Eddukvæði (n, hk, fto)  Forn norræn kvæði með minnum úr goðsögnum og hetjusögnum.  Þau varðveittust lengi vel í munnlegri geymd, en á 13.öld var farið að færa þau í letur.  Konungsbók eddukvæða varðveitir flest eddukvæði, en hún var skrifuð um 1270.

Edúment (n, hk)  Nytsamt áhald/tæki; góð uppfinning; rarítet.  „Þetta er alveg frábærlega snjallt edúment“.  Orðið finnst ekki í orðabókum, hvorki íslensku né granntungna, nema sem sambræðingur úr „education“ og „mentor“ eða „development“, o.þ.h.  Sumir notuðu þetta mikið vestra, t.d. Sv.Gbj.

(st) Sem.  Jafnan í orðtakinu þar eð, en nokkuð algengt þannig  „Bað hann um aðstoð svo fljótt sem hægt væri, þar eð þeir væru orðnir þjakaðir og of fáliðaðir... “  (ÞJ; Sargon strandi; Árb.Barð 1949). 

Eða hitt þó heldur (orðtak)  Eða alveg öfugt.  Algeng upphrópun; niðurlag setningar þar sem í fyrrihlutanum felst þverstæðamótsögn þess sem við er átt.  „Þetta er glæsilegt, eða hitt þó heldur“!

Eða hvað það nú er (orðtak)  Hvað sem það er nú.  Niðurlag setninga sem gjarnan er bætt við þegar menn vilja lýsa vanþekkingu sinni eða fyrirlitningu/lítilsvirðingu á því sem um er rætt.

Eða svo (orðtak)  ...eða um það bil; ... eða nærri því.  Notað í endingu setningar til að undirstrika óvissu.  „Ætli þeir hafi ekki fengið eina tunnu eða svo“.  „Það má enn troða í hlöðuna; einum heyvagni eða svo“.

Eðalfæða (n, kvk)  Einstaklega góður og hollur matur.  „Þessi hákarl er hreint út sagt eðalfæða“!

Eðalmetall (n, kk)  Eðalvín; mjög gott/fínt vín.  „Þennan eðalmetal er ég búinn að eiga í skápnum í ein 20 ár“.

Eðalnáungi (n, kk)  Einstaklega góður maður/vinur; öndvegisnáungi.  „Hann er eðalnáungi; út og í gegn“.

Eðalsteinn (n, kk)  Gimsteinn; dýrmæt steintegund.  „Ekki veit ég hvort þetta er einhver eðalsteinn; ég fann þetta hér úti í Bót“.

Eðli (n, hk)  Háttur; tilhneyging; það sem er eiginlegt.  „Furðulegt þetta eðli í henni að æða beint út á Bjarg“.

Eðlilega (ao)  A.  Vanalega; eðlislægt; ekki afbrigðilega.  „Mér finnst þetta ganga bara eðlilega“.  B.  Að sjálfsögðu; skiljanlega.  „Ég var alveg grandalaus; eðlilega vissi ég ekki af þessu atviki“.

Eðlilegheit (n, hk, fto)  Það sem er eðlilegt/vanalegt.  „Það virtist allt með eðlilegheitum þegar ég gáði að kúnni rétt áðan; hún virðist vera búin að jafna sig af doðanum“.

Eðlisbráður (l)  Bráður/fljótillur/skapstór að eðlisfari.    „Hann er mesta gæðasál, en nokkuð eðlisbráður“.

Eðlisglaður (l)  Glaðsinna/skapgóður að eðlisfari.  „Alltaf er hann jafn eðlisglaður, þessi öðlingur“.

Eðlisgreindur (l)  Greindur/skarpur að eðlisfari.  „Hann er skýr og eðlisgreindur, þó hann fari vel með það“.

Eðlishægur (l)  Rólegur/hægfara að eðlisfari.  „Hann er jafnan eðlishægur, en mesta furða hvað honum vinnst“.

Eðlislægt (l)  Eiginlegt; eðlilegt, í eðlinu.  Stýrir jafnan þágufalli nafnorðisins á undan.  „Það var honum eðlislægt að fara útfyrir horn að míga, snemma á morgnana, og líta þá til veðurs og sjólags í leiðinni“.

Eðlismunur (n, kk)  Grundvallarmunur í eðli/háttum.  „Mér finnst nokkur eðlismunur á því hvort maður rekur við með hávaða og tröllaglotti, og því að láta þetta frá sér í rólegheitum svo lítið beri á“!

Eður (st)  Eða; ellegar.  „Leigur (af Láganúpi) betalast í kaupstað með fiski, með smjöri heim, eður eftir samkomulagi“  (ÁM/PV Jarðabók).  Orðið heyrðist notað framundir lok 20. aldar.  „Mér er sama hvort hann rignir eður ei; ég er búinn að ná öllum mínum heyjum“.

Ef að líkum lætur (orðtak)  Ef allt er eins og líklegast/venjulegt er; ef fer að vonum.  „Ég hef ekki áhyggjur af strákunum.  Ef að líkum lætur eru þeir í hornabúinu uppi í Hjöllum“.

Ef allt um þrýtur (orðtak)  Ef önnur ráð eru ekki fyrir hendi.  „Ef allt um þrýtur þá gæti ég nú reynt að aðstoða þig með þetta“.

Ef að / Efað (orðtak)  Viðtengingin „ef“ var iðulega svo tengd orðinu „að“ í framburði, að í raun var um einn orð að ræða, og mikið notað í máli Kollsvíkinga; a.m.k. eftir miðja 20. öld, þar sem „ef“ hefði dugað.  „Það verður lítið róið á morgun efað þessi vindspá helst“.  „Bésefans gamli mávurinn ætlar að leiða hópinn langt frá Byrginu; veifaðu betur, efað þeim skyldi snúast hugur“.

Ef að líkindum/líkum lætur (orðtök)  Líklega; ef svo fer sem líklegt er.  „Ef að líkindum lætur fer hann að rigna með aðfallinu“.  „Ef að líkum lætur verður hann búinn að gleyma þessu strax á morgun“.

Ef allt um þrýtur (orðtak)  Ef allt annað bregst; sem þrautaúrræði.  „Það er enn dálítið pláss í kútnum, og ef allt um þrýtur setum við hrogn í fötuna“.

Ef eitthvað hreyfir vind (orðtak)  Ef vindar eitthvað.  „Ég er hræddur um að þetta hrófatildur standi lítið ef eitthvað hreyfir vind“!

Ef ekkert er stríðið er öngvan sigur að fá/hafa (orðatiltæki)  Speki þeirra sem sækjast eftir stríði og sigri.

Ef fyrir kann að koma (orðtak)  Ef ske kynni; ef svo slæst; ef svo vill til.  „Ætli ég helli ekki upp á kaffi, ef fyrir kynni að koma að þeir dóluðu sér heim á næstunni“.

Ef guð lofar (orðtak)  Ef allt fer að óskum/vonum.  „Ég gæti verið búinn með heyskapinn fyrir mánaðarmótin ef guð lofar“.  Í seinni tíð var líklega fremur vísað til gæfunnar í þessu efni en sjálfs drottins.

Ef í harðbakkann slær (orðtak)  Ef erfiðleikar steðja að; ef harðnar á dalnum.  „Það getur verið gott að eiga fyrningar ef í harðbakkann slær“.

Ef í hart fer / Ef í nauðirnar rekur (orðtök)  Ef mikill ágreiningur verður; ef í harðbakkann slær.  „Ef í hart fer þá tala ég kannski við þig um aðstoð“.  „Ég á þetta til vara ef í nauðirnar rekur“.

Ef í það fer / Ef með þarf / Ef á þarf að halda / Ef þörf er á / Ef til þess kemur / Ef svo sé (orðtök) Um ráðstafanir sem gera þarf ef aðstæður krefjast þess.  „Við fáum hann til að aðstoða okkur ef í það fer“.

Ef lítið liggur við (orðtak)  Ef hjálpar er þörf.  „Þakka þér kærlega fyrir hjálpina; þú mátt endilega nefna mig á nafn ef þér liggur lítið við“.

Ef með þarf (orðtak)  Ef þörf er á; ef þarfnast er.  „Ég dreypi á hóstasaftinni ef með þarf, en hún er fjandi bragðvond“!

Ef mikið liggur við (orðtak)  EF mikið er í húfi/hættu; ef áríðandi er.  „Það er alltaf gott að vera fleiri en færri ef mikið liggur við“.

Ef nauðsyn ber til (orðtak)  Ef mjög brýnt er; ef mikil þörf er á.  „Það er ágætt að eiga eitt tóbaksbréf til að grípa í; ef nauðsyn ber til“.

Ef satt skal segja (orðtak)  Satt best að segja; sannast sagna; í sannleika sagt

Ef ske kynni (orðtak)  Ef svo bæri undir; ef þannig vildi til.  „Það er rétt að grípa með sér einhverja eggjaspöndu ef ske kynni að við fengjum eitthverja eggjakoppa“.

Ef svo ber undir /við (orðtak)  Ef svo vill til; ef þannig stendur á.  „Hann er hjálpsamur ef svo ber undir“.

Ef svo kynni að falla (orðtak)  Ef svo bæri undir; ef hentaði.  „Ég ætla að hafa slóðann klárann ef svo kynni að falla að yrði sjóveður á morgun“.

Ef svo mætti segja (orðtak)  Ef það væri orðað þannig; nærri því orðalagi.  „Byggð er eginlega aflögð á þessu svæði, ef svo mætti segja“.

Ef svo sé (orðtak)  Ef vera skyldi/kynni; hvort svo gæti verið.  Ambaga sem stundum var notuð.  „Ég ætla nú að spyrja hann til siðasaka; ef svo sé að hann ætti örlitla lögg á flösku“.

Ef svo slæst (orðtak)  Ef svo vill til; ef svo fer; ef fyrir kann að koma.  „Ég fékk pakka af skotum, ef svo slægist að flygi með Görðunum meðan þú stendur við“.

Ef til kastanna kemur (orðtak)  Ef á reynir; ef til þess kemur.  „Við skoðum þá málið aftur ef til kastanna kemur; sem ég á svoem ekki von á“.  Vísar til þess að leysa úr málum með hlutkesti ef þörf er á.

Ef til vill (orðtak)  Kannski; má vera; hugsanlega.  „Tvær ær; önnur á Lambavatni en hin í Gröf, eru ekki góðar og ef til vill að þær lifi ekki; því líkur eru til, að fengnum upplýsingum, að þær séu veikar“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1945).  

Ef tími gefst/vinnst til (orðtak)  Ef unnt er tímans vegna. 

Ef útaf bregður (orðtak)  Ef bregst; ef fer úrskeiðis.  „Við erum í hálfgerðum vandræðum ef útaf bregður með þetta“.  Sjá bregða útaf.

Ef vel á að vera (orðtak)  Ef allt á að vera í lagi/ fara vel.  „Við svona löng sig þarf allnokkurn mannskap; ef vel á að vera þyrfti ekki færri en tíu að sitja undir vað“.

Ef vel er að gáð (orðtak)  Við nánari skoðun; þegar málið/viðfangsefnið er vandlega athugað.  „Þetta virtist vera venjulegt blágrýti við fyrstu sýn, en ef vel var að gáð mátti sjá agnir í steininum, sem líklega voru gull“.

Ef vera skyldi/ kynni (orðtök)  Ef það/svo gæti verið; ef möguleiki væri.  „Ég leit við hjá þeim ef vera kynni að þau hefðu orðið vör við hundinn“.  „Þú ættir að spyrja hann, ef vera skyldi að hann hefði þörf fyrir þetta“.

Ef vilji er fyrir hendi (orðtak)  Ef vill.  „Ef til vill, ef vilji er fyrir hendi, gætum við farið í aðra ferð seinna“  (IG; Sagt til vegar I).  

Ef svo/þannig slæst (orðtak)  Ef vera kynni; ef þannig ber við; ef svo ber undir.  „Ég ætla að setja bensín á traktorinn, ef svo slægist að yrði þurrkur á morgun“.  „Það getur vel verið að ég komi til ykkar á morgun; ég læt vita ef þannig slæst“.

Efa (s)  Vera í vafa um.  „Ég efa það mjög að fé sé enn uppi í lautum í þessum snjó“. 

Efalaust (l)  Vafalaust; án efa.  „Þetta er efalaust rétt hjá honum“.

Efalítið (l)  Vafalítið; án mikils efa.  „Þetta var efalítið Hænuvíkurfé, eins og það lét“.

Efamál (n, hk)  Vafamál; óvissa.  „Ekki taldi almenningur það efamál að hér væri Benedikt Gabríel að verki, og hefndi sín þannig út af hvalamálinu“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Efasemdasál (n, kvk)  Sá sem efast; vantrúarhundur; efahyggjumaður.  „Jafnvel mestu efasemdarsálir létu sannfærast eftir að hafa séð þetta með eigin augum“.

Efasemdir (n, kvk, fto)  Efi; vafi.  „Ég hef miklar efasemdir í þessum efnum“.

Efast (s)  Vera í vafa; vera vantrúaður á.  „Ég efast um að verkið klárist í dag“.

Efast sundur og saman með (orðtak)  Vera mjög efins um; vera í miklum vafa um; vera mjög beggja blands.  „Ég hef verið að efast sundur og saman með þessa ákvörðun, og er enn ekki kominn að niðurstöðu“.

Efi (n, kk)  Vafi; óvissa; vantrú.  „Það getur varla leikið neinn efi á þessu lengur“.

Efinn / Efins (l)  Í vafa; ekki viss.  „Dálítið er ég efinn um að þetta geti gengið“.  „Ég er mjög efins um þessa nýju stefnu flokksins“.

Efja (n, kvk)  Drulla; for; lella.  „Kýrin náðist loks upp úr skurðinum; ötuð efju upp á bóga“.

Efjuslagur (n, kk)  Erfiðisvinna í efju/for.  „Þá upphófs mikill efjuslagur við að koma böndum á kúna og draga hana uppúr forinni“.

Eflast (s)  Aukast að þreki/afli/umfangi.  „Lambhrúturinn er allur að eflast og koma til“.

Eflaust (l)  Örugglega; vafalaust; óefað.  „Eflaust skilar hún sér sjálf síðar; með sínum tveimur lömbum“.

Efna (s)  A.  Um loforð/fyrirheit; standa við; gera alvöru úr.  „Enn eru þeir ekki búnir að efna þetta kosningaloforð“.  B.  Efna í; Efna til (sjá þar).

Efna í (orðtak)  A.  Fá efni í.  „Ofanvið hlöðu var stafli af timbri sem búið var að efna í skúrbygginguna“.  B.  Spara sér/ leggja til hliðar fé í ákveðnum tilgangi.  „Hann segist vera að efna sér í nýtt reiðhjól“.

Efna til (orðtak)  Stofna til; setja á fót.  „Ungmennafélagið efndi til samkomuhalds af ýmsu tagi“.  „Efnt var til veglegrar veislu af tilefni dagsins“.

Efna til deilna/rifrildis/misklíðar/ófriðar/óvinafagnaðar/illinda (orðatiltæki)  Koma einhverjum deilum/illindum/erjum af stað; kynda undir ófriði.  „Ég ætla ekki að efna til óvinafagnaðar með því að bjóða öðrum þeirra í veisluna en ekki hinum“.

Efnaður / Efnamikill (l)  Ríkur; vel efnum búinn.  „Hann er sagður sæmilega efnaður“.

Efnafólk (n, hk)  Ríkt fólk; fólk í góðum efnum.  „Þeim er engin vorkunn að greiða.  Þetta á að heita efnafólk“.

Efnalaus  / Efnalítill  (l)  Fátækur; eignalaus.  „Sumirsátu uppi nánast efnalausir eftir þetta ævintýri“.

Efnalega (ao)  Fjárhagslega; varðandi efnahag.  „Hann er víst nokkuð illa staddur efnalega“.

Efndir (n, kvk, fto)  Eftirfylgni; raungering loforða.  „Miklu var lofað en efndirnar urðu litlar“.

Efni þarf til alls (orðatiltæki)  Til að geta keypt þarf maður að hafa efni/ráð á því; allir hlutir hafa sitt verð.

Efnilegur (l)  Gott efni; vænlegur.  „Ég bjargaði ágætri spýtu undan sjó; hún gæti verið efnileg í hliðstaur“.  „Þessi patti verður einhverntíma efnilegur bóndi“.  Einnig notað í kaldhæðni/ sem öfugmæli:  „Þú ert efnilegur; búinn að éta allt sælgætið einn sem þú áttir að bjóða hinum með þér“!

Efnispiltur / Efnisstúlka (n, kk/kvk)  Efnilegar manneskjur.  „Þetta er mesta efnisstúlka, eins og hún á kyn til“.

Efnisskepna (n, kvk)  Kostagripur.  „Leyfðu mér að þukla þennan hrútkægil; mér sýnist þetta vera efnisskepna“.

Efniviður (n, kk)  Efni til að gera/byggja; viður til framkvæmda.  „Ég gæti trúað að úr þessu tré fengist efniviður í allar sperrurnar“.

Efrivararskegg (n, hk)  Yfirskegg, sjá þar.

Efra (ao)  Ofantil; að ofan.  „Hlíðin er stórgrýtt neðantil en grasigróin efra“.

Efst á baugi / Ofarlega á baugi (orðtök)  Um málefni; mest áberandi; mikilvægast að ræða; efst í huga manna.  Baugur merkir hringur.  Líkingin gæti vísað til þess að maður sér einungis það sem efst er á hring, t.d. á fingri eða úlnlið.  Má vera að áðurfyrr hafi það tíðkast að spá með því að skoppa/snúa merktum hring.  Hinsvegar gæti líkingin einnig vísað til sólbaugsins; þegar sól er efst á lofti á hádegi er athafnasemin mest.

Efst í huga (orðtak)  Sem maður hugsar mest um.  „Mér er það efst í huga hversu þetta lánaðist alltsaman vel“.

Efsti dagur (orðtak)  Dómsdagur.  Oftast notað í biblíutilvitnunum.

Eftilvill (ao)  Kannske; ef til vill.  Oftast slegið þannig saman, líkt og um eitt or væri að ræða.

Eftir (ao)  Síðar; seinni.  „Nú kemur hvert ólagið eftir annað“.  B.  Sækja/ ná í.  „Guðbjartur Þorgrímsson hafði skotið tófu við Flaugarnefið; misst hana niður, og sigið eftir henni, því að nokkur verðmæti voru í henni“  (Anna Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

-eftir (ending áttalýsinga)  Í Kollsvík tíðkast áttalýsingar sem sumum finnast framandi, og er þetta ein þeirra.  Sá sem fer frá Láganúpi til Kollsvíkurbæjarins fer norður/norðureftir.  Sá sem fer í öfuga átt fer yfir/yfireftir.  Sá sem fer út yfir Hænuvíkurháls til Kollsvíkur fer úteftir og sá sem fer í öfuga átt fer inneftir.  Frá Láganúpi fer maður út í Vatnadal og að Breiðuvík, en úr Breiðuvík fer maður norður til Kollsvíkur.  Sá sem gengur frá Láganúpi fram á Mýrar eða Sandslágarkjaft  fer frameftir, en sá sem fer niður í fjöru fer ofaneftir/niðureftir.

Eftir að bíta úr nálinni með (orðtak)  Slæmar afleiðingar ekki allar komnar í ljós; mun hefnast fyrir.  „Ég er hræddur um að þú eigir eftir að bíta úr nálinni með að fara ekki til læknis“.  „Mig uggir að kjósendur eigi eftir að bíta úr nálinni með þessa ríkisstjórn“.

Eftir atvikum (orðtak)  Eftir hentugleikum; eftir því sem mál skipast.  „Unglingar, einn eða tveir eftir atvikum, voru sendir í þessa ferð“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Má segja að eftir atvikum hafi nafn það sem hvalnum var gefið átt vel við, en hann var nefndur Þæfingur“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Eftir bestu getu (orðtak)  Svo sem getan framast leyfir.  „Hann er nú að gera þetta eftir bestu getu, strákurinn; það er kannski ekki hægt að ætlast til meira af ekki eldri gutta“.

Eftir dúk og disk (orðtak)  Eftir langan tíma/langa bið.  „Kaffið kom loks eftir dúk og disk, og var þá ískalt“.   Merkir í raun að koma eftir matmálstíma; þegar búið er að taka af borðum.

Eftir efnum og ástæðum (orðtak)  Eftir efnahag/fjárráðum.  „...en innkaupin fóru eftir efnum og ástæðum“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Eftir föllum (orðtak)  Eftir því hvernig stendur á falli/sjávarföllum.  „Róið var eftir föllum; oftar á flóði en fjöru“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Eftir föngum (orðtak)  Eftir því sem hægt/unnt er.  „Reynt var að hreinsa og hrista sandinn burt eftir föngum, en það tókst ekki nándar nærri til neinnar hlítar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Eftir hendinni (orðtak)  Jafnóðum; um leið og gerist/ eftir því sem þörf krefur.  „Hér þurfum við að liggja með allmiklar birgðir af fóðurbæti, meðan þeir sem búa við búðarvegginn geta keypt hann eftir hendinni“.  „Gengu menn svo í að gera til fiskinn og var allt draslið látið í poka jafnóðum, og þeim kastað út fyrirbundnum eftir hendinni“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Eftir hlátur kemur oft grátur (orðatiltæki)  Eftir gleðskap tekur alvaran við; margir eru viðkvæmir í lund eftir ánægjustund; barn skiptir oft fljótt úr mikilli glaðværð í sáran grát.

Eftir honum/henni (orðtak)  Við því mátti búast af honum/henni; það var hans/hennar von og vísa.  „Það var alveg eftir henni að hleypa okkur ekki af stað nestislausum“.

Eftir höfðinu dansa limirnir (orðatiltæki)  Menn framkvæma eins og þeir hugsa.  Einnig notað um gerðir þeirra sem fylgja foringja sínum í blindni. 

Eftir (öllum) kúnstarinnar reglum (orðtak)  Eins og flóknar reglur segja um; af mikilli vandvirkni.  „Ég gerði þetta eftir öllum kúnstarinnar reglum, en tókst samt ekki að fá tækið til að virka“.

Eftir langa mæðu (orðtak)  Eftir mikla fyrirhöfn; eftir mikið stímabrak/vesen.  „En sögulegasta happið þar um slóðir mun vafalaust hafa verið er Kollsvíkingar fundu hval á reki og tókst eftir langa mæðu að bjarga honum á land í Kollsvík“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Eftir orðanna hljóðan (orðtak)  Eins og það er sagt; samkvæmt því sem skrifað er; orðrétt.  „Ég held að best sé að gera þetta nákvæmlega eftir orðanna hljóðan.  Hvað stendur um þetta í handbókinni“?

Eftir óhóf kemur örbirgð (orðatiltæki)  Gjarnan notað og auðskilið.

Eftir sig (orðtak)  Þreyttur; örmagna; þarfnast hvíldar; lúinn.  „Ertu ekki ennþá eftir þig eftir hlaupin í gær“?  „Ég er enn dálítið eftir mig eftir árans flensuna“.

Eftir storminn lifir aldan (orðatiltæki)  Öldugangur varir jafnan töluverðan tíma eftir að vind hefur lægt.  Einnig getur haföldu lagt um langan veg frá stormasvæðinu sem vakti hana upp.  Stundum notað í óeiginlegri merkingu um það að reiði, móðgun eða önnur geðbrigði geta varað lengi eftir orðaskipti/rifrildi.

Eftir því sem á líður (orðtak)  Með tímanum; því lengra sem líður á t.d. daginn/verkið/ferðina.  „Afli var fremur lítill, en eftir því sem á leið ferðina róaðist ég“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Eftir því sem (framast) er auðið/unnt (orðtak)  Eins og unnt er.  „Ég reyndi að hafa áhrif á þetta, eftir því sem mér framast var auðið“.

Eftir því sem getan/viljinn nær (orðtak)  Eftir því sem unnt er; eftir áhuga.  „Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag; sækja vatn bæði fyrir heimilið og kýrnar, eftir því sem geta og vilji náði, og fara með pabba að gefa fénu“  (IG; Æskuminningar). 

Eftir því sem næst verður komist (orðtak)  Að því marki sem unnt er að kynna sér; eins og þekkingin nær.  „Hann hefur aldrei migið í saltan sjó, eftir því sem næst verður komist“.

Eftir því sem verkast vill (orðtak)  Eftir því sem framvinda gefur tilefni til; eins og hlutirnir vilja æxlast; fer eins og fara vill.  „Nú verður þetta bara að fara eins og verkast vill; maður hefur lítil áhrif á það“.

Eftir þörfum (orðtak)  Eins og með þarf; eftir því sem þörf kallar á; þegar á þarf að halda..  „Bætt var á votheysgryfjuna eftir þörfum og reynt að láta hitann ekki koma uppúr heyinu“.

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma (orðtak)  Að öllum líkindum; líklega.  „EFtir öllum sólarmerkjum að dæma er þessi ríkisstjórn fallin í kosningunum“.  Sólarmerki kann þarna að vísa til þeirra atriða sem menn geta nýtt til að spá fyrir um veður.  Ekki er útilokað að orðtakið hafi breyst í tímans rás; fyrir kom afbrigðið „eftir öllum merkjum að dæma“, þar sem „merki“ þýða „ummerki“ eða „sannindi“.

Eftirá (ao)  Á eftir; að lokum/afloknu.  „Það er auðvelt að vera vitur eftirá“!

Eftirá að hyggja / Eftirá séð (orðtak)  Þegar horft er til baka; við nánari umhugsun.  „Ég ákvað þetta í fljótheitum, en eftirá að hyggja hefði maður kannski átt aðgera þetta öðruvísi“.

Eftiráskýringar (n, kvk, fto)  Afsakanir; fyrirsláttur eftirá.  „Það þýðir nú lítið að koma með svona eftiráskýringar“.

Eftirbátur (n, kk)  A.  Eiginleg merking; bátur sem hafður er aftaní stærra skipi sem björgunarbátur og/eða í snatt.  Talið er að skip landnámsmanna hafi haft eftirbáta.  Því má vel vera að eftirbátur hafi verið notaður í fyrstu sjóbjörgun sem sögur fara af við Ísland; þegar Kollur landnámsmaður bjargaðist eftir að Örn stýrimaður hans hafði brotið skipið á Arnarboða.  Líklegt er einnig að sá eftirbátur hafi verið fyrsta skip sem gert var út til fiskveiða í Kollsvík, sem síðar varð ein af stærri verstöðvum landsins.  Sumir telja (LK) að eftirbátar hafi verið á við teinæringa að stærð.  Fljótlega eftir landnám hafa menn því líklega byrjað að smíða sér léttari og hentugri báta til fiskveiða.  B.  Afleidd merking; maður sem er minni að stærð/afli en annar.  „Ég vildi nú ekki að vera eftirbátur hans í þessu efni“.

Eftirgangsemi / Eftirgangsmunir (n, kk)  Eftirrekstrar; hvatning.  „Leyfið fékkst, eftir nokkra eftirgangsmuni“.

Eftirgefanlegur / Eftirlátsamur (l)  Undanlátssamur; lipur; tilleiðanlegur.  „Kannski var ég of eftirgefanlegur um þetta“.

Eftirgjald (n, hk)  Leiga; gjald fyrir afnot.  „Eftirgjald eftir Sellátranes; Arinbj.Guðbjartsson“ (Sjóðbók Rauðasandshrepps árið 1943).

Eftirgjöf (n, kvk)  Það að gefa eftir/ slaka á/ falla frá.  „Snæbjörn J. Thoroddsen gerði grein fyrir afborgunum fóðurbætislána og eftirgjöf nokkurra lána“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Eftirhafandi (l)  Unnt að hafa eftir/endurtaka.  „Það er varla eftirhafandi sem hann sagði við þessa þrjóta“.

Eftirhreytur (n, kvk, fto)  Afgangur; það sem eftir hefur orðið.  „Sumar kýr eru svo fastmilkar og selja illa að nauðsynlegt er að tvímjólka þær á sama máli.  Mjólkin í síðara skiptið nefnist eftirhreytur og er mun fituminni en hin.  Því er oft notað orðið eftirhreytur í líkingamáli yfir það sem lakara er; afganga“.

Eftirköst (n, hk, fto)  Afleiðingar; eftirmál.  „Þetta slys hafði nokkur eftirköst“.

Eftirláta (s)  Láta eftir sig; afhenda; láta fá.  „Við eftirlátum landeiganda að ganga frá skiptavellinum“.  „Þótt ég við það vinni mér/ verðan tröllahlátur,/ eftirlæt ég allar þér/ ykkar kindaskjátur“ (JR; Rósarímur). 

Eftirlegukind (n, kvk)  Kind sem verður eftir í smalamennsku.  Oftar notað í líkingamáli: „Þessar mörtöflur eru eftirlegukindur síðan í fyrra“.

Eftirleiðis (ao)  Hér eftir; eftir þetta.  „Fundurinn samþykkir að þeir meðlimir fjelagsins sem eigi hafa neytt tóbaks né áfengis, skuldbindi sig hjer með til þess að neyta þess ekki eftirleiðis“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Eftirliggjari (n, kk)  Maður sem skilinn er eftir í veri til að gæta afla og annarra eigna meðan fiskaferðir standa yfir.  „Jafnan var skilinn eftir maður af báti hverjum í verinu meðan fiskaferðaskipið var sótt.  Voru þeir nefndir eftirliggjarar.  Skyldu þeir hirða um afla þann sem ekki var full þurr og líta eftir fiskifangi og föggum félaga sinna.  Aldrei nam sú bið skemur en þremur dögum, stundum viku eða lengur“  (PJ;  Barðstrendingabók). 

Eftirlíking (n, kvk)  Eftirgerð; það sem gert er til að líkjast fyrirmynd.  „Get ég ekki gengin spor/ í gömlum rústum fundið.  Ekki heldur elju og þor/ í eftirlíking bundið“  (ÖG; glefsur og minningabrot; ort við kortlagningu Kollsvíkurvers). 

Eftirmatur (n, kk)  Eftirréttur; réttur sem borinn er fram á eftir aðalrétti; vanalega súpa eða grautur.  „Sá siður er að leggjast af í nútíma þjóðfélagi að fólk borði daglega tvíréttað, en sé það gert þá er nútímafólki það tamara að tala um „desert“ fremur en nota íslenska orðið eftirmat“.

Eftirmál (n, hk)  Afleiðing; málarekstur sem er afleiðing einhvers annars.  „Einhver eftirmál urðu nú af þessu“.

Eftirmáli (n, kk)  Það sem sagt er á eftir meginefni, t.d. til skýringar.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru.  Enn í dag hafa menn gaman af að rifja það upp, og fylgir þá gjarnan dálítill eftirmáli sem veðmálið hafði“  (PG; Veðmálið). 

Eftirmiðdagur (n, kk)  Síðari hluti dags; dagurinn eftir hádegi.  „Svo var selt þarna kaffi með allskonar kökum og síðan dansað allan eftirmiðdaginn og fram á nótt“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Eftirminnilega (ao)  Þannig að eftir er munað; með glæsibrag/tilþrifum.  „Þetta gerði hann svo eftirminnilega að enn er haft á orði“.

Eftirminnilegur (l)  Sem festist vel í minni; sérstakur; einstakur.  „Hann var mjög eftirminnilegur maður“.

Eftirrekstrar (n, kk)  Eftirgangsmunir; ýtni.  „Vertu ekki með þessa bölvaða eftirrekstra; þetta er að koma“!

Eftirseyma (n, kvk)  Nál til að sauma skinnklæði.  „Tæki til þess voru fábotin; aðeins tvær nálar; , fyrirseyma og eftirseyma, og klembrur.“  (KJK; Kollsvíkurver).

Eftirsjón (n, kvk)  Eftirsjá; söknuður; skaði.  „Mér finnst töluverð eftirsjón að þessum hrút“.  Fyrri merking ar voru „eftirlit“ og „hliðsjón“, en þær hafa horfið úr málinu á seinni tíð.

Eftirsmíð (n, kvk)  Eftirmynd; eftirgerð; kópía.  „Gjarnan hefði maður núna viljað eiga eftirsmíð af Rutinni“.

Eftirsóttur (l)  Sem eftirspurn er eftir; vinsæll.  „Ég sagði honum erindið/, hann undrandi á mig leit/ og út í annað munnvikið kom gretta./„Ég er svo eftirsóttur í bæ og borg og sveit/ ó blessuð, þú ert alls ekki sú rétta“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Eftirstandandi (l)  Um skuld; ógreidd.  „Um haustið greiddi hann eftirstandandi verslunarskuldir“.

Eftirstraumsflæði (n, kvk)  Háflæði í eftirstraumi.  „Varið ykkur á flæðinni við forvaðann og athugið að eftirstraumsflæðin er býsna mikil“.

Eftirstraumur (n, kk)  Stórstreymi sem verður næst á eftir stærstu straumum ársins, en þeir verða um jafndægur ár hvert.  „Það er hætt við að geti fallið þarna í kletta í eftirstraumunum“.

Eftirtekja (n, kvk)  Afurðir; uppskera; safn.  „Það þótti dágóð eftirtekja ef einn maður gróf upp skel í tvo poka“.

Eftirtektarlaus (l)  Tekur illa eftir; glámskyggn; viðutan.  „Fjandi ertu eftirtektarlaus!  Sástu virkilega ekki þegar kindurnar runnu hér uppmeð hlíðinni“?!

Eftirtektarsamur (l)  Næmur; tekur vel eftir; er vel á verði.  „Mikið skolli ertu eftirtektarsamur drengur“!

Eftirtektarvert (l)  Athyglisvert; merkilegt.  „Mérþótti þetta mjög eftirtektarvert“.

Eftirtelja (s)  Telja eftir; sjá eftir og gera mikið úr því sem gert hefur verið, t.d. greiða.  „Ég er ekkert að eftirtelja það, þó ég hafi sótt fyrir hann þessar kindur; hann átti það fyllilega skilið blessaður“.

Eftirtölur (n, kvk, fto)  Ummæli/nöldur eftirá.  „Ég vil þá ekki heyra neinar eftirtölur síðarmeir“!

Eftirtölulaust (l)  Án eftirtalna/eftirsjár/nöldurs eftirá.  „Það verður eftirtölulaust að minni hálfu“.

Eftirvænting (n, kvk)  Von/tilhlakk/spenna í aðdraganda viðburðar/atviks.  „Það er ekki hægt að lýsa þeirri eftirvæntingu sem ríkti fyrir hver jól...“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Eftiþankar (n, kk, fto)  Bakþankar; efi eftirá.  „Ég fór að fá eftirþanka um hvort broddurinn hafi verið í lagi“?

Eftiröpun (n, kvk)  Eftirherma; haft eftir.  „Mér fannst þessi leikþáttur vera nokkur eftiröpun á hinum“.

Egg (n, hk)  A.  Afkvæmi fugls, áður en það verður að unga.  B.  Brún á bitjárni/eggjárni.  C.  Hvaðeina sem er formað í hvassa brún, t.d. fjallsegg.

Eggbeitt (l)  Um hlut; beittur eins og hnífsegg.  „Varaðu þig á járninu þarna; það er eggbeitt“.

Eggfles / Eggpláss (n, hk)  Staður í klettum þar sem egg eru tínd til nytja.  „Hér er ágætis eggfles“.  „Víða framan í Breiðnum eru ágætis eggpláss“.

Eggfugl (n, kk)  Fugl sem situr á eggi.  „Það á alltaf að fara varlega að eggfugli í bjargi.  Það er engum til góðs að hrekja svo harkalega að hann sparki egginu framaf þegar hann flýgur upp“.

Egghvass (l)  Beittur sem hnífsegg.  „Sverðið smíðaðaði ég úr spýtu sem ég tálgaði í hjöltu og egghvasst blað“.

Eggið farið að kenna hænunni (orðtak)  Viðhaft um það þegar sá ætlar að segja öðrum til sem hefur minna vit en hann á viðfangsefninu.  Líkingin er auðskilin.

Eggja (s)  A.  Hvetja; mana.  B.  Fara í eggjaferð/eggjatínslu; tína egg.  „Við eggjuðum ágætlega í þessari ferð“.

Eggja á (orðtak)  Hvetja til; mana.  „Ég vil ekki eggja ykkur á að fara í svona tvísýnu veðri“.

Eggjaát (n, hk)  Það að borða egg.  „Eggjaát var alltaf mikið á vorin, eftir að farið hafði verið fyrst  fýlsegg; þá oftast út í Hnífa.  Misjafnt var hvað hver borðaði í mál; oftast eitt eða tvö egg.  Sumir létu sér þó aldrei nægja minna en þrjú, og gátu janvel hámað í sig átta til tíu egg í einu“.

Eggjaburður (n, kk)  Burður eggja frá eggjatökustað áleiðis upp bjarg/ til byggða.  „Víða má taka egg með léttu móti í Stígsbrúninni, en eggjaburður er nokkuð erfiður, bæði á brún og upp Geldingsskorardalinn“.

Eggjabyrgi (n, hk)  Geymslustaður á bjargbrún, sem útbúinn er til að geyma egg þar til þau verða sótt.  Eggjabyrgi hafa verið nýtt til skamms tíma í Útvíkum, og má sjá þau m.a. á Breiðsbrún; uppaf Mávakömbum í Blakk og á brún Geldingsskorardals, ofan Stígs.  Umbúnaðurinn var nokkuð misjafn.  Væru eingöngu geymd egg voru byrgin óveruleg; einungis útbúin grunn hola á þurrum stað; hlaðið í kring með hnullungum; eggjunum raðað í, þannig að kúfur yrði á; þurr mosi settur yfir og plast ef völ var á því; síðan búið varlega að með grjóti og þunnum hellum, þannig að vargur nái ekki til.  Til þess voru vaðir einnig nýttir ef þeir voru geymdir um tíma á brún.  Byrgið á Geldingsskorardal er mun stærra og hefur verið vandaðra, en er líklega niður fallið fyrir löngu síðan.  Tóftin ber með sér að þar hafa, auk eggja, verið geymdir vaðir og annar búnaður, þannig að það hefur einnig verið vaðbyrgi.  Nokkru innar á dalnum, ofanvið Læki, mótar fyrir annarri tóft en hlutverk hennar er óljóst.

Eggjafata (n, kvk)  Fata/ílát segm egg eru tínd í og flutt í.  Sjaldan er farið í egg nema hafa með sér góða eggjafötu, eggjaháf (þar sem við á), spotta, hjálm (núorðið) og gjúðru í vasa.  Góð eggjafata er létt og með svo breiðum breiðum botni að hún geti staðið í nokkrum halla; um 10l að rýmd eða minna; með öruggu haldi og fer vel á handlegg ef hafa þarf báðar hendur á vaðnum.

Eggjafengur (n, kk)  Það sem fæst af eggjum í eggjaferð/eggjaleiðangri.

Eggjaferð / Eggjaleiðangur / Eggjatökuferð / Eggjatökuleiðangur (n, kvk)  Ferð sem farin er til eggja/ til að sækja egg til matar.  Eggjaferðir eru misjafnlega langar og misjafnlega fyrirhafnarsamar.  Allt frá því að skjótast einn í hálftíma snag, t.d. frá Láganúpi útá Undirhlíðanef eða í Smérhelli; til sólarhringslangra fjölmennra eggjaleiðangra undir eða í Bjarg. „Kemurðu með í eggjaleiðangur“?  „Ég týndi húfunni í síðasta eggjatökuleiðangri“.

Eggjafiðringur (n, kk)  Löngun til að fara í eggjaferð.  „Er nú kominn einhver eggjafiðringur í þig“?

Eggjagrjót (n, hk)  Grjót með egghvassar brúnir.  „Aktu varlega hérna í eggjagrjótinu til að skemma ekki dekk“.

Eggjaháfur (n, kk)  Verkfæri til að auðvelda eggjatöku við erfiðar aðstæður.  „Eggjaháfur er léttbyggður.  Skaftið er vanalega úr hrífuskafti eða bambus.  Fremst á því er benslaður vírhringur og á honum poki fyrir ca 2 egg.  Háfinn má nota til að ná á öruggan hátt eggjum sem annars væru utan seilingar, auk stuðnings.  Eggjaháfur var einkum notaður við eggjatöku í Breið og hentaði þar vel, en var síður notaður í Blakk, og aldrei við töku svartfuglseggja.  Orðið og verkfærið virðist hafa verið bundið við Kollsvík, og má líklega rekja hvorttveggja til Gylfa Guðbjartssonar, sem lengi stundaði eggjatöku í Breiðnum.

Eggjahljóð (n, hk)  A.  Sérstakt gagg sem hænur gefa frá sér þegar þær hafa verpt eða liggja á eggjum.  „Þegar þær hafa verpt tilkynna þær það með sérstöku hljóði...“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).  B.  Einnig notað um þá sem tala um/ hafa löngun til að fara til eggja:  „Er nú komið eggjahljóðið í þig“?

Eggjahrúga (n, kvk)  Hrúga af eggjum.  „Þær voru stórar og glæsilegar eggjahrúgurnar eftir að skipt hafði verið“.  „Mundirðu eftir að taka eggjahrúguna sem ég skildi eftir neðan við uppgönguna“?

Eggjahræra (n, kvk)  Hrærigrautur af eggjum.  „Kúturinn losnaði úr spottanum þegar hann var kominn hálfa leið niður og pompaði í sjóinn með látum; rétt hjá bátnum.  Innihaldið varð samstundis að einni eggjahræru“.

Eggjahugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir um eggjaferð.  „Eruð þið eitthvað í eggjahugleiðingum í dag“?

Eggjahúfa (n, kvk)  Húfa bjargmanns í eggjaferð, áður en hjálmar fóru að tíðkast.  Góð eggjahúfa þurfti helst að veita vörn gegn kulda og léttu steinkasti, auk þess að nýtast til að safna saman eggjum.

Eggjakaka (n, kvk)  Pönnusteikt flatkaka með miklu eggjainnihaldi; ommiletta.  Eggjakökur voru mikið bakaðar í Kollsvík og víðar vestra; einkum í eggtíðinni t.d. til að nýta leskingja.  Ýmsar uppskriftir voru notaðar; allt eftir smekk hvers og eins.  Einfaldasta uppskriftin er að nota jafnan þunga af innihaldi eggja; sykri og hveiti; þeyta eggið; hræra sykurinn samanvið og síðan hveitið og baka síðan þar til sest er.  Gott er að fínbrytja soðið hangikjöt eða annað ofaná hræruna á pönnunni, og leggja kökuna saman nýbakaða.

Eggjakappát (n, hk)  Keppni um það hver getur borðað flest egg, stundum með einhverjum tímamörkum. 

Eggjakassi (n, kk)  Kassi sem notaður var til að bera egg á baki.  Eggjakassar voru langir og mjóir; úr þunnum léttum viði; með loki.  Bundið var á þá með sérstöku lagi; tvær kappmellur, en þó þannig að bragð kom framfyrir hvora öxl og haldið var um endana yfir aðra öxlina svo nota mætti hina til að styðja sig við í brattlendi.  Eggjakassar í seinni tíð voru oft svonefndir sprengiefnakassar, undan dýnamíti.  Þeir voru töluvert notaðir t.d. í Stígsferðum á síðari áratugum 20. aldar.  Síðar leystu plastkútar þá af hólmi, en þá mátti bera í bakpokagrind og hafa þá báðar hendur lausar.  „Þeir uppi í bjarginu tóku eggjakassana og gáfu þeim niður í fjöru“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Eggjakeyrsla (n, kvk)  Aksturshraði sem hlífir eggjum í flutningi.  „Við þurfum að fara eggjakeyrslu í þessu ruggi; þar til kemur á betri veg“.

Eggjakista (n, kvk)  Kista til að geyma egg.  Eggjakista var útbúin í Sighvatsstóðum og notuð um tíma.  Það var flatur plastkassi (fiskikassi) með loki, sem komið var fyrir stutt frá uppgöngunni.  Í kistuna var safnað eggjum úr stóðunum og þau geymd.  Síðanvar valinn góður dagur til hífinga.  Var þá strengd taug úr þrífót á brúninni yfir Stóðunum og niður í klettanef, stutt frá kistunni.  Eggjakútur var síðan dreginn fram og til baka eftir strengnum á vaðdrætti.  Einn eða fleiri voru niðri í Stóðunum og tíndu í kútinn en tveir eða þrír sáu um dráttinn uppi.  Gekk þetta fljótt og vel fyrir sig, en eggin voru síðan sett í bíl sem ekið var að brúninni.

Eggjakoppur (n, kk)  Egg.  „Ég skrapp út á Undirhlíðarnefið og sótti nokkra eggjakoppa í soðið“.

