Jochum M. Eggertsson:

___________________________________________________________________________

Jochum Magnús Eggertsson (09.09.1896-23.02.1966) var sonur Eggerts Jochumssonar sem bjó á Melanesi á Rauðasandi 1862-1867.  Eggert var fæddur á Skógum í Þorskafirði, bróðir þjóðskáldsins Matthíasar.  Frá Melanesi fór hann aftur í Reykhólasveit, og átti þar Jochum með síðari konu sinni Guðrúnu Kristjánsdóttur. 

jochumJochum var þjóðkunnur rithöfundur, skáld og alþýðufræðimaður.  Skrifaði gjarnan undir skáldaheitinu „Skuggi“.  Eftir hann liggur allnokkuð af bókum, smásögum, ljóðum og efni um þjóðlegan fróðleik. Teikningu lærði hann af eldri hálfbróður sínum; Samúel Eggertssyni, sem var landsfrægur teiknari og kortagerðarmaður.  Samúel, sem var nær 30 árum eldri, fæddist á Melanesi; bjó um tíma á Stökkum, en 1903-1908 á nýbýli sem hann stofnaði í landi Láganúps í Kollsvík og nefndi Grund.  Samúel og Marta kona hans tóku Jochum að sér á 3ja ári, og var hann því hjá þeim á Grund og fluttist með þeim til Ísafjarðar og síðan Reykjavíkur. 

Eftirfarandi frásögn Jochums er líklega sönn en með skáldlegu ívafi, en honum var lagið að færa raunveruleikann í ævintýralegan búning.  Frásagnamátinn er lifandi og orðkynngi mikil.  Sögnin birtist í sögusafninu „Því gleymi ég aldrei“ 1942, undir nafninu „Trýnaveður“; og í Eimreiðinni 1949 undir sama heiti.  Í Eimreiðinni er frásögnin í lengri og skáldlegri búningi:  Byrjar þar með því að sögumaður tekur tal við sjómanninn Úlf Uggason á veitingastofu.  Úlfur ræðir fyrst heimspekilega um veiðiskap en segir því næst frá því þegar hann, ellefu ára, reri sem hálfdrættingur úr Láturdal og lenti í ofsaveðri sem hann nefnir Trýnaveður. 

Lesandanum er eftirlátið að finna mörk skáldskapar og veruleika.  Ætla má að persónuheiti og samtöl séu skáldskapur, og hjátrú hafði Jochum í nokkrum hávegum.  Hinsvegar er góður fótur fyrir flestu öðru:  Jochum lýsir greinilega aðstæðum í Láturdal af reynslu. 

Líklegt er að Jochum hafi sjálfur róið sem hálfdrættingur úr Láturdal þrátt fyrir ungan aldur:  Fátæktin var mikil á kotinu litla á Torfamel í Kollsvík og börn fóru snemma til sjós í þann tíð.  Jochum (líkt og persónan Úlfur) var ekki nema 11 ára þetta ár, en á sama ári flyst hann með bróður sínum úr Kollsvík til Ísafjarðar.  Mikil verstöð var þá í Kollsvíkurveri en einhverra hluta vegna hefur honum samt verið komið til róðra í Láturdal. 

Í Láturdal hefur aldrei verið byggð, en þar var allnokkuð útver, sem stóð fram á 20. öld.  Síðasta heimild um útræði þaðan er Guðmundur Einarsson, síðar bóndi á Brjánslæk.  Hann rerið þar ásamt fleirum árið 1913, og segir af því í bók hans; "Kalt er við kórbak". 

Þá er það „Trýnaveðrið“ sjálft.  Sumir hafa talið, líklega vegna ævintýrafléttu um spádóma og hrafna, að bæði veður og bátstapi væri uppspuni.  En þegar betur er að gáð sést að þessi frásögn Jochums byggir á raunverulegum atburðum. 

Báturinn sem fórst reri frá verstöðinni Hvannadal, sem er í Tálknafirði sunnanverðum; nokkru utan Suðureyrar.  Formaður hans var Bjarni Gíslason, sem bjó þá á Lambeyri ásamt konu sinni Magnfríði Magnúsdóttur.  Höfðu þau flutt þangað frá Eysteinseyri 1904 og áttu 8 börn.  Á Lambeyri bjó einnig sonur þeirra, Gísli Bjarnason (f. 14.04.1881) með konu sinni og þremur börnum.  Gísli var á báti föður síns og drukknaði þennan dag, en fjölskyldan sundraðist.  Einum syni hans var komið fyrir á Hvallátrum, þar sem hann dvaldi til 12 ára aldurs.  Var það Bjarni M. Gíslason rithöfundur og mikill baráttumaður í handritamálinu.  Við hann er kennt mið framundan Vatnadal í Láganúpslandi.  Þriðji maður á bátnum var Níels Þórðarson lausamaður, rúmlega sextugur, og hinn fjórði nefndist Þorleifur.  Var sá nýfluttur sem vinnumaður að Gileyri í Tálknafirði ásamt konu og tveim dætrum.  Þetta voru þeir fjórir sem reru til fiskjar frá Hvannadal hinn 12. júní 1908 og fórust í Molduxadýpinu. Fimmti maðurinn ætlaði einnig í þennan róður, en hann datt og meiddi sig er hann var kominn í sjóklæðin, og varð því eftir í landi.  (Heimildir: BÞ; Landið, fólkið og sjórinn.  VB; Vökustundir að vestan; Þjóðviljinn ungi 10.07.1908; Templar 23.07.1908).    

