Þorrablót í Fagrahvammi voru lengi árviss viðburður í Rauðasandshreppi, en fátt hefur varðveist af því ágæta frumsamda skemmtiefni sem þar var borið á borð með þorramatnum.  Þennan gamanbrag samdi Dagbjörg Ólafsdóttir í Hænuvík, en Össur á Láganúpi var ráðunautur um bragarhætti.

 Þorrablót voru árlegur viðburður meðan Rauðasandshreppur hélt sjálfstæði, og jafnan mjög fjölsótt; ekki einungis innansveitar heldur einnig af aðkomufólki.  Sveitinni var skipt upp í svæði sem stóðu að blótinu til skiptis; sáu bæði um veitingar og skemmtiefni.  Urðu þau mörgum hvatning til skáldskapar og leiklistar.

Þetta kvæði var flutt á þorrablóti í Fagrahvammi í janúarlok, líklega rétt fyrir 1970 eða þar um kring, þegar Útvíknamenn og Bæjarmenn sáu um blótið.  Dagbjörg Ólafsdóttir, (03.09.1924-11.08.2017) sem oftast var nefnd Dæja í Hænuvík meðal kunningja, og Össur  Guðbjartsson (19.02.1927 - 30.04.1999) unnu iðulega saman að vísnagerð í slíkum tilvikum.  Dæja samdi braginn af sinni alkunnu kímni.  Hún sagði að andinn kæmi oft yfir sig við mjaltir.  Össur las kvæði hennar yfir og færði í bragstílinn.  Dæja flutti síðan kveðskapinn á þorrablóti, en hún var góð söngkona og hafði meðfædda leikhæfileika. 

Hér bregður Dæja sér í hlutverk einhleyprar konu sem fer um Rauðasandshrepp í þeim tilgangi að eygja vænlegan eiginmann.  Samtímamenn vissu við hverja var átt, þó hér sé margt fært í ýkjustílinn.

Bónorðsförin

Ég er á sextugsaldri, og silfra tekið hár

en samt ég vildi hamingjunnar leita.

Því piparkerling hef ég verið alltaf þessi ár

en ætla að finna hnossið upp til sveita

 

Hundrað kíló vóg ég hérna í fyrravor.

Heldur er það mikið segir granninn.

En þær eru ekki duglegri sem drepast vilja úr hor,

né dyggari þótt málaður sé kjamminn.

 

Ég pjakkaði svo hingað, á piparsveinamót.

Passlegan ég vildi hafa drenginn.

Ég er nú reyndar hvorki lagleg eða ljót

á liðnum árum vildi mig þó enginn.

 

Ég segi ykkur þetta, er sitjið hér í kring

og sjáið mig og ljáið þessu eyra.

Mig svíður enn í hjartað og sáran hef ég sting.

Söguna þið fáið nú að heyra.

 

Að Vesturbotni beindi ég för minni þá fyrst;

þar frændur veit ég tvo, svo káta og hressa.

Ég heyrði sagt að þeir hefðu konu aldrei kysst

og komst í stuð og hlakkaði til þessa.

 

Heimakæri frændinn, hann rekur blómlegt bú;

blessaður hann var að láta út kýrnar.

Ég flýtti mér þá til hans og sagði „sælinú

ég sest hér að“; hann hvessti á mig brýrnar.

 

„Ég kann að mjólka belju, ég kann að elda mat;

konur þekkja enga mannasiði.

Ég kæri mig sko ekki um kvenmannsapparat,

kom því brott og láttu mig í friði“.

 

Ég undrandi og hissa á viðtökunum varð

og vildi í flýti þaðan burtu ganga.

En rétt í þeirri andrá ég gekk útfyrir garð

og ganaði þá beina leið á Manga.

 

Ég sagði honum erindið, hann undrandi á mig leit

og út í annað munnvikið kom gretta.

„Ég er svo eftirsóttur í bæ og borg og sveit

ó blessuð, þú ert alls ekki sú rétta“.

 

Næst fór ég á Rauðasand, þar rýringur er einn,

raunalegt að hann skuli ekki fitna.

Í kvenna og ástamálum er hann mjög svifaseinn

í sína ævi byrjaði að vitna:

 

„Eitt sinn var ég giftur, og átti konu og bú

á öllu slíku var þá mikill kraftur.

En fjandinn kom í spilið og farin er hún nú;

ég fer víst ekki að byrja á slíku aftur“.

 

Ég var nú svona í huganum hnuggin bæði og reið.

Hnjótsheiði ég lagði undir fótinn.

Ég vildi ekki gefast upp, þó grýtt væri mín leið

því gatan stefndi beint á Örlygshnjótinn.

 

Ég knúði þar nú dyra og komst þar óðar inn,

erindi mitt faktornum ég sagði.

„Því er nú verr og miður, ég verð ei bóndi þinn“.

„Hvað veldur því“? ég segi nú að bragði.

 

„Það var í hitteðfyrra, ein stúlka kom á kreik,

svo knúsandi og dásamleg að tarna.

Við þessa glöðu meyju ég fór í feluleik.

Hún faldi sig í rúminu mínu þarna.

 

Um morguninn ég uppdagaði óttalega þraut;

ég alsettur var heljarmiklum bólum.

Með þessar rosaskellur til Þóris læknis þaut,

ég þreyttur var og linnti ekki gólum“.

 

Mér fannst alveg hræðilegt að heyra þetta um Jón.

Ég hrifin var svo fjarskalega af honum.

Nei það var ekki glæsilegt að gera úr okkur hjón

fyrst greyið hafði ofnæmi fyrir konum.

 

Er burtu gekk ég þaðan þá sagði mér hann Sveinn;

það sögðu líka menn á næstu bæjum:

Í Hærri-Tungu væru þeir, heldur tveir en einn,

Að hugsa sér, og annar lá á gægjum!

 

Hann hefur bara séð, þegar kom ég karlmannslaus;

kannske vissi hann hvað ég vildi segja.

Hann flýtti sér í bólið og breiddi uppfyrir haus

og bjóst þá við að af hræðslu myndi hann deyja.

 

Hinn stóð inni í stofu og starði á sjónvarpið;

stæðilegan kroppinn hafði að bera.

Hann sagði heldur snúðugt: „Hvað var það fyrir þig?

Hvað viltu hingað?  Hvað ert þú að gera“?

 

„Heyrðu hérna lagsi, lýst þér ekki á mig?

Lagleg er ég, sérstaklega í myrkri.

Ég fylgi þér í rúmið, þá fer svo vel um þig,

og faðma þig með jómfrúrhendi styrkri“.

 

Sá varð nú heldur byrstur og sagði: „Fussum fei;

ég fer víst ekki að leika mér við skvísu.

Það kemur ei til mála; nei og aftur nei;

ég var nefnilega að horfa á hana Dísu“!

 

Mér leist nú ekki á blikuna, en labbaði þó af stað,

því langt er orðið þarna á milli bæja.

Í Púdduvík þó loksins ég haltraði í hlað

með hælsæri á löppunum; nú jæja.

 

Sá var að hreinsa tófuskinn, en óðar undan leit

og upphóf sína dóma þarna í hvelli.

„Þú ert alltof gömul; þú ert alltof feit;

þú ert eins og belja á hálu svelli“!

 

Það er nokkuð erfitt að ætla að ná í mann;

ég var uppgefin á líkama og sálu.

Á ferð minni um sveitina ég engan vinning vann.

Þeir vilja heldur unga stelpugálu.