Hér segir Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi frá ýmsum siðum og þjóðháttum sem tíðkuðust í Kollsvik.  Einnig minnist hún margs frá uppeldisstað sínum; Lambavatni á Rauðasandi.  Samandreginn fróðleikur sem Didda sendi þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins.

sg sgSigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var atorkumanneskja og listakona.  Hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og gott málfar sem þjóðmálin almennt.  Hún beitti sér m.a. fyrir friðun minja í Kollsvik.  Þar hafði það um aldaraðir tíðkast að endurnýta byggingarefni, s.s. hleðslugrjót.  Sigríður lagðist gegn því að hreyft væri við gömlum minjum og einnig beitti hún fortölum til að hlíft yrði þúfum og öðru því í landslagi sem sagnir voru tengdar, þegar mörgu var umbylt í ræktunarskyni.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins, en fáir voru fróðari á þeim sviðum sem hún ræðir hér.  

 

Alifuglarækt

Ekki var mikið um aðra alifugla í mínum uppvexti en hænsn. Þó voru gæsir í Saurbæ (ca. 7 - 8 stk.). Hænsnin voru langflest gamli íslenski stofninn, brúnar, svartar, dröfnóttar og einstaka hvít hæna, oft með smá svörtum dröfnum.

Heima á Lambavatni var tvíbýli og sinn hænsnakofinn fylgdi hvorum bænum. Á hinum bænum (Neðribæ) voru aðallega hvítir ítalir en þó held ég nokkuð blandaðir þar sem nokkuð var um dökkar hænur þar en það hafði sína skýringu. Heima hjá mér voru mest íslensk hænsn en þó þær væru kannske aðeins smávaxnari en þær hvítu þá voru hanarnir oft mun stærri en þeir hvítu.

Við krakkarnir höfðum oft gaman af að sjá þegar rauði haninn lagði af stað í víking í hvíta hópinn.  Hóparnir gengu mest lausir, ekki í girðingum. Fyrst var barist blóðugum bardaga við hvíta hanann þar til hann lagði á flótta og þá var að safna saman hænum þess yfirbugaða og koma þeim á sitt yfirráðasvæði. Var það gert með fagurgala og hoffmannlegu látbragði en aldrei var hægt hjá honum að koma hópnum alveg saman. Mátti hann svo hlaupa á milli eftir því sem honum fannst sín húsbóndaskylda bjóða. En aldrei verptu þær hvítu í kofa þeirra dökku. Hvíti haninn mátti hýrast í sínum kofa nema einhver sæi aumur á honum og ræki hænur hans heim. Íslensku hænurnar voru mun skæðari með að vilja liggja á og oft erfitt að hafa þær ofan af slíku, stundum voru þær hengdar upp í poka, teknar niður einu sinni eða tvisvar á dag til að éta og drekka. Þær áttu til að verpa í holum og útihúsum, ekki síst í hlöðum eftir að búið var að hirða í þær. Dæmi voru um að þær hurfu sporlaust og sáust ekki í ca. 3 vikur en komu þá með ungahóp í eftirdragi.

Þegar ég byrjaði búskap gaf eldri kona á Rauðasandi mér hænu á eggjum. Sú var sett í pappakassa með sín egg og reidd á hnakknefi út Víkinafjall, um 5 - 6 tíma lestargang. Út af henni átti ég mikinn ættboga af íslenskum hænsnum í mörg ár. Þessi hæna hét Stína og varð 9 eða 10 ára gömul og æði heimarík í ellinni ef hún var með unga, sem hún var á hverju sumri, einu sinni tvisvar á sama sumri sem ég vissi aldrei til að hæna léki eftir. Þegar hún hafði komið fyrri hópnum „af höndum“ síðari hluta sumars fór hún að verpa að venju en hvarf svo. Stöku sinnum sást hún koma að fá sér að éta en aldrei tókst að njósna um hana, hvert hún færi. Eftir um 3 vikur kom svo kella með 10 eða 11 unga.

Ekki man ég eftir að hænur hétu sínum nöfnum nema Stína sem hét eftir konunni sem gaf mér hana. Ekki vissi ég til að hænur gengju kaupum og sölum en voru gefnar milli bæja ef á þurfti að halda, en yfirleitt ól hver kona upp sínar hænur en hænsnaræktin var næstum alfarið á höndum kvenna og barna.

Árið 1944 kom nýr prestur í Sauðlauksdalsprestakall, Trausti Pétursson, nýútskrifaður og peningalaus með námslán á bakinu. Þegar sóknarbörnin fréttu af fjárhagserfiðleikum nýja prestsins varð þeim það fyrst fyrir að skjóta saman hænsnum 1 - 2 af bæ og víkja að prestshjónunum svo þau gætu þó haft egg í matinn.  Fleira fylgdi reyndar eftir eins og eitt og eitt lamb að hausti en það er önnur saga. Vissi ég til að prestur mat góðan hug sem að baki lá.

Yfirleitt gengu hænsnin laus úti við en þó var hænsnagirðing stundum við kofann en þær voru glúrnar að smjúga út ef smágat var á girðingunni. Hænsnanet svokallað var haft í girðinguna sem var um mannhæðahá. Ekki dugði sú hæð til að halda hænsnunum inni heldur varð að setja net yfir líka. Kofinn var hlaðinn úr grjóti og torfi og torf á þaki enda þurfti kofinn að vera frostlaus að mestu. Ekki voru þetta stórhýsi enda algengt að hænsni væru 10 - 15. Prik var þvert yfir kofann en gæta þurfti þess að það væri nógu langt fyrir allar hænurnar. Hreiðurkassar voru oft undir prikunum, úr timbri með opnun fram úr. 2 - 3 hreiður þóttu hæfilegt fyrir 10 hænur. Í kassana var sett hey. Olíulugtir voru oftast notaðar hjá hænsnunum og gott að þær gætu haft ljós sem lengstan tíma í skammdeginu. Þegar ég man fyrst var notuð heimasmíðuð lugt sem var nokkurs konar kassi með gleri í hliðum og týru til birtugjafar. Týran var úr blekbyttu með korktappa en í gegn um tappann var mjó málmpípa. Gegnum pípuna kom bómullarkveikur, olía var sett í blekbyttuna og svo var um að gera að hafa kveikinn mátulega mikið upp úr pípunni svo ekki ósaði. Ein hlið lugtarinnar var með renniloki svo hantera mætti týruna. Lítill rammi var í botni lugtarinnar sem passaði utan með týrunni, svo hún haggaðist ekki ef hún var borin í hendi. Fyrir kom að hænsni voru höfð í auðum fjósbás ef þau voru fá en helst ekki nema stundarlausn t.d. einn vetur. Þá var girt vandlega með neti fyrir básum. Hænsnaskíturinn var mokaður eins og annar húsdýraráburður en fylgdi honum mikið af arfafræum. Börn gáfu oftast hænsnum eða konurnar en körlum þótti oftast lítið til þessara húsdýra koma!

Hænsnin fengu matarleifar, korn, stundum saxað vothey og eggjaskurn, einnig skeljasandur sem hér er nógur. Oft var (og er) þeim gefið í tréstokka aflanga en mjóa svo allar komist að í einu. Netakúlur úr áli sem tekin var sneið úr voru oft notaðar til að hafa í vatn.

Hanar hafa alltaf galað mest á morgnana en eiga það samt til á öllum tímum sólarhrings, jafnvel nóttum.

Ég held að engar skepnur komist nær því að nota „málið“ næst manninum en hænsni. Þegar þær hafa verpt tilkynna þær það með sérstöku hljóði. Það heitir eggjahljóð. Ungahljóð er nokkuð fjölbreytt eftir því hvað þær þurfa við þá að ræða. Ef hrafn eða fálki fljúga yfir gefur haninn alltaf „loftvarnamerki“ sem er hvinur mikill. Stundum hafa krakkar gaman af að kasta upp spýtu eða öðru svo haninn gefi loftvarnamerki. Svo er til nöldurhljóð mikið í hænunum ef þær eru eitthvað í slæmu skapi, það er bara í hænunum. Stundum ruglast þær í ríminu og fara að basla við að gala en það eru heldur ófögur hljóð. Ef einhver hænan er veik eða meidd ráðast allar hinar oftast á hana og eiga til að drepa hana snarlega. Hanar ráðast stundum á fólk einkum börn og geta þá verið hættulegir, enda hafa þeir oftast misst höfuðið ef þeir byrja á slíku. Ef hænur átu egg var oftast kalkskorti um kennt enda löguðust þær oftast ef þær fengu skeljasand.

Komið hefur fyrir að fálkar taki hænsn en ekki held ég að mikil vanhöld hafi verið á þeim vegna ránfugla eða dýra fyrr en minkurinn kom til sögunnr en hann eirir engu en drepur meðan eitthvað er til að drepa.

Ég vissi til að æðaregg var sett undir hænu og var það mikill vandræðagangur þegar unginn fór að synda á bæjarlæknum. Oft var búið um hænur á eggjum í fjárhúsum sem stóðu auð á sumrum en þá voru engar áhyggjur af hita á ungunum eða umönnun því þær sáu um það.

Ekki voru allir hrifnir af hænsnakjöti en þó var það etið, aðallega hanaungarnir.

Ekki kannast ég svo við geymsluaðferðir á hænueggjum en hér hefur meira verið hugað að geymslu fýlseggja. Þeim er gjarnan raðað í trékassa (ekki málm) með mjórri endann niður. Helst þarf að pakka þeim það þétt að snúa megi kassanum stöku sinnum, en meira látinn standa á mjórri endann.

Ýmist er notað hér nafnið skurn(in) eða skurmur og svo skjall, rauða og hvíta.

Gæsir voru til í Bæ (Saurbæ) þegar ég var að alast upp. Þær átti Kristín sem áður er getið þar sem hún gaf mér ungahænuna Stínu. Stína var dóttir Péturs Jónssonar frá Stökkum kennara, fræðimanns og rithöfundar. Hún var framfarasinnuð með afbrigðum og tilbúin að prófa ýmsa hluti. Þessar gæsir bjuggu í litlum kofa við smálækjarsytru sem var stífluð svo smápollur myndaðist. Náði hann undir hluta af kofagólfinu en þetta var kaldavermsl sem aldrei fraus.

Ekki veit ég um aðra sem halda alifugla sem gæludýr en sjálfa mig. (1994; SG býr þá ein á Láganúpi).  T.d. á ég mína tvo aliandarsteggi sem lítil hagnýt not eru af en skemmtilegir eru þeir. Þegar vorar leggja þeir í víking og reyna að ræna hænum frá hananum (ég gleymdi að geta þess að enn stunda ég hænsnabúskap með líku sniði og gert var í mínu ungdæmi, til gagns og gamans! Bara 5 - 6 núna). Líka hef ég tvisvar sett í útungunarvél sem ég er með, stokkandaregg úr hreiðrum sem sláttuvél skemmdi þar sem hreiðrin sáust ekki í háu grasi. Uppeldið gekk mjög vel í bæði skiptin en í fyrra skiptið komst hvolpur af næsta bæ að þeim og drap þá þar sem þeir óttuðust ekki heimahundana sem gerðu þeim ekkert. Í seinna skiptið voru þeir viðloðandi fram í febrúar en fóru sinna ferða en komu heim að fá sér að éta. En svo átti minkfjandinn leið um og drap allar hænurnar mínar og sennilega andarungana nema ég held að ein önd hafi sloppið því enn verpir spök önd hér á hverju vori rétt hjá.

Ég fékk mér íslensk hænsn aftur, af þeim sem var safnað úr Öræfunum og ræktaðar á Keldum. Þær eru svolítið frábrugðnar þessum sem hér voru þar sem þær eru allar með skúf fyrir aftan kambinn en hinar voru bara ein og ein með svona skúf.

Tóttir af gamla hænsnakofanum sem tengdafaðir minn byggði eru sæmilega standandi hér enn. Á Neðri bænum á Lambavatni er enn notaður gamli hænsnakofinn sem var þar á mínum uppvaxtarárum en það var slett steinsteypu í veggina fyrir nokkrum árum.

Meira get ég víst ekki sagt og sumt er nú víst fyrir utan efnið.  (Svör  nr.11639  hjá Þjhd. Þjms; mótt: 1.3.1994).

Garðrækt og grænmeti

Aðallega voru ræktaðar kartöflur og gulrófur í mínum uppvexti en þó nokkuð af grænkáli, salati, hvítkáli og spínati. Einnig radísur og næpur. Þetta var þó ekki allstaðar, þ.e. kálið, en allstaðar voru ræktaðar rófur og kartöflur þar sem ég þekkti til. Að ógleymdum rabarbaranum. Ekki veit ég til að fólk færi um hér og kenndi garðyrkju en ég held að búnaðarskólar hafi haft nokkur áhrif til að auka ræktun á grænmeti.  Þeir sem þangað fóru smituðu frá sér þegar heim kom, í þessu sem mörgu fleiru. Eftir að sú ágæta bók; Hvannir eftir Einar Helgason, kom út held ég að garðrækt hafi aukist talsvert og fólk hafi farið að prófa fleiri tegundir. Þessi bók er líka mjög merkileg og sígild:  Ennþá fletti ég upp í henni þó að til séu margar nýrri bækur um garðrækt á bænum. Og ennþá er það svo að mér gefast betur þær káltegundir sem þar er mælt með en þær kynbættu tegundir sem bestar þykja samkvæmt umsögn nýrri garðyrkjurita.

sg gardi(Myndin er af Sigríði í garði sínum á Láganúpi, líklega kringum 2015.  Hún varð fyrir því óláni árið 2011 að veikjast alvarlega af sýkingu við mænu.  Lamaðist hún við það  og var bundin við hjólastól.  Hún dvaldi eftir það á sjúkrahúsi á Patreksfirði, en nýtti hvert tækifæri til að koma að Láganúpi og vitjaði þá gjarnan garðsins sem hún af þrautseigju og meðfæddum ræktunaráhuga hafði komið upp við bæinn.  Össur maður hennar var látinn á þessum árum, en hann hafði einnig lent í því að lamast.  Annaðist Sigríður hann af einstakri alúð og þolinmæði, og gerði honum þanng kleift að dveljast á Láganúpi síðustu ár sín).

Kartöfluútsæði var valið úr heimaræktuðu kartöflunum eða kannski prófaðar nýjar tegundir frá nágrönnum í skiptum. Mest var ræktað af gulum íslenskum kartöflum sem eru víst að hverfa úr ræktun nema hjá nokkrum sérvitringum (eins og mér). Það er samt eftirsjón að þeim því það eru bestu matarkartöflur sem fást en ekki mjög stórar nema í hlýjum sumrum. Rófurfræ var ræktað heima á Lambavatni, og hafði verið það lengi ræktað að ég held að það hafi mátt heita sérstakt stofnafbrigði. Fengu margir fræ úr þessari ræktun. Kálmaðkur þekktist ekki þegar ég var að alast upp og ég held bara að hann hafi ekki sést á Rauðasandi fyrr en um 1960. 

Allar plöntur voru aldar upp heima. Mig langar til að segja frá vermireit sem pabbi útbjó heima. Fjósið var með skúrþaki og ekki mikill halli á því. Svo var það tyrft. En pabbi gerði þarna ferhyrndan reit sem hann gróf niður gegn um torfið sem var talsvert þykkt. Svo var sett moldarlag ofan á þakjárnið. Trérammi var settur með hliðum reitsins og glerrúður á lömum ofan yfir. Svo lagði ylinn úr fjósinu í moldina svo hægt var að planta þarna þótt nokkuð frost væri; amk. næturfrost. Ungmennafélagið í Útvíkum; Vestri, hafði kartöflugarð í þó nokkur ár sem félagar unnu við og seldu uppskeruna til fjáröflunar en ungmfélagið Von á Rauðasandi átti blómagarð við samkomuhús sitt sem konurnar plöntuðu í sumarblómum.

Til eru heimildir um að kartöflur hafi verið ræktaðar í Rauðasandshreppi fyrr og í meira magni en annarsstaðar á Vestfjörðum. Er þá ekki talað um séra Björn í Sauðlauksdal en það mætti láta sér detta í hug að hann hafi haft áhrif á ræktunina og menn tekið þetta eftir honum. Þegar ég man fyrst eftir var reynt að raða í útsæðiskassana þannig að sem mest af augunum sneri upp en svo var því hætt, ekki talið að það breytti neinu teljandi.

Sett var niður í beð og ef garðar voru blautir (ef rigningartíð var) þá voru mokaðar götur. Holur voru gerðar með heimasmíðuðu áhaldi; járnspaði var festur á skaft með hringjum, líkt og ljár í orf. Arfasköfur voru notaðar nokkuð, en mest var arfi tekinn með höndum. Áburður var aðallega búfjáráburður en eftir að tilbúinn áburður fór að fást var notað lítilsháttar af honum. (Mér finnst raunar nokkuð kátlegt að skrifa um þetta í þátíð því mest af þessu gildir enn). Þegar sett var niður voru fyrst gerðar holur og síðan settu gjarnan krakkarnir kartöflur í holurnar og þurftu að passa að brjóta ekki spírur. Síðan var rakað yfir með hrífu ef garðurinn var vel myldinn en annars var helst rutt í holurnar með höndunum fyrst svo ekki færu kögglar og hnúskar næst kartöflunni. Og einu gleymdi ég næstum. Það var mikið upp úr því lagt að láta í holurnar eina lúku í holu af möluðu sauðataði eða hrossataði. Sauðataðið var þá malað í taðkvörn sem til var á hverjum bæ. (Þetta á ekki við um nútíma kartöfluræktun, því miður). Áhersla var lögð á að götur milli beða væru þráðbeinar og strekkt snæri til að máta við.

Aðaltegundir af kartöflum í mínum uppvexti voru, auk gulu íslensku kartöflunnar sem fyrr er getið; rauðar íslenskar, gullauga, eyvindur og blálandskeisari. Reyndar rækta ég þessar tegundir enn nema eyvind, sem var ekki góður. Þegar tekið var upp var gamla útsæðiskartaflan kölluð móðir en það smæsta heitir myr. Ekki var fengið aðkomufólk til að taka upp kartöflur nema í undantekningatilfellum, enda heimilin oftast nokkuð fjölmenn. Heima var gjarnan fyrsta uppskeran á afmælisdaginn minn, 5.ágúst, en misvel sprottið enda bara í matinn þennan dag. 

Kartöflurnar voru mest borðaðar með kjöti og fiski en ég man ekki til annars en að kartöflurnar næðu saman; þ.e. þær gömlu entust þar til þær nýju voru komnar í gagnið. Sumstaðar voru rófur notaðar ásamt kartöflum með saltfiski en annars voru rófur mest notaðar með kjöti, t.d. saltkjöti, og í súpu. Rófur voru einnig notaðar í hafragraut og sá hafragrautur er mjög góður. Svo voru kartöflur notaðar í jafning og stöppu, t.d. með hangikjöti og sviðum. Smávegis var um að kartöflurnar voru brúnaðar við hátíðleg tækifæri.

Kartöflur voru notaðar til að mæla styrkleika saltpækils. Var þá rekinn 2 1/2"- 3" nagli gegnum stóra útsæðiskartöflu og var pækillinn hæfilega sterkur þegar kartaflan maraði í yfirborðinu. Kartöflur voru gjarnan notaðar í rúgbrauð þegar ég var að alast upp; raunar hef ég notað þær þannig í mínum búskap. Þá eru þær stappaðar og rúgmjölið hnoðað upp í þá ásamt sjóðheitu vatni. Þetta var gert að kvöldi og látið í box. Að morgni var það sett í ofninn og bakað allan daginn við vægan hita. Brauðið var ekki eins þétt í sér ef kartöflur voru notaðar, kom eins og dálítil gerjun í það og lyfti sér. Stundum voru kúm gefnar kartöflur, helst myr en ekki var talið gott að gefa þeim mikið af þeim.

Ef uppskeran var mikil var gjarnan selt það sem ekki var talið að þyrfti til heimilisins. En ég er ekki nógu hundgömul að ég muni eftir viðskiptum við skútusjómenn en mér finnst trúlegt að menn hafi ekki síður selt þeim kartöflur en annað. Ég veit amk. að afi minn fékk eitt sinn hvolp hjá fransmönnum í vöruskiptum en ég veit ekki fyrir hvað. Tíkin hét Kaprís og nafnið hafði fylgt henni og síðan gekk þetta nafn heima á Lambavatni á tíkum. En þetta er nú að villast frá efninu.

Ég er nú víst búin að segja frá káltegundum sem ræktaðar voru en blóðberg var sumstaðar notað í te og einnig vallhumall og þótti gott við t.d. kvefi og hálsbólgu.

Mest var um að karlmenn stungu upp garðana en þó var það eftir ástæðum. Fremur var talið að gamall og fúinn búfjáráburður hentaði kartöflum en rófur þyldu fremur sterkari áburð. Þó sannfærðist ég enn betur um sterka áburðinn og rófurnar eftir að ég losnaði við kálmaðkinn með því að bera á nýja kúamykju. Kálmaðkurinn virðist ekki þola hana. Oftast var sami garðurinn notaður og sumir garðar voru orðnir býsna gamlir. T.d. voru næstum undantekningarlaust garðar fyrir framan bæjarstéttina á bæjum. Í honum lenti svo gjarnan skolp og ýmiskonar úrgangur sem sjálfsagt hefur orðið áburður. En svo var nokkuð um nýja garða. Meira var ræktað af kartöflum en rófum og heima var mikið borðað hráum rófum, sérstaklega börn en aðallega soðnar og einnig stappaðar.

 

Ef fólk fékk kvef var talið gott við því að hola smávegis úr rófu og kandísmoli látinn í holuna. Rann kandísinn í rakanum frá rófunni og var talinn góður við kvefi. Ekki þekki ég notkun á rófukáli nema fyrir kýrnar. Nokkuð var um að menn fúlsuðu við káli, einkum eldri karlar; sögðust ekki vera neinir grasbítir.

Rabarbari var held ég ræktaður á flestum bæjum en aldrei vissi ég rætur seldar en menn gáfu gjarnan þeim sem vantaði slíkt. Rabarbari var mest notaður í sultu og grauta en einnig sem bitar í sykurlegi sem voru (og eru) notaðir sem niðursoðnir ávextir með þeyttum rjóma. Einnig var gerð rabarbarasaft.