Lýsingin á stormsveipnum sem grandaði Tálknafjarðarbátnum minnir helst á lýsingu af skýstrokk, en slík veðurfyrirbæri eru fátíð á þessum slóðum.  Spurning er hvort slíku hafi slegið fyrir Tálknann?

Heitið„trýnaveður“ er annars notað almennt um hvassviðri af norð- norðaustri; þ.e. veðri sem stendur suður með öllum núpum (trýnum) Vestfjarða, en það getur orðið gríðarhvasst.  Má í því efni minna á orðalagið „á Tálkna og trýnum“, sem er heiti á fiskumiði undan Útvíkum, sem minnst er á í sögunni og enn notað.  Í Lögréttu 15.07.1908 segir að norðan hvassviðri hafi verið á þegar Tálknafjarðarbáturinn fórst.  Í Vestra 11.07.1908 segir að aftaka norðanveður hafi verið þennan dag og því hafi fáir róið.  Það fellur þó ekki að lýsingu Jochums hér á eftir.

Hér á eftir er inngangur frásagnarinnar allmikið styttur frá því sem hann birtist í Eimreiðinni, en sumpart sameinaður þeim hluta sem birtist í „Því gleymi ég aldrei“, því útgáfurnar greinir á í stöku atriðum varðandi orðalag þó staðreyndir séu þær sömu.  Gripið er niður þar sem persónan Úlfur Uggason hefur lýsingar sínar af sjómennsku í Láturdal.                                                                                                      -VÖ-

__________________________________________________________________________________________

— Frásaga Úlfs Uggasonar. —

Ekki þarf Ulfi að lýsa. Hann er eins og fólk er flest. Þar að auk þjóðkunnur. Ættir sínar gæti hann eflaust rakið um Eddu Snorra út til landnámsmanna í gegnum kóngakynið, þetta eitthvað ofan við þrítugasta liðinn. Þaðan alla leið upp í Óðin alföður og aðra stór-guði. Ekki meir um ættina….

„Segðu mér nú eitthvað af þinni sögulegustu veiðiför", sagði ég. Við vorum setztir inn í horn á viðkunnanlegri veitingastofu, tveir einir. Höfðum fengið hressingu. Vorum að ræða um veiðiskap. Fátt var um fína gesti. Fór vel um okkur. — Afkróaðir innst í skoti….

 „Þú hefur alla þína ævi veiðimaður verið"sagði ég.  „Víst hef ég veiðimaður verið, frá því fyrst ég man". „Hvers vegna vilja menn veiða?" spurði ég. Þá mælti Ulfur: „Það er nú þrautin, þessu að svara: Sjálfsbjargarviðleitni, eðlishvöt, ánægja, „sport", íþrótt, eða hvað það kallast eitt sér, eða allt í sameiningu. … Sannur veiðimaður ann veiði sinni. Það réttlætir veiðihvötina og veiðiþörfina.   En óþarfa dráp og meiðingar saklausra dýra er andstyggð skynseminnar" .

Þögn. 

Þessu næst tók Úlfur Uggason aftur til máls: „Þetta, það er ég nú hef þér sagt, verður víst að teljast góðlátlega heimskulegt rabb og hugarórar um veiðiskap á víð og dreif.

--------

Aðeins tíu ára gamall byrjaði ég að sækja sjó. Var þá farinn að vinna fyrir mér sjálfur. Hef reynt að halda því við síðan.  Ellefu ára var ég, er saga sú gerðist, er nú segi ég þér. Það var seinna vorið, er ég var hálfdrættingur í Láturdal. Ég man þetta svo lengi sem ég lifi.

Blakknes eða Blakkur heitir hamranes eitt mikið, hátt og hrikalegt, er skagar út og vestur í opið hafið fyrir sunnanverðu mynni Patreksfjarðar, milli Hænuvíkur og Kollsvíkur.  Þar inn í Blakkinn norðanverðan, fyrir opnu reginhafi, gengur dalbora lítil; líkt og skorin með bjúghníf úr berginu, er ber nafnið Láturdalur. Þar hefur löngum verið útræði lítið um vorvertíð, er helzt fram á fyrsta áratug okkar yfirstandandi (20.) aldar, en er nú aflagt með öllu. Nú mundi enginn kjósa að hafa þar uppsátur eða útræði, hvað sem í boði væri, svo erfið er aðstaða öll. Svona eru tímarnir breyttir, sem betur fer. Flest mun hafa róið þaðan 3 - 4 bátar, allt fjögra manna för, opnir auðvitað, knúðir árum og segli. Í þessu dalverpi er undirlendi ekkert, nema stórgrýtt fjöruborðið og sjávarmölin undir bökkunum, er gnæfa þar rígefldir og hráslagalegir með inngröfnum klettaskútum, nöguðum, sorfnum og sleiktum af höggum og hrannaslögum síólgandi úthafsins. Lækjarleiðingur rann þar niður úr dalverpinu; niðandi niður úr kvosinni ofar; slúðraði bergvegginn og fyssaðist fram af bökkunum niður í fjörugrjótið. Verbúðirnar hníptu uppi á bökkunum, allhátt uppi beggja megin lækjarsprænunnar, og sjávargatan ógreiðfær upp snarbratt einstigi. Refir áttu greni í urðardyngjum beggja megin dalnefnunnar og voru alltaf á þönum að afla sér fanga; milli þess að eiga í útistöðum við lyftingjana; veiðibjöllur, spóa, kríur og hrafna. Undir bökkunum í skjóli klettaskúta, en þó á opnu svæði, var fiskurinn saltaður. Heilagfiski og steinbítur var að mestu þurrkað og hert og borið upp á bakkana . Þar hafði verið hróflað saman hengihjalli af rekaviði.

