja tug aldarinnar.

 Á tilsettum tíma hófst skemmtunin með því að kveikt var á kertunum á jólatrénu. Síðan röðuðu börnin sér í kringum það og héldust í hendur. Upphófst nú söngur jólasálmanna en börnin gengu í kringum tréð. Stundum var lesið jólaguðspjallið milli sálmanna. Eftir sálmasönginn voru enn sungin létt kvæði svo sem enn tíðkast við jólatrésskemmtanir. Ekki var öllum áhyggjum létt af jólatrésnefnd þó búið væri að kveikja á trénu. Það var skylda þeirra að fylgjast vel með að ekki stafaði hætta frá logandi kertaljósum og gengu þeir jafnan meðfram barnhringnum, vopnaðir skærum og öðrum áhöldum, til þess að grípa í taumana ef loginn læstist í pappírsskraut eða greni og má þakka það árvekni þeirra að aldrei varð nein íkveikja þá áratugi sem þessi skemmtun fór fram. Þegar nóg þótti sungið og börnin fóru að þreytast af göngunni var tekið til að úthluta körfum og kramarhúsum meðal allra viðstaddra. Jafnframt var svo lesið upp úr "kortakassanum" en hann var um skeið fastur þáttur í þessari jólagleði. Var hann með þeim hætti að fyrir jólin var öllum jólakortum sem sendast skyldu milli manna á félagssvæðinu komið fyrir gegnum rifu á lokuðum kassa sem svo var opnaður við þetta tækifæri. Var þá hverjum afhent sitt kort eftir að áletrunin hafði verið lesin í heyranda hljóði. Að þessu loknu var slökkt á þeim kertum sem enn lifðu á jólatrénu og það flutt afsíðis. Var nú tekið til við ýmsa leiki sem stóðu uns lauk skemmtuninni síðla kvölds eða um nóttina en þá höfðu yngstu börnin fyrir löngu verið flutt heim til sín. Það var lengi hefð að byrja leikina með jólaleik, öðru nafni biðilsleik, og tók hann langan tíma með tilheyrandi pantaleikjum. Ekki tel ég ástæðu til að lýsa þessum leik nánar eða öðrum leikjum þar sem þeim er öllum lýst nákvæmlega í "Leikjabókinni" sem mun fyrst hafa komið út á fyrsta tug aldarinnar. Margir þessir leikir munu vera nokkuð gamlir a.m.k. hefir Þorsteinn skáld Erlingsson þekkt jólaleikinn og einn vinsælasta pantleikinn: að senda pilt og stúlku út til að telja stjörnurnar. Þetta kemur fram í vísu sem hann ritar í vísnabók ungrar stúlku og er á þessa leið ef ég man rétt: 

Hin glaða hátíð blóm sín bindi 
í besta kransinn handa þér 
og æska, fegurð, fjör og yndi 
þig fái í jólaleik með sér. 
Og ef þú stjörnur átt að telja 
þá óska ég þú mætir tveim 
sem hugur þinn og hjarta velja 
og haldir jól í ljóma þeirra. 

Þessi vísa hlýtur að vera léttskiljanleg þeim sem ekki kunna skil á jólaleik og að telja stjörnur. Ekki man ég eftir að dans væri stiginn á jólatrésskemmtun fyrr en þá hin allra síðustu ár sem slíkar skemmtanir fóru fram. Alltaf var nokkuð spilað um jólin en þó aldrei á aðfangadagskvöld, slíkt þótti helgispjöll. Algengustu spil voru vist, lomber, lander, púkk o.fl. 

Áramót.  Gamlárskvöld einkenndist af því að þá var skammtað hangikjöt og skata og var reynt að hafa hangikjötsskammtinn nokkuð ríflegan svo að hann entist a.m.k. fram á nýja árið og mun það hafa verið leifar frá gömlum sið sem var að hverfa. Þá minnist ég þess að gömlu konurnar sóttust eftir að sjóða steinbítsroð í hangikjötssoðinu og þótti herramannsmatur þannig matreitt. Reyndar var þetta ekki aðeins á gamlárskvöld en því er þetta í minni mínu bundið því kvöldi, að þá var alltaf og mest soðið af hangikjöti. [Þess má einnig geta hér innan sviga að algengt var að roð væri glóðarsteikt og þótti einnig góðmeti matreitt á þann hátt. Það hefur stundum hvarflað að mér að ekki þurfi það endilega að bera vott um hungursneyð þó að fólk steikti eða syði skæðaskinn sér til matar]. "Sá ég eina seint um kveld/ hún var að steikja roð á glóð" segir í vísu sem eignuð er séra Hallgrími Péturssyni. Sem barn trúði ég því fortakslaust að huldufólkið flytti búferlum um áramótin enda var tilvera þess ekkert vafamál, einkum gömlu konunum á heimilinu. Man ég það að afasystir mín, Guðríður Árnadóttir, gekk í kringum bæinn, sólarsinnis og hafði yfir tilskilda þulu. Úr henni man ég aðeins þetta: "Komi þeir sem koma vilja,/ fari þeir sem fara vilja,/ mér og mínum að meinalausu". 

Samantekt þessi hófst á öndverðu ári 1976 og er lokið á gamlársdag sama ár. Upphaflega var ætlunin að þetta yrði uppkast en síðan hreinskrifað og endurbætt. Það sem þetta hefur tekið lengri tíma og er auk þess ómerkilegra en ég vænti upphaflega þykir mér ekki taka því að endurrita það og betrumbæta nema slíkt þætti æskilegt "að bestu manna yfirsýn".

 

Trúlofun og gifting

sg sg

Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1992. 

Mér finnst ég hafa fremur lítið um þetta efni að segja. Eftir á að hyggja þá held ég að gamla fólkið mitt hafi látið undir höfuð leggjast að segja mér frá brúðkaupssiðum. Þó hefur mér skilist að mikið hafi verið um bónorðsbréf í gangi í sveitinni svona um 1920-30.