Heima á Lambavatni var ósköpin öll af hvönn í veggnum kring um gömlu garðana á hlaðinu. Trúlega hefur hún verið flutt þangað til nota en ekki man ég eftir notum af henni í mat nema hvað okkur fannst nýir leggir ágætir til að nasla, flysjuðum ysta lagið af og borðuðum það ljósa og meyra innan úr leggjunum. Svo var þetta dýrðar frumskógur til að gera sér fylgsni og hella í enda hátt í mannhæðarhátt stóðið. Einnig var mikið hvannastóð í gamla bæjarstæðinu í Saurbæ. Líka var þarna talsvert af kúmeni. Fræin voru notuð í brauð og kleinur og einnig þótti mjög gott að setja smávegis af kúmeni í kaffipokann þegar hellt var upp á könnuna. Njóli var sumstaðar notaður í uppstúf.

Kartöflur voru þurrkaðar vel (helst ekki í sterku sólskini) og varast að þær blotnuðu áður en þær voru settar í geymslu. Rófur voru ekki þurrkaðar og gætt að þegar kál og rætur voru skornar af að særa ekki rófuna. Þegar rófur voru teknar upp voru valdar nokkrar stórar og fallegar rófur með gott kálstæði og beina og jafna rót. Af þeim voru ekki skornar rætur og kálið skorið nokkuð frá rófunni. Þessar rófur voru geymdar í frærófur og þær voru settar í mold snemma vors á skjólgóðan stað. Einnig var gjarnan sett grind utan um þær því þær verða nokkuð háar og þarf að binda þær upp.

Kartöflur og rófur voru stundum geymdar í kjöllurum og t.d. gryfjum sem grafnar voru ofan í skemhólf og þurrt torf breitt yfir. Aðallega var grænmeti geymt í kofum gröfnum talsvert niður og tyrft mjög vel þakið og allt í kring. Hvítkál var hengt upp með hausinn niður og geymdist þannig nokkurn tíma en annars var kálið notað sem mest nýtt vegna erfiðleika á geymslu þar til frysting komst á, lítilsháttar var soðið niður.

Smávegis var um trjárækt og runna en fremur lítið. Helst var það birki og reynir og svo ribs. Amma mín átti blómabeð við bæinn á Lambavatni þegar ég man fyrst eftir mér, þar var helst stjúpur og morgunfrúr að mig minnir og svo ranfang. En illa gekk að fá nægt skjól fyrir jurtirnar þar sem þetta er einn mesti rokrass landsins í vissum áttum þó oft sé logn og hiti meiri en víða annarsstaðar. Víðast var á Rauðasandi einhver blómabeð nálægt bæjum, bæði fjölær blóm og sumarblóm; einnig rifs. Ungmennafél. á Rauðasandi átti svo smágarð eins og ég hef sagt frá.

Ekki er hægt að segja frá garðrækt á Rauðasandi án þess að nefna hana Kristínu Pétursdóttur á Stökkum, reyndar þeirra systkina hennar líka Valborgar á Hvalskeri og Jóns á Stökkum. Þau voru börn Péturs Jónssonar fræðimanns, rithöfundar og kennara frá Stökkum. Hann var reyndar ekki talinn neinn búmaður, enda hans áhugamál á öðrum sviðum en þau börn hans voru brennandi í andanum um alla ræktun. Jón var langt á undan sinni samtíð í jarðrækt og vann ótrúleg afrek með hestum sínum, plóg og herfi, einyrki á fremur lítilli jörð sem hann gerði eina bestu jörð sveitarinnar á stuttri ævi; hann dó um eða rúmlega fertugur. En þær systurnar höfðu mikinn áhuga á allri garðyrkju og þær höfðu einstakt lag á að hrífa fólk með sér í þennan áhuga. Valborg var að því leyti betur sett að hún átti mann og börn sem hún smitaði með þessum áhuga sínum og þau voru henni til aðstoðar við blóma og trjáræktina en Kristín giftist aldrei. Hún kom sér upp garði með rifsi, fjölærum blómum, jarðarberjum ofl. Svo kom hún sér upp trjágarði sem því miður fór illa eftir hennar dag vegna sinubruna. Einnig var hún með heilan rófnaakur sem hún ræktaði til sölu. Hún var alltaf tilbúin að gefa okkur krökkunum í nágrenninu fræ og afleggjara af rifsi eða blómarætur svo ég tali nú ekki um áhugann sem bókstqaflega geislaði af henni.

Varðandi vörslu garðanna þá var mest um grjótgarða um gömlu kartöflu og rófugarðana sem var auðvitað besta varslan þar sem þeir gáfu líka skjól og einnig héldu þessir garðar yl sólarinnar sem þeir miðluðu til jurtanna. Svo kom auðvitað vírnet eða gaddavír seinna.

Ég held ég hafi þetta rugl nú ekki lengra enda hef ég villst stundum frá efninu.

Ég gleymdi þó alveg fjallagrösunum. Þau eru trúlega, og hafa verið, það merkilegasta af þeim jarðargróða sem Íslendingar hafa notað. Við kvefi voru þau soðin lengi með kandís og tekin inn sem lyf við kvefi í matskeið. Svo var soðin grasamjólk; þau voru notuð í slátur og fleira.  (Svör  nr.10556  hjá Þjms; mótt: 1.10.1992).

Matarhefðir

Fátt verður um svör frá mér um samkomur með sérstökum matarhefðum; ég held að fátt sé um slíkt hér nema þorrablót. Þó er víða siður Vestfirðinga að koma saman á Þorláksmessu og borða vel kæsta skötu; kannske til að sjóða hana ekki endilega í hverju húsi þar sem ilmurinn er misvinsæll, jafnvel hjá þeim sem þykir skata góður matur! Einn er þó sá siður sem ég ólst upp við og það er að elda hausastöppu þegar farið var í fiskiróður. Á Rauðasandi hefur aldrei verið mikið útræði því oftast er brim við Rifið enda fyrir opnu úthafi. Þó áttu bændurnir á Lambavatni litla skektu sem þeir komust í róður á; kannske tvisvar, þrisvar á sumri. Aflinn var svo saltaður og látinn síga; smáfiskur. En þá kemur loks að þessum rétti sem þótti ómissandi þegar komið var í land með aflann en það var hausastappan. Í hana voru notaðir helst stórir hausar, ef slíkir komu á land. Oftast voru teknar kinnar. Þetta var skafið vandlega og soðið með talsverðri lifur og skilyrði að það væri glænýtt. Svo var allt fært upp og tínd úr þau bein sem náðust; allt hitt hrært saman og borðað með kartöflum og gjarnan seyddu rúgbrauði. Fólk taldi ekki eftir sér að tína út úr sér nokkuð af beinum!

Ég var ekki alin upp við mikil not af fugli; lítið var um fugl á Rauðasandi en svartfugl þá aðallega. Tengdamóðir mín sagði að hér í Kollsvík hefði verið geysilega mikið notað af fugli úr bjarginu. Hann var plokkaður og saltaður niður í tunnur. Hamurinn heitir bumbur þegar búið er að plokka fuglinn. Smolt er fuglafeiti. Flotið af fuglunum var fleytt og notað í bræðing. Svo var það líka notað til að bera í ull þegar var verið að kemba til að mýkja hana. Yfirleitt var það samt fótafeiti. Þetta var svolítið svipað, storknaði ekki. Svartbaksungi var notaður hér töluvert. Það var íþrótt að skjóta þá á flugi hér í víkinni. Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í verðrið og flýgur lágt. Og á haustin þá sátu þeir hérna niður á gömlu grjótgörðunum þegar þannig viðraði og skutu ungann á fluginu. Þetta þótti alveg herramannsmatur; ungarnir. Engar varúðir á því. Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur.

Hér var gjarnan notað saltað selspik með bæði signum fiski og saltfiski. Annars var mörflot notað út á allan fisk. Það átti að geyma mörinn og láta hann fiðra dálítið áður en farið var að hnoða. Það var karlmannsins verk að hnoða. Hnoðmörinn er geymdur í saltpækli. Það átti að gera skákross í mörtöflurnar. Þetta var bara venja. Pabbi gerði þetta alltaf. Setti puttafar í hornin og miðja vegu. Það voru sem sagt 5 fingraför, eitt í hverju horni og eitt í miðjunni og rákir á milli. Ég geri þetta alltaf þegar ég hnoða. Mér finnst að það eigi að halda gömlum siðum þó að maður viti ekki af hverju þeir stafa.

Þegar ég var að alast upp var alltaf gert skyr; síað í litla tunnu; skyrsía með rimlum í botninum; í hana var sett grisja og síað og svo var mjólkurafgöngum og undanrennu hellt út í mysuna, þá hljóp mjólkin og varð til þykkur súr í mysunni sem féll á botninn. Súrinn flaut svo upp þegar var stórstreymt. Það var gjarnan þarna ausa, hékk á barminum og ef menn voru þyrstir fengu þeir sér svaladrykk úr tunnunni.

Súrinn sjálfur var mest notaður út á hafragraut. Mysan var notuð til að súrsa í. Kannske var mjólkin sem hellt var í farin að súrna eitthvað örlítið. Úr undanrennunni var yfirleitt gert skyr. Ef þéttinn dugði ekki á milli þess sem hleypt var fengu menn þétta hjá nágrönnunum.

Fráfærur lögðust af löngu áður en ég man. Sláturverkin voru ekki ósvipuð í Lambavatni og Kollsvík.

Ekki var mikið um heilhveiti þegar ég var að alast upp. Myr; kartöflusmælki, var gjarnan notað í rúgbrauð og fjallagrös. Kartöfluafgangar voru gjarnan stappaðir og notaðir í rúgbrauð; það varð mjög gott með kartöflum. Rúgbrauðin voru bökuð í kringlóttum boxum sem pabbi smíðaði.

Konurnar af öllum Sandinum komu töltandi til pabba ef kom gat á pott hjá þeim, eða bilaði halda og hann sauð í þetta. Smíðaði kannske ný kopareyru á þá. Enda elskuðu þær hann allar gömlu konurnar á Rauðasandi.

Alls staðar var gert við leirtau, það var saumað saman; boruð göt og þrætt saman. Þetta var alveg pottþétt. Ef diskur brotnaði í tvennt datt engum til hugar annað en að gera við hann.

Fyrst þegar ég man eftir voru hringir á eldavélunum. Þá voru þessir íhvolfu gömlu pottar. Svo komu plötur ofan á eldavélarnar og þá komu álpottarnir. Kaffibrennslupotturinn var netakúla sem var tekin í sundur í miðju og notuð til að brenna á hringavélinni. Það þurfti sérstakan pott til þess því það var svo mikil sterkjan í kaffinu. Svo man ég eftir vöfflujárnum sem léku á hringjum. Gott var talið að setja pínulítið kúmen út í kaffi. Það spratt svo mikið þarna í gömlum görðum. Það var aðallega notað í kaffi en líka eitthvað í brauð, kleinur t.d.  Össur heldur að kúmenið sé hérna frá dögum Björns Halldórssonar, það er víða á Rauðasandi en Guðrún ríka í bæ giftist syni Gísla á Hlíðarenda sem flutti kúmenið inn.  Gæti hafa komið með henni.

Hvönn óx þarna í gömlum görðum og það var óskaplega gaman að leika sér í hvannstóðinu. Og svo átum við þær í þokkabót. Að öðru leyti voru þær ekki notaðar. Garðrækt var mjög mikil á Rauðasandi frá því löngu áður en ég man eftir mér; rófur, kartöflur, gulrætur, rabbabari og kál, þó var lítið um kál fyrst þegar ég man eftir. Garðrækt var hér meiri og fyrr en annars staðar. Kál var notað í kjötsúpur og soðið. Karlar gamlir töldu þetta ekki vera mannamat, vildu ekki éta gras. Það var erfitt að kenna þeim það. Össur maður Sigríðar, vandist ekki við að éta svona kálmeti því það var lítið gert að því í Víkunum.

Systkinin Kristín Pétursdóttir og Jón Pétursson voru brautryðjendur í garðrækt á Rauðasandi. Jón var langt á undan sinni samtíð sem bóndi og bjó á Stökkum. Þetta voru börn Péturs Jónssonar fræðimanns og rithöfundar. Hún var ógift en hann giftist nú og dó ungur. Hann var t.d. búinn að slétta túnið á Stökkum og var langt á undan öðrum með slíkt. Kristín var feikimikil áhugakona um alla ræktun; var með kálrækt; ræktaði rófur til sölu; var með trjágarð; hafði rifs; jafnvel íslensk jarðaber ræktaði hún í kirkjugarðinum undir góðum grjótvegg sem hitnaði vel í sól. Svo var hún með ýmislegt grænt; alls konar kál og næpur.

Rófur voru mikið soðnar í hafragraut. Heima hjá Sigríði var hafragrautur dagleg fæða og rófur voru soðnar í honum þegar þær voru til. Rófurnar voru soðnar; svo kastað út á soðið og svo var þetta borðað með súr eða mjólk. Og svo slátur með. „Ég veit ekki hvað það ætti að vera hollara“.

Rófurnar voru skornar sundur og tekinn þriðjungur innan úr miðjunni látinn kandísmoli í holuna og látinn renna. Svo var safinn gefinn úr skeið, þeim sem voru með kvef.

Mikill reki var á Rauðasandi og rekavið mikið brennt í eldavélinni.

Blómkálssúpa var stundum. Annars var ekki mikið um súpur. Aðallega kjötsúpa og í hana var grænmetið notað. Hrátt grænmeti í salat var ekki farið að nota fyrr en eftir 1950 og ekki almennt þá. Þegar ég var svona á táningsárunum þá var farið að rækta höfuðsalat og blaðsalat og þá var það oft borðað eintómt með rjóma og sykri.

Magálar eru búnir til úr kviði heimaslátraðs fjár; helst vænna sauða. Kviður skorinn úr upp undir bringubein; að rifjum og niður að huppum; snöggsoðið og saltað eftir suðu. Ef kviðirnir þóttu heldur þunnir voru þeir lagðir saman tveir og tveir og lagt létt farg á. Síðan saumað utanum þunnt léreft eða blað og hengt upp í reyk.

Lundabaggar eru enn búnir til hér. Í þá eru notaðir ristlar, gollurshús, hjörtu og kjötbitar og þind utan um. Mjög er vandað til að hreinsa ristlana; þeir skafnir af sérstakri natni og síðan hankaðir. Ekki þótti ráðlegt að leggja þá í bleyti; talið hætt við að þá rynni fitan frekar úr í suðunni. Lundabaggarnir síðan soðnir; pressaðir létt á meðan þeir kólnuðu og settir í súr.

Það var aðeins talað um lappir á hundum og köttum. Fé var mun virðulegri skepna og hafði fætur, einnig kýr og hestar.

Þegar faðir minn fór í ver hafði hann með sér nesti í kistli.  Hann hafði með sér kæfu; mjög feita og var henni drepið í smá kassa. Inn á milli laga var drepið soðnum kjötbitum, feitum, og þótti það mjög gott. Kæfa var sett í skinnbelgi og hengd upp í reyk. Ég þekkti einnig að setja kæfu í langa til geymslu.

Selkjöt hefur verið notað hér um slóðir allt fram á þennan dag. Það var þvegið, spikið skorið af og kjötið soðið, borðað með kartöflum og rófum. Spikið var saltað og notað með söltum og signum fiski.  (Svör nr.12226/12855/9577/9578 í skrám Þjmsj.  Mótt : nóv 1988-1.2.1998).

Reyking matar

Hallgerður Gísladóttir. Viðtal við Sigríði Guðbjartsdóttur á Láganúpi 4. júní 2002.

reykhus ytragili framÞar standa uppi tvö reykhús.  Gamla hesthúsið á Hólum, nær 400 ára, og kofi sem Valdimar Össurarson byggði upp úr gamalli hrútakofatóft kringum 1995 (á myndinni).

HG:  Ég ætlaði að biðja þig um að segja mér frá reykhúsunum þínum, Sigríður.

SG:  Já það er nú nokkuð gamalt þetta elsta sem er búið að vera að notað frá því snemma á síðustu öld. Og það er vitað til þess að þessi kofi er að stofni til frá því fyrir 1700. Þá var þetta útihús hjá bónda sem bjó á býlinu Hólum, sem nú er komið í eyði fyrir lifandi löngu. Og það er búið að nota þetta hús til að reykja í þangað til fyrir svona átta eða tíu árum þá byggði sonur minn sem var með grásleppuútgerð, hann setti þak á tóft og byggði upp til þess að reykja í rauðmagann. Því að rauðmaginn var alltaf saltaður og reyktur.

HG:  Viltu segja mér betur frá því hvernig það var gert?

SG:  Hann var „pekil“ saltaður og svo var hann látinn þorna lengi og eiginlega þykja mönnum svolítið vafasamar aðferðir sem manni virðist vera sumsstaðar notaðar, að passa að láta hann ekki þorna of mikið, því þá verður hann náttúrulega léttari. En hérna vildu menn hafa hann vel þurran og hanginn.  Svo var þetta bara reykt; hengt upp og reykt í dálítinn tíma; ekki mjög lengi, en þó svona aðeins. Og þetta var gjarnan reykt við tað, ef hægt var að fá þurrt sauðatað; og alltaf var einhver viður líka, svona í uppkveikjuna: Gjarnan ef að menn, það var nú kannski hálfgert feimnismál; ef þeir náðu í klær af krækiberjalyngi, þá þótti það mjög gott til að gera gott bragð. Og svo var þetta byrgt með torfi til þess að ekki logaði uppúr, því að ekki mátti rauðmaginn hitna.

HG:  Og hvernig var eldstæðið?

SG:  Þetta var nú bara svona eins og litlar hlóðir sem voru gerðar, og svo safnaðist nú í þetta aska, og hækkaði upp í hlóðunum.

HG:  Hvað heldurðu að rauðmaginn hafi verið þurrkaður lengi?

SG:  Þetta fór nú svolítið eftir því hvernig viðraði sko. Ef það var raki í loftinu þá þurfti að þurrka lengur og svona; en hann var þurrkaður þó nokkuð lengi. Það var eiginlega miðað við að hann væri orðinn vel harður; ef maður kleip í hann þá væri hann ekki linur, hann varð að vera vel þurr.

HG:  Heldurður að það hafi tekið meira en viku í meðal veðri?

SG:  Jafnvel, ekki minna en viku held ég. Þetta fór líka eftir því hvenær á vori þetta var, því það varð að vara sig á því ef það var orðinn mikill hiti í tíðinni. Þá vildi hann moltna svona og jafnvel koma fluga í hann, og það varð að passa sig á því.

HG:  En söltunin....var saltið eitthvað sérstaklega blandað?

SG:  Nei ég man nú ekki til þess. Þetta var bara saltað dálítið vel. Það var svolítill vandi, að hann yrði ekki of saltaður.

HG:  Manstu hvað það var lengi sem hann var saltaður?

SG:  Nei ég man það nú ekki svo nákvæmlega. Ég þori ekki að segja það. Það voru karlarnir sem gerðu þetta þegar þeir komu með hann af sjónum og gengu frá honum.

HG:  Hann var hveljuskorinn var það ekki að einhverju leyti?

SG:  Nei nei, það var tekinn kamburinn og passað að láta ekki skerast inn í fiskinn, því þá var meiri hætta á að það gæti komið fluga í þetta.

HG:  Það var tekinn kamburinn og kviðurinn og þá hausinn líka?

SG:  Já. Það var byrjað aftantil og skorið aftan við kambinn, skorið fram með, niður með hausnum og svo kviðhveljan aftur að uggunum, ekki aftur að sporði heldur aftur að gotraufinni. Þetta var tekið bara í einum skurði.

HG:  Og svo hefur þetta verið grafið í salti?

SG:  Já, eða þá sett í „pekil“.

HG:  Styrkleikinn á pæklinum?

SG:  Það þori ég nú ekki að segja um.

HG:  Og svo voruð þið að borða þetta allt árið er það ekki?

SG:  Jú, svona. En á seinni árum þá var nú selt svolítið af þessu, ef við vorum með mikið af þessu. En svo var þetta nú sett í frysti þá, þegar það var kominn frystir fyrir mörgum árum. Þetta geymdist nú kannski ekki endalaust öðruvísi en það væri þá fryst.

HG:  Og fyrst og fremst haft út á brauð?

SG:  Já, með brauði.

HG:  Kannastu við að einhver annar fiskur hafi verið reyktur?

SG:  Nei, ekki sem ég veit um, ekki nema það sem maður fiktaði við ef maður var með reyk í kofanum og var með fiskflök, að þá var þeim stundum brugðið í reyk, saltað í það og brugðið í reyk í smá tíma, en það var ekkert gert neitt verulega af því.

HG:  Ólafur á Sellátranesi er með kaldreykingarbúnað, reykurinn er leiddur frá einum kofa í annan í gegnum stokk til að fá hann kaldan. Kannastu eitthvað við að menn geri svona lagað hér um slóðir, eða er þetta sérstakt?

SG: Nei þetta var nú aðeins gert ef kofarnir voru litlir og þröngir til að verjast því að það hitnaði í þeim, en það var ekki mikið um það. En hitt var reynt að passa að það kæmi ekki hiti í kofann. Það skemmdi bæði rauðmaga og kjöt. Það var reynt að byrgja það þá með torfi. Setja yfir svo að það logaði alls ekki uppúr, það var gert hér.

HG:  Hvað kveiktuð þið oft upp?

SG:  Það var ýmist einu sinni á sólahring eða tvisvar. Ég hef verið að reykja allt að þessu, og ég hef kveikt upp oftast kvölds og morgun.

HG:  Hvernig gekk að ná í tað?

SG:  Það gekk illa. Því hér er fé á grindum, en það hefur alltaf verið reynt að ná einhverjum taðflögum sem voru komnar ofan á grindur. Þá var það gjarnan tekið og þurrkað og haft til að reykja við, en það er svolítið erfitt, það er vandamál að ná því.

HG:  Þakka þér fyrir Sigríður.

(Svör nr.14597  hjá Þjms; mótt: 23.4.2003).

Þorrablót

Þorrablót hófust um 1950 á Rauðasandi, og þá sem smásamkomur sem ekki var gert mikið út úr. Raunar mættu þar allflestir Rauðsendingar, nema smábörn og þeir sem treystu sér ekki gangandi, því það var alllangt fyrir þá sem lengst áttu að fara.

Mat var komið með af heimilunum og svo lagt í púkk; helst í trogum sem voru þá víðast til. Það var hangikjöt, svið, hákarl ef til var, harðfiskur, hveitikökur og rúgkökur. Laufabrauð þekktist lítið hér, þar til norðlensk kona flutti á Sandinn. Hún kom þá með laufabrauð. Svo var kaffi, pönnukökur og kleinur.