Ekki er hægt að hugsa sér óhugnanlegri aðstöðu, ellegar þá þrælslegri. Engar kröfur til verksparnaðar eða verklagni; það var leti.  Engar kröfur til þæginda; menn þekktu ekki annað betra. Fyrstu mótorbátarnir voru þá að vísu komnir á Eyrar (Vatneyri og Geirseyri); ógurlegir skellikjaftar, alltaf að bila.

Þetta var seinna vorið, sem ég var hálfdrættingur í Láturdal, vorið 1908, að sagan gerðist. Ég var þá aðeins ellefu ára, langsamlega of ungur og óþroskaður til að eiga í því ógnar harðræði, en þó farinn að bögglast við að yrkja, allur í draumórum og flaut sofandi flesta daga. Oft var líðan mín átakanleg, einkum fyrra vorið, er ég var aðeins tíu ára. Maturinn þurrmeti: brauð og kæfa og smér, sjaldan soðning. Kolsvart rótarkaffi með kandís. Mikið var ég máttlaus og lystarlaus, mikið bauð mér við kaffinu, og mikið langaði mig í mjólk. Sýrublandan helzta huggunin og merkilegasta heilsubót. Aldrei hafður matarbiti með á sjóinn; bara blöndukúturinn.

Oft voru miklar vökur, þegar gæftir voru góðar, og róið á nóttum. Oft var ég alveg úrvinda og nær dauða en lífi. En þarna var ég hjá vandalausum og farinn að vinna fyrir mér sjálfur þó ungur væri.  Þarna var um tvennt að velja; duga eða drepast.  Þó verið væri með línu, var ég samt oft úti með mitt færi og var fiskinn, svo lítill munur var á mínu hálfdrætti og hásetahlutnum, en mjótt var stundum milli handa og ekki rösklega dregið. Kölluðu þeir það „að mjólka tík", hásetarnir. „Fallega mjólkar hann tíkina núna , sá litli", sögðu hásetarnir. „Alltaf kemur hann þó með eitthvað upp á endanum" , sagði formaðurinn. „Það verður þó ekki alltaf sagt um okkur hina" . Alltaf var hann reiðubúinn að taka málstað minn, þó röskleikamaður væri hann og vinnugarður.

Fiskisælt var þarna við Blakknesröstina, en straumþung verður hún oft og úfin, og gefur þá lítið eftir systur sinni, Látraröst. Þegar ég var á nóttunni, máttlaus og dauðsyfjaður, að fara í lýsisborna sjóbrókina, til að róa, þá kúgaðist ég svo af viðbjóði, að gekk upp úr mér grænt gallið, en aldrei fann ég til eftir að ýtt var frá landi og búið að biðja fyrir sér, eða lesa sjóferðabænina, eins og þá var alsiða. Ég brúkaði sjálfur mína eigin bæn, því ég fór snemma minna eigin ferða. Bæn mín var vísa úr  „Sögur og kvæði" , fyrstu bók Einars Benedtktssonar. Bláfátæk vinnukona gaf mér þessa bók; það var eina bókin, er hún átti, og eina silfurkrónu að auk; ég hafði bjargað einu kindinni, sem hún átti. Það var stór, hvítkollótt ær, komin að burði. Ærin hafði dottið niður um snjóhengju og afan í lækjarpytt, stóð þar á síður í svellköldu vatni og gat sig nvergi hrært. Ég fór út um hánótt, upp úr rúminu, Iíkt og í leiðslu, eða knúður af ósýnilegu afli; fór heila bæjarleið og fann hana, en varð að vekja upp og fá mannhjálp til að bjarga henni. Ærrin var aðframkomin, en lifði vegna ágætrar aðhlynningar og fæddi tvö gullfalleg lömb. Stúlkan grét, þegar hún gaf mér kverið og krónuna; blessaði mig og spáði mé  mikilli gæfu. Vísan úr kverinu, er ég notaði að sjóferðabæn, er svona:

Bíddu rótt, sé boðið ótt,
blekkist fljótt, sá gladdist skjótt.
Gráttu hljótt, því þor og þrótt
í þunga nótt hefur margur sótt.

Já, ég var hjá vandalausum, en Jón Jónsson, formaður og eigandi bátsins, var húsbóndi minn. Hásetar hans, þá er þetta skeði, hétu Abraham, Isak og Jakob“. 

Nú held ég, að þú sért farinn að kríta liðugt", varð mér að orði;  „Þetta voru forfeður Israelsmanna“!  „Það er allt í lagi með það", sagði Úlfur Uggason. „Það eru fleiri hundar svartir en hundurinn prestsins. Mannanöfnunum er af vissum ástæðum lítið eitt vikið við, en allur þungi sögunnar, að öðru leyti, alsannur. Þessi nafnabreyting er líka af því að í landlegunum voru þeir alltaf að láta mig yrkja. Margt bar á góma, þar á meðal mállýzkur annarra landshluta. Um Austfjarðamálið kunnu þeir eftirfarandi vísu:

Kani, tussi, kirna, skjóla, kola, tessi:
öll eru hér í einu vessi
Austfirðinga sprokin þessi.

Með því að enginn virtist vilja taka málstað Austfirðinga, þá reyndi ég að gera það, enda þótt ég væri Vestfirðingur á gagnstæðum landsenda, og „vistaði í vessi einu Vestfirðinga sprokin hreinu" :

Dallur, kæna, drilla, hlæna, dúnkur, spanda;
vissulega í verki og anda
á Vestfjörðunum sitja og standa.