Mig langar þó að nefna hér sögu sem mér hefur alltaf þótt góð og hún er af giftingu ömmusystur minnar. Hún hét Jónfríður Halldórsdóttir f. á Grundum í Kollsvík 1882. Móðir hennar hét Halldóra Mikalína Halldórsdóttir og var hún talin skörungskona og mikið í hana spunnið. T.d. tók hún á móti flestum börnum sem fæddust í Víkinni og reyndar víðar eftir að hún varð fullorðin og fram á elliár og lánaðist vel þó hún væri ómenntuð til þeirra verka. En ráðrík var gamla konan og þótti jafnframt ráðholl. Þó þótti Jófríði dóttur hennar nóg um þegar hún var búin að velja sér mannsefni en móðir hennar lagði blátt bann við þeim ráðahag. Gamla konan var vönd að virðingu sinni, og þá sinna.  En mannsefni dótturinnar hafði eignast barn í lausaleik og var einnig kannski full ölkær.

Jófríður þráaðist við að segja unnustanum upp og gerði þá móðir hennar sér lítið fyrir og bannaði klerkum hér á sunnanverðum Vestfjörðum að gifta þau. Og svo mikil áhrif hafði sú aldraða að prestar þorðu ekki öðru en að hlýða. En unga fólkið lét þá krók koma á móti bragði og fóru norður í Arnarfjörð og voru gefin saman í Hrafnseyrarkirkju 1905. Þangað náði ekki áhrifavald hennar langömmu minnar. Þau bjuggu svo í Hafnarfirði mestan sinn búskap, eignuðust 9 börn og er mikill ættbogi frá þeim kominn.

Fleiri konur hér munu hafa viljað hafa hönd í bagga um giftingar dætra sinna en gengið misvel. Unnusti einnar heimasætunnar fór til Ameríku um 1915-18 og ætlaði að koma sér fyrir þar með vinnu og samastað áður en hann sækti sína heittelskuðu. Þetta gekk nokkuð vel, en þegar hann ætlaði að sækja konuefnið sem var ein úr 13 systkina hóp, þá neitaði móðir hennar henni um fararleyfi.  Á þeim tíma hikuðu stúlkur mjög við að ganga í berhögg við vilja foreldra og varð endirinn sá að hann fór einn út. Greip þá unnustuna óyndi mikið svo að systur hennar gengu í málið svo að hún fór á eftir mannsefninu.  Giftust þau þar og eru nú látin fyrir nokkrum árum. Trúlega hefur gamla konan séð fram á að hún sæi ekki dóttur sína framar ef hún færi; sem og varð.

Ég held að oftast hafi verið haldnar brúðkaupsveislur þó ekki hafi verið reglur um hver héldi þær, en nú er kannski meira um að foreldrar brúðarinnar haldi veisluna. Um brúðargjafir veit ég heldur lítið nema frá síðari árum. Þó veit ég að foreldrar mínir fengu veglega stofuklukku í brúðargjöf, og einnig kaffistell; þau giftust 1929. 

Dansstaðir munu löngum hafa verið drjúgir til kynna sem leiddu oft til hjónabands.  Annars heyrði ég um alllangan aðdraganda áður en til brúðkaups kom og trúlofun stóð oft nokkur ár; t.d. heyrði ég um mann sem biðlaði til konuefnisins í 7 ár áður en gekk endanlega saman með þeim, en þetta virtust oftast endingargóð og farsæl hjónabönd.

Trúlofun og gifting

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa gerði hann fyrir Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1992.

Bónorð og trúlofun: Það var sagt að þau væru farinn að draga sig saman, þegar vitað var að piltur og stúlka felldu hugi saman en oft var þetta ágiskun ein. Bónorðsbréf voru til, og jafnvel fram á okkar daga. Það er á allra vitorði að löngum var það siður að piltur bar bónorðið upp við föður stúlkunnar sem hann hafði hug á til hjúskapar. Móðuramma mín sagði svo frá þegar afi minn bað hennar, þá tók hann föður hennar á tal úti í skemmu og hittist svo á að amma kemur í skemmuna þar sem bónorðið var rætt og heyrði hún að faðir sinn segir um þetta, og var svo útgert um málið án þess að hún væri þar til kvödd. Ég þekki par sem var búið að vera harðtrúlofað í misseri eða meira en áður en pilturinn vissi af fékk hann uppsagnarbréf frá stúlkunni en hann var búinn að kaupa trúlofunarhringana en stúlkan fengið bónorðsbréf frá öðrum og þá skipt um skoðun. Ég þekki ekki annað en venjuleg kynni hafi átt sér stað áður en bundist var tryggðarböndum. Hryggbrot heyrði ég oft talað um, jafnvel allt að 9 sinnum hjá sama manninum. Almennt stóð trúlofun nokkurn tíma fyrir giftingar, fór það eftir ýmsum ástæðum, efnum og stöðu. Ekki man ég eftir veislum þegar settir voru upp hringar en það var oft gert á hátíðum.

Persónulega þekki ég ekkert um mótþróa foreldra við giftingu barna sinna, en í sögum er mikið talað um slíkt og of oft hefur slíkt átt sér stað. Trúlofun gat stundum staðið mörg ár, svo var um stúlku sem ég þekkti að móðir hennar stóð á móti en pilturinn var farinn til Ameríku en að lokum lét móðirin undan og stúlkan fór á fund piltsins og giftust þau fljótlega og áttu þau tvo sonu. Þessi kona dó fyrir fáum árum fjörgömul en maður hennar var löngu dáinn. Það var fátítt að fólk byggi í óvígðri sambúð; það var þá helst á efri árum.  Þá gat maðurinn sagt; „þetta er hún Guðrún sem býr hjá mér“. Fólk sem var leynilega trúlofað lét sem minnst á því bera, þó það tækist nú ekki til lengdar.

Brúðarrán þekki ég ekki nema af prentuðum heimildum. Þó ætla ég að segja frá prentaðri heimild um trúlofun þ.e.a.s. þegar hringarnir voru settir upp. Þannig var að trúlofunarparið lék í leikriti þar sem settir voru upp hringir hjá trúlofunar pari í leiknum en parið var ekki aðeins að leika þetta atriði, heldur var þeim fyllsta alvara og tóku hringana alls ekki niður að leik loknum því þetta var þeirra eigin opinberun. Þetta var Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli og hans heittelskaða, að sjálfs hans sögn. Hjónavígsla og hringar. Móðir mín sagði mér að Þórður í Sauðlauksdal hefði sérstakt ávarpsorð í brúðkaupsræðum og þegar hann gifti dóttur sína hafði hann að ávarpsorðum "hæfir skörðótt skel skítugum kjafti". 

Ég man eftir því að systir mín gifti sig heima á Skóganúpi sem var heimili foreldra hennar og margra barna þeirra, tjaldað var við bæinn, kaffi og súkkulaði. Einnig man ég að þrenn systkin giftu sig í einu í Kollsvík í gamla timburhúsi foreldra þeirra. Þetta fór allt fram á einfaldan hátt, klæðnaður aðeins sparifötin, konuefnin á peysufötum og brúðgumarnir á jakkafötum hvítri skyrtu með falleg hálsbindi.  Presturinn flutti sameiginlega ræðu fyrir öll brúðhjónin. Að lokum var stór veisla á eftir og fjölmenni margt. Ekkert vín. Vitanlega voru nokkrir sálmar sungnir við þessa giftingu eins og æfinlega. Borgun til presta hef ég aldrei heyrt nefnda og svo mikið er víst að ég þurfti ekkert að borga presti þegar ég gifti mig en hjónavígsla fór fram í kirkju eftir messu. Svaramenn voru ætíð tveir við hjónavígslur, stóðu þeir sitt hvoru megin í kirkjunni. Fyrirvara í giftingarsáttmála hef ég eigi heyrt né séð og ekki heyrt um neinn sáttmála. Vitanlega fór trúlofun fram oft löngu áður en giftingin. Lýsing til hjónabands var algeng áður og man ég eftir tvennum lýsingum um það leiti sem ég giftist, það gerði sóknarpresturinn frá stólnum að lokinni messu:  „Lýst er til hjónabands með yngispiltinum G.G og yngismær S.S; ef einhver veit meinbaug þar á þá skýri hann frá“. Þetta var tví- eða þrítekið eftir messu eða á tveimur eða þremur kirkjum. Til brúðkaups var boðið nánasta skyldmenni og vinum og kunningjum. Þær giftingaveislur sem ég man eftir voru allir boðnir sem í Kollsvík áttu heima en þá var margt manna þar, og í þriggja hjóna brúðkaupinu voru foreldrar einnar brúðarinnar frá Patró og fleira fólk.

Brúðargang heyrði ég oft talað um en hef aldrei séð hann. Borgaraleg hjónavígsla var framkvæmd af hreppstjóra Rauðasandshrepps í Breiðuvík. Þetta var á öðrum tug aldarinnar, þetta var venjulegt sveitafólk, nokkuð fullorðið.  Venjan var víst að bera giftingarhing á baugfingri hægri handar en mér sýnist nú til dags er sá hringur borinn á vinstri hendi. Aldrei hef ég heyrt það að stúlkan keypti hringana. Hve langt er síðan fólk notaði giftingarhringi úr gulli, hef ég aldrei heyrt, tel það allgamlan sið og grafið innan í þá þín eða þinn og nafn  Snúran kom í notkun snemma á þessari öld; þeir voru mun efnismeiri áður en nú. Dreifbýli og þéttbýli var ekki í tali fyrr en um miðja þessa öld svo ég heyrði. Séð hef ég tvígifta menn með tvo giftingahringa; líka hjón gift alla æfi með engan hring. 

Brúðkaupsveisla: Ekki þekki ég brúðkaup og enga veislu en æði voru þær misjafnar og eru sjálfsagt enn, ekki saman nema að nafninu til. Hér skal sagt frá hjónum sem voru við bú í Kollsvík lengi eftir að ég man eftir. Veislan stóð í þrjá daga og var veittur matur og vín en það var efnaðasti bóndinn í Kollsvík meðan ég átti þar heima. Ekki þekkti ég að húsbændur kostuðu veislu fyrir hjú sín nema þá að einhverju leyti og heimili brúðhjónanna aðstoðað mestar framkvæmdir.  Svefnpláss voru á mörgum bæjum í Kollsvík og..... Ekki man ég eftir að dansað væri í brúðkaupsveislum.  Tvö orgel voru til í Kollsvík frá því að ég man fyrst eftir, og 1 eða 2 harmonikkur. 

Vafalaust var notast við lánaðan borðbúnað; því fylgdist ég ekki með. Um gjafir og kaupmála hef ég ekkert um að segja, aðeins heyrt um tryggðarpant og heimanmund. Elsta brúðkaupsveisla sem ég man aðeins var 1909. Veðralag giftingardagsins þótti lýsa um hjónabandið. Að lokum set ég eina sögu um huldukonu og ungan mann á Látrum. Í þann tíð var selstaða úti á Bjargi frá Látrum, Þetta var að áliðnu sumri og var verið að flytja heim úr selinu en daginn eftir var hinn ungi maður sendur eftir rúmfjölum í selið. Þegar hann kemur í dyrnar sér hann konu liggja í rúminu og þóttist hann sjá að þetta var huldumær all sjáleg og segir hún honum að koma til sín í rúmið en það vill hann ekki og reiðist huldukonan og segir þá, fyrst hann hefi ekki viljað þýðast sig, skuli engar aðrar konur þýðast hann og varð sú raunin á að hann giftist aldrei.
  

Fyrsta jólatréð í Kollsvík

jona valgerdurHöfundurinn:  Jóna Valgerður Jónsdóttir (31.01.1878-31.03.1961) fæddist á Hnjóti; dóttir Jóns Torfasonar og Valgerðar Guðmundsdóttur.  Ellefu ára gömul fór hún að Kollsvík árið 1889, en síðar vann hún víða sem vinnukona, t.d. hjá Markúsi á Geirseyri; séra Þorvaldi í Sauðlauksdal; Gísla Guðbjartssyni á Grænumýri; Guðbjarti bróður sínum í Breiðuvík og hjá hjá Pétri Ólafssyni,  á Patreksfirði.  Hún giftist Jónasi Jónssyni og eignuðust þau 8 börn.  Valgerður fór í vinnumennsku til Flateyjar og Svefneyja; síðan aftur á Patreksfjörð, en árin 1914-1921 bjuggu þau Jónas á Hnjótshólum.  Árið 1921 flutti fjölskyldan að Keflavík og tvemiur árum síðar að Dufansdal, Rauðsstöðum og Auðkúlu í Arnarfirði.  Jónína Hafsteinsdóttir skráði æviatriði Jónu Valgerðar í grein í Árbók Barðastrandasýslu árið 2018, undir heitinu "Sjálfsævisaga Jónu Valgerðar Jónsdóttur frá Hnjóti í Örlygshöfn".  Sjálf ritaði Jóna Valgerður þá grein sem hér má sjá, og birtist hún í tímaritinu Melkorku árið 1949.

Það mun hafa verið um 1880, að sýslumaður sá var í Barðastrandarsýslu, er Adam Fischer hét. Var hann danskur í aðra ætt. En kona hans hét Eva og var aldönsk. Þau áttu margt barna. Það var Eva Fischer, sem fyrst tendraði jólatré á Patreksfirði. Hún var vel lærð kona og spilaði á slaghörpu. Hafði hún skóla fyrir börn sín á vetrum. Eftir að hún var farin, var þeim sið haldið, er hún hafði innleitt, að hafa jólatré, því að þetta þótti merkileg nýjung. Ég sá þetta eitt sinn og hreifst af, því að áður þekktist ekki því líkt. Aðeins eitt og eitt kerti steypt úr tólg.

Veturinn 1899 kveikti ég í fyrsta sinni sjálf ljós á jólatré. Það var í Kollsvík. Bróðir minn, Torfi, bjó það til eftir minni fyrirsögn. Svo málaði hann það grænt. Álmur voru 12 og kross í toppi. Ég steypti kertin úr tólg. Einhverjir smápokar héngu á greinunum með rúsínum og kandísmolum í. Annað var ekki til að skreyta með, nema sortulyng, sem börnin rifu upp úr klakanum. Mikil var tilhlökkun hjá öllum. Enginn, sem þarna var hafði séð jólatré áður. Það var komið aðfangadagskvöld. Öll börnin í báðum bæjunum voru komin í beztu fötin sín. Við systkinin, Torfi og ég, fórum inn í stofu, þar sem jólatréð stóð og beið þess að kveikt væru öll litlu ljósin. Ekkert barnanna mátti koma inn fyrr en allt væri tilbúið. Nú gáfum við merki með því að slá stórri lyklakippu í bollabakka og inn streymdi allur skarinn; 20 að tölu, stór og smá. Eitt þeirra var litli Bjartur, nú Guðbjartur hafnsögumaður. En sú undrun og gleði, sem lýsti sér í andlitum litlu barnanna, sem aldrei áður höfðu séð þvílíka ljósadýrð. Mörgum fullorðnum og gömlum konum vöknaði um augu. Þá hófst söngur: „í Betlehem er barn oss fætt" og „Heíms um ból" og svo mörg ættjarðarljóð. Allir skemmtu sér hið bezta. En einn var sá, sem ekki gat verið viðstaddur. Það var fáðir minn. Hann lá í rúmi sínu í litlu herbergi niðri í kjallaranum, kominn yfir áttrætt og hafði aldrei jólatré séð. Við tókum því tréð og bárum það ofan til hans með flögrandi ljósunum og settum það við rúm hans. Áður lifði þar aðeins á lýsislampa. Hann settist upp, er við komum og sagði: „Þar sé ég nú í fyrsta sinn líkingu af ljósum þeim, er leiftruðu hina fyrstu jólanótt. Hafið þið kæra þökk fyrir komu ykkar." Meðan síðustu kertin voru að brenna út, sungum við jólasálma og hann, sem þó hafði nú upp á síðkastið ekki getað sungið fyrir þungu lungnaerfiði, söng nú með. Síðast söng hann einn þetta vers:

Aðfangadagur dauða míns
Drottinn, nær kemur að,
hyl mig í undum hjarta þíns
hef ég þar góðan stað.

Eilífðar sælu ég svo jól
jafnan haldi með þér.
Þá er upp runnin sú mér sól,
sem ég þrái hér.

Nú var síðasta kertaskarið að slokkna. Við buðum góðar nætur og fórum með fyrsta og síðasta jólatréð er öldungurinn sá.

Jól í Kollsvík 1920

Höfundur:  Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).  Ritað 1988.

Fyrir jólin var sett upp jólatré, heimatilbúið, klætt með grænu lyngi og einihríslum, uppistaðan og greinar úr tré. Á toppi trésins var málmbúnaður þar sem 3 eða 4 kerti stóðu á með ljósum en ofarlega eða yfir kertunum var málmþynna skrúfulöguð, í þessa plötu voru litlir englar með málmspaða sem slógust í bjöllur sem voru settar þannig að viðnám þeirra við bjöllurnar var eins og klukknahringing því hitinn af ljósum kertanna snéru plötunni með englunum. Þetta þótti mér 6 eða 7 ára stórfurðulegt og sem ég aldrei gleymi. Á trénu voru margs konar körfur, kramarhús með sælgæti í sem börnin fengu þegar kertin voru að brenna út. 

Jólaundirbúningur byrjaði nokkru fyrir jól. Til dæmis þurfti að þvo bestu fötin því það gat verið að ekki væri til skiptanna, en ekki þekkti ég það persónulega.  Það tók tíma að gera jólaskóna á alla, þeir voru gerðir oft úr sauðskinni, oft blásteinslituðu, stúlkur fengu frekar sauðsvarta skó og allir jólaskór voru bryddaðir með vel eltu sauðskinni, vel hvít. Þá voru öll gólf uppi og niðri vandlega þvegin, sömuleiðis gluggar og hurðir, olíulampar hreinsaðir og fægðir og fylltir með olíu.   Allsherjar hreingerning á bænum fór fram að vorinu í góðu veðri, þá var allt lauslegt borið út í sólskinið, rúmföt og jafnvel rúmbotnar sem voru lausar fjalir á listum, allt þvegið og viðrað.  Þá var það jólabaksturinn; s.s. kleinur, ástarpungar, smákökur, hálfmánar, jólakökur og pönnukökur. 

Á Þorláksmessu var borðuðu skata, söltuð og sigin, afvötnuð og flegin. Á aðfangadag, sérstaklega að kvöldi, var borðað hangikjöt.  Fyrir kom að til var þurrkað rafabelti af stórlúðu, það þótti hátíðamatur. Á jóladag var ýmist saltkjöt eða hangikjöt og grjónagrautur með rúsínum með kaffi, alls konar jólabrauð eða þá súkkulaði eða bara kakó. Á nýári var matur svipaður og á jólum. 

Jólaskraut var lítið eða ekkert annað en heimgert tré klætt lyngi og eini.  Jólaskór var ekki nefndur fyrr en líklega síðustu áratugina og hefi ekki kynnst slíku nema í umtali.  Ég kannast við jólaföstuleikinn, þá voru þeir gestir sem komu á bæinn yfir föstuna skrifaðir upp og síðan nöfnin á miða sem dregið var um, konur drógu karlamiða og öfugt, aldrei tók ég þátt í þeim leik.  Jólasveina þekkti ég aðeins af umtali og sögnum.  Það eru líklega 20 - 25 ár síðan ég sá fyrst leikinn jólasvein.  Hlutverk jólasveina var aðeins gamantal manna á milli.  Börnin þekktu þó nöfnin á þeim og eina eða tvær vísur um þá. 

Jólasöngvar voru fyrst og fremst jólasálmar og ýms kvæðalög. Þá man ég eftir einu versi sem faðir minn söng ávallt eða oft á aðfangadagskvöld, það byrjaði þannig: Aðfangadagur dauða míns Drottins nær kemur að.....  Mér er svo í minni er ég heyrði Gunnar Benidiktsson rithöfund segja frá því að í æsku hans hafi þetta sama vers verið sungið á aðfangadagskvöld en það er svo að segja á öðru landshorni. 

Í æsku minni heyrði ég ekki minnst á jólagjafir, nema þá kannske kerti eða spil. Jólapappír sást varla fyrr en svona 15 síðustu árin. Jólaleikir voru ýmsir, til dæmis þá voru hvísluð nöfn viðstaddra, stúlku piltanafni og öfugt, síðan áttu piltar allir að fara í annað herbergi og koma síðan inn til stúlknanna en þá átti (einn í einu) og átti hann að hneigja sig fyrir þeirri sem honum þótti líklegust að væri með sitt nafn. Ef hann hitti á þá réttu bauð hún honum sæti hjá sér ef ekki þá fékk hann hryggbrot og var samstundis vísað út, oft gáfu stúlkurnar eins konar merki eða augnaráð ef þær vildu hjálpa piltinum til sín. Þá var leikur sem hét „að segja Spánarkonung dauðan“ einn eða ein sagði þessar fréttirnar og þurfti sá að vera fyndin í orðum og athöfnum en hann mátti alls ekki hlægja þótt allir aðrir skellihlægju. Spil voru mikið notuð um hátíðar og oftar gamalt spil sem púkk var kallað, lander, 21 eða ½12.  Fjögurra manna vist var mjög algeng; gamalt fólk spilaði helst ekki annað.  Og Lomber man ég eftir. Þetta á mest við um 2. tug þessarar aldar. 

Jólakort og skemmtanir aukast með ungmennafélagsstörfunum en þá er ég 12 ára en ungmennafélag náði yfir útvíkurnar 3, þ.e. Kollsvík, Breiðavík og Látra. Ég hefi einhvern tíma minnst áður á kortakassann sem ungmennafélagið stóð fyrir. Í kassanum var kortum og kveðjum safnað fyrir jól og síðan lesið upp úr honum á jólatréssamkomu á jóladag og á annan jóladag var dansað í stofu í gamla timburhúsinu í Kollsvík en þetta hús var byggt fyrir aldamót síðustu en nákvæmlega veit ég ekki, það mun hafa staðið fram yfir 1920. 

Þessi frásögn er miðuð við æsku og bernsku mína eða til 1925.

Jól Bernsku minnar

gudrun gudbjartsdottirGuðrún Anna Magdalena Guðbjartsdóttir (03.06.1919 – 07.06.2008) fæddist í Tröð í Kollsvík.  Hún fór ung til Reykjavíkur í vetrarvinnu, en dvaldi í foreldrahúsum um sumur.  Árið 1943 flutti hún til Reykjavíkur  og bjó þar síðan með manni sínum; Marís Kristni Arasyni.  Þau eignuðust fjögur börn.  Pistil þennan skrifaði Guðrún til birtingar í Niðjatali Hildar og Guðbjartar, foreldra sinna, árið 1989. 

Ég hefði gaman af að reyna að festa á blað smá endurminningar um jól, og undirbúning þeirra; þegar við systkinin vorum að alast upp.  Til að gefa börnum okkar og barnabörnum innsýn í okkar bernskujól.

Það er ekki hægt að lýsa þeirri eftirvæntingu sem ríkti fyrir hver jól; svo mikil var hún.   Snemma í desember var farið að tala um að nú þyrfti að fara að huga að jólunum.  Þá var farið að prjóna sokka á okkur börnin og sauma að minnsta kosti buxur á strákana og  kjól á stelpuskessuna; sem var ég ein á tímabili þar til ein jólin, að við fengum óvænta jólagjöf.  Það var lítil systir; eftir henni var ég, að minnsta kosti, búin að bíða lengi.  Og að sjálfsögðu lá það beinast við að hún fengi viðurnefnið Lilla.

Í jólamánuðinum var ótalmargt sem þurfti að gera, svo allt yrði tilbúið þegar hátíðin gengi í garð.  Meðal annars sem þurfti að gera var að búa til skinnskó á allan hópinn, og helst að prjóna leppa í þá.  Nú munu efalaust þeir ungu í dag þurfa að spyrja hvað þessir leppar voru, en ég læt unga fólkið um að finna það út sjálft.  Nú, og síðan þurfti að baka, en það var ekki gert fyrr en stuttu fyrir jól.  Fyrst þurfti að fara í kaupstað og reyna að útvega efni í baksturinn og ýmislegt fleira, en innkaupin fóru eftir efnum og ástæðum.  Í desember var oft vont veður og erfitt að komast í kaupstað, því leiðin lá yfir erfiðan fjallveg sem fara varð gangandi.  Ekki var hægt að fara sjóleiðina úr Víkinni að vetri til, vegna stórsjóa og brims.  Var því farið yfir Hænuvíkurháls, og síðan sjóleiðina frá Hænuvík til Patreksfjarðar.  Oft kom það líka fyrir að fara varð alla leið inn í Örlygshöfn til að komast yfir fjörðinn.  Ég man eftir að pabbi þurfti oft að fara langt inn í fjörð í þessum ferðum, og bera síðan allt á bakinu heim.