Eftir matinn var svo dansað; oftast við grammofónsspil, en einnig söngleikir t d. „Meyjanna mesta yndi“, „Í bónorðsvífum hann fer að stað“ o.fl. Að ógleymdu því að „vefa vaðmál“(það var aldrei kallað Vefaradans á Rauðasandi). Það kunni hvert mannsbarn að heita má á Sandinum.

Árið 1955 var farið að halda þorrablót í félagsheimilinu Fagrahvammi sem þá var nýbyggt. Þá var farið að skipta hreppnum í deildir til að sjá um blótin. Rauðisandurinn var ein deild; Patreksfjörðurinn sunnan til ein; Útvíkur ein og svo Örlygshöfnin. Svo vísaði hver nefnd á þá næstu í lok þorrablótsins. Hlutverk þessara nefnda var að sjá alveg um þorrablótin, matinn, skemmtiatriði og dansmúsik. Nokkur metnaður var hjá nefndunum að hafa allt sem best úr garði gert, helst betra en fyrra ár!

Matur var allur framleiddur á svæðinu nema hákarl og stundum harðfiskur sem þurfti að kaupa að. Það var hangikjöt, svið, rófustappa, kartöflustappa, súrir lundabaggar og súrir hrútspungar og bringukollar, hákarl, harðfiskur, hveitikökur, rúgkökur, rúgbrauð. Stundum var súrt rengi og reyktir magálar ef tókst að útvega þá. Allur matur var borinn fram í trogum.

Ég held að lundabaggar úr ristlum hafi verið horfnir úr sláturgerðinni hér, áður en þorrablótin voru endurvakin; en ég man eftir þeim frá því ég var yngri. Við krakkarnir vorum látin halda í ristlana á meðan konurnar ristu og skófu. Síðan voru gerðir, og eru enn; lundabaggar með hálsæðum og sumstaðar gollurhúsum; saumaðar utan um það þindar. Stundum voru höfð hjörtu í lundabagga en þótti ekki heppilegt þar sem þau þurftu meiri suðu. Lundabaggar voru oft reyktir hér um slóðir.

Með þorramatnum var, þá sem nú, boðið upp á goskrykki, en menn höfðu oft með sér vasapela til blöndunar. Ég held að áfengisneysla hafi aukist á þorrablótum í seinni tíð; a. m. k. orðin almennari og ekki pukrast með þetta eins og oft var fyrr.

Hér á bæ borðum við þorramat ekki svo mikið meira á þorranum, því enn er þessi matur nokkuð algengur á borðum allt árið.  Það er þá helst hákarlinn sem er meira borðaður á þorranum. Aftur er talsvert orðið um að stórfjölskyldur, t.d. systkinahópar með sínar fjölskyldur, komi saman og haldi sín smáþorrablót á þorranum. Þorramatur var ekki algengt orð hér fyrr en fyrir fáum árum, og jafnvel ekki mikið notað hér; meira hvað það heyrist og sést í fjölmiðlum.  Sjálfsagt er það vegna þess að þessi íslenski matur er það algengur hér.

Svo er það með skemmtiatriðin. Þau hafa alltaf verið samin og flutt af undirbúningsnefndinni með fáum undantekningum. Var þetta oft ótrúlega fjölbreytt efni og mátti kanski fremur kalla revíur. Oftast var saminn leikþáttur og fluttur með þó nokkrum tilþrifum og í gervum sem voru iðulega snilldarlega gerð. Í þessum leikþáttum var oft komið fyrir annál ársins og má næstum segja að undirbúningsnefndir hafi verið á höttunum eftir efni allt árið. Gamanvísur voru samdar og fluttar; stundum tvær, þrjár drápur og þá einnig skens um sveitungana. Reynt var að hafa það á léttum nótum svo ekki sviði undan en þó kom fyrir að menn gátu ekki á sér setið að nota spaugileg atvik sem viðkomandi mislíkaði. Auglýsingar eru einnig ómissandi á blótunum. Stöku sinnum var rímnakveðskapur en ekki voru allar nefndir svo heppnar að hafa rímnamönnum á að skipa. Það var með ólíkindum hvað tókst að framleiða af efni, bæði andlega og líkamlega, af fáu fólki; því oftast voru þetta 6 til 8 fjölskyldur í hverri nefnd.

Svo fór að fækka svo fólki að þetta gekk ekki upp. Fór þetta þá að losna nokkuð í reipunum en oftast hefur þó tekist að koma upp þorrablóti í sveitinni og þá undirbúið af þeim sem næst búa við félagsheimilið okkar, en þar er fjölmennast. Eftir borðhald var og er dansað; oft var það við harmonikkumúsik en seinni ár hafa verið fengnar hljómsveitir. Á fyrri blótum var oft dansað til kl. 5 - 6 að morgni en nú er dansað til kl. 3 - 4. Áður voru mest dansaðir gömlu dansarnir en eftir að hljómsveitir komu til sögunnar er þetta mest þeirra venjulega tón- „list“. Mikil ásókn hefur löngum verið á blótin hér í Fagrahvammi úr nágrannabyggðum og hafa menn skrifað sig á lista með miðapantanir og oft fengið færri en vildu. Húsið tekur ekki nema rúmlega 100 manns í sæti.   (Svör nr.12343 hjá Þjmsj.Mótt : 1.10.1995).

Sjávar- og strandnytjar

Ég hef nú fremur lítið að segja um þetta efni. Hér vissi ég ekki til að söl væru notuð til manneldis en hér er sumsstaðar góð fjörubeit fyrir sauðfé. Skarfakál var nokkuð notað til matar.  Ég heyrði ekki mikið um skelfisksneyslu áður fyrr, en þegar ég var að alast upp voru nokkur kræklingsnot á einum bæ í sveitinni; Hvalskeri.  Þar er mikið útfiri í Skersbug, og var geisimikið sótt þangað í kúfisk frá verstöðvum; sem notaður var í beitu. Ekkert hef ég heyrt um loðnunot, en ég man eftir að einu sinni, ca. um 1940, þá kom á land á Rauðasandi geisimikið af hlýra; alveg nýjum, sem var notaður nokkuð. Ég veit ekki hvernig á þessu stóð, og kannske hefur þetta gerst áður og oftar. Um selinn treysti ég mér ekki að skrifa; Ari Ívarsson mun hafa gert því skil, enda selveiði á hans heimili sem og annarra bæja við Bæjarvaðal á Rauðasandi. Mest var hún í Saubæ.  Það var gömul hefð að senda einn kóp á hvern bæ á Sandinum frá Saurbæ á selveiðitímanum. Spikið var saltað og soðið með saltfiski. Kjötið sem ekki nýttist nýtt var held ég mest saltað. Sviðin voru súrsuð og þóttu lostæti.

Um lúðuna veit ég ekki margt sjálf en hef spurt þá sem aldir voru upp í verstöðinni í Kollsvík. Heiti á lúðu sem hér tíðkuðust voru: Lok eða lúðulok var smálúða; lóa var einnig heldur smá; spraka, heilagfiski og flakandi lúða var það stór að hægt var að taka af henni rikling. Ekki treysti ég mér til að lýsa aðgerð á lúðu en nöfn hef ég heyrt á ýmsum hlutum hennar. Höfuðflak, hnakka(flak)stykki, vaðhorn (fremst á kviðflaki), spildingur (beinin sem fylgdu hrygg), rafabelti og riklingur. Lúðuriklingur var skorinn í strengsli og hert. Settir voru pinnar milli strengslanna svo að þau vefðust ekki upp. Sporðstykki var kallað strabbi. Beinin í sporði voru kölluð ljáir. Rafabelti voru oftast hert. Þau urðu reyndar aldrei hörð vegna þess hvað feit þau voru. Rafabeltin voru pækilsöltuð fyrst og síðan hert og borðuð þegar þau töldust orðin verkuð og kölluð einæt. Sú trú var að ef menn drógu lúðu þá væru líkur til að sá hinn sami ætti von á erfingja. Ein vísa hefur gengið hér um sveit sem húsgangur og var ort fyrir munn Sigurbjarnar Guðjónssonar sem bjó í Hænuvík fram til ca. 1950. Kona hans hét Ólafía Magnúsdóttir og var hún kölluð Lóa. Vísan er svona:“Ég á lóu á landi og sjó/ líka nóg í soðið/ útí flóa og inn við stó/ á henni glóir roðið“.

Ein er sú tegund sjávarnytja sem hér tíðkaðist, en það er hrognkelsaveiði. Hún var stunduð frá allmörgum bæjum hér í sveit á vorin og var drjúgt búsílag. Raunar þekkti ég ekki slíkt í uppvexti á Rauðasandi því þaðan var hrognkelsaveiði ekki stunduð.  En dæmi voru til að menn þaðan kæmu sér upp netstubb og vinir og vandamenn, t.d. hér í Kollsvík, hefðu hann með sínum netum og eigandi fengi aflann úr því. Á næsta bæ bjó kennarinn okkar og ég man eftir að þegar ég var smástelpa þá var hann að kenna strákunum á þeim bæ að riða rauðmaganet úr togþræði; ég held í og með til að kenna þeim handbragðið því hann lagði mikið upp úr því að þeir kynnu gamalt handbragð af sem flestu tagi. Rauðmaginn var etinn nýr; saltaður og reyktur. Einnig stundum bara hertur og borðaður einætur; helst ef lítið var af honum, svo ekki þótti taka því að gera upp reyk fyrir hann. Hann var þá saltaður eins og sá sem átti að reykja; látinn liggja í salti í sólarhring. Grásleppan var látin síga, en hér var hún látin síga heil en ekki flökuð og kúluð eins og tíðkast víða.

Tengdamóðir mín sagði mér að grásleppuhrognin hafi verið notuð í einskonar hrognaost en hvernig það var gert veit eða man ég ekkert. Nú hef ég aflað mér upplýsinga um gerð hrognaostarins. Ég talaði við Torfa Össurarson sem er mikill sjór af fróðleik um gömul vinnubrögð. Hann er fæddur hér í Kollsvík 1904 en bjó í Dýrafirði mestan sinn starfsaldur. Osturinn var gerður þannig að hrognin voru stöppuð í íláti með hnalli (strokkbullunni sagði Torfi). Síðan voru himnur síaðar frá og hrognin soðin stutt í potti. salt. Síðan var þeim hellt í ílát og mig minnir að tengdamóðir mín segði að létt farg hafi verið sett ofan á. Kælt og síðan sneitt upp og notað með brauði eða kartöflum.   (Svör nr.10504 hjá Þjmsj.Mótt : 1.3.1991).

Rústir

Ég er hrædd um að of lítil virðing hafi verið borin fyrir gömlu rústunum og margir talið landhreinsun að slétta yfir þær; og það sem enn verra er, að róta þeim burt með jarðýtum. Þá leið fór gamli bæjarhóllin á Lambavatni sem var mest uppbyggður af hleðslum, þeim elstu áreiðanlega ævafornum. Þegar grafnar voru votheysgryfjur þarna í hólinn þegar ég var unglingur, náðu veggir það langt niður sem grafið var. Þar voru sagnir um að ekki mætti byggja bæi nema á hólnum vegna grjóthruns úr fjallinu annarsvegar en stórstraumsflæða hinsvegar.

Fornar hleðslur eru til á Melanesi á Rauðasandi sem munu taldar utanum akra og hafa verið rannsakaðar frá Þjóðminjasafni. Ekki kann ég að segja frá beitarhúsum í sveitinni en þau munu hafa verið á Skógi á Rauðasandi þar sem Saurbær (Saurbær átti Skóg) átti ítök og Bæjarfé var beitt fram á vetur a. m. k. fram til síðurstu aldamóta eða lengur. Ekki kann ég að staðsetja þau. Hér í Kollsvík er örnefni og sést raunar fyrir tótt, út á svonefndum Hústóttarbökkum sem eru yst á Hnífum en það eru háir sjávarklettar með graslautum og slökkum í brúninni. Engar sagnir eru nú um þessa tótt en hún gæti hafa verið beitarhús eða kannske heytótt eða smalakofi en þó tæplega þar sem hún er trúlega of stór til þess. Bæjarhúsatóttir eru hér víða en ég held flestar frá þessari öld en margar trúlega byggðar upp úr eldri tóttum.  Gott hleðslugrjót var notað öld eftir öld, kynslóð eftir kynslóð.

Hér á Láganúpi var í túninu hjáleiga sem hét Hólar. Þeir voru í byggð þegar Jarðamatsbók Árna og Páls var skrifuð þar er sagt að þar hafi byggst fyrir um 50 árum og síðast sem ég veit til er getið um Hólabónda í málsskjölum frá Sjöundármálum um hesth eftir framhlaldam. 1800. Þessar bæjartóttir eru vel sýnilegar enn, þó sjálfsagt hafi verið rifið úr þeim grjót. Til gamans má geta þess að eitt af útihúsum Hólabónda er notað enn en efri hluti veggja verið byggðir upp og þak gert upp en það var með helluþaki þar til fyrir 3-4 árum. Þessi kofi er enn notaður hér fyrir reykhús. Þessi hluti túnsins heitir enn Hólar. Svo er hér upp með Gilinu gömul tótt að mestu horfin í sandfok en mótar aðeins fyrir. Engin deili vita menn á henni.

Gömlu bæjarhúsin á Láganúpi stóðu, bær fram af bæ, á Bæjarhólnum en því miður var sléttað yfir tóttirnar þegar bæjarstæðið var flutt neðar (frá Hjöllunum) 1934. Að vísu voru þá ekki komin stórvirk tæki til að róta öllu um, svo undirstöður eru þar enn undir sverðinum.

Gamlir grjótgarðar hafa fundist hér á kafi í sandi og gróið yfir svo engin merki sjást á yfirborði. Þeir hafa ekki verið kannaðir en virðast liggja þvert á norðanáttina sem hefur verið skæð með að ausa hér sandi úr fjörunni upp á túnið svo til vandræða hefur horft. Hefur mönnum því dottið í hug að þetta hafi verið sandvarnargarðar (kannske hefur Björn í Sauðlauksdal fengið þar hugmynd að sínum fræga Ranglát?) Túngarður hlaðinn er hér fram Hjallana fyrir ofan túnið. Tengdafaðir minn hlóð þennan garð á einum vetri árið 1927-´28. Eldri garður var þarna hlaðinn en orðinn ónýtur og notaði Guðbjartur tengdafaðir minn grjót úr þeim garði. Hann liggur fram hjallana og svo niður brekkuna í svonefnt Garðsendadý sem var foraðskelda undir brekkunni.

Stekkir hafa verið hér allmargir; flestir þó á Hnífunum. Þar eru, eins og áður var getið, lautir og bollar í brúninni og þar eru nafngreindir fjórir stekkir og sést vel fyrir hleðslum thufustekkur 2á þeim öllum. Hér næst er Þúfustekkkur og er hann undir smá klöpp þar sem Brunnsbrekkan tekur við norður af Hnífunum og nær niður að sjó. Stuttan spöl þar fyrir utan en smálaut heimantil við Strengbergið sem er hæsta brúnin á Hnífunum. Þar er Eyvararstekkur en utantil við Strengbergið er önnur svipuð laut með áþekkum smátóttum sem heitir Katrínarstekkur. Engin munnmæli eru til um við hvaða konur þessir stekkar eru kenndir en þeir eru mjög gamlir og mjög litlir. Sama má segja um fjórða stekkinn sem heitir Grófarstekkur. Hann er utar á Hnífunum upp af svonefndu Undirlendi í litlum djúpum bolla á brúninni. Hér í Víkinni voru mörg grasbýli þar sem fólk lifði á sjávarfangi og átti kannske örfáar kindur og líkur eru til að konurnar hafi haft þessa fáu ær í kvíum og stekkirnir verið nefndir eftir þeim enda eru þeir með ólíkindum litlir.

Bærinn Grundir var hér niðri við sjóinn. Hann fór í eyði um 1945. Þar standa allar tóttir að vísu nokkuð hrundar en þó furðu lítið. Bæjartóttir eru þar allgamlar; hafa verið byggðar upp í sama form gegn um tíðina. Ég held að sá bær hafi verið nokkuð dæmigerður fyrir byggingarlag hér í sveit (riss af bæjarhúsagrunni). Stigi var úr eldhúsi. Baðstofan var ekki þiljuð sundur.

Svo er í Grundatúninu fjóstótt og undirstæður undan hlöðu. Einnig smiðjutótt og yngri hlöðutótt. Niðri á bökkunum var byggt grasbýli framan af þessari öld og sér fyrir þeim tóttum. Þarna á sjávarkambinum er annars tótt við tótt. Þar voru fjárhús frá Grundum og Láganúpi ásamt lambhúsum, hrútakofum og fjárrétt. Þarna voru fyrir löngu verbúðir, en upp úr þeim tóttum munu fjárhúsin hafa verið byggð. Í jarðabókinni segir að til forna hafi þarna verið 18 búðir en lending hefur þar verið mjög slæm. Þar sést fyrir ruddri vör. Á kambinum er hlaðinn túngarður sem stendur sumstaðar mjög vel. Sagt var að bóndi fengi vermenn til að hlaða þennan garð í landlegum. Annars segja þeir Árni M og Páll V. að Grundir hafi byggst upp úr stekk fyrir um 50 árum sem hjáleiga frá Láganúpi. Fyrir ofan þennan garð voru hlaðnir veggir um kartöflugarða sem seinna standa það vel að þeir væru enn skepnuheldir með litlum lagfæringum.

Í rifinu með sjónum sjást öðru hvoru koma úr sandi nokkrir fornir steinbítsgarðar en þegar þeir hafa verið í notkun hefur ekki verið svo mikill sandur í fjörunni og nú er, annars hefði fokið í steinbítinn sandur. Stekkjarmelur heitir býli; hús í miðri Víkinni sem ber með sér að það er einnig byggt upp úr stekk. Í Tröð er mikið af tóttum, reyndar ekki mjög gamlar; byggt um 1910 af tengdaföður mínum, en þær standa mjög vel. Hann hlóð líka garð um túnblettinn. Hann hóf þar búskap um 1909. Á gamla bæjarhólnum í Kollsvík eru margar tóttir. Þar var jafnan tví og þríbýlt og væri kannske þess virði að þessar rústir væru rannsakaðar betur. T. d. sést vel fyrir tótt af baðstofu sem hrundi eða fauk árið 1857 og varð af mannskaði. Í svokölluðum Bergjum er gömul rétt; hlaðin, og þar og á Stöðlinum er bókstaflega allt morandi í hleðslum, garðar og kálgarðaveggir o. fl. sem mest er fallið í gleymsku. Önnur hlaðin rétt; yngri, er við túngarðinn á Tröð, hún var notuð fram á síðustu ár. Gamall kálgarður er á svo kölluðum Tranthala norður og upp af Kollsvíkurtúni með hlöðnum veggjum.

kross marteins ionaÍ Kollsvík var hálfkirkja sem lögð var af við siðaskipti. Enn vita menn hér nokkurnveginn hvar sú kirkja stóð og smávegis mótar fyrir horni á Kirkjugarðinum enda hafa komið þar upp nokkrar beinagrindur þegar grafið hefur verið þar fyrir skepnuhúsum. Það mun hafa verið venja eftir siðaskipti að óvirða pápískar kirkjur og kirkjugarða með því að byggja þar gjarnan fjós og önnur útihús enda hefur fjósið og fjóshlaðan staðið þarna í aldir.  (Myndin er af Marteinskrossinum við Kólumbusarklaustrið á Iona í Suðureyjum, en hann er þeim tíma að Kollur og Örlygur voru þar til náms -VÖ-).

Kollsvíkurver er kapítuli út af fyrir sig en þar vísa ég í kver sem ég sendi með bréfi með svörum um ígangsföt frá Þjóðháttadeild f. ca 2 árum. Þar er kort af öllum tóttum þar. Þetta er niðjatal Guðbjartar og Hildar á Láganúpi.

Norðan til við Kollsvíkurtún er lítil lind sem heitir Gvendarbrunnur, enda átti Guðmundur góði að hafa vígt hana á flandri sínu um landið. Mikil trú var á lækningamætti þessa vatns; allt fram á þessa öld. T. d. færðu tvær systur sem fóru í heimsókn til systur sinnar í Dakota (hún flutti út ca 1920) flösku með vatni úr lindinni.  Þær voru fæddar og uppaldar í Kollsvík. Ef börn eru skírð heima hér í Víkinni þá er enn tekið skírnarvatn úr lindinni. Síðan var talið heilsusamlegt fyrir augun að baða þau úr margvígðu skírnarvatninu.

Hér á rifinu handan til við Kollsvíkurver er gömul lending og þar eru tvær vörður sem bera saman þegar bátar voru komnir í stefnu á lendinguna. Þær heita Snorravörður og eru orðnar vel fornar, a. m. k. er týnd saga af því hver þessi Snorri var. Tvær gamlar vörður eru hér sem voru eyktamörk. Önnur heitir Nónvarða og er á Hjallabrúninni þar varda litlafellisem sól ber í hana um nónleytið (kl. 3 síðdegis) frá Grundum. Hin er Hádegisvarða sem stendur við Hádegisskarð sem er smáskarð í Hjallana í hádegisstað frá gamla bænum á Láganúpi. Vörður eru að sjálfsögðu með öllum gömlu hestagötunum sem lágu hér um öll fjöll. Ein stóð hér við götuna yfir Hænuvíkurháls þar sem komið var upp Steilurnar sem liggja upp Húsadalinn. Hún hét Grasvarða sjálfsagt vegna þess að grasblettur var umhverfis hana þar sem hestar og menn höfðu áð þar gegnum aldirnar með tilheyrandi áburði. Annars er þarna urð og grjót. Þarna var lagður vegspotti að fjarskiptamastri sem reist var fyrir fáum árum og ekki var virðingin fyrir gömlum minjum meiri en það að þessi gamla varða ásamt tilheyrandi ræktunarlandi lenti undir veginum. Inn á Skersfjalli er ein ævaforn varða sem heitir Digra Tobba og hefur borið nafn með rentu, en farin að hrörna.

Eitt örnefni er hér fram á svokölluðu Umvarpi niður af Öxlinni sem er fremsti endi Hjallanna sem liggja í boga ofan við Láganúpstúnið. Þar er lítill hóll og lágur nokkuð aflangur sem heitir Fornmaður. Kannske hefur það helgast af nafninu að eitt sinn (fyrir um 50-60 árum) grófu strákar holu í hólinn en komu niður á klöpp eða stóran stein (kannske hellu!) Engar sagnir hef ég annars heyrt um þennan fornmann.