Og ennfremur:

Dornings-þollur, dittus-pollur, dráttar-gola;
aldrei heyrast víla og vola,
þó verði straffið eitt að þola.

(Neðanmálsskýringar: Dornings-þollur = skinnsokkakvísl; dittus-pollur = sjókvíslarstæði; dráttar-gola = ífæra, sbr golþorskur).

Sjóbúðin var lítil og lág, aðeins 6 x 4 álnir innan veggja; gerð af grjóti og rekavið; þéttuð og þakin mosa og blágrýtishellum. Gólfið blágrýtisklöpp með moldarlagi ofan á. Gat á þekjunni í glugga stað. Dyr fyrir miðri austurhlið. Yfir þeim hafði eitt sinn verið örsmár gluggi. Í honum var nú engin rúða. Þrír rúmbálkar, grjóthlaðnir, voru í búðinni, meðfram báðum göflum og vesturvegg; matarkoffortin eða skrínurnar hafðar við höfðalag á hverjum bálki. Abraham lá einn á bálki við vesturvegg, gegnt dyrum. Hann var aldursforseti og hélt þeim góða og gamla sið að berhátta og sofa allsnakinn. Isak og Jakob hvíldu saman í fleti undir suðurgafli. En Jón Jónsson, formaðurinn, og ég, hálfdrættingurinn, sváfum saman í norðurenda; ég fyrir ofan hann innst við gaflinn. Hann er húsbóndi minn og er mér afbragðsgóður, og sama má segja um hásetana.

Abraham signdi sig ávallt áður en hann fór í skyrtuna sína, en gluggaði þó ögn í hana áður; „uppá smælki að gera“.  „Þessi kvikfénaður fylgir manninum og er hans heilsubót, en það verður að vera í hófi“, segir hann.  „Það eru nefnilega vessarnir sem þetta smælki nærist á“. Þegar leit út fyrir landlegu, flýtti hann sér ekki fetið að fara í skyrtuna, en skoðaði hana því betur.  Um nætur lá hún uppi á skrínunni hans við höfðalagið; ofaná öðrum nærfötum.  „Þetta smælki hefur þá náttúru að leita ofaná“ sagði hann sannfærandi.

Aðfaranótt föstudagsins 12. júní 1908, um albjart óttubil, hrekk ég upp og glaðvakna. Formaðurinn lætur illa í svefni. Hann kippist til og umlar í rúminu og brýzt um á hæl og hnakka. Loks kveður hann vísu og vaknar, snarast fram úr, hyssar upp um sig nærbrókarhaldinu, hrindir upp hurðinni og skundar út. Kemur inn aftur, að stundu liðinni, kveikir á „kogaranum" , kallar háseta og kveðst ætla að róa. Abraham var þá risinn upp og farinn að rýna í skyrtuna. Dyrnar voru opnar. Uti var skellibjart, sólskinslaust, en blika í lofti og blæjalogn.

Abraham mælti: „Að róa, segir þú! Drottinn minn! 1 dag hefði ég kosið landlegu! Eða hvað dreymdi þig, formaður“?  „Það dreymdi mig", segir formaður, „að við værum rónir og sætum á „Tálkna og Trýnum", Kollsvíkurmiði, og að hann Úlli setti í svo heljarmikinn og stóran steinbít, að hann réði ekki við neitt, eins og þegar hann setti í stóru sprökuna, svo ég varð að taka við færinu af honum og draga. Það ætlaði ekki að ganga greitt að ná skepnu þessari upp að borði, og það er þá bara stembítur! En það er sú ógurlegasta skepna, sem ég hef nokkru sinni séð, og það lá við sjálft, að hann grandaði bátnum og dræpi okkur alla. Loks tókst mér þó að hala hausinn á honum upp á keipinn og rota hann, svo hausinn lá inni í bátnum og yfir í borðið hinum megin og fyllti allt austurrúmið, en skrokkurinn og afturendinn einhvers staðar langt út í sjó. Þá heyrði ég kveðna vísu, eins og hún kæmi úr loftinu, en það var enginn maður, sem kvað hana, og þó tók ég sjálfur undir:

Höfuð lætur hann hníga að vegg
hetjan öfundsjúka.
Erlendur sitt yfirskegg
alltaf er að strjúka.

(Þessi vísa gekk milli manna í Rauðasandshreppi; ort um Erlend á Hvallátrum.  Virðist sem Jochum hafi gripið hana af handahófi, fremur en að hún eigi nokkuð skylt við efnið -VÖ-).

 „Það bregst mér ekki…" , sagði Abraham og gómaði sláturpening, „…að það er Trýnaveður í aðsigi, og ættum við ekki að róa í dag. Það gerir manndrápsveður“! sagði hann og signdi sig. „Þú reynir það og sannar! Eða manstu ekki eftir hrafnsunganum, er hlunkaði í sjóinn undir Hafnarmúla í landsunnanrokinu í fyrravor; fyrir réttu ári síðan?  Hvað sagði ég þér ekki þá; þegar hrafnsungagreyið flaug upp undan fótum okkar og hátt í loft, en barst undan veðrinu frá landi; hafði sig ekki móti rokinu og féll á sjoinn og rak til hafs; beint á Tálkna og Trýni. Ég sagði þér þá að næsta ár, um sama leyti, mundi gera austan áhlaupshvell og Trýnaveður, og þá mundi farast bátur, og brotin úr honum reka þar að landi, er hrafnsungann tók upp. Já, ég segi það! Þú ættir ekki að róa í dag“!