Pabba þótti ekki mikið mál að ganga langar vegalengdir, því hann var annálaður göngugarpur; bæði léttur á fæti og hljóp frekar en gekk.  Skemmti hann sér stundum við það að ganga þá af sér sem þyngri voru til göngu.

Einhver mesta tilhlökkunin var að undirbúa jólatrésskemmtunina, sem Ungmennafélagið Vestri sá um fyrir börn úr Kollsvíkinni; en í þá daga voru mörg börn í Víkinni.  Vanalega var haldinn fundur um hvar ætti að hafa tréð og hvernig haga ætti öllu þar í kring.  Ekki var um annað að ræða en að hafa það á einhverju heimilinu.  Ákveða varð hvað ætti að kaupa til að láta í jólapokana, og hverjir ættu að búa þá til.  Stundum var ekki til efni í pokana.  Þá voru teknar kápurnar utanaf stílabókunum okkar, sem voru allavega litar, og notaðar sem efni í jólapokana.  Eitt af því sem þurfti að gera í sambandi við undirbúning jólatrésskemmtunarinnar, var að fara fram í Vatnadal og ná í lyng til að nota á tréð; varð alltaf einilyng fyrir valinu.  Tréð, sem var gert úr spýtu, var svo hulið með lynginu.  Allavega kúlur voru líka settar á tréð, svo sem nú er gert, og efst á því trónaði svo toppur.  Síðan voru sett lítil kerti á það, í þar til gerðum klemmum.  Tilbúið tréð var svo geymt þar til kom að jólum.

Allt var hreinsað og fágað sem hægt var fyrir jólin, til að allt liti sem best út.  Á Þorláksmessu var alltaf borðuð skata, eins og raunar er gert víða enn.  Bakaðar voru hveitikökur og kleinur og á Þorláksmessu var stundum spilað á spil.  Pabbi hafði mjög gaman af því að spila, og var talinn mikill spilamaður.  Á aðfangadag var nóg að gera.  Reynt var að gera útiverkin snemma dags, þannig að allt væri tilbúið fyrir klukkan sex og allir komnir í sparifötin.  Upp úr sex fór pabbi að lesa húslesturinn, sem tók þó nokkuð langan tíma.  Ekki ábyrgist ég að ungviðin hafi alltaf setið kyrr undir lestrinum.  Sjálf var ég ekki barnanna best í þeim efnum.  Að loknum lestri var þakkað fyrir hann og óskað gleðilegra jóla með kossi.  Sest var að borðum, og var þá stundum kjöt af nýslátruðu, en algengara var þó saltkjöt eða hangikjöt.  Annars man ég ekki svo glatt eftir matnum, því hugurinn var við annað.  Þótt ekki tíðkuðust jólagjafir í mínu ungdæmi, var það svo margt sem gladdi á jólunum.  Öll fengum við kerti og spil, sem var okkar sameign.  Aldrei mátti spila á aðfangadagskvöld.  Á jólanóttina var alltaf látið lifa ljós, og það þótti manni nú aldeilis gaman.  Þegar jóladagur rann upp, las pabbi okkur húslesturinn snemma morguns.  Að því loknu fórum við krakkarnir út á sleða, ef þannig viðraði.  Seinnipart dags fór svo fólk að drífa að, vegna þess að jólatréð var núna á okkar heimili, og klukkan sex til sjö var kveikt á trénu.

Nú var runnin upp sú stund sem allir höfðu beðið eftir; bæði ungir og gamlir.  Fyrst var gengið í kringum jólatréð og jólasálmar sungnir, og allir fengu jólapoka.  Síðan var farið í leiki, og færðist þá heldur betur fjör í mannskapinn.  Við þetta var unað; minnsta kosti þeir yngri, langt frameftir kvöldi og jafnvel framá nótt.  Svolítil breyting varð á þessu við tilkomu útvarpsins, fyrir jólin 1930.  Til að byrja með var aðeins eitt útvarp í Víkinni, og var það haft miðsvæðis í henni; eða á Stekkjarmel.  Mig langar að minnast atviks sem gladdi okkur krakkana um ein jólin, en það var þannig að það kom gestur í Víkina; gamall vinur og frændi pabba og allra í Víkinni.  Hann afhenti Einari bróður, sem þá var formaður Vestra, og var það raunar um árabil; fimmtíu krónur, og bað hann að kaupa eitthvað handa krökkunum sem kæmu að jólatrénu.  Þetta er okkur, sem urðum þess aðnjótandi, svo ógleymanlegt að enn þann dag í dag, þegar maður lítur yfir allar þær gjafir sem börnin fá; dettur manni þetta atvik í hug, og hvort þau séu nokkuð ánægðari en við vorum þá.

Á annan í jólum fórum við á næstu bæi, eða einhverjir komu til okkar, og var þá spilað og spjallað.  Stundum spiluðu karlarnir alla nóttina.  Enn hef ég ekki minnst á það hver bar hitann og þungann af öllu umstanginu og vinnunni sem þessum jólaundirbúningi fylgdi.  Það voru auðvitað foreldrar okkar; og þá ekki síst móðir okkar, sem litla hjálp hafði fram eftir árum.  Hún lagði nótt við dag til að anna öllum sínum verkum og var oftast með smábarn líka, því börnin urðu mörg.  Heiður eiga þau skilinn, foreldrar okkar, fyrir að ala upp allan sinn stóra barnahóp og koma honum til manns; þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og kröpp kjör.

Jól í bernsku minni

gudbjartur ossurarsonHöfundurinn:  Guðbjartur Össurarson er fæddur 16.02.1954 á Láganúpi og ólst þar upp.  Lauk verslunarprófi og framhaldsnámi frá Samvinnuskólanum Bifröst og fékkst við skrifstofustörf, m.a. hjá Kaupfélagi A-Skaftfellinga á Höfn.  Stofnaði síðan bókhaldsstofu á Höfn í Hornafirði og rekur hana með konu sinni; Agnesi Ingvarsdóttur.  Um tíma var hann sveitarstjóri á Hornafirði.  Guðbjartur er ljóðskáld gott og hefur verið afkastamikill á því sviði, þó ekki hafi hann flíkað því opinberlega.  Ættfræði kann hann einnig betri skil á en margir aðrir.  Pistil þennan mun Guðbjartur hafa tekið saman í tilefni af ættarmóti Kollsvíkinga.

Ég var beðinn að minnast jóla bernsku minnar með nokkrum orðum.  Þá er fyrst að nefna, að ég ólst upp í vík vestur á fjörðum, þar sem nútíminn hafði ekki að fullu haldið innreið sína þegar ég var barn.  Í víkinni voru á þessum tíma þrjú býli, þó að nú hafi þar enginn fasta búsetu lengur.  Vegasamband var ófullkomið og oft ófært til og frá víkinni um lengri eða skemmri tíma yfir vetrarmánuðina.  Rafmagn höfðum við heima á Láganúpi frá lítilli 12 volta ljósavél, sem rétt dugði til brýnustu lýsingar í íbúðarhúsinu, en rafknúin heimilistæki voru ekki til þá.  Upphitun var frá stórri olíueldavél, en við hana voru ofnarnir tengdir.  Hlýtt var og notalegt í gamla íbúðarhúsinu, en ekki teldist það stórt á nútímamælikvarða miðað við íbúafjöldann.  Fyrst þegar ég man eftir mér voru í heimilinu yfir vetrartímann foreldrar mínir, föðurafi minn aldraður og móðuramma mín.  Ég er elstur fimm bræðra, en þar sem Valdi bróðir er aðeins rúmum tveimur árum yngri en ég, get ég ekki sagt að ég muni eftir jólahaldi áður en hann fæddist.  Til viðbótar heimilisfólkinu dvöldu oft móðurbræður mínir hjá okkur á aðfangadagskvöldið, einn til þrír eftir atvikum. 

En nú er að rifja upp sjálft jólahaldið.

Alltaf var farið í kaupstað fyrir jól, oftast með góðum fyrirvara ef færðin skyldi spillast.  Ekki var langt í næstu verslun, en við bjuggum svo vel í hreppnum þá, að þar voru tvö kaupfélög.  Í okkar félagi, Sláturfélaginu Örlygi, var hægt að fá alla helstu nauðsynjavöru, en yfirleitt var líka farið í kaupstaðinn á Patreksfirði til að kaupa gjafavöru.  Ekki síst voru það bækur sem allt heimilisfólkið var sólgið í og voru þær oft uppistaðan í “hörðum pökkum” sem gefnir voru.  Venjan var að kaupa kassa af eplum og annan af appelsínum fyrir hver jól, auk þess malt og appelsín og stundum fleiri gosdrykkjategundir.  Einnig var meira um sælgæti á jólum en í annan tíma ársins, þó að yfirleitt lumuðu afi og amma alltaf á einhverju slíku til að gauka að ungviðinu.  Sjálfur jólaundirbúingurinn heima hófst með allsherjarhreingerningu á öllu innanstokks í íbúðarhúsinu.  Loft, veggir og gólf, allt var þetta skrúbbað og skúrað, þrifið og raðað í skápum og skúffum, viðruð gluggatjöld og sængurfatnaður.  Engar ryksugur eða þvottavélar til að auðvelda verkin, þvotturinn var þveginn í stórum, kolakyntum þvottapotti og síðan hengdur út á snúrur.

Ekki var sápulyktin fyrr rokin úr húsinu, en ilmur af nýbökuðum kökum og brauði tók við.  Yngri kynslóðin kom lítið að bakstri, en var liðtæk við konfekgerðina, sem var fastur liður fyrir hver jól.  Alltaf varð einhver rýrnun á framleiðslunni á vinnslustigi,  en slíkt var talið óhjákvæmilegt og ekki litið alvarlegum augum.

Næsta skref í jólaundirbúningnum var, að jólatréð var sótt upp á loft í verkfærahúsinu.  Það  var um eins metra há trésúla, sem stóð á fæti úr ferköntuðum, þungum plankabút.  Borað hafði verið í súluna með hæfilegu millibili fyrir mjóum “greinum” sem vísuðu út og örlítið uppávið, lengstar neðst en styttust eftir því sem ofar dró.  Þetta tré, sem var grænmálað, var nú tekið og greni fest á greinarnar með sterkum, grænum tvinna.  Þegar verkinu lauk var komið fallegt, lítið grenitré, merkilega líkt lifandi tré, enda lifandi að miklu leyti.  Yfirleitt var tréð síðan skreytt á aðfangadag.  Þegar við bræður höfðum aldur til fengum við það verkefni, enda gott að stytta þann dag með því að hafa nóg fyrir stafni.

Á Þorláksmessu var venja að sjóða skötu í hádeginu, ef hægt hafði verið að nálgast slíkt hnossgæti og að sjálfsögðu vestfirskur hnoðmör til viðbits.  Um kvöldið voru alltaf á borðum reyktir bringukollar.  Það var ævagamall siður ekki síður en skatan, bringukollarnir hafðir heitir á Þorláksmessu og afgangurinn borðaður kaldur á jóladag.

Að morgni aðfangadags var gengið til búverka eins og venjulega, farið í fjós og  kindum hleypt út úr fjárhúsum ef ekki var slæmt veður.  Á þessum tíma var sá siður óþekktur, að hafa fé í húsum samfellt frá hausti til vors og ráku bændur í minni sveit fé sitt ýmist til beitar á útjörð eða fjörubeitar.  Seinnipartinn skilaði féð sér aftur að húsum, var hleypt inn og því gefið.  Reynt var að velja bæði fé og kúm gott hey um jólin og ríflega gefið á garðann.  Þegar fjárhúsverkum var lokið héldu menn heim, þvoðu sér og bjuggust í jólafötin. 

Alltaf var miðað við, að menn væru tilbúnir og sestir inn í stofu fyrir klukkan sex, þegar klukkur Dómkirkjunnar hringdu inn hátíðina og jólamessan hófst í útvarpinu.  Þann tíma sem hún stóð yfir sátu allir hljóðir og stilltir, pabbi lagði mikla áherslu á það og tókum við enga áhættu með því að brjóta boð eða bönn þetta kvöld.  Mamma og amma fengu reyndar undanþágu frá þessari reglu (ekki að spyrja að kvenréttindunum fyrir vestan), því þegar líða tók á messuna fóru þær að undirbúa kvöldmatinn. 

Að messu lokinni stóðu menn upp, óskuðu hver öðrum gleðilegra jóla og innan stundar var sest að borðum.  Fyrst þegar ég man eftir var yfirleitt ofnsteikt lambalæri á borðum á aðfangadagskvöld, matreitt eftir kúnstarinnar reglum með brúnuðum kartöflum og öllu öðru því meðlæti sem fáanlegt var.  Svínakjöt var stundum eftir að það varð algengara, en í heild má segja að menn hafi ekki bundið sig í neina fasta hefðarfjötra með jólamatinn, nema á Þorláksmessu eins og áður segir.  Rjúpur hafði ég ekki bragðað áður en ég kom til Hornafjarðar.  Þær voru reyndar algengar til fjalla fyrir vestan, en mamma var andvíg rjúpnaveiði og hefði seint matreitt þann fugl.  Að lokinni máltíð tygjaði pabbi sig til ferðar í fjósið, því kýrnar þurfti að mjólka og þær að fá kvöldgjöfina, hvað sem jólum leið.  Eftir að við strákarnir eltumst fórum við með honum og reyndum að flýta fyrir.  Heima biðu nefnilega pakkar, sem nokkur óþreyja var að skyggnast í.  Þeir alyngstu og óþolinmóðustu fengu reyndar stundum að opna einhvern pakkann sinn áður en farið var í fjósið, svona til að stytta biðina.  En að lokinni fjósferðinni settust allir viðstaddir inn í stofu. 

Þrátt fyrir að rafmagnið væri af skornum skammti, var jólatréð ljósum prýtt, með litlum kertum sem fest voru á endann á smíðuðu greinunum, þær voru traustar.  Og auðvitað hafði jólatréð verið prýtt með allskonar glitrandi jólaskrauti.  Jólaseríur og annað skraut sem tengja þurfti rafmagni var að sjálfsögðu utan hins mögulega í bænum.  En nú var hafist handa við að opna pakkana sem biðu við tréð.  Fyrir utan gjafir frá heimilisfólkinu sjálfu bárust margir pakkar frá ættingjum og vinum, sem borist höfðu með pósthestunum undanfarna daga og vikur.  Á æskuárum mínum var pósturinn nefnilega ennþá fluttur á hestum í sveitinni.  Spenningurinn hjá ungdómnum þegar jólapakkarnir voru opnaðir hefur örugglega ekkert breyst í tímans rás, þó að innihald gjafanna hafi tekið einhverjum breytingum.  Munurinn er kannske helst sá, að þá fengu börn sjaldan gjafir nema á jólum og kannske afmælum, en nú eru gjafir algengari af ýmsu tilefni.  Og jólasveinarnir höfðu ekki enn tekið uppá að stinga ýmsu smálegu í skó hjá smáfólkinu þegar ég var barn.

Tognað hefur á þessari frásögn minni frá því sem í upphafi var áformað.  Best er því að ljúka henni þegar lagst var á koddann seint að kvöldi, eftir langan og viðburðaríkan aðfangadag. 

jol laganupi 1971

Jól á Láganúpi, líklega 1971.  Didda, Össur, Hilmar, Egill og Valdimar með Kára.  Jólatréð gamla í baksýn.  Á hillunni eru jólasveinarnir, sem Didda teiknaði, sagaði út og málaði.  Guðbjartur hefur sennilega tekið myndina og framkallað hana sjálfur að Bifröst, þar sem hann var þá í námi.   -VÖ-

 

 

 

 

 

 

Lýðveldisdagurinn 17. júní

Höfundur:  Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér framar).  Svör 1995 til þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins.

Nokkuð var um að kóngafólkið héngi á veggjum fólks þegar ég man fyrst eftir, en síðar var meira um Jón Sigurðsson á veggjum eftir að mynd af honum var prentuð og dreift.  Enn hangir hér mynd af honum yfir skrifborðinu.

Borðfánastöng var til heima svo lengi sem ég man, sem pabbi smíðaði úr kopar og á henni var íslenski fáninn. Stóð hún á skáp í stofunni öll mín uppvaxtarár. Fánastangir risu við þó nokkra bæi um og upp úr 1944.

Ekki man ég til að 1. des væri haldinn hátíðlegur á mínum uppvaxtarárum nema þegar ég var á Núpsskóla 1945 - 47. Þar var dagurinn haldinn hátíðlegur.

Ekki minnist ég stórhátíðahalda 17. júní á fyrstu árum lýðveldisins.  En í bændaþjóðfélaginu voru slík hátíðahöld að vísu með öðru sniði en í bæjum, þar sem menn fengu sína frídaga.  Í búskapnum þarf að sinna störfum alla daga. Af skiljanlegum átæðum sleppi ég umræðum um Alþingishátíðina 1930. Sama er að segja um sjálfstæðisbaráttuna, nema ég heyrði alltaf talað um aðskilnaðinn við Dani sem sjálfsagðan.

Ekki minnist ég hátíðahalda 17. júní 1944 og ég man eftir umræðum um hvort ástæða væri til að taka sér frí eftir því sem bústörf leyfðu þennan dag. Sýndist þar sitt hverjum; t.d. var vegavinnuflokkur þetta vorið við endurbætur á vegi á Rauðasandi, þar sem verkstjórinn harðneitaði að gefa sínum mönnum frí. Ég man þetta vegna þess að þar var ég hjálparkokkur þó ung væri. Meira get ég víst ekki um þetta efni sagt.

Bóndi minn las yfir þessar línur og gerði við þær smáathugasemdir. Faðir hans og eldri systir fóru á Þingvöll 17. júní ´44 og það hefur verið þó nokkuð ferðalag á þeim tíma. Einnig var hann þá að vinna í vegavinnu í Tálknafirði og þar var öllum gefið frí.