Þá er eftir að geta um refaskotbyrgi sem vitað er um a. m. k. sjö í Kollsvíkinni. Þar sem ég veit ekki til að þau séu annarsstaðar skráð þá held ég að ég megi til að bæta því hér strengberg tofuhusvið. Eitt byrgið er hér úti á Strengbergsbrúninni, alveg fram á blábrún svo tófan komst ekki framhjá nema fyrir ofan byrgið. Byrgin voru ekki meira en tæpur metri á lengd að innan máli, smá bálkur í endanum til að sitja á og rétt rými fyrir einn mann. Hlaðnir smá veggir og tyrft yfir. Dyr voru rétt hæfilegar til að skotmaður gæti skriðið um. Gjarnan var reynt að gera holu niður í brúnina, svo þetta yrði sem lægst og bæri minna á því. Svo var niðurburðurinn; dauð kind eða slíkt, hafður í hæfilegu skotfæri og grjót sett yfir svo rebbi rifi þetta ekki allt í sig þegar enginn var í byrginu. Þetta byrgi átti Ólafur Ásbjörnsson afabróðir minn, sem bjó á Láganúpi um síðustu aldamót og sagt var að hann hefði verið vanur að leggja sig í rökkrinu og sofna og ef hann dreymdi tófu fór hann út í byrgið og náði þá venjulega tófunni.

Annað byrgi var niðri við sjó, á svokölluðum Hreggnesa. Það munu Grundamenn hafa notað. Útbúnaður var sá sami á þessum byrgjum var eins og byggt fram á blábrún.

Svo var eitt byrgi á Kollsvíkurnúpnum og eitt á Sanddalsbrúnum rétt við Vallagjánna. Eitt ævafornt er á brúninni við Katrínarstekk og annað frammi á brún við Þúfustekk. Enn eitt er á Melsendaklettunum fyrir norðan Kollsvíkurverið.

Nokkur orð um vatnsmyllur: Ein var í Torfalæk og sést nokkuð til rústa, önnur í ánni en þar sést ekkert af henni, svo voru tvær í lækjum í Kollsvík, þar sem ég held að sjáist enn smávegis hleðslur.

Einu gleymdi ég næstum í sambandi við Guðmund góða en í Kollsvíkurtúni er nokkuð stór þúfa sem heitir Biskupsþúfa. Þar á Guðmundur biskup að hafa hvílt sig þegar hann gekk heim túnið frá lindarvígslunni. Túnið var sléttað þar í kring en þúfunni alltaf hlíft. Í þessari þúfu er steinn, en undir þeim steini átti Kollur landnámsmaður að hafa fólgið fé sitt. Svo átti hann að hafa lagt fyrir að heygja sig norður á Blakknestá en þaðan er sjónlína í þúfuna. Mátti þar engu hreyfa; að því viðlögðu að bærinn átti að brenna ef raskað yrði þúfum. Að lokum vil ég segja að ég hlýt að hafa verið vegghleðslumaður í einhverri fyrri tilveru; svo meinilla sem mér er við að hreyfa nokkrum grjóthleðslum! Kannske ber þessi langloka þess merki þó  margt sé enn ósagt, en þetta er það helsta.  (Svör nr.10574 hjá Þjmsj.Mótt : 1.11.1992).

Náttúruhamfarir

 Það er nú að fara í geitahús að leita ullar að spyrja um náttúruhamfarir á "mínu" svæði, þar sem hér þekkist ekki eldgos, jarðskjálftar eða stórfljót með tilheyrandi hlaupum.  En eitt get ég þó getið um sem náttúruhamfarir teljast og það er stórviðri.  Rauðasandur er þekktur fyrir að þar gustar stundum hressilega og eru til margar sögur af því. Ekki hef ég heyrt um slys í því sambandi enda þekktu menn þessar aðstæður og höfðu varann á.  Ég man að þegar við krakkarnir gengum í skólann (um 1 stundar ganga hvora leið), þá hlustuðum við eftir hvininum í rokunum og hentum okkur þá niður, helst milli þúfna, meðan rokan gekk yfir. Svo var staðið upp og hlaupið þar til heyrðist í næstu roku. Á milli þessara þota var blæjalogn góða stund.  Stundum var rokið slíkt að ekki þótti fært að við færum í skólann.

Mesti skaði sem ég veit um í roki á Rauðasandi var seint í janúar 1966 þegar kirkjan í Saurbæ fauk af grunni og brotnaði í spón. Mesta furða var hvað bjargaðist af kirkjumunum, eins og kirkjan fór í smátt.

Nokkrar sögur hef ég heyrt um menn sem höfðu orðið úti. Oftast var talið að fólk hafi ekki verið nógu vel búið, en þó var það ekki alltaf.  En illa hefur hún Vilborg verið klædd þegar hún varð úti í djúpri og krappri laut á Skersfjallinu. Til er saga um að hún hafi átt barn í óþökk samfélagsins. Var það tekið af henni og ráðstafað vestur á Sandi. Hún átti að hafa verið að heimsækja barn sitt um jólaleytið yfir Skersfjall en varð úti í Borgulág.

Ekki man ég eftir sérstökum frosthörkum en veturinn 1949 var mjög snjóþungur meira að segja á Rauðasandi, næstum eini snjóavetur sem ég man eftir frá mínum uppvexti á Sandinum. Þá kom vorið 17. júní en snöggt skipti þá um.

Sjávarflóð eru algeng á Rauðasandi. Þar hagar svo til, að mikið landflæmi, marflatt er milli fjalls og fjöru sem voru mest engjar og beitarland, en hefur nú verið ræktað að hluta. Í stórstraumsflæðum, einkum á haustin féll sjór yfir mikinn hluta þessa lands og var venja að taka upp girðingar að haustinu þar sem mesta flóðahættan var. Svo þurfti að girða aftur á vorin. Þetta kostaði vitanlega mikla vinnu en á móti kom að landið virtist fá mikla næringu úr sjónum enda Sandurinn grösugur mjög.

Nokkuð var um að skriður féllu úr fjallinu sem Rauðasandurinn liggur sunnan undir. Sérstaklega var landareign Stakka, Grafar og Stekkadals hætt við þessum skriðuhlaupum. Ég man eftir þó nokkrum skriðum sem komu vitanlega helst niður í mjög miklum rigningum. Mest var þetta aur og smá möl og greri oftast fljótt upp úr þeim en skemmdu þó nokkuð túnin. Ekki hefur þó land spillst svo af þessum sökum, að til vandræða horfði og ekki veit ég til að mannvirki hafi skemmst.  Einnig hafa hlaupið niður skriður innst í Patreksfirðinum, í Skápadalshlíð. Síðast kom þar mikil skriða í fyrra haust (1995) sem rann út í fjörð og tók veginn á nokkuð löngum kafla. Tók þó nokkra daga að ryðja grjóti og aur af veginum og myndaðist tangi út í fjörðinn.

Úr Lambavatnsfjallinu koma aldrei skriður og er þar þó há og brött hlíð undir klettabeltinu, en þaðan kemur oft grjóthrun. Gamla túnið undir hlíðinni er stráð klettabjörgum sem hafa komið þarna niður.  T.d. voru 3 stórir steinar rétt ofan við bæina; ca 2 m á kant. Gömul sögn var að ekki mætti byggja bæina nema á bæjarhólnum vegna hruns úr fjallinu á annan veginn en sjávarflóða neðan frá.

Engin hætta hefur verið talin af snjóflóðum í Rauðasandshreppi, en við gerðum þá uppgötvun fyrir tæpum 2 árum (þegar flóðin féllu í Súðavík), að hér í Kollsvík hefur örugglega fallið snjóflóð yfir Kollsvíkurbæinn árið 1857. Það má segja að ekki sé seinna vænna að sá leyndardómur upplýsist hvað gerðist í raun og veru þegar bærinn splundraðist. Ýmsar tilgátur hafa verið uppi um þetta atvik, en aldrei komið upp á borðið það sem hlaut að hafa gerst fyrr en í hitteðfyrra, en þá féll snjóflóð á horn tóttarinnar af þessum bæ. Það hefur verið talið óhugsandi að þarna gæti komið flóð, bæði er hér oftast mjög snjólétt og svo er hlíðin þarna ekki há og fennir næstum aldrei í hana.  Til er mjög greinargóð lýsing á þessu flóði, rituð af manni sem lenti í flóðinu og er hún birt í Árbók Barðastrandarsýslu árið 1953 og viðbót við hana eftir Trausta Ólafsson, ættfræðing árið 1954.  Þarna fórst tvennt auk þess sem unglingsstúlka missti sjón og vinstri hendi og mest af fingrum hægri handar og smábarn sem missti að mestu fingur á vinstri hendi. Aðstæðum var lýst svo að í heilan sólarhring hafði hlaðið niður fönn svo ekki var komist um jörðina fyrir djúpfenni. Eftir það gerði "norðaustan garð með frosti".

Þá heyrir fólk skruðning og göngin fylltust af snjó og skipti engum togum að bærinn splundraðist og hrundi yfir heimilisfólkið sem mun hafa verið 15. Húsbóndinn, Guðbjartur Ólafsson var ekki heima og kom ekki heim fyrr en að kvöldi næsta dags. Slíkur var bylurinn þennan dag, að lítið var hægt að grafa í rústirnar nema bjarga þeim fáu sem ekki höfðu grafist djúpt í brakinu og vildi til að tveir menn a.m.k. festust ekki mjög í rústunum og gátu aðstoðað nokkrar manneskjur. Daginn eftir var veður skárra og komu þá menn af næstu bæjum til að leita. Snjóflóðið féll á fimmtudagsmorgun en á sunnudag mun það sem síðast fannst hafa verið grafið úr rústunum, þar af tvö börn lítt sködduð nema hvað kól framan af fingrum annarar handar barns á þriðja ári. Þau höfðu lent á holrúmi í tóttinni.  Aðstæður voru mjög líkar þegar snjóspýjan kom niður 1995 nema örugglega hefur snjómagnið verið miklu meira 1857, enda flóðið mun stærra.

Hafís hefur lítið sést hér eftir því sem ég veit best nema smá mor á fjörur. Þó mun ís hafa orðið hér landfastur öðru hvoru fyrir síðustu aldamót. Reyndar segir bóndi minn að ísspöng hafi orðið landföst hér í Útvikum sennilega árið 1944 en á Rauðasandi held ég að ekki hafi komið hafís að landi en sögur fara af.  Þá held ég að ég setji amen eftir efninu þar sem jarðskjálftar og eldgos eru óþekkt hér á Vestfjörðum eins og landsmenn vita.  (Svör nr.12331 hjá Þjmsj. Mótt :1.2.1996).

Vegavinna

Ég hef frá litlu að segja um vegagerð. Þó er nú ekki örgrannt að ég hafi borið við að vinna við slíkt; þ.e.a.s. ég átti að heita ráðskona fáar vikur, sumarið 1945, þá fimmtán ára. Þetta var nú mest viðgerð á veginum yfir Skersfjall í Rauðasandshreppi.  Pabbi minn og bróðir voru þarna í vinnu og fleiri af bæjunum á Rauðasandi. Ekki voru nú komin stórvirk tæki þarna, en mest rekur og járnkarlar og hestar og kerrur til flutninga.

Þetta var mest að hlaða upp vegkanta og aka möl í holur. Flokkurinn var nú ekki fjölmennur; mig minnir 8-9 menn, og svo sannarlega ekki kröfuharðir í matarmálum!  Mest var mér ætlað að hafa nóg kaffi og kex (Sæmund) hafragraut á morgnanna og soðinn fisk eða kjöt. Pabbi vakti mig um 7.30 þegar þeir fóru að vinna og svo var ég mest ein að gaufa á daginn, nema þegar þeir unnu stutt frá tjöldunum að þeir komu heim í mat, annars höfðu þeir bita með sér og borðuðu á kvöldinn þegar hætt var. Sofið var í tjöldum og eitt tjaldið notað sem eldhús. Tvo prímusa hafði ég til eldamennsku. Tjöldin voru flutt eftir því sem viðgerðum á veginum miðaði, því seinlegt var að ganga langar leiðir í tjöldin. Lækjarsytrur eru þarna víða og var tjaldað nálægt læk og gjarnan sóst eftir að lautir væru eða stórir steinar í nágrenni tjaldanna, því ekki þótti taka því, þar sem verkið tók ekki langan tíma, að koma upp náðhúsi!

Um helgar fóru menn heim til sín enda tiltölulega stutt að fara.  Ekki var mikil umferð um þennan veg á þessum tíma enda var hann ekki í sambandi við vegakerfið fyrr en alllöngu síðar. Þó var þarna einn vörubíll; hann gamli Ford, sem nokkrir bændur áttu saman. Annars var þessi vegur mest notaður til flutninga á hestum, bæði kerrum og reiðingi og að sjálfsögðu ríðandi fólki. Þessi vegur yfir Skersfjall var raunar nokkuð merkilegt fyrirbæri þar sem þetta var einn fyrsti bílvegur hér um slóðir en ekki í sambandi við aðra vegi. Ég kann bara ekki nógu vel sögu þessa vegar en ég vona að hún sé einhversstaðar skráð.  (Svör nr.12857hjá Þjmsj.Mótt : 1.3.1996).

Huldufólk

Kannski hef ég heldur lítið til mála að leggja um huldufólk og slíka vætti en frá því ég man eftir mér hefur mér þótt mesta mein að vera svona lítið skyggn á slíkt. Sem barn trúði ég þessu statt og stöðugt og sumu vil ég trúa enn.

sg atjanbarnafadir(Myndin er af steinhellu sem Sigríður málaði, og er tilvitnun í þjóðsöguna um átján barna föður í álfheimum.  Sigríður þróaði þá sérstæðu list að mála á steinhellur úr náttúrunni, og var sú list hennar eftirsótt.  Myndefnið vísar gjarnan til hugðarefna hennar, þjóðsagna og fyrri tíma.  T.d. viðaði hún að sér heimildum um fjölda gamalla bæja í Rauðasandshreppi og málaði þá á hellur). 

Ekki dettur mér í hug að bera brigður á skyggni fólks og þekki nokkra slíka sem ég veit að eru trúverðugir. Þegar ég var 3 - 4 ára kom á heimili mitt 8 ára telpa sem var þar heimilisföst fram yfir fermingu. Hún var rammskyggn og fleiri í hennar fjölskyldu (hún var af svokallaðri Krossætt en hún, sú ætt, hefur verið talsvert undir smásjá vegna þess að fólk af þeirri ætt dó margt um tvítugt í slagaveiki). Ekki veit ég til að skyggnt fólk sé talið öðruvísi að öðru leyti en fólk er flest. Þó var talið að það hefði oft undarlegt augnaráð sem ekki getur verið fráleitt þar sem það var oft að horfa á allt annað en annað fólk sá. Ekki hef ég heyrt um að skyggnt fólk sæi fremur huldufólk en aðrir en veit það þó ekki; helst var talið að skyggna fólkið sæi framliðið fólk.  Ég held að margt eldra fólk hafi trúað á huldufólk í mínum uppvexti; einkum konurnar. Karlarnir voru greinilega tortryggnari.

Reyndar þekkti ég eina gamla konu sem var skyggn bæði, að hún taldi, á huldufólk og framliðna. Ekki veit ég um hvað var með huldufólkstrúna hennar en ég heyrði sögu sem mér fannst sanna aðra skyggni. Móðir mín sagði mér hana eftir svilkonu sinni sem var bróðurdóttir þessarar gömlu konu sem hét Elín Benónísdóttir. Hún átti heima í Breiðuvík hjá bróður sínum, Sveini. Þessi gamla kona giftist ekki né átti börn og var talin heldur einföld. En svo hagaði til að fólkið bjó þarna í torfbæ og allir sváfu í baðstofu uppi á lofti og lá þangað stigi úr eldhúsi.  Kvöld eitt þegar fólk bjóst til að taka á sig náðir ætlaði Elín að bregða sér niður og opnar hlera sem var yfir loftsgatinu og fer niður tvö - þrjú þrep en stansar þá og lítur niður í eldhúsið. Bregður henni þá sýnilega og kemur aftur upp þrepin. Stendur þar stundarkorn eins og á báðum áttum en bítur svo á jaxlinn og fer niður og út. Kemur svo inn og fer upp og fer að hátta. Hún var spurð hvað hún hefði séð en hún gaf ekkert út á það. Daginn eftir fór bróðurdóttir hennar að ganga betur á hana með hvað hún hefði orðið vör við í eldhúsinu og sagði hún henni þá að hún hefði séð marga menn; alla blauta en bara þekkt tvo þeirra en það voru bræður sem bjuggu á hinum bænum í Breiðuvík en þar var tvíbýli. Þessir bræður voru þá á vertíð í Vestmannaeyjum. Um kvöldið komu svo boð um að báturinn sem þeir bræður voru á hefði farist með allri áhöfn.

Ekki heyrði ég frá því sagt að huldufólk væri hrekkjótt við fólk, nema hvað það ætti til að ásælast börn frá mennskum mönnum. Ég heyrði sögu af því að föðurbróðir mannsins míns hafi horfið þegar hann var smábarn (ca 2 ára). Var hann þá að dunda eitthvað út í Kollsvík en þar bjuggu foreldrar hans. Hans var leitað í 2 - 3 daga en á þriðja degi sást hvar hann sat uppi í smásyllu neðst í klettunum fyrir ofan bæinn sem heitir síðan Gíslahilla en drengurinn hét Gísli Guðbjartsson. Skammt þaðan er nokkuð stór steinn í hlíðinni sem heitir Árún.  Hét hann, að sögn, eftir álfkonu sem þar bjó og hét sama nafni og steinninn. Var talið að hún hefði náð barninu en skilað því aftur. Drengurinn var svolítið undarlegur upp frá þessu en varð gamall maður.  Manni gæti að vísu dottið í hug að barn sem væri týnt þennan tíma biði þess naumast bætur.

Best sannaða sagan sem ég þekki um huldufólk er saga sem ég heyrði frá nokkuð mörgum sem sáu þessa "manneskju". Bæirnir Grundir og Láganúpur áttu saman fjárrétt sem var niður við sjávarbakkana fyrir neðan Grundatúnið.  Á Grundum er móðir mín fædd og uppalin en hún mundi raunar ekki eftir þessu þar sem hún var smábarn. Svo var það eitt sumar að allt fólk af báðum þessum bæjum eru þarna í réttinni að taka af fénu (hér heitir það ekki að rýja). Sér það þá hvar kona kemur gangandi utan af Hnífum, sem eru háir sjávarklettar vestur af Grundabænum. Þar er nokkuð fjölbreytt landslag með bollum og lautum og klettanefjum í brúninni. Var þar talin huldufólksbyggð. Sá allt fólkið sem í réttinni var þessa konu og var hún nokkuð storholldökkklædd og stórvaxin. Hvarf hún svo fyrir klettanef en fólkið bjóst við að hún kæmi í ljós þegar hún hefði farið fyrir nefið. Er þar skemmst frá að segja að þessi kona hefur ekki sést síðan og var spurnum haldið um ferðir konu sem hlaut þá að hafa komið utan úr Breiðuvík. Enginn kannaðist við mannaferðir á þessari leið þennan dag. Fá ár eru síðan frænka mín rifjaði upp þessa sögu en hún var unglingur þegar þetta var og sagðist hafa horft á þessa konu eins og aðrir og varð þetta minnisstætt. Hún hét Guðný Ólafsdóttir og dó fyrir örfáum árum. Fleiri höfðu sagt mér þetta af þeim sem sáu það.

Huldufólk var talið búa í steinum, klettum og hólum. Þegar ég var að alast upp á Lambavatni þá vorum við krakkarnir varaðir við að vera með hávaða á Skaufhólnum sem er stór og sérkennilegur hóll milli Lambavatns og Naustabreku. Þar var sögð mikil huldufólksbyggð. Eins voru börn vöruð við hávaða við Stórhól sem er hóll úti á Hnífum.  Ekki heyrði ég um tegundir álfa en ég held ekki að gerður væri verulegur munur á álfum og huldufólki.

Hafi huldufólk verið verulega frábrugðið mannfólki þá heyrði ég ekki frá því sagt. En það var talið hefnigjarnt ef gert var á hlut þess.  Huldufólk var talið stunda svipaða atvinnu og mannfólkið þ.e. landbúnað og fiskveiðar en ekki heyrði ég mikið á það minnst nema að fólk taldi sig hafa orðið vart við lestarferðir huldufólks með hesta.  Ég heyrði helst talað um ferðalög á hestum og bátum. Helst hafði huldufólk bústaðaskipti um áramót eða um fardaga.  Eitthvað heyrði minnst á huldufé og jafnvel kýr. Þó var aðallega talað um sækýr en ég held að þær hafi verið annar stofn. Þessar sækýr voru gráar, ljósar með dekkri yrjum og það var talað um að sá litur væri arfur frá þannig ættuðum kúm. En til marks um sjóferðir huldufólks voru álfarákir sem sáust á sjó í stillum og næstum logni. Það eru lognrákir sem geta teygt sig býsna langt á sjó og enn eru nefndar svo.

Það var nokkuð almenn trú á að huldufólk fengi lánaða hluti hjá fólki en skilaði þeim alltaf aftur. Þó leið oft langur tími þar til hluturinn kom aftur fram. Eitt sinn þurfti ég að sækja eitthvað í skáp sem við eigum reyndar enn. Hann er með loki sem opnast ofan frá og hægt er að skrifa á lokinu en því er læst. Þegar ég er að róta í skápnum heyri ég að lyklarnir detta á gólfið úr skránni en held áfram með mitt erindi. Svo ætlaði ég að taka lyklana og læsa skápnum. En þá voru bara engir lyklar á gólfinu. Var þeirra leitað mikið enda gátu þeir raunar ekkert farið. Urðum við svo að gefast upp og útvega aðra lykla. Liðu svo nokkur ár en eitt sinn þurfti ég að fara í skápinn og þá lágu lyklarnir á blaðabunka fyrir innan hurðina. Var þá auðvitað margbúið að róta í blöðum í skápnum, taka sumt burt og bæta í öðrum á þessum árum svo alveg útilokað er að lyklarnir hafi verið í skápnum allan tímann. Sem sagt; enn segir maður ef eitthvað hverfur, að nú hafi huldufólkið þurft að fá þetta lánað.

Til er góð saga um skessu sem bjó í klettum á Rauðasandi og elti prestinn við Bæjarkirkju; sem var raunar forfaðir minn og bjó á Lambavatni um aldamótin 1700.  En þar er komið út í aðra sálma og því bíður hún betri tíma.  (Svör nr.11159  hjá Þjms; mótt: 6.4.1994).