Eggjakútur (n, kk)  Ílát af sérstakri gerð sem notuð eru við eggjatökur í björgum vestra.  Oft eru þetta plastkútar með ígreiptu haldi, sem af hefur verið skorinn stúturinn með nægilega stóru gati til að þar megi koma niður hendi með tveimur eggjum.  Oft voru notaðir í þetta kútar undan maurasýru.  Þeir eru hæfilega stórir fyrir ca 90 fýlsegg með stoppi, sem er hæfilegur burður fyrir einn og þægilegt að draga í klettunum.  Borinn var sinn kútur í hvorri hönd og gjarnan hafður fatli/létti yfir herðarnar þegar langt var borið. 

Eggjalaus (l)  Án eggja; á engin egg.  „Ég er eiginlega búinn að láta þetta allt frá mér, og orðinn eggjalaus“.

Eggjasafn (n, hk)  Safn eggja mismunandi fugla.  Er þá vanalega blásið úr eggjunum með því að gera lítil nálargöt í báða enda og blása innihaldinu úr.  Eggin eru síðan geymd þannig að þau verði ekki fyrir hnjaski.

Eggjaskaði (n, kk)  Afföll af eggjum; brotinn hluti af eggjum.  „Settu kútana í miðjan bílinn svo við verðum síður fyrir eggjaskaða í þessu ruggi“.

Eggjaskita / Eggjadrulla (n, kvk)  Neikvætt orð um löngun til eggjaferða; óþarfur áhugi á eggjaferðum.  „Er nú komin í ykkur eggjaskitan, eina ferðina enn“!  „Það gengur ekki að trassa búverkin fyrir einhverja eggjadrullu“!

Eggjaskyrta (n, kvk)  Bjargskrúði; víður stakkur sem hafður var utanfata til að safna í eggjum í bjargi.  „Nú fer sigmaður í eggjaskyrtuna, sem er stór strigapoki.  Á miðjum botni er gat fyrir höfuðið, og við botnhornin sitt hvorumegin eru göt fyrir handleggina.  Úr miðju hálsmálinu að framan er rist rauf niður á brjóst, og lætur sigarinn eggin þar inná sig í pokann.  Pokinn er dreginn saman með bandi efst á bakinu, bæði til þess að hann fari ekki útaf öxlunum og til þess að hann gúlpi á bakinu en ekki að framan.  Eggin eiga að vera sem mest á bakinu á manninum.  Snæri er svo bundið um pokann í mittið og pokanum hissað upp um leið og dreginn til baksins.  Þannig er eggjarýmið í pokanum allt á baki mannsins“  (MH; Látrabjarg).

Eggjasnag (n, hk)  Tínsla eggja, einkum þá þar sem þau eru strjál og mikið fyrir þeim haft.  „Ég nenni nú varla að standa í svona eggjasnagi“.

Eggjasnudd (n, hk)  Gæluorð um eggjaferð.  „Þeir eru einhversstaðar í eggjasnuddi“.

Eggjaskurmur (n, kk)  Eggjaskurn.  Eldra heiti sem nú heyrist sjaldan.  „Það er alltaf betra að byrja að brjóta á eggjaskurminum í sverari endann á egginu; þar byrjar það oft fyrst að verða setið“.

Eggjaskyrta (n, kvk)  Sérstakur stakkur sem sigari er íklæddur, og hentar til að safna inná sig eggjum.  „Þegar sigið var til eggja fór sigmaður í strigastakk sem kallaðist eggjaskyrta á Látrabjargi, hvippa á Hornströndum en í Skagafirði ýmist sigmannsskyrta eða hempa og í Vestmannaeyjum eggjabura“  (LK; Ísl.sjávarhættir V).  „Nú fer sigmaðurinn í eggjaskyrtuna, sem er stór strigapoki.  Á miðjum botni er gat fyrir höfuðið, og við botnhornin sitt hvorumegin eru göt fyrir handleggina.  Úr miðju hálsmálinu að framan er rist rauf niur á brjóst, og lætur sigarinn eggin þar inná sig í pokann.  Pokinn er dreginn saman með bandi efst á bakinu; bæði til að hann fari ekki útaf öxlunum og til að hann gúlpi á bakinu en ekki að framan.  Eggin eiga að vera sem mest á bakinu á manninum.  Snæri er bundið um pokann í mittið og pokanum hissað upp um leið og dreginn til baksins; þannig er eggjarýmið í pokanum allt á baki mannsins“  (MG; Látrabjarg).

Eggjasnag / Eggjasnudd (n, hk)  Bjargferðir í eggjatöku; stuttar eggjaferðir.  „Ég hef líklega ekki tíma í eggjasnag í dag“.  „Þeir eru einhversstaðar í eggjasnuddi“.

Eggjasoppa (n, kvk)  Eggjahræra; hræra af brotnum eggjum.  „Helltu eggjasoppunni sem er neðst í kútnum“.

Eggjaspanda (n, kvk)  Eggjafata.  „Réttu mér eggjaspöndu til að hafa á handleggnum þegar ég fer niður“.

Eggjastúss (n, hk)  Vinna við eggjatöku og frágang eggja.  „Það fer töluverður tími í þetta eggjastúss“.

Eggjataka/ Eggjatekja (n, kvk)  Það að fara í bjarg til eggja.  „Eggjataka var töluverð í Kollsvík, bæði í efri klettum í Blakk og Breið, en minna í Hnífunum og öðrum sjávarklettum“.  „Ferðin var gerð suður fyrir Látrabjarg til eggjatöku“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Eggjatími (n, kk)  Sá tími árs sem egg eru tínd til neyslu; eggtíð.

Eggjatínsla (n, kvk)  Það að tína egg/ safna eggjum saman.  „Hann hélt áfram eggjatínslunni meðan ég raðaði í kútana“.

Eggjatökustaður (n, kk)  Staður í klettum/bjargi þar sem tekin eru egg til nytja.  „Eggjatökustaðir voru fjölmargir þegar ég tók sem mest þátt í eggjaferðum.  Ég hef verið með í bjargferðum á a.m.k. 3 staði í Keflavíkurbjargi; 3 í Breiðavíkurbjargi; 7 í Bæjarbjargi; 20-30 i Látrabjargi; 3 í Bjarnarnúpi; 9 í Breið; 10-20 í Hnífum; 15-25 í Blakk; 3 í Gjögrahyrnu og nokkrum á öðrum stöðum á landinu. Í marga staðanna var farið árlega; stundum tvisvar á ári.  Lang oftast var farið laus eða í lásum, en sumsstaðar sigið.  (VÖ).

Eggjaveður (n, hk)  Veður sem nýtist til eggjaferðar.  „Ekki líst mér alltof vel á egjaveðrið á morgun“.

Eggjavegur / Eggjaslóði (n, kk)  Vegur/vegslóði sem farinn er til að komast til eggjatöku.  „Fjandi er þetta slæmur eggjavegur; farðu aðeins hægar hérna“.  „Af Núpnum er eggjaslóði fram á Blakk“.

Eggjaþeytari (n, kk)  Fyrrum nefndist það tæki þessu nafni, og var handsnúið, sem nú heitir almennt þeytari og er jafnan rafknúið“.

Eggjaþjófnaður  (n, kk)  Þjófnaður á eggjum; farið til eggja leyfislaust í annars manns land.  Eggjaþjófnaður var fátíður fyrrum, þó ekki væri hann óþekktur.  Almennt var látið óátalið þó einn maður færi um öll björg án þess að skila landshlut, en hann varð þó að láta vita af sér til að valda ekki öðrum hættu.  Þetta var ævagömul regla, enda óalgengt áður að almenningur ætti vaði sem dygðu til mikillar tekju.  Nú á tímum getur einn fær maður komist víða um björg og náð miklu á skömmum tíma.  Því hefur hin forna regla að mestu vikið.

Eggjárn (n, hk)  Beitt járn; hnífur, sverð, sax eða annað með egg.  Sumir Rauðasandshreppsbúar héldu fast við þá fornu reglu að vinna aldrei með eggjárn á sunnudögum, en þjóðtrúin segir slíkt boða ógæfu.  Einnig kallar það ógæfu yfir manneskju að gefa henni eggjárn að gjöf; það eru örugg merki um vinslit.  Því var sagt að menn þyrftu annaðhvort að kaupa eggjárn eða stela þeim.  Lengi var það því svo að menn lánuðu helst ekki öðrum vasahnífa sína svo þeim yrði ekki stolið, því sá stuldur er í raun ekki þjófnaður heldur skylda.

Eggland (n, hk)  Svæði þar sem vænlegt er að fara til eggjatöku.  „Mesta egglandið í Breiðnum er uppaf Landamerkjahlrygg og þar útaf“.

Eggpláss sjá eggfles.  Staður/hilla/gangur/fles í bjargi þar sem mikið er um egg.

Eggsléttur (l)  Rennisléttur; alveg sléttur.  „Hér er eggsléttur bali sem gaman væri að koma rækt í“.

Eggtíð (n, kvk)  A.  Eggjatími; tíminn að vori sem eggjataka er nýtt.  „Ef svo stóð á tíma að eggtíð stæði yfir var farið til eggja.  Fýlsegg voru tekin um mánuð af sumri, en svartfuglsegg hálfum mánuði síðar“   (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Stekktíð; Skerpla; tími árs að fornu tímatali.  „Eggtíð eða stekktíð kallast sá mánuður nær sól er á erð um tvíburamerkið.  Á Ströndum norður kallast sá mánuður Skerpla“  (BH; Atli).

Eggver (n, hk)  Staður þar sem afla má eggja; varp; fuglabjarg.  „Skallagrímur var skipasmiður mikill, en rekavið skorti eigi vestur fyrir Mýrar.  hann lét gera bæ á Álftanesi og átti þar bú annað; lét þaðan sækja útróðra, og selveiðar og eggver, er þá voru gnóg föng þau öll...“ (Egils saga Skallagrímssonar).

Egna (s)  A.  Setja beitu/agn á krók eða í fellu.  „Það er ekki sama með hverju maður egnir krókinn“.  „Mig vantar smérklípu til að egna músagildruna“.  B.  Ögra; reita til reiði.  „Ykkur var nær að vera ekki að atast í nautinu og egna það upp á móti ykkur“.

Eiðfært (l)  Alveg á hreinu; dagsatt.  „Það er svo eiðfært með það; hér er engan fisk að fá“.  „Skyldi það vera alveg eiðfært með þessa ríkisstjórn, að hún geri nokkurntíma eitthvað af viti“!  Oft var, til áhersluauka, bætt ýmsu við:  „Það er svo gjörsamlega eiðfært með það…“.

Eiðsorð / Eiðstafur (n, hk/kk)  Svardagi; loforð.  „Ef hann fellst á þetta þá stendur það eins og eiðsorð; því máttu trúa“.  „Það voru nú engir eiðstafir þó ég segðist kannski ætla að láta hann hafa hrútinn“!

Eiðsvarinn (l)  Bundinn af loforði/eiði.  „Hann er alveg eiðsvarinn andstæðingur þessa máls“.

Eiður sær (ortak)  Getur lagt eið að; segir alveg satt.  „Hvar geta gleraugun verið?  Mér er eiður sær að ég lagði þau hér á borðið í gær“!  „Mér er svo eiður sær að þetta var ekkert af þessum heimi; engin venjuleg skepna hegðar sér þannig að hlaupa  á harðastökki beint í sjóinn“!

Eiga (einhvern) að (orðtak)  Eiga einhvern fyrir tryggan vin; eiga aðstoð/vináttu einhvers vísa.  Ávallt sagt þannig, en er líklega stytting á „eiga (einhvern) að vini/félaga“.  „Feginn vildi ég eiga þig að“, voru oft kveðjuorð fyrrum.  „Mér þætti gott að mega eiga þig að þegar kemur að smölunum í haust“.  „Þetta er hálfgerður einstæðingur, sem engan á að“.

Eiga afturkvæmt (orðtak)  Lifa af; koma aftur lifandi frá mannraunum/slysi.  „Konurnar voru önnum kafnar við að búa sig undir að taka á móti sjóhröktum útlendingum, heimamönnum og nágrönnum; þreyttum og köldum; ef þeir ættu þá allir afturkvæmt“ “  (Oddný Guðmundsd; Útkall við Látrabjarg). 

Eiga allskostar við (orðtak)  Hafa á valdi sínu; geta farið illa með.  „Ef nautið nær að þrúga þér uppað veggnum þá á það allskostar við þig eftir það“

Eiga á brattann að sækja (orðtak)  Glíma við mótlæti; eiga erfitt verk fyrir höndum; standa í ströngu

Eiga (einhvern) á fæti (orðtak)  Hafa yfirvofandi; eiga von á illu.  „Þú skalt eiga mig á fæti ef þú verður ekki búinn að skila ífærunni strax í fyrramálið“!  Vísar til þess að vera eltur á hlaupum.

Eiga á hættu (orðtak)  Vera í áhættu með; hafa yfirvofandi; búa við.  „Það er betra að kippa bátnum einni bátlengdinni ofar en eiga það á hættu að flani undir hann á flæðinni“.

Eiga barn framhjá (orðtak)  Eignast barn utan sambúðar/hjónabands, þó í föstu sambandi sé.  „Verður því sjálfsagt ekki neitað með neinum rökum að Einar gamli hafi verið nokkuð kvennakær, með því að hann á barn framhjá þegar hann er 65 ára gamall, með tvítugri stúlku“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Eiga bágt (orðtak)  Eiga erfitt; vera vansæll/fátækur/sjúkur.  „Hún á mjög bágt núna; eftir að hann féll frá“.  Einnig sem skammaryrði:  „Svo hlægið þið bara að þessu; þið eigið bágt“!

Eiga eina sæng (orðtak)  Sofa í sama rúmi.  „Aftur greinir ganhaldsbrú:/  „Gera skaltu betur;/ eiga skulum eg og þú/ eina sæng í vetur“ (JR; Rósarímur). 

Eiga einskis úrkosta (orðtak)  Eiga ekki neina möguleika; vera allar bjargir bannaðar.  „Mér þykir slæmt að þurfa að gera þetta, en ég átti einskis annars úrkosta“.

Eiga ekki annarra kosta völ / Eiga ekki/einskis annars úrkosti (orðtak)  Geta ekki gert neitt annað; hafa ekki um aðra kosti að velja.  „Spilið bilaði, svo við áttum ekki annars úrkosti en pilla okkur í land aftur“.

Eiga ekki bót fyrir boruna / Eiga ekki bót fyrir rassinn á sér (orðtök)  Vera sárafátækur; vera á kúpunni.  „Hann á aldrei bót fyrir boruna“.

Eiga ekki/illa heimangengt (orðtak)  Vera ekki fær um að fara að heiman; geta ekki komist frá.  „Ég á illa heimangengt þessa stundina, meðan allir liggja á sóttarsæng“.

Eiga ekki hægt um vik (orðtak)  Eiga erfitt með; vera ekki í góðri aðstöðu til.  „Ég á ekki hægt um vik að gera þetta núna, en ég athuga það á morgun“.  Sjá eiga erfitt um vik og gera sér hægt um vik.

Eiga ekki í önnur hús að venda (orðtak)  Geta ekki leitað annað.  „Mér er meinilla við að kvabba á þér með þetta, en mér sýnist ekki vera í nein önnur hús að venda“.

Eiga ekki langt að sækja (orðtak)  Kippa í kynið; líkjast sínum foreldrum/forfeðrum í tilteknu efni.  „Hann á ekki langt að sækja það að vera pínulítið smámunasamur“. 

Eiga ekki/varla málungi matar (orðtak)  Hafa ekki nógan mat í málsverð.  Málungi er þarna orðmynd af mál, svipað og t.d. „einungis“ er orðmynd af „einn“

Eiga ekki um heilt að binda (orðtak)  Vera ekki heill heilsu; vera veikur/sjúkur/særður/vanheill; vera geðveikur.  „Hann á ekki um heilt að binda, karlgarmurinn; því fyrirgefst honum kannski fleira en öðrum“.

Eiga ekki sjö dagana sæla (orðtak)  Hafa það slæmt/skítt; vera í vandræðum.  „Hann spáir foraðsrigningu næstu dagana.  Við munum víst ekki eiga sjö dagana sæla í smalamennskum á næstunni“.

Eiga ekki (til) orð (í eigu sinni) (orðtak)  Vera klumsa/kjaftstopp; verða orðfall; koma ekki upp orði.  „Ég á nú bara ekki til orð í eigu minni:  Til hvers er verið að senda hefilinn í snjómokstur ef einungis er mokuð hálf leiðin“?  „Misstirðu árans lúðuna?  Ég á ekki til orð“.  Einnig; „Ég á nú ekki orð að tala“!

Eiga ekki/hvorki til hnífs eða/né skeiðar (orðtak)  Vera svo fátækur að maður líði hungur/skort.  „Í hallærum fyrri tíma leitaði það fólk gjarnan að sjávarsíðunni og í verin, sem ekki átti lengur til hnífs eða skeiðar“.

Eiga ekki (grænan) túskilding (með gati) / Eiga ekki krónu (með gati) (orðtak)  Vera blankur/allslaus/fátækur; eiga ekki svar.  „Ekki spyrja mig að þessu; ég á ekki krónu með gati“:  Sjá túskildingur.

Eiga ekki undir (orðtak)  Taka ekki áhættu.  „Ekki áttu þeir undir því að taka stefnu út á strandstað, því þá var ekki um sýnilegar gönguslóðir að ræða“  (MG; Látrabjarg).

Eiga ekki upp á pallborðið hjá (orðtak)  Vera ekki dáður af; vera í ónáð hjá.  „Þessir horngrýtis kapítalistar áttu ekki upp á pallborðið hjá Gunnari“.  Vísar til þess að fyrr á tíð var gólf/pallur í hluta af skálum/stofum/borðstofum, og þar áttu sæti þeir mikilvægari á bænum og betri gestir; aðrir áttu sæti á skörinni.  Flökkufólk og vinnuhjú átti því að jafnaði ekki upp á pallborðið hjá húsbændunum.

Eiga engan sinn líka / Eiga fáa sína líka (orðtök)  Vera óviðjafnanlegur; bera af öðrum.  „Þessi hákarl á engan sinn líka“!  „Ég held að svona maður eigi fáa sína líka“.

Eiga erfitt/bágt (orðtök)  Hafa það skítt/slæmt; búa við ill kjör.  „Ekki minnist ég þess að menn fáruðust svo teljandi væri, um það hversu erfitt þeir ættu; að þurfa að sinna þessum verkum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „En fyrst eftir höggið þegar hann kom niður átti hann bágt með andardrátt“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Eiga erfitt/bágt með sig (orðtak)  Reynast erfitt að bæla niður hláturinn / skella ekki uppúr.

Eiga erfitt um vik (ortðtak)  Eiga erfitt með; eiga ekki hægt um vik.  „Ég átti erfitt um vik með þetta“.

Eiga fáan sinn líka (orðtak)  Vera (nær) einstakur; ver óviðjafnanlegur.  „Ég held að hann eigi fáan sinn líka hvað varðar færni í klettum“.

Eiga flatt / Eiga í ljá (orðtak)  Vera með slegið hey sem ekki er búið að hirða.  „Ég var búinn að galta töluvert þegar hann fór að hirða, ein Hólatúnið átti ég flatt af hálfþurru“.

Eiga fótum fjör að launa (orðtak)  Komast undan á hlaupum; sleppa naumlega með því að hlaupa.  „Þú skalt bara tala varlega í þessum efnum, annars gætirðu átt fótum fjör að launa“!

Eiga fyrir hendi/höndum (orðtak)  Standa frammifyrir; eiga ógert; þurfa að gera.  „Við ungmennafjelagar eigum mikið verkefni fyrir hendi, þar sem íþróttir eru“  (Guðmundur Hákonarson; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).  „Búðu þig almennilega og vertu vel skæddur.  Við eigum langa göngu fyrir höndum“.

Eiga fullt í fangi með / Eiga í fullu fangi með (orðtak)  Vera fullhertur með; eiga í basli.  „Ég á fullt í fangi með að klára þetta“.

Eiga fyrir að liggja (orðtak)  Eiga í vændum; eiga þá framtíð.  „Það átti ekki fyrir mér að liggja að taka við búinu, eins og mig dreymdi um sem smástrákur“.

Eiga geð/skap saman (orðtak)  Geta umborið hvorn/hvern annan; vera samrýmdir.  „Þeir áttu illa geð saman, og mátti oft heyra hávært rifrildi þeirra þegar stillt var í veðri á grásleppumiðunum“.

Eiga gott (orðtak)  Vera vel settur/haldinn/ánægður.  „Sá á gott sem ekki þarf að standa í þessu puði“!

Eiga (einhverjum) gott upp að unna (orðtak)  Hafa átt góð samskipti við einhvern; hafa notið góðs af einhverjum; hafa góða reynslu af einhverjum.  „Stúlkan segir; Jóni á Hreggstöðum á ég ekkert gott upp að unna og ég vil ekkert við hann eiga“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Eiga (einhverjum) grátt að gjalda (orðtak)  Bera hefndarhug til; þurfa að veita ráðningu.  „Ég á honum grátt að gjalda frá því að hann hafði af mér vasahnífinn“.

Eiga hauk í horni (orðtak)  Eiga góðan vin; eiga von í góðri aðstoð.  „Það er ómetanlegt að eiga slíkan hauk í horni sem hann er“.

Eiga heiður skilinn (orðtak)  Vera verðugur sæmdar.  „Heiður eiga þau skilinn, foreldrar okkar, fyrir að ala upp allan sinn stóra barnahóp og koma honum til manns; þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og kröpp kjör“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Eiga heimangengt (orðtak)  Geta farið að heiman; vera ekki bundinn heimavið.  „... karlmenn sem heimangengt eiga búa sig í verið, eins og vani var frá ómunatíð“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Eiga heimtingu á/til (orðtak)  Eiga kröfu á/til; eiga rétt á.  „Hann á enga heimtingu á að fá landshlut hér“.

Eiga hlut að (orðtak)  Eiga þátt í; vera viðriðinn.  „...og hafi eigandi Hænuvíkur átt hlut að því sem fyrir kom í Kollsvík, með því að leita aðstoðar Benedikts Gabríels“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Eiga einhversstaðar/hvergi höfði sínu að halla (orðtak)  Eiga einhvern/engan svefnstað/samastað/bústað.  „Einhversstaðar þarf maður að eiga höfði sínu að halla, svo ég þáði þetta boð með þökkum“.

Eiga (eitthvað) hjá (einhverjum) (orðtak)  Eiga inneign hjá einhverjum; einhver er í skuld við mann. „Hann greiddi mér að fullu það sem ég átti hjá honum“.  Einnig oft um það að geta svarað fyrir sig; og þá með sögninni „láta“.  „Hún lét hann ekkert eiga inni hjá sér, heldur svaraði þessum dylgjum fullum hálsi“.  Sjá eiga inni.

Eiga hvert bein í (orðtak)  Um kærleika á manneskju; þykja afar vænt um; vilja helst eiga.  „Henni þótti mjög vænt um að ég skyldi koma í heimsókn og stjanaði við mig eins og hún ætti í mér hvert bein“.

Eiga hvorki til hnífs né skeiðar (orðtak)  Vera mjög fátækur; búa/lifa við sult og seyru.

Eiga högg í annars garði (orðtak)  Eiga einhverjum grátt að gjalda; þurfa að hefna sín á einhverjum.  Högg merkir þarna hefnd og garður merkir bær.

Eiga hönk upp í bakið á e.m (orðtak)  Eiga inni greiða; hafa gert e.m viðvik.  „Ætli ég biðji hann ekki að vinna þetta fyrir mig; ég á kannski einhverja hönk upp í bakið á honum fyrir hangiketið“.  Hönk merkir í þessu samhengi færi til skakveiða.  Venja var fyrrum, er vermaður fór úr veri, að hann legði færi sitt á bakið og tæki það með, enda var band dýrmæt eign og fágæt.  Orðtakið vísar líklega til þess að einn hafi lánað öðrum færi, uppá það að geta samt tekið það með sér heim í vertíðarlok.

Eiga inni (hjá) (orðtak)  Eiga innistæðu; hafa unnið til einhvers og þannig eignast velvild/innistæðu.  „Hann á það fyllilega inni hjá mér að ég aðstoði hann við þetta“.  Sjá eiga hjá.

Eiga í (orðtak)  Eiga við að stríða; standa í.  „Hann mun líklega eiga í þessu fótbroti í nokkra mánuði enn“.

Eiga í bakhöndinni (orðak)  Hafa/eiga til vara; hafa uppá að hlaupa.  „Mér finnst gott að eiga einhverja pilka í bakhöndinni ef maður lendir í festum“.

Eiga í basli/brasi/erfiðleikum með (orðtak)  Basla/erfiða við; glíma við; veitast erfitt.  „Ég hef átt í mesta basli með traktorsfjandann“.  „Ég átti í dálitlu brasi með að koma fénu upp ganginn“.  „Hann á ekki í neinum erfiðleikum með að tjá sig á tékknesku“.

Eiga í fórum/föggum sínum (orðtak)  Eiga; hafa.  „Oft átti afi eitthvað súkkulaði í fórum sínum“.  Fórur merkti herklæði, og hafa málfræðingar reynt að finna orðtakinu stað með þeirri skýringu.  Líklegra er þó að fórur sé sama orðið og færur, sem merkir m.a. farangur; það sem fæerist/ferðast með manni.  Verður orðtakið þá auðskilið, enda er merkingin þá hin sama og „eiga í föggum sínum“ sem er önnur algeng útgáfa þess.  Með sömu upprunaskýringu á „fórur“ einnig við herklæði; enda ferðast menn í þeim til bardaga. Sjá föggur.

Eiga í handraðanum (orðtak)  Eiga í pokahorninu; eiga til; luma á.  Sjá handraði.

Eiga í hlut (orðtak)  Vera viðkomandi; eiga hlut að máli.  „Kunni hann því illa ef hann kom því ekki fram sem hann vildi vera láta, við hvern sem í hlut átti, og vildi einn öllu ráða“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Eiga (mikið) í húfi (orðtak)  Sjá í húfi; mikið í húfi.

Eiga í höggi við (einhvern) (orðtak)  Eiga í illdeilum/bardaga/baráttu við einhvern.  „Mér hefur aldrei vaxið það í augum að eiga í höggi við stjórnvöld; svo lengi sem ég hef á réttu að standa“.  Vísar til bardaga/orrustu.

Eiga í pokahorninu (orðtak) Eiga til; eiga úrræði; eiga í handraðanum.  „Ég gæti nú kannski átt eitthvað í pokahorninu ef vel er gáð“.

Eiga í útistöðum við (orðtak)  Vera upp á kant við; kljást við; eiga í höggi við.  „Maður á í eilífum útistöðum við skattinn“.  Sjá útistöður.

Eiga í vök að verjast (orðtak)  Vera í vörn; vera aðþrengdur; eiga undir högg að sækja.  „Þær sóttu svo á að ég átti í vök að verjast“.  Vísar líklega til þess sem fallið hefur í vök og þarf að verjast drukknun.  „Þessu fári verst í vök/ veldið trölla forna./  Þaðan koma ragnarök;/ reiði skapanorna“ (JR; Rósarímur). 

Eiga kirkjusókn (orðtak)  Vera í söfnuði sóknarkirkju.  „Víknamenn áttu kirkjusókn í Saurbæ þangað til Breiðavíkursókn var tekin upp, og byggð kirkja í Breiðavík“  (IG; Sagt til vegar II). 

Eiga langt í land með (orðtak) Vera langt frá því að ná takmarki; eiga mikið verk óunnið; vera ekki nærri því að klára.  „Við eigum enn langt í land með að hreinsa öll net eftir þennan norðangarð“.  Líking við það úr sjómannamáli að eiga langan róður/ langa siglingu fyrir höndum áður en lent er.

Eiga með (orðtak)  Hafa rétt til; hafa með að gera; ráða með.  „Hann á ekkert með að nota bátinn án þess að biðja mig um leyfi“!

Eiga/hafa nóg með (orðtök)  Eiga í fullu fangi með; vera fullhertur með.  „Ég reyndi að hjálpa honum eins og ég gat, þó ég ætti nóg með að hafa undan því sem barst að mér sjálfum“.

Eiga leið (orðtak)  Vera á ferð; eiga ferð fyrir höndum.  „Þú kippir þessu kannski með þér ef þú átt leið þarna um“.  „Þórarinn átti styttri leið í Verið og treysti á það… . … en Þórarinn átti leið norður með fjörunni Þar sem þeir Jón reru skammt frá landi“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Eiga lífið að leysa (orðtak)  Forða sér frá lífláti með klókindum.  „Ekki myndi ég þetta þó ég ætti lífið að leysa“.

Ekki/aldrei meiningin (orðtak)  Ekki ætlunin; ekki til ætlast.  „Það var aldrei meiningin að hann fengi þetta til eignar; ég ætlaði bara að lána honum það“.

Eiga mikið í húfi / Eiga mikið undir (orðtak)  Vera mjög háður; vera í hættu með.  „Ég á mikið í húfi með að þetta geti gengið“ (sjá húfur).  „Hér eiga bændur mikið undir því að vegum sé vel sinnt“.

Eiga orð/orðastað við (orðtak)  Tala/ræða (einslega) við.  „Eigðu snöggvast við mig orð“.  Stundum bætt við; „eitt orð“.  „Ég þarf að eiga við þig eitt orð í góðu tómi“. „Ég þarf helst að eiga orðastað við hann um þetta“.

Eiga peninga eins og skít (orðtak)  Vera vellauðugur/forríkur. 

Eiga rætur að rekja til / Eiga ættir að rekja til (orðtök)  Geta rakið ættir sínar til nefnds staðar/kynstofns.

Eiga samleið (orðtak)  Vera á sömu leið og einhver annar.  „Björgunarmenn kvöddust nú; þeir sem ekki áttu samleið“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Eiga sér stað (orðtak)  Gerast; verða.  „... hér fyrir Víkurnar var, og er enn, fjölfarin skipaleið.  Oft höfðu átt sér stað skipströnd þar á liðnum tíma“  (ÖG; Slysavarnadeildin Bræðrabandið). 

Eiga skilið (orðtak)  Vera verður; eiga heimtingu á.  „Mér finnst að hann eigi hrós skilið fyrir frammistöðuna“.

Eiga stutt eftir / Eiga skammt eftir ólifað (orðtak)  Vera kominn á grafarbakkann/ að andlátinu.

Eiga sökótt við / Eiga óuppgerðar sakir við (orðtak)  Eiga í útistöðum við; eiga vantalað við; standa í illdeilum við; eiga eftir að jafna sakir við.  „hann taldi sig eiga eitthvað sökótt við nágrannann“.

Eiga tal (orðtak)  A.  Eiga að bera (eiga lömb).  „Lukka var með þeim sem fengu fyrst.  Hún á þá tal 8. maí“.  B.  Hafa tal af; tala við.  „Ég átti tal við hann í gær um þetta“.

Eiga (það) til (orðtak)  Hafa eðli til; geta stundum gert.  „Hundurinn á það til að bíta, en sjaldan þó að fyrra bragði“.  „Þær áttu til að verpa í holum og útihúsum...“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Eiga til (merkra/góðra o.fl.) að telja  (orðtak)  Vera afkomandi; geta rakið ættir til; eiga ættir að rekja til.  „Að sjálfsögu var þessi vanalega fátækt fyrir hendi; sú sem oftari fylgdi þeim sem hófu búskap sem leiguliðar og áttu ekki til ríkra að telja, sem gætu veitt þeim aðstoð“  (AÍ; Árb.Barð 1980-90). 

Eiga til góða (orðtak)  Geyma; eiga umfram; eiga inni.  „Ég má ekki vera að því að þiggja kaffi núna; ég ætla að eiga það til góða næst“.

Eiga/hafa til skiptanna (orðtak)  Eiga til vara; eiga auka/annað.  „Ég var forblautur í fæturna, en sem betur fer átti ég sokka til skiptanna“.

Eiga undir (orðtak)  Vera háður; megna.  „Ég á það undir veðri hvort ég kemst“.   „Hann á mikið undir sér“.

Eiga undir högg að sækja (orðtak)  Vera háður einhverjum með eitthvað; eiga í vök að verjast.  „Ég þarf að fá fóðurbæti í kaupfélaginu, en þar er undir högg að sækja þar sem ég skulda enn síðustu úttekt“.  Líklega vísar orðtakið til þess að í bardaga er slæmt að þurfa að berjast við þann sem er fyrir ofan.  Af sömu rót er líklega orðtakið að berjast í bökkum.

Eiga undir sér (orðtak)  Vera efnaður/ríkur.  „... enga atvinnu var að fá, nema að þjóna undir þá fáu sem eitthvað áttu undir sér... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Eiga (ekki) upp á pallborðið hjá (orðtak)  Vera ekki í vinfengi við; vera í litlum metum hjá.  Orðið vísar til pallborðs í hinum fornu skálum (sjá þar).  Langeldur var á gólfi og autt svæði kringum hann, en pallur/pallborð með veggjum.  Á pallborði sátu einungis húsbændur og þeir sem mestrar virðingar nutu, en vinnumenn og aðrir sátu á skör/þrepi pallsins; voru skör lægra settir; áttu ekki upp á pallborðið.  Settist það fólk upp á pallinn þótti sumum að skörin væri að færast upp á pallinn

Eiga skammt eftir (ólifað) (orðtak)  Eiga ekki langt eftir af sínu lífi.  „Þeir halda að hann sé með krabba, og gæti jafnvel átt skammt eftir ólifað“.  Menn hafa velt fyrir sér þessu „ó“ -forskeyti í lifað, þar sem í nútímamáli væri orðtakið skiljanlegra án þess.  Fræðimenn hafa bent á að þó forskeytið hafi oftast neitandi merkingu þá geti það einnig verið hlutlaust; t.d. í orðunum óhljóð og ólæti.  Sama er um ólifað.  Líklegt er, að mati VÖ, að forskeytið hafi upphaflega verið „æ“, og haft þá aukandi merkingu eins og í orðinu ævarandi. 

Eiga skuldlaust (orðtak)  Eiga án skuldbindinga; eiga að öllu leyti.

Eiga undir högg að sækja (orðtak)  Heyja harðan bardaga; mæta erfiðleikum.  Upphaflega um það að sækja fram í orrustu þó maður eigi sverðs-/ axarhögg á hættu.  Nú notað um að eiga við erfiðleika að etja.

Eiga (annars) úrkosti (orðtak)  Eiga völ/kost; geta; vera fær um.  „Það er að auka báru svo hratt að við eigum ekki annars úrkosti en hypja okkur í land“.

Eiga sögnina (orðtak)  Vera sá sem á ráðandi sögn í spilum/bridds. 

Eiga sök á (orðtak)  Vera valdur að; orsaka.  „Hann sagðist ekki eiga neina sök á þessu óhappi“.

Eiga til góða (orðtak)  Um greiða eða aðra inneign; eiga inni; eiga von í því síðar.  „Vertu ekkert að borga mér þetta núna; ég ætla að eiga það til góða hjá þér“.  Þegar einhver þakkar fyrir matinn er ýmist sagt „verði þér að góðu“ eða „eigðu það til góða“ eða „haltu til góða“.  Sjá halda til góða.

Eiga um sárt að binda (orðtak)  Vera sorgmæddur; hafa misst nákominn ættingja eða vin; hafa orðið fyrir missi.  „Eftir slysið áttu margar fjölskyldur í hreppnum um sárt að binda“.  Sjá eiga ekki um heilt að binda.

Eiga vanda til (orðtak)  Vera vanur.  „Mér fannst ég vera öðruvísi en ég átti vanda til“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli). 

Eiga vantalað við (orðtak)  Þurfa að ræða við; eiga eftir að tala við.  „Ég á sitthvað vantalað við Vegagerðina“.

Eiga við (orðtak)  A.  Fást við; vinna við.  „Ég ætla ekkert að eiga meira við vélina fyrr en ég fæ varahlutina“. „...en harðbannaði jafnframt að nokkur kæmi þar nálægt til þess að eiga við hræið“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).   B. Um skakveiði; narta í krók.  „Eitthvað finnst mér að hann sé að eiga við þetta“.  C.  Vera viðeigandi; henta.  „Ég stakk inn einni og einni leiðréttingu þegar mér fannst það við eiga“.

Eiga við erfiðleika að etja (orðtak)  Eiga við ramman reip að draga; eiga undir högg að sækja (sjá þar).

Eiga við ofurefli að etja (orðtak)  Standa frammi fyrir einhverju óviðráðanlegu; þurfa að eiga við fleiri andstæðinga en ráðið verður við.  Vísar til hernaðar eða valdatafls fyrr á tímum.

Eiga við ramman reip að draga (orðtak)  Eiga erfitt uppdráttar; búa við mótlæti/andstreymi.  „Baldur hefir átt við ramman reip að draga; strjálbýli og samtakaleysi“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).  Reipur er eldri mynd af heitinu reipi = kaðall/vaður/tóg.

Eiga við rök að styðjast (orðtak)  Styðjast við sannindi/rök; vera rétt/satt.  „Þessi saga átti ekki við nein rök að styðjast; þetta var bara uppspuni frá rótum“.

Eiga við vanheilsu að stríða (orðtak)  Ganga ekki heill til skógar; vera veikur.  „Hann hefur átt við vanheilsu að stríða síðustu árin“.

Eiga vísan (orðtak)  Eiga tryggan; geta reiknað með.  „Þú átt stuðning minn vísan í þessu máli“.

Eiga von á/í (orðtak)  Búast við; vænta.  „Ég átti von á því að eitthvað slíkt gæti gerst“.  „Honum var huggun að því að eiga von í heimsókn þeirra“.

Eiga von á barni / Eiga von á sér (orðtak)  Um konu; vera barnshafandi.  „Mér skilst að hún eigi von á sér í byrjun maí“.

Eiga völ á (einhverju) (orðtak)  Eiga einhvers kost; geta valið eitthvað.  „Hvort ég myndi ekki þiggja þetta ef ég ætti á því völ“!

Eiga það til (orðtak)  Gera stundum/mögulega.  „Gættu þín þegar þú snýrð vélinni í gang; hún á það til að slá til baka“.  „Gilið á það til að flæða uppúr farvegi sínum og útyfir Flötina, í asahláku“.  „Hann átti það til að freta mjög fúlt eftir eggjaátið“.

Eiga þakkir skildar (orðtak)  Vera verðugur þakklætis/hlýhugar.

Eiga (sinn) þátt í (orðtak)  Eiga hlutdeild í; vera aðili að.  „Veðurútlitið átti sinn þátt í þessari ákvörðun“.  „Mikinn þátt í þessu á góð og mikil gjöf, samfara góðri hirðingu o.fl. “  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Eiga þess kost / Eiga kost á (orðtak)  Eiga það val; geta valið það; geta.  „Ég átti þess ekki kost að komast með í þetta sinn“.  „Ég átti engan kost á að eignast bókina á þeim tíma“.

Eiga ættir að rekja til (einhvers) (orðtak)  Vera kominn út af einhverjum; eiga einhvern/einhverja að forföður/formóður.  „Kollsvíkingar af Kollsvíkurætt eiga ættir að rekja til Einars gamla Jónssonar í Kollsvík.

Eigðu/haltu til góða (orðtak)  Andsvar þegar einhver þakkar fyrir t.d. þeginn mat.  Sjá eiga/halda til góða.

Eigi að síður (orðtak)  Samt; þrátt fyrir það.  „Eigi að síður gáfust hey fullkomlega í meðallagi…“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Eigi bætir sá annars brók sem ber er um rassinn sjálfur (orðatiltæki)  Þeim ferst ekki að vanda um við aðra sem sjálfir eru öngvu betri; enginn skyldi kasta steinum úr glerhúsi.

Eigi er Gíll fyrir góðu nema Úlfur á eftir renni (orðtak)  Sjá; blæs út sólir; aukasólir; gíll og úlfur.

Eigi má sköpum renna (orðatiltæki)  Forlögin (sköp) verða ekki umflúin; það verður fram að koma sem mönnum er áskapað.  Sjá forlög/örlög.

Eigi skal höggva (orðatiltæki)  Andlátsorð Snorra Sturlusonar er hann var veginn í Reykholti 23.september 1241, af Gissuri Þorvaldssyni og skúrkum hans.  Snorri er talinn einn merkasti rithöfundur og fræðimaður fyrri alda og valdamikill höfðingi.  Hann hafði veðjað á rangan hest í valdabaráttu í Noregi; dregið taum Skúla jarls og fallið í ónáð hjá Hákoni konungi.  „Út vil ek“ sagði Snorri þegar Hákon ætlaði að kyrrsetja hann í Noregi, og út fór hann til Íslands.  Þar féll hann fyrir Gissuri, sem gekk erinda Hákonar kóngs.  Snorri var einn af merkum forfeðrum Kollsvíkurættar.

Eigi skal skuturinn eftir liggja (ef allvel er róið í fyrirrúminu) (orðatiltæki)  Tilvitnun í Gretti Ásmundarson sem oft er höfð á orði í róðrum, einkum þegar kapp er í ræðurum.  Grettir reri eitt sinn frá Reykhólum til Ólafseyja með þeim Þorgeiri Hávarssyni og Þormóði Kolbrúnarskáldi að sækja naut.  Þormóður reri í hálsi; Þorgeir í fyrirrúmi en Grettir í skut. Gerðist kapp í róðrinum og Þorgeir mælti; „frýr nú skuturinn skriðar“?  Grettir svaraði; „eigi skal skuturinn eftir liggja ef allvel er róið í fyrirrúminu“.  Tók hann síðan svo rösklega á að árarnar eyddust og gengu í sundur við ræðin.  Grettir greip þá erði tvö; rak þau í gegnum borðstokkinn og reri með þeim til lands.

Eigi veit ég það svo gjörla (orðtatiltæki)  Staðlað andsvar sem oft er notað; Ég veit það ekki mjög vel“.

Eigi veldur sá er varar (orðatiltæki)  Sá er saklaus sem varar við.  Elstu mynd spekinnar er að finna í Brennu-Njáls sögu; „veldurat sá er varar“.  Á seinni tímum hefur spekinni oft verið snúið í „veldur sá er varir“, og skýrt með því að sá hafi sigur sem meira hefur úthaldið. 

Eigi verður allt með auði fengið (orðatiltæki)  Ekki er hægt að kaupa allt, t.d. hamingju eða langlífi.

Eiginn hagur / Eigið skinn (orðtök)  Um eigingirni, sjálfselsku.  „Þessir stórbokkar hugsa nú mest um eigin hag en ekki fátæka útkjálkabændur!  Hjá þeim er aðalatriðið að bjarga eigin skinni“!

Eigingirni (n, kvk)  Sjálfselska; skortur á samkennd.  „Ekki þessa eigingirni drengur; gefðu hinum með þér“!

Eigingjarn (l)  Sjálfselskur; skortir samkennd).  „Vertu nú ekki svona eigingjarn á brjóstsykurinn“!

Eiginlega / Eiginlegana (ao)  Í sjálfu sér; í raun réttri; reyndar.  „Eiginlega finnst mér það betra með þessu móti“.  Eiginlegana var allmikið notað framundir þennan dag af sumum Kollsvíkingum, og þá fremur sem hikorð en hitt.  „Mér finnst þessi litur heldur ásjálegri, en eiginlegana er ég þó ekki alveg viss“.

Eigna (s)  Kenna við; segja eiga.  „Honum var eignað þetta ljóð, með réttu eða röngu“  „Dalla voru eignuð ýmis skakkaföll og hrekkir eftir að hans varð fyrst vart“.

Eigra (s)  Rölta; ráfa.  „Féð eigraði eitthvað fram á Foldirnar“.  „Ég eigraði framá Mýrarnar að gá í dýin“.

Eigulegur (l)  Sem gott væri að eiga; eftirsóknarverður.  „Þetta er hinn eigulegasti vasahnífur“.

Eik (n, kvk)  Viðartegund; mjög þétt, hörð, þolin og því mikið notuð t.d. til skipasmíða, þó nokkuð erfið sé í vinnslu.  Eikartréð er stórvaxið lauftré af beykiætt.  Gott þótti að hafa eik í stefni báta og böndum, en einnig voru þau húsgögn, t.d. kistur, skápar og stólar, talin vönduðust sem af eik voru.

Eilífðar- Eilífðarinnar- (forliðir)  Forliður margra nafnorða; notað til áherslu auka í stað blótsyrða.  „Hverslags eilífðarkjaftæði er þetta“?!  „Eilífðarinnar klaufaskapur er þetta nú“!  „Eilífðar andskotans rugl er nú í þér“!

Eilífðarnón (n, hk)  Eilífð.  Eingöngu í samsetningu; til eilífðarnóns.  „Ætlarðu að dóla svona til eilífðarnóns“?!  Sjá bíða til eilífðarnóns.

Eilífðarnöldur (n, hk)  Sífellt suð/nöldur/tuð.  „Mikið er maður þreyttur á þessu eilífðarnöldri“!

Eilífðarótíð (n, kvk)  Langvarandi ótíð sem manni finnst engan endi ætla að taka.  „Það ætlar bara ekki að verða lát á þessari eilífðarótíð“!

Eilífðarráðgáta (n, kvk)  Algjör ráðgáta; óskiljanlegt.  „Þetta er bæði mér og öðrum eilífðarráðgáta“.

Eilífðarrigning (n, kvk)  Langvarandi rigning sem manni finnst endalaus.  „Enn er þessi eilífðarrigning“!

Eilífðarsvefn (n, kk)  Mikill/enalaus svefn.  „Fariði nú að vakna strákar!  Hverskonar eilífðarsvefn er þetta“?!

Eilíflega /Eilíft (ao)  Endalaust; sífellt.  Oftar í neikvæðum setningum:  „Vertu nú ekki eilíflega að nudda um þetta“.  „Hann var eilíft að spyrja mig útí þetta“.

Eilífur (l)  A.  Sem lifir/varir óendanlega.  B.  Oftast notað til áhersluauka.  „Hættu nú þessu eilífa nöldri“!  „Hún hefur mikið að gera, og svo verður hún að vera á eilífum hlaupum“  (Bragi Ó Thoroddsen; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938). 

Eima af / Eima eftir af (orðtak)  Finnast leifar af; situr eftir.  „Það eimir enn eftir af gömlum venjum í Kollsvík, t.d. að eta bringukolla á Þorláksmessu“.

Eimpípublástur (n, kk)  Skipsflaut; þeyting eimpípu á skipi.  „Um kl 10 heyrði fólkið á Gjögrum eimpípublástur“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Ein býður ólukkan annarri heim (orðatiltæki)  Ekki er ein báran stök; hvert óhappið eltir annað. 

Ein lygin býður annarri heim / Ein lygin eftir aðra (orðatiltæki/orðtak)  Oft spinnst langur lygavefur af litlu skröki.  Menn festa sig fjarnan í sínum lygavef.

Eina ferðina enn (orðtak)  Enn einusinni; í eitt skiptið enn.  „Ertu nú búinn að rífa buxurnar þínar eina ferðina enn; hvernig ferðu eiginlega að þessu drengur“?!

Eina ferðina enn (orðtak) Einusinni enn; enn og aftur.  Oft notað í vandlætingartón yfir endurteknum yfirsjónum.  „Eina ferðina enn hefur hann gleymt að loka á eftir sér hliðinu“!

Eina tönnin í tíkinni (orðtak)  Það eina sem nýtilegt er; hið eina sem gagnast.  „Árans afföll hafa orðið af kvíslum síðustu dagana.  Er þessi hérna eina tönnin í tíkinni núna“?

Einangrun (n, kvk)  A.  Það að vera innilokaður, einn eða með fáum; einsemd.  „Einangrun bæjanna var rofin þegar vegurinn var ruddur“.  B.  Efni sem ekki leiðir kulda/rafstraum.  T.d. ull, dúnn o.fl.  Orðið var upphaflega „einangur“, og merkti aðhald; klípa; þregsli; einvera. 

Einn (fn)  Fornafnið „einn“ var töluvert notað til áherslu eða hiks framan við töluorð.  „Þetta varð fyrir einum 20 árum“.  „Við settum þetta upp í eina 15 galta“.  Ætli við höfum ekki fengið einar 50 grásleppur í strenginn“.

Einn og einn (orðtak)  Fáeinir með nokkru millibili.  „Það var engin vild á fiski, þó maður væri að sarga upp einn og einn, allan liðlangan daginn.

Einarðlega (ao)  Af hörku/atorku/sannfæringu; ákveðið.  „Hann barðist einarðlega gegn þessari þróun“.

Einarður (l)  Ákveðinn; fylginn sér; staðfastur.  „Hann var einarður í þessari skoðun sinni og gaf sig ekki“.

Einasti (l)  Einn; einstakur.  „“Þorvarður var einasta barn Egils og Guðrúnar i Breiðuvík...“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  Einnig orðtakið hver og einn einasti.

Einatt (ao)  Alltaf; hverju sinni.  „Einatt skal beljufjandinn brauðhófast í milligerðinni“!

Einása (l)  A.  Um hús; með einum mæniás. B.  Um hverfil; með einum meginás í stað tveggja.

Einátta (l)  Um vind; blæs eindregið af einni átt yfir nokkurn/langan tíma.

Einbeita sér að (orðtak)  Beina allri athygli/atorku að.  „Nú þarftu að einbeita þér að náminu“.

Einbeittur (l)  Ákveðinn; með athygli á.  „Það má miklu áorka ef maður er nógu einbeittur“.

Einber lygi/ósannindi/uppspuni/fyrirsláttur (orðtök)  Einstök..; einskær...; alger....  „Þetta er einber uppspuni“.  „Það er einber fyrirsláttur að eitthvað sé að veðri; hann bara nennir þessu ekki“!

Einbinda sig við (orðtak)  Vera háður; vera bundinn af.  „Það þýðir ekki að einbinda sig við eina lausn á málinu; hér getur þurft að fara nýjar leiðir“.

Einbirni  (n, hk)  Einkabarn; eina barn sinna foreldra.  „Ekki eru allt kostir við að alast upp sem einbirni“.

Einbíla (ao)  Á einum bíl, en ekki í samfylgd fleiri bíla.  „Það fer enginn einbíla á hálendið í þessu útliti“!

Einblína (s)  Stara; horfa stíft á tiltekið atriði.  „Ég sé enga kind en á eitthvað er hundurinn að einblína þarna“.

Einbýli (n, hk)  Jörð með einu bóndabýli.  „Fyrrum var tvíbýlt í Kollsvík, en síðustu áratugina var þar einbýli“.

Eindregið (ao)  Af alhug/alefli.  „Ég styð þessa tillögu eindregið“.

Eindreginn (l) Ákveðinn.  „Hann er kominn í eindregna norðanátt eftir umhleypingana“.  „Fundurinn mælir eindregið með því að Víknavegur og Melanesvegur verði teknir í þjóðvegatölu“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 12.03.1960; ritari ÖG). 

Eindrægni (n, kvk)  Ákveðni; eftirfylgja.  „Honum launaðist þessi eindrægni þegar að kosningunum kom“.  Er annarsstaðar meira notað í merkingunni „samheldni“.

Eineygður (l)  Með eitt auga.  „Höttur var eineygður eftir að gróf út úr öðru auga hans; hann gerði þó sitt gagn og gat fjölda afburðavænna og frjósamra lamba; oft mjög skrautlegra“.

Einfaldlega (ao)  Bara; einungis.  „Þetta voru einfaldlega verk sem þurftu að vinnast...“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Einfari (n, kk)  Sá sem vill vera einn/fer sínar eigin leiðir.  „Einfarar eru þeir sem hafa einurð á að fara eigin leiðir og vilja síður fylgja fjöldanum í blindni.  Slíkt fólk er samfélaginu nauðsynlegt og án þess yrðu líklega engar framfarir.  Misjafnt er hinsvegar hvernig því gengur að finna sér förunauta og öðlast skilning annarra“.

Einfasa (l)  Um riðstraumsrafmagn; með eitt riðpar en ekki blöndu þriggja eins og í þrífasa riðstraumi.  Einfasa rafmagn var lagt um dreifðustu byggðir landsins þar sem háspennulagnir af því tagi eru mun ódýrari en þrífasa lagnir.  Hinsvegar bitnar þetta á notendunum, þar sem mótorar, s.s. súgþurrkunarmótorar og aðrir, eru mun dýrari, flóknari og þurftafrekari í einfasa kerfi en þrífasa mótorar.  Þetta var einn þátta nútímavæðingarinnar sem varð til þess að leggja Útvíkurnar í eyði.

Einfeldingur / Einfeldningur (n, kk)  Fremur skilningsvana/fávís maður.  „Óttalegur einfeldingur geturðu verið ef þú skilur þetta ekki“!

Einfeldingsháttur / Einfeldningsháttur  (n, kk)  Fáviska; heimska.  „Það er bara einfeldingsháttur að halda að einhver geti smalað allt þetta svæði einsamall“! 

Einfeldni (n, kvk)  Grunnhyggni; fáfræði; aulaháttur.  „Ég hélt nú bara, í einfeldni minni, að málið væri leyst“.

Einfær um (orðtak)  Get gert sjálfur; þarf ekki aðstoð.  „Ég er fullkomlega einfær um að smala dalinn einn“.

Eingöngu (ao)  Aðeins; bara.  „Við slátrunina unnu eingöngu bændur af félagssvæðinu og þeirra heimafólk“  (PG; Veðmálið). 

Einhenda (s)  Kasta/lyfta/gera með einni hendi.  „Hann einhenti síðan hverjum netasteininum á fætur öðrum uppúr bátnum“.  Á síðari tímum hefur komið til orðtakið að „einhenda sér í“ = einbeita sér að.

Einhlaðinn (l)  Um steinhlaðinn vegg; með einfaldri steinaröð á breiddina.  Steinbítsgarðar í Kollsvíkurveri voru flestir einhlaðnir, en hrýgjugarðar voru tvíhlaðnir.

Einhleypa (n, kvk)  Haglabyssa með einu hlaupi; ekki tvíhleypa.

Einhleypt (l)  Um byssu; með einu hlaupi en ekki tveimur.  „Þegar skotið var á fluginu niðri við Garða, voeru jafnan notaðar einhleyptar haglabyssur áðurfyrr.  Palli fór fyrstur þangað með tvíhleypu“.

Einhlítt (l)  Með einu móti; einhliða.  „Gangur mála er oftast með þessu móti, en þó er það alls ekki einhlítt“.

Einhnepptur (l)  Um flík; með einni röð af hnöppum.  „Flíkur voru stundum tvíhnepptar; einkum fínar yfirhafnir, en oftast voru þær einhnepptar.  Nú hefur rennilásinn víðast yfirtekið hlutverk hnappa“.

Einhuga (l)  Um tvo eða fleiri; eru sammála; vinna að sama marki.  „Í ritum ungmennafélaganna í Kollsvík kemur glöggt fram hve allir voru einhuga um framfaramálin, og hve samtakamáttur kemur miklu í verk“.

Einhugur (n, kk)  Samtakamáttur tveggja eða fleiri.  „Þá var einhugur í íbúum um að bæta búshætti, samgöngur, verslun og samfélag“.

Einhvað (fn)  Eitthvað.  „Einhvað skrýtið hefur hér gerst“.  „Sérðu einhvað til þeirra“?

Einhver sá/sú / Eitthvert það (orðtök)  Áherslusetning með lýsingarorði.  „Þetta er einhver sá besti hákarl sem ég hef smakkað.  „Þessi vetur er einhver sá besti er menn muna, en þó hafa hér á Sandinum gefist töluverð hey“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Einhverntíma hafa allir verið börn (orðatiltæki)  Sérhver getur sjálfan sig séð í barninu.

Einhvernveginn (ao)  Á einhvern veg; með einhverju móti.  „Mér finnst einhvernvegin að þetta sé skakkt“.  Einnig notað sérstætt:  „Þetta fer áreiðanlega einhvernvegin“.  Sjá gera einhvernvegin og einhvernvegin.  Framburðurinn er sjaldnast eftir stafanna hljóðan, heldur oft „einkurnegin“ eða í þá áttina.

Einhversháttar / Einhverskonar / Einhversslags (l)  Af einhverju tagi; einhver tegund af; með einhverju lagi.  „Það verður að finna einhversháttar málamiðlun“.  „Ég er handviss um að þarna var einhverskonar fjörulalli á ferð“!  „Hann var stundum illa haldinn af einhversslags sálsýki“.

Einhverstaðar verða vondir að vera (orðtatiltæki)  Viðhaft t.d. þegar finna þarf einhverju eða einhverju stað.  Spekin er upprunnin úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar af ferðum Guðmundar biskups góða. Sagt er að mannskaðar miklir hafi verið í Bjarginu við fugla- og eggjaferðir og hafi biskup verið beðinn úr að bæta.  Hann lét gefa sig í festi niður undan Djúpadal og hóf að vígja bjargið og fæla burtu óvætti þá sem skaðanum höfðu ollið.  Er hann hafði vígt kinnina innan Djúpadals báðust vættirnir vægðar og lofuðu að valda ekki skaða, en „einhversstaðar verða vondir að vera“.  Lét biskup þeim þá eftir bjarghlutann utanvið Djúpadal sem heitir síðan Heiðnakinn.  Þar er berg allt mjög laust í sér og hættulegt að nytja.  Innan Djúpadals heitir síðan Kristnakinn.  Þar eru mikil egg- og fugltekjupláss, s.s. Vælaskor, Undirhlíð og Bæjarvöllur, sem að hluta eru nytjuð enn þann dag í dag.  Líklega er spekin þó eldri en þessi þjóðsaga.

Einhvur / Einhvurntíma / Einhvurnveginn / Einhvursstaðar / Einhvursvegna /  Einhvurra hluta vegna ( fn)  Afbrigði af stofnmyndinni „einhver...“.  Þessi framburður var nokkuð algengur vestra áðurfyrr, en heyrist sjaldnar nú.  Orðmyndin „einhvursvegna“ virðist sérstæð fyrir Kollsvíkinga:  „Ég veit ekki hvursvegna þetta var gert svona, en einhvursvegna hlýtur það að hafa verið“.

Einhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með eitt horn; brotinhyrnd; stúfhyrnd

Einhæfur (l)  Fábreyttur; mestmegnis einhliða/ með einu móti.  „Þó mataræði hafi verið öðruvísi áðurfyrr en nú er, þá var það alls ekki einhæft; sérílagi ekki í sjávarbyggðum eins og í Kollsvík“.

Einilyng / Einir (n, hk)  Juniperus communis.  Einirunni; lágvaxin lyngtegund sem er algeng er í lautum og dölum til fjalla í Rauðasandshreppi og víðar.  Útbreiddasta trjáplanta heims og mjög algeng á norðlægum slóðum.  Þarna vestra vex einirinn sem jarðlægt lyng sem þakið getur nokkuð svæði; helst þar sem snjór verður dýpstur að vetri.  Blöðin eru nálarlaga og geta stungið sem nálar.  Berin eru græn; óæt og með stórum hörðum fræjum.  Um eini segir m.a. svo í Grasnytjum Björns Halldórssonar, frá 1781:  „Broddar af eini, á vori teknir og drukknir sem vel sterkt te, gjöra hæga opnun eða laust líf.  Þetta sama seyði hreinsar brjóstið, bætir hósta, styrkir magann og brýtur bein.  Þó gjöra berin allt þetta betur, til búin og drukkin sem kaffi.  Einiber örva svita og greiða mjög alla afrás líkamans; eyða nýrnasteini, leysa staðið blóð kvenna og vatnssýkislopa.  Reykur af einiberjum, einiblöðum og líka trénu sjálfu er þeim hollur sem hafa höfuðþyngsli og verður loftið þá hollt.  Einiberja besta verkan er að þynna blóðið; hreinsa það; lækna gulusótt og önnur þau sjúkleikakyn sem blóðið hefur skuld í.  Brennivín sett á einiber verður að hollum brjóstdropum þegar það hefur staðið á þeim heilt missiri eða lengur.  Þó er enn betra brennivín af þessum berjum brennt“  (BH; Granytjar).  Margt fleira gagnlegt kann Björn að segja um einilyng og einiber.  Einir var hin ágætasta fjandafæla, og mátti reka frá sér ýmsan óhreinan slæðing með einihríslu. 
„Einu notin sem ég man eftir af einilyngi í mínum uppvexti voru tengd jólahaldi.  Fyrir jólin hvert ár fór pabbi fram í Vatnadal með poka eða sleða og sótti nokkrar klær af einilyngi,sortulyngi og krækiberjalyngi.  Þetta notaði mamma svo til að festa á greinar jólatrésins gamla, sem notað var ár eftir ár á Láganúpi.  Lyngið var fest á þessar sívölu greinar með svörum tvinna, sem sívafinn var utanum.  Varð úr þessu glæsilegra og vinalegra jólatré en nokkuð grenitré sem ég hef síðan séð.  Lyktin af lynginu skapaði auk þess sérstaka stemmingu sem síðan er nátengd jólum í mínum huga.  Stundum voru lyngklær settar á heita eldavélina til að fá þessa góðu lykt í húsið“ (VÖ). 
„Jólahald var fábreytt framan af.  Torfi móðurbróðir minn hafði fyrstur manna jólatré hér; það hefur líklega verið um 1903.  Hann smíðaði stórt tré og klæddi greinarnar með eini“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  „Eitt af því sem þurfti að gera í sambandi við undirbúning jólatrésskemmtunarinnar, var að fara fram í Vatnadal og ná í lyng til að nota á tréð; varð alltaf einilyng fyrir valinu“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).  „Á annarsdagskvöld var haft jólatré fyrir alla krakka í Víkinni.  Var það heimagert og bundinn á það einir sem sóttur var fram í Vatnadal“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Einir saman (orðtak)  Einsamlir; einvörðungu.  „En nú var það erfiðasta eftir; að koma stórhveli að landi með árunum einum saman, á lítilli bátskel“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Þetta gengur hægt með höndunum einum saman; betra væri að hafa viðeigandi verkfæri“.

Einjárnungur (n, kk)  Járnlutur án samskeyta.  Einkum notað um ljái og hnífa sem smíðaðir eru í heilu lagi en ekki hnoðaðir/settir saman úr fleiri hlutum.

Einjúgra (l)  Um kind; með annað júgrið virkt/mjólkandi.  „Hún mjólkar lömbunum vel þó hún sé einjúgra“.

Einkabarn (n, hk)  Eina barn foreldra; einkasonur; einkadóttir; einbirni.  „Hún var þeirra einkabarn“.

Einkaleyfi (n, hk)  Opinbert og alþjóðlegt sérleyfi einstaklings til að hagnýta sér uppfinningu í tiltekinn tíma.  Eina einkaleyfið sem vitað er um að tengist Kollsvík er einkaleyfi Valdimars Össurarsonar frá Láganúpi á hverfli til virkjunar hægstrauma, s.s. sjávarfalla.  Einkaleyfið er nr. IS-2559-B;  í alþjóðl. flokkun; F03B; veitt 15. oktober 2009, og nefnist „Valorka-hverfillinn, gerð 2“.  Þetta er fyrsta (og ennþá eina) einkaleyfið sem gefið hefur verið út fyrir íslenskum hverfli, sem kann að virðast merkilegt í ljósi þess að Íslendingar fá nánast alla raforku sína í gegnum hverfla.  Jafnframt er þetta eina íslenska einkaleyfið á sviði sjávarorku.  Þessu einkaleyfi hefur ekki verið haldið til streitu, þannig að það heldur ekki varnarhlutverki sínu þó það sé enn í gildi.  Ástæðan er sú að Valdimar hefur þróað marga aðra hverfla sem taka gerð-2 fram um einfaldleika og afköst og verða einkaleyfi tekin á nýtilegustu uppfinningum þegar þróun kemst á síðari stig.

Einkanagjöf / Einkunnargjöf (n, kvk)  Mat á frammistöðu, oftast gefið upp í tölum eða umsögn.  „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Einkanlega (ao)  Sérstaklega; einkum.  „Einkanlega þarf að gæta varúðar þegar klaki er á vegi“.

Einkar (ao)  Sérlega; mjög.  „Ég kann því einkar illa þegar menn afbaka gamalt og gott mál“.

Einkarekstur (n, kk)  Það fyrirkomulag að einn aðili sjái um rekstur einhvers sen ekki samfélagið.  „Össur Guðbjartsson taldi að ekki væri rétt að stefna að einkarekstri í þessum málum, en það ætti að vera hlutverk þjóðfélagsins að framkvæma þetta (lagningu raflínu um Rauðasandshrepp) eins og aðrar almennar framkvæmdir“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Einkaréttur (n, kk)  Réttur til að hafa/nota/eiga einn.  „Manni finnst það stappa nærri ránum; að einhverjir sægreifar í fjarlægum landshornum þykist hafa einkarétt til að veiða fisk á ævafornum fiskimiðum Kollsvíkinga; alveg uppí landsteinum“!   „Ívar Ívarsson gat þess að á hreppsnefndarfundi til undirbúnings þessa fundar hefði borið á góma það mál að útlit er fyrir, með sífelldri sókn í veiðar hrognkelsi, gæti það ástand skapast að öngþveiti yrði á þessum miðum og nauðsyn þess að fá einkarétt hreppsbúa á þessari veiði fyrir löndum hreppsins“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Einkennilega (ao)  Sérkennilega; áberandi.  „Mér fannst strengurinn liggja einkennilega, og sá svo að steinnin hafði smokkast úr niðristöðunni“.

Einkennilegheit (n, hk, fto)  Furðulegheit; skrýtilegheit; furðuleg/óútskýranleg atvik.  „Það eru allskonar einkennilegheit farin að hrjá bílinn núna“.

Einkennilegur (l)  Sérkennilegur; undarlegur.  „Báturinn er dálítið einkennilegur í útliti“.

Einkennilegur andskoti (orðtak)  Mjög einkennilegt/sérkennilegt.  „Það er einkennilegur andskoti hvað þeir eru fundvísir á nýjar reglur sem þarf að uppfylla varðandi sláturleyfi.  Maður gæti haldið að þetta nútímafólk í þéttbýlinu væri allt önnur manntegund en forfeður þess, sem lifðu af heimaslátrun kynslóð eftir kynslóð“!

Einkennisfjall (n, hk)  Áberandi fjall sem einkennir stað/svæði.  „Blakkur og Núpur hljóta að teljast einkennisfjöll Kollsvíkur.  Bæði eru þau formfögur og ábúðarmikil fjöll, sem sjást vítt að“.

Einkum (ao)  Aðallega; sér í lagi.  „Það var einkum Össur (faðir Gunnars) sem las og kvað rímur.  Hann átti skrifaða bók af Maroni sterka“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Einkum og sérílagi / Einkum og sérlega (orðtök)  Einkanlega; sérstaklega.  „Fátt er eins skemmtilegt og að vera á skaki í góðu veðri; einkum og sérílagi ef maður er í vitlausum boltafiski“!

Einleikið (l)  Eðlilegt.  „Það var ekki einleikið að alltaf var karlinn að draga þó aðrir fengju ekki bröndu“.

Einlemba (n, kvk)  Kind með eitt lamb; einlembd ær.  „Það má setja einlemburnar strax útfyrir“.

Einlembd (l)  Bar einu lambi.  „Nú ber nýrra við; Skrauta er bara einlembd þetta vorið“.

Einlembingur (n, kk)  Lamb sem ekki á systkini í sama burði; einlembingsgimbur; einlembingshrðutur.  „Er þessi kægill virkilega einlembingur“?

Einlæglega (l)  Heilshugar; einlægt.  „Ég vona bara einlæglega að færðin haldist einhverja daga“.

Einlægni (n, kvk)  Sannleikur; sannfæring; góð/sönn trú.  „Þetta sagði hún í fyllstu einlægni“.

Einlægt (l)  Sífellt; alltaf.  „Óttalegur hávaði er einlægt í ykkur strákar; látiði nú örlítið minna“!  „Var nú árangurslaust að leita því einlægt dreif slétt yfir, meir og meir af veðrinu og moldinni, svo ekki varð meira aðhafst þann dag“  (Sturla Einarsson; um snjóflóðið í Kollsvík  3.des. 1857).

Einlægur (l)  Sannur; trúr sinni sannfæringu.  „Ef ég á að vera alveg einlægur, þá hefði ég nú frekar kosið að fá saltfisk með floti og nýjum kartöflum en þetta haughænsni með olíuströnglum“!

Einmana (l)  Leiðindi vegna skorts á félagsskap; ónógur sjálfum sér.  „Aldrei er maður eins einmana og þegar maður er kominn í þetta svokallaða þéttbýli.  Þar þvælist hver utaní annan án þess að talast nokkrusinni við“.

Einmánuður (n, kk)  Mánuður að fornu tímatali; næstur á eftir Góu.  Nafnið stafar af því að hann er einn mánaðanna eftir af vetri; þar til vors er von.  Hefst á þriðjudegi í 22.viku vetrar, þ.e. 20.-26. mars.  Ungir menn skyldu fagna einmánuði en yngismeyjar Hörpu, sem er næsti mánuður á eftir.  „Það var alltaf byrjað á einmánuði að þvo fisk frá haustinu áður, og um sumarmál að hvolfa upp bátunum og sjóbúa þá.  Róðrar hófust svo strax og gaf“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Einmunablíða (n, kvk)  Einstaklega gott veður; yfirleitt notað um sólskin og stafalogn.  Forskeytið „einmuni“ var í upphafi „eimuni“ og sjálfstætt orð sem merkir „það sem verður alltaf munað“.  Veturinn 1293 þótti óvenju harður og var nefndur „Eimuni hinn mikli“.

Einmunasumar / Einmunasumarblíða (n, hk/kvk)  Óvanalegt/einstakt góðviðrissumar.  „Þetta er buið að vera einmunasumar; alveg hreint“!  „Ég man bara ekki eftir annarri svona einmunasumarblíðu“!

Einmunatíð / Einmunaveðrátta / Einmunaveður (n, kvk)  Einstaklega gott tíðarfar.  Oft notað um langvarandi góða heyskapartíð og gæftir.

Einmælt (l)  A.  Um það þegar kýr eru mjólkaðar einu sinni á dag í stað tvisvar eins og venja er.  Þessi var algengasta merking orðsins í Kollsvík og nágrenni  „Báðar kýrnar eru að nálgast geldstöðu og nú mjólkum við bar einmælt“.  B.  Ein máltíð yfir daginn.  C.  Allir á sama máli.  „Þetta mun vera einmælt í þorpinu“.  Sjá tvímælt.

Einmöstrungur (n, kk)  Skip með eitt mastur.  „Vigga var einmöstrungur; 20-30 lestir að stærð“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi). 

Einn (l)  Um; nálægt; einnig notað sem hikorð/áhersluorð.  „Þetta voru einar tuttugu kindur“.  „Það liðu einir tveir tímar þar til þeir komu upp úr bjarginu aftur“.  „Þetta reyndist vera ímyndunin ein þegar að var gáð; þarna var ekki nokkur maður“.  „Þetta gerist í hvert einasta sinn sem ég reyni að setja vélina í gang“.  „Saltfiskur er einn besti matur sem ég nokkurntíma fæ“.

Einn af átján (orðtak)  Einn af mörgum; einn úr stórum hópi.  „Hann er bara einn af átján sem reynir að snúa þannig á skattinn“.  Orðtakið var iðulega notað; helst um skúrkshátt af einhverju tagi; jafnvel sérstætt sem andsvar.  Talan átján var á einhvern hátt sérstæð í gömlu máli, sbr þjóðsöguna um átján barna föður í álfheimum.  E.t.v. má rekja það til rómversks ritháttar; XVIII eða xviij, sem má lesa „svei“.

Einn af öðrum (orðtak)  Hver eftir annan.  „Nú komu bátarnir einn af öðrum í land, og var nú komið talsvert brim“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Einn á báti (orðtak)  Einn síns liðs; einsamall; ekki í fylgd annarra.  „Hrúturinn var þarna einn á báti“.

Einn eða/né neinn (orðtak)  Enginn; ekki nokkur.  „Hákarlinn drepur ekki einn eða neinn, þó hann lykti dálítið“.  „Ég hef hvorki séð einn né neinn“.

Einn einasti (orðtak)  Einn einstakur; stakur.  „Við reyndum á tveimur stöðum án þess að fá einn einasta fisk“.  „Þessum tröllasögum trúir ekki einn einasti maður“!

Einn er laukur í ætt hverri (orðatiltæki)  Í hverri ætt þykjast menn greina einn sem ber af fyrir gáfur, dugnað, handlagni eða annað atgervi.  Stundum notað í kaldhæðni um þann sem er ætt sinni til minnkunar.  Sjá laukur ættarinnar.

Einn er sá sem allt veit (ekki veit ég það) (orðatiltæki)  Vísar til alvisku Guðs.  Oft viðhaft þegar rætt er um það sem mælandi veit lítil deili á, og þá gjarnan skotið inn viðbótinni.  Sjá það má guð vita.

Einn er öðrum líkur (orðtak)  Hver líkist öðrum; allir líkir/eins.  „Buggi var glöggur á fé eins og faðir hans og afi.  Ég var mikið óvissari í þessum efnum; fannst ein annarri lík“.

Einn góðan veðurdag (orðtak)  Einn daginn; einhvern tímann.  „Manni þykir það dálítið undarlegt ef Kollsvíkingar hafa um aldaraðir getað sótt sér fisk á víkina og gert hann að söluvöru; að einhver ríkisstjórn geti svo sett þau lög, einn góðan veðurdag; að héreftir skuli þeir þurfa að greiða sér fyrir afnot af miðunum!  Maður tekur nú ekki mark á hvaða vitleysu sem er“!

Einn hreppir það annar sleppir (orðatiltæki)  Einn fær stundum það sem annar leggur af sér/ hættir að nota.

Einn kemur þá annar fer (orðatiltæki)  Maður kemur í manns stað.

Einn með sjálfum sér / Einn útaf fyrir sig (orðtak)  Alveg einn; aleinn.  „Maður hugleiðir ýmislegt þegar maður er á svona fönguferð; einn með sjálfum sér“.

Einn og einn (á stangli) (orðtak)  Um það sem er fágætt eða kemur í litlu magni; oft notað um tregfiski.  „Það var vel af grásleppu í grunnendann, en svo ekki nema ein og ein á stangli eftir það“.

Einn og óstuddur / Einn og sjálfur (orðtök)  Einn; aleinn; upp á sitt eindæmi.  „Það var enga aðstoð að fá, svo ég gerði þetta bara einn og sjálfur“.

Einn og sér / Einn sér og sérhver (orðtök)  Útaf fyrir sig; sjálfstæður; stakur.  „Þetta eitt og sér er ekki næg ástæða til að hætta við“. 

Einn órétturinn býður öðrum heim (orðatiltæki)  Gegnsæ speki; hætt er við að sá sem beittur er órétti beiti aðra órétti einnig“.

Einn saman / Einn og sér í lagi / Einn og stakur (orðtak)  Einstakur; einn.  „... eitt vorið var róið 25 bátum úr Kollsvík einni saman“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).  „Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman ...“.   „Einnig man ég þegar Jóhannes í Gröf flutti líkkistu ömmu sinnar að Sauðlauksdal; einn saman, með kerru aftan í Fergusyninum“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Einn sér (orðtak)  Einn útaf fyrir sig; ekki með öðru(m).  „Var sýran höfð til matar; ein sér, eða höfð út á graut“.  (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).

Einn sér og sérhver (orðtak)  Allir; allir sem einn.  „Ég set þetta á borðið og svo verður bara einn sér og sérhver að bjarga sér“.  „Þarna koma þeir loksins á Hjallabrúnina; einn sér og sérhver“.

Einn síns liðs (orðtak)  Einsamall; einn á báti.  „Tréð var of þungt til að hann næði að bjarga því einn síns liðs“.

Einn uppsker það er annar sáir (orðatiltæki)  Ekki er víst að sá njóti ávaxtanna sem mest erfiðar; ávinningurinn hlotnast oft öðrum, t.d. síðari kynslóðum.

Einna helst/ skárst/ best (orðtak)  Besti kosturinn af mörgum svipuðum.  „Ég vil einna helst fá þessa skó“  „Mér finnst þessi lambhrútur einna best byggður í heildina“. „Það er einna skárst að fara hér niður“.

Einn veldur þá annar geldur (orðatiltæki)  Vandræði eins eru oft af völdum einhvers annars. 

Einneginn (ao)  Einnig; líka.  „Svo er það einneginn þetta; hvernig eigum við að ná eggjunum upp“?

Einokunarverslun (n, kvk)  Einkaréttur sem Kristján 4. Danakóngur veitti kaupmönnum til verslunar á Íslandi frá árinu 1602.  Tilgangur hans var annarsvegar að efla danska kaupmannastétt og siglingar en hinsvegar að útrýma veslun þýskra Hansakaupmanna.  Fljótlega kom fram mikil óánægja Íslendinga með verslunina; varan var lítil og léleg og verðið hátt, auk þess sem verslunarhafnir voru fáar.  Ekki bætti úr að 1683 var tekin upp svæðaskipting, þannig að landsmönnum var óheimilt að versla nema á sínum verslunarstað.  Má ætla að mikil launverslun hafi verið við aðrar þjóðir; Englendinga, Hollendinga og Frakka, þar sem menn höfðu tök á því.  Slíkt kann að hafa viðgengist í Útvíkum vestra, þrátt fyrir að verslunarhafnir einokunarkaupmanna væru bæði á Patreksfirði og Bíldudal.  Breyting varð 1733 þegar á komst verslun svonefndra lausakaupmanna og kaupsvæðaverslun lagðist niður.  Frá 1743 tók við verslun Hörmangara í 10 ár, en þeir fengu slæm eftirmæli í Íslandssögunni.  Almenna verslunarfélagið sá um verslunina 1764-74 en síðan tók við Konungsverslunin síðari og stóð til 1787.  Þá var verslunin gefin frjáls fyrir alla þegna Danakóngs.  Einokunarverslunin er almennt talin hafa staðið framförum og þjóðlífi fyrir þrifum meðan hún varði.  Hún hefur í raun orðið tákn um undirokun konungsvaldsins.  Afnám hennar varð upphaf af þróun sem endaði með sjálfstæði.

Einristuljár (n, kk)  Einskeri; torfljár með handföngum á báðum endum.  Rista tveir menn torfuna á milli sín í einni ristu.  Einristuljár gamall er til á Láganúpi; notaður til ca 1970.  Ekki var þar tvíristuljár í seinni tíð.

Einróma (l)  Með einum rómi; samhljóða.  „Þetta var samþykkt einróma“.

Einrænn (l)  Einfari.  „Hann gerðist fáskiptari og einrænni eftir konumissinn“.

Eins byrði er öðrum létt/léttbær (orðatiltæki)  Maður er léttur á fæti meðan aðrir bera byrðar fyrir mann; manni er sjálfum ekki íþyngt með byrðum annarra.

Eins dauði er annars brauð (orðatiltæki)  Oft verður fráfall eins ávinningur annars. 

Eins eru prestar og aðrir menn (ekki er þeim að trúa) (orðatiltæki)  Vísar til þess að í raun eru allir menn jafnir, þó í fyrri tíma þjóðfélagi hafi prestar tilheyrt virðingarstétt.  Orðatiltækið er oft viðhaft þegar minnt er á að allir menn eru jafnir; en þó sjaldnar viðbót þess.

Eins lof er annars last (orðatiltæki)  Vísar til þess að stundum getu hrós í eins garð virkað sem niðurlæging annarra, sem þó eru þess kannski óverðugir.

Eins og að ausa/hella vatni í botnlausa tunnu / Eins og að ausa vatni í botnlaust hrip (orðtök)  Um það sem gert/stundað er en skilar ekki árangri.  Myndlíkingin er augljós; gagnslítið er að ausa í það sem jafnharðan lekur úr.  Í grískri goðafræði er sömu myndlíkingu að finna:  Tartarus var ein útgáfan af þeirra helvíti; þar sem á menn voru lagðar hinar margvíslegustu pyntingar.   Dætur Danaidesar Líbíukóngs myrtu menn sína á brúðkaupsnóttina og dæmdust til þess í Tartarusi að bera vatn um langa leið og ausa því í lekt baðker.

Eins og að bera í bakkafullan lækinn (orðtak)  Eins tilgangslaust og að auka vatn í læk í vexti með því að bera í hann meira vatn.  Sjá bera í bakkafullan lækinn.

Eins og að biðja fjandann um sál (orðtak)  Um bón/ósk sem erfitt er að fá uppfyllta.  „Það er eins og að biðja fjandann um sál að fara fram á það við þessa Vegagerð að hún dragi hefiltönn yfir þetta holukraðak“!

Eins og að finna/ leita að saumnál í heystakki (orðtak)  Líkingamál um vonlitla leit að einhverju sem varla finnst nema fyrir tilviljun.  „Ég leitaði um allt að vasahnífnum, en það var eins og að leita að saumnál í heystakki; hann gat víða legið“.

Eins og að gefa bakarabarni brauð / Eins og að bera í bakkafullan lækinn (orðtak)  Óþarft  er að gefa þeim sem nóg á fyrir; óþarft að bæta við af því sem nóg er fyrir.  Sjá bera í bakkafullan lækinn; ekki þarf að gefa bakarabarni brauð.

Eins og að kasta perlum fyrir svín (orðtak)  Lýsing á tilgangsleysi þess sem gert er, einkum gagnvart öðrum.  „Það er eins og að kast perlum fyrir svín að láta góða bók í hendurnar á honum“!

Eins og að líkum lætur / Eins og að líkum má leiða (orðtak)  Eins og búast má við; eins og rökstyðja má.  „Eins og að líkum lætur voru vöruflutningar á reiðingshestum yfir fjallvegi seinlegir og ýmsum annmörkum háðir“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Eins og að líkum má leiða var þetta ekki eins vandað og hjá fagmanni en furðu traust var það, miðað við smiðinn og aðstæðurnar“.

Eins og að míga/pissa í skóinn sinn (orðtak)  Um úrræði sem endist illa / er einungis sýndarúrræði.  „Það þýðir ekkert að smíða hrútastíuna úr svona spreki; það er bara eins og að pissa í skóinn sinn“.  Dregið af því að menn halda ekki hita á sér til lengdar með því að pissa í skóna.  Í fullri lengd er orðtakið þannig:  „Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn“.

Eins og að nefna snöru í hengds manns húsi (orðtak)  Um það að ekki er ráðlegt að nefna viðkvæm málefni í eyru þeirra sem viðkvæmir eru fyrir því.

Eins og að rétta skrattanum litlafingurinn/litlaputtann (orðtak)  Um það að einhver verði of tilætlunarsamur/frekur ef honum er sýnd greiðvikni.  „Ég ætla ekkert að bjóða þetta að fyrrabragði; það er bara eins og að rétta skrattanum litlafingurinn“.  Sjá það má ekki rétta skrattanum litlafingur; þá tekur hann alla hendina.

Eins/líkt og að skvetta vatni á gæs (orðtak)  Um það sem virðist algerlega áhrifalaust/tilgangslaust.  „Ég skammaði hann fyrir þetta, en það er líklega eins og að skvetta vatni á gæs“.  Gæsir og aðrir sundfuglar verja fjaðrir sínar með fitu, og blotna því að jafnaði ekki.

Eins/líkt og að sækja vatnið yfir lækinn (orðtak)  Auðskilið líkingamál um það að leita langt yfir skammt eftir lausnum.

Eins og að tala við stein/grjótið / Eins og að tala við vindinn (orðtak)  Tilgangslaust/tilgangslítið að segja. „Ég reyndi árangurslaust að aðvara hann með þetta; það var bara eins og að tala við vindinn“.

Eins og af er látið (orðtak)  Eins og sagt er; eins og heyrst hefur.  „Ekki skil ég í því að hann skuli ráðinn í þessa stöðu ef hann er jafn heimskur og af er látið“!

Eins og af tekur (orðtak)  Eins og framast er unnt.  „Var þá siglt eins og af tók... “   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).  „Hann flýtti sér eins og af tók heim í bæ“.

Eins og andskotinn annar (orðtak)  Áherslusetning um það sem einhver vinnur/gerir mjög rösklega.  „Ég hljóp eins og andskotinn annar niður alla Brunnsbrekku, og náði að komast fyrir fjárhópinn“.

Eins og á nálum (orðtak)  Mjög órólegur/spenntur/kvíðinn.  „Ég var eins og nálum þar til hann var kominn aftur upp á brúnina“.

Eins og álfur útúr hól (orðtak)  Hjárænulegur; utangátta; eins og illa gerður hlutur.  Líkingin er dregin af álfi sem dagar uppi í mannheimum og kemst/ratar ekki aftur í sinn hól.  Hætt er við að hann falli illa í fjöldann.

Eins og barinn hundur (orðtak)  Mjög lúpulegur/skömmustulegur/ásakandi.  „Eftir þessar skammir kerlingarinnar þagnaði karlinn og var eins og barinn hundur það sem eftir var“. 

Eins og belja á svelli (orðtak)  Líkingamál um klaufalega tilburði einhvers í hálku. „Sá var að hreinsa tófuskinn, en óðar undan leit/ og upphóf sína dóma þarna í hvelli./  „Þú ert alltof gömul; þú ert alltof feit;/ þú ert eins og belja á hálu svelli“!“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   

Eins og blátt strik (orðtak)  Líkingamál um mjög mikinn hraða.  „Hann var ekkert að koma við; þaut bara hér framhjá eins og blátts strik“.

Eins og byssubrenndur / Eins og píla/örskot (orðtak) Um hratt hlaup; í miklum flýti; mjög hratt.  „Hann hljóp eins og byssubrenndur og lokaði hliðinu“.

Eins og (í) dauðs manns gröf / Eins og í dauðramanna borg (orðtak)  Um kyrrð/þögn/frið.  „Eftir þessa skammarræðu sló þögn á salinn og í nokkra stund var þar líkt og í dauðs manns gröf“. 

Eins og djöfulóður (orðtak)  Í óðakappi/ákafa.  „Hann var handfljótur að innbyrða belginn og svo halaði hann inn línuna eins og djöfulóður væri“.

Eins og draugur uppúr öðrum draug (orðtak)  Lýsing sem notuð er um mann sem þykir tiltakanlega afkáralegur/skítugur/fráhrindandi.  „Mikill andskoti er nú að sjá þig maður; þú ert eins og draugur uppúr öðrum draug! Ég held að þú ættir nú að fara í þrifabað og fá þér hreina leppa“!

Eins og dropi í hafið (orðtak)  Um magn; hverfandi lítið; segir lítið.  „Framlag hvers og eins er eins og dropi í hafið, en það lýsir þeim hug sem að baki býr“.

Eins og druslan dregur (orðtak)  Eins hratt og komist verður á farartækinu.  Notað á seinni tímum um bíl, en kann að vera eldra, og vísa til þess að segl dragi bát/ komi báti hratt áfram.

Eins og dæmin sanna / Eins og dæmi eru fyrir/um (orðtak)  Gegnsætt og allmikið notað orðtak.

Eins og eigi hvert bein (orðtak)  Sjá eins og (einhver) ætti í (einhverjum) hvert bein.

Eins og eldibrandur (orðtak)  Mjög snarlega; í hvelli.  „Ég þaut eins og eldibrandur inn í hús og sótti byssuna en tófan nennti ekkert að bíða“.  Gomul merking orðsins „eldibrandur“ er stórbruni/eldsvoði, og gæti orðtakið því upphaflega hafa þýtt það sama og „eins og eldur í sinu“.

Eins og eldur í sinu (orðtak)  Með miklum hraða.  „Þessi fjandans ósiður hefur breiðst út eins og eldur í sinu“!  Augljós líking; eldur í þurri og mikilli sinu er mjög fljótur að breiðast út.

Eins og endranær / Eins og jafnan (áður) (orðtök)  Eins og vanalega.  „Öllum lentist vel úr þessum róðri, en eins og endranær lá þar enginn á liði sínu að rétta öðrum hjálparhendur“  (KJK; Kollsvíkurver).

Eins og er / Eins og stendur (orðtök)  Á þessum tíma; núna; í augnablikinu; sem stendur; rétt sem er/stendur.  „Hann hangir þurr eins og er, en ári er hannþó rigningarlegur“.  „Ég á nægt salt eins og stendur“.

Eins og falinn eldur (orðtak)  Viðsjárvert; ástand sem er hættulegra en virðist í fljótu bragði.  Líking við glóð sem logar t.d. inni í veggjum húss þó búið sé að slökkva annað, og getur blossað upp hvenær sem er.  Meðan hús voru kynt með opnum eldi og eldað á hlóðum þurfti að gæta þess vel að glóð hlypi ekki úr eldstæðinu, því hún gat dulist nokkurn tíma áður en meiri eldur kviknaði út frá henni.

Eins og festur upp á þráð (orðtak)  Mjög spenntur; í ofvæni.  „Hann horfði á eins og festur upp á þráð“.

Eins og fjandinn annar (orðtak)  Í djöfulmóð; í miklum móð/flýti; með fyrirgangi.  „Ég hljóp af stað eins og fjandinn annar; ég ætlaði ekki að láta rolluskrattann sleppa í annað sinn“.

Eins og fjandinn sé á hælunum á (orðtak)  Áhersluorðalag um það að fara/hlaupa hratt.  „Þarna kemur hann loksins; og ekur eins og fjandinn sé á hælunum á honum“!

Eins og fólk er flest (orðtak)  Eins og flestir aðrir.  „Hann þótti sérlundaður; ekki alveg eins og fólk er flest“.

Eins og fyrri daginn (orðtak)  Eins og vanalega.  „Það er þá rafmagnslaust eins og fyrri daginn“!

Eins og gengur og gerist (orðtak)  Eins og venjulegt er; eins og getur alltaf orðið.  „Hann var afburða minnugur á allar dagsetningar, en gleyminn á annað, eins og gengur og gerist“.

Eins og getur (sig) í látið (orðtak)  Eins og unnt er að eta.  „Þarna var mér borið góðgæti eins og ég gat í mig látið“.  „Endilega borðiði nú eins og þið getið í ykkur látið“!

Eins og grár köttur (orðtak)  Mjög tíður gestur; alltaf viðstaddur.  „Ég var eins og grár köttur í klettunum á hverju vori, í eggjasnagi“.  „Þarna var ég eins og grár köttur, en það var stuttur spölur á milli bæjanna“ (DÓ; Að vaka og vinna). 

Eins og fávís kona (orðtak)  Líking frá þeim tíma að konur voru taldar síðri körlum í hugsun.  Ekki notað í seinni tíð nema í gamansömum tón.  „Ég játa að þarna talaði ég eins og fávís kona“.

Eins og fiskur á þurru landi (orðtak)  Bjargarlaus.  Líkingin er augljós.

Eins og físibelgur (orðtak)  Mjög móður.  „Uppi á brúninni settist ég niður, másandi eins og físibelgur“.

Eins og fjandinn/andskotinn sé á hælunum (orðtak)  Um hlaup; eins og fætur toga; ein hratt og unnt er.  „Þær tóku sprettinn, þessar bykkjur, og hlupu innyfir Skarð eins og fjandinn væri á hælunum á þeim“!

Eins og fjandinn úr sauðarleggnum (orðtak)  Sjá eins og skrattinn úr sauðarleggnum.

Eins og grár köttur (orðatak)  Um þann sem þrálátlega kemur á sama stað.  „Hann hefur verið hér eins og grár köttur á eftir heimasætunni“.  Ekki ljós uppruni, en gæti vísað til draugs/fylgju í kattarlíki.

Eins og grenjandi ljón (orðtak)  Af offorsi; með miklum eftirgangsmunum.  „Hann hefur sótt það eins og grenjandi ljón að fá þetta mál samþykkt“.

Eins og (einhver) hafi étið óðs manns skít (orðtak)  Snarvitlaus; brjálaður; ber ótt á; óðamála.  „Slakaðu nú dálítið á, vinur!  Láttu ekki alveg eins og þú hafir étið óðs manns skít“!

Eins og halaklipptur/halasneyptur hundur (orðatiltæki)  Skömmustulegur; niðurlútur.  „Það vantaði ekki gorgeirinn í þá fyrir kosningar.  Nú eru þeir eins og halaklipptir hundar; allir með tölu“.  Ekki er vitað til að tíðkast hafi að klippa rófu af hundum í Kollsvík eða annarsstaðar hérlendis.  Hinsvegar er það siður hunda að leggja niður skottið þegar þeir skammast sín, og eru þá tilsýndar sem skottlausir/halaklipptir/halasneyptir.

Eins og heimaríkur hundur (orðtak)  Fram úr hófi frekur í hagsmunagæslu.  „Það væri ekki vanþörf á að yngja upp á framboðslistanum, en þeir gömlu verja sætin sín eins og heimaríkir hundar“.

Eins og hellt sé úr fötu (orðtak)  Um mjög mikla rigningu.  „Ekki er hann mikið að stytta upp.  Nú rignir hann eins og hellt sé úr fötu“!

Eins og himinn og jörð séu að farast (orðtak)  Eins og mjög mikið sé í húfi; eins og allt sé á heljarþröm.  „Það er óþarfi að láta eins og himinn og jörð séu að farast þó skatturinn hækki örlítið“.

Eins og hrafnar á hræi (orðtak)  Líking sem lýsir vanþóknun á ásókn margra í það sama.  „Þeir berjast eins og hrafnar á hræi um að leggja net á þennan smáblett“.

Eins og hráviði (orðtak)  Á víð og dreif; í óreiðu; hippsumhapps.  „Takið nú saman dótið krakkar.  Þetta liggur eins og hráviði hér um öll gólf“.

Eins og hafi étið óðs manns skít (orðtak)  Kolvitlaus; snarbrjálaður.  „Það er nú óþarfi að láta eins og þú hafir étið óðs manns skít þó einhver slysist til að leggja yfir hjá okkur.  Við bara skerum þetta og göngum frá“!

Eins og hendi sé veifað (orðtak)  Mjög snöggt; á augabragði; áður en hendi sé veifað; í einni svipan.  „Rolluskrattinn skaust útúr rekstrinum á milli okkar, eins og hendi væri veifað“!

Eins og hið fornkveðna segir / Eins og segir í hinu fornkveðna ( orðtök)  Formáli þeirra sem vitna í orðskvið/speki.

Eins og hjá mönnum (orðtak)  Eins og menn eiga að hafa það; ekki í ólagi/óreiðu; skikkanlegt.  „Reyniði nú að laga til í kringum ykkur, svo þetta verði eins og hjá mönnum“!  „Við skulum nú ganga þannig frá hnútnum að hann verði eins og hjá mönnum, en ekki þessi óskapnaður“.

Eins og hugur manns (orðtak)  Eins og best verður óskað/kosið.  „Vélin var alveg til friðs í þessum róðri; malaði bara alveg eins og hugur manns“.

Eins og hundur af sundi dreginn (orðatiltæki)  Mjög blautur; forblautur; gegnblautur.  „Nú er ég alveg eins og hundur af sundi dreginn; það gerði á okkur þessa hellidembu á miðri leiðinni“.

Eins og hundur og köttur (orðtak)  Um deilu/slagsmál; í illindum; hatrammlega.  „Þeir rifust eins og hundur og köttur á fundinum, en eftirá féll allt í ljúfa löð á milli þeirra“.

Eins og hver annar (orðtak)  Notað þegar einhverjum er líkt við eitthvað, oft í niðrandi ummælum.  „Hann stóð bara og glápti, eins og hver annar auli“!  Einnig sjálfstætt:  „Honum er ekki of gottbera sig eftir björginni eins og hver annar“!

Eins og hvert annað hundsbit (orðtak)   Eins og annað mótlæti.  „Það er náttúrulega skaði að missa bestu mjólkurkúna, en það verður víst að taka því eins og hverju öðru hundsbiti“.

Eins og hvít gæra (orðtak)  Líking sem höfð er um sjólag; þegar sjór verður hvítur á yfirborði vegna þess að hvassa vinhviðu leggur yfir hann eða vegna brims.  „Sjórinn var eins og hvít gæra fram af Láturdalnum“.

Eins og höfðulaus her (orðtak)  Um hóp; án forystu/leiðtoga.  „Þeir fóru báðir að heiman haustið 1909 ....  Fjelagið stóð þá eftir eins og höfuðlaus her“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).  Til er orðatiltækið „illa stríðir höfðuðlaus her“, þó ekki væri það notað vestra í seinni tíð.

Eins og illa gerður hlutur (orðtak)  Kjánalegur; hjárænulegur; utangátta; eins og álfur útúr hól.  Líkingin er augljós; illa gerður hlutur sker sig úr góðum smíðisgripum. 

Eins og í lygasögu (orðtak)  Oftast notað þegar eitthvað gengur betur en búast mætti við.  „Ég hafði áhyggjur af því að koma fénu heim einsamall, en það gekk eins og í lygasögu“.

Eins og (eitthvað) kemur fyrir af skepnunni (orðtak)  Ens og það liggur fyrir/ lítur út; eins og það er (skapað).  „Hún átti enga mjólk útá grautinn svo við urðum að borða hann eins og hann kom fyrir af skepnunni“.  „Hann var ekkert aðhafa fyrir því að taka skurninn utanaf kríueggjunum, heldur stakk þeim uppí sig og át þau eins og þau komu fyrir af skepnunni“.

Eins og kólfi sé skotið (orðtak)  Með miklum hraða; í miklum flýti; mjög hratt.  „Ég hljóp heim eins og kólfi væri skotið, og náði í skóflu til að stinga niður bakkan, ef ske kynni að kýrin næði að klórast upp“.

Eins og kría sem sest/skítur á stein (orðtak)  Líking um það sem þykir vara of/mjög stutt.  „Ekki eru þeir að gefa sér of mikinn tíma til að ræða málin þessir þingmenn; þetta kemur eins og fjandinn úr sauðarleggnum og svo stoppar þetta svipað og kría sem skítur á stein“!

Eins og krækiber í helvíti (orðtak)  Líkingamál um það sem er smátt og virðist/ er hætt við að týnast í stóru rými.  „Það var slíkt risarúm á þessu hóteli að maður var bara hreint eins og krækiber í helvíti“.

Eins og kvikindi (orðtak)  Aumingjalegur.  Oft notað þegar menn verða gegnblautir í rigningu/slyddu.  „Andskotans úthelli er þetta!.  Maður er bara alveg eins og kvikindi eftir þessa stuttu göngu“!  Sjá skamma eins og kvikindi.

Eins og köttur í kringum heitan graut (orðtak)  Tala utanað; tvínóna við; notað um það þegar menn fara/tala í kringum málefni, en forðast að nefna það beinum orðum.  „Hann sagði þetta ekki beint, heldur talaði utanað því eins og köttur í kringum heitan graut.

Eins og landafjandi (útum allt/ allar jarðir/trissur) (orðtak)  Niðrandi umsögn um þann sem fer/æðir víða um/ er víðförull.  „Eitthvað hef ég orðið var við tófumenn:  Þeir eru hér eins og landafjandar útum allar trissur“!

Eins og (einhver/eitthvað) leggur sig (orðtak)  Með öllu saman; algerlega; að fullu.  „Hann má eiga þetta allt eins og það leggur sig; ég hef engan áhuga á því“.

Eins og leið liggur (orðtak)  Eftir leið/vegi.  „Við höldum því eins og leið liggur; út yfir Árdalinn...“  (IG; Sagt til vegar I).  

Eins og liðið lík (orðtak)  Eins og dauður; náhvítur; hreyfingarlaus.  „Hann lá þarna eins og liðið lík, fyrir utan þessar ógnarhrotur“.

Eins og logi í sinu / Eins og logi yfir akur (orðtak)  Með miklum hraða.  Einkum notað um útbreiðslu kjaftasögu, tískufyrirbæris eða annars.  „Þessi fjandans ósiður hefur breiðst út eins og logi yfir akur, og étur hver eftir öðrum“!

Eins og lúbarinn hundur (orðtak)  Eins og hundur sem fengið hefur miklar skammir; mjög niðurlútur.  „Eftir þessar háðuglegu trakteringar var hann eins og lúbarinn hundur, og hafði sig lítið í frammi“.

Eins og lús (á) milli (tveggja) nagla (orðtak)  Milli tveggja elda; aðþrengdur; aðkrepptur.  Likingin er við lús sem maður nær að góma og drepur með því að kreista milli nagla tveggja fingra.  „Báðar vildu eiga gripinn, svo ég var eins og lús milli tveggja nagla“!

Eins og lög gera ráð fyrir (orðtak)  Samkvæmt reglum/venju; eins og vanalegt er.  „Við skiptum eggjunum á brún og skildum landshlutinn eftir þar, eins og lög gera ráð fyrir“.

Eins og málum er háttað / Eins og liggur í málunum / Eins og málin eru vaxin (orðtök)  Eins og málavextir eru.  „Þetta getur ekki gengið eins og málum er núna háttað“.

Eins/líkt og milli steins og sleggju (orðtak)  Frammi fyrir erfiðum valkostum; þvingaður úr tveimur áttum eða fleiri.  „Þingmaðuinn sagðist vera líkt og milli steins og sleggju í þessu máli“.

Eins og mús í kattar klóm (orðtak)  Bjargarlaus; ofurseldur óviðráðanlegum öflum/örlögum; undir ægivaldi.

Eins og mús undir fjalaketti (orðtak)  Um þann sem er smeykur/ lifir í ótta.  Fjalaköttur er sérstök tegun músagildru; fjöl fellur niður á aðra þegar hreyft er við agni á milli þeirra.

Eins og mý á mykjuskán (orðtak)  Mikill fjöldi; urmull; aragrúi.  „Þessir túristar eru að verða eins og mý á mykjuskán um allar koppagrundir“!

Eins og naut á nývirki (orðtak)  Sjá stara eins og naut á nývirki.

Eins og naut í (moldar)flagi (orðtak)  Af miklu offorsi; í djöfulmóð.  „Kærunefndin gaf loksins eftir þegar ég hafði andskotast í málinu í fimm ár, eins og naut í flagi“.

Eins og nýr maður (orðtak)  Endurnærður; líður mikið betur; er mikið betur útlítandi; hegðar sér mun betur.  „Mikið var gott að komast í bað og hrein föt; ég er bara eins og nýr maður eftir þetta“!

Eins og nýsleginn túskildingur (orðtak)  Hress; endurnærður; við góða heilsu.  „Eftir góðan nætursvefn var ég eins og nýsleginn túskildingur“.

Eins og nærri má geta / Eins og geta má nærri (orðtök)  Eins og að líkum lætur.  „Þetta var mikið áfall fyrir hann, eins og nærri má geta“.

Eins og opin bók (orðtak)  Augljóst; greinilegt; liggur í augum uppi

Eins og rauður þráður (orðtak)  Eins og samheiti/samnefnari/klisja.  Notað um tiltekið orð, einkenni eða málefni sem oft kemur fyrir í tilteknu riti, frásögn, lífshlaupi, tilveru eða sögu.  „Ásókn valdsmanna í sjávarauðlindir gengur eins og rauður þráður í gegnum sögu Kollsvíkur og fleiri útgerðarstaða; allt frá dögum Guðmundar ríka og síðar Bæjarhyskisins; til stjórnvalda nútímans.  Aðeins hinum síðastnefndu hefur þó tekist að sölsa auðlindirnar endanlega undir sig og sína vildarvini“.

Eins og raun ber vitni / Eins og raun er á orðin (orðtök)  Eins og sést; eins og satt er; eins og orðið er.  Sjá raun ber vitni um.

Eins og ráðlaus ráfa (orðtak)  Eins og villuráfandi sauður.  Um þann sem er ráðvilltur/úrræðalaus.  „Það dugir ekki að gaufa lengur hér eins og ráðlaus ráfa“.

Eins og ræfill rifinn uppúr svelli (orðtak)  Líkingamál um mann sem er tiltakanlega tötralegur/ræfilslegur til fara; um mann sem lítur illa/vesaldarlega út.  Dregið af kind sem frosið hefur föst við jörð en er bjargað.

Eins og rýtingsstunga í bak (orðtak)  Eins og banvæn/slæm svik.  „Niðurfelling þessarar þjónustu var eins og rýtingsstunga í bak íbúa afskekkt sem bjuggu“.

Eins og (einhver) sé að sækja eld (orðtak)  Líkingamál um þann sem stoppar stutt; staldrar ekki lengi við; liggur á.  „Hann kom hér aðeins í mýflugumynd og lá mikið á; eins og hann væri að sækja eld“.

Eins og sjáaldur auga síns (orðtak)  Eins og það sem manni er dýrmætast.  Oftast notað til að leggja áherslu á góða gæslu.  „Ég skal gæta þess eins og sjáaldurs auga míns“.

Eins og skot /píla (orðtak)  Undireins; á stundinni; skotfljótur; samstundis; strax; í hvelli; mjög fljótt.  „Hlauptu nú eins og skot og vísaðu þessum árans túnbykkjum aftur útaf“! „Komdu eins og skot“! „Hún hljóp eins og píla“.

Eins og skrattinn sjálfur (orðtak)  Líkingamál með áherslu.  „Tvævetluskrattinn slapp framhjá mér og strikaði svo eins og skrattinn sjálfur norðuryfir alla vík“!

Eins og skrattinn/fjandinn úr sauðarleggnum (orðatiltæki)  Um þann/það sem birtist mjög óvænt.  „Þessir þingmenn dúkka upp á fjögurra ára fresti, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, og lofa gulli og grænum skógum“.  Líking við þjóðsöguna um árann sem geymdur var í sauðarlegg í flugulíki.

Eins og snúið roð í hundskjaft (orðtak)  Líkingamál um manneskju sem er mjög afundin/fúl/viðskotaill.  „Ég reyndi að orða þetta við hann en hann var bara eins og snúið roð í hundskjaft svo ég gaf bara dauðann og djöfulinn í þetta alltsaman“!  Venja var, eftir að harðfiskur hafði verið borðaður, að snúa roðið upp í harðan vöndul og gefa það hundum.  Sjá þorskroð.

Eins og spegill (orðtak)  Um sjólag; spegilsléttur sjór; alveg ládautt.  „Við liggjum ekki í landi þegar sjór er allur eins og spegill“!

Eins og til var sáð/stofnað (orðtak)  Eins og undirbúið var; eins og ætla mátti.  „Þessi flutningur tókst í alla staði vel, eins og til var stofnað, enda vel undirbúinn og unninn af gætnum mönnum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  Sjá sem maður sáir mun hann uppskera.

Eins og títt er (orðtak)  Eins og oft er/gerist.  „Gummi var á æskuárum sínum nokkuð baldinn eins og títt er um fjörmikla krakka“  (PG; Veðmálið). 

Eins og uppdreginn draugur af haug (orðtak)  Um þann sem er illa útlítandi, skítugur og/eða áberandi fölur.  „Hann var eins og uppdreginn draugur af haug þegar hann skreið útúr kofanum“.

Eins og úti á þekju (orðtak)  Utan við sig; annars hugar; ekki með á nótunum.  „Hann var í þungum þönkum, og eins og úti á þekju þegar ég yrti á hann“.

Eins og útspýtt hundsskinn (orðtak)  Mjög upptekinn; mikið á ferðinni.  „Þeir hafa ekki alltaf uppskorið þakklæti sem standa í félagsstörfum fyrir sína sveit, þó þeir séu eins og útspýtt hundsskinn í þágu annarra“.

Eins og vant er (orðtak)  Líkt og vanalega.  „Hún Grána er þá strokin út á Bjarg eins og vant er um sauðburð“.  „Eins og vant er er stutt á miðin og línan dregin upp í skyndi“  (KJK; Kollsvíkurver).

Eins og (einhvers) var von og vísa (orðtak)  Eins og vænta mátti af einhverjum.  „Hann hjálpaði mér um þetta, eins og hans var von og vísa“.

Eins og venja er til (orðtak)  Eins og vanalegt er; að venju.  „Ég rak féð til beitar, eins og venja er til“.

Eins og vera ber (orðtak)  Eins og rétt er; að réttu lagi; samkvæmt skyldu/venju.  „Ég lét tófuvörð strax vita um grenið, eins og vera ber“.

Eins og verkast vill (orðtak)  Eins og fer; eins og til lukkast.  „Maður stjórnar lítið þessari pest, hún þróast eins og verkast vill“.

Eins og við manninn mælt (orðtak)  Stendur heima; skeði samstundis og sagt var  „Við kláruðum að kasta síðustu tuggunum í hlöðuna, og það var eins og við manninn mælt; þá fór að hellirigna“!

Eins og villuráfandi sauður (orðtak)  Eins og ráðlaus ráfa.  Um þann sem er ráðvilltur/úrræðalaus.  „Fjandann voru þeir að þvælast lengst fram í dalmót eins og villuráfandi sauðir; þar var auðvitað ekki nokkur skepna“!

Eins og vötnum hallar (orðtak)  Eins og lækir renna.  Oftast notað um landamerkjalýsingar.  „Láganúps- og Breiðavíkurjarðir eiga land á Breiðnum eins og vötnum hallar“.

Eins og það hefði gerst/skeð í gær (orðtak)  Notað þegar verið er að lýsa því sem er sögumanni í fersku minni.  „Þetta man ég alveg; rétt eins og það hefði gerst í gær“!

Eins og þar stendur (orðtak)  Oft skeytt við setningu, og með því vísað til þekkts spakmælis, reglu eða ritmáls.  Sjá skrifað stendur.

Eins og þegar kría sest/skítur á stein (orðatiltæki)  Þessi myndlíking var notuð um það þegar einhver kom en stoppaði mjög stutt, jafnvel svo gestgjöfum mislíkaði:  „Þetta er eins og þegar kría sest á stein til að skíta og er flogin að öðru með það sama, sagði Ella gamla....“  (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Eins og þjófur um nótt (orðtak)  Laumulega; án þess að nokkur verði var við.  „Ég kann nú ekki við að menn séu að sniglast þarna um landareignina eins og þjófar um nótt“!

Eins og þorskur á þurru landi (orðtak)  Um þann sem ekki kann til verka/hátta eða fellur ekki vel að sínu umhverfi.  „Maður er alltaf eins og þorskur á þurru landi þegar maður kemur í stórborgina“.

Eins og þruma úr heiðskíru lofti (orðtak)  Mjög óvænt; sem enginn átti von á.  Oft notað um skyndilegan og óvæntan viðburð sem veldur mjög mikilli undrun, eða ummæli af því tagi.  „Þessi tíðindi komu yfir fólk eins og þruma úr heiðskíru lofti; enginn átti von á þvílíku“.

Eins og (einhver) ætti í (einhverjum) hvert bein (orðtak)  Um umhyggju; væntumþykju; eins og einhver ætti einhvern fyrir afkomanda.  „Hún faðmaði mig og kjassaði, eins og hún ætti í mér hvert bein“.

Eins og ætti lífið að leysa (orðtak)  Eins og líf lægi við; af öllu afli/megni.  „Ég hljóp eins og ég ætti lífið að leysa, og náði að komast fyrir rolluskjáturnar áður en þær sluppu útaf“.

Eins og örskot (orðtak)  Í hvelli; mjög fljótt/hratt.  „Ég hljóp heim eins og örskot og bað um aðstoð“.

Eins tala börn og fyrir þeim er haft / Eins/svo tala börn og á bæ er títt (orðatiltæki)  Börn grípa betur en fullorðnir það sem sagt er í kringum þau, og hafa það eftir; hvort sem þau skilja meininguna eða ekki.  Skylt er máltækið; betri er belgur en barn.

Eins var það (orðtak)  Það var einnig svo.  „Jafnan var það svo að formenn þar voru kappsamir um sjósókn.  Eins var það að margir fóru heim til sín um helgar“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Eins víst (orðtak)  Mjög líklegt; jafnvel; gæti verið.  „Ef þú lætur skærin liggja þarna yfir nóttina þá er eins víst að hrafninn verði búinn að stela þeim á morgun“.  Oft allt eins víst.

Einsamall (l)  Einn; upp á sitt eindæmi.  „Steinninn er of stór til að nokkur velti honum einsamall“.

Einsdæmi (n, hk)  Einstakt/sérstakt tilvik.  „Ætli það megi ekki telja einsdæmi að einn maður hafi skilið eftir sig jafn umfangsmiklar hleðslur og Guðbjartur á Láganúpi“.

Einsetja sér (orðtak)  Setja sér sem takmark; stefna að; ákveða.  „Ég var oft búinn að horfa löngunaraugum norður í Sighvatsstóðin áður en ég einsetti mér að komast þangað niður“.

Einshugar (l)  Á sama máli; sammála.  „Við vorum einshugar um að reyna þetta“.

Einsigldur (l)  Um bát; með einni siglu/ einu siglutré/mastri; einmastraður.  „Snemma barninu brá/ beint í Hrafnistu átt./  Hafsins hyldýpin blá/ heilluðu sveininn brátt./  Sjö vetra sigldi úr höfn,/ svall honum þráin ung;/ yfir ólgandi dröfn/ á einsigldum færapung“  (JR; Rósarímur). 

Einsigli (n, hk)  Um seglabúnað; það að vera með eitt siglutré.  „Einsigli var almennt á smærri bátum“.

Einsiglt / Tvísiglt / Þrísglt (l)  Um reiðabúnað báts/skips; hve margar siglur eru á.

Einskefta (n, kvk)  Einföld gerð vefnaðar, eins og hann var stundaður frá fornu fari.  Í einskeftu liggur ívafsþráðurinn upp og niður.  Hún var einkum höfð í svuntur og millipils.

Einskeri (n, kk)  Einristuljár (sjá þar).

Einskipa (l)  Einn bátur án fylgdar annarra.  Varasamt getur verið að fara einskipa á litlu horni í langa róðra í tvísýnu veðri:  „Hann mun hafa róið einskipa úr Breiðavíkurveri þennan dag“  (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Einskis metinn (orðtak)  Nýtur ekki sannmælis; virtur minna en rétt er; sýnd vanvirða/fyrirlitning.

Einskis ófreistað (orðtak)  Sjá láta einskis ófreistað.

Einskis virði (orðtak)  Verðlaus; ónothæfur; ónýtur; ekki eigulegur.

Einskisnýtur (l)  Ekki nothæfur til neins.  „Það þýðir lítið að fá einhverja einskisnýta aula í smalamennskur sem aldrei hafa í sveit komið og geta varla gengið lengd sína á sléttu stofugólfi“!

Einskisvirða (s)  Lítilsvirða; forsóma; meta einskis.  „Við skulum ekki einskisvirða það sem reynt er að gera“.

Einskorða sig við (orðtak)  Takmarka sig við; einblína á.  „Það þýðir ekkert að einskorða sig við einn flokk; maður verður að vera tilbúinn að kjósa annað ef hann stendur sig ekki“.

Einskær (l)  Eintóm; alger.  „Það var bara einskær heppni að finna þessar kindur“.  „Þetta var einskær tilviljum“.

Einslags (l)  Einhverskonar; nokkurskonar.  „Fjörulallinn var með einslags skott eða hala“.

Einslega (ao)  Í einrúmi; undir fjögur augu.  „Ég þyrfti að ræða aðeins við þig einslega“.

Einspena (s)  Mjólka einn spena í einu.  Jafnan eru báðir spenar mjólkaðir samtímis í hverju spenapari þegar kýr er handmjólkuð, en stundum þarf að einspena; t.d. ef kýrin er misjúgra eða ef júgurbólga er í öðru júgrinu.

Einspinna (n, kvk)  Einfalt/óspunnið ullarband.  „Þelband var mest notað í nærföt, einspinna í nærskyrtur, allt frá ungbarnaskyrtur og upp í kven- og karlmannaskyrtur og nærbuxur á yngstu börnin (bleyjubuxur). Annars var „föðurlandið“ úr smáu tvinnuðu bandi. Prjónaklukkur á stelpur voru úr hárfínu tvinnuðu bandi eða einspinnu, þær voru prjónaðar með klukkuprjóni.“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Einstaka (l)  Nokkrir; sumir.  „Pestin hefur stungið sér niður á einstaka bæjum“. 

Einstaka sinnum (orðtak)  Stundum; stöku sinnum; endrum og eins; ekki að staðaldri.  „Einstaka sinnum rekur hér ansi myndarleg tré“.

Einstaklega (ao)  Sérstaklega; tiltakanlega.  „Þetta var alveg einstaklega góður matur“!

Einstakur (l)  Sérstakur; einn af sinni gerð.  „Alveg ertu einstakur!  Það hefðu ekki allir boðið þetta“.  „Hann ar alveg einstakur snillingur“.

Einstigi (n, hk)  Mjör þræðingur; mjó gata.  „Einstigi er fyrir Takaklett; ágætlega fært flestum“.

Einstrengingsháttur (n, kk)  Þrjóska; þverska; einsýni.  „Skelfilegur einstrengingsháttur en nú þetta“!

Einstrengingslegur (l)  Einsýnn; þver; þrjóskur.  „Hann þykir nokkuð einstrengingslegur í þessum efnum“.

Einstrokks / Einsýlinders (l)  Um vél/sprengihreyfil; með einum strokki/sýlinder.  „Fyrsta ljósavélin á Láganúpi var einstrokks Onan; 12 volta bensínvél.  Hún var í kompunni í Hjallinum og sett í gang með spotta“.

Einstæðingur (n, kk)  Sá sem er einn/hjálparlaus; ekkill/ekkja.  „Nú er hann orðinn einstæðingur blessaður“.

Einstæðufjós (n, hk)  Fjós þar sem ein röð kúa er um einn flór.  Í tvístæðufjósi eru tvær raðir um sama flór.

Einstæður (l)  A.  Um viðburð; sérstakur; skeður einu sinni.  „Þetta var einstæð skemmtun“.  B.  Um persónu; hefur sérstaka hæfileika/eiginleika.  „Hún er alveg einstæð gæðamanneskja“.

Einstöku sinnum (orðtak)  Stundum; sjaldan.  „Einstöku sinnum verða slíkar leysingar í asahláku, að vatn úr Gilinu flæðir yfir Flötina og stundum jafnvel inn í verkfærahúsið“.

Einsýnt / Einsýnt veður (l/orðtak)  A.  Um veður/þurrk eða sjólag; ekki tvísýnt.  „Þessar saltferðir á Fönix voru alltaf farnar þegar veður var gott og einsýnt“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til að bræða veðrið...“ (KJK; Kollsvíkurver).   „...og einsýnt að við myndum lenda í norðurfalli yfir Blakknesröst... “  (ÖG; Þokuróður).   Oft notað með öðrum orðum; „Það er alveg einsýnn þurrkur næstu daga“.  En einnig sérstætt;  „Þá var landburður af fiski og aldrei róið nema í einsýnu“. (Gagnstætt við tvísýnu).  B.  Um mann; þröngsýnn; einblínir á eina leið/lausn.  „Hann er alltof einsýnn í þessu máli“.  Upphaflega merkti orðið „einsýnn“ það að vera eineygður.

Einsær (l)  Auðsæilegur; greinilegur.  „Hann gerði þetta af einsæjum aulaskap“.

Eintrjáningsháttur (n, kk) Einþykkni; þverska.  „Seklfingar eintrjáningsháttur er þetta“!

Eintrjáningslegur (l)  Einþykkur; þver; þrjóskur.  „Hann getur verið dálítið eintrjáningslegur“.

Einu fíflinu færra (orðtak)  Hefur fækkað um einn gagnslausan/heimskan/ónytjung.  „Ekki held ég að samfélagið þurfi að ganga af göflum þó hann falli út af þingi; það væri þá einu fíflinu færra“!

Einu gildir/ gilda (orðtak)  Skiptir engu máli; sama er.  „Við skiptum eggjunum jafnt.  Einu gildir hver tíndi þau“.   „Það má mig einu gilda í hvaða rúminu ég sef“.

Einu gildir hvaðan gott kemur (orðtak)  Skiptir ekki máli hver er uppruni/orsök gæða/elgengni/viðurværis.

Einu gildir hvar frómur flækist/ Sama hvar frómur flækist (orðatiltæki)  Hinn heiðarlegi/alþýðlegi fær allsstaðar góðar viðtökur.

Einum að þóknast ekki er gott, öllum hálfu verra (orðatiltæki)  Auðskilin speki þó ekki heyrist hún oft.

Einum er angur það sem öðrum er skemmtun (orðtak)  Það fer stundum illilega í taugarnar á einum sem annar kann vel að meta.  Nærtækt dæmi um það eru hinir óþörfu og hvimleiðu boltaleikir.

Einum of (orðtak)  Aðeins of mikið; heldur mikið.  „Skyrtan er einum of lítil á mig“.  „Henni fannst þetta einum of dýrt“.  „Grauturinn er kannski einum of saltur“.

Einungis (l)  Aðeins; bara; alleina.  „Ekki einungis náði lambið að stöðva sig í miðjum klettum, heldur lappaði það sig hjálparlaust upp á brún aftur“.

Einurð á (orðtak)  Harðfylgi/ákveðni til.  „Hann er ekki nógu fylginn sér.  Ég er ekki viss um að hann hafi einurð á að koma þessu máli í höfn“.  „Svo þegar leið á þá höfðum við ekki einurð í okkur til að rukka inn sýslugjöldin sem kölluð voru“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Einurðarleysi (n, hk)  Linka; uppburðarleysi; óframfærni.  „Málið kemst lítið áfram með svona einurðarleysi“.

Einusinni (ao)  Eitt sinn; við eitt tækifæri.  „Hún sagði einusinni:  „Það er ég viss um að Ingvar lærir aldrei að halda sér uppúr skítnum““  (IG; Æskuminningar).

Einusinni er allt fyrst / Einhverntíma verður allt fyrst (orðtak)  Allt hefur upphaf; allt þarf að byrja.  „Ég hef ekki smakkað þetta áður, en einusinni er allt fyrst“.  Sjá eitt sinn verður allt fyrst.

Einvörðungu (ao)  Aðeins; einungis.  „Þingið þarf að hafa landshag í huga en ekki borgarinnar einvörðungu“!

Einþáttungur (n, kk)  Einfaldur þráður, þ.e. hvorki ofinn, spunninn, né tvinnaður.  Einnig haft um einn þátt úr snúnu bandi eða snúnum vað.  „Einþáttungur var þættur úr línunni og notaður til að hnýta á netasteinana“. Orðið finnst ekki í orðabókum í þessari merkingu, en er annarsstaðar notað um leikrit í einum þætti.

Einþykkni (n, kvk)  Þrjóska; þverska/pápíska.  „Þetta er nú bara einþykkni í þér“!

Einþykkur (l)  Þrjóskur/þver/pápískur í skoðunum/afstöðu.  „Skelfilega er karlinn einþykkur í þessu“.

Einætur (l)  Matur sem unnt er að borða án meðlætis eða viðbits.  „“Rafabeltin voru pækilsöltuð fyrst og síðan hert og borðuð þegar þau töldust orðin verkuð og kölluð einæt ...  Einnig var rauðmaginn stundum bara hertur og borðaður einætur; helst ef lítið var af honum, svo ekki þótti taka því að gera upp reyk fyrir hann.“  (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms). 

Eira (s)  A.  Una; vera í ró.  „Það er svo mikið frost að féð eirir stutt við beit“.  B.  Hlífa; gefa líf.  „Í sínum illvígasta ham æðir sandstormurinn uppyfir allt og eirir engum gróðri“.

Eirð (n, kvk)  Friðsemd; ró; afdrep.  „Hann hafði enga eirð í sér fyrr en allt féð var fundið“.

Eirðarlaus (l)  Viðþolslaus; órólegur; óþolinmóður.  „Ósköp verður maður eirðarlaus að bíða svona í óvissu“.

Eirðarleysi 8n, hk)  Órói; óþolinmæði; ráp.  „Það er óttalegt eirðarleysi í fénu; ég fer bara að setja það inn“.

Eirðarlítill (l)  Unir sér ekki; ókyrr; rásandi.  „Féð var fremur eirðarlítið í fjörunni núna“.

Eitilfreðin / Eitilfrosinn (l)  Beinfreðinn; gaddfrosinn.  „Það þarf að láta fiskinn þiðna aðeins meira; hann er enn eitilfrosinn og útilokað að skera hann“.

Eitilfrost (n, hk)  Mikið frost, einkum átt við frosna jörð.„Það er ekki nema hálf skóflustunga niður á eitilfrost“.

Eitilharður (l)  Mjög harður; beinharður.  „Harðfiskurinn var óbarinn og eitilharður undir tönn“.

Eitilharka (n, kvk)  Um efni/málm/grjót/steypu/manneskju; mjög harður; mikið þol.  „Það gekk ekki andskotalaust að brjóta niður vegginn; hvílík eitilharka í þessari gömlu steypu“!

Eitt brast en annað bilaði (orðatiltæki)  Um það þegar margt fer forgörðum samtímis.

Eitt er að lofa/segja; annað að framkvæma/gera (orðatiltæki)  Maður getur lofað mörgu en ekki er alltaf jafn einfalt að standa við það.

Eitt er að vita og annað að gera (orðatiltæki)  Vísar til þess að maður gerir ekki alltaf samkvæmt því sem maður veit vel. 

Eitt fyrir sig (orðtak)  Útaf fyrir sig; fyrir sig; aðskilið mál; sérstakt mál.  „Það er nú eitt fyrir sig að hann kunni ekki að binda hnút; en bölvað að hann leiti þá ekki aðstoðar, heldur hræki þessu einhvernvegin saman“!

Eitt helvíti (orðtak)  Upphrópun um það sem er erfitt.  „Féð tvístraðist við geltið í hundinum, svo það var eitt helvíti að ná því saman aftur“!

Eitt í dag og annað á morgun (orðtak)  Um það að vera óákveðinn/tvíræður.  „Ósköp kann ég illa við svona hringlandahátt; það er eitt í dag og annað á morgun“!

Eitt leiðir af öðru (orðatiltæki)  Um orsakasamhengi; eitt atvikið orsakar annað.

Eitt með öðru (orðtak)  Til viðbótar öðru.  „Þetta varð; eitt með öðru, til þess að hann hætti við ferðina“.

Eitt og annað (orðtak)  Hitt og þetta; nokkuð; sumt.  „Í kassanum fann hann eitt og annað nýtilegt“.

Eitt og sérílagi (orðtak)  Útaf fyrir sig; sérstakt.  „Það er nú eitt og sérílagi að þú fáir þér eina köku, en láttu það bara vera að gófla í þig allt af diskinum“!

Eitt sinn skal hver deyja (orðatiltæki)  Auðskilin speki sem fylgt hefur mannkyni frá upphafi.

Eitt sinn var hver maður barn / Allir höfum við börn verið (orðatiltæki)  Auðskilin speki og oft þörf áminning, einkum þegar fullorðnum þykir eitthvað að í hegðun barna. 

Eitt sinn verður allt fyrst (orðatiltæki)  Allt hefur sitt upphaf.  „Þarna hef ég aldrei komið áður, en eitt sinn er allt fyrst“.

Eitthvað bogið við /  Eitthvað loðið við / Eitthvað málum blandið / Eitthvað samanvið það (orðtök)  Eitthvað óljóst; eitthvað sem ekki passar; eitthvað fer á milli mála.  „Eitthvað er nú málum blandið við þessa frásögn“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).  „Eitthvað er nú samanvið það að hann þóttist ekki geta komið í smalamennskur vegna veikinda, en fór svo á dansleik um kvöldið“.

Eitthvað í þá áttina / Eitthvað í þá veru(na) (orðtak)  Líkt því; nærri því.  „Hann var kallaður Nonni eða Jonni, eða eitthvað í þá áttina“.  „Hann sagði eitthvað í þá veru að þeir gætu þá gert þetta sjálfir“.

Eitthvað má (nú) á milli vera! (orðatiltæki)  Fyrr má nú vera; það er aldeilis; fyrr má nú rota en dauðrota.  Merkir eiginlega að mikið bil sé á milli öfganna.

Eitthvað svo (orðtak)  Dálítið; nokkuð; hiksetning höfð inni í annarri, til einskonar skýringar, mildunar eða e.t.v. afsökunar.  „Mér varð eitthvað svo kalt að ég sótti mér teppi“.  „Honum er eitthvað svo uppsigað við þetta“.

Eitthvað verður undan að láta (orðtak)  Eitthvað hlýtur að brotna/gefa eftir í miklum átökum.  „Ýtar sigla austur um sjó/ öldujónum káta./  Skipið er nýtt en skerið hró;/ skal því undan láta“  (vísa eignuð Staðarhóls-Páli, um strand manna á nýsmíðuðum báti).

Eitthvað/ekkert við að vera (orðtök)  Hafa eitthvað/ekkert fyrir stafni/ að gera.  „Vísnagerð var miklu meira haldið á lofti þegar ég var strákur, því þá var ekkert annað við að vera í frístundum en útvarpið; fréttir og veðurfregnir“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Eitthvað ætlaði ég að segja en ekki þegja (orðatiltæki)  Hiksetning sem menn nota oft meðan verið er að forma hugsun í orð. 

Eitthvaðsvo (ao)  Eitthvað svo; svo mjög/mikið.  „Alltaf finnst manni eitthvaðsvo notalegt að koma aftur í heimahagana eftir langa fjarveru“.  Orðhlutarnir eru svo samrunnir í framburði að í raun er um eitt orð að ræða, líkt og t.d. orðið „ennþá“.

Eitthvurt (ao)  Eitthvert; einhvert.  „Eitthvurt fóru þeir; en hvurt, veit ég ekki“.  Töluvert notað, t.d. af eldra fólki uppúr miðri 20.öld.  Heyrist sjaldan nú, og hefur vikið fyrir „einhvert/einhvert“.

Eittsinn (ao)  Einu sinni; einhverju sinni; áðurfyrr.  „Eittsinn lenti þyrla á Leirunum“.

Eitur í (einhvers) beinum (orðtak)  Einhver þolir ekki; einhverjum er meinilla við.  „Allur undirlægjuháttur var eitur í hans beinum“.

Eiturbras (n, hk)  Slæmur matur; mjög bragðsterkur matur.  „Ég ét ekki svona eiturbras“.

Eiturbuna (n, kvk)  Fyrsta bunan úr kaffikönnu eftir uppáhellingu með gamla laginu, en hún vildi verðaöðruvísi vegna lagsins á stútnum og var því gjarnan hellt í könnuna aftur.  „Ég hellti uppá könnuna og tilkynnti að kaffið væri tilbúið.  „Eiturbununa tek ég sjálfur, en gerið þið svo vel“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Eiturkjaftur (n, kk)  Sá sem níðir/baktalar fólk; sá sem talar illa um fólk.  „Það er stórvarasamt að trúa nokkru sem frá þeim eiturkjafti kemur“.

Eiturpadda (n, kvk)  A.  Eitrað skordýr.  B.  Oftast notað í líkingamáli um mann sem þykir viðsjárverður; padda; eiturnaðra.  „Hann er stundum bölvuð eiturpadda með það að koma svona slúðri af stað“!

Eitursaltur (l)  Mjög/alltof saltur.  „Þessi fiskur hefur staðið uppúr í afvötnuninni; hann er eitursaltur“.

Eitursúr (l)  Mjög/alltof súr.  „Bestur er hvalurinn ef hann er svo eitursúr að hann hangir varla saman“.

Eitursterkur (l)  Mjög bragðsterkur.  „Þessi skrattans „síllipipar“ er eitursterkur andskoti“.

Eiturtunga (n, kvk)  Sá sem talar mjög meiðandi um/við aðra; rógberi; slefberi.  „Það orð lá á að karlinn gæti verið eiturtunga ef honum sinnaðist við aðra“.

Ekkasog (n, hk, fto)  Krampakennd gráthljóð; ekki.  „Drengurinn sagði frá því milli ekkasoganna hvernig kindin stangaði hann um koll þegar hann ætlaði að klappa lambinu“.

Ekkert/fátt að vanbúnaði (orðtök)  Ekkert til fyrirstöðu; tilbúinn; reiðubúinn.  „Nestið er klárt og okkur er þá ekkert að vanbúnaði að leggja af stað“.

Ekkert barnameðfæri / Ekkert til að leika sér að  (orðtak)  Erfitt/hættulegt í meðförum.  „Ég skil ekkert í þeim að láta strákinn fara einn að sækja kálfana.  Nautið er ekkert barnameðfæri ef það tekur sig til“.

Ekkert blávatn (n, hk)  Um manneskju; ekki fisjað saman; enginn aumingi/aukvisi.  „Hún er sko ekkert blávatn; að geta séð um allan búskapinn; féð og mjaltir, og vera samt með barn á brjósti“.

Ekkert er barn án breka (orðatiltæki)  Börn eru óvitar og gera því oft það sem ekki fellur að reglum og siðum fullorðinna, án þess að illt búi að baki. 

Ekkert er Guði hulið / Ekkert er Guði ómáttugt (orðatiltæki)  Guð er almáttugur og sér allt.  Stundum viðhaft sem huggun, til að sýna framá að viðfangesefni sé ekki ómögulegt eða að greiðst geti úr slæmri stöðu; eða til að minna á að menn komast ekki upp með pukur og leynd.

Ekkert er nýtt undir sólinni (orðatiltæki)  Ekkert er í raun nýjung; ekkert kemur á óvart.  Allmikið notuð speki en meingölluð.  Kann að vera að orð hafi fallið úr við langvarandi notkun.

Ekkert gamanmál (orðtak)  Grínlaust; ekkert spaug.  „Það væri bara ekkert gamanmál ef þið dræpuð ykkur á þessu bévítans fikti“!

Ekkert gerist/skeður að ástæðulausu (orðatiltæki)  Orsök er til allra viðburða/óhappa.  „Þið hljótið að vita hver átti sök á þessu; ekki gerðist það að ástæðulausu“!

Ekkert lag/verk á (orðtak)  Ómögulegt; óviðunandi; ekki nokkur mynd.  „Þú verður að vanda þig betur við aftektina; það er ekkert lag á þessu hjá þér“!

Ekkert/lítið mark á því takandi (orðtak)  Lítið að marka; ekki unnt að treysta á.  „Hann segist hafa gert þetta, en mér finnst nú lítið mark á því takandi“.

Ekkert mehe með það (orðtak)  Ekkert múður/rövl um það; þýðir ekki að mótmæla því/ ræða það frekar.  „Við þurfum að sækja okkur spotta og reyna að mjaka kúnni uppúr dýinu; það er ekkert mehe með það“!

Ekkert meira með það (orðtak)  Þarf ekki að segja meira um það; segi ekki meira um það.  „Við bara misstum bölvaðar skjáturnar; það er bara ekkert meira með það“!

Ekkert mót á (orðtak)  Engin merki um; engar líkur á.  „Ég sé ekki neitt mót á að hann sé að hætta að rigna“.

Ekkert nema kjafturinn (orðtak)  Mjög kjaftfor/þrasgjarn.  „Það er eins og vant er; hann er ekkert nema kjafturinn ef eitthvað er vikið að honum sjálfum“!

Ekkert nema skinnið og beinin (orðtak)  Um þá mannesku/skepnu sem er áberandi horuð/skinhoruð.  „Hörmung er nú að sjá þessa horgrind.  Þetta er ekkert nema skinnið og beinin!  Ætlarðu alveg að sálga þér fyrir tískutildrið“?

Ekkert nema skítinn og skammirnar (orðtak)  Um vanþakklæti.  „Ég var nú að reyna að segja honum hvað mér sýndist en hafði ekkert uppúr því nema skítinn og skammirnar“.

Ekkert ráð (orðtak)  Ekkert vit; ekki glóra í; ráðleysa; fyrirhyggjuleysi.  „Mér finnst ekkert ráð að þeir séu að flækjast í þessa ferð svona seint að degi“!

Ekkert sem heitir / Ekkert að ráði (orðtak)  Ekki svo orð sé á gerandi; mjög lítið.  „Ég skurslaði mig örlítið á hnífnum, en þetta er ekkert sem heitir“.

Ekkert slor (orðtak)  Um það sem þykir mjög fínt/glæsilegt.  „Húsið þeirra er ekkert slor“!

Ekkert sprettur af engu ( orðatiltæki)  Eitthvað þarf til alls; eitthvað er upphaf alls.  Viðhaft í ýmsum tilefnum.

Ekkert um / Ekkert gefið um (orðtak)  Ekki hrifinn af; ekki fyrir; vil helst ekki.  „Mér er ekkert um að krakkarnir séu að leika sér á traktornum“.  Mér er ekkert gefið um svona háttalag“.  „Sumir áður sem um Rósa síst var gefið/ blessa hann nú og bjóða í nefið“  (JR; Rósarímur). 

Ekkert undanfæri (orðtak)  Engin undankomuleið; ekki undan vikist.  „Úr því sem komið var var ekkert undanfæri hjá okkur að láta slag standa og reyna lendingu“.

Ekkert uppá að klaga (orðtak)  Ekki undan að kvarta.  „Ég hef ekkert uppá hann að klaga, en ég vildi gjarnan koma höndum yfir þrjótinn sem með honum var“!

Ekki (er) að furða þó/þótt (orðtak)  Setning sem oft er sögð í hneykslunartón.  „Varstu á gúmmískóm?  Ekki er að furða þó þú sért blautur í fæturna“!

Ekki að sökum að spyrja (orðtak)  Ekki vafamál hverjar afleiðingar yrðu/verða; þarf/þurfti ekki að spyrja um framhald/afleiðingar.  „Hann gleymdi að loka hliðinu, og þá var ekki að sökum að spyrja; túnrollurnar voru fljótar að átta sig á því“.

Ekki að því hlæjandi (orðtak)  Ekkert aðhlátursefni; alvarlegt mál.  „Auðvitað er ekki að því hlæjandi þegar menn meiða sig, en mér fannst þetta bara svo ári kómiskt að ég gat ekki varist hlátri“. Sjá aðhlæjandi.

Ekki af baki dottinn (orðtak)  Ekki búinn að gefast upp.  „Hann er ekki af baki dottinn með þessa hugmynd; nú ætlar hann að virkja hverja einustu sprænu í nágrenninu og hita upp sjó fyrir laxeldið“!  Augljós líking.  Sá sem enn er á hestbaki á meiri möguleika en sá sem er á fæti, t.d. í orrustu eða á flótta.

Ekki af honum skafið (orðtak)  Hann má eiga það.  „Hann er kannski dálítið hrjúfur á yfirborðinu en það verður ekki af honum skafið að enginn er eins barngóður“.

Ekki af illvilja gert (orðtak)  Ekki gert af slæmum ásetningi/ meinsemi.  „Það var ekki af illvilja gert að ég lagði yfir hjá þér; heldur bilaði vélarkvikindið í lagningunni“.

Ekki af miklu að má / Ekki af miklu að taka (orðtök)  Ekki mikið til skiptanna; ekki mikið sem hægt er að taka af.  „Ég held að ég geti nú borgað þetta, þó ekki sé af miklu að má“.

Ekki af verri endanum (orðtak)  Með betra móti; ágætt.  „Alltaf var boðið upp á kirkjukaffi að messu lokinni, og ekki af verri endanum“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Ekki afhættis með (orðtak)  Ekki útséð með; ekki mikið í hættu.  „Það er nú ekkert afhættis með þessar rolluskjátur þó þær náist ekki fyrr en á morgun“.

Ekki afskorið (orðtak)  Ekki útilokað/vonlaust.  „Það er kannski ekki alveg afskorið með þetta klárist í dag“.

Ekki afslagur í (orðtak)  Ekki hægt að hafna; ómótstæðilegt.  „Konan er að baka vöfflur og ég játa alveg að mér er enginn afslagur í því“!  „Hann bað ekki um aðstoð en glöggt mátti sjá að honum var ekki afslagur í henni“.

Ekki aftur tekið (orðtak)  Ekki bætt fyrir; afdrifaríkt.  „Það verður ekki aftur tekið ef vaðurinn slitnar meðan sigarinn er í honum“!  „Það er ekki aftur tekið ef við missum hnífinn úti í ballarhafi“!

Ekki aldeilis (orðtak)  Upphrópun; neitun með sérstakri áherslu.  „„Var þig að dreyma stelpur Árni minn“? spyr Sigurður og kveikir sér í sígarettu.  „Mig; ekki aldeilis!  Það var drenginn sem var að dreyma eitthvað kvenkyns eins og vant er““  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Ekki aldæla (orðtak)  Ekki þægur/viðráðanlegur.  „Strákurinn var býsna tilþrifamikill og þótti ekki aldæla“.

Ekki alleina (orðtak)  Ekki aðeins/bara.  „Það var ekki alleina að ég heimti kindina, heldur kom skilaði hún líka þessum ágætis tvílembingum“.

Ekki allra (orðtak)  Mannlýsing um þann sem tekur fólki mjög misjafnlega vel; e.t.v. stytting á „ekki allra vinur“.  „Hann er ekki allra, og sumum þykir hann dálítið fráhrindandi, en hann er tryggur vinum sínum“.

Ekki alls fyrir löngu (orðtak)  Fyrir fremur stuttum tíma; fyrir skömmu.  „Ég man vel eftir þessu, enda gerðist það ekki alls fyrir löngu“.

Ekki alls kostar (orðtak)  Ekki alveg/að öllu leyti.  „Þetta er nú ekki alls kostar rétt hjá honum“.

Ekki alls varnað (orðtak)  Ekki heillum horfinn; ekki alveg ómögulegur; getur ýmislegt.  „Honum er ekki alls varnað drengnum þó hann nenni ekki að læra; hann er hörkuduglegur smali“.

Ekki allt í (orðtak)  Ekki verulegt; ekkert að ráði.  „Hann gumaði mikið yfir því að áhöfnin fengi að eiga allan meðaflann.  Það er þó ekki allt í; kannski örfáar tindabikkjur og einstaka lúðulok“!

Ekki allur munur á (orðtak)  Munar ekki öllu; munar ekki miklu.  „Það er nú ekki allur munur á hvort þú færð fimm fiska eða átta; mér finnst hann bara andskoti tregur“!

Ekki allur þar sem hann er séður (orðtak)  Um klókindi/undirferli/sniðugheit.  „Þú skalt dálítið vara þig á fagurgalanum í karlinum; hann er ekki allur þar sem hann er séður“.

Ekki amalegt / Ekki dónalegt (orðtök)  Prýðilegt; ágætt; gott.  „Það væri nú ekki amalegt ef þú gætir aðst0ðað okkur dálítið við þetta“.   „Það er hreint ekki dónalegt að fá svona kostagrip í afmælisgjöf“!

Ekki annað að gera/ræða / Ekki um annað að gera / Ekki um annað að ræða (orðtak)  Ekki annað hægt að gera; einsýnt hvað þarf að gera.  „Við vorum þá orðnir sökkulausir og ekki annað að gera en halda í land“.  „Það er ekki um annað að ræða en draga lambið á brún“.  Sjá um að gera.

Ekki annað að sjá / Ekki annað í augsýn / Ekki annað sýnna (orðtak)  Um það sem ljóst má vera/ það sem augljóslega virðist.  „Steinninn valt framaf og ekki annað sýnna en hann myndi lenda á sigmanninum“.

Ekki annað fyrir hendi / Ekki annað í boði (orðtak)  Ekki um annað að ræða; önnur úrræði bjóðast ekki.  „Ég verð að bjargast við þessa bitlausu hnífbrók fyrst ekki er annað fyrir hendi“.

Ekki annað ráð en (orðtak)  Ekki vit í öðru en; ekki annað í stöðunni en.  „Helvíti er hann að ljókka allt í einu; ég held að nú sé ekki annað ráð en að pilla sig í land“!

Ekki annars kostar völ (orðtak)  Ekki völ á öðru; ekki um annað að gera; annað ekki í boði.  „Ég átti ekki annars kostar völ en taka þessu boði“.

Ekki aukatekið orð (orðtak)  Ekki neitt orð; þegjandi.  „Eftir þessa ádrepu labbaði hann út án þess að segja eitt aukatekið orð“.  „Þú sagðir ekki aukatekið orð þegar þetta var til umræðu“.

Ekki/erfitt á að ætla (orðtak)  Ekki auðvelt að sjá fyrirætlanir; erfitt að treysta á.  „Ég veit ekki hvenær hann kemur; það er erfitt á hann að ætla“.  „Gleymdi hann þessu!  Það er bara ekkert á hann að ætla“!

Ekki/varla á (það) bætandi / Ekki þarf á að bæta (orðtak)  Ekki til bóta að auka við/ bæta á.  „Vertu nú ekki að skamma strákgreyið; hann er svo miður sín yfir þessu að það er ekki á það bætandi“.

Ekki á eitt sáttir (orðtak)  Ekki allir sammála.  „Þó munu menn ekki hafa verið á eitt sáttir um hvað gerst hafði“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Ekki á horleggjunum (orðtak)  Ekki horaður/ illa haldinn.  „Hann er ekki á horleggjunum blessaður; ég held að honum veitti ekki af því að fara í megrun“!

Ekki á hverju strái (orðtak)  Ekki algengt; sjaldgæft.  „Svona snillingar eru ekki á hverju strái“.

Ekki á nástrái (orðtak)  ekki peningalaus.  „Karlinn er ekki á nástrái, að því að sagt er“.

Ekki á nástrái (orðtak)  Ekki mjög fátækur; ekki mjög illa settur; aflögufær.  „Þeir eru ekki alveg á nástráinu sem geta keypt sér svona bíl“.  Nástrá gæti verið síðasta fóðurtuggan fyrir búféð í miklum harðindavetrum, en í orðabókum sumum  er það sagt vera hálmur (hey) sem lagður var undir lík eða dauðvona manneskju.

Ekki á nokkurn handa máta (orðtak)  Ekki með neinu móti; ekki á neinn hátt; alls ekki.  „Hann vildi ekki á nokkurn handa máta þiggja þetta sem gjöf, heldur sagðist ætla að launa það síðar“.  „Ég ber ekki sök á þessu á nokkurn handar máta“.

Ekki á réttri hillu (orðtak)  Ekki í því starfi sem manni myndi best henta; ekki að fást við það sem maður er færastur í.  Sjá á rangri hillu.

Ekki/varla á vetur setjandi (orðtak)  Ekki lífvænlegur; ekki vænlegur til árangurs/frambúðar.  „Ég held að þessi stakkur sé varla á vetur setjandi“.

Ekki á vísan að róa (orðtak)  Ekki tryggt að fáist/aflist.  Vísar til þess að fiskirí er ekki tryggt þó róið sé.  „Oft má fá ágætis kennsli á Hyrnunum, en það er svosem ekki á vísan að róa með það fremur en annað“.

Ekki/varla á það að ætla (orðtak)  Ekki víst/tryggt/öruggt; ekki hægt að treysta því.  Sjá ekki á að ætla.

Ekki/varla á það treystandi (orðtak)  Ekki öruggt.  „Það er ekki á það treystandi að bensínið dugi í svo langan róður“.

Ekki á þeim buxunum (orðtak)  Ætlar ekki; ekki samþykkur; er ekki tilbúinn til.  „Ég gekk að nautinu, mýldi það og ætlaði að teyma það af stað.  En tuddi var ekki á þeim buxunum; ýmist spurnti hann við fótum eða setti undir sig hausinn og reyndi að hnjóða í mig“.

Ekki á öðru völ / Ekki annarra kosta völ   (orðtök)  Ekki aðrir kostir í boði; ekki annað að hafa.  „Það verður að notast við þetta þegar ekki er á öðru völ“.  „Ég átti ekki annarra kosta völ“.

Ekki barna meðfæri (orðatiltæki)  Um hættulegan hlut; hæfir ekki börnum að meðhöndla.  Sumsstaðar er orðatiltækið þannig; „hnífur og skæri eru ekki barnameðfæri“.  „Láttu öxina vera!  Hún er flugbeitt og ekki barna meðfæri“.

Ekki barnanna bestur (orðatiltæki)  Ekki í lagi; sýnir ekki góða hegðun/siði/framkomu.  „Sjálf var ég ekki barnanna best í þeim efnum“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Ekki batnar það (orðatiltæki)  Nú versnar í því; mér líst ekki á þetta.  „Ekki batnar það:  Nú leggja þeir enn einn skattinn á landsbyggðarfólkið“.

Ekki baun (orðtak)  Ekki neitt.  „Ég veit ekki baun um þetta mál“.  „Hún segist ekki botna baun í þessu“.

Ekki bein/uggi úr sjó / Ekki bein að hafa (orðtak)  Ekkert fiskirí; enga veiði að hafa; ekki uggi; ördeyða.  „Í marga áratugi eftir miðja 20. öld fékkst varla bein úr sjó á grunnmiðum í Útvikum.  Nú er þar iðulega gott fiskirí að sumarlagi“.  „Það er alkunnugt að styrjaldarárin 1914-1918 og næstu ár á eftir gekk meiri fiskur en áður inn í firði hér við land, svo víða var uppgripaafli þar sem venjulega hafði ekki fengist bein úr sjó“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Ekki beysinn (orðtak)  Ekki mikill/sterklegur.  „Farðu gætilega; stiginn er gamall og ekki orðin beysinn“!

Ekki beysinn/mikill bógur (orðtak)  Ekki sterklegur/mikill á velli; ekki til stórræðanna, ekki mikill fyrir mann að sjá.  „Ekki sýnist mér hann beysinn bógur, strákgreyið.  En hann getur notast til snúninga“.

Ekki bjóðandi (orðtak)  Ekki boðlegt; óætt.  „Þessi heyruddi er ekki bjóðandi nokkurri skepnu“.

Ekki borið sitt barr (orðtak)  Ekki jafnað sig; ekki náð sér á strik.  „Kitti sagðist aldrei hafa borið sitt barr í spretthlaupum, eftir að hann hrapaði í innanverðum Láturdalnum“.

Ekki borinn ljár í gras (orðtak)  Ekki slegið.  „Það er bara bölvaður búskussaháttur að ekki skuli þar hafa verið borinn ljár í gras á þessum tíma sumars“!

Ekki bólar (enn) á barða (orðatiltæki)  Oft viðhaft þegar mann fór að lengja eftir því t.d. að einhver kæmi úr ferðalagi/smölun.  „Enn bólar ekki á barða; mig fer nú að lengja eftir honum“!.  Sjá senn bryddir á Barða.

Ekki branda úr sjó (orðtak)  Barlómur fiskimanna; dauður sjór; mikið tregfiski; mjög treg veiði. 

Ekki bregst honum brjóstvitið (orðtak)  Hann er óvitlaus; hann er sniðugur.

Ekki burðugur (orðtak)  Ekki sterkur; uppburðarlítill.  „Ég var víst ekki sérlega burðugur þarna... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Ekki búið að bíta úr nálinni með það (orðtak)  Ekki útséð með það enn; ekki öll von úti enn; málinu er ekki lokið.  „Enn er ekki búið að bíta úr nálinni með að pakkinn komi fyrir jól“.

Ekki búið að bíta úr nálinni með það (orðtak)  Það mál er ekki búið; enn er ekki séð fyrir endann á því. 

Ekki deigur dropi (orðtak)  Um vatn, sjó, bensín og annan vökva; ekkert.  „Það var ekki deigur dropi eftir í vatnsstampinum hjá kúnum“!  „Báturinn lak ekki deigum dropa eftir að hann var málaður“.  „Það var ekki deigur dropi af bensíni í tanknum“!

Ekki drepandi niður fæti (orðtak)  Ekki unnt að stíga niður.  „Það er slíkur andskotans netastagur undan Klakknum að þar er ekki drepandi niður fæti“!

Ekki (deigur) dropi úr lofti (orðtak)  Engin rigning/úrkoma.  „Það hefur ekki komið dropi úr lofti það sem af er öllum þessum mánuði“.

Ekki dugir þetta! / Ekki dugir að sitja endalaust! / Ekki dugir svona hangs! / Ekki dugir þessi fjandi! (orðtök)  Viðhaft þegar manni finnst nóg komið af hvíld/samræðum/setu og telur skynsamlegra að halda áfram vinnu.  „Ekki dugir þetta!  Við verðum seint búnir ef við sitjum bara og kjöftum frá okkur allt vit“!

Ekki eftir hafandi (orðtak)  Um það sem sagt er; ekki prenthæft; ekki vert að endurtaka.  „Hann var ekki sáttur við þetta; og það er nú eiginlega ekki eftir hafandi það sem hann lét útúr sér“.

Ekki eiðfært (orðtak)  Ekki útilokað/afskorið; ekki algerlega uppiskroppa/fátækur.  „Það er kannski ekki alveg eiðfært með að komast þetta, en það verður erfitt“.  „Ég er ekki orðinn eiðfær ennþá, ég á líklega nóg salt í þennan afla“.

Ekki ein báran stök (orðtak)  Margfaldar ófarir/hreður.  „Það er ekki ein báran stök:  Fyrst missti ég hrútinn niður í dýið og svo þarf að skjóta þessa afbragðskind niður úr svelti“.

Ekki einasta (orðtak)  Ekki einvörðungu; ekki bara.  „Ekki einasta rakaði hann saman heyið fyrir mig, heldur hjálpaði hann mér líka að koma því heim í hlöðu“!

Ekki einhamur (ortak)  Ótrúlega afkastamikill/sterkur.  „Það er bara eins og maðurinn hafi ekki verið einhamur, eins og afköstin hafa verið í grjóthleðslum með öllu öðru; búskap, sjósókn, uppeldi og þrálátum veikindum“.

Ekki einn einasti (orðtak)  Áhersluorðalag um engan.  „Þarna hafði ekki ein einasta kind komið í allt sumar“.

Ekki einleikið (orðtak)  Furðulegt; með ólíkindum; yfirnáttúrulegt.  „Það er bara ekki einleikið hvað karlhólkurinn er alltaf fiskinn“!  „Þá er það eitt sinn að smalamaður Einars í Kollsvík kom með þær fréttir að forystusauður eða besti sauður Einars hafi fundist fótbrotinn og dauður, svo að ekki geti talist einleikið“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ekki eins leitt og hann lætur (orðtak)  Sjá honum er ekki eins leitt og hann lætur.

Ekki eins og fólk er flest (orðtak)  Ekki venjulegur; sérstakur.  „Hann er nú ekki alveg eins og fólk er flest“.

Ekki einusinni (orðtak)  Jafnvel ekki.  „Þeir áttu ekki einusinni almennilegar skjólflíkur; hvað þá hjálma“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Ekki er að því dár að draga / Ekki er að efa það / Ekki er það að efa/tvíla / Ekki skal ég að því dár draga / Ekki skal ég draga það í efa / Ekki skal ég efast um það / Ekki skal ég tvíla það / Ekki tvíla ég það (orðatiltæki)  Ég efast ekki um að það sé rétt; það er örugglega rétt; áreiðanlega. 

Ekki er að því að spyrja (orðtak)  Það mátti svo sem segja sér það sjálfur/ reikna með því.  Sjá ekki spyr ég að.

Ekki er að því hlæjandi (orðatiltæki)  Það er alvörumál; það er ekki til að hafa í flimtingum. 

Ekki er allt best sem barninu þykir (orðatiltæki)  Spekin vísar til þess að börn hafa ekki alltaf þroska til að meta hvað er þeim fyrir bestu.  Notað stundum um óraunhæfar væntingar fólks almennt.

Ekki er allt búið enn ( orðatiltæki)  Enn er eitthvað eftir.  Mikið notað orðatiltæki.  „Ekki er allt búið enn; nú þurfum við að paufa þessu upp allan dalinn“!

Ekki er allt gull sem glóir (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að sumt reynist innihaldslítið þó það sýnist eftirsóknarvert við fyrstu sýn.  Það á jafnt við um glópagull sem gasprara.

Ekki er allt lofsvert sem heimskir hæla (orðatiltæki)  Skýrir sig sjálft.

Ekki er allt með auði fengið (orðatiltæki)  Ekki er unnt að kaupa allt fyrir peninga; hinn auðugi er ekki alltaf hamingjusamari en sá sem minna á.

Ekki er allt sem sýnist (orðatiltæki)  Fleira býr undir en sést í fljótu bragði; ekki er allt eins og fljótt virðist.

Ekki/sjaldnast/aldrei er bagi að bandi (né byrðarauki að staf) (orðatiltæki)  Auðskilin speki; a.m.k. þeim sem lent hafa í því að vera bandlausir.  Band var dýrmætt fyrr á tíð, og taldist það stórglæpur að stela snæri.  Band kom sér vel í hverkyns verk til sjós og lands.  Síðari liður spekinnar var ekki jafn oft viðhafður en þekktur þó.  Stafur getur komið sér vel á gönguferðum.

Ekki er betra ráð en óráð nema í tíma sé tekið (orðatiltæki)  Úrræði er gagnslaust (óráð) ef það er ekki nýtt nógu snemma.  Sjá ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Ekki er betri músin sem læðist en hin sem stekkur (orðatiltæki)  Oftast viðhaft um hegðan manna; þeir eru oft engu betri sem mjúkmálir eru og þægilegir í viðmóti en hinir sem koma beint að óþægilegum efnum.

Ekki er breyting alltaf til batnaðar (orðatiltæki)  Ekki er einhlítt að betra verði þó breytt sé.  Sjá breyting til batnaðar.

Ekki er eftir það sem af er (orðatiltæki)  Það er af sem af er; það er búið sem búið er.

Ekki er fjandinn iðjulaus (orðatiltæki)  Líkingin er oft notuð þegar manni þykir annar/aðrir vinna að heimskulegu eða skaðlegu verki, eða þegar manni líst ekki á framvindu mála.

Ekki er flas til fagnaðar (orðatiltæki)  Ekki er ráðlegt að flýta sér um of; oft tefur offlýtirinn.

Ekki er gaman að guðspjöllunum þá enginn er í þeim bardaginn (orðatiltæki)  Viðhaft þegar manni finnst frásögn/saga leiðinleg og viðburðasnauð.

Ekki er leiðum að líkjast (orðtak)  Notað þegar maður er borinn saman við þann sem verðugur þykir. 

Ekki er mark að draumum (orðatiltæki)  Viðkvæði þeirra sem trúa lítt draumaráðningum annarra.  Svo eru hinir sem segja að „svo rætist hver draumur sem hann sé ráðinn“.

Ekki er meira vitið en guð gaf (orðatiltæki)  Viðhaft þegar einhver, eða maður sjálfur, gerir mistök í hugsunarleysi.  „Ég var búinn að steingleyma brunninum í túninu og festi traktorinn auðvitað í honum.  Já það er ekki meir vitið en guð gaf“!

Ekki er nema von (orðtak)  Ekki er að undra; eðlilegt er; ekki er við öðru að búast.  „Ekki er nema von að kalt sé í bænum; útihurðin var galopin“!

Ekki er ráð að egna þann sem illa reiðist (orðatiltæki)  Illt er að egna illt skap.  Auðskilin speki, og nokkuð oft notuð. 

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið (orðatiltæki)  Nýta þarf úrræðin meðan hægt er; góð lausn getur orðið óráð ef ekki er strax framkvæmt.  „Nú sýnist mér að sjór sé að ganga svo niður að við ættum að fara að hafa okkur til í róður; ekki er ráð nema í tíma sé tekið, í þessu tíðarfari“.  Sjá ekki er betra ráð en óráð nema í tíma sé tekið.

Ekki er rétt að smíða negluna á undan bátnum (orðatiltæki)  Augljós sannindi sem oft eru rifjuð upp þegar öfugt er farið að hlutunum; orðað á ýmsa vegu.

Ekki er skart að skitnu líni (orðatiltæki)  Óhrein föt eru ekki til prýði. 

Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið (orðatiltæki)  Sýnd veiði en ekki gefin; mál er ekki tillykta leitt þó það sé í vinnslu.  „Ja. það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið góurinn; nú eru eftir öll landverkin“.

Ekki er vanþörf á (orðtak)  Nauðsynlegt er; ekki veitir af; ekki mun af veita.  „Það er ágætt ef þú nennir að þvo fyrir mig bílinn; ekki er vanþörf á“.

Ekki er von á góðu/ góðs að vænta (orðtök)  Búast má við slæmum afleiðingum.  „Ekki er von á góðu þegar flaustrað er svona að hlutunum; það var svosem viðbúið að féð tapaðist þegar ekki var nægur mannskapur“!

Ekki er það (nú)! (orðtak)  Upphrópun, viðhöfð einkum þegar um mikla vandlætingu eða móðgun er að ræða, eða mælanda ofbýður.  Ýmist sjálfstætt eða með lýsandi orði á eftir.  „Er hann kominn á splunkunýjan bíl?  Ekki er það nú bruðlið!  Ég held honum væri skammarnær að grynnka aðeins á skuldunum“!

Ekki er það laust sem skrattinn/fjandinn heldur (orðatiltæki)  Viðhaft þegar eitthvað er fast; þegar erfitt er að ná/losa.  „Ekki er það laust sem skrattinn heldur; þetta er meira en lítil botnfesta sem þú hefur lent í“!

Ekki er það matur músin steikt (né maðkur uppúr rjóma) (orðatiltæki)  Viðhaft þegar matur þykir ekki/varla ætur.  Mús hefur ekki verið talin mannamatur þó steikt sé, né maðkur þó dýft sé í rjóma. 

Ekki er það nú! (orðtak)  Skárra er það nú!  Upphrópun þegar býsnast er yfir einhverju, t.d. stærð eða því sem miður fer.  „Ekki er það nú, stærðin á þessum hrútslána!  Mesta furða að hún skyldi klára sig að þessu“!

Ekki er það varlagott, en engan drepur það (orðatiltæki)  Speki sem viðhöfð er þegar einhvað matarkyns er snætt sem ekki er beinlínis bragðgott.  Mun vera tilvitnun í ákveðna persónu í Rauðasandshreppi, en ekki er farið nánar útí þann uppruna hér.  Orðið „varlagott“ finnst ekki í orðabókum, enda illa útskýranlegt.

Ekki er öll nótt úti enn (orðatiltæki)  Enn er von; ekki er enn útilokað að úr rætist.  „Við skulum leita aðeins lengur; það er ekki öll nótt úti enn að þetta finnist“.

Ekki er öll vitleysan eins (orðatiltæki)  Sumt er vitlausara en annað. Oftast notað í hneykslunartóni „Ekki er nú öll vitleysan eins!  Nú eru fallítt fyrirtæki farin að selja tapið sitt fyrir stórfé“!

Ekki er öllum hólið hent (orðatiltæki)  Mönnum er misjafnlega lagið að hrósa öðrum.  Spekin er stundum viðhöfð þegar manni þykir einhver taka framlagi annars fremur með neikvæðni en hrósi/hóli.

Ekki eru allar ferðir til fjár (orðatiltæki)  Viðhaft þegar eitthver fyrirætlun mistekst eða gæti mistekist.

Ekki eru allir Jónar jafnir (orðatiltæki)  Gerður er mannamunur; gert er upp á milli manna.  Sjá það er ekki sama Jón og séra Jón og sitthvað er Jón og séra Jón.

Ekki eru allir viðhlæjendur vinir (orðatiltæki)  Speki sem varar við því að líta á þá alla sem trausta vini sem virðast kumpánalegir/stimamjúkir.  Úr Hávamálum:  „Ósnotur maður/ hyggur sér alla vega/ viðhlæjendur vini./  Hittki hann finnur/ þótt þeir um hann fáir lesi/ ef hann með snotrum situr“ (Úr Hávamálum).  Heimskur er sá sem telur alla vera sér hliðholla sem brosa við honum.  Hann áttar sig ekki á því, þegar hann er í þeirra hópi, að þeim er mörgum skítsama um hann þegar hann er úr augsýn.

Ekki eru öll kurl komin til grafar enn (orðtak)  Líkingamál; málin eru enn ekki að fullu ljós/skýr/upplýst. Orðtakið er komið frá viðarkolagerð.  Viðurinn var kurlaður í smátt og fluttur til kolagrafarinnar, stundum úr mörgum áttum.  Þó lítið kæmi úr hverjum stað, gat hrúgan orðið all myndarleg þegar öll kurl voru komin til grafar.

Ekki fast í hendi (orðtak)  Læt greiðlega.  „Ef þú vilt kaupa bílgarminn þá er hann mér ekki fastur í hendi“.

Ekki feitan gölt að flá (orðtak)  Ekki mikið að hafa; ekki mikil eftirtekja.  „Þú getur reynt að príla þarna uppí hvappið en ég er hræddur um að þar sé ekki feitan gölt að flá; þar hefur aldrei verið neitt varp“.  Til er orðatiltækið; „ekki er feitan gölt að flá þó fiðrildi sé fellt“ en það heyrðist ekki í Kollsvík á síðari tímum.

Ekki fellur eikin við fyrsta högg (orðatiltæki)  Margar atrennur getur þurft að gera áður en ávinningur fæst fram.  Mikið notuð speki og auðskilin.

Ekki fer allt eins og ætlað er ( orðatiltæki)  Ekki verður niðurstaðan alltaf sú sem menn halda/vilja.

Ekki fisjað saman (orðtak)  Enginn aumingi; töggur í; ekkert blávatn.  „Honum er greinilega ekki fisjað saman“.

Ekki fjarri því / Ekki frá því (orðtak)  Ekki grunlaust um; gæti vel trúað; er líklega.  „Ég er ekki fjarri því að hann sé að byrja að lægja þetta norðanbál“.  „Ég er ekki frá því að saftin sé farin að gerjast“.

Ekki flóarfriður (orðtak)  Enginn friður; sífellt ónæði; veltingur.  „Það hefur ekki verið flóarfriður fyrir túristum og öðrum renningum í allan dag“!  „Við grynnkuðum á okkur; það var ekki orðinn flóarfriður þarna frammi“.

Ekki flugufótur fyrir (orðtak)  Ekki sannleikskorn í; algjör uppspuni/lygi.  „Það er ekki flugufótur fyrir þessu“.

Ekki forsvaranlegt (orðtak)  Ekki verjandi; gengur ekki; kemur ekki til greina.  „Það er ekki forsvaranlegt að haga sér með þessum hætti“!

Ekki frá því (orðtak)  Kemur til greina; held það.  „Ég er ekki frá því að kvefið sé að batna“.  Áh. oft á „frá“.

Ekki frekar/fremur en fyrri daginn (orðtak)  Ekki fremur en vant er.  „Þeir ætla ekki að moka frekar en fyrri daginn“.

Ekki frítt við (orðtak)  Nærri; hér um bil; ekki laust við.  „Það er ekki frítt við að brjóti þarna við skerið“.

Ekki furða / Engin furða (orðtak)  Ekki undarlegt/skrítið.  „Það er ekki furða þó kindur leiti inná túnið þegar girðingin er öll í henglum þarna“.

Ekki fyrir / Ekki gefinn fyrir (orðtak)  Líkar ekki; sækist ekki eftir; ekkert um.  „Ég er ekkert fyrir sælgæti lengur“.  „Ég er fremur lítið gefinn fyrir svona ástarvellur“.

Ekki fyrir að fara (orðtak)  Ekki greinilegt; ekki plássfrekt; sést illa; verður lítið vart við.  „Ekki er nú bróðurkærleikanum fyrir að fara í þessum hótunum“!  „Ekki er þarna gáfunum fyrir að fara; hvernig í ósköpunum datt ykkur þessi vitleysa í hug“?!

Ekki fyrir fjandann sjálfan (orðtak)  Mjög erfitt; nær ómögulegt.  „Það er ekki fyrir fjandan sjálfan að leysa þennan netahnút; réttu mér bara sýslumanninn“!

Ekki fyrir hendi (orðtak)  Ekki tiltækur; ekki til að dreifa; ekki í boði.  „Ég notaði stein til að negla með, fyrst hamar var ekki fyrir hendi“.

Ekki fyrir nokkurn mun / Ekki fyrir nokkra muni (orðtak)  Alls ekki, hvað sem er í boði.  „Þetta var ágætt leikrit; ég hefði ekki fyrir nokkurn mun viljað missa af þessu“.  „Ég má ekki fyrir nokkra muni missa hamarinn“!

Ekki fyrir það (orðtak)  Ekki þessvegna.  „Þessi vetur hefur verið fremur leiðinlegur.  Ekki fyrir það; fé hefur alltaf komist á beit“.

Ekki fyrir það að synja (orðtak)  Ekki unnt að afneita/útiloka.  „Við skulum ekki kuppa af þessum miðum alveg strax; það er ekki fyrir það að synja nema að hann gefi sig til aftur“.

Ekki fyrr en vonum seinna (orðtak)  Of seint; alltof seint; síðar en vonast var eftir.  „Hann kom ekki fyrr en vonum seinna, en þá vorum við eiginlega búnir að þessu“.

Ekki glóra í (orðtak)  Ekki vit í; ekkert ráð; fyrirhyggjuleysi; vitleysa.  „Mér finnst ekki glóra í svona ráðslagi“!

Ekki glæsilegt / Ekki gæfulegt (orðtak)  Ekki gott útlit; slæmar horfur..  „Ekki er það glæsilegt með heilsuna; ég held ég sé með bullandi hita“.  „Ekki er nú aflinn gæfulegur hér; einn þverhúkkaður tittur“!

Ekki gott að segja (um) (orðtak)  Erfitt að fullyrða um; ekki ljóst/tryggt.  „Ekki er gott að segja hvernig farið hefði; hefði ég ekki bent honum á þetta“.

Ekki gott að vita (orðtak)  Verður vart vitað; er ekki augljóst. „Sumsstaðar hafa hey drepið, og er ekki gott að vita hve mikið það er“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1925).  

Ekki gott/mikið við því að gera / Ekki gott viðureignar (orðtök)  Fátt til ráða; erfitt að sporna við/ hindra.  „Vissulega er erfitt að horfa uppá þessa fækkun í sveitinni.  En það er ekki gott við því að gera þegar búið er að kippa grundvellinum undan allri tekjuöflun“.

Ekki grunlaust um (orðtak)  Grunar; renna í grun; ekki fjarri því; ekki frá því.  „Mér er ekki grunlaust um að hann eigi einhvern þátt í þessum hrekkjum“.

Ekki grænan túskilding/eyri (orðtak)  Um lítið verð/ fátækt.  „Þetta kostaði mig ekki grænan túskilding“.  „Hann kvartar yfir því að eiga ekki grænan eyri þessa dagana“.

Ekki gustuk (orðtak)  Ekki vel gert; ekki vert.  „Það er ekki gustuk að ýta við honum alveg strax; hann þarf að hvíla sig“.  „Væri nú ekki gustuk að þið færuð og hjálpuðuð honum við þetta“?

Ekki hálft á við (orðtak)  Lítið í samanburði við; mun minna en.  „Mér fannst ég borða vel af eggjunum, en það var þó ekki hálft á við karlinn, sem lét sig ekki muna um að sporðrenna tíu eggjum“.

Ekki hátt risið á (orðtak)  Ekki borubrattur/hress; heldur niðurlútur.  „Það var ekki ýkja hátt risið á strákunum þegar þeir lúpuðust heim eftir þessar hrakfarir“.

Ekki heiglum hent (orðtak)  Um viðfangsefni/karlmennskuþraut.  „Það er ekki heiglum hent að klífa bandlaus upp á Bæjarvöllinn“.

Ekki heil brú í (einhverju) (orðtak)  Ekkert vit/samhengi í einhverju.  „Mér finnst ekki vera heil brú í þessum máflutningi hjá honum“!

Ekki held ég það!  (orðtak)  Upphrópun sem notuð er sem áhersla á neitun.  Oftast með miklum þunga á „held“.  „Vill hann reka saman á morgun?  Ekki held ég það!  Ég hef alltöðrum hnöppum að hneppa á morgun“!

Ekki hótinu betri (orðtak)  Engu betri; alls ekki betri.  „Slæm var síðasta ríkisstjórn, en mér sýnist þessi ekki vera hótinu betri“!

Ekki hundi út sigandi (orðtak)  Varla fært út úr húsi vegna illviðris eða hellirigningar.

Ekki hundrað í hættunni (orðatiltæki)  Ekki til mikils skaða; ekki mikils misst.  Það væri ágætt ef þú manst eftir að taka með þér hveitipokann, en þó ekki hundrað í hættunni þó það gleymist; ég á nóg enn“.  „Það eru nú ekki hundrað í hættunni þó þessi ríkisstjórn falli; farið hefur fé betra“.  Vísar til fornrar verðeiningar, t.d. jarðarverðmætis, sem metið var í hundruðum ærgilda.  Þar var átt við stórt hundrað; þ.e. 120 fjár.

Ekki í frásögur færandi / Ekki frásagnarvert (orðtak)  Ekki til að hafa orð á; ekki orð á gerandi; telst ekki til tíðinda.  „Það er nú varla í frásögur færandi lengur, þó hér sjáist ernir“.

Ekki hundrað í hættunni (orðtak)  Ekki mikið í hættu; ekki miklu til hætt.  „Það eru nú ekki hundrað í hættunni þó maður vökni dulítið“.  Líklega er þarna vísað til verðgildis; eitt hundrað jafngilti 120 álnum af vaðmáli.

Ekki hvað síst (orðtak)  Ekki verst/síst; að ógleymdu.  „Þeir stóðu sig allir vel; hann ekki hvað síst“.

Ekki hægt að gera svo öllum líki (orðatiltæki)  Sjá erfitt að gera svo öllum líki.

Ekki hægt að sverja fyrir (orðtak)  Ekki hægt að ábyrgjast/fullyrða að ekki sé.  „Það er ekki hægt að sverja fyrir að þetta geti ekki gerst aftur“.

Ekki/varla í húsum hæfur (orðtak)  Getur ekki/varla verið innandyra.  „Farðu nú úr skítagallanum úti!  Þú ert ekki í húsum hæfur eins og útgangurinn á þér er“!

Ekki í kot vísað (orðtak)  Tekið vel á móti gestum; ekki slæmur íverustaður.  „Það er aldrei í kot vísað á þeim bænum; þar svignuðu öll borð undan kræsingum“.

Ekki í rónni (orðtak)  Ekki rólegur; á nálum.  „Ég er ekki í rónni fyrr en búið er að ganga betur frá bátnum“.

Ekki kjaftur/sála/kvikindi/arða/agnarögn/snitti (orðtök)  Enginn; ekki nokkur maður; ekki nokkur skepna; ekki nokkur hlutur.  „Þetta samþykkir ekki nokkur kjaftur“.  „Það var ekki kvikindi að sjá á dalnum“.  „Það var ekki arða af keti eftir á beininu“.  „Það var ekki snitti af þara í fjörunni eftir brimið“.

Ekki (vel) kristilegur (orðtak)  Ekki til eftirbreytni í háttum; illa til fara; með slæman munnsöfnuð; ekki við hæfi.  „Mér finnst þú ekki vel kristilegur í tauinu, greyið mitt“.  „Þetta er kannski ekki kristileg leið“.

Ekki kristilegt tiltæki/athæfi (orðtak)  Ekki háttvíst/kurteislegt að gera.  „Auðvitað var þetta ekki vel kristilegt tiltæki; að hrekkja karlinn þegar hann var svona myrkfælinn, en asskoti var það nú gaman“!

Ekki kvikindi (orðtak)  Engin skepna/kind; enginn fiskur.  „Það hefur ekki kvikindi komið á Stíginn utan við Helluna í allt sumar“.  „Það er ekki kvikindi að hafa á þessum miðum núna“.

Ekki laginu líkt / Ekki nokkru lagi líkt (orðtök)  Ekki líkt neinu; alveg fáránlegt/fráleitt.  „Það er ekki laginu líkt hvað maðurinn getur í sig látið“!  „Nú er maður orðinn svo syfjaður að það er ekki nokkru lagi líkt“.  Einnig engu lagi líkt.

Ekki lamb(ið) að leika sér við (orðtak)  Um andstæðing/aðstæður sem erfitt er að fást við.  „Við þurfum að leita að góðum stað til að komast yfir ána.  Hún er ekkert lamb að leika sér við þegar hún er í vexti“.

Ekki laust sem skrattinn/fjandinn heldur (orðtak)  Ekki auðvelt að ná/fá.  „Ja, það er ekki laust sem skrattinn heldur; mikið andskoti er erfitt að ná þessum bolta úr“!

Ekki laust við (orðtak)  Nærri því; hér um bil; ekki frítt við.  „Það er ekki laust við að manni sé kalt“. 

Ekki láandi (orðtak)  Ekki unnt að /álasa.  „Honum er ekki láandi þó hann neiti að smala með karlinum; það er ekki nokkur hemja hvernig hann lætur við óharðnaða unglinga“.

Ekki leið á löngu (orðtak)  Ekki leið langur tími; ekki þurfti lengi að bíða.  „Ekki leið á löngu þar til heyið var allt komið í hlöðu; enda nægur mannskapurinn“.

Ekki leiðum að líkjast (orðtak)  Ekki slæmur samanburður;heiður að jafnst á við.  „Það má vel vera að ég hafi sama skalla og kóngurinn; það er þá ekki leiðum að líkjast“!

Ekki (nokkur) lifandis leið / Ekki (nokkur) lífsins leið (orðtak)  Alls ekki unnt/hægt; enginn vegur.  „Það var ekki nokkur lifandis leið að fá hann ofan af þessu. 

Ekki ljár í berandi (orðtak)  Um slægjuland; ekki viðlit að slá.  „Þarna er stórgrýtt og varla ljár í berandi“.

Ekki líft /vært (orðtak)  Ekki hægt að una við/vera/lifa af.  „Það er ekki líft hérna fyrir flugnageri“!

Ekki loku fyrir það skotið (orðtak)  Ekki útilokað/vonlaust; möguleiki.  „Ekki get ég lofað þér mörgum mönnum í smalamennsku, en það er ekki alveg loku fyrir það skotið að ég gæti komið sjálfur“. Sjá aftur á móti alveg loku fyrir það skotið.

Ekki maður á milli (orðtak)  Ekki milligöngumaður; ekki sá sem ber boð/ miðlar málum.  „Þeir verða að útkljá þetta sjálfir; ég ætla ekki að vera maður þar á milli“.

Ekki/enginn maður til (orðtak)  Ekki fær um; getur ekki.  „Hann er farinn að eldast og varla maður til að standa í svona erfiðisvinnu“.  „Ég er enn draghaltur og enginn maður til að ganga þessa leið“.

Ekki mark á því takandi Hefur enga þýðingu; markleysa.  „Það er ekkert mark takandi á þessum veðurfræðingum lengur“!

Ekki matur bjóðandi (orðtak)  Matvandur; tilgangslaust að bjóða mat.  „Ef þú vinnur ekki betur að sviðunum þá er þér hreinlega ekki matur bjóðandi“!

Ekki má gleyma garminum honum Katli (orðatiltæki)  Ekki má hafa neinn (einhvern tilgreindan) útundan.  Tilvitnun í leikritið Útilegumennirnir eftir Matthías Jochumsson; átt er við persónuna Ketil skræk.

Ekki má (það) minna vera (orðtak)  Það/þetta er lágmark; hefði þurft meira.  „Ekki má það minna vera; en ég læt það duga“.  „Gakktu í bæinn; ekki má minna vera en að þú þiggir kaffi eftir ferðalagið“.

Ekki má rétta skratanum litlafingur (orðtak)  Sjá það má ekki rétta skrattanum litlafingur þá hirðir hann alla hendina.

Ekki má við svo búið standa (orðtak)  Sjá mega ekki við svo búið standa.

Ekki með fullu viti / Ekki með réttu ráði / Ekki með öllum mjalla / Ekki með fulle fem / Ekki með sjálfum sér / Ekki vel gáfaður (orðtak)  Ruglaður; ekki sjálfrátt; gerir heimskupör.  „Þú ert nú ekki með réttu ráði að gefa svona dýra gjöf“.  „Ertu ekki með öllum mjalla drengur?  Þú ferð ekki á að fara einn í egg í Breiðinn“.

Ekki með hýrri há (orðtak)  Ekki glaður/kátur, fremur niðurdreginn.  „Hann hefur ekki verið með hýrri há síðan hann missti konuna“.

Ekki með nokkru móti (orðtak)  Alls ekki; ekki á nokkurn hátt.  „Ég get ekki með nokkru móti skilið þetta“!

Ekki með öllum mjalla (orðtak)  Ekki heill á geðsmunum; ruglaður; ekki mjög skynsamur.  „Þú ert ekki með öllum mjalla ef þér dettur í hug að róa í svona útliti; hefurðu ekki heyrt spána“?!  Mjalli merkti upphaflega það sem hvítt var, sbr mjöll = snjór, en var síðar notað um skynsemi/rökhugsun.

Ekki meir/meira en orðið er (orðtak)  Ekki til viðbótar; ekki meira.  „Féð ætti að geta kroppað eitthvað ef veðrið versnar ekki meir en orðið er“.

Ekki meir/meira en svo (orðtak)  Tæplega svo/þannig; varla.  „Það er nú ekki meira en svo að ég trúi þessari frásögn; hún er all lygileg“!  „Það var ekki meira en svo að ég kæmist þetta vegna ófærðar“.

Ekki mikið (orðtak)  Alls ekkert; örugglega ekki.  Iðulega notað í máli Kollsvíkinga til að auka neikvæðni.  „Þeir eru ekki mikið að bera dreifbýlið fyrir brjósti, þessir þingmenn“.  „Hann er ekki mikið að lægja þessa stundina“ .  Einnig sem sjálfstætt svar, til að auka neikvæðni í orðum viðmælanda.

Ekki mikið að sjó/veðri (orðtak)  Um sæmilegt/gott sjólag/veður.  „Það er ekki mikið að sjó þennan daginn; nú held ég að við ættum að drífa okkur í róður“.

Ekki mikið fyrir augað (orðtak)  Fremur ljótt.  „Þetta er kannski ekki mikið fyrir augað; en það dugar“.

Ekki mikill bógur / Ekki mikill fyrir sér / Ekki mikill fyrir mann að sjá (orðtök)  Um pasturslítinn mann; ekki mikill fyrir sér.  „Hann gafst upp við að velta steininum af veginum, enda ekki mikill bógur til þess“.  „Maður var heldur ekki mikill bógur að klöngrast kannski með fjóra eða fimm fiska í fanginu til Péturs, sem stakkaði svo fiskinn sjálfur í stæður“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Ekki mikils í misst (orðtak)  Ekki mikill skaði; ekki stórtjón; bættur skaðinn.  „Það var nú ekki mikils í misst þó þessi amlóði dyttiút af þingi“!

Ekki miklu til kostað (orðtak)  Ekki búið að eyða miklu í; ekki miklar fjárhæðir lagðar í.  „Þetta var hvorki vandað né stórt í sniðum, enda ekki miklu til þess kostað“.

Ekki mildur á manninn (orðtak)  Reiður; illilegur; skömmóttur.  „Hann kom askvaðandi þegar við komum í land og var ekki beinlínis mildur á manninn“.

Ekki missir sá sem fyrstur fær (orðatiltæki)  Sá er tryggur með fenginn sem verður á undan öðrum að ná í hann. 

Ekki mulið undir (orðtak)  Ekki búið vel að; ekki dekrað við.  „Ég man eftir henni Gunnu gömlu í Gröf sem var ein af þessum gömlu sívinnandi konum sem ekki hafði verið mulið undir um ævina“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Ekki mun af veita / Ekki veitir af (orðatiltæki)  Ekki er vanþörf á; það mun koma sér vel/ reynast nauðsynlegt.  „Best er að við förum allir fjórir að sækja gemlingana; ekki mun af veita“.  „Fóðurbirgðir eru víðast hvar sæmilegar.  Þó mun mörgum ekki veita af fóðri ef leggði harðan vetur“  (ÍÍ;  Forðagæslubók Rauðasands 1944).  

Ekki munar um einn kepp í sláturtíðinni (orðtak)  Sjá hvað munar um einn kepp í sláturtíðinni og munar um einn kepp í sláturtíðinni.

Ekki möguleiki / Ekki sjónarvegur / Ekki tilsjón / Ekki viðlit (orðtök)  Engar líkur.  „Það var ekki möguleiki að hann fengist í þetta“.  „Ekki var sjónarvegur að róa hann fyrst í stað“.  „Það er engin tilsjón að fara af stað í svona veðri“.  „Það var ekkert viðlit að leggja uppað hleininni fyrir súgi“.  Heitin taka einnig fororðin „enginn“; „nokkur“; einhver og fleiri.  Einungis notað í spurnar- og neitunarsetningum.

Ekki mönnum bjóðandi (orðtak)  Ekki viðeigandi/verjandi/boðlegt að bjóða fólki uppá; ekki ætt; gengur of nærri.  „Brauðið var farið að mygla og var ekki mönnum bjóðandi“.  „Svona meðferð er ekki mönnum bjóðandi“.  Stundum var sett „gestum“ í stað „mönnum“, þegar svo átti við.

Ekki mönnum sinnandi (orðtak)  Getur ekki á heilum sér tekið; í mjóg miklu uppnámi.  „Hann var ekki mönnum sinnandi í marga daga, eftir að hafa misst lúðuna“.

Ekki nándarnærri / Ekki nálægt því (orðtak)  Ekki nálægt; ekki í námunda.  „Þetta var ekki nándarnærri eins mikill afli og í síðustu vitjun“.  „Ég er nálægt því orðinn jafngóður af pestinni“.

Ekki nefnandi á nafn (orðtak)  Kemur víst ekki til greina; ekki til að tala um; ekki við það komandi.  „Hann fullyrðir að hann sé ekki beinbrotinn, og það er ekki nefnandi á nafn að fara á sjúkrahús“.

Ekki neinsstaðar (orðtak)  Hvergi.  „Ég er búinn að leita um alla Hnífana en hrútinn sé ekki neinsstaðar“.

Ekki neittneitt (orðtak)  Ekki neitt; ekki nokkur hlutur.  „Veiðin var afskaplega dræm þarna; eiginlega ekki neittneitt“.

Ekki nema orðin tóm (orðtak)  Innihaldslaus orð; staðlausir stafir; gylliboð; falsloforð. 

Ekki nema skugginn af sjálfum sér (orðtak)  Um mann; ekki nærri því eins líflegur/duglegur/hress/öflugur/ eða minnugur og hann var; ekki svipur hjá sjón.

Ekki nema þaðþó! (orðtak)  Upphrópun í vandlætingu; andsvar við einhverju yfirgengileg hneykslanlegu eða fáránlegu.  „Dastu í fjóshauginn?!  Ekki nema það þó!  Og hvernig í áranum víkur því við?!

Ekki nokkur hemja/stæða (orðtök)  Yfirgengilegt; fráleitt; um of.  „Hættið nú þessum óskapagangi strákar; það er ekki nokkur hemja hvernig þið látið“!   „Við þurfum að fara að moka undan grindunum í miðhúsinu.  Það er ekki nokkur stæða að láta féð liggja lengi á taði“.  Sjá nær engri átt.

Ekki nokkur lifandi maður/sál/sála (orðtök)  Áherslusetning fyrir“enginn“.  „Hvernig á nokkur lifandi maður að geta skilið svona bull“?!  „Þarna var ekki nokkur lifandi sál“.

Ekki nokkur lífsins leið/vegur (orðtök)  Ekki til í dæminu; ómögulegt; engin leið. „Það er ekki nokkur lífsins leið að fá hann til að breyta þessari venju“.

Ekki nokkur mynd (orðtak)  Ekkert lag á; ómögulegt; óviðunandi.  „Kallarðu þetta galta; þetta er engin mynd“!  „Það er ekki nokkur mynd á þessu hjá þér“!

Ekki nokkur skapaður hlutur (orðtak)  Ekkert; alls ekkert.  „Þarna frammi í dalnum var ekki nokkurn skapaðan hlut að sjá, enda stutt síðan þar hafði verið smalað“.  „Það er ekki nokkur skapaður hlutur í þessum kassa“.

Ekki nóg með það (orðtak)  Ekki bara/einungis það; meira.  „Þeir lentu með drekkhlaðinn bátinn; og ekki nóg með það, heldur einnig væna seil af fiski í eftirdragi“.

Ekki ný bóla (orðtak)  Ekkert nýtt; engin nýjung.  „Enn hækka þeir skattana.  Það er nú ekki ný bóla að kjósendur þurfa sjálfir að borga glannaleg kosningaloforð þessara pótintáta“!  Vísar til þess tíma að hver bólusóttarfaraldurinn geisaði eftir annan.  Þeir sem lifðu einn faraldurinn af voru ónæmir fyrir þeirri bólu en berskjaldaðir ef ný bóla; nýr smitvaldur, barst á svæðið.

Ekki nærri (því) (orðtak)  Sjá ekki nálægt/nándarnærri.  „Þetta er ekki nærri því eins mikið og í gær“.

Ekki nærri því komandi (orðtak)  Kemur ekki til greina.  „Ég bauð honum inn í kaffi, en það var ekki nærri því komandi; hann sagðist vera á hraðferð“.  „Það er ekki nærri því komandi að róa í þessu útliti“.

Ekki of góður til  / Ekki of gott (orðtök)  Óþarfi að vorkenna.  „Láttu mig um þetta; ég er ekkert of góður til að ganga sjálfur frá mínum þvotti“.  „Ýttu nú við honum; honum er það ekkert of gott að vakna eins og maður“!

Ekki ofgott / Ekki of gott (orðtak)  Ekki til of mikils mælst/ætlast.  „Þetta er í góðu lagi; mér er það ekki ofgott að halda á sínum eggjakútnum í hvorri hönd, eins og þú ert orðinn klyfjaður“!

Ekki ofsæll af (orðtak)  Ekki of vel haldinn af; ekki ríkur/hamingjusamur af.  „Þeir eru nú ekkert ofsælir af þessum launum; þetta er oft þrælavinna hjá þeim“.

Ekki ofsögum sagt (orðtak) Ekki ofsagt/of mikið sagt.  „Það er ekki ofsögum sagt af gestrisninni á þessum bæ“.

Ekki óáþekkur (orðtak)  Hérumbil eins; svipaður; keimlíkur.  „Hann er ekki óáþekkur hinum í útliti“.

Ekki ógreindur / Ekki svo vitlaus (orðtök)  Sæmilega greindur/viti borinn.  „Hann er ekki ógreindur; skarnið atarna, en óvanur öllum verkurm“.  „Sástu hvernig hrafninn lék á hundinn; hann er ekki svo vitlaus“.

Ekki ónýtt (orðtak)  Ekki einskisvert; varið í.  „Nú hljóp heldur á snærið hjá þér!  Það er ekki ónýtt að fá gefins leiðarvísi um örugga inngöngu í himnaríki hjá þessum Vottum“!  Töluvert notað í slíkum kaldhæðnistóni.

Ekki ósjaldan (orðtak)  Oft; iðulega.  „Það kom ekki ósjaldan fyrir að svo stórt tré rak á fjörur að beita þyrfti vélum til að ná því upp“.

Ekki ósvipaður (orðtak)  Fremur líkur; ber svip af.  „Mér finnst nýi bíllinn ekki ósvipaður þeim gamla í akstri“.

Ekki rasa fyrir/um ráð fram (orðtak)  Ekki fara of geist; ekki gera neitt í fljótfærni.  „Bíddu nú hægur; engan æsing!  Viðskulum nú ekki rasa um ráð fram; hér er mikilvægt að vanda til verka“.

Ekki rétt /vel gott (orðtak)  Ekki með öllu gott.  „Það er ekki rétt gott ef hann frýs nú ofan í þetta krapasull“.  „Ekki er það nú vel gott þetta kaffi; en það má alveg sulla því í sig“.

Ekki sannleikanum samkvæmt (orðtak)  Ekki rétt/satt; lygi; hálfsannleikur.  „Ekki er ég viss um að þetta sé alveg sannleikanum samkvæmt; en sagan er góð engu að síður.

Ekki seinn á sér (orðtak)  Ekki seinn; tafði ekki.  „Dálítil rifa var við hlerann, og kindin var ekki sein á sér að smokra sér út“.

Ekki seinna vænna (orðtak)  Kominn tími til; orðið tímabært; full þörf á.  „Hann er orðinn fjári ljótur til loftsins; það er ekki seinna vænna að fara að raka upp“!

Ekki sem skyldi (orðtak)  Ekki eins og til er ætlast; ekki eins og búast mætti við.  „Einhversstaðar er stífla í súgþurrkuninni; hún virkar ekki sem skyldi“.

Ekki sem verstur (orðtak)  Ekki mjög slæmur.  „Strákurinn er ekki sem verstur; hann lét sig ekki muna um að skoppa fyrir tvævetluna þegar við héldum að hún væri alveg töpuð“.

Ekki síst (orðtak)  Ekki lakast; ekki síðast í röðinni.  „Ég vil ekki síst þakka okkar ágætu gestgjöfum…“.

Ekki sjálfrátt (orðtak)  Ekki með vald yfir sínum gerðum.  „Stundum finnst mér að honum sé ekki sjálfrátt með bölvaða vitleysuna í sér“!  Stýrir alltaf þágufalli nafnorðsins á undan. 

Ekki sjón að sjá (orðtak)  Ekki fallegt/glæsilegt að sjá.  „Það var ekki sjón að sjá hann þegar hann skreiddist uppúr skítahaugnum“.

Ekki skal gráta Björn bónda (heldur safna liði) (orðatiltæki)  Ekki er vert að sýta skaðann heldur vinna gegn því sem olli honum.  Upprunalega haft eftir Ólöfu ríku þegar enskir ribbaldar höfðu drepið Björn Þorleifsson mann hennar, í Rifi árið 1467.  Þau hjón voru meðal merkra forfeðra Kollsvíkurættar.

Ekki skotaskuld úr (orðtak)  Ekki nein fyrirhöfn af; ekkert mál.  „Honum varð ekki skotaskuld úr að flá lambskrokkinn á einni mínútu“.

Ekki slorlegur (orðtak)  Ekki dónalegur/amalegur/slæmur kostagripur; prýðilegur.  „Þetta er ekki slorlegur jeppi sem hann hefur fengið sér“.

Ekki/ekkert smálítið (orðtak)  Ekki lítið; frekar mikið.  „Þarna var ekki smálítið af berjum“.

Ekki spor (orðtak)  Ekki neitt; engan vott; engin ummerki; hvorki tangur né tetur.  „Hann sagði að það væri bátur að koma fyrir Blakkinn, en ég sá ekki spor þegar ég gáði“.

Ekki spyr/spur ég að! (orðtak)  Upphrópun; Það er aldeilis; það er eins og vanalega.  „Kemurðu enn blautur úr Ánni; ekki spyr ég að“!  „Það er nú ekki að spyrja að ræktarseminni í honum, karlanganum“.

Ekki spönn frá rassi (orðtak)  Ekki mikil/nein vegalengd; ekki langt.  „Maður sér ekki sponn frá rassi í þessu skítakófi“!  „Hann er hálf fótlama og segist ekki komast spönn frá rassi“.

Ekki stakt kvikindi (orðtak)  Engin skepna; enginn fiskur.  „Ég fór um alla dalina og niður á Stíg, en sá ekki stakt kvikindi“.  „Þarna settum við í góðan fisk í gær, en nú var þar ekki stakt kvikindi að fá“.

Ekki sterkur á svellinu (orðtak)  Ekki fróðurum/ fær í.  „Ég er ekki sterkur á svellinu í þessum serimoníum“.

Ekki stingandi strá (orðtak)  Enginn gróður.  „Það var ekki orðið stingandi strá eftir í sveltinu“.

Ekki stóð á löngu (orðtak)  Ekki leið á löngu (sjá þar).

Ekki stundinni lengur (orðtak)  Alls ekki lengur.  „Á þessum aldri man maður ekkert stundinni lengur“!

Ekki/varla (nema) svipur hjá sjón (orðtak)  Ekki með fyrri reisn/myndarleik/glæsibrag; ekki eins og var/ gæti orðið; mikið lakari/minni/ljótari/færri en áður var.  „Múkkavarp í Blakknum er núorðið ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem var, t.d. á árunum 1960-1980“.   Einstaka sinnum haft; „ekki nema svipur hjá sjón“, en orðið „nema“ á varla við.  Sjaldnar; allt er svipur hjá sjón.

Ekki svo (orðtak)  Oft notað sjálfstætt sem neitandi og mildandi andsvar.  „Meiddirðu þig ekki“?  „Ekki svo“.  Einnig sem upphaf á neitandi og mildandi setningu, t.d. ekki svo mikið.

Ekki svo að skilja (orðtak)  Ekki þar með sagt; ekki meiningin; ber ekki að skilja þannig.  „Það er þó ekki svo að skilja að mér þyki gaman að þessu, en stundum verður að gera fleira en gott þykir“.

Ekki svo glatt (orðtak)  Ekki auðveldlega.  „Annars man ég ekki svo glatt eftir matnum, því hugurinn var við annað“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Ekki svo (mjög/mikið) / Ekki svo orð sé á gerandi  (hafandi) / Ekki svo neinu/nokkru nemi (orðtak)  Ekkert að ráði; mjög lítið.  „Það er kominn einhver austur í kjalsogið, en ekki svo orð sé á gerandi.  Ég eys þetta á landstíminu“.

Ekki svo mikið sem (orðtak) Um ýkjukennda lýsingu á því sem lítið er.  „Það var ekki svo mikið sem arða eftir af keti á beinunum þegar hann hafði unnið að þeim“!  „Það var enginn reki; ekki svo mikið sem tannstöngull“!  „Við fengum ekki svo mikið sem eina bröndu“!

Ekki (vel) sýnt um (orðtak)  Ekki gætinn/laginn við; hefur ekki hugsun á/ tilfinningu fyrir.  „Hann er duglegur og besta skinn, greyið atarna, en honum er ekki mikið sýnt um hreinlætið“.

Ekki taka af ráðin / Ekki taka framfyrir hendurnar á (orðtak)  Ekki gera gegn vilja; ekki þykjast vita betur.  „Mér líst ekki vel á útlitið, en ekki ætla ég að taka af þér ráðin ef þú vilt róa“.  „Hann vildi ekki taka framfyrir hendurnar á þeim með þetta; sagði að sér kæmi þetta svosem ekkert við“.

Ekki tekið út með (sitjandi) sældinni (orðtak)  Ekki aðgengilegt/þægilegt að eiga við; fæst ekki fyrirhafnarlaust.  „Það er ekki tekið út með sældinni að ná þessum rollurössum“!

Ekki teljandi (orðtak)  Ekki verulega; ekki mikið.  „Það er ekki teljandi úrkoma“.

Ekki til að dreifa (orðtak)  Ekki fyrir hendi; ekki tiltækt/mögulegt.  „Mikið vildi ég að ífæran hefði verið þarna við hendina, en því var ekki til að dreifa“.  „Hann hlýtur að hafa gert þetta; það engum öðrum til að dreifa“.

Ekki til að hafa orð á (orðtak)  Ekki í frásögur færandi; ekki frásagnarvert.  „Jú, ég náði í nokkra eggjakoppa þarna úti í Undirhlíðarflesinu, en það er nú varla til að hafa orð á“.

Ekki til að meina / Ekki til að nefna / Ekki til að tala um (orðtök)  Ekki við það komandi; kemur ekki til greina; alls ekki. „Það er ekki til að meina að þessari gimbur verði slátrað“.   „Kötturinn lá eins og  klessa í stólnum; það var ekki til að nefna að hann fengist til að hnika sér svo ég gæti sest“.  „Það var ekki til að tala um að hann fengist til að gista“.

Ekki til að spauga með (orðtak)  Ekki aðhlátursefni; ekkert grín.  „Ekki hefur þó úthafið verið til að spauga með, og býsna löng hefur sjóferðin verið frá Hvallátrum á tímum segls og ára“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).

Ekki til eftirbreytni (orðtak)  Engin fyrirmynd; ekki fordæmisgefandi.  „Veit ég vel að hann ruddi í sig tíu múkkaeggjum í einni máltíð, en það er nú kannski ekki til neinnar eftirbreytni“.

Ekki til fagnaðar (orðtak)  Ekki ágægjuefni.  „Það er nú ekki til fagnaðar að fá hlýjukast á þessum tíma vetrar“.

Ekki til í dæminu (orðtak)  Alls ekki; ekki með nokkru móti.  „Þið farið ekki í hornabúið á sparifötunum strákar; það er ekki til í dæminu“!

Ekki til (eins né) neins (orðtak)  Hefur engan tilgang; þýðingarlaust.  „Það er ekki til neins að leita að kindunum núna; þú sæir þær ekki í myrkrinu þó þær væru við nefið á þér“!

Ekki til reynt (orðtak)  Ekki búið að reyna; ekki reynt.  „Við skulum skaka örlítið lengur á þessu; það er ekki alveg til reynt þó hann hlaupi ekki á um leið og rennt er færi“.

Ekki til setunnar boðið (orðtak)  Ekki vært hægt að sitja lengur.  „Var nú ekki til setu boðið og tekið að seglbúa; sem óðar var búið, og sigling hafin“  (ÖG; Þokuróður). 

Ekki til skiptanna (orðtak)  Ekki svo mikið að taki því að skipta; varla skiptanlegt.  „Það er best að þú fáir lúðuna sjálfur; enda er þetta lok ekki til skiptanna“.

Ekki til stórræðanna (orðtak)  Ekki líklegur til mikilla átaka/afkasta.  Notað t.d. um mann sem þykir væskilslegur til vinnu.  „Mér þótti hann ekki til stórræðanna“.

Ekki (nokkur) tilsjón / Engin tilsjón (orðtök)  Ekki nokkur kostur; ekkert vit í; ekki viðlit.  „Við fórum uppundir Bæjarvöllinn, en það var ekki nokkur tilsjón að leggja uppað fyrir brimi“.  „Það er engin tilsjón að smala af nokkru viti í svona niðaþoku“.

Ekki tiltökumál (orðtak)  Ekki sérstakt/merkilegt.  „Ekki þótti sérstakt tiltökumál fyrir fullfrískan karlmann að leggja á bakið fimmtíu kílóa byrði í slíkum ferðum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Ekki tjaldað til einnar nætur (orðtak)  Ekki gert til bráðabirgða; vandað til verka.  „Með þessu mannvirki var greinilega ekki tjaldað til einnar nætur“.

Ekki tjáir að binda um banasárið / Seint er að binda um banasárið (orðatiltæki)  Tilgangslaust er að binda um sár þegar hinn særði er dáinn af þess völdum.  Notað í ýmiskonar líkingum.

Ekki tjáir/tjóar að deila við dómarann (orðatiltæki)  Ekki hefur neina þýðingu að jagast við þann sem dæmir og hefur til þess vald.  Einkum átti þetta við fyrr á tíð, meðan réttur almúgamannsins var bágborinn.  Nú á tímum er lítill endir á kæruleiðum, og hægt að efast um alla dóma.

Ekki tjáir/tjóar að fárast/fást/sakast um orðinn hlut (orðatiltæki)  Tilgangslaust er að fárast yfir því sem orðið er.

Ekki tjáir/tjóar/þýðir að gráta orðinn hlut (orðatiltæki)  Ekki er til neins að sýta það sem er búið og gert; til einskis er að iðrast.  „Við skulum ekki dvelja neitt við þetta; ekki þýðir að gráta orðinn hlut“!

Ekki tjáir/tjóar um það að rjá / Ekki þýðir um það að fást / Ekki ræðir víst um það (orðtak)  Ekkiþýðir að fást um það; tilgangslaust er að mótmæla/ræða.

Ekki tjóar þetta (orðtak)  Ekki þýðir þetta; þetta er tilgangslaust.  „Ekki tjóar þetta; við þurfum að drífa okkur“.

Ekki (alveg) trútt um (orðtak)  Ekki laust við; ekki frítt við; ekki útilokað.  „Mér þykir ekki trútt um að þeir hafi gleymt að skrúfa fyrir vatnið“.

Ekki/varla túskildingsvirði (orðtak)  Með lítið sem ekkert verðgildi; einskis virði.  „Það er einkennileg þróun að fitan af sláturfénu, sem eitt sinn var eftirsóttust, er varla túskildingsvirði í dag og haugamatur“.  Túskildingur var mynt sem gjaldgeng var hérlendis um tíma, en ekki verðmæt.

Ekki tvíla ég það (orðtak)  Ég efast ekki um það. Notað sem andsvar til samþykkis og áherslu, en einnig inni í setningu: „Ég tvíla það ekki að hún Grána verður komin út á Bjarg daginn eftir að hún fer útaf“.

Ekki tök á (orðtak)  Ekki mögulegt; ekki tiltækt. „Ég hafði ekki tök á að hjálpa þeim“. 

Ekki uggi (úr sjó) / Ekki ugga að fá/hafa (orðtak)  Enginn fiskur; ekki bein úr sjó.  „Við verðum að kippa eitthvað anna; hér ekki ugga að hafa“.  „Í tregfiski kom fyrst í ljós munurinn á aflaklóm og fiskifælum.  Þá voru góðir dráttarmenn alltaf að draga öðru hvoru þó aðrir fengju ekki nokkurn ugga“  (GG; Skútuöldin).  

Ekki ugglaust um (orðtak)  Hræddur/smeykur um; óttast dálítið.  „Heimafólki var ekki ugglaust um að þeir hefðu villst á fjallinu“.

Ekki um að ræða/tala / Ekki til að dreifa (orðtak)  Ekki í boði; ekki tiltækt; ekki tök á.  „Það var ekki um annað að ræða en koma sér í land“.  „Ekki var um neina áætlunar- eða skipsferð að ræða frá Þingeyri til Patró fyrir jólin“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).  „Ætli ég verði ekki að ganga í þetta; það er víst ekki öðrum til að dreifa“.

Ekki um annað að gera/ræða (orðtak)  Óhjákvæmilegt; ekku undan því vikist.  „Eftir að við misstum hnífinn fyrir borð var ekki um annað að gera en halda í land.  Engum hafði andast í brjóst að hafa á sér vasahníf“!  „Ég held að það sé ekki um annað að gera; eða þá að koma sér í land“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „En þá var ekkert um annað að ræða en fara í land“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Ekki um auðugan garð að gresja (orðtak)  Ekki mikið úrval; ekki um marga kosti að velja; fátæklegt.  Til mun vera orðatiltækið „gott er um auðugan garð að gresja“, en það heyrðist ekki vestra í seinni tíð.

Ekki um flúið / Ekki umflúið / Ekki undan því vikist/komist (orðtök)  Ekki unnt að komast hjá; óhjákvæmilegt; þarf að gerast.  „Það verður víst að harka sér í þetta; það verður víst ekki um flúið“.  „Ég er hræddur um að ekki verði lengur undan því vikist að lóga hrútnum; hann er orðinn alveg gagnslaus“.

Ekki um gott að gera (orðtak)  Ekki mikið við því að gera; fátt til ráða.  „Þetta er bölvað ástand, en það er víst ekki mikið um gott að gera“.

Ekki um það að fást/rjá (orðtak)  Ekki um það að deila; ekki í móti mælt.  „Ekki þýðir um það að fást þó rigni“.  „Það er víst ekkert um það að rjá; að maður verður að fórna þessum ágætisþurrki í fundahöld“!

Ekki upp á marga fiska (orðtak)  Ekki mikils virði.  Fiskur var áður verðmætiseining og jafngilti 1 fiskur  ½ alin, eða 1/240 úr hundraði.

Ekki uppá það besta (orðtak)  Ekki vel/mjög gott.  „Heilsan hefur ekki verið uppá það besta síðustu dagana“.

Ekki upp í nös á ketti (orðtak)  Um lítinn mat/afla.  „Lítið var það í þessum róðri; ekki upp í nös á ketti“!

Ekki úr að aka (orðtak)  Verður ekki hnikað; er staðfastur.  „Ég hef aldrei vitað svona bévítans sauðþráa; það er bara hreint ekki úr að aka með karlhólkinn“!  Líklega hefur síðasta orðið verið áður „oka“ en breyst í „aka“ með hljóðskiptum.  Merkingin verður þá að taka ok af; létta oki af.

Ekki úr háum söðli að detta (orðtak)  Um atvik sem í raun veldur minni skaða en virst gæti.  Einkum notað varðandi glatað álit, virðingu eða stöðu sem hafði ekki mikið innihald fyrir.  „Það er nú ekki úr háum söðli að detta þó ég hafi ekki verið kosinn í stjórn félagsins þetta árið“.

Ekki úr miklu að spila (orðtak)  Ekki mikil fjárráð; ekki mikið milli handanna.  „Og ekki var alltaf úr miklu að spila, hvorki til matar né fatagerðar“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Ekki úr vegi (orðtak)  Ekki ómögulegt /fráleitt.  „Nú væri ekki úr vegi að fara að huga að nestinu“.  Vegur merkir þarna leið. 

Ekki úrhættis (orðtak)  Ekki um seinan; ekki tapað.  „Það er nú ekki alveg úrhættis með að við náum heyinu inn fyrir rigninguna“.  „Það verður erfitt að ná ánni úr þessu svelti, en ekki þó alveg úrhættis“.

Ekki útséð með (orðtak)  Ekki endanlega ljóst með; lokaákvörðun vantar; það gæti bjargast.  „Það er nú ekki útséð með að af þessu geti orðið, þó enn sé tvísýnt um það“.

Ekki vandara en öðrum (orðtak)  Ekki erfiðara í framkvæmd en öðrum.  „Honum ætti ekki að vera það vndara en öðrum að sækja sitt fé“!  „Mér er það ekki vndara en öðrum að þrífa eftir mig“.

Ekki vandur að meðölum (orðtak)  Um þann sem beitir harkalegum aðferðum. 

Ekki vant um (orðtak)  Ekki vandlátur með.  „Mér er ekkert vant um það þó ég vökni örlítið; maður getur haft fataskipti þegar heim kemur“.

Ekki vantar sögurnar (orðatiltæki)  Viðkvæði þegar manni þykir nóg um slúður/söguburð annarra.

Ekki vantar það (orðtak)  Áherslusetning sem oft er notuð í enda annarrar; ekki síst þegar lýst er kostum manneskju, skepnu eða hlutar.  „Mér líkar ekki hornalagið á þessum hrút; en hann er fallegur á skrokkinn, ekki vantar það“!  „Hún er svosem nógu lagleg stelpan; ekki vantar það“!

Ekki vanþörf á (orðtak)  Mikil/full þörf á.  „Það væri kannski ekki vanþörf á að taka örlítið til hérna“.

Ekki veit ég! (orðtak)  Ég veit það ekki; mér er ekki kunnugt um það.  Oft viðhaft fremur en annað þegar menn fría sig vitneskju. 

Ekki veitir af / Ekki mun af veita (orðtök)  Ekki er vanþörf á; brýn þörf er á.  „Þú ættir nú að þvo af þér mesta skítinn áður en þú ferð á fundinn.  Ekki veitir af eftir allt þetta at“.

Ekki velgott (orðtak)  Ekki til fyrirmyndar; ekki það sem æskilegast væri.  „Ekki er það velgott, en engan drepur það!  Ætli það verði ekki að sulla þessu ropvatni í sig frekar en að drepast  úr þorsta“.

Ekki verandi (orðtak)  Ekki vært.  „Það er ekki verandi úti í þessum andskotans kuldaþræsingi“.  „Við drífum okkur í land; það er ekki verandi að netum í þessum veltingi“.  „Það er ekki verandi inni í húsi í svona blíðu“.

Ekki verður á allt kosið (orðatiltæki)  Ekki er hægt að ætlast til þess að fá allt sem maður óskar sér; ekki verður allt fullkomið.  Sjá það verður ekki á allt kosið.

Ekki verður bókvit í askana látið ( orðatiltæki)  Sjá bókvitið verður ekki í askana látið.

Ekki verður bæði sleppt og haldið ( orðatiltæki)  Maður getur ekki bæði látið frá sér og átt áfram.  „Annaðhvort sel ég honum hrútinn eða nota hann sjálfur; það verður ekki bæði sleppt og haldið“.

Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið (orðatiltæki)  Speki sem oft er viðhöfð.  Hún er líkast til mjög forn, þar sem hún vísar til forlagatrúar; að öllum se ásköpuð ævilengd við fæðingu og því verði ekki breytt.  Því sé hvorki hægt að drepa þann sem ekki er feigur né lengja líf þess sem áskapað er að skuli farast.  Kollsvíkingar hafa brugðið þessu fyrir sig; einkanlega þá fyrri liðnum stökum.  „Er hann þá enn dottinn í það; ja, því segi ég það; ekki verður feigum forðað“.  Sjá örlög/forlög.

Ekki verður synt fyrir öll sker (orðtak)  Ekki verður við öllu séð; ekki verður öllum markmiðum náð/ séð við öllum vandamálum/þörfum.  „Ljóst er að ekki verður synt fyrir öll sker í þessu máli“.

Ekki verður við öllu séð / Ekki verður fyrir allt/ öll nesin girt (orðatiltæki)  Ekki er unnt að bregðast við öllum vandamálum/þörfum; ekki er unnt að bjarga/verjast öllu;.  „Það var bölvað að missa þessar tvævetlur frammi í víkinni, en ekki verður við öllu séð“.  Orðtakið „ekki verður fyrir öll nesin girt“ vísar líklega til þess að erfitt er að girða svo fyrir öll annes að ekki komist sauðfé, t.d. um fjöru, skriður eða ganga.  Þetta er þó unnt bæði í Breiðnum og Blakknum, þó þar geti einnig verið greiðfært mönnum og fénaði.

Ekki verjandi (orðtak)  Ekki forsvaranlegt; gengur ekki; kemur ekki til greina.  „Það er ekki verjandi að leggja svo mikið fé í þennan bílskrjóð“.

Ekki vert (orðtak)  Ekki rétt; ekki gustuk; ekki verjandi; ekki þess virði.  „Hann var steinsofandi.  Mér fannst ekki vert að vera að vekja hann fyrir þetta, heldur fór í það sjálfur“.  „Það er ekki vert að stríða honum með þessu; hann er óskaplega viðkvæmur í þessum efnum“.  „Heldurðu að ekki sé vert að sigla aðeins dýpra og sjá hvort þar er viljugri fiskur“?

Ekki við (því) að búast (orðtak)  Ekki hægt að reikna með/ búast við; ekki að vænta.  „En ekki gekk bíldruslan vel undir Þórði; enda kannske ekki við að búast“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Ekki við aðra að sakast / Ekki við neinn að sakast nema sjálfan sig (orðtök)  Ekki unnt að kenna neinum öðrum um en sjálgum sér.

Ekki við bjargandi / Ekki vorkennandi (orðtak)  Gjörsamlega glataður; heillum horfinn.  „Ykkur er nú ekki við bjargandi; fóruð þið virkilega hníflausir á sjó“?!  „Svona mönnum er varla vorkennandi“!

Ekki við eina fjölina felldur (orðtak)  Oftast notað um manneskju sem er laus í rásinni/ laus á kostunum í ástamálum.  En einnig um þann sem skiptir gjarnan um skoðun eða er hollur tvennu í einu, t.d. í pólitík.

Ekki við það komandi (orðtak)  Kemur ekki til greina; alveg synjað.  „Ég bauð honum aðstoð, en það var ekki við það komandi“.  „Það var ekki við það komandi að hann vildi gista yfir nóttina“.

Ekki við öllu séð (orðtak)  Ekki hægt að stjórna öllu; ekki unnt að koma í veg fyrir allt sem miður getur farið.  „Vissulega hefði verið betra ef byssan hefði verið með í för; en það verður ekki við öllu séð.  Maður býst kannski ekki við að stíga ofaná tófu við hvert fótmál í eggjaferðum“!

Ekki viðlit (orðtak)  Útilokað; alls ekki framkvæmanlegt.  „Það er ekki viðlit að hreyfa heyinu í þessu veðri“.

Ekki vill svo til verkast að ….?  (orðtak)  Gjarnan byrjun á varlega orðaðri spurningu.  „Ekki vill svo til verkast að þú hafir séð hvar ég lagði hrífuna“?

Ekki vinnandi vegur/verk (orðtak)  Ekki framkvæmanlegt.  „Við skulum klára að draga netin og fara svo uppundir og hreinsa; það er ekki nokkur vinnandi vegur að hanga á þessu í svona veltingi“.

Ekki vitað fyrr en á reynir (orðtak)  Ekki fitað fyrirfram; óimögulegt að spá fyrir um.  „Það veit enginn fyrr en á reynir hvurt þetta er yfirhöfuð framkvæmanlegt“.

Ekki vonum fyrr (orðtak)  Ekki fyrr en vænta mátti.  „Hann ætlar ekki að koma vonum fyrr“!

Ekki vænti ég… (orðtak)  Byrjun á setningu þar sem spurning er gerð að fullyrðingu.  „Ekki vænti ég að þú hafir orðið var við kindurnar sem sluppu í gær“?  „Ekki vænti ég að þið hafið séð gleraugun mín einhversstaðar á glámbekk“?

Ekki völ á öðru betra (orðtak)  Ekki annars kostar völ.

Ekki þar fyrir / Ekki þar hjá (orðtak)  Ekki svo að skilja; ekki af þeirri ástæðu.  „Heldur gekk honum illa í skóla.  Ekki þar fyrir að hann gæti ekki lært, heldur var hann laginn við að komast upp á kant við kennarana“.

Ekki þar með sagt (orðtak)  Ekki svo að skilja; ekki meiningin.  „Þó ég hafi leyft ykkur að fara út á Þúfustekk var ekki þar með sagt að ég hefði leyft ykkur að klórast niður í Undirhlíðarflesið“!

Ekki þarf að gefa bakarabarni brauð (orðatiltæki)  Auðskilið máltæki, en notað sem líking um hvaðeina, líkt og orðtakið; bera í bakkafullan lækinn.  Sjá eins og að gefa bakarabarni brauð.

Ekki þarf refnum ráð að kenna (né selnum að synda) (orðatiltæki)  Notað um ráðagóðan/slægvitran mann; ekki þarf að ráðleggja honum neitt.  Síðari liðurinn heyrðist ekki notaður á seinni tíð. 

Ekki þarf um að binda (orðtak)  Um andlát.  „Ekki hefði þurft um að binda ef steinninn hefði komið niður á sylluna sem við stóðum á“.  Merkingin er sú að um seinan sé að gera að sárum látins manns.

Ekki þarf um heilt að binda (orðatiltæki)  Óþarfi er að lagfæra það sem ekki hefur laskast; ekki þarf að gera að sárum þeirra sem ekki leggja sig í hættu.

Ekki þarf um að spyrja (orðtak)  Augljóst er; liggur í augum uppi. 

Ekki þarf (frekari) vitnanna við (orðtak)  Ekki þarf að efast lengur; fleiri sannanir þarf ekki.  „Féð slapp og þið eruð berjabláir um kjammana!  Ég held að það þurfi ekkert frekari vitnanna við“!

Ekki þesslegur að (orðtak)  Ekki útlit fyrir að muni/myndi.  „Mér fannst hann ekki þesslegur, þegar ég gáði út, að hann færi að rigna alveg strax“.  „Hann var ekki þesslegur á svipinn að hann honum væri hlátur í huga“.

Ekki þorandi (orðtak)  Ekki vert að hætta á; ekki áhættunnar virði.  „Það er ekki þorandi að leggja að hleininni í þessum öldugangi“.

Ekki þurr þráður (orðtak)  Um það að vera gegnvotur/alvotur.  „Við lentum í þvílíkri hellirigningu alla leiðina að það var ekki þurr þráður á okkur þegar heim kom“.

Ekki þverfótað fyrir (orðtak)  Um fjölda; urmull; ekki unnt að komast áfram fyrir.  „Ætli það sé alveg búið ð friða tófuna?  Það verður ekki þverfótað fyrir þessu neinsstaðar, og öll fuglabjörg eru að ónýtast“!

Ekki öngvitagjarnt (orðtak)  Bregður vanalega ekki mikið; fellur ekki í yfirlið af litlu tilefni.  „Þetta hefur eflaust verið mikið áfall fyrir hana; það vill til að henni er ekki öngvitagjarnt“. 

Ekki öll kurl komin til grafar (orðtak)  Ekki allt ljóst/upplýst enn; liggur ekki allt fyrir.  „Svo virðist að í þessu máli séu ekki öll kurl komin til grafar enn“.  Vísar til viðarkolagerðar fyrr á öldum.  Öll viðarkurl þurftu að vera komin til kolagrafarinnar áður en kolagerðin hófst.

Ekki öll nótt úti enn (orðtak)  Ekki enn vonlaust; enn má vænta.  „Það er ekkert að marka þó hann hlaupi ekki á snærið áður en sakkan kemst í botn!  Við verðum að þreyja fram á snúninginn; það er ekki öll nótt úti enn“.  Orðtakið á líklega rætur í hinni fornu drauga- eða tröllatrú.  Tröllin eru á ferli á næturna en verða að steini með morgninum.  Meðan nótt er ekki öll úti eiga þau von um að lifa af.  Sömuleiðis munu draugar vera uppá sitt besta að nóttu til.

Ekki öll sagan búin (enn) (orðtak)  Enn er nokkuð frásagnarvert; annað á eftir að gerast/fylgja.  „Þetta var semsagt heljarmikið basl; en það var ekki öll sagan búin enn…“.  „Það er ekki öll sagan búin þó ekkin séu komin hingað upp í Byrgið:  Nú er eftir að puða þeim upp allan dalinn og upp í bíl“!

Ekki öllum gefið (orðtak)  Ekki auðvelt fyrir alla; ekki hafa allir þann hæfileika.  „Það er ekki öllum gefið að hugsa til sín tófuna“.

Ekki örgrannt um (orðtak)  Grunar; þykir líklegt.  „Ég hef frá litlu að segja um vegagerð. Þó er nú ekki örgrannt að ég hafi borið við að vinna við slíkt; þ.e.a.s. ég átti að heita ráðskona fáar vikur, sumarið 1945, þá fimmtán ára“  (SG;  Vegavinna; Þjhd.Þjms). 

Ekkisen / Ekkisens (ao)  Áhersluorð, notað til að gefa meðfyljandi orði aukið vægi.  „Það voru bölvuð ekkisen vandræði að ná ekki þessum kindum uppi á Sanddalnum“.  „Béans ekkises árátta er þetta á kúnni að æða uppá Hjalla“.

Ekkí! (upphrópun)  Notað til að lýsa vanþóknun.  „Ekkí; byrjar hann enn með vitleysuna“. (Áh. á síðara atkv.)

Ekkjumaður (n, kk)  Ekkill; maður sem misst hefur konu sína.  Ekkjumaður var töluvert notað orð áðurfyrr, en nú heyrist vart annað en orðið ekkill í þessu sambandi.

Ekla (n, kvk)  Skortur; hörgull; vöntun.  „Það virðist ekki vera nein ekla á þessum ríkisstarfsmönnum“.

Eld... (áhersluforskeyti)  Forskeyti, notað til að gefa lýsingarorði aukið vægi.  „Þetta er eldgamall siður“.  „Ég verð eldsnöggur“.  „Hann er eldklár í þessu fagi“.

Elda (s) A.  Birta að degi með morgunroða.  „ Það var farið að elda á austurloftið þegar við lentum...“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Það er farið að elda að degi; mál að drattast á fætur“.  B.  Matreiða. 

Elda af morgni (orðtak)  Birta af degi.  „Það var farið að elda af morgni þegar við komum upp af Stígnum eftir þessa eggjaferð“.

Elda grátt silfur (orðak)  Eiga í útistöðum/ófriði; fjandskapast.  „Þeir hafa lengi eldað grátt silfur“.  Orðtakið þekktist þegar á söguöld og kemur m.a. fyrir í Eyrbyggjasögu.  Vísar það líkleg til þess að silfur var mismunandi hreint; hvítt silfur og grátt silfur, og að ekki hafi verið vandað til vinnslu (eldunar) þess silfurs sem maður greiddi óviljugur; s.s. til manngjalda eða annarra skaðabóta.

Eldabuska (n, kvk)  Kona sem eldar mat; matráðskona; matselja.  „Hann þarf víst oft að heimsækja eldabuskuna í vegavinnuskúrunum á milli mála“.

Eldadagur (n, kk)  6. oktober.  Þann dag var venja að bændur tækju við því búfé í eldi sem þeir voru skyldugir til að fóðra, samkvæmt leiguskilmálum eða öðru.  Því mátti skila á eldaskildaga.

Elamaskína (n, kvk)  Annað heiti á eldavél.

Eldaskildagi (n, kk)  10. maí.  Þá máttu bændur skila fé sem þeim hafði verið gert að fóðra yfir veturinn, frá eldadegi.  Þá var t.d. skilað prestlömbum og því sem alið hafði verið fyrir landsdrottinn.

Eldast af (einhverjum) (orðtak)  Um hegðun/útlit einhvers; hverfa með aldri.  „Ætlar bölvuð hrekkjanáttúran aldrei að eldast af þér“?!

Eldavél (n, kvk)  Stórt búsáhald til að elda mat á.  „Hér í Kollsvík voru tvennar hlóðir.  Eldavél kom þó hingað fyrir aldamót (1900)“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Eldavélarhringur (n, kk)  Járnhringur í borði kola-/olíueldavélar.  Á þessum gömlu eldavélum frá ca miðri 20. öld og eldri voru göt í yfirborði, þar sem setja mátti niður stóra steypujárnspotta þess tíma; með kúptum botni.  Unnt var að minnka götin fyrir minni potta með því að í þeim voru steypujárnshringir; eldavélarhringir, felldir hver innaní annan.  Með litlu loki í miðjunni mátti loka gatinu alveg.  Á stærri eldavélum voru þrjú göt,oft  misstór, en tvö á þeim minni.  Sérstakur krókur fylgdi eldavélunum, svo unnt væri að taka upp/ setja niður brennheitt lokið og hringina; stundum nefndur eldavélarkrókur.  Hékk hann oft nálægt eldavélinni ásamt skörungnum, sem hafður var til að skara í kolum/brennara.

Eldavélarrör / Reykrör (n, hk)  Rör uppúr eldavél og inní reykháf húss.  Á kola- og olíueldavélum sem algengar voru um miðja 20. öld var þetta rör oft um 100cm svert hné; lóðrétt uppúr eldavélinni og síðan vinkilbeygt, lárétt inn í skorsteininn.  Á lárétta hlutanum var oft hraðþurrkaður fatnaður; sokkar o.fl.

Eldbjargarmessa (n, kvk)  Dagurinn eftir þrettándann/  þrettánda dag jóla.  Á Eldbjargarmessu var jólaeldurinn slökktur, til forna, og jólaboðsgestir kvöddu og fóru til síns heima.

Eldfljótur / Eldsnöggur (l)  Mjög fljótur/snar.  „Ég þarf að skreppa aðeins; ég verð eldfljótur“.

Eldgamall (l)  Ævagamall; mjög forn.  „Þessi torfljár er eldgamall“.

Eldglæringar (n, kvk, fto)  Neistar; glóandi agnir.  „Gunnsi var ekkert að láta þessa grjóthauga á veginum stoppa sig, heldur steig bensínið í botn.  Viðstaddir sögðu að þarna hefði gamli skódinn flogið á vömbinni eftir grjótrústunum og eldglæringarnar stóðu undan honum í allar áttir.  En yfir fór karlinn“!

Eldgos (n, hk)  Jarðfræðilegur atburður þegar rof verður á jarðskorpunni og upp leitar kvika og gastegundir úr möttli jarðar.  Eldgos eru tíð á flekaskilum jarðar og þar myndast gjarnan langir fjallgarðar af upphleðslu gosefna.  Ísland er eini hluti Atlantshafshryggjarins sem nær uppúr sjó, enda á heitum reit, þar sem eldgos eru tíðari.  Landið hefur færst sundur frá því það fyrst kom úr sjó og eru elstu goslögin, um 15 milljón ára, vestast og austast en helsta eldvirknin er á virku belti sem nær frá Reykjanesskaga austur um Heklu til Bárðarbungu og þaðan norður um Öskju, Kröflu og norður í haf um Kolbeinsey.  Því er ekki virka eldgíga að finna í Kollsvík, en þar er fjöldi virkra frostgíga (sjá þar).  Öll fjöll eru hlaðin upp af eldvirkni fyrri tíma og þar sem ísaldarjökullinn hefur rofið þau má skoða eldvirkni sem þá hefur verið.  Misþykkir staflar af berglögum með gjósku- og jarðvegslögum á milli; aðfærsluæðar kviku, sem nú eru lóðréttir berggangar; myndbreytt berg vegna hitans; stuðlaberg sem varð til við kólnun; hnýðlinga sem þeyst hafa um loft í eldgosum og þykk lög eðjuhlaupa sem eru fylgifiskur stærri gosa; líkt og það sem gróf Pompei Rómaveldis á sínum tíma.  Í jarðlögunum má víða sjá ummerki skógar sem hraunið hefur runnið yfir.  Enn hafa ekki fundist annarskonar lífverur í þessum lögum en slíkt kann vel að vera mögulegt.  Ísland var tengt öðrum löndum með landbrú á þeim tíma sem elstu jarðlög í Kollsvík voru að myndast.

Eldheitur (l)  Mjög sanntrúaður; sannfærður.  „Ég er viss um að innst inni var hann eldheitur kommi“.

Eldhólf (n, hk)  Fírhólf; hólf í kola-/olíueldavél þar sem eldur logar í eldsneytinu. 

Eldhúsbekkur (n, kk)  Fast vinnuborð í eldhúsi.  „Fyrrum var það einatt nefnt eldhúsbekkur sem nú er hluti eldhúsinnréttingar.  Væri talað um bekk í eldhúsi var þó oftast átt við setbekki“.

Eldhúsbredda (n, kvk)  Beittur stór hnífur sem notaðist í ýmis eldhúsverk, s.s. skurð á brauði, keti og fiski.  Ein góð eldhúsbredda var jafnan í hverju eldhúsi fyrir daga hinna algengu hnífasetta nútímans.

Eldi  (n, hk)  Fóðrun; það að ala t.d. skepnu/búpening á fóðri.  Talað er um gott og slæmt eldi eftir því hvort sá gripur fitnar eða leggur af sem fóðraður er.  „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi.  Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill.  Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið…“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Elding / Eldingaveður / Þrumuveður  Eldingar eru fremur sjaldgæfar niðri í Kollsvík, en þeim mun algengara er að eldingum slái niður í fjallahringinn í kring í eldingaveðri.  Eftir að símalína var lögð á staurum frá Breiðuvík að Kollsvík var algengt að eldingum slægi niður i hana, og sló þá jafnan út eldingavara sem var við inntak línunnar í hús, þannig að aldrei varð húsbruni af því.  Eftir að raflína var lögð út yfir Hænuvíkurháls dró hún að sér eldingar á þeirri leið.  Komið hefur fyrir að staurar hafi klofnað ofanfrá og níðuri jörð eða brunnið upp til agna í þrumuveðri.  Reynt var að leggja síma í jörð yfir Hænuvíkurháls, en eftir að hann hafði margítrekað brunnið í sundur í eldingaveðri í Steilum eða Húsadal var komið á símsambandi um loftnet frá mastrinu á Fimmhundraðahæð að Láganúpi.  Það mastur hefur reyndar verið prýðisveiðarfæri eldinga, og eitt sinn brann tengihúsið til grunna eftir eldingaveður. 

Eldiskvíga (n, kvk)  Kvígukálfur sem ákveðið er að ala upp í mjólkurkú.  „Ég fékk hjá honum góða eldiskvígu“.

Eldiviðarhaugur (n, kk)  Haugur/hrúga af viðarbútum eða öðru brenni sem ætlað er sem eldiviður.  „Eldiviðarhaugur var alltaf hjá þvottapottinum í Verkfærahúsinu, og stundum líka kolapoki“.

Eldlegur áhugi (orðtak)  Brennandi áhugi.  „Frá unga aldri hafði hann eldlegan áhuga á hestum“.

Eldmóður (n, kk)  Eldlegur áhugi; ástríða; ofurkapp.  „Hann barðist fyrir málinu af miklum eldmóði“.

Eldri en tvævetur (orðtak)  Lífsreyndur; lætur ekki blekkjast.  „Hann sagði þingmanninum að hann væri nú eldri en tvævetur; hann hefði heyrt þessi sömu loforð fyrir fjórum árum og lítið hefði verið efnt síðan“.

Eldsgagn (n, hk)  Búsáhöld til eldunar; pottar, katlar, pönnur o.fl.  „Sumir af Rauðsendingum (eigi þó margir) eru so fátækir að þeir eigi eiga eldsgagnið.  Þeim sömu ljær Guðrún Eggertsdóttir potta (járnpotta) og tekur 1 ½ fjórðung í leigu þar eftir“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Eldsmatur (n, kk)  Brenni; það sem nært getur eld.  „Glóðin í uppkveikjunni í kofanum komst einhvernveginn í framþilið og þar með nægan eldsmat.  Síðan fuðraði kofinn upp og hangiketið með“.

Eldstó / Eldstæði (n, kvk)  Hlóðir; eldhólf.  „Innst í þessum litla kofa höfðum við eldstæði, og lítið gat í þekjunni yfir.  Þarna var ýmislegt mallað; svo sem te úr hinum margvíslegustu jurtum“.

Eldstroka (n, kvk)  Eldstólpi; ákafir logar hátt til lofts.  „Þetta mátti ekki tæpara standa; þegar ég opnaði reykkofann stóð eldstrokan uppúr torfinu og upp á miðjan vegg“!

Eldsvoði (n, kk)  Húsbruni.  „Í minni slökkviliðsstjóratíð urðu þrír eldsvoðar í Rauðasandshreppi; tveir í íbúðarhúsum og einn í hlöðu.  Einn þeirra varð altjón“.

Eldunarkró (n, kvk)  Útihlóðir; kró í veri sem eingöngu er notuð til að elda mat á hlóðum.  „Nálægt búðunum voru krær sem voru eingöngu ætlaðar til að matreiða í.  Ég man ekki eftir nema einum útihlóðum.  Svo komu olíuvélar og síðar prímusar, og þá var eldað inni í búðunum sjálfum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Elftingarte (n, hk) Te/seyði sem lagað er af klóelftingu/elftingu (Equisetum arvense).  Elfting er gróplanta sem vex víða, og kann best við sig í rakri mold þar sem ekki er mikil samkeppni annarra jurta. Stongullinn verður um og yfir 10 cm hár; grænn með mjóum greinum.  Gróstönglar vaxa stakir; eru ljósleitir og með sérkennilegan kólf efst.  Þeir nefnast skollafingur og segir þjóðtrúin að þar teigi fingur satans sig uppúr jörðinni.  Plantan fjölgar sér einnig með rótarskotum og hefur mikið rótarkerfi.  Ræturnar eru svartar með hvítum kjarna.  Á þeim vaxa ber í sama lit; nefnd gvendarber.  Einhver not voru af elftingu fyrrum, en Björn í Sauðlauksdal segir: „Þessi jurt er barkandi og græðandi; lögur hennar læknar lífsýki og jurtin sjálf, ef vel er marin milli steina og stungin í nef mannei eða lögð við enni, stillir nasablóð.  Hún er eins svo tilbúin góð að leggja yfir sár, kviðslit og annað kostað á líkama...  Elftingalögur, víni blandinn og heitur drukkinn, læknar innankostað; líka hósta og mæði. Til hins sama má og svo seyða jurtina í vatni og drekka það sem seyði.  Klútur, í sama seyði vættur, er góður til að leggja yfir alla heita bólgu, þá batnar hún“  (BH; Grasnytjar).  Börn í Kollsvík löguðu te úr ýmsum jurtum, og þar á meðal elftingu, án þess þó að nota í það vín eins og séra Björn leggur til.  Elftingarte var fremur bragðdauft og því gott að sjóða annað með, s.s. blóðberg eða vallhumal.  Skollafingur og gvendarber eru fyrirtaksmatur og þurfa enga matreiðslu.    

Elgur (n, kk)  Krapaflóð; krapsull; vatnsflóð.  „Það er hlaupinn krapaelgur niður alla Flötina“.

Elja / Eljusemi (n, kvk)  Dugnaður; ósérhlífni.  „Það dalar ekki eljan í karlinum þó hann eldist“.  „Get ég eigi gengin spor/ í gömlum rústum fundið./  Eigi heldur elju og þor/  í eftirlíking bundið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; vísa eftir Össur Guðbjartsson). 

Eljumaður (n, kk)  Dugnaðarforkur; atorkumaður.  „Hann var mikill eljumaður og féll sjaldan verk úr hendi

Eljuverk (n, hk)  Verk sem útheimtir mikla vinnu.  „Allar þær gríðarmiklu hleðslur, bæði í Kollsvík og annarsstaðar, sem enn eru sýnilegar eftir Guðbjart Guðbjartsson á Láganúpi, eru einstakt eljuverk.

Ellegar (st)  Eða; annars.  „Segðu honum að koma strax að borða, ellegar fái hann engan mat“.  Einnig oft sem ao í enda setningar:  „Mundu eftir að setja bensín á tankinn; þú ferð nú ekki langt ellegar“!

Ellibelgur (n, kk)  Ellimörk; hrumleiki.  „Karlinn er mun hressari núna; líkt og hann hafi kastað ellibelgnum“.

Ellidauður (l)  Dauður úr elli.  „Ertu ekki búinn að þessu enn?  Ætlarðu að verða ellidauður við þetta“?!

Ellihrumur (l)  Hrjáður/stirður/veiklaður af elli.  „Hann lagði hart að sér þó ellihrumur væri orðinn“.

Ellimörk (n, hk, fto)  Merki um háan aldur; ellimót. „Það er ekki að sjá á honum nein ellimörk ennþá“.

Ellin kemur öllum á kné (orðatiltæki)  Allir verða að beygja sig fyrir ellinni sem ekki deyja ungir, þó vissulega leiki hún menn misjafnlega grátt.

Elliær (l)  Kominn með elliglöp; farinn að rugla.  „Þasð er langt frá því að hún sé nokkuð orðin elliær“.

Elna (s)  Versna; veikjast; þyngja á.  „Heldur hefur mér elnað þessi pest; ég er orðinn ansi slappur“.

Elna sóttin (orðtak)  Versna veikindin; verða verri.  Oft notað í líkingum.  „Hann hefur löngum stelsjúkur verið, en heldur elnaði honum sóttin með það þegar hann flutti suður“.

Elska útaf lífinu (orðtak)  Þykja mjög vænt um; elska meira en eigið líf.  „Það má sóða þessu í sig, en ekki get ég beint sagt að ég elski það útaf lífinu“.

Elskulegheit (n, hk, fto)  Umhyggja; ástúðleiki; blíða.  „Alveg er karlinn óútreiknanlegur; einn daginn er hann ekkert nema elskulegheitin en hinn eins og bévítans meinhorn“!

Elta (s)  A.  Veita eftirför.  Ég elti kindurnar útyfir allan Sanddal“.
 B.  Um bát; rása mikið til hliða þegar siglt er skáhallt á öldu (sjá elta lambær og skima). 
C.  Þæfa skinn milli handa sér þar til það er orðið mjúkt og nothæft í skinnklæði, skó o.fl.  „Eftir hátíðar var farið að elta skinn í brækur og spinna skinnklæðaþráð, en í hann var haft gott tog.  Kálfsskinn var notað í setskauta á brókum og leður í sóla.  Notuð voru elt eða eirlituð skinn,  Ljúka þurfti að sauma öll skinnklæði fyrir vertíð“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 
„Þegar búið var að raka voru belgirnir fylltir með heyi og hengdir upp í eldhúsi.  Þar voru þeir látnir hanga og þorna.  Síðan voru þeir teknir niður og eltir.  Þegar þurrkað skinn var elt var það núið og hreyft milli handa sér eða undir fótunum.  Þá komu fljótlega brot í það þar sem skinnið var að verða mjúkt.  Þá var haldið áfram að núa, böggla, snúa, vinda og teygja skinnið, þangað til hvergi var orðinn eftir harður blettur og allt skinnið var orðið lungamjúkt.  Það hét eltiskinn“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  Sjá gæra.
„Skinnin sem notuð voru til skinnklæðagerðar voru misjafnlega undirbúin.  Sum voru blásteinslituð, og þótti það verja fúa; önnur voru hert ólituð og þannig tekin til brókargerðar, en síðar voru flestir farnir að elta þau vandlega áður en saumað var úr þeim.  Þau skinnklæði tóku miklu betur við áburði; fernisolíu eða lýsi, og urðu mýkri að klæðast í“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þá voru skinnin tekin fram og elt.  Oft var notaður rúmstuðull, eða stórt hrútshorn sem var bundið upp í sperru, og skinnin dregin fram og aftur þar til þau voru orðin lin og hvít“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Elta á röndum (orðtak)  Fara þráfalt í humátt á eftir; fylgja sífellt eftir.  „Heimalningurinn elti strákinn á röndum allan daginn, eftir að hafa fengið pelann sinn um morguninn“.

Elta (eitthvað) eins og kálfurinn búrfötuna/kolluna/kyrnuna / Elta (eitthvað) eins og skugginn (orðtök)  Fylgja einhverju dyggilega eftir; eltast við eitthvað.

Elta lambær / Elta báruna (orðtak)  Um siglingu báts; rása mikið á siglingu; elta báruna.  „Ef skip þótti skima mikið; vera óstöðugt í rásinni var það kallað að elta lambær...“ (LK; Ísl. sjávarh. ÓETh).  Í seinni tíð er algengara að nota orðtakið að elta báruna.

Elta ólar við (orðtak)  Setja út á; gera athugasemd/fjargviðrast vegna.  „Ég nenni ekki að elta ólar við þetta“.  Oft voru ólar úr hörðu skinni eltar með því að sinn maður togaði í hvorn enda ólar, sem lá í um t.d. horn/rúmstólpa.  Líkingin vísar til þess að þannig gáfu þeir eftir og sóttu, líkt og í bardaga/rifrildi.

Elta tærnar á sér (orðtak)  Ganga; rápa; eigra; fara án hugsunar/áætlunar.  „Ætli maður fari nú ekki að elta tærnar á sér inn í rúm“.

Elta uppi (orðtak)  A.  Þreyta kind á hlaupum þar til hún næst; hlaupa uppi.  B.  Um spil; spila stöðugt út sömu sort þar til andstæðingurinn á ekki meira af henni; bekennir ekki.  „Nú er hann búinn að elta mig uppi í laufinu“.

Eltast við (orðtak)  Elta og reyna að ná; fást við að elta.  „Það þýðir ekkert að eltast við þessa tvævetlu sem slapp úr hópnum; hún kemur þegar hún róast“.

Eltast við skottið á sér (orðtak)  Eyða tíma í það sem tilgangslaust er; sækjast eftir einhverju sem aldrei fæst.

Eltiskinn (n, hk)  Skinn sem búið er að elta/mýkja með þæfingu.  „Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni; bryddir með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim.  Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Eltur (n, kvk, fto)  Eltingaleikur; eftirför; það að eltast við, t.d. kindur.  „Ég lenti í þónokkrum eltum við þessar bykkjur“.  „Eftir nokkrar eltur náði ég að króa lambið af við klettinn“.

Elvíti (n, kk)  Milt blótsyrði/áhersluorð; mildun úr „helvíti“.  „Elvíti er ég hræddur um að ég sé með föðurlandið á færinu!  Leggðuút og andæfðu uppí fallið; það gæti losað um þetta“.

Embætta (s)  A.  Gera; framkvæma.  „Ert þú að fara að embætta eitthvað sérstakt“?  B.  Ganga örna sinna; kúka.  „Ég þarf að skjótast á kamarinn og embætta áður en við förum af stað“.

Embætti (n, hk)  Starf; hlutverk.  „Bræðurnir stóðu við dráttinn en ég fékk það embætti að hleypa innanúr“.

Emileraður (s)  Glerjaður á sérstakan hátt; oft pottur/fat/baðker með hvítri húð, eða kaffikanna, blá að utan en hvít að innan.  „Fatið hafði verið emilerað hvítt en var nú sumsstaðar sprungið og svartflekkótt“.

Emilering (n, kvk)  Húð eða litur sem brennd er á hlut.  „Víða var emileringin sprungin“.

Emja (s)  Æpa; orga; hljóða.  „Hann emjaði þegar hann fékk snjóbolta í eyrað“.

En þó (orðtak)  Tvíorða setning sem oft er í enda lengri setningar til að lýsa efasemdum yfir fyrri fullyrðingu:  „Ég er viss um að þannig gerðist þetta; en þó…“.  Stundum kemur annað í framhaldinu.  Stendur stundum sjálfstæð, og þá helst sem andsvar til að lýsa efasemdum.

Enda (st)  Hvort sem er; reyndar.  „Þeir verða fimm eða sex saman, og er Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík formaður fararinnar, enda er hann eigandi bátsins“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Júlli naut mikillar virðingar meðal sveitunga sinna, enda var hann hinn ágætasti maður og var valinn til ýmissa trúnaðarstarfa fyrir sveitunga sína“  (PG; Veðmálið). 

Enda (s)  A.  Ljúka.  Til var það að orðið væri í þátið „enti“ í stað „endaði“:   „Þá var hælsporið tekið, og þurfti vel til þess að vanda að ekki læki þar sem oddi sólans enti í saumnum “  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Saga enda af tré, til að unnt sé að merkja fyrir og hefja flettingu þess.

Enda í enda / Enda við enda (orðtak)  Um samsetningu, þar sem einn endi nemur við þann næsta.  „Netin eru bundin í streng, enda í enda“.

Enda þótt (orðtak)  Þó; þótt.  „Ætla ég að helst beri að skilja þetta þannig, að enda þótt hvalurinn væri dreginn á land í Kollsvík, hafi eigendur Hænuvíkur talið hvalinn hafa verið í sinni landareign“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Sú leit hefur eflaust verið erfiðust, því að enda þótt lagt væri af stað fyrir allar aldir komu leitarmenn af Bjarginu oftast seinastir til réttar“  (PG; Veðmálið). 

Endaður (l)  Sem er í endanum á.  „Þegar kom fram í endaðan júlí var farið að athuga með berin“  (IG; Æskuminningar). 

Endalaus (l)  A.  Sífelldur; án enda. „Ætlar þessi rigningatíð að verða bara endalaus“?!  B.  Sem áhersluorð. „Greyið mitt vertu nú ekki að þessu endalausa suði“!  „Endalaust rugl er þetta nú“!

Endaleysa (n, kvk)  Bull; rugl.  „Bölvuð endaleysa er nú í þér“. 

Endar sorg um síðir / Fyrnist sorg þá er frá líður (orðatiltæki)  Sorg mildast með tímanum, hversu sár sem hún kann að vera í upphafi.

Endasendast (s)  Hlaupa hratt á milli staða.  „Við vorum svo fáliðaðir í smöluninni að ég þurfti einn að endasendast þvert yfir dalinn til að reka þessa tvo hópa“.

Endasleppt (l)  Endar snögglega; snubbótt.  „Ballið varð nokkuð endasleppt þegar gólfbitarnir gáfu sig“.  „Hann gerir það ekki endasleppt, blessaður.  Nú færði hann okkur þennan dýrindis hákarl“.

Endastag (n, hk)  Stag milli þina í enda nets.  Sjá netháls.

Endasplæs (n, hk)  Frágangur á enda vaðs/kaðals/færis, þannig að endinn er þáttaður upp og þættirnir splæstir aftur fyrir sig, en með því er komið í veg fyrir trosnun í endanum.

Endast aldur til (orðtak)  Ná að ljúka við á sinni ævi.  „Þér endist ekki aldur til að klára allt þetta sælgæti drengur; á ég ekki að aðstoða þig eitthvað við það“?

Endastingast (s)  Falla yfir sig, þannig að lendi á hinum endanum/höfðinu; steypa stöfnum.  „Á hlaupunum rak hann tána í stein á re´ttarveggnum og endastakkst niðurí dilkinn“.

Endatré (n, hk)  Endi trefja í viði; endi trjábols.  „Þú færð lítið hald með því að negla svona í endatréð“. 

Endemi (n, hk)  Dæmalaust; ósköp.  „Endemis raus getur þetta verið í þér“.  „Þetta er alveg með endemum“.

Endemiskjaftæði / Endemisrugl/ Endemisþvæla / Endemisvitleysa  Algert bull; vitleysa.  „Ég hef nú sjaldan heyrt álíka endemisrugl á minni ævi“.  „Hvílikt endemiskjaftæði er þetta nú“!

Endemisvitlaust (l)  Arfavitlaust; frámunalega heimskulegt; geggjað.  „Þetta var náttúrulega svo endemisvitlaust hjá þér að leggja hnífinn frá þér uppá hvalbakinn; sérstaklega í vona typpingsfjanda“!

Endi (n, kk)  A.  Ystu mörk á t.d. bandi, fjöl, tíma o.fl.  B.  Annað heiti á bandi/vað/snæri.  „Heldurðu að þessi endi sé nægilega traustur í lása“?  „Hafðu með einhvern enda til að binda aftur hliðið“.

Endilangur (l)  Í allri líkamslengd; á alla lengdina.  „Hann missti jafnvægið og datt endilangur í forina“.

Endingardrjúgur / Endingargóður (l)  Endist vel; eyðist/slitnar/és/breytist lítið/hægt.

Endingarlítill (l)  Endist illa; eyðist/slitnar/ést/breytist mikið/hratt.  „Skelfing eru þessir skór endingarlitlir“.

Endilega (ao)  Áhersluorð; fyrir alla muni; nauðsynlega.  „Endilega fáðu þér meira af kökunni“.

Endirinn skyldi í upphafi skoða (orðtak)  Rétt er að íhuga afleiðingar áður en ákvörðun er tekin.

Endranær (ao)  Venjulega.  „Drengurinn er þá húfulaus eins og endranær. 

Endrum og eins / Endur og sinnum (orðtök)  Stundum.  „Endrum og eins rekur allstór og nýtileg tré“.  Oft var notað orðið „endur“ í stað „endrum“, og er sennilega upprunalegra.  „Ég geri þetta endur og sinnum“.  „Sást skipið ekki nema endrum og eins fyrir dimmviðri og sædrifi“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Endur fyrir löngu (orðtak)  Fyrir löngu síðan; í fyrndinni.  „Hér mun hafa staðið lambhús, endur fyrir löngu“.

Endurgera / Endurhlaða (s)  Gera að nýju; endurbyggja.  „Ég endurgerði lambhúsið í Ytra Gilinu og nýtti sem reykkofa.  Notaði ég sömu tóftina; endurhlóð veggi; setti á þetta hálfgafla, sperruþak með járni og tyrfði“.

Endurþenkja (s)  Hugsa að nýju; endurskoða.  „Þetta breytir miklu; nú þurfum við að endurþenkja málin frá grunni“.

Engan varðar allt að vita (orðatiltæki)  Enginn þarf að vita allt; sumt varðar mann ekkert um.

Enganveginn (ao)  Alls ekki; af og frá.  „Ég get enganveginn skilið hvernig þetta gerðist“. 

Engin aðferð (orðtak)  Slæm/röng aðferð; handabakarvinnubrögð.  „Hvernig í ósköpunum ætlarðu að gera þetta?  Þetta er engin aðferð hjá þér“!

Engin aðvera/ Engin geta / Enginn vegur (orðtak)  Nær útilokað; varla hægt; enganveginn; afskorið. „Það er nú engin aðvera að vinna í þessum hraglanda; enda fer ég að hætta þessu“.  „Það er engin geta að fara á sjó í þessu veðri“.  „Ég reyndi að ná kindinni en það var enginn vegur“.

Engin er regla án undantekningar (orðatiltæki)  Vísar til þess að oftast eru einhver frávik frá reglum; hvort sem menn þykjast sjá þær í náttúrunni eða setja þær sjálfir. 

Engin er rós án þyrna (orðatiltæki)  Ekkert er svo glæsilegt að ekki séu á því skuggahliðar; böggull fylgir skammrifi.

Engin er það synd þó búkurinn/líkaminn leysi/losi vind (orðatiltæki)  Kollsvíkingar höfðu þetta orðtæki gjarnan yfir, í stað afsökunarbeiðna, þegar þeim varð á hin eðlilega athöfn að reka við.  Ekki þótti yfirleitt rétt að halda aftur af slíkum náttúrulegum þörfum þó margmenni væri nærri, enda gengur pempíuhátturinn stundum út í öfgar.

Engin er ævin án sorgar (orðatiltæki)  Enginn lifir án þess að upplifa einhverja sorg eða missi.

Engin hemja / Engin gegnd (orðtak)  Hömlulaust; engin stjórn.  „Það er engin hemja hvernig þú sóðar út heyinu drengur“!  „Það er engin gegnd að ryðja svona í sig af eggjum“!

Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkur hennar (orðatiltæki)  Auðskilið og mikið notað í líkingum.

Engin leið / Engin tilsjón / Enginn vegur (orðtök)  Enginn möguleiki; gengur ekki; ekki hægt.  „Er enginn vegur að losna við þessa ríkisstjórn“?  „Það var ekki nokkur tilsjón að gera þetta öðruvísi við þessar aðstæður“.  „Er engin leið að gera þetta á annan hátt“?

Engin lifandis leið (orðtak)  Ekki nokkur vegur/tilsjón.  „Það er engin lifandis leið að átta sig á þessu“!

Engin líkindi til (orðtak) Engar líkur á.  „Ég sé engin líkindi til að hann muni rigna í dag“.

Engin miskunn hjá Magnúsi (orðtak)  Enga miskunn að hafa; ekkert slegið af.  Orðtakið er sagt vera upprunnið af ummælum Magnúsar sálarháska, sem var umrenningur og útilegumaður á 19.öld.  Þetta á hann að hafa sagt er hann murkaði lífið úr lambi á miskunnarlausan hátt, er hann var í útilegu sinni á Hveravöllum.

Engin deili til / Engin mót á (orðtak)  Engin merki um; ekkert sem bendir til.  „Ég sé engin deili til þess að nokkuð sé að draga úr élinu ennþá“.  „Ég sé engin mót á að hann sé að koma með nestið“.

Enginn dregur annars fisk úr sjó ( orðatiltæki)  Enginn getur eignað sér fisk sem annar dregur; enginn eignar sér það sem annar hefur með réttu fengið.

Engin er það synd þó búkurinn leysi vind (orðatiltæki)  Lýsandi speki fyrir lífsviðhorf Kollvíkinga og oft viðhöfð.  Góður fretur var talinn hraustleikamerki og fuss annarra yfir óhjákvæmilegri lykt var talinn mesti pempíuháttur.

Engin mynd (orðtak)  Lýsing á því sem ekki telst fallegt/viðeigandi/gott.  „Það er engin mynd á svona háttalagi“!  „Nú ætla þeir að spæna upp túnið til að stytta sér leið með veginn.  Þetta er engin mynd“!

Engin neyð (orðtak)  Ekki vandræði; ekkert aðkallandi.  „Það er engin neyð þó þetta klárist ekki í dag“.

Engin slorfæða (orðtak)  Um mjög góðan mat.  „Svonalagað er sko engin slorfæða“!

Engin takmörk sett (orðtak)  Hömlulaust; án takmarkana.  „Eru því virkilega engin takmörk sett hvað maðurinn getur verið heimskur“?!

Enginn (fn)  Neitunarfornafnið „enginn“ var til skammst tíma beygt með nokkuð öðrum hætti í máli Kollsvíkinga en algilt þykir í dag.  Fallbeygingin var, í eintölu: „enginn-öngvan/öngan-öngvum/öngum-einskis“ og í fleirtölu: „öngvir/öngir-öngva/önga-öngvum/öngum-öngra“.  „Ég þekki öngvan núlifandi sem heldur þessari málvenju, en hún var töm í munni eldri Kollsvíkinga fram yfir árið 1960“.  „Ég sé öngvar kindur í Hryggjunum núna“.  Oft borið þannig fram að „v“ heyrðist alls ekki, og stundum ritað þannig.  „Sástu öngar kindur í Breiðnum“?   „Víða var þá fátækt mikil meðal bænda en Jón gat öngum neitað er bað um lán og svo fór að um sumarmál voru allar vörur upp lánaðar“  (JVJ; Nokkrir viþættir). 

Enginn afgangur (orðtak)  Með naumindum; við illan leik.  „Með harðneskju tókst mér að klöngrast upp klettaslefruna, en það var enginn afgangur af því.  Ég myndi ekki treysta mér þá leið aftur“.

Enginn afslagur í (orðtak)  Slæ ekki hendinni á móti; hafna ekki.  „Mér væri síður en svo nokkur afslagur í því að þú kæmir og aðstoðaðir mig örlítið við þetta“.  Sjá afslagur.

Enginn akkur að (orðtak)  Engin hjálp í; enginn hagur að.  „Mér er ekki nokkur akkur að því að fá þessar og þvílíkar sendingar; þær gerur hann bara átt sjálfur“!

Enginn er almáttugur (nema Guð á Himnum) ( orðatiltæki)  Allir hafa sín takmörk; enginn getur allt.

Enginn er alvondur/alslæmur (orðatiltæki)  Engum er alls varnað; skinn er undir þá skarn er af þvegið; allir hafa til síns ágætis nokkuð.  Allir hafa einhvern góðan hug/vilja, þó útlit og viðmót gæti bent til annars.

Enginn er annars bróðir í leik (orðatiltæki)  Notað um það að jafnvel nánustu vinir geta verið keppinautar, t.d. í íþróttum eða öðrum metingi.

Enginn er bóndi/búmaður nema að hann kunni að berja sér / Enginn er (sá) búmaður sem ekki kann að berja sér (orðatiltæki)  Orðatiltækið vísar ekki eingöngu til þess að bændur hafi uppi sífellda kveinstafi yfir hlutskipti sínu, heldur annarsvegar til þess lítillætis að gera sem minnst úr því þó vel gangi á búi og hinsvegar til þess að ofmeta ekki sinn skattstofn gagnvart landsdrottnum og leigusölum.  Hvergi eru þessi sannindi augljósari en í Jarðabók Árna Magnússonar, sem heimsótti bændur vestra árið 1703.  Þar er gert fremur lítið úr velgengni í búskap og hagur bænda talinn all bágur í flestu tilliti. 

Enginn er dómari í eigin sök (orðtak)  Enginn er fyllilega dómbær um eigin verknað, þó mörgum hætti til að gleyma þeirri staðreynd.  Sjá erfitt að dæma í eigin sök.

Enginn er fullkominn/gallalaus (orðatiltæki)  Sígildur sannleikur, þó sumir eigi erfitt með að viðurkenna hann; allir hafa einhvern brest.

Enginn er hærri þó hann hreyki sér (orðatiltæki)  Enginn verður meiri maður af því að gorta eða þykjast meiri en hann í raun er.

Enginn er minni þó hann undan láti (orðatiltæki)  Það er í raun fremur styrkleikamerki en veikleiki að gefa eftir í deilum; jafnvel þó maður hafi rétt fyrir sér.  Sá vægir sem vitið hefur meira.

Enginn er spámaður í sínu föðurlandi (orðatiltæki)  Þessi speki á við á öllum tímum.  Boðberar nýjunga og hugvitsmenn eru litnir hornauga í sínu samfélagi, sem fremur rennir hýru auga til þess sem kemur af fjarlægari slóðum.  Til þess vísar annað orðatiltæki; upphefðin kemur að utan.

Enginn (lítill) bógur (orðtak)  Um veikburða mann/skepnu.  „Hann er enginn bógur til að valda þessu starfi“. 

Enginn er verri þó hann vökni (orðatiltæki)  Það skaðar sjaldan neinn að verða blautur.  „Vertu nú ekki að fárast yfir ágjöfinni; enginn er verri þó hann vökni.  Það er óþarfi að slá af þessvegna“.

Enginn er öðrum líkur / Engir tveir eru eins (orðatiltæki)  Þó virst geti líkindi með tveimur persónum þá hefur hver sín sérkenni við nánari skoðun.  Sama gildir um einstaklinga allra lífvera.

Enginn fæðist fullkominn (orðatiltæki)  Gegnsætt og mikið notað orðatiltæki.

Enginn fær flúið sitt skapadægur / Enginn fær sín forlög flúið (orðatiltæki)  Enginn má sköpum renna.  Vísar í forlagatrú/ölagatrú, þar sem því er trúað að mönnum sé ásköpuð lífslengd og dánardagur þegar við fæðingu, og því verði ekki breytt.  Sjá feigur; forlög; örlög.

Enginn fögnuður að (orðtak)  Ekki gleðiefni; ekki til fagnaðar.  „Það er enginn fögnuður að því að þeir séu að hefla þar sem enginn er ofaníburðurinn; þá er nú betra að láta stórgrýtið óhreyft“!

Enginn gleypir sólina (orðatiltæki)  Jafnvel mesti oflátungur nær ekki að svelgja sólina.  Það mun þó að lokum gerast í Ragnarökum, samkvæmt norrænni trú.  Þá mun úlfinum takast ætlunarverk sitt.  Sjá blása út sólir.

Enginn griður gefinn (orðtak)  Ekki hlíft; ekki slakað á.  „Nú kæri ég þessa andskota; þeim verður enginn griður gefinn eftir svona tiltektir“!

Enginn hefur afl við ægi (orðtak)  Enginn getur ráðið við ofurefli brimöldu eða stríðra strauma.

Enginn maður til / Enginn bógur til (orðtak)  Hefur ekki getu til; er ekki fær um.  „Eigum við ekki að fara og hjálpa honum að bjarga trénu; hann er enginn maður til þess einsamall“.

Enginn má sköpum renna (orðatiltæki)  Enginn fær flúið sitt skapadægur; enginn breytir örlögum sínum.  Spekin vísar í þá ævafornu forlagatrú að öllum sé sköpuð ævilengd við fæðingu.  „Sköp“ merkir í þessu tilliti skapadægur eða örlög sem manni eru sköpuð.  „Renna“ merkir hér að hlaupa undan.  „Héðan brautu heldur þú/ hlýt ég angurs kenna./  Okkur skilja örlög nú;/ ei má sköpum renna“ (JR; Rósarímur).  Sjá örlög.

Enginn má við margnum / Enginn má við ofurefli (orðatiltæki)  Alla má bera ofurliði; enginn einn fær staðist árás fjölmenns liðs.

Enginn ræður auðnu sinni (orðatiltæki)  Enginn fær neinu ráðið um sína heppni í lífinu.

Enginn ræður sínum næturstað (orðtatiltæki)  Sá sem ferðast veit sjaldnast hvar hann þarf að beiðast gistingar, því margt getur breytt áætlunum.  Eins er það um margt í lífinu; margt fer öðruvísi en ætlað var.

Enginn skaði skeður (orðtak)  Ekkert tjón orðið; allt í lagi.  „Enn er enginn skaði skeður, en horfur eru slæmar“.

Enginn skyldi geyma sér sjóveður / Valt er að geyma sér sjóveður ( orðatiltæki)  Auðskilin og mikið notuð speki, einkum orðtökin að geyma sér sjóveður eða sitja af sér sjóveður.

Enginn skyldi lasta sér líkan (orðatiltæki)  Maður á ekki að fjargviðrast/hneykslast yfir þeim göllum annars manns sem maður er sjálfur hrjáður.

Enginn skyldi öðrum lá (orðatiltæki)  Maður ætti ekki að ásaka aðra. 

Enginn tekur það sem ekki er til (orðatiltæki)  Því verður ekki stolið sem ekki er til.

Enginn veit fyrr en til er reynt (orðatiltæki)  Sumt verður ekki vitað fyrr en búið er að reyna.  Einnig; veit enginn fyrr en til er reynt.

Enginn veit hvað í barninu býr (orðatiltæki)  Enginn getur spáð fyrir um framtíð barns; t.d. hvaða hæfileika það kann að hafa.

Enginn veit hvað undir annars stakki býr (orðatiltæki))  Vísar til þess að enginn þekkir annan mann til hlítar; enginn getur vitað nákvæmlega hvað öðrum er í huga.  Stakkur merkir þarna yfirhöfn/skikkja.

Enginn verður óbarinn biskup (málsháttur)  Líkingin á rætur í því að þeir sem stefna til mikilla metorða þurfa að undirgangast ýmsar raunir.  Málshátturinn vísar sérstaklega til þess að sanntrúaðir kaþólskir prestar stunduðu mikið meinlætalíf fyrr á tímum, og var litið til þess við val á biskupi.  Er t.d. sagt að Guðmundur biskup góði hafi daglega gengið upp í fjall og barið sjálfan sig til blóðs með svipu til syndaaflausnar fyrir hinum ógnandi guði þess tíma.  Á sama hátt þarf t.d. sjómaðurinn að þola ýmislegt áður en hann er fær í flestan sjó.  Iðulega notað þegar viðvaningar liggja ælandi útfyrir borðstokkinn í fyrstu róðrum sínum. 

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að menn kunna sjaldan að meta þau lífsgæði sem þeir hafa fyrr en þau eru horfin.

Enginn veit hvað í barninu býr (orðatiltæki)  Enginn getur spáð fyrir um framtíð barnsins.

Enginn veit hvar feigur flækist (orðatiltæki)  Speki sem vísar til forlagatrúar, og þess að þeir sem komnir eru að dauðastund grípi til óvanalegrar hegðunar.  Til þess sama vísar orðtak sem Kollsvíkingar brugðu einnig oft fyrir sig; „Nú er honum farið að segja fyrir“.  Notað um það þegar einhver gerði eitthvað óvanalegt.

Enginn veit hver/hvor annan grefur (orðatiltæki)  Ekki er vitað fyrirfram um ævilengd manna; hvor deyr á undann, hinn yngri eða hinn eldri.

Enginn veit sitt endadægur/skapadægur / Enginn má sköpum renna / Enginn veit sína ævina fyrr en öll er (orðatiltæki)  Speki sem vísar til forlagatrúar, og þess að öllum sé ásköpuð ævilengd við fæðingu þó menn viti hana ekki.  Sjá örlög/forlög.

Enginn veit sína annmarka (orðatiltæki)  Maður áttar sig sjaldnast á sínum takmörkunum fyrr en á reynir. 

Enginn verður óbarinn biskup (orðatiltæki)  Mikið notað orðatiltæki; menn þurfa að hafa fyrir því að verða færir í tilteknu verki/starfi, og oft kostar það pínu, svita og tár.  „Það er nú ekki tiltökumál þó menn verði drullusjóveikir fyrstu róðrana; enginn verður óbarinn biskup“!  Líklega er spekin upphaflega tilkomin vegna þess sem segir í sögu Guðmundar biskups góða; að hann hafi verið barinn til bókar. Sjá berja til bókar og fáir eru smiðir í fyrsta sinn.

Enginn vill ég stafkarl vera (orðatiltæki)  Viðhaft þegar maður hafnaði því sem honum fannst vera ölmusa, eða andmælti góðgerðum í kurteisisskyni.

Enginn þarf allt að vita (orðtatiltæki)  Engum er þörf á að kunna skil á öllu; sumt kemur manni ekki við.

Engjar (n, kvk, fto)  Slægjusvæði utan áborinna túna.  „Sláttumýri og Sef voru hinar eiginlegu engjar, ásamt Svuntumýri“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Engjasláttur (n, kk)  Sláttur/heyskapur á engjum, til aðgreiningar frá túnaslætti og útslægjum.

Englahjal (n, hk)  Tal engla.  „Það var víst ekkert einglahjal, sem þeir fengu að heyra þegar heim kom“!

Englahland (n, hk)  Lapþunnt kaffi vinnkonuvatn; nærbuxnavatn; englahland.  „Bölvað englahland er þetta nú“! Einnig vinnukonuvatn og nærbuxnavatn.  Annarsstaðar heyrðist notað orðið „englapiss“. 

Engu/öngvu að síður (orðtak)  Samt; þrátt fyrir það.  „Veðurútlitið var ekki sem best.  Engu að síður var ákveðið að leggja af stað“.  „En ég vissi að Jón þurfti engu að síður að drekka þegar hann kæmi upp, svo ég stillti mig um að ljúka úr flöskunni“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Engu/öngvu bættari / Einhverju bættari (orðtök)  Ekkert/eitthvað betur settur.  „Ég veit að ég kemst niður á þessa hillu en ég er engu bættari með það, með að komast í flesið“.  „Þessi ríkissjórn er búin að vera ferleg, en skyldi maður verða einhverju bættari með þá næstu“?

Engu er spillt þó reynt sé / Ekki spillir að reyna (orðtök)  „Það spillir engu að reyna þetta“.

Engu/öngvu lagi líkt (orðtak)  Ekki líkt neinu; ekki laginu líkt.  „Þessi skattheimta er náttúrulega engu lagi lík“!

Engu tauti við komandi (orðtak)  Engar fortölur duga; ekki hægt að telja hughvarf.  „Ég reyndi að vara þá við ófærðinni, en það var engu tauti við þá komandi“.

Engu til sparað (orðtak)  Ekkert sparað; miklu kostað til /fórnað.  „Engu var til sparað að gera þessa veislu sem glæsilegasta“.

Engum/engvum/öngvum blöðum um það að fletta (orðtak)  Ekki hægt að efast um; fer ekki á milli mála.  „Það er öngvum blöðum um það að fletta; hér hafa verið gerð meinleg mistök“!  Líkingin vísar til lögbóka.

Engum er alls varnað (orðatiltæki)  Allir hafa einhverja mannkosti til að bera; enginn er alvondur; skinn er undir þá skarn er af þvegið.

Engum er bót í annars böli / Engum er þægð í annars óförum (orðatiltæki)  Enginn er betur settur þó öðrum gangi illa. 

Engum er láandi þó hann beri hönd fyrir höfðuð sér (orðatiltæki)  Ekki skal áfellast mann sem þarf að verja sig, þó hann beiti harkalegum aðferðum við það.

Engvan (fn)  Fornafnið „enginn“ var beygt á þrjá vegu í Kollsvíkinni; „engan“ (alg. í seinni tíð), „engvan“ og „öngvan“ (algengt áður).  „Þetta tókst, en þá hét ég því að láta engvan mannlegan mátt teyma mig í brattlendi!  “  (IG; Sagt til vegar I).

Enn bólar ekki á Barða / Ekki bólar enn á Barða (orðatiltæki)  Enn kemur ekki sá sem búist er við.  Talið vísa til þess tilviks úr Heiðarvígasögu að Borgfirðingum þótti dragast að Barði Guðmundsson kæmi suður um heiði til hefnda.  Önnur skýring er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, um skessuna Kötlu sem drekkti piltinum Barða í sýrukeri, en trylltist er hún sá örla á hann á útmánuðum.  Sjá orðtakið bryddir á Barða.

Enn í dag (orðtak)  Ennþá.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru og enn í dag hafa menn gaman af að rifja það upp…“  (PG; Veðmálið). 

Enn ofar moldu (orðtak)  Enn á lífi; ekki dauður enn.  „Ætli ég reyni ekki að láta þessar árans stofnanir vita af mér meðan ég er enn ofar moldu“.

Enn og aftur (orðtak)  Aftur; eina ferðina enn; aftur og aftur; hvað ofaní annað; ítrekað.  „Enn og aftur er þessi hópur kominn í túnið“!

Enn sem áður / Enn sem fyrr (orðtök)  Ennþá.  „Fiskurinn gengur á Kollsvíkina enn sem áður, þó þar fái hann núna frið fyrir færum vermanna“.

Enn um sinn (orðtak)  Nokkuð framvegis; í einhvern tíma í viðbót.  „Ætli maður verði ekki að notast við það sama enn um sinn“.

Enn þann dag í dag (orðtak)  Ennþá; enn í dag.  „Enn þann dag í dag minnast menn þessara tíma með söknuði“.  

Ennisbrúskur (n, kk)  Brúskur; loðinn blettur efst á enni sauðkindar, misjafnlega áberandi milli einstaklinga. 

Ennissvipur (n, kk)  Andlitseinkenni sem mótast af enni.  „Hann er með ennissvipinn föður síns“.

Ennnú (ao)  Ennþá; enn og aftur.  „Ennnú ætla þeir að hækka skattana“!  „Ennnú rignir hann“.  „Sumir eiga hefy ennnú lengur, þó innistaða verði fram úr því…“  (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1930).  

Enska öldin / Enskir fiskimenn  Enska öldin er oft notað sem heiti á því tímabili þegar Englendingar sigldu sem mest til Íslands til fiskveiða og verslunarferða.  Þetta tvennt fór reyndar saman að einhverju leyti, þar sem sum fiskiskip voru einnig fljótandi verslanir.  Ástæða þessara löngu veiðferða var sú að fiskneysla hafði aukist mjög í Englandi á 12.-13. öld og hélt sú þróun stöðugt áfram þegar uppskerubrestur varð með kólnandi tíðarfari.  Jafnframt minnkaði afli í Norðursjó og skreiðarsala Norðmanna nægði ekki að fullnægja eftirspurn.  Eftir að Englendingar uppgötvuðu hin gjöfulu fiskimið hér og framfarir urðu í smíði úthafsskipa leituðu þeir hingað til að anna sinni fiskneyslu.  Viðskipti stunduðu þeir jafnframt í einhverjum mæli.  Mest var um verslun Englendinga hér eftir að siglingar frá Noregi lögðust af að mestu, eða frá ca 1412, og til 1475 þegar Dönum tókst að mestu að hindra verslun þeirra hér, og verslun Hansakaupmanna tók við.  Fiskveiðar Englendinga hér við land stóðu þó með blóma mikið lengur , eða framyfir 1528.  Englendingar keyptu héðan skreið, vaðmál, brennistein o.fl. í skiptum fyrir klæðaefni, mjöl, bjór, vín og annan varning.  Enskir fiskimenn voru hér fjölmennir; líklega um 8000 manns á um 400 skipum þegar mest var.  Þeir áttu ýmis friðsöm viðskipti við landsmenn; keyptu af þeim sokka, vaðmál og fleira í skiptum fyrir t.d. veiðarfæri og annað.  Líklegt má telja að þeir hafi átt töluverð viðskipti við Kollsvíkinga og þeirra sveitunga, enda þurftu þeir oft að leita landvars í brælum.  Má t.d leiða að því líkum að Kollsvíkingar hafi keypt af þeim lóðir, sem þá voru nýjung í veiðitækni hérlendis.  Þriðji flöturinn á viðskiptum Íslendinga og Englendinga eru svo fríbýttarar (sjá þar), sem stöku sinnum fóru með ránum á verslunarplássum og höfðingjasetrum.  (Heimildir m.a.; Helgi Þorláksson; Sjórán og siglingar1999 og JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang).  „Engin áhöld virðast um það að Englendingar hafi fyrstir manna hafið fiskveiðar við Ísland, og þar með veiðar á fjarlægum miðum; a.m.k. svo að í nokkrum mæli væri“  (JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang). 

Enskur saumur Sérstök tegund útsaums.  „Svo var áhald sem margar konur áttu sem hét perm. Það var rennt úr beini; a.m.k. það sem ég á (mynd), og notað til að gera göt þegar saumaður var svokallaður enskur saumur“  (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms). 

Epjast (s)  Verpast; aflagast.  „Gúmmískór eru ómögulegir í klettum.  Þeir epjast í stað þess að ná festu“.

Epjingur (n, kk)  Bjögun; aflögun; sveigja.  „Það er einhver bölvaður epjingur kominn í borðið; það er ekki lengur beint“. „Getur verið einhver epjingur í þessu“?

Epladjús (n, kk)  Eplaþykkni; þykkur eplasafi til blöndunar.  „Áttu nokkuð til lögg af epladjús“?

Er á meðan er (orðrak)  Nýtist/stendur meðan það varir.  „Ekki veit ég hvað lengi hann hangir þurr, eins og útlitið er núna.  En er á meðan er; við þurfum að drífa eins mikið í hlöðu og mögulegt er“.

 (Einhver) er ekkert nema (orðtak)  Einkennist mjög af.  „Hann er haldlaus þegar á reynir, þó hann sé ekkert nema gorgeirinn við stofuborðið heima hjá sér“!

Er ekki eins leitt og lætur (orðtak)  Sjá þykja ekki eins leitt og lætur

Er hann (orðtak)  Um leiki: Sá sem er „klukkaður“ í eltingaleik „er hann“: þ.e. þarf að elta hina og „klukka“.

Er mér nær/næst að halda  (orðtak)  Liggur mér við að halda;  held ég næstum því.  „Mér er næst að halda að þig hafi bara verið að dreyma; hér er öngvar kindur að sjá“!

Er nokkuð tíðinda/títt? / Hvað er títt? (orðtök)  Algeng ávarpsorð þegar menn hittast; spurt/innt tíðinda/frétta. 

Erði (n, hk)  Þung byrði; þyngsli.  „Aðstoðaðu mig við að lyfta trénu; þetta er firnamikið erði“.

Erfa (s)  A.  Fá arf/eignir.  B.  Erfa við (sjá þar).  „Ég er ekkert að erfa þetta“.

Erfa við (orðtak)  Bera hefndarhug til; vera sár vegna misgjörða.  „Þetta er ágætisdrengur; ég get ekki verið að erfa það við hann þó þetta smáatvik hafi komið uppá“.

Erfðafesta / Erfðafestujörð / Erfðaóðal (n, kvk/hk)  Jörð sem leigð er á þann hátt að ekki er unnt að segja leigunni upp.  Leigurétturinn er bundinn leigjanda og gengur til erfingja líkt og um eign væri að ræða.

Erfðasynd (n, kvk)  Synd/glæpur sem færir böl yfir margar kynslóðir.  Oftast notað í afleiddri og léttúðugri merkingu.  „Engin er það nú erfðasynd þó búkurinn leysi vind“!  „Þegar hann kom niður, frá því að hreinsa skorsteininn, var hann svartur í framan eins og erfðasyndin“.

Erfiði / Erfiðismunir / Erfiðisvinna (n, hk/ kk, fto)  Strit; mikið vinnuálag; átök; fyrirhafnarsamt verk.  „Þetta kostaði okkur þó nokkuð erfiði“.  „Með erfiðismunum tókst okkur að velta bjarginu framaf vegkantinum“.  „Þeir geta trútt um talað sem aldrei hafa snert á nokkurri erfiðisvinnu“!  „Jafnan var þess gætt heima, að ofbjóða ekki unglingum með erfiðisvinnu“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Erfiðleikum bundið (orðtak)  Erfitt; vandasamt.  „Það var nokkrum erfiðleikum bundið að sækja bjargferðir frá Kollsvík.  Bjargferðin bygjaði með 5 klst lestarferð yfir fjöll...“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Erfiður á skapsmunum (orðtak)  Uppstökkur; þungur í skapi; ofstopafullur.

Erfiður/þungur eftirróðurinn (orðtak)  Eftirróður er það að róa á eftir öðrum bát, en kjalsogið getur torveldað hann.  Notað í líkingamáli um erfiðleika við að vinna mál/ ná markmiðum eftirá.

Erfitt að dæma í eigin (sjálfs sín) sök / Enginn er dómbær á/um eigin verk (orðtak)  Enginn getur séð eigin verk með sömu augum og aðrir.

Erfitt (er) að gera svo öllum líki / Enginn gerir svo öllum líki (orðatiltæki)  Gegnsæ og mikið notuð speki.

Erfitt að gera (einhverjum) til hæfis (orðtak)  Erfitt að gera svo einhverjum líki; vandlátur; sérvitur; kræsinn.

Erfitt/ekki á að ætla (orðtak)  Erfitt að vita fyrirfram/renna grun í.  „Það er erfitt á að ætla hvenær þeir koma“.

Erfitt/óhægt um vik (orðtak)  Umhendis; erfitt í framkvæmd.

Erfitt veitist þeim er ekki kann ( orðatiltæki)  Auðskilin speki; þeim gengur erfiðlega að vinna verk sem ekki kann aðferðina til þess.  Einnig haft þannig; illa gengur þeim er ekki kann.

Erfitt viðureignar (orðtak)  Erfitt að fást við.  „Tuddinn var dálítið erfiður viðureignar“.

Ergelsi (n, hk)  Það að vera argur.  „Þetta er komið út hreint í ergelsi hjá stjórnarandstöðunni“.

Ergelsisraus (n, hk)  Nöldur/kvartanir/skammir í ergelsistóni.  „Það þýðir ekkert að vera með svona ergelsisraus; þú verður að koma með rök fyrir þínu máli“!

Ergelsistónn (n, kk)  Yfirbragð þess sem sagt er, þegar það byggir á þrasi og nöldri fremur en rökræðu.  „Það var kominn einhver ergelsistónn í minnihlutann á fundinum“.

Ergilegt / Ergjandi (l)  Leiðinlegt; fer í taugar; vonbrigði.  „Það er ergilegt að þetta skyldi fara svona“.

Ergilegur andskoti (orðtak)  Áhersluorð um það sem gengur í móti.  „Það var ergilegur andskoti að ná ekki að taka upp strengina á Bótinni fyrir bræluna; þetta verður kjaftfullt af skít í næstu vitjun“.

Erinda (s)  Fara og gera/framkvæma fyrirfram ákveðna hluti/erindi.  „Hann sagðist eitthvað þurfa að erinda meira í kaupstaðnum áður en hann leggði af stað“.

Erindisleysa (n, kvk)  Um ferð sem farin er án árangurs; í tilgangsleysi.  „Ég fór í erindisleysu þegar ég reyndi að falast eftir þessu hjá honum“.  „Við erum búnir að sigla langan veg í tómri erindisleysu, sýnist mér“.

Erindreki (n, kk)  Umboðsmaður; kynningarfulltrúi.  „Á eftir sýndi erindreki Sambands Íslenskra Samvinnufélaga, Baldvin Þ. Kristjánsson, kvikmyndir“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Erja (s)  Erfiða; puða; vinna.  „Hittir hann bónda og spyr hver sá maður sé sem erji þar við taðkvörn, þegar allir aðrir dragi fisk úr sjó“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Erkibiskup (n, kk)  Sá embættismaður kaþólskrar kirkju sem stendur páfa næst að völdum.  Fyrir siðaskipti heyrði íslensk kirkja undir vald erkibiskupa sem fyrst sátu í Brimum til 1104, síðan í Lundi til 1153 og síðast í Niðarósi fram að siðaskiptum.  Siðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, útnefndi sjálfan sig erkibiskup, en hans haus var ekki lengi við herðar fastur eftir það.

Erkihálfviti/ Erkifífl / Erkibjáni / Erkiflón (n, kk/hk)  Mjög heimskur; víðáttuhálfviti.  „Erkifífl getur maðurinn verið“!

Erkiheimska / Erkivitleysa (n, kvk)  Víðáttuheimska; alger vitleysa.  „Það var auðvitað frámunaleg erkiheimska að ætla sér að reka kindurnar upp á þessum stað; það hefði aldrei gengið“!

Erkilygari / Erkiþrjótur (n, kk)  Mjög lyginn maður; lygalaupur; ósvífinn maður.  „Maður veit aldrei hvað kemur rétt frá þeim erkilygara“!

Ern (l)  Unglegur/hress miðað við aldur; ber aldurinn vel.  „Hann er enn mjög vel ern þó kominn sé á gamalsaldur“.

Erpingur (n, kk)  Vindingur, t.d. í viði þegar hann þornar o.fl.  „Það er erpingur í öskjunni, svo hún lokast illa“.

Errinn (l)  Argur; pirraður.  „Hann er misdrægur, en kappsamur og stundum errinn þegar honum gengur miður en honum líkar“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Errlaus (l)  Sem ekki er err í.  „Allajafna var aldrei gripið í spil í errlausum mánuðum í Kollsvík“.  „Oft kom það fyrir (í landlegum í Verinu), þótt ekki væri err í mánuðinum, að menn tóku upp spil sér til dægrastyttingar“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).

Ertingur (n, kk)  Erting; pirringur; ónot.  „Það er einhver bölvaður ertingur hálsinum á mér ennþá“.  Jafnan í karlkyni þar vestra en ekki kvenkyni, eins og annarsstaðar tíðkaðist.

Ertinn (l)  Um mann sem er gjarn á að erta/espa aðra menn upp.  „Honum er jafngott af þó hann fái til tevatnsins.  Hann verður þá kannski ekki svona ertinn á næstunni“.

Ertni (n, kvk)  Stríðni; hrekkir.  „Ykkur getur hefnst fyrir það að vera með þessa ertni við karlinn“.

Ertu eitthvað verri?! (orðtak)  Upphrópun þegar t.d. uppástunga þykir fráleit. 

Ertu frá þér? (orðtak)  Þetta er fráleitt; ertu bilaður?  „Ertu frá þér?  Þú mátt ekki hella sjóðandi vatni í glasið“!

Espa upp (orðtak)  Æsa/spana upp; ögra.  „Vertu nú ekki að espa karlinn upp; hann er svo fljótillur“.

Etja á (orðtak)  Siga á; hvetja til áhlaups.  „Ég atti hundinum á túnrollurnar“.  „Fíflinu skal á foraðið etja“.

Etja kappi við (einhvern) (orðtak)  Keppa við einhvern; deila við einhvern.  „Ég ætla ekkert að etja kappi við þig um þetta, því þetta veit ég“!

Etja saman (orðtak)  Hvetja til átaka/slagsmála.  „Það er ekki gustuk að etja þessum áflogahundum saman“.

Eyddur í hafið / Eyddur til hafsins (orðtak)  Skýjabakkinn í norðri er horfinn: „Hann er orðinn algjörlega eyddur til hafsins“.  Þau umskipti voru oftast ávísun á það að norðanátt væri gengin niður og því jafnvel von á sunnanáttum með vætutíð og óþurrki.  Sjá einnig bakki í hafið.

Eyða og spenna (orðtak)  Bruðla.  „Kerlingin sér um að eyða og spenna þeim aurum sem karlinn stritar fyrir“.

Eyðilagður (l)  A.  Um hlut; skemmdur; ónýttur.  B.  Um manneskju; niðurbrotin; í áfalli; í öngum sínum.  „Hún var alveg eyðilögð yfir að komast ekki í afmælið“.

Eyðileggingarárátta / Eyðileggingarnáttúra (n, kvk)  Sá ósiður að eyðileggja hluti að ástæðulausu og án tilgangs; vandalaháttur; ribbaldaháttur; skemmdarstarfsemi.  „Það er furðuleg eyðileggingarárátta að brjóta rúður allsstaðar þar sem enginn sér til“.  „Sumir eru illa haldnir af eyðileggingarnáttúrunni“. 

Eyðist það sem af er tekið (orðatiltæki)  Gegnsætt og mikið notað orðatiltæki.

Eyður (n, kvk, fto)  A  Auð/snjólaus jörð að hluta.  „Það eru víða komnar eyður eftir þennan hlýindakafla“.  „Það skal tekið fram skoðun lét ég dragast; mest vegna þess að tíðin hefur verið svo góð; sífelldar eyður og hvergi farið að taka lömb á gjöf ennþá“ (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1924).  B.  Vöntun á stöku stað.  „Hann skildi eftir eyður í fundargerðinni fyrir nöfn þeirra sem kjörnir voru“.  „Þegar kom framá vertíðina voru hjá sumum komnar eyður í kostinn“.

Eyðslukló / Eyðsluseggur (n, kvk)  Manneskja sem helst illa á fjármunum; eyðslusöm manneskja.  „Hann kvartar yfir því að ráðskonan sé óttaleg eyslukló“.

Eyglótt (l)  Litur á sauðfé; hvítt en svartir blettir kringum augun; annað eða bæði.  „Egill átti eyglótta kind sem nefndist Eygla, en móðir hennar var Lífgjöf sem mikil, væn og litskrúðug ætt var kominn af“.

Eygt (l)  Um egg; farin að myndast augu.  „Sum eggin voru stropuð, og tvö sá ég sem voru orðin eygð“.  Orðið sést ekki í þessari merkingu í orðabókardæmum, en er þekkt sem lýsing á augnsvip og um göt/holu í efni.  Sjá grúeygt/koleygt.

Eygja (s)  Sjá; koma auga á.  „Ég eygi enga möguleika á þessu alveg á næstunni.

Eyglótt (l)  Um lit á sauðfé; Hvítt á búk og höfuð en með dökkum lit í kringum augu; misáberandi.

Eyjólfur hressist (orðtak)  Ástand batnar/lagast. Haft með ýmsu móti; „Hver veit nema að Eyjólfur hressist“; „aldrei að vita nema að Eyjólfur hressist“.  Ýmislegt er á reiki um uppruna orðtaksins, sem orðið er landlægt og nokkuð notað í Kollsvík.  Ein sagan er sú að Eyjólfur þessi hafi verið hákarlaskipstjóri í Arnarfirði.

Eykt (n, kvk)  Þriggja klukkustunda skeið á ákveðnum tíma hvers sólarhrings.  Að fornu íslensku tímatali, sem notað var að nokkru framá 20. öld, var sólarhringnum skipt upp í átta tímabil; eyktir, en skilin milli þeirra eru eyktamörk.  Tímabilin voru; Miðnætti (hófst kl 24.00); ótta (3.00); miður morgunn /rismál (6.00); dagmál (9.00); hádegi (12.00); nón (15.00); miður aftann /miðaftann (18.00); náttmál (21.00).  Tilgáta er um að rót orðsins „eykt“ sé sú sama og „eyki“, og orðið „eykur“, um dráttardýr. Ekki er þó ósennilegra að stofninn sé að „auka“.  Sólin „eykur við“ liðinn tíma með gangi sínum; bætir við einni eykt eftir aðra.

Eyktarmark (n, hk)  A.  Tími sólarhrings á mótum tveggja eykta.  B.  Staður sem við eru miðaðar eyktir dagsins að fornu, þegar sólina ber þar yfir.  „Tvær gamlar vörður eru hér sem voru eyktamörk. Önnur heitir Nónvarða og er á Hjallabrúninni þar sem sól ber í hana um nónleytið (kl. 3 síðdegis) frá Grundum. Hin er Hádegisvarða sem stendur við Hádegisskarð sem er smáskarð í Hjallana í hádegisstað frá gamla bænum á Láganúpi“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).

Eykur sjó/báru (orðtak)  Sjólag versnar.  „...jafnsnemma leggur norðan kisur heim úr Blakknum og eykur norðan báru.  (KJK; Kollsvíkurver).

Eyma (s)  Gera aumari.  „Vertu nú ekki að eyma strákinn með því að vorkenna honum of mikið“!

Eymd (n, kvk)  Aumingjadómur; vesalmennska, sárafátækt.  „Tel ég þér til þrifa fátt;/ þína giftu kléna,/ ef þú sakir eymdar mátt/ eigi telpu þéna“ (JR; Rósarímur). 

Eymd og volæði (orðtak)  Aumingjadómur; vesöld; vonleysi.  „Eitthvað verðum við að grípa til bragðs; ekki dugir að leggjast bara í eymd og volæði“. 

Eymdargól (n, hk)  A.  Aumingjalegt væl/spangól t.d. hunds.  B.  Lýsing á slæmri tónlist.

Eymdarhokur (n, hk)  Búskapur við mikla fátækt.  „Margir flosnuðu upp frá sínu eymdarhokri inn til landsins í mestu harðindunum og leituðu þangað sem helst var bjargar von; í verin“.

Eymdarvæl (n, hk)  A.  Aumlegt væl; barlómur.  „Það er ástæðulaust að hafa uppi eitthvert eymdarvæl“!  B.  Heiti sem sumt fólk hefur um tónlist eða málflutning sem því vellur ekki í geð.

Eymdin uppmáluð (orðtak)  Mikil eymd/fátækt; mikil bágindi/harðindi.  „Það var andskotann enginn afli; sama hvar borið var niður:  Bara eymdin uppmáluð“!

Eymingi (n, kk)  Aumingi; armingi.  „Þetta er nú óttalegur eymingi“.

Eymsli (n, hk, fto)  Aumur staður; sársauki.  „Ég er með einhver árans eymsli í bakinu eftir byltuna“

Eymunatíð / Eymunatíðarfar (n, kvk/hk)  Einmunatíð; einmunatíðarfar; tímabil einstaklega góðrar veðráttu.  Oftar voru notuð orðin „einmunatíð“ og „einmunatíðarfar“ en þetta heyrðist einnig, enda merking sú sama.

Eyrarferð (n, kvk)  Ferð víknamanna í kaupstaðinn á Vatneyri (Patreksfirði).  Einnig talað um kaupstaðarferð, og í seinni tíð að fara á Patró.

Eyrarvinna (n, kvk)  Verkamannavinna sem býðst í fiskiþorpi.  Fólk úr sveitum Rauðasandshrepps hefur alltaf leitað nokkuð í eyrarvinnu á Patró, t.d. við fiskverkun, löndun, útskipun eða annað.

Eyrir (n, kk)  A.  Verðeining; 1/100 úr krónu.  Þar sem verðgildi krónu hefur sveiflast mjög frá einum tíma til annars er eyrir ekki alltaf í notkun.  (Ft; aurar).  B.  Þyngdareining á fyrri tíð.  Einn eyrir jafngilti 27 grömmum á tímabilinu frá um 1300 til 1618, en 31 eftir það.  Eyrir jafngilti 3 örtugum, og 8 aurar voru í einni mörk.  Á tímum vöruskiptaverslunar jafngilti þyngd verðmætum, og eyrir varð verðeining.

Eyrisvirði (n, hk)  Eins eyris virði.  (Eyrir = aur).  „Kotið er nú varla eyrisvirði ef karlinn selur frá því fullvirðisréttinn“!

Eyrisvöllur (n, kk)  Flatareining að fornu; 30 faðmar á kant. Góður sláttumaður átti að geta slegið fjóra til sex eyrisvelli á einni viku.  Einn og hálfur eyrisvöllur, í góðri rækt, var talinn gefa af sér eitt kýrfóður.

Eyrnalangur (l)  Um þann sem heyrir meira en honum er ætlað.  „Við skulum ekkert ræða þetta meira hér í sveitasímanum; sumir eru svo andskoti eyrnalangir stundum“!

Eyrnamark (n, hk)  Skurðir og afskurðir (ben) í jaðra á eyrum búfjár, einkum sauðfjár; til sönnunar á eignarhaldi.  Benin eru með stöðluðu lagi og á hver bóndi sína samsetningu þeirra.  T.d. var eyrnamark Guðbjartar á Láganúpi (eldri og síðar yngri) „stýft bæði og gagnbitað hægra“, en mark Halldóru á Grundum (og síðar VÖ) var „sneitt aftan og biti framan vinstra“.  „Eyrnamörk sem leyfilegt er að nota innan sýslunnar eru þessi: Biti, blaðstíft, fjöður, gagnbitað, hamrað, hálft af, heilrifað, hófur, hvatt, hvatrifað, lögg, sneiðrifað, sneitt, stig, stúfrifað, stýft, sýlt tvíbitað, tvífjaðrað, tvístýft“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).  Þessu til viðbótar voru til mörkin miðhlutað, hangfjöður og vagl.  „Kostur er að eiga glöggt mark sem fer vel á eyra og særir lítið.  Andskotanum er eignað markið: Þrírifað í þrístýft og þrettán rifur ofaní hvatt.  Afeyrt var það kallað þegar eyrað var skorið af kindinni niður við hlust.  Það mark var eignað biskupsstólunum, en var sumsstaðar kallað þjófamark“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).    Ekki má eta eyrnamark af sviðahausum og ekki skera eyrun af fyrir neyslu því þá er maður eða verður sauðaþjófur, segir þjóðtrúin.  Þeim reglum var ávallt fylgt í Kollsvík, líklega þó fremur til að heiðra forna hefð. Sjá mark.

Eyrnamerki (n, hk)  Merki sem sett var í eyra sauðkindar, oftast sem lambs, um leið og markað var.  Þessi merki voru löngum úr áli.  Þau voru heimagerð úr löngum álstrimli sem klipptur var niður; á þau var stimplaður tölustafur í hlaupandi talnaröð og síðan var strimillin beygður í hring eða (í Kollsvík) í aflanga baulu.  Gert var gat í eyrað með gatatöng; merkið opnað; því smeygt í eyrað og síðan klemmt aftur.  Síðar komu plastmerki sem keypt voru með ástimplaðri talnaröð; bæjarnúmeri og í svæðislit.  Þau voru ýmist þrædd í eyrað gegnum gat eða sett í með sérstakri töng.  Merkisnúmer hvers lambs var skráð í ærbók og notað m.a. þegar valið var til ásetnings eða til mats á afurðum.

Eyrnaníð (n, hk)  Óþolandi hljóð/hávaði/tónlist; það sem illbærilegt er að hlusta á.  „Slökktu nú á þessu andkotans eyrnaníði; það er merkilegt að einhverjir skuli kalla þetta tónlist“!

Eyrnaskítur (n, kk)  A.  Eyrnamergur.  B.  Slæmska/verkur/bólga í eyrum.  „Ég þarf að hafa góða húfu; það hefur einhver eyrnaskítur verið að hrjá mig í dag“.

Eyrnaspæll (n, kk)  Eyrnahlíf á húfu; speldi sem áfast er húfunni en nær niður yfir eyrun. Í þau er oftast fest hálsólum/reimum. 

Eysustraumur (n, kk)  Harður straumur; hart sjávarfall.  (Stofninn líklega „að ausa“; ausandi straumur; VÖ).  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

É-þátíðarending Í Kollsvík og nágrenni var yfirleitt notuð é-þátíðarending fyrir orð sem nútið höfðu aðaláherslu á „í“.  Þannig varð orðið „míga“ í þátíð „mé“ en sjaldnar „meig“, eins og reglan er í hinni flötu „reykvísku“ sem nú er landlæg.  Stíga varð sté en ekki steig; hníga varð hné en ekki hneig.  Hinsvegar var þetta ekki algilt.  Þannig var t.d. „síga“ beygð „seig“ í þátíð; a.m.k. á síðari tímum þó annað hafi e.t.v. gilt áður.

Ég á (nú) eftir að sjá það / Ég er nú rétt farinn að sjá það! (orðatiltæki)  Ég held að ekkert verði af því; ég trúi ekki á að af því verði.  „Hann segist ætla að klára þetta í dag, en ér er nú rétt farinn að sjá að það gerist“!

Ég á (nú bara) ekki (eitt einasta) orð! / Ég á ekki orð að segja/tala/ í eigu minni! / Ég á (nú) ekki krónu (með gati)!  Ég á ekki (eina einustu) tölu!  (orðtök)  Upphrópanir í hneykslun/undrun.  „

Ég er nú hræddur um það! (orðatiltæki)  Áherslusetning, oft notuð í byrjun setningar, þannig að í framhaldinu komi „að“ og síðan það sem óttast er.  Einnig notað sjálfstætt sem andsvar. 

Ég gef það tröllunum (orðatiltæki)   Um málefni/svar; ég legg lítið uppúr því; mér er alveg sama um það.

Ég geri við því / Ég geri ráð fyrir því  (orðtök)  Ég hygg/ætla svo vera; ég held það.  „Ég geri ráð fyrir að þeir leggi til næga menn til að smala Víkurbotninn“.  „Ég geri við því að þú hafir munað eftir að loka hliðinu“?

Ég get (svo) svarið fyrir (orðtak)  Ég er öruggur/handviss um.  „Ég get svarið fyrir það að þetta er kind en ekki snjóskafl“.

Ég hefði (svo) getað svarið fyrir (orðtak)  Mér fannst sannarlega; ég var mjög viss um.  „Ég hefði svo getað svarið fyrir það að þarna var stórlúða að narta í krókinn.  Kannski hún gefi sig til“.

Ég held nú síður! (orðatiltæki)  Neitandi upphrópun; nei alls ekki. 

Ég hygg/ætla svo vera (orðtök)  Ég held það; ég geri ráð fyrir því

Ég kalla það gott ef... (orðtak)  Það má mikið vera ef..; Mér finnst ótrulegt að..;  „Það lítur nú ekki vel út með þurrheyskap í sumar; ég kalla það gott ef við náum í fulla fjóshlöðuna“.

Ég legg það (nú) (alveg) til hliðar! (orðatiltæki)  Upphrópun eða viðkvæði sem oft var viðhaft þegar einvher sagði fréttir sem ekki þóttu trúverðugar eða vísuðu til ótrúverðugra fyrirætlana/ummæla.  „Ég legg það nú alveg til hliðar hvað hann þykist ætla að framkvæma; hann hefur ekki verið svo framkvæmdasamur til þessa“!

Ég líki því ekki saman (orðatiltæki)  Viðhaft þegar lýst er samanburði, t.d. gæðamun.  „Ég líki því ekki saman hvað þessi úlpa er hlýrri en hin“!  „Veiðin er miklu minni nú en í fyrra.  Ég bara líki því ekki saman“!

Ég læt það (alveg) vera! (orðatiltæki)  Tvær ólíkar merkingar, vanalega sín tóntegund og áhersla fyrir hvora.  A.  Upphrópun; mér ofbýður; nú gengur yfir mig.  Oft með áherslu á endaatkvæðum og snjöllum tón.  B.  Andsvar; ekki mikið; engin ósköp.  Oft í mildum tón og með áherslu á miðatkvæði.  Iðulega bætt orði/orðum: „Ég læt það nú alveg vera“.

Ég segi fyrir mig (og mína parta) / Ég segi fyrir mína parta (orðtak)  Frá mínum bæjardyrum séð; það er mitt sjónarmið; mér finnst.  „Þetta er alveg óásættanlegt, og ég segi fyrir mig og mína parta að ég tek engan þátt í svona vitleysu“!

Ég segi nú bara það / Ég segi það nú bara (orðatiltæki)  Áherslusetning, notuð á eftir fullyrðingu; einkum ef fullyrðingin er nokkuð frökk/djörf.  „Þetta er bara blóðugt óréttlæti; ég segi það nú bara“!  „Og fjandinn hossi þeim svo fyrir þetta tiltæki; ég segi það nú bara“!

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti (orðatiltæki)  Ég segi söguna eins og ég heyrði hana; án þess að ljúga neinu.  Oft notað í sveitaslúðrinu; þegar sagðar voru sögur af öðru fólki.

Ég skal ekki fara með það / Ég skal ekki segja (orðtök)  Ég get ekki fullyrt það.  „Ég skal ekki fara með það, en held það samt“.  „Þetta er alveg hugsanlegt; ég skal ekki segja“.

Ég skal (bara) segja þér/ykkur það! (orðtak)  Upphrópun; áherslusetning sem lýsir því að mælandi er annaðhvort stórhrifinn eða mjög hneykslaður.  „Hann náði að komast fyrir gemlinginn sem slapp!  Ég skal bara segja ykkur það“!

Ég skal þá hundur heita! (orðtak)  Svardagi/áherslusetning, oft með frekari skýringum/skilyrðum.  „Ég skal þá hundur heita ef við náum ekki minnst tíu máfum úr þessum hópi“!

Ég spyr nú ekki að!  Upphrópun; áherslusetning.  „Alltaf ertu jafn artarleg; ég spyr nú ekki að“!  Stundum er bætt „því“ fyrir aftan, og stundum er „nú“ sleppt.  Stundum þannig; „ekki er að spyrja að því“.

Ég veit ekki hvað og hvað (orðtak)  Ég veit ekki hvað meira; fjöldamargt fleira.  „Þarna í skúffunni ægði öllu saman; þar voru hnífar, gafflar, skeiðar, sleifar, breddur og ég veit ekki hvað og hvað“.

Ég ætla að eiga það við þig! (orðtak)  Þú verður; þú mátt alls ekki.  Áherslusetning sem mikið var notuð framundir lok 20.aldar en heyrist lítt sem ekki síðan.  „Þið megið skreppa aðeins norður í Á til brönduveiða strákar; en ég ætla að eiga það við ykkur að koma ekki heim rennblautir í fæturna eina ferðina enn“!

Él (n, hk)  Snjókoma í fremur stuttan tíma með hléum á milli, en oft dimm og með hvassviðri.  „Á uppsiglingunni hvarf bátur Dagbjartar í élinu og sást ekki framar“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  

Élja (s) Gera él; setja yfir él.  „Hann er farinn að élja fjári drjúgt“.

Élja sig (orðtak)  Breytast úr samfelldri snjókomu í él.  „Mér sýnist hann vera að élja sig eitthvað“.

Éljadrög (n, hk, fto)  Snjóél sem sjást sem afmarkaðir klakkar í hægu veðri, líkastir brúðarslæðum eða marglyttum í straumi, í nokkurri fjarlægð.  „Hann er með einhver éljadrög hér frammi á víkinni“.

Éljagangur (n, kk)  Gengur á með snjóéljum.  „Það er dálítill éljagangur, en ekkert að því að hleypa fénu út“.

Éljahraglandi (n, kk)  Strjál snjókoma í hvössu veðri.  „Við fengum bölvaðan éljahraglanda alla leiðina“.  Sjá hraglandi.

Éljahrotti (n, kk)  Hörð él; éljaskítur.  „Það gengur á með éljahrotta öðru hvoru en birtir inná milli“. 

Éljaleiðingar (n, kvk, fto)  Éljagangur, oftast í hægu veðri.  „Hann er með einhverjar éljaleiðingar í suðrinu“.

Éljaloft (n, hk)  Éljagangur, oft þannig mikil mugguél sjást án þess að úr þeim hafi enn snjóað verulega.

Éljaskil (n, hk, fto)  Bjartara veður milli élja.  „Hann fór í éljaskilunum og setti féð inn“.

Éljaskítur (n, kk)  Hörð él; éljahrotti.  „Hann ætlar að halda þessum éljaskít allan daginn“. 

Éljaveður (n, hk)  Veðrátta þar sem gengur á með éljum/snjóéljum. 

Éljóttur / Élóttur (l)  Éljagangur.  „Hann er eitthvað að minnka ofankomuna og orðinn éljóttari, sýnist mér“.  „Eitthvað er hann élóttur hér frammi á víkinni“.  Notað jöfnum höndum; líklega upprunalegra án j.

Éta (s)  Neyta matar.  Sögnin að éta var einungis notuð um skepnur og ruddalega borðsiði, en aldrei um siðað fólk eins og nú er plagsiður.

Éta af sér / Éta undan (orðtök)  Um vatnsfall/á/læk; bræða ís af yfirborðinu.  „Áin var víðast búin að éta af sér, en við komumst yfir á ísbrú uppi í mýrunum“.  „Gáðu vel í skurðina; þeir eru stórhættulegir þegar fer að étast undan í hlýjunni“.

Éta allt sem tönn á festir / Éta allt sem að kjafti kemur (orðtak)  Um svengd; borða allt sem ætilegt er og við hendina.  „Í mestu harðindunum át fólk allt sem tönn á festi og flykktist í verstöðvarnar í leit að bjargræði“.

Éta andskotann uppúr súru (orðtak)  Blótsyrði; fara í rass og rófu.  „Hann má þá éta andskotann uppúr súru fyrir mér; ég ætla ekki að dekstra þetta kenjakvikindi meira en orðið er“!

Éta á sig gat (orðtak)  Éta yfir sig; borða meira en góðu hófi gegnir; éta sér til óbóta.

Éta eftir (orðtak)  Apa/hafa/herma eftir; endurtaka.  „Vertu nú ekki að éta eftir, bölvaða vitleysuna úr honum“!

Éta hver sitt (orðak)  Hafa hver sína skoðun þó deilt hafi verið.  „Stundum rifust þeir bræður með miklum hávaða um eitthvað smáatriði, sem ekki virtist skipta miklu máli.  Át svo hver sitt á eftir, og gat verið þykkja í nokkra stund.  En yfirleitt var þetta rokið úr þeim á næstu mínútum“.

Éta ofan í sig (orðtak)  Um það þegar maður þarf að viðurkenna að það sem hann sagði var rangt.  „Hann þurfti að éta þetta allt ofan í sig aftur“.  Uppruni orðtaksins kann að vera þessi:  „Sagt er að í gamla daga hafi verið hegnt fyrir ljótan munnsöfnuð um náungann, uppnefni, lygar o.þ.h.  Var sú hegning í því fólgin að hið ljóta baktal var skrifað á sköturoð og sá seki látinn standa í kórdyrum við messu og eta roðið framan í söfnuðinum.  Kallað að eta ofan í sig“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).

Éta sér til óbóta / Éta yfir sig  (orðtök)  Borða meira en maður hefur gott af; éta á sig gat.  „Ég át mér til óbóta af ketsúpunni; hún var svo góð“.  „Nú er maður alveg búinn að éta yfir sig“.

Éta/naga sig sundur og saman (orðtak)  Vera á báðum áttum um; eiga erfitt með að taka ákvörðun.  „Maður er svona að éta sig sundur og saman með það hvort eigi að fara að leita að honum strax, eða láta sjá aðeins“.

Éta til þrifa (orðtak)  Vinna vel að matnum; borða það sem ananrs færi til spillis.  „Ég er löngu orðinn saddur.  Nú er ég bara að éta til þrifa“.  Sjá kroppa til þrifa.

Éta undan (orðtak)  Klaki á yfirborði vatns bráðnar neðan frá.  „Það er orðið hættulegt að fara yfir ána; það hefur étið undan hér og hvar“.

Éta upp (orðtak)  Klára mat/fóður.  „Kýrnar hafa étið alveg upp það sem þær fengu fyrir mjaltir“.

Éta upp eftir (orðtak)  Hafa eftir; endur taka.  „Það er óþarfi að éta alla vitleysuna upp eftir honum“!

Éta upp í skít (orðtak)  Haft um það þegar búfé étur vel það fóður sem gefið er; þannig að ekkert verður eftir nema spörð sem leynst hafa í því.  „Þetta hey hefur verkast vel; féð étur það upp í skít“.

Éta (einhvern) út á gaddinn (orðtak)  Borða allan matarforða einhvers.  „Ég ætla nú helst ekki að stoppa svo lengi að ég éti ykkur út á gaddinn“.  Vísar til þess að beita þurfti fé meira í haga, þegar ganga fór á fóðurbirgðir; jafnvel þó þar væri gaddur/jarðbönn.  En einnig þess að fólk flosnaði upp og fór á vergang ef bú varð matarlaust.  Sjá gaddur; setja á guð og gaddinn.

Éta (einhvern) út úr/af húsi / Éta einhvern á húsgang (orðtak)  Éta (einhvern) út á gaddinn; borða allan matarforða einhvers, svo hann neyðist til að fara á húsgang/vergang.  „Þú étur okkur varla ekki út á gaddinn þó þú fáir þér matarbita með okkur“!  „Ekki ætla ég að setjast upp og éta ykkur á húsgang“!

Éta/borða yfir sig / Éta/borða sér til óbóta (orðtak)  Borða svo mikið að manni verði ómótt/ líði illa af ofáti.  „Taktu nú eggin af borðinu áður en ég ét yfir mig af þeim“.  „Nú er maður búinn að éta sér til óbóta“!

Éta það/allt sem að kjafti kemur (orðtak)  Vera ekki matvandur; borða það sem fram er borið.  „Vertu ekki að tína þetta úr matnum drengur; þú bara étur það sem að kjafti kemur og engin genverðugheit með það!

Éta það sem úti frýs (orðtak)  Éta skít, mold eða annað í stað matar.  „Ef þú vilt þetta ekki þá geturðu bara étið það sem úti frýs“!

Éta þurrt (orðtak)  Borða án þess að hafa viðbit eða eitthvað að drekka.  „Ætlarðu að éta brauðið þurrt“?

Étast upp (orðtak)  A.  Eyðast og hverfa.  „Fjandi eru þessi dekk fljót að étast upp“.  B.  Um fóður; verða étið.  „Gefðu bara kálfunum það sem ekki ést upp hjá kúnum; þeir snasa eitthvað í það“.

Éta það sem að kjafti kemur (orðtak)  Borða hvaðeina matarkyns sem í boði er; vera ekki matvandur.  „Það þýðir ekkert að vera með neina sérvisku; hér étur maður bara það sem að kjafti kemur“!

Éta þáttalega (orðtak) ....óviss merking....(S.G. telur að það merki að borða ósiðlega; gófla í sig matnum)  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Étast (s)  A.  Vera étinn/borðaður.  „Féð er gírugt í meltuna, en annars ést þetta fóður fremur illa“.  B.  Eyðast úr.  „Það hafði étist svo mikið úr norðurbakka árinnar að féð komst ekki uppá hann“.

Étast upp (orðtak)  A.  Eyðast af.  „Fjandi eru þessi dekk fljót að étast upp“.  B.  Um mat/fóður; klárast.  „Hákarlinn var fljótur að étast upp, enda var hann ári vel verkaður“.

Éttu skít! / Éttu það sem úti frýs! (orðatiltæki)  Skammaryrði; myndlíking.  Merkir nokkurnvegin; „þegiðu“ eða „Þú getur bara átt þig“.

Leita