„Komdu þér í skyrtuna, karl minn" , sagði formaðurinn. „Ég hefði viljað landlegu í dag“! svaraði Abraham. „Jæja, sittu þá í landi; þér til ævarandi svívirðingar og blóðugrar skannnar", sagði formaður. „Eg ætla nú að róa samt. Eg læt þá hann Úlla gera þér það til skammar að skipa þitt rúm. Þú hefur víst heyrt máltækið: að sá bátur ferst ekki í sjó, sem hefur heiðinn hálfdrætting í stafni. Hann Úlli er aðeins ellefu ára og heiðinn og ókristnaður ennþá, eins og þú veizt". „Og skyldi maður þá ekki fljóta með þér eins og fyrridaginn , sagði Abraham og signdi sig og jós sér í skyrtuna. „En ekki veldur sá, er varar".

„Eg er að hugsa um að halda norður í Molduxadjúp að þessu sinni", sagði formaðurinn. Við hleypum þá í Fjörðinn, ef hann fer á Trýnin. Þarf hvort sem er að koma á Eyrar til að semja um mótorbát, að sækja fiskaflann fyrir lokin".

Þegar við fórum til skips, gekk formaður fyrstur niður bakkann, en stakkst á höfuðið og hrapaði alla leið niður í fjöru. Hann fleinbraði sig bæði á höndum og andliti. „Þá er maður nú farinn að fljúga og hefur sig þó sízt hærra en lirafnsunginn; aumingja hrafnsunginn hans Abrahams. En hvað um það : Fall er fararheill; frá en ekki að"! Abraham brá við og þerraði blóð af formanni á fingri sér, gerði síðan krossmark með blóðinu á stefni bátsins, bæði framan og aftan. „Svo mun eigi saka", sagði hann. Síðan var báturinn settur fram, og færður á flot, og settust allir undir árar, utan hálfdrættingshvolpurinn, er hímdi í skut. Allir tóku ofan höfuðfötin, signdu sig eins og venjulegt var, lásu sjóferðabæn, hver með sjálfum sér; signdu sig aftur og settu upp höfuðfötin. Það var dauðalogn í lofti, líkt og blýhattur, en kynleg undiralda með einhverskonar öfugstreymi og uggvænlegum óróa.

Eftir nærri klukkutíma róður vorum við komnir norður í Molduxadjúp. Þar var fyrir bátur með fjórum mönnum og var að draga línu. „Einhverntíma hafa þeir vaknað og farið úr fletinu, þessir , sagði formaður. „Skyldi það vera munur en hundarnir á hinum bæjunum. En hvaðan skyldi hann vera, þessi bátur?  Hann er hvorki úr Patreksfirði né neinstaðar úr Víkunum! Við skulum halda nær honum, svo við vitum hvaðan hann er og hvernig afla hann hefur. En ef hann er úr Tálknafirði; hvað eru þeir að flækjast hingað? Þetta eru ekki þeirra mið“! 

„Í guðs almáttugs bænum" , andmælti Abraham. „Förum ekki nær þeim en snærislengd (60 faðmar) og tölum ekki við þá eitt einasta stakt orð!  Báturinn er úr Tálknafirði; bráðfeigur, og allir mennirnir sem í honum eru.  Talið ekki við þá, gerið það ekki í guðanna bænum“!  Þessu var ekki svarað einu orði. Ekki var þó haldið nær hátnum og ekkert við mennina mælt.

 Skömmu síðar skipaði formaður leggja upp og „reyna" . Við höfðum meðferðis nokkrar lóðir, svona sem svaraði einu tengsli, en þær voru uppstokkaðar og óbeittar; tilætlunin að beita þær út, ef svo vildi verkast, en annars skaka með færum. Nær fullur kúffiskspoki var í bátnum ásamt nokkrum vaðsteinum, og kom það í góðar þarfir síðar, sem seglfesta, þó ætlað væri til annars í fyrstu. Allir renndu færum, nema Abraham. Hann sat undir árum og andæfði.

Brátt urðum við varir, en það var nær eingöngu flatfiskur, svo undarlegt var það. Við drógum þarna á skammri stund nær 30 smálúður. Mun engin þeirra hafa verið yfir 18-20 pund. Ég man það, að ég dró sex „lóur"; hverja á fætur annarri.

Allt í einu kemur formaður upp með geysistóran grallara, en því nafni eru nefndir risastórir skarkolar (rauðsprettur). En það einkennilegasta við þennan grallara var það, að hann var merktur í sporðinn. Það var sneiðing; auðsjáanlega gerð af manna höndum með beittum hnífi. Virtist markið mjög nýlegt, því sárið var eigi fullgróið. Eftir þennan drátt varð enginn lífs var. Abraham beiddist að skoða grallarann, og var honum hent fram í hálsrúmið til hans. Þetta var það geysilegur hlemmur; gamall og horaður með ofboðslegan haus.  Í einu orði sagt; ódráttur.

Abraham laut þá niður að grallaranum og tók að lesa á hann, líkt og æfður lesari húslestur á prentaða postillu. Abraham var sagður ólæs og óskrifandi.  Mun það þó hafa verið rétt, að hann var ólæs á venjulega bók eða blað, þótt hann læsi reiprennandi á alla hluti aðra; dauða og lifandi. Hann las nú á grallarann líkt og æfðasti kunnáttumaður les Jónsbókarlestur úr Vídalínspostillu. Hann sagði, að Gunnlaugur frá Hænuvík, sem þá var á þilskipinu „Pollux" frá Patreksfirði, hefði fengið þennan kola á færi „úti fyrir Víkunum" fyrir 8 dögum síðan; merkt hann í sporðinn þessu merki, er væri hans fiskimark, og að því búnu varpað honum fyrir borð. Grallari þessi, sagði Abraham, væri tæp 17 pund á þyngd, og að Gunnlaugur mundi drukkna hér í hafinu, úti fyrir Vestfjörðum, að tæpum 17 árum liðnum frá þessum tíma að telja. Hann mundi týnast einmitt í sömu átt og úr kæmi manndrápsveður það, er nú væri í aðsigi; og rétt aðeins ókomið" . Að svo mæltu stakk hann fingri undir tálknop grallarans, vó hann og dró hann hægt og hispurslaust upp með byrðingnum, laumaði honum gætilega út fyrir borðstokkinn og lét hann í sjóinn".

„Reyndist þetta ekki eintóm rökleysa og kjaftæði? " spurði ég. „Nei. Það var nú eitthvað öðru nær! " svaraði sögumaður. „Enginn okkar vissi þá, að Gunnlaugur væri á þessu skipi, er Abraham nefndi. En þetta kom allt fram og reyndist rétt, er hann sagði. Formaðurinn hitti Gunnlaug á Eyrum, hálfum mánuði síðar, og reyndist þetta rétt með „grallarann" . Gunnlaugur hafðí dregið stóran grallarahlemm á þeim degi og á þeim stöðvum og á því skipi, er Abraham tiltók; merkt hann áðurgreindu merki og kastað honum fyrir borð. En þetta gat enginn vitað út í frá, því skip það, er Gunnlaugur var á, hafði ekki haft neitt samband við land, frá því grallarinn var fyrst veiddur og merktur, og var einhversstaðar úti á rúmsjó, ókomið inn úr veiðiför, þá er hann endurveiddist. Þetta var föstudaginn 12. júní 1908, er Abraham las á „grallarann" . Víst man ég þann dag eins og gerzt hefði í gær. Það er dagurinn mikli. Og allt kom það fram, er Abraham sagði fyrir um afdrif Gunnlaugs. Gunnlaugur drukknaði úti fyrir Vestfjörðum tæpum 17 árum síðar, af togaranum Field-Marshall Robertson, er fórst þar með allri áhöfn, 35 mönnum, í mannskaðaveðrinu mikla, 7.-8 . febrúar 1925. I því sama veðri, og á sömu slóðum, fórst þá um leið annar íslenzkur togari, Leifur heppni, með allri áhöfn, 32 mönnum".

„Þetta heitir nú að vera þægilega vitlaus! " varð mér að orði. „Það má vel vera", svaraði Úlfur Uggason. „En ekki hafði Abraham fyrr lokið við að lesa á kolann og laumað honum út fyrir borðið en hann lagði á fyrstu þoturnar; eins og hendi væri veifað.  Það var eins og þoturnar kæmu beint að ofan; úr háalofti, og skullu á sjóinn eins og byssuskot. Þá var nú ekki til setunnar boðið, Nú varð að láta hendur standa fram úr ermum. Færin hönkuð upp á svipstundu, mastrið reist og búið um í bátnum.

Hálfdrættingnum var hent fram í barka, svo flæktist ekki fyrir, og þess vandlega gætt, að báturinn væri nægilega framhlæður og jafnhlaðinn. Nú komu kúffiskpokinn og vaðsteinarnir í góðar þarfir. Hér voru hraðar hendur að verki. Fyrirskipanir formannsins orðfáar, en ákveðnar. Seglið var alrifað og aukið við kulbandi, er venjulega var kallaður „vaðburður". Þegar í stað var eins og fyrstu þoturnar ætluðu að þrúga bátinn í kaf. Eigi var um annað að gera en að hleypa í Fjörðinn, skáhalt við veðrið. Öllu lauslegu var fest, stöðvað og skorðað eins og bezt mátti verða.  Seglið fór upp. Formaður settist við stjórnvöl og sá um skautið. Hálsinn var hafður fastur að framan, því á bátnum var rásegl og einsigli. Hásetarnir, Abraham og Isak, höfðu hver sitt kulband, en Jakob var við dragreipið. Hann var þóftufélagi formannsins; öruggur, handviss og duglegur. Allar hendur urðu að vinna saman; allar sem ein. Ef seglið tæki sjó, var voðinn vís.  Ekkert þýddi að ausa. Báturinn lá þegar allur á kafi í hvítyssandi tóft, en sjórinn gekk út og inn. Mér var falið, þar sem ég húkti hangandi í barkanum, að gæta austurtroganna; að þau tæki ekki út.  Hafði ég troðið einu inn á mig, undir skinnstakkinn, en hélt öðru klemmdu í klofinu.

Tálknafjarðarbáturinn hafði verið ofurlítið innar, þegar veðrið skall yfir, og sennilega eitthvað á undan okkur að seglbúa og hleypa í Fjörðinn, með því ekki var um neitt annað að ræða.  En okkar bátur virtist sigla miklu meir, og drógum við óðfluga hann. Auðséð var þó á öllu að á hinum bátnum voru afbragðsgóðir sjómenn. 

Þegar hér var komið, höfðum við dregið svo á hann, að við vorum ekki Iengra frá honum en rúma snærislengd til hliðar hann, hlémegin; grilltum í hann öðru hvoru gegnum særokið.  Þá kom ofsaleg kviða; engu líkar en tröllaukinn vélplógur kæmí æðandi, er risti og spændi upp sjóinn, dragandi á eftir sér digran hala, er lyftist og sogaðist hátt í loft upp og gerði úr geysilega súlu, er spann sig saman og vatt upp á sig eins og halasnælda; stefndi á Tálknafjarðarbátinn og tók hann. Við horfðum á bátinn sogast upp í loftið; hverfast um og endastingast svo bar við himinn; síðan springa og tætast allan í sundur, en flygsur og spækjur þeytast um og berast víðsvegar í loftinu.

„Við skulum fela okkur guði á vald!" æpti Abraham. Það var þá, að Jón Jónsson, formaðurinn, þreif stóra og sterka steinbítsgogginn; þennan með hvalbeinskeppnum, er hafður var til að rota með steinbítinn: „Suh! Hver sem ekki heldur kjafti og gerir eins og honum er sagt; hann skal… ; hann skal…“! Sló svo goggnum af heljarafli í hástokkinn og braut hann. Hann var berhöfðaður. Sjóhattinn hafði slitið af honum, fokið burt og frelsazt. Hárið var rennvott og barðist um í lausum lokkum, flaksandi um höfuðið. Það var sem eldur brynni úr augunum. Hann var æðrulaus, þessi sægarpur.

Það var liðin nokkur stund frá slysinu og við á hraða siglingu, er eitthvað lítið féll úr lofti og skall á sjóinn rétt framan við kinnunginn á bátnum. Ég sá að þetta var tóbaksbaukur; neftóbakshorn! Rétt á eftir lygndi. Við vorum komnir út úr storminum.

------------

Það var komið bezta og blíðasta veður, er við lentum á Vatneyri. Allir vorum við vel hlífaðir, í góðum brókum og skinnstökkum, og því ekki að sama skapi blautir sem við vorum hraktir og lemstraðir. Formaður ákvað, að við færum allir upp á Vertshús og fengjum kaffi. Enginn hafði á sér pening, enda var sú vara ekki í allra vösum á þeim árum. Var því ákveðið að bjóða vertinum heilagfiski til vöruskipta, og varð það vel þegið á báða bóga.

Áður en haldið var upp á mölina, mælti hálfdrættingurinn: „Ég er búinn að yrkja eina vísu um þessa veiðiför, og það eru sléttubönd". „Það held ég sé merkilegt! Mættum við fá að heyra?"

Greiðar veiðar leiðar-lá
leiðir, seyðir, neyðir.
Reyðar-heiðar, Breiðar-blá
beiðir, meiðir, deyðir!

Formaður mælti: „Ekki er nú vakurt, þó riðið sé! Þessum helvízkum þvættingi hefurðu verið að bögglast við að banga saman, meðan við hinir vorum að vinna. Láttu engan lifandi mann heyra þetta! En vel á minnzt: Ég harðbanna ykkur öllum, að minnast einu orði á bátstapann! Já, alla tíð; að minnsta kosti meðan ég er á lífi. Munið það! Mér verður hallmælt og legið á hálsi fyrir að hafa ekki reynt björgun, en það var óhugsanlegt og hefði ekki orðið til annars en að drepa okkur alla! Þið verðið að muna þetta, allir sem einn, að þegja og halda kjafti um þennan bát, að minnsta kosti meðan ég er á lífi; annars skuluð þið eiga mig á fæti og það svo um munar. Já, þið skuluð muna þetta; þegja og halda kjafti, eins og það væri eiðsvarið!" Í veitingastofunni voru nokkrir franskmenn fyrir og sátu að öldrykkju. Þá var jafnan mikill fjöldi franskra fiskiskipa hér við land, allt seglskip, flest frá Flandern og Dunkerque , kölluð "flandrar " og „dúnkar" , ellegar þá „franzmenn" eða „franzarar". „Bonn, bonn, bonn, bonn“! sagði einn þeirra og hóf upp glasið, og virtist sá yfirmaður eða eitthvað fyrir hinum. „Bonn, bonn, bonn, bonn“! át formaðurinn eftir. — „Já, já, é jáa! " sagði franskurinn, ósköp mjóróma og leit til formannsins. Þetta átti vist að vera íslenzka. „Þú ert bærilegur í sprokinu" , sagði formaðurinn. Steinbít til mi" , svaraði franskurinn. „Djöfull af mér að hef nokkurn steinbít, en þú getur fengið heilagfiski" , sagði formaðurinn. Þetta lét Frakkinn sér að kenngu verða, steinhætti að sproka íslenzkuna, en sneri sér að „bonninu , eins og vera bar. Formaðurinn brá sér nú frá, meðan við biðum eftir kaffinu; sagðist ætla að reyna að fá „agnardropa út í".

Allir vorum við daufir og dasaðir, en Abraham gamli ósköp klökkur: „Silfurkerin sökkva í sjó, en soðbollarnir fljóta!" sagði hann. „Ojá, skammt má sköpum renna! Það sagði líka Gísli prúði, sá mesti sægarpur og sæmdarmaður, sem úr nokkurri verstöð hefur formaður flotið í manna minnum. Hann sá margt fyrir, sem aðrir sáu ekki; bæði sinn eigin dauða og annarra, og fjöldamargt fleira , þó hann fengi ekki við forlögin ráðið. Hann reri jafnan undir Jökli.  Hann var skyggn, og hann var fjarsýnn, og hann var mannþekkjari mikill. Eitt sinn sat Gísli að drykkju með tveim formönnum öðrum, því hann var mikill drykkjumaður, en þó aldrei prúðari og vitrari en þegar hann var með víni. Þeir gengu til skipa sinna, formennirnir, og voru þá allir vel drukknir. Þá mælti einn formaðurinn: „Þetta er líkkistan þín, Gísli Gunnarsson." og sló hnefanum á slíðrina á bezta skipinu, er þá var í allri verstöðinni og kallað „Vargurinn", en öðru nafni „Ólsi".  Ekki á meðan ég er á lífi", sagði sá, er þá var formaður á Varginum, en stígðu aldrei út í hann eftir að ég er dauður!"  „Og báðir verðið þið dauðir á undan mér, en skammt má sköpum renna! " mælti Gísli prúði, og var þá sem hagl hrykki af augum hans. En Gísli prúði átti ekkert skip sjálfur, þessi mikli og alræmdi sægarpur, sem þó ætíð var formaður og aflakóngur, hvar sem hann reri. Hann var svo góðsamur og greiðugur, að ekki mátti hann aumt sjá. Hann leyfði oft fátækum mönnum að fljóta með sér, þó hann hefði fullskipað úrvals hásetum, og gaf þeim allan aflann. Og margsinnis skipti hann öllum hlut sínum milli fátæklinga og gekk sjálfur frá með tvær hendur tómar. En allt fór eins og þeir sögðu hvor öðrum, þessir miklu formenn. Báðir dóu þeir á undan Gísla, en hann var af einhverjum ástæðum neyddur til að taka við formennsku á Varginum, og þar fórst hann í fyrstu sjóferðinni á því skipi, sá mikli sægarpur, með öllum sínum hásetum; allt úrvalaliði. Sást aldrei neitt síðan, hvorki af skipi eða mönnum. Með honum fórst faðir minn, frá mér og okkur börnum sínum, öllum kornungum. Við fórum á sveitina. Þess vegna varð ég aldrei að manni. Ég var boðinn upp , eins og skranvara, og það oftar en einu sinni. En sá var þó munurinn, að ég var ætíð sleginn lægstbjóðanda og því talinn miklu minna virði en almennilegt rusl og skran, sem þó ávallt er slegið hæstbjóðanda. Eg átti illa ævi, eins og á mér sér, enda varð ég aumingi og mannleysa. En blessaður sé Gísli prúði! Og blessuð se minning hans! Eg sá hann á sjónum í dag! Og það er óvíst, að við værum nú hér, hefði hans ekki notið við! " Og nú tárfelldi gamli maðurinn og tók að raula vísu, er ég hafði heyrt hann að minnsta kosti hundrað sinnum áður raula fyrir munni sér, en þó ávallt með nýrri og nýrri stemmu, er hann bjó til sjálfur; allt eftir því hvernig í honum lá :

Öldin lúða lending fann,
lamin úða drifi.
En Gísla prúða vanta vann
og Varginn súða úr Rifi.

Franzmennirnir voru hættir að „bonna" og farnir. Og nú kom kaffið og formaðurinn með hálfflösku af brennivíni: „Miklir andskotans þjófar að þeir eru orðnir, þessir kaupmenn! Það kostar nú bara 50 aura upp á glasið, móti innskrift!" „ Er þá ekki glerið innifalið í því verði? " spurðu þeir báðir í senn, Isak og Jakob, en Abraham steinþagði.  „Mér er sama", sagði formaður. „Það væri víst nægilegt 35-40 aurar. Þetta eru þjófar!" — Svo var kaffið drukkið og gefið útí; ég fékk sem svaraði lítilli matskeið í minn bolla, en langaði í miklu meir. Hinir fjórir luku úr hálfflöskunni, og var það engin ofdrykkja.

 Abraham gamli var ósköp daufur og miður sín. Það leyndi sér ekki að hann barðist við grátinn. „Er eitthvað að þér, Abraham minn?" spurði formaður. Síðan, eins og við sjálfan sig: „Hann hefur fengið taugaáfall, aumingja kallinn. Það er von. Þetta var ljóta þotan". Þá mælti gamli maðurinn: „Nei. Það er ekkert að mér. Mér líður vel!" Og þeim orðum sinum til áréttingar tók hann að raula vísuna: „öldin lúða", o.s.frv., með ennþá nýrri stemmu, en grét þegar kom að „Gísla Prúða" og brast alveg og sprakk við „Varginn súða úr Rifi".

---------------------

Tveim dögum síðar áttum við leið á landi undir Hafnarmúla. Þar, rétt innan við Sellátranes, er hrafnsungann hafði tekið upp árið áður; og Abraham hafði sagt fyrir um skiptapa, lágu nú rekin, á víð og dreif um fjöruna brotin úr Tálknafjarðarbátnum; öll svo smá, eins og kurluð hefðu verið í eld. Þar var engin spækja annarri meiri. Ekkert líkanna rak eða fannst nokkru sinni. Rættist þar í einu og öllu spádómur gamla Abrahams, er hann las á hrafnsungann. Stormurinn hafði aðeins staðið á mjóu belti; nokkurra kílómetra breiðu. Þetta var ósvikið Trýnaveður!

Hér þagnaði Úlfur Uggason, sat lengi hljóður og dróst ekki úr honum orð. „Mér þykir sagan merkileg. Má ég ekki birta hana?" spurði ég. Loksins eftir langa þögn: „Jæja. Þú um það. Þeir eru nú allir horfnir inn fyrir tjaldið, er skilur á milli heimanna. Ég er einn eftir og ekki bundinn þagnarskyldu lengur".  

„Já: þetta var ósvikið Trýnaveður!"

Jochum M. Eggertsson.