Nytjar surtarbrands

Ég man eftir borðplötu sem til var í Saurbæ þegar ég var krakki; úr surtarbrandi. Þetta var stofuborð. Ég á myndaramma úr surtarbrandi. Það er surtarbrandur uppi í klettum ofan við Rauðasand og í Stálinu.

Skessan og séra Jón

Til er saga af drykkfelldum presti sem Jón hét og lenti í því að skessa elti hann. Sumir segja að hesturinn hafi sprungið en Jón komst undan skessunni í kirkjuna.  Hún spyrnti í hornið á kirkjugarðinum og sagði „stattu aldrei argur“. Síðan hefur aldrei staðið þar garðurinn. Við höfum ekki hátt um að það þar var seil; það er svona neðanmáls..

Jón dó með voveiflegum hætti á leiðinni út í Örlygshöfn – náttúrulega drukkinn – á Krossholti. Það var reistur kross þar sem hann dó. Hann var með vindla með sér og kveikti sér í vindli þegar hann var að hvíla sig á þessu holti.  Vildi þá ekki betur til en það kviknaði í honum af því að hann var svo gegnsósa af alkahóli. Jón var prestur og bjó á Lambavatni þegar Jarðamatsbókin var skrifuð upp úr 1700. Þetta var merkur maður og ég er hérna með afrit af handritum; ættartölum sem hann skrifaði. Guðrún Ása Grímsdóttir er að vinna að útgáfu á þessum ættartölum. Ég held að ég sé sjötti liður frá séra Jóni.

Álfasaga.

Réttin fyrir bæði Grundir og Láganúp er hérna fyrir neðan, niðri við sjóinn. Svo eru allir úti að taka af á heitum sumardegi þá verður mönnum litið hérna út á Hnífana, svo heita klettarnir hérna útfrá. Sjá þeir ekki stórvaxna konu koma gangandi. Það þótti mönnum ekkert skrítið. Svo hverfur hún fyrir nef og síðan hefur ekki til hennar spurst. Menn fóru að spyrjast fyrir um þetta en enginn hafði orðið var við hana. Þetta hefur sennilega verið 1910 – 15 eða svo. Guðný Ólafsdóttir Ásbjörnssonar frænka mín sagði mér þessa sögu, hún var þá unglingur eða krakki.

Áheit

Ég hef aldrei heitið á neitt mér til hjálpar en ég veit um fólk sem hefur gert það og talið sig fá umbeðna hjálp. Í þeim tilfellum var heitið á Breiðavíkurkirkju og varð hún vel við áheitum. Ekki man ég vel eftir tilefninu en mikið þótti við liggja. Ég held að það hafi ráðist af því að kvisaðist manna milli að þessi eða hin kirkjan hafi orðið vel við áheiti að fleiri fóru að heita á hana. Það sem ég veit um var peningaupphæð heitið en „gjalddagann“ veit ég ekki vel en þó mun hann stundum hafa dregist nokkuð en ég hygg að það hafi alltaf komið til skila. Ekki hef ég heyrt um viðurlög við vangoldnum áheitum. Ég held að oftast hafi menn ekki haft orð á áheitinu fyrr en ef það hreif.

Um kirkju

Kirkjur voru oftast byggðar á grunni gömlu kirkjunnar í miðjum kirkjugarðinum a.m.k. til sveita. Kirkja var byggð í Breiðavík um 1960, vígð 1964 en hún var byggð á brekkubrún ofan við aðrar byggingar en ekki í kirkjugarðinum. Þar stóð eldri kirkja, timburkirkja, orðin gisin nokkuð en lítið fúin og vildi helmingur safnaðarins gera hana upp en nýbyggingarmenn höfðu betur enda staðurinn í uppbyggingu sem ríkisstofnun. Saurbæjarkirkja og Sauðlaksdalskirkja eru í kirkjugörðunum.

Kirkjur voru oft ólæstar áður, en ég held að hætt sé að hafa þær ólæstar nema þar sem fólk er á staðnum sem hefur góða gát á að þær verði ekki rændar, þar sem óaldarlýður er víða á ferð. Ekki hefur komið til hér að leggja niður kirkjur fyrr en þá núna, þar sem Breiðavíkurkirkja stendur frammi fyrir vandamálum vegna fækkunar í söfnuðinum í 4. Ég held að fólk hafi orðið nokkuð frjálslyndara gagnvart kirkjunni, t.d. að í lagi sé að hafa þar ýmsar uppákomur, söng og hljóðfæraleik af veraldlegra tagi en áður þótti við hæfi. Líka þótti ekki viðeigandi að klappa eða hlæja í kirkju sem nú hneykslar engan. Viðhorf fólks til guðsþjónustunnar var og er mjög misjafnt. Sumum finnst engu skipta hvort þeir sæki kirkju til að ræða við guð sinn en öðrum finnst þeir ná meira sambandi við guðdóminn í kirkjunni. Mörgum finnst hugarfró að sækja kirkju, sérstaklega þegar sorgir og erfiðleikar hins daglega lífs sækja að. Skírnarvatnið þótti hafa lækningamátt við sjóndepurð og annarri augnveiki. Gjafir voru kirkjum gefnar á stórafmælum þeirra af ýmsu tagi, t.d. altarisdúka, skírnarfont eða kertastjaka. Breiðavíkurkirkja fékk nokkuð sérstaka gjöf fyrir nokkrum árum. Það var áletraður kassi utan um grágrýtishellu sem organisti kirkjunnar til fjölda ára hafði í kirkjunni til að hækka sig í sessi en hann var lágvaxinn. Afkomendur hans gáfu þennan kassa og þótti mjög við hæfi.

Síðari tíma siður færist í vöxt að gifting fer fram undir beru lofti eða á undarlegustu stöðum. Sonardóttir mín giftist á Lögbergi 1. des. 2009 og það er sú eina gifting sem ég veit um svona persónulega. Hér í Rauðasandshreppi eru til tveir brunnar sagðir vígðir af Guðmundi góða. Annar er á Látraheiði og þótti ekki af veita þar sem það er eina vatnið sem ferðamenn áttu kost á alla leið yfir heiðina. Þó vildi lindin þorna í langvarandi þurrkum. Hin lindin er í Kollsvík og heitir einnig Gvendarbrunnur eins og hinn. Hann þornar aldrei og þótti hafa lækningamátt að drekka vatn þaðan. Ef fólk veiktist í Kollsvík þótti gott að sækja vatn úr brunninum; fram á 20. öld. Systur tvær fæddar og uppaldar í Kollsvík heimsóttu systur sína til Bandaríkjanna um 1980. Systirin hafði búið í N-Dakota frá því um 1920. Þær færðu henni vatn úr Gvendarbrunni sem Guðmundur góði vígði, einnig hluta úr Látrabjargi þar sem átti heima óvættur sem grandaði sigmönnum. Vorkenndi biskupinn óvættinum og skyldi eftir hluta bjargsins óvígt, því „Einhvernstaðar verða vondar kindur að vera“ eins og vætturinn sagði! Ég veit ekki um neina staði hér sem helgi er á þ.e.a.s. trúarleg. Aftur á móti álfabyggðir.  (Svör nr.17247  hjá Þjms; mótt: 14.9.2009/18.12.2009).

Trúlofun og gifting

Mér finnst ég hafa fremur lítið um þetta efni að segja. Eftir á að hyggja þá held ég að gamla fólkið mitt hafi látið undir höfuð leggjast að segja mér frá brúðkaupssiðum. Þó hefur mér skilist að mikið hafi verið um bónorðsbréf í gangi í sveitinni svona um 1920-30.

Mig langar þó að nefna hér sögu sem mér hefur alltaf þótt góð og hún er af giftingu ömmusystur minnar. Hún hét Jónfríður Halldórsdóttir f. á Grundum í Kollsvík 1882. Móðir hennar hét Halldóra Mikalína Halldórsdóttir og var hún talin skörungskona og mikið í hana spunnið. T.d. tók hún á móti flestum börnum sem fæddust í Víkinni og reyndar víðar eftir að hún varð fullorðin og fram á elliár og lánaðist vel þó hún væri ómenntuð til þeirra verka. En ráðrík var gamla konan og þótti jafnframt ráðholl. Þó þótti Jófríði dóttur hennar nóg um þegar hún var búin að velja sér mannsefni en móðir hennar lagði blátt bann við þeim ráðahag. Gamla konan var vönd að virðingu sinni, og þá sinna.  En mannsefni dótturinnar hafði eignast barn í lausaleik og var einnig kannski full ölkær.

Jófríður þráaðist við að segja unnustanum upp og gerði þá móðir hennar sér lítið fyrir og bannaði klerkum hér á sunnanverðum Vestfjörðum að gifta þau. Og svo mikil áhrif hafði sú aldraða að prestar þorðu ekki öðru en að hlýða. En unga fólkið lét þá krók koma á móti bragði og fóru norður í Arnarfjörð og voru gefin saman í Hrafnseyrarkirkju 1905. Þangað náði ekki áhrifavald hennar langömmu minnar. Þau bjuggu svo í Hafnarfirði mestan sinn búskap, eignuðust 9 börn og er mikill ættbogi frá þeim kominn.

Fleiri konur hér munu hafa viljað hafa hönd í bagga um giftingar dætra sinna en gengið misvel. Unnusti einnar heimasætunnar fór til Ameríku um 1915-18 og ætlaði að koma sér fyrir þar með vinnu og samastað áður en hann sækti sína heittelskuðu. Þetta gekk nokkuð vel, en þegar hann ætlaði að sækja konuefnið sem var ein úr 13 systkina hóp, þá neitaði móðir hennar henni um fararleyfi.  Á þeim tíma hikuðu stúlkur mjög við að ganga í berhögg við vilja foreldra og varð endirinn sá að hann fór einn út. Greip þá unnustuna óyndi mikið svo að systur hennar gengu í málið svo að hún fór á eftir mannsefninu.  Giftust þau þar og eru nú látin fyrir nokkrum árum. Trúlega hefur gamla konan séð fram á að hún sæi ekki dóttur sína framar ef hún færi; sem og varð.

Ég held að oftast hafi verið haldnar brúðkaupsveislur þó ekki hafi verið reglur um hver héldi þær, en nú er kannski meira um að foreldrar brúðarinnar haldi veisluna. Um brúðargjafir veit ég heldur lítið nema frá síðari árum. Þó veit ég að foreldrar mínir fengu veglega stofuklukku í brúðargjöf, og einnig kaffistell; þau giftust 1929. 

Dansstaðir munu löngum hafa verið drjúgir til kynna sem leiddu oft til hjónabands.  Annars heyrði ég um alllangan aðdraganda áður en til brúðkaups kom og trúlofun stóð oft nokkur ár; t.d. heyrði ég um mann sem biðlaði til konuefnisins í 7 ár áður en gekk endanlega saman með þeim, en þetta virtust oftast endingargóð og farsæl hjónabönd.  (Svör nr.10540  hjá Þjms; mótt: 1.3.1992).

Læknisráð

Heima á Lambavatni voru ekki miklar slysagildrur fyrir börn en við fengum þó áminningar um að varast ýmislegt. Eitt var það að nokkuð var um grjóthrun úr fjallinu sem jafnvel gat lent niðri á túni. Mest fór þetta grjót í urðir sem voru við hlíðarræturnar. Vorum við vöruð við að leika okkur uppi í „háurdum“ eins og afi minn orðaði það. Líka vorum við vöruð stranglega við að vaða í sjónum við rifið svo við lentum ekki fram af „marbakkanum“. Við þurftum að ganga í skólann, um klukkutíma leið hvora leið, og á einum stað við gömlu götuna var stórt dý eða fenjasvæði sem aldrei fraus. Var það talið botnlaust og við vöruð mjög við því. Til gamans nefni ég nafn þessa dýs; ég hef aldrei fengið skýringu á því. Það heitir „Kein“, ég veit ekki hvernig á að rita það, með einföldu i eða y.

Slys voru að sjálfsögðu ekki af þeirri stærð sem nú er við landbúnaðarstörf þó gátu börn skorið sig illa ef þau fiktuðu við orf og ljá sláttumanna eða önnur eggjárn. Ef menn skáru sig var sett joðoform í sárið og vafið svo um hreinu léreftstykki. Spelkur voru settar við beinbrot og vitjað læknis, en þeir voru uppfundnir á mínu ungdæmi!  Sama við tognun ef hún var slæm. Ef menn fengu eitthvað í auga reyndi einhver að ná því með tungubroddinum.

Græðisúra þótti góð að leggja við sár. Ég hef heyrt að hundstunga græddi en ekki vissi ég það notað nema kannske krakkar sem skáru sig smáskeinu í fingur hafi prófað það. Ég man ekki eftir aðgerðum í heimhúsum, hvorki leikra eða lærðra. Þó mun eitthvað hafa verið um það í neðribænum á Lambavatni fyrir mitt minni. Þar bjó Sveinn Magnússon sem var sjálflærður læknir og átti ýmis læknisáhöld, t.d. bíld. Vísuðu læknar stundum sjúklingum til hans ef þeir voru ekki viðlátnir.

Algengast af smitsjúkdómum var þá eins og nú kvef; mest í börnum. Svo fengu börn þessa venjulega barnasjúkdóma, enda ekki farið að sprauta börn við mænuveiki, kíghósta o.fl. Ekki man ég eftir miklum ráðstöfunum til að einangra sig, nema gagnvart berklum eða mænuveiki. Ég heyrði ekki talað um lífsýki en kalda var kallað ef menn voru með háan hita og kom að þeim kul með skjálfta.

Pest var kölluð allskonar umferðasýki, t.d. kvef, flensa, uppköst eða önnur smitandi magaveiki. Við brjóstsviða var og er hrært út natron og drukkið. Hitapoki var lagður við hlustarverk. Fjallagrasaseiði var og er talið meinholt við kvefi, hálsbólgu o.fl. Ég heyrði talað um ýmsar hrossalækningar við tannpínu t.d. vítisódi ofan í tönnina. Neftóbak var líka notað með nokkrum árangri, að mönnum fannst. Einn vissi ég setja saltsýru í bómull ofan í tönn og losnaði þar með við tannpínuna og tönnina með! Við hiksta þótti reynandi að setja edik í sykurmola og sjúga. Betra þó að halda niðri í sér andanum eins og hægt var.

Reynt var að losna við vörtur með vítisóda eða saltsýru. Konur reyndu að forðast sól í andlitið ef þeim hætti við að verða freknóttar t.d. með barðastórum höttum eða grisju fyrir andliti. Ég heyrði að gott hefði þótt að þvo andlitið úr rjóma eða mjólk. Þó ég hafi alla ævi verið kolmórauð af freknum þá hef ég samt aldrei prófað þetta.

Amma mín var rúmliggjandi í 10 ár eftir heilablæðingu. Það var borið vaselín á sárin. Einnig var fengin gúmmíhringur sem hún lá á svo sömu blettirnir nudduðust ekki og gætu jafnað sig. Móðir mín sinnti henni mest en þó bjó pabbi um hana þar sem þurfti að bera hana milli rúma. Rúmið hennar stóð undir súð og létti var festur í súðina yfir rúminu hennar svo hún gat sest upp. Lengi fannst henni tíminn að líða sem von var, því hún sá lítið til að lesa a.m.k. eftir að ég man eftir (ég var tveggja ára þegar hún veiktist). Hún átti blöð í skúffu við rúmið og blýanta sem hún beittti fyrir mig, að sitja hjá sér og teikna. Hún átti blóm sem stóð á borðinu við gluggann hjá rúminu. Það var fúcsía og mér þótti það fegurst blóma. Talað var um við hana að taka afleggjara af fúcsíunni og henda henni svo því hún var orðin gömul og trjákennd. Amma vildi það ekki en sagði þær myndu endast jafnt hún og blómið, enda dó blómið sama vorið og amma.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig blóðtaka var framkvæmd, umfram það sem ég hef lesið um, en eins og ég hef sagt voru til tæki til blóðtöku á hinum bænum. Lýsi var og er tekið til heilsubóta. Og svo eru það lyfin. Arnika þótti góð við gikt og ýmsum bólgum. Hoffmannsdropar voru líka víða til og ég held að þeir hafi verið notaðir ef mönnum kólnaði til að fá í sig hita. Líka voru til kamfórudropar. Joð var víðast til og var til að sótthreinsa sár en mest man ég eftir joðoformi sem var duft með sterkri lykt og ég skil ekki af hverju er hætt að nota það; jafn sótthreinsandi og græðandi og það var. Svo var gjarnan til verk- og vindeyðandi. Vatn út Gvendarbrunni sem er hér í Kollsvík þótti heilsulind.

Læknir var og er á Patreksfirði. Ég nefndi Svein Magnússon fyrir í þessum línum en hann þótti heppinn læknir og ég held mun lesnari og lærðari í þessum fræðum en flestir hómópatar. Hans var oft vitjað til kvenna í barnsnauð og gafst vel. Hann mun m.a.s. hafa komist í ljósmæðratalið. Ég heyrði að konu hafi verið komið til hans sem læknar höfðu gefist upp við að lækna en hún gat ekki á heilli sér tekið árum saman. Með henni átti hann dóttur en konan hresstist svo vel við það að hún var nokkuð hraust til hárrar elli! Þessi dóttir hét Helga og ólst upp hjá Sveini föður sínum á Lambavatni, en móðir hennar Guðríður var hálfsystir afa míns. Dóttursonur Helgu er Magnús Guðmundsson sem er þekktur víða um heim vegna baráttu sinnar með hvalveiðum. Eitt barnabarna Sveins M. er Magnús Torfi Ólafsson. Þetta er nú mesti útúrdúr.

Ég veit lítið um lækningajurtir, nema að blóðbergs- og vallhumalste þóttu gott við ýmsum kvilllum; en þó sérstaklega fjallagrös sem voru soðin með kandís á seyði við kvefi og fleiru. Græðisúra var lögð við sár en kannske voru jurtir ekki notaðar eins heima og sumstaðar annarstaðar vegna þessa ágæti joðoforms. Bóndi minn tekur fram að þegar menn voru hér við sjóróðra úr Kollsvíkurveri fyrr á árum hafi þeir pissað á hendurnar þegar þeir urðu sárir í lófum við árina og gafst það vel að sögn.

Læt ég þá þessu lokið að sinni.  (Svör nr.12322  hjá Þjms; mótt: 1.11.1994).

Leikföng

Ekki voru stórar jólagjafir þegar ég var að alast upp á 4. og 5. áratug aldarinnar miðað við þau ódæmi sem nú viðgangast. Var þá aðallega um að ræða gjafir frá foreldrum til barna og kannske frá afa og ömmu eða náskyldum. Það er kannske ekki alveg rétt að segja að gjafirnar hafi ekki verið stórar, því í sumum tilfellum held ég jafnvel að þær hefðu sómt sér vel í dag þær gjafir sem ég fékk.  Þær voru kannske veglegri en hjá mörgum jafnöldrum mínum því hann pabbi minn var smiður og gjafirnar voru alltaf heimagerðar þar til við systkinin eltumst og fjárhagurinn á heimilinu rýmkaðist nokkuð. Þá fengum við bækur. Svo fengum við auðvitað föt en það var ekki talið til jólagjafa svo gjafirnar hennar mömmu voru kannske ekki taldar með, enda gefnar fyrir jólin til nota á jólum.

Ýmist var talað um leikföng eða dót; leikföng kannske spariorð en dót svona hvunndags. Oftar var talað um brúður en dúkkur, en þekktist þó hvort tveggja; dúkka þótti frekar sletta. Eldri börn gerðu oft ýmis leikföng fyrir yngri systkini sín og líka foreldrar. T.d. saumuðu mæður gjarnan tuskudúkkur fyrir dæturnar og nú tek ég eftir því sem ég hafði ekki hugsað út í fyrr að þá var oftar talað um dúkkur.

Svo voru gerðar flautur úr tvinnakeflum, rófubyssur úr fjöðurstöfum, helst úr álftafjöðrum. Stafurinn var skorinn af og endinn skorinn svo úr varð hólkur, svo voru sneiddar kartöflur (ekki rófur þó þetta héti rófubyssa!). Tálgaðir svokallaðir krassar, þ.e. smáprik með hnúð á enda sem passaði inn í hólkinn en hnúðurinn hélt við þegar krassanum var þrýst snöggt inn í legginn. En fyrst var byssan blásin með því að endum fjöðurstafsins var þrýst niður í kartöflusneiðina til skiptis svo kartöflutappar komu í báða enda. Svo var krassanum þrýst í annan endann og hljóp þá kartöfluskotið af. Væri krassinn mátulega langur sat annað skotið eftir í stafnum svo bara þurfti að hlaða aftur annan enda pípunnar fyrir næsta skot (Teikning).  Öðruvísi byssur voru einnig smíðaðar en það voru tvinnakefli sem gúmmíteygja var negld yfir annan endann. Síðan telgd ör sem stungin var gegnum keflið og síðan dregið upp og hleypt af (Teikning).  Baunabyssur voru útbúnar úr stífum vír sem gúmmírenningur var festur milli armanna, dregið upp og hleypt af baununum.

Ekki voru allir leikir svo skotglaðir því líka voru smíðaðir t.d. flugdrekar og einnig bátar af ýmsu tagi. Talsvert var um kappsiglingabáta úr þunnri fjöl sem tálgað var á stefni og borað gat framan við miðja skútuna fyrir mastur. Svo var sett pappírssegl (kannske ekki endingargott!) á fleytuna og svo fór hver með sína skútu í góðum byr í kappsiglingu (Teikning). Svo voru búnar til vatnsbyssur eða sprautur úr bambus, sagaður einn liður af stönginni með botni á öðrum endanum. Á botninn var borað smágat. Svo var útbúin bulla sem passaði í hólkinn svo var hólkurinn fylltur af vatni og bardaginn gat hafist.

Ennþá á ég nokkuð af jólagjöfunum sem ég fékk sem barn. T.d. brúðuhúsgögn, borð, rúm og kerru sem hægt var að leggja saman eins og tíðkast núna en þekktist ekki þá nema í hugvitinu hans pabba. Allt var þetta með fínum renndum fótum eins og grindin í kerrunni.  Svo á ég litla kommóðu sem ég fékk í jólagjöf ca. 10 ára. Hún er með renndum hnúðum úr hvalbeini á skúffunum. Hún er ca. 30 cm. á hæð. Svo fengu bræður mínir gjarnan bíla, sérstaklega þeir yngri, eftir að bílaöldin hélt innreið á Rauðasand. Ég man eftir vörubíl sem yngsti bróðir minn fékk í jólagjöf um 1946 eða 47. Hann var stór með opnanlegri vélahlíf og hurðum og sturtu o.fl. Upptalning á leikföngum í spurningalista Þjms er ekki sem hreyfir við mínum bernskuminningum nema dúkkur og dúkkudót og einnig litabækur og dúkkulísur. Aftur á móti fengu synir mínir svona dót nema playmó (það var ekki komið svo á markað meðan þeir voru litlir) og svo barbie og pony en það fá barnabörnin mín.

Nauðsynlegt þótti að krakkarnir; einkum strákarnir, eignuðust dótakassa sem svo voru nefndir en stelpur áttu gjarnan dúkkuskot. Það var smáhorn sem rýmt var í baðstofunum og stelpurnar fengu sem heimili fyrir brúðurnar sínar og þeirra húsgögn og stofupunt. Þar var sumstaðar býsna fínt.

Ég átti hornabú sem svo kallaðist. Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn. Kannske var samt næsta kynslóð þ.e. synir mínir og þeirra vinir ennþá meiri búmenn á þessa vísu; ekki síst börn sem voru hjá mér í sveit þegar synir mínir voru að alast upp á árunum 1959 - 1975-6. Þeir smíðuðu sér dráttarvélar og ýmis tæki og bíla í viðbót við skepnuhaldið. Svo gengu búin í arf til þeirra yngri.

Ekki var ég neitt haldin söfnunaráráttu en man þó að ég eignaðist einhverjar leikaramyndir en synirnir söfnuðu frímerkjum og eiga þau. Maðurinn minn henti aldrei frímerki en hann fékk mörg slík þar sem hann var lengi til forsvars fyrir sveitafélagið og auk þess flest félagasamtök á svæðinu.

Leikir

Heima á Lambavatni voru ekki rúmgóð húsakynni miðað við nútímann. Þar var bær úr grjóti og torfi í þrem veggjum en framhlið steypt ásamt inngangi (bíslagi). Niðri var eldhús, búr, stofa og lítið herbergi. En uppi var baðstofa nokkuð rúmgóð, óhólfuð sundur og þar lékum við okkur í mömmuleik ef ég fékk stelpu í heimsókn en bræður mínir höfðu skömm á slíkum leikjum! Svo vorum við í smíðaskemmunni hans pabba eða strákarnir voru í smiðjunni að sniglast hjá honum. Heldur hindraði eldra fólkið okkur í draugasögufrásögnum þar sem liðið átti þá til að verða myrkfælið. Ekki hafði ég áhuga á manntafli en við tefldum mikið Refskák og Myllu og líka Lúdó. Ég var orðin nokkuð stálpuð þegar sjóorustan komst í gang heima en var mjög vinsæl. Frúin í Hamborg var nokkuð iðkuð, líka gátur og kveðist á. Fyrir kom að sum reyndu sig í vísnagerð. Hlutverkaleikir voru nokkuð leiknir og líka voru hlöður notaðar til leikja, helst í rigningu að vorinu þegar þær tæmdust af heyi. Þá voru gjarnan settar upp rólur á loftbita því þar var hærra til lofts og víðara til veggja en annarsstaðar undir þaki.

Svo var einn staður vinsæll til leikja og það var svokölluð„spýtnahrúga“. Reki var talsverður á Lambavatni og trjáviður var fluttur upp á svokallaða Rima en þar var nokkuð hærra landið sem er annars mjög flatt upp á bæjunum. Þessu var raðað upp eftir reglum því ekki mátti timbrið liggja í jörðinni því þá fúnaði það, því voru tekin stór en ormétin tré sem töldust ónýt til annars og raðað upp með millibili. Svo var nýtilega timbrinu raðað ofan á þannig að það lægi ekki saman en myndaðist grindverk. Þetta var vandaverk því auk þess að forðast fúann þurfti að hlaða þannig að þetta færi ekki í veður, en þarna getur hvesst mjög. Þarna var hið besta leiksvæði að okkar dómi inni í grindverkinu og mátti nota smáfjalir sem þarna urðu útundan við hleðsluna til að betrumbæta gisin húsakynnin.

Hringdansar voru nokkuð iðkaðir en þá helst ef fólk kom saman í samkomuhúsinu okkar á Sandinum. Bæði börn og fullorðnir tóku þátt í þeim. Þar skal fyrst telja Vefaradansinn en hann var mikið dansaður á Rauðasandi en, þó merkilegt sé; hvergi annarsstaðar í sveitinni eða nálægum sveitum.

Ég set hér til gamans nokkra texta sem ég man eftir við hringdansa sem voru iðkaðir hér í sveit fram á sjötta ártuginn.

1.

Mærin fer í dansinn

og fótinn létt og lipurt ber

að leita sér að pilti

sem laglegastur er

/Og hann er hér og hann er hér/

en loksins var það þessi

sem laglegastur er.

2.

Í heiðardalnum er heimbyggð mín

þar hef ég lifað glaðar stundir.

Og hvergi vorsólin heitar skín

en hamrafjöllunum undir.

Og fólkið þar er svo frjálst og hraust

og falslaust viðmót þess og ástin traust.

/Já þar er glatt, það segi ég satt

og sælt að eiga þar heima/

3.

/Meyjanna mesta yndi það er að eiga vin/

/Svo tek ég blítt í höndina á þér

og legg þig ljúft í faðminn á mér

að dansa við þig sérhvert sinn

það saklaus skemmtun er/

4.

Ég lonníetturnar lét á nefið

svo lesið gæti ég frá þér bréfið.

Ég las það oft og mér leiddist aldrei

og lifað gæti ég ei án þín

og lifað gæti ég ei án þín

/Tralalla lalla lalla ljúfa/

ég las það oft og mér leiddist aldrei

og lifað gæti ég ei án þín.

Það sem er milli skástrikanna (/) er endurtekið.

5.

/Ég úti gekk um aftan

í yndisfögrum lund./

/Þá mætti ég ungri meyju

á munablíðri stund, stund, stund/

/Hún hét mér trú og tryggðum

og tók mér blítt í hönd/

/Við knýttum, við knýttum

vor kærleikstryggðabönd, bönd, bönd/

/Og böndin sem við bundum

þau brýtur engin hönd/

/uns leiðið hið lága

fær leyst þau tryggðabönd, bönd, bönd/

6.

/Í bónorðssvifum ég fer af stað

hopp og hæja/

/þær sögðu ekki neitt og svo fór um það

hopp og hæja/

/Hamingjan veit hve ég hlakka til

hopp og hæja/

/Tek mér þá meyjuna sem ég vil

hopp og hæja/

/Pipar, negull og hó hó hó

hopp og hæja/

/Ég tek mína kellu og skoppa í skóg

hopp og hæja/.

Fleira man ég nú ekki, en auk þessa var dansaður Vefaradans sem reyndar var nú aðaldansinn. En ég er farin að gleyma miklu úr honum enda miklu lengri.

Svo var farið í „Fram, fram fylking“; „Í grænni lautu“; oft söng- og pantleikur. Svo var falinn hlutur og ýmislegt fleira. Úti var farið í Útilegumannaleik, Fallin spýta, Tófuleik, Kött og mús o.fl. að ógleymdum Kýlubolta sem ég hef mikið gleymt en rámar í að hafi verið svolítið skyldur hinum ameríska hafnarbolta. Þessir leikir voru leiknir mikið í frímínútum í skólanum en einnig kom krakkastóðið oft saman á sunnudögum til leikja.

Mikið var farið á skautum á Sandinum enda áveitur þar undir vatni á vetrum en snjólétt er þar og skíði lítið notuð. Í jólaboðum var mikið spilað; krakkarnir oft hálf tólf og spilað upp á þorskkvarnir.

Þá kemur amen eftir efninu enda pappír búinn.  (Svör nr.13899  hjá Þjms; mótt: 1.11.2000).

Jólavísur

Jólasveinar ganga um gólf

með gildan staf í hendi.

Móðir þeirra sópar gólf

og flengir þá með vendi.

Hátt upp á stól stól

stendur mín kanna.

Níu nóttum fyrir jól

þá kem ég til manna.

 

Jólasveinar einn og átta

ofan koma úr fjöllunum.

Í fyrrakvöld þeir fóru að hátta,

fundu hann Jón á Völlunum.

Ísleif hittu þeir utan gátta,

ætluðu að færa hann tröllunum,.

En hann beiddist af þeim sátta

óvægustu köllunum.

Þá var hringt öllum jólabjöllunum.

 

Svör nr.10521  hjá Þjms; mótt: 1.9.1991).

Gælunöfn

Hér er algengt eins og annarsstaðar að stytta nöfn manna; helst barna, en misjafnt hvort það breytist þegar fólk fullorðnast. Lilla og Lilli var nokkuð algengt og fleiri nöfn sem hafa enga tengingu við nöfnin og mikið var um gælunöfn sem verða til þegar eldri börn reyna að nefna nafnið. T.d. var elsti sonur minn sem heitir Guðbjartur kallaður Buggi þar sem frænka hans, einu ári eldri, reyndi að nefna nafnið hans. Mér finnst að meira sé núna um tvö nöfn sem börn eru skírð og þá gjarnan notuð bæði; meira en var áður. Stundum reyndar stytt, t.d. Anna María kölluð Anna Maja, Ólafur Magnús nefndur Óli Maggi o.s.frv.

Nafnið mitt var (og er) stytt og svo vill til að ég veit af hverju. Eftir að ég var skírð voru tvær ungar systur á næsta bæ (ca. 18-22 ára) en elsta systir þeirra hét Sigríður eins og ég en kölluð Didda. Þessar tvær systur voru úr 15 systkina flokk í Vatnsdal í Rauðs.hr.Þær kölluðu mig líka Diddu og það hef ég verið kölluð síðan!   (Svör nr.13900  hjá Þjms; mótt: 1.11.2000).

Áttamálfar

Fremur lítið er um það hér í sveit að höfuðáttirnar séu nefndar í daglegu tali, heldur eru notuð heimatilbúin tákn sem munu hafa verið notuð í aldaraðir. Á Rauðasandi þar sem ég er uppalin er aldrei talað um norður, suður, austur og vestur nema um meiri fjarlægðir sé að ræða; t.d. suður í Reykjavík eins og er víst sagt um allt land.  Svo segjum við þá austur á land, norður á firði (t.d. Ísafj.) en alls ekki vestur á Látrabjarg, heldur út á Bjarg, yfir á Patreksfj. en aftur norður í Tálknafjörð. Aldrei austur á Barðaströnd heldur inn á Barðaströnd.  Það er einnig sagt á Patreksfirði inn á Barðaströnd, en það fer kannske að breytast því Vegagerðin segir gjarnan að Kleifarheiði sé fær suður á Barðaströnd.

Svo eru það áttirnar hér í Kollsvíkinni:  Hér er þó til norður, en ekki aðrar höfuðáttir. Við segjum norður í Kollsvík frá Láganúpi; það er í NA, en frá Kollsvík er farið yfir að Láganúpi. Bæir sunnan til í víkinni hétu handanbæir en hinir norðan til voru norðanbæir. Svo förum við fram í Vík sem er dalurinn hér fram af Kollsvíkinni og út á Víkina var róið til fiskjar. Við förum inn á Rauðasand og inn á Patreksfjörð; inn í Hænuvík (sem er næstum í austur) og út í Breiðuvík (suðvestur) og svo áfram út að Látrum. Svo eru aftur nefndar áttir í verðufari t.d. útsunnan er suðvestan og norðangarður er vitanlega hvöss norðanátt. Svo er hér talað um aðlögn (sem annarsstaðar er nefnd innlögn) í fjörðum í sterku sólskini þegar landið hitnar um miðjan daginn.  Eitt er nokkuð merkilegt í þessu áttamálfari og það er að þó við förum suður til Reykjavíkur þá förum við alltaf vestur þegar við komum til baka. Líka segjum við norður á Firði. t.d Ísafjörð, en vestur þegar við komum til baka. Kannske er eitthvað fleira sem ég ekki man í bili.  (Svör nr.10573  hjá Þjms; mótt: 1.11.1992).

Lýðveldisstofnunin 1944

Kannske hef ég ekki margt fram að færa í þessum efnum, að hluta fyrir ungan aldur!

Nokkuð var um að kóngafólkið héngi á veggjum fólks þegar ég man fyrst eftir, en síðar var meira um Jón Sigurðsson á veggjum eftir að mynd af honum var prentuð og dreift.  Enn hangir hér mynd af honum yfir skrifborðinu.

Borðfánastöng var til heima svo lengi sem ég man, sem pabbi smíðaði úr kopar og á henni var íslenski fáninn. Stóð hún á skáp í stofunni öll mín uppvaxtarár. Fánastangir risu við þó nokkra bæi um og upp úr 1944.

Ekki man ég til að 1. des væri haldinn hátíðlegur á mínum uppvaxtarárum nema þegar ég var á Núpsskóla 1945 - 47. Þar var dagurinn haldinn hátíðlegur.

Ekki minnist ég stórhátíðahalda 17. júní á fyrstu árum lýðveldisins.  En í bændaþjóðfélaginu voru slík hátíðahöld að vísu með öðru sniði en í bæjum, þar sem menn fengu sína frídaga.  Í búskapnum þarf að sinna störfum alla daga. Af skiljanlegum átæðum sleppi ég umræðum um Alþingishátíðina 1930. Sama er að segja um sjálfstæðisbaráttuna, nema ég heyrði alltaf talað um aðskilnaðinn við Dani sem sjálfsagðan.

Ekki minnist ég hátíðahalda 17. júní 1944 og ég man eftir umræðum um hvort ástæða væri til að taka sér frí eftir því sem bústörf leyfðu þennan dag. Sýndist þar sitt hverjum; t.d. var vegavinnuflokkur þetta vorið við endurbætur á vegi á Rauðasandi, þar sem verkstjórinn harðneitaði að gefa sínum mönnum frí. Ég man þetta vegna þess að þar var ég hjálparkokkur þó ung væri. Meira get ég víst ekki um þetta efni sagt.

Bóndi minn las yfir þessar línur og gerði við þær smáathugasemdir. Faðir hans og eldri systir fóru á Þingvöll 17. júní ´44 og það hefur verið þó nokkuð ferðalag á þeim tíma. Einnig var hann þá að vinna í vegavinnu í Tálknafirði og þar var öllum gefið frí.  (Svör nr.11624  hjá Þjms; mótt:29.11.1995).

Fatnaður og saumar

Hér var iðkaður saumaskapur sem var nokkuð sérhæfður. Það var sjóklæðagerð (skinn). Við það voru notaðar fjaðranálar tvær og svokallaðar klömbrur, sem var beináhald sem líktist skærum og var haft til að draga nálarnar í gegn um skinnið.  Ekki þori ég að fara nánar út í aðferðina við þennan skinnsaum enda hafið þið það trúlega skráð. Ég hef hér í höndunum áhald sem hét prem og er held ég heimasmíðað. Þetta er beinstautur ca. 7-8sm langur, renndur, sívalur og með oddi. Þetta var notað við hvítsaum til að gata efnið. Þetta tilheyrði nú að vísu handavinnu en fléttast þó saman við fatasaum, því þegar ég man fyrst eftir voru gjarnan bróderaðir hvítir kragar á barnafötum; oft lausir og þræddir á hálsmálið svo hægt væri að taka þá af og þvo oftar en dökk fötin; líka voru þeir oft notaðir á önnur föt en þau upprunalegu.

Ekki veit ég til að fleiri en eitt heimili væru um hvora saumavél. Amma mín, Rebekka Gísladóttir, átti litla saumavél; alla úr járni og mjög einfalda að gerð.

Til gamans langar mig til að segja frá því að afi smíðaði fyrir hana skáp til að geyma í saumavélina; hurð að neðan en skúffa ofan með hólfum og meira að segja leynihólfi! Þetta borð eða skáp á ég enn og vildi mikið gefa til að eiga líka saumavélina. Þessi vél mun hafa verið keypt amk. fyrir 1920; ég veit ekki hvar. En gömul kunningjakona mín (ættuð frá Barðaströnd), um 80 ára, segir mér að móðin hennar hafi átt svona vél sem hafi verið pöntuð úr verðlista. Mamma mín átti handsnúna saumavél í tréramma eða litlu borði; lítil skúffa undir spólur og slíkt vinstra megin. Trélok eða kassi hvolfdist yfir þegar hún var ekki í notkun. Þessi vél er til enn og vel nothæf. Aldrei man ég eftir að þessi vél bilaði en hefði það gerst, held ég að föður mínum hefði tæpast orðið skotaskuld úr að gera við hana. Hann var þúsund þjala smiður. Ég man ekki heldur að hann fengi aðrar saumavélar til viðgerða sem hann hefði eflaust fengið hefðu þær bilað.

Þegar ég ólst upp á Lambavatni var þar tvíbýli og hafði verið í ómuna tíð. Milli bæjanna var rétt steinsnar svo ég var þar kunnug eins og heima hjá mér. Þar voru tvær stignar saumavélar enda voru þar tvær húsmæður, systur og giftar bræðrum. Önnur þeirra systra dó fyrir mitt minni. Bæði heima og á hinum bænum var allt saumað heima nema spariföt fullorðinna. Ekki veit ég vel hvar fengin voru snið en hef grun um að þau hafi gengið á milli kvennanna. Eftir að ég komst nokkuð á legg voru komin tískublöð til sögunnar en þeim fylgdu ekki snið fyrr en erlend blöð (t.d. Burda) fóru að sjást. Ég held að konur hafi komið sér upp grunnsniðum og breytt eftir en gömlum vefstól man ég eftir sem afi minn óf í. Bæði heyrði ég að ofið hefði verið vaðmál í ytri fatnað og svo heyrði ég talað um tvist í karlmannaskyrtur. Efni sem keypt voru var mest nankin í karlmannabuxur og tvisttau í skyrtur. Konur saumuðu kjóla á sig og dæturnar úr sirsi nema sparikjóla úr einhverju fínna efni. Drengjabuxur voru oft saumaðar úr einhverju ullarefni.

Allir hveitipokar sem voru þá úr lérefti voru notaðir í rúmföt, aðallega lök en fyrir kom að þeir voru notaðir í sængurver ef léreftið var talið nógu gott sem var nú ekki oft. Annars var keypt damask eða léreft í sængurver. Misjafnt var hvenær ungar stúlkur fóru að sauma á sig eða aðrar. Það fór bæði eftir hæfileikum við slíkt og svo heimilisástæðum, t.d. hvort mörg börn yngri voru á heimilum. Flestar hafa held ég verið komnar um eða yfir fermingu en þó sumar yngri.

Fötum var vent hér um slóðir og þótti sjálfsagt. Ég heyrði um dæmi þess að það væri gert tvisvar og var þá upprunalega réttan komin út aftur. Enn algengara var að sauma upp úr gömlum fötum eftir að ég man eftir og það gerði ég í mínum búskap. Ég saumaði á syni mína ekki minna úr notuðu en nýju og fannst það satt að segja jafnvel skemmtilegra en úr nýju ef það var lítið slitið. Föt voru (og eru enn) notuð á yngri systkini af þeim eldri eða þau gengu til frændfólks. Strákar gengu í stuttbuxum til 12-14 ára aldurs .Mín kynslóð var ekki alin upp í því ríkidæmi sem nú virðist vera að hægt væri að henda lítt slitnum eða góðum flíkum, dæmi þess að börnin vilji ekki þau föt sem foreldrar hafa keypt og þá fara þau beint í ruslatunnuna. (Altsvo fötin). Föt voru bætt þegar þau slitnuðu. Það var bæði stykkjað eða þrædd bót undir gatið og það klippt eins og ætti að setja stykki í en saumað niður í bótina og faldað í leiðinni og ég held að það sé aðferð sem hefur verið notuð áður en saumavélar komu á heimili.

Sængurver voru gjarnan útsaumuð eða sem algengara var; með hekluðum milliverkum. Einnig koddaver.  Handklæði voru gjarnan úr striga, þau sem notuð voru til handþurrks þegar komið var frá útiverkum, annars frottehandklæði.  Diskaþurrkur og slíkt var yfirleitt úr slitnum rúmfötum.

Enginn saumanámskeið voru í sveitinn í mínu ungdæmi en eftir að ég man eftir fóru ungar stúlkur í húsmæðraskóla, margar hverjar. Móðir mín fór á námskeið á Núpi í, að ég held, tvo mánuði, sennilega vorið 1927 eða 28. Þar var kennt smávegis í saumum og matreiðslu. Annars fóru ungar stúlkur gjarnan til Reykjavíkur einn vetur eða tvo, í vist í betri húsum og var það talinn góður undirbúningur undir húsmóðurstörfin. Móðir mín fór í þannig nám og einnig flestar konur sem ég ólst upp nærri og ef vel tókst til með húsin sem þær lentu í var þetta nokkuð góður undirbúningur.

Saumakonur voru ekki í minni sveit en konur sem færari voru í saumaskap sniðu gjarnan fyrir nágrannakonurnar og saumuðu stundum líka. Spariföt kvenna sem voru undantekningalítið peysuföt og/eða upphlutur voru oftast saumað af saumakonu sem var á Patreksfirði og hét Guðrún Þorsteinsdóttir. Hún sneið og saumaði það sem vandasamt var en konurnar saumuðu oft sjálfar það auðveldara. Ég þekki ekki til saumakvenna sem fóru með vermönnum til sauma, þeir voru örugglega útbúnir með fatnað áður en þeir fóru í ver og svo var hér í Kollsvík kvennaval í nágrenni versins sem hlupu undir bagga ef þurfti að fá gert við saumsprettu.

Karlmenn stunduðu ekki sauma hér svo ég viti nema sjóklæði (skinn) sem þeir saumuðu að ég held undantekningarlaust. Reyndar var föðurbróðir minn talinn næstum undarlegur vegna þess að hann saumaði og prjónaði á dóttur sína (f.1930) en hann missti konu sína frá 2 ára dótturinni og hafði hana hjá sér og ól upp einn að mestu en þá var það næstum einsdæmi að karlmaður væri fær um slíkt. Ekki veit ég um borgun fyrir fatasaum en heima á Rauðasandi held ég að slíkt hafi ekki verið gert upp með peningagreiðslum, heldur greiði á móti greiða.

Straujárn voru ýmist til massív járn sem hituð voru á eldavélinni, eða járn sem voru hol innan með tungu sem svo var kölluð sem var hituð í eldi inni í eldavél. Lok var aftan á straujárnum sem lokað var þegar tungan var komin glóheit í sitt hólf. (Tengur notaðar til að ná tungunni úr eldinum). Laust handfang var á járnunum sem hituð voru ofan á vélinni til þess að það hitnaði ekki því var svo smellt á þegar járnið var heitt og næsta járn hitað. Það þurfti ekki nema eitt handfang en gjarnan voru notuð 2-3 járn.

Hversdagsföt voru kannski ekki svo mjög frábrugðin því sem vinnuföt eru enn, nema nærföt.  Karlar gengu í síðum nærbuxum úr ull amk. á vetrum og þá ullarnærskyrtu, þó fremur eldri menn. Svo voru nankinsbuxur, skyrta úr flóneli eða tvisttaui, ullarpeysa og stakkur sem svo kallaðist úr kakí eða nankini. Konur voru í skyrtubol, stundum prjónanærbuxum á vetrum, sokkabandabelti, háum sokkum (ull) undirkjóll og morgunkjóll úr sirsi. Gömlu konurnar voru í þykkum dökkum fellingapilsum og dagtreyjum, ermalöngum treyjum, dökkum. Náðu þær niður í mitti, aðskornar og kræktar framan.  Þegar konurnar fóru til kirkju eða önnur mannamót voru þær í peysufötum eða upphlut, peysufötin þóttu jafnvel fínni þrátt fyrir allt silfrið eða gullið á upphlutnum. Svo höfðu þær sjal. Karlar voru bara í jakkafötum líkt og nú.

Barnaföt voru lík fötum fullorðinna nema þar tilheyrði kot sem bæði strákar og stelpur voru í. Það var stuttur bolur með hlýrum yfir axlir. Þetta var hneppt að aftan og neðan á því voru 4 tölur sem sokkabönd voru fest í. Svo voru börn í ullarsokkum næstum upp í klof og á þeim tölur sem sokkaböndum var hneppt á. Strákarnir voru svo í stuttum buxum þar til þeir gerðu uppreisn gegn slíku. Stelpur voru í prjónaklukkum og svo kjólum og reyndar voru eldri konur oft í klukkum líka. Minn aldursflokkur puntaði sig gjarnan með því sem upp er talið t.d. pallíettur, útsaum, perlur, fyllingar og alla muni, axlapúða ofl.

Ég náði því að eignast sauðskinnsskó þegar ég var 3-4 ára en þá voru þeir að hverfa nema hjá sumum gömlum konum. Gömul kona var í Neðri bænum á Lambavatni þegar ég var að alast upp sem eignaðist að ég held aldrei aðra skó en skinnskó eða roðskó úr steinbítsroði sem hún gekk alltaf í hversdags en skinnskórnir voru til spari. Í þessum skóm voru alltaf leppar, prjónaðir með garðaprjóni og það var fyrsta plaggið sem smástelpur prjónuðu. Þessi kona hét Elín Benónýsdóttir og okkur krökkunum fannst hún persónugerfingur gamla tímans. Verst var með þessa skó hennar að hundar sóttu í þá og átu þá.

Gamlar konur gengu gjarnan með skakka; prjónahyrnur á herðum, krossbundnar yfir brjóst og bundin aftur fyrir. Svo gleymdi ég að geta um að engin kona var fullklædd fyrr en hún var komin með svuntuna, átti það bæði við ungar og gamlar.

Höfuðföt voru ekki margbreytt.  Karlar gengu með derhúfur; enskar húfur kallaðar. Konur gengu með skýluklúta og börn með prjónahúfur. Tískubreytingar hafa verið eins til sveita eins og annarsstaðar frá því ég man eftir; kjólar ýmist stuttir eða síðir, þröngir eða víðir. Einu sinni var mjög fínt og móðins að kjólar væru þröngir með rúnnskornu skjuði sem kallað var, stutt pils utanyfir því þrönga.

Varðandi fermingarföt langar mig að segja frá því að tengdafaðir minn (f.1879) sagði að elsta systir hans hafi saumað fermingarfötin hans í höndum því þá var ekki til saumavél. Hún hét Halldóra Guðbjartsdóttir og var elst af 17 systkinum sem upp komust en tengdapabbi var yngstur. Hún þótti mjög myndarleg við saumaskap og mun hafa eignast eina fyrstu saumavél sem hér þekktist.

Ég var komin um eða yfir fermingu þegar ég eignaðist fyrst síðbuxur. Þær voru lítið notaðar af kvenfólki fyrs, og alls ekki af fullorðnum konum. Ég held að þær hafi þótt fljótt sjálfsagðar.

Fatahirslur voru mest kistur fyrst, og kommóður. Fataskápar til að hengja í föt þekktust ekki allra fyrst þegar ég man eftir, en fatahengi með tjaldi fyrir. Reyr var notaður til að gera góða lykt í föt. Mölkúlum man ég eftir. Fötin voru borin út og viðruð á vorin í vorhreingerningunum.

Ég man ekki eftir neinni þjóðtrú í sambandi við saumaskap; það var þá helst lukkuhnútur. Smá viðbót um spariföt kvenna. Í Neðri bænum á Lambavatni var til skautbúningur sem Halldóra Ólafsdóttir hafði átt. Hún var úr Breiðafj.eyjum, dóttir dóttir Eyjólfs eyjajarls, móðir Ólafs Sveinssonar, Eyjólfs Sveinssonar og þeirra bræðra, og amma Magnúsar Torfa og Sveins. Þessi búningur er til og vel varðveittur.   (Svö nr. 9849  hjá Þjms; mótt: 1.11.1990).

Prjónaskapur

Fyrstu prjónar sem ég man eftir voru stálprjónar, og svo man ég eftir kopar- eða eirprjónum sem ég held að hafi verið heimasmíðaðir. En aðallega voru notaðir tréprjónar, heimasmíðaðir. Voru þeir úr bambuslegg sem mikið rak af á Rauðasandi. Þetta var einstaklega heppilegt efni í prjóna. Leggirnir voru klofnir niður og skornir til eftir því hvað þeir áttu að vera grófir. Notað var ysta lagið á leggnum. Svo voru prjónarnir skafnir vel og vandlega og pússaðir með sandpappír þar til þeir voru alveg örðulausir og hálir. Við systkinin smíðuðum okkur prjóna og mér fannst mun meira gaman að framleiða prjónana en prjónlesið! Þessir tréprjónar þóttu fara mun betur með hendur prjónakvenna en stálprjónarnir sem voru taldir orsaka handadofa. Prjónakonur geymdu gjarnan prjónana í prjónastokkum. Ég hef ekki vitað prjónað á fleiri prjóna en fjóra-fimm. Tínur voru til og notaðar undir hnykla og annað smádót. Þær voru gerðar úr þunnum fjölum sem voru sveigðar í aflangar öskjur (teikning), milli oka sem voru á endum tínanna; lok voru smellt.

Band var notað um garn úr íslenskri ull, en garn úr innfluttri ull þótti mýkra og betra í barnaföt og slíkt. Band var oftast heimaspunnið og spunakonur voru hreinir listamenn við rokkinn. Börn og unglingar (og karlmenn) kembdu ullina. Ef nota átti bandið í vinnupeysur karla eða grófari sokkaplögg var kembt saman tog og þel eða notað eingöngu tog en tekið var ofan af sem kallað var þegar tog og þel var aðskilið. Svo var send ull í Gefjun á Akureyri til að vinna úr henni lopa. Fólk gat fengið unnið úr sinni ull og þá ýmist óofanaftekin ull eða þel og var þá þó nokkur vinna að taka ofan af mörgum reyfum. Ekki þarf að taka fram að ullin var öll þvegin heima; úr keytu fyrst eftir að ég man eftir mér.

Nokkrir bændur á Rauðasandi keyptu saman spunavél, sennilega um 1935 -40. Hægt var að spinna í henni 5 - 10 þræði í einu. Var hún mikið notuð enda hið mesta þing. Menn komu stundum með lopa annars staðar frá úr sveitinni og fengu að spinna eða fengu heimamenn til að spinna fyrir sig.

Þelband var mest notað í nærföt, einspinna í nærskyrtur, allt frá ungbarnaskyrtur og upp í kven- og karlmannaskyrtur og nærbuxur á yngstu börnin (bleyjubuxur). Annars var „föðurlandið“ úr smáu tvinnuðu bandi. Prjónaklukkur á stelpur voru úr hárfínu tvinnuðu bandi eða einspinnu, þær voru prjónaðar með klukkuprjóni. Reyndar var ég hundlöt við prjónaskapinn þegar ég var að alast upp enda var farið að slaka nokkuð á vinnuhörku fyrri ára og alda þegar ég var að alast upp svo ég veit kannske ekki mikið um prjónamunstur fyrri ára!

Væri prjónað á tvo prjóna var okkur kennt að taka fyrstu lykkju óprjónaða fram af prjónunum. Venja var og er að lykkja saman prjón ef þurfti að setja saman enda, t.d. á öxlum. Ég lærði að setja saman prjón, jaðar við jaðar á réttunni. Tekið til skiptis í hvorn jaðarinn. Ýmist voru hælar prjónaðir sem „húfuhæll“ eða „Halldóruhæll“ sem var með stalli og heitinn eftir Halldóru Bjarnadóttur.  „Húfuhæll“ var prjónaður eins og táúrtökur nema úrtökurnar styttri (mynd) þá var prjónað í auka band þvert á „húfuna“ það var svo rakið úr eins og þegar var rakið úr fyrir þumli og teknar upp lykkjurnar og prjónaður framleisturinn. Svo var og er mælt band einu sinni eða tvisvar á ilinni; auka umferð undir ilinni.

Börn lærðu fyrst að prjóna leppa (hér ekki illeppar) með garðaprjóni. Þá var fyrst prjónaður miðhlutinn (teikning af lepp) þversum, svo teknir upp á prjón jaðrarnir og prjónaðar húfur á endana með úrtökum. Ég man ekki eftir prjónagerðum kenndum við nöfn nema Halldórufit og Halldóruhæl. Tvíbanda prjón var kallað þegar prjónað var með tveim eða fleiri litum. Ekki held ég að öðruvísi prjónles hafi verið fyrir sjómenn nema peysur þykkri og hlýrri kannske.

Efst á sokkum og vettlingum hét fit eða brugðningar. Þá var ýmist 1 slétt og 1 brugðin eða 2 og 2. Nöfn á sokkum voru á grófum hosum, háleistar, hosur, snjósokkar (háir) og var verið í þeim úti utan yfir smábandssokkum á vetrum eða í kulda. Þessir grófu voru handprjónaðir en þeir fínni oftast á prjónavél. Sokkavél (hringprjónavél) var keypt heima um 1935 - 36.

Vettlingar voru ýmist handvettlingar sem voru notaðir ef fólk fór t.d. milli bæja. Þeir voru gjarnan úr smáu bandi og oft tvíbanda. Svo voru grófari vettlingar notaðir við vinnu og þeir þykkustu voru sjóvettlingar. Þeir þófnuðu gjarnan á árinni og voru þá kallaðir rónir. Vettlingar voru oftast með tveim þumlum (nema barna og kvenvettlingar). Voru þá þumlarnir sem ekki voru notaðir snúnir inn í vettlinginn. Svo var skipt um þumla og þá þófnuðu þeir og slitnuðu jafnar.

Farið var að prjóna lopapeysur eftir að farið var að vinna ullina í lopa en oftast voru vinnupeysur úr bandi (Gefjunarband) og þá prjónaðar í tvíkjálka prjónavélum ef fólk átti aðgang að slíkum. Buxur voru prjónaðar síðar á karlmenn, stuttar eða hnésíðar á konur en á börn oftast niður undir hné. Svo voru bæði stelpur og strákar í sokkum sem náðu upp á mið læri svo að næði vel saman buxur og sokkar. Sokkar voru með tölum efst og hnepptir upp með sokkaböndum sem aftur voru hneppt upp á kot sem krakkar voru í.

Stelpur voru oftast í pilsum eða kjólum og það var ekki fyrr en um eða eftir 1940 sem síðbuxur á stelpur fóru að vera algengar. Strákarnir voru í stuttbuxum fram á 12 - 13 ára aldur.

Tátiljur voru algengar og krakkar æfðu sig gjarnan á prjónaskapnum á slíku prjónlesi.

Ég var búin að nefna hringprjónavél sem var til heima og þótti mikil framför. Í henni voru prjónaðir allir sokkar (nema grófar hosur og snjósokkar) og stundum vettlingar. Þessari prjónavel fylgdi svokallað brugðningarstykki sem féll ofan í hringinn og var þá hægt að prjóna brugðið í vélinni þó ekki nema í hring. Var það notað til að prjóna nærboli á börn og konur. Ekki þótti samt gott að prjóna boli á fullorðna því þá þurfti að klippa upp hólkinn og nota tvær lengjur. Svo var ein kona á Rauðasandi sem átti tvíkjálka prjónavél og prjónaði talsvert fyrir sveitungana.  Hún hét Kristín Pétursdóttir og hún og bræður hennar voru í mörgu á undan sinni samtíð. Hún giftist aldrei en bjó hjá bróður sínum Jóni á Stökkum og nokkur ár hjá Hólmfríði systur sinni í Bæ, vann þar við bústörf en prjónaði á vélina sína til að drýgja örlítið tekjurnar. Einnig átti hún garð og ræktaði rófur og átti líka nokkrar hænur til búdrýginda. Henni féll aldrei verk úr hendi en þær voru svo sem fleiri konurnar í þá daga sem það mátti segja um en hún var aldrei vinnukona eins og tíðkuðust en réði sér og sínum verkum sjálf, bráðskynsöm kona og eina af þessum konum sem ég kynntist ung og bý að þeim kynnum enn. Eldhugi eins og faðir hennar Pétur Jónsson fræðimaður frá Stökkum. Nú er ég farin að villast alltof langt frá efninu.

Ég held að konurnar hafi prjónað alla daga nema þá helst fyrri hluta sunnudaga, og gömlu konurnar prjónuðu gjarnan ef þær gengu milli bæja. Þegar sokkar slitnuðu þá voru brugðningar raktar ofan af og prjónaðir nýir sokkar neðan við brugðningarnar.

Mig langar til að bæta við þetta nokkrum orðum um spuna á vinglu sem afi minn notaði til að spinna á; aðallega hrosshár en smávegis líka togi. Úr hrosshársbandinu fléttaði hann svo reipi, alltaf með 5 þáttum. Líka var halasnælda notuð talsvert mikið til að tvinna og þrinna á; einkum gróft band.   (Svör nr.12821 hjá Þjmsj. Mótt : 1.10.1996).

Útsaumur

Þetta er nú kannske ekki alveg mín deild, þar sem ég þótti heldur löt við svona kvenlegar dyggðir í uppvextinum og þó kannske fremur sérvitur, þar sem ég hafði mestan áhuga á að hanna mína handavinnu sjálf.  Í þeim litla farskóla sem ég gekk í var einfaldlega engin handavinna en í Héraðsskólanum á Núpi þar sem ég var í tvo vetur var smávegis handavinnukennsla og þá saumaður krosssaumur í púða og teppi. Einnig var saumað í hör og léreft og svo nokkuð sem kallaðist forníslenskur saumur. Í kvennaskóla gekk ég ekki.

Stelpur voru látnar æfa sig í að sauma út, strax og þær gátu haldið á nál (ca 7-9 ára), og þá byrja að sauma kontorsting og gjarnan í svæfilver. Stafaklúta heyrði ég um en kannast ekki við sjálf eða hjá mínum vinkonum á sama reki. Hinsvegar er til smáklútur sem amma mín saumaði í stafi og kynjadýr með krosssaum en hún var orðin fullorðin þegar hún var að æfa sig í þessu. Þegar hún var barn átti hún þess ekki kost að læra svona dútl.  Kannske var móðir mín og hennar kynslóð mesta áhugafólkið sem ég vissi um í svona hannyrðum. Hún sagði mér að þær systur (4) hafi fengið sunnudögum úthlutað til slíkrar iðju og á sumrin sátu þær gjarnan úti við handavinnuna þegar gott var veður.

Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum, löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi líkt og þetta. (mynd) Hliðin sem sneri að vegg var ekki með mynstri eða blúndu en blúnda var með hliðum og framan. Svo var mikið saumað í punthandklæði oftast með kontorsting en ég á enn slitur af þannig handklæði sem mamma saumaði með feneyjarsaum og poka undir óhrein barnaföt í sama lit. Svo var líka saumað í vasaklúta.

Saumaklúbbar voru ekki til hér fyrr en um 1950-60 nema, svo ég vitni aftur í móður mína, þá komu þær oft saman heimasætur af fleiri bæjum með sunnudagshandavinnuna; sérstaklega ef hægt var að vera úti. Ekki voru allstaðar rúmgóð húsakynni en heimasæturnar fjölmennar á bæjunum. Einnig var ekki eins góð birta í húsum og nú er. Þeir saumaklúbbar sem hér hafa verið á seinni árum eru svipaðir held ég allstaðar; nema hér hafa þeir verið nokkuð fjölmennir enda samanstendur af öllum konum í meirihluta sveitarinnar, sem er að vísu ekki fjölmenn. Þetta hafa verið 12-15 konur. Stundum hafa verið unnin sameiginleg verkefni ef basar hefur staðið til. T.d. hafa prjónavélaeigendur prjónað barnaföt heima og gengið frá því í saumaklúbbum. Á borðum var kaffi og stríðstertur. Þær urðu flestar að hafa karlana með sem bílstjóra því að lengi vel óku þær ekki sjálfar, sérstaklega eftir vanhirtum vetrarvegum hér í sveit. Þeir sátu gjarnan við spil, og gott ef einhverjar konur laumuðu sér ekki stundum í þann hóp.

Eitt er það hópverkefni í hannyrðum sem ég hef heyrt um í Sauðlauksdalsskóla, þó ekki kunni ég að tímasetja það hvenær það var unnið, en það er altarisdúkur í Sauðlauksdalskirkju. Ég hef heyrt að konur í sókninni hafi saumað í hann með feneyjarsaum; til skiptis sinn hlutann hver. Sá dúkur er orðinn slitinn og hætt að nota hann, svo trúlega er hann gamall nokkuð. Svolítið var um að vísur voru gerðar á eða um saumaklúbbinn.  Þar var m.a. ein hagmælt kona sem eitt sinn dró úr pússi sínu drápu,nokkuð langa, sem hún kvað við raust yfir hinum konunum. Tilefni þessa var að konurnar þóttu stríðstertur nokkuð komnar út í öfgar, því hver vildi gera betur en sú síðasta og voru sumar orðnar hálfsmeykar við að halda klúbbana hjá sér, en þeir voru á bæjunum til skiptis. En þessi hagmælta kona snaraði þá bara nokkrum grundvallarreglum í rím til þess að síður gleymdust. Var þar varað við of miklum tertum o.fl. sem til bóta taldist horfa.

Um garn og annað efni sem notað var eftir að ég man til, er nú svipað að segja og nú er; auroragarn, perlugarn, silkigarn og eitthvað sem kallaðist flokkasilki. Svo allskonar ullargarn og þá saumað í stramma, java eða ullarefni. Með fínna garninu var saumað í hör, léreft, silki og fleira. Mynstur gengu gjarnan á milli kvenna. Einnig fengust mynstur úr kvennablöðum og svo úr dönsku blöðunum, t.d. Familie Journalen sem var keypt á bæjunum heima frá því stuttu eftir síðustu aldamót. Allar konur og stúlkur áttu nálapúða, broderskæri, fingurbjörg og margar saumakassa. Þeir voru heimasmíðaðir á báðum Lambavatnsbæjum enda voru þar listasmiðir. Svo var áhald sem margar konur áttu sem hét perm. Það var rennt úr beini; a.m.k. það sem ég á (mynd), og notað til að gera göt þegar saumaður var svokallaður enskur saumur.

Mér finnst bera meira á krosssaumsmyndum en áður var, og ég held að þar spili nokkuð inn í að húsmæðraskólar hafa verið lagðir niður. Þar var kennd fjölbreytt handavinna t.d. harðangurssaumur ofl.

Mig langar til að segja frá litlum dúk sem ég saumaði í og gaf mömmu minni í jólagjöf. Þá var ég 11-12 ára. Mynstrið teiknaði ég sjálf en studdist við mynd af dúk sem ég sá í blaði. Saumurinn var kontorstingur, flatsaumur og mislöng spor. Garnið var auroragarn sem stelpur voru gjarnan birgar af. En það var vinnuaðstaðan sem gerði þennan dúk mér minnisstæðan. Þar sem þetta átti að vera jólagjöf þá mátti enginn sjá þetta. En í litlum húsakynnum og fjölmennum var það ekki auðvelt. Svo hagaði til að hænsnin á bænum fengu að hafa olíulukt hjá sér í skammdeginu, en bara á daginn. Undir kvöldið fór hænsnahirðirinn, ég, og gaf þeim kvöldmatinn og svo þurfti að slökkva á luktinni, en ekki fyrr en þau voru komin upp á prik. Innangengt var úr hænsnakofanum í fjárhúsin. Því tók ég með mér kerti sem alltaf var nóg af á stríðsárunum og settist á jötubandið og saumaði á meðan hænsnin átu. Þetta tókst, en ekki segi ég að hvíta léreftið hafi verið skjannahvítt að lokum. En þetta mátti þvo og nágrannakona mín saumaði blúndu á dúkinn og ég á enn ræfilinn af honum.

En þetta með kertaauðinn á stríðsárunum kom til af því að þá rak á Rauðasandi geysilegt góss úr skipum sem sökkt var þarna undan Söndum. Þar á meðal ósköp af kertavaxi. Úr því voru steypt kerti eftir þörfum. En þar sem það er önnur saga er ég að hugsa um að setja það og fleira á annað blað. Svona er það þegar farið er að rifja upp gamalt, að þá er erfitt að hætta og er ég þó pennalatasta manneskja sem ég þekki. Ætli ég setji þá ekki amen eftir efninu því aldrei hef ég á húsmæðraskóla farið og veit ekki nóg um skólahandavinnu til frekari umræðna.  (Svör nr.105206 hjá Þjmsj.Mótt : 1.9.1991).

Handverk og smíði

Ég fór að hugsa um það, í sambandi við kertagerðina á Lambavatni, hvað raunar var fjölbreytt sú „handavinna“ eða hvað menn kalla það sem einnig var á báðum bæjum á Lambavatni þegar ég var að alast upp þar. Það lá í landi á þeim bæjum að vinna heima ótrúlegustu hluti. Faðir minn var listasmiður sem og bræður hans, faðir, afi og ég veit ekki hvað langt aftur í ættir. Einn í þeim hóp var kallaður Árni „rokkadreyjari“, sem segir þó nokkuð. Pabbi smíðaði allt sem til þurfti til bús og þó vel það. T.d. renndi hann rokka marga og hef ég heyrt að handbragðið hafi þótt framúrskarandi. Einnig allt innbú á bænum, rúm, skápa, kommóður, stóla, borð o.fl. Allar líkkistur utan um látna Rauðsendinga og fleiri. Aktygi, beisli og hestakerrur og allt sem við kom þarfasta þjóninum og þ.á.m. skeifur undir flesta hesta í sýslunni. Allt var þetta selt á mjög vægu verði, ef það var þá sett verð á það, enda áttu menn ekki peninga nema fyrir því allra brýnasta.

Oft komu líka konurnar á sandinum töltandi með pott, pönnu, ketil eða kaffikönnuna sem hafði komið gat eða sprunga á og fengu soðið í þetta. Aldrei held ég að slíkt hafi verið reiknað til gjalds nema þess sem mölur og ryð granda ekki. Mest af því sem hann smíðað, eða næstum all, var úr rekavið sem talsvert var af á Rauðasandi.

Í Neðribæ á Lambavatni bjuggu tveir bræður sem kvæntir voru systrum. Ólafur Sveinsson smíðaði líka öll húsgögn á þann bæ með listahandbragði. Bókaskápa tvo átti hann sem hann smíðaði; annar með útskornum listum og gleri í hurðum en hinn var með hurðum með sex spjöldum í og málaðar myndir á spjöldum. Báðir þessir bræður í Neðribæ, svo og pabbi minn, skáru út af miklum hagleik kassa og skrín, ramma o.fl. Mynstrin af útskurðinum voru pöntuð; mest frá Danmörku. Pabbi smíðaði einnig olíulampa úr kopar, þ.e.a.s. hann keypti kransana. Ég á enn tvo 8 línu vegglampa. Kannske má segja að þetta sé ekki hlutlaust mat hjá mér á föður mínum en ég held að allir sem til þekktu myndu staðfesta að það er ekki ofmat, en margt er ótalið.

En svo er að geta um þann óvanalega „heimilisiðnað“ sem rifjaðist upp þegar ég fór að skrifa um ljósmetið. Á stríðsárunum rak á Rauðasandi ólíklegustu hluti sem auðvitað komu úr skipum sem kafbátar sökktu þarna á skipaleið stutt undan. T.d. rak einu sinni; mig minnir 1943 eða 44, á land marga kassa með smjöri. Mig minnir að hver kassi hafi verið 48 lbs. en er þó ekki alveg viss. Ekki veit ég hvað margir kassar komu þarna á land en mér er næst að halda að það hafi verið þó nokkur tonn. En þarna voru brotin lög á Rauðsendingum því sýslumaður Barðastrandasýslu úrskurðaði á eigin spýtur að ríkið ætti allt þetta smjör. Mátti sá annars að mörgu mæti maður Jóhann Skaftason sýslumaður lifa með það á herðum sér langa ævi að hafa beinlínis stolið þessu frá fátækum bændum á Sandinum. Samkvæmt lögum átti ríkið verðmæti sem rak á land ef það náði vissri upphæð og þá miðað við 1 hlut. En samkvæmt túlkun sýslumanns gat hann fengið verðið sem við var miðað með því að reikna kassana saman en eftir því átti ríkið allan reka á landinu því alltaf mátti safna saman nógu mörgum trjám! Bændur voru skikkaðir til að flytja þetta til bæja og svo bauð sýsli allt saman upp og geri aðrir betur í húsbændahollustu! En nú er ég farin að villast heldur langt frá efninu.

Eitt af því sem sjórinn skolaði á land þarna við sandinn var heilmikið af kertavaxi og steríni. Þetta var mesti happafengur fyrir okkur krakkana þó tilefni þess væri svo sannarlega dramatískt eins og heyra mátti á sprengingum frá hafinu.  Eftir þetta var nefnilega enginn skortur á ljósmeti hjá okkur krökkunum. Kertin voru mest steypt í bambusstöngum sem voru sagaðar niður þannig að liður myndaði botn á kertaforminum. Bambusbúturinn var klofinn eftir endilöngu og bómullarkveik fest í botninn miðjan og svo var búturinn reyrður saman með seglgarni. Kveikurinn var festur á spýtu að ofan og bræddu vaxi nú hellt í. Svo þegar þetta var orðið storknað var seglgarnið leyst af og kertið tekið úr, og svo var hægt að nota formið aftur.

Við krakkarnir á þessum bæjum á Lambavatni vorum ekki gömul þegar við fórum að saga út ýmsa muni. Laufsagir voru til 2 -3 á bænum enda vorum við systkinin 4 og í Neðribæ ólust upp 6 frændsystkin; stundum voru þau 7. Mynstur fengum við mörg úr Famelie Journalen og nokkur voru pöntuð beint frá Danmörku eins og útskurðarmynstrin. Svo söguðum við út dýr sem við fengum t.d. úr Dýrafræðinni. Svo tálguðum við fugla og lítil skip og fleira og einu sinni var framleiðslan orðin það mikil að við komum talsverðu af fuglum og skipum í verslun og þetta seldist; að vísu ekki fyrir neinn auð!  Líka voru tálgaðir fuglar og fleira úr stórum ýsubeinum.

Nokkuð hefur þessi handiðn hjá þessum barnahóp sett mark á hvað þau lögðu fyrir sig á fullorðinsárum. T.d. voru allir þrír bræður mínir vélsmiðir og tveir af hópnum úr Neðribænum líka. Einn þeirra frænda er Sveinn Ólafsson myndskeri og einnig hef ég verið nokkuð veik fyrir ýmsu fikti þó í hjáverkum.   (Svör nr.10519  hjá Þjms).

Tóbakshættir

Ekki voru margir sem reyktu í mínum uppvexti Rauðsandi, en þó einstaka maður. Þegar messað var í Saurbæjarkirkju þá var söfnuðurinn alltaf boðinn í kirkjukaffi; kannski orsök svo frábærrar kirkjusóknar sem þar var. Þarna voru mjög stór og rúmgóð húsakynni, rúmgóð borðstofa og setustofa inn af henni. Þar hélt presturinn sig eftir kaffið, en hann var oddviti sveitarinnar.  Menn áttu margir við hann erindi og ossur gudbjartssonvindlailminn lagði þar út. Mér þótti hann mjög hátíðlegur. Þó held ég að prestur hafi ekki reykt, en man það þó ekki.  Höfðingjanum og valmenninu Gísla Thorlacíus í Bæ þótti viðeigandi að láta vindla liggja frammi, fyrir þá sem vildu.

Þannig var að árið 1943, að mig minnir, rak upp á Rifið innrásarpramma sem reyndist hafa slitnað aftan úr lest af slíkum á leið til Normandy. Sumarið eftir kom ca 10 manna flokkur hermanna til að ná út þessari eign sinni en þetta var spáný fleyta. Þetta gekk nú brösuglega og tók langan tíma.  Voru menn ráðnir til aðstoðar af flestum bæjum á Sandinum með hesta því stórvirk tæki þekktust ekki, enda Sandrifið laust og sandur hafði borist að prammanum með sjó og vindi. Vestur-Íslendingur stjórnaði flokknum, því hann talaði nokkra íslensku. Þessir menn buðu sínum verkamönnum gjarnan sígarettur með sér, enda var þetta ekki talið sérlega óhollt í þá daga. Góð kynni tókust með heimamönnum og hermannsliðinu einkum við Garðar, Íslendinginn í hópnum. Næstu jól á eftir komu myndarlegir pakkar á hvern bæ á Sandinum með sælgæti og sígarettukarton í hverjum pakka. Svolítið voru menn nú hugsandi yfir hvort ætti að taka við þessu frá hermannsliðinu. Ég veit ekki til að það hafi verið endursent, en eitthvað höfðu menn misgóða lyst á namminu þó ekki væri mikið um slíkt þá. Svo ég klári svo söguna af prammanum þá tókst að lokum að draga hann á flot af skipi og ég býst við að hann hafi notast í innrásina á Normandy eins og til var ætlast.

Við krakkarnir prófuðum að reykja tágar en gekk illa. Tvíbýli var á Lambavatni og uppáfinningssamir strákar á báðum bæjum. Einu sinni þegar þeir voru um fermingu, keyptu þeir bréf af píputóbaki. Þá höfðu þeir smíðað sér reykjarpípu og nú skyldi prófað að reykja. Ekki tókst betur til en svo að tóbakið var gert upptækt. Vissu þeir að það var geymt í kistu inni í stofu í Neðri bæ. Nú þurfti að fella gamla kú á bænum og fenginn til þess öruggur skotmaður af öðrum bæ. Sá reykti pípu. Að loknu verki bauð heimabóndi skotmanni í pípu, en ekki leist honum á tóbakið. Þá höfðu eigendur vörunnar skipt í bréfinu, tekið tóbakið en sett mosa í staðinn.  Fyrsta sígarettutegund sem ég kynntist var Lucky Strike.

Ég held ég láti við þetta sitja þó lítill fróðleikur sé í þessu.   (Svör nr.12866 hjá Þjmsj.Mótt : 4.5.1998).

Rafvæðing

Ég sá fyrst rafljós á Patreksfirði og var þá það ung að ég hugsaði lítið út í það nema mér fannst þetta mikil birta.

Á nokkrum bæjum í Rauðasandshreppi var komið upp litlum heimilisrafstöðvum löngu fyrir samveiturafmagnið, þær fyrstu fyrir 1930. Rafmagn frá þeim nægði fyrir ljós og eldavélar og sums staðar til upphitunar. Á Rauðasandi hagar þannig til að lítið er um læki sem hægt er að fá fallhæð í, a.m.k. á Útsandinum enda engar vatnsrafstöðvar þar, nema ein smávirkjun í lækjarsprænu á Naustabrekku. Hún dugði bara til að hlaða útvarpsbatterí og einnig var þar til einn nokkuð stærri geymir sem var hlaðinn og farið með heim í bæ og tengt við hann fáar litlar perur. Ein önnur svona stöð var í sveitinni. Ekki þjakaði minnimáttarkennd þá sem komu sér upp þessum örstöðvum því þeir kölluðu þetta „kraftverk“.Þó var til enn minna „kraftverk“ á Rauðasandi, það var pabbi minn sem kom sér því upp, það dugði fyrir útvarpsrafhlöður en ekki var það fyrirhafnarlaust. Pabbi tengdi dínamó við rennibekkinn sinn og svo var hægt að stíga bekkinn og hlaða batteríin en það tók langan tíma. Þarna voru hlaðnar útvarpsrafhlöður á Lambavatnsbæjunum og stundum fleiri. Annars fóru menn með rafhlöður í„kraftverkin“ bæði að Brekku og í stærri vatnsvirkjanir en þá var yfir fjöll að fara.

En svo komu vindrafstöðvar. Að Lambavatni kom slík stöð upp úr 1940 og síðan á flesta bæi á Sandinum. Þetta var lítil 6 volta stöð og síðan kom önnur eins stöð heima. Þær voru notaðar báðar í nokkur ár. Þegar vindur var, hlóðu þær inn á nokkra geyma sem var svo hægt að hafa ljós frá, þegar logn var. Þá þurfti að spara ljósin en þessar stöðvar voru bara til ljósa. Á sumum bæjanna voru stærri stöðvar; 12 - 32 volta. Pabbi smíðaði túrbínu í litla virkjun í læki í Saurbæ sem hlóð bara inn á geyma. En svo fóru að koma litlar díeselvélar á bæina og leystu þær vindrafstöðvarnar af hólmi. Á Rauðasandi geta komið mikil rok og vildu þá spaðar fjúka af vindrafstöðvunum þótt á þeim væri útbúnaður til að stöðva þær í miklu hvassviðri. Svo gat lognið verið heldur lengi til að entist á geymunum. Samveiturafmagn kom ekki í Rauðasandshrepp fyrr en 1974 – 5; frá Orkubúi Vestfjarða. Baráttan um að fá hér rafmagn snérist mest um stofnun Orkubús Vestfjarða sem öll sveitarfélög á Vestfjörðum stóðu að. Að þessu var vitanlega talsverður aðdragandi en ég fylgdist nokkuð með þessu þar eð bóndi minn, Össur Guðbjartsson, var í fyrstu stjórn Orkubúsins og vann talsvert við undirbúning þess sem oddviti hér. Í nokkur ár fóru fram mælingar í Suðurfossá á Rauðasandi með virkjun í huga, en ekki var talið borga sig að virkja þar.

Ekki minnist ég sérstaks sparnaðar á rafmagni nema þegar logn var á vindrafstöðvarnar og notað var rafmagn af geymum. Reyndar var fólk vant að slökkva á olíulömpunum ef það var ekki að nota þá svo það hefur sjálfsagt verið gert með rafmagnið líka

Fyrst eftir að rafmagn kom voru ljósastæði einföld; oftast föst perustæði með engum skermum. Svo fóru að koma lampar, bæði borðlampar og hangandi, einnig „hundar“. Útiljós og ljós í skepnuhús komu nokkuð seinna.

Díeselvélar voru og eru á Patreksfirði og öðrum þéttbýlisstöðum og koma í notkun þegar veiturafmagn bregst, sem er ansi oft að línur bila. Þá getur þurft að skammta rafmagnið. Rafmagnið þótti dýrt og þykir ekki síður enn og er ekki að undra þegar borið er saman verð á rafmagni t.d. frá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitu Reykjavíkur eða landsbyggðarinnar yfirleitt og Reykjavíkursvæðisins.

Raftæki

Fyrir utan ljósin var fyrsta raftækið þvottavél.  Fyrsta rafmagnseldavélin hér á bæ var Ignisvél en hún kom ekki fyrr en 1975. Ég hef ekki átt Rafha eldavél en ég heyrði um konu sem var að kaupa eldavél í Bretlandi og spurði þar eftir í raftækjaverslun hvaða eldavélategund væri best. Henni var sagt að besta eldavél sem framleidd væri í heiminum væri framleidd á Íslandi og héti „Rafha“! 

Fyrsta rafmagnsstraujárn sem ér átti var gufulaust.  Fyrsta ramagnsþvottavélin var með spöðum í botni og rafmagnsvindu.

Rafmagn gerði auðvitað störfin auðveldari, t.d. betri lýsing og þægindi við þvotta og eldamennsku og slíkt.

Tvenns konar rafhlöður voru notaðar við útvörp, kallaðar þurrbattery og votabattery. Þurrbatteryin entust nokkuð lengi og síðan voru keypt ný. Þau líktust ofvöxnum vasaljósabatteryum. Votabatteryin eða rafgeymarnir tæmdust og þá þurfti að hlaða þá aftur. Var þá lagt af stað oft yfir langa fjallvegi á næsta bæ sem rafveita var á til að fá hleðslu. Tveir geymar þurftu að vera til svo sá sem fór með tóma geyminn gæti tekið hlaðna geyminn með sér heim. Sumir fengu að hlaða batteryin í rennibekknum hans pabba. Við hann var dýnamór og var svo hægt að stíga rennibekkinn (lengi!) og hlaða geyminn.   (Svör nr.13444-6 hjá Þjmsj.Mótt : 1.10.1999).

Vesturheimsferðir

Héðan úr Útvíkum, aðallega Breiðuvík og Kollsvík, flutti þó nokkuð af fólki til Ameríku eftir síðustu aldamót. Var það mest fólk úr einni fjölskyldu, þ.e. Breiðuvík, þar sem a.m.k. þrír bræður fluttu til Vesturheims. Þeir voru Andrés, Arinbjörn og Dagbjartur Guðbjartssynir. Arinbjörn flutti aftur til Íslands eftir nokkur ár en hinir báru beinin í Ameríku og þar eru þeirra afkomendur. Dagbjartur átti hér unnustu og fór vestur um haf á undan henni til að útvega sér vinnu og jarðnæði og kom svo að sækja konuefnið. Hún hét Lovísa Torfadóttir í Kollsvík en móðir hennar Guðbjörg Guðbjartsdóttir var systir Guðbjartar tengdaföður míns.

Guðbjörg missti mann sinn frá 10 eða 11 börnum, flestum innan fermingar. Yngsta barnið var þá nýfætt. Torfi drukknaði í Kollsvíkurlendingu. Guðbjörgu tókst að halda í horfinu með aðstoð Guðbjartar bróður síns sem vann henni kauplaust a.m.k. tvö ár. Þá tóku elstu börnin við búrekstri og sjósókn á árabát úr Kollsvíkurveri, enda dugleg og samhent. Þetta er nú útúrdúr en sýnir þá erfiðleika sem fjölskyldur lentu í þegar fyrirvinnan féll frá og þó ekki dæmigert þar sem svona heimili hefði verið leyst upp í flestum tilfellum á þessum tíma, laust eftir síðustu aldamót. En bæði kom þarna til fórnfús hjálp frá bróður hennar, dugnaður systkinanna og svo trúlega vinfengi við prestinn sem var oddviti, séra Þorvaldur í Sauðlauksdal (afi Vigdísar Finnbogadóttur).

En áfram með vesturfarana. Þegar Dagbjartur kom frá Ameríku að vitja konuefnis síns (en þau voru bræðrabörn; Torfi og Guðbjartur bræður) þá vildi Guðbjörg móðir hennar ekki að hún færi. Hefur vitað sem varð að þá sæust þær ekki framar. Systkinin voru því vön að hlýta forsjá móður sinnar og fara að hennar vilja. Lovísa hætti þá við sína ferð, þó sárnauðug. Tók hún þá óyndi mikið svo systrum hennar þótti í óefni stefna. Hvöttu þær hana til fararinnar og hættu ekki fyrr en hún fór vestur. Kom hún aldrei til Íslands framar, en þau fluttu út 1921. Ég þekki einkum þrjár af þessum systrum, Vilborg bjó í Neðri bænum á Lambavatni þegar ég ólst upp í Hærri bænum við hliðina. Ég man alltaf hvað bréfunum frá Lovísu var fagnað en hún var með eindæmum dugleg að hafa bréfasamband við móður sína og systkini. Mér fannst ég þekkja þessa fjölskyldu jafnvel og þau sem bjuggu hérlendis.

Þau áttu tvo syni, Torfa og Heinrek. Torfi hefur komið til landsins tvisvar en Hinrik (eins og fólk kallaði hann) kom hér í sumar í fyrsta sinn. Hann býr í Texas og hittir sárasjaldan Íslending. En svo vel hefur íslenskan tollað í honum að hann talar næstum alveg rétta íslensku; meira segja vestfirsku!

Lovísa og Dagbjartur töluðu alltaf íslensku heima og Lovísa neitaði alfarið að læra eða tala ensku. Þau bjuggu í Norður Dakota og þar var talsvert um Íslendinga. Hún fór utan rúmlega tvítug og lést í hárri elli fyrir ekki svo mörgum árum. Torfi sonur þeirra talar enn betri íslensku en Hinrik, en hann býr í Vancouver og þar hittir hann stundum Íslendinga.

Árið 1911 fluttu Ottelía Guðbjartsdóttir (systir tengdaföður míns) og maður hennar Jens Jónsson til Kanada. Hún skrifaði líka fjölskyldunni nokkuð oft. Dóttir hennar heitir Magdalena og býr í Kanada með sínum manni Sigurði sem er íslenskur og eiga þau þar afkomendur. Ég fann bréf frá henni fyrir nokkru til tengdapabba, bróður síns, þar sem hún er sú reiðasta við dóttur sína fyrir að hún ætlaði að láta ferma syni sína á ensku og meira að segja læra faðirvorið á ensku! sem hún taldi villimannamál og drengirnir kæmust ekki í kristinna manna tölu með slíku.

Á síðari árum hafa nokkrir af ættinni farið vestur og hitt frændfólk þar við gagnkvæma ánægju.

Systur Lovísu Dagbjört og Vilborg heimsóttu hana einu sinni til Dakota. Færðu þær henni sand í poka úr Kollsvíkurveri og vatn úr Gvendarbrunnunum í Kollsvík. Þá táraðist gamla konan.  (Svör nr.12330 hjá Þjmsj.Mótt : 1.2.1996.)

Bankahrunið.

Mitt umhverfi í þjóðfélaginu takmarkast að vísu við búsetu vestur á fjörðum; langt frá vettvangi atburða í þjóðfélaginu, en fjölmiðlaumfjöllun nær þó til okkar hér. Enda hefur lítið mark verið á okkur tekið; löngu afgreidd sem annars eða þriðja flokks borgarar. Undanfarin ár eða jafnvel áratugir eru liðin síðan þessir almáttugu bankar hættu að lána pening í framkvæmdir hér t.d. húsbyggingar, því hér væru eignir manna ekki talin veðhæf.  Svo að þeir sem ekki fluttu suður til að dansa með í kringum gullkálfinn sátu bara eftir og sáu lítið af góðærinu. Unga fólkið varð að leita burt til að mennta sig og fékk svo ekki störf í heimabyggð.  Húseignir hér óteljanlegar, því þó einhverjir vildu kaupa þá fékkst engin fyrirgreiðsla frá bönkunum. Enda var þetta orðið láglaunasvæði sem tórði á útgerðinni sem útrásarvíkingar og þeirra lið taldi ekki marktæka fremur en landbúnað. Nei nú átti að láta peningamálin sjá fyrir okkur.

Hér kom hrunið fyrir mörgum árum og engin þensla hér. Ég hef aldrei skilið þetta brjálæði sem greip allt þjóðfélagið eftir að bankarnir voru einkavæddir. Eftir að stjórnvöld frömdu það stjórnarskrárbrot að samþykkja EES-samninginn án þess að þjóðin fengi að greiða um það atkvæði fengu bankarnir frítt spil; eftir að þeir voru seldir (eða gefnir), og þá byrjaði ballið. Svo þegar útrásarvíkingarnir fóru að kaupa upp stóreignir í nálægum löndum þá virtist þjóðin sitja með stjörnur í augunum af aðdáun á snilli þessara manna svo að þó einhver afdalakerling skildi þetta ekki þá vottaði það bara hennar heimsku!

Ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa fyrirlitningu minni á þessari græðgi sem stjórnendur banka og allt þetta útrásarlið sýndi og kom fram í fjölmiðlum og sagði frá sínum launum sem eðlilegum þó mánaðarlaunin væru oft margfaldar árstekjur venjulegs launamanns; jafnvel ekki láglaunamanns. Þeir töldu þetta í samræmi við þá miklu ábyrgð sem þeir bæru.  Hvar er svo ábyrgðin?

Það sem mér fannst um útrásarvíkinga fyrir hrun er það sama og nú; nema hvað ég, og sjálfsagt flestir, hafði ekki hugmynd um hvað gróf þessi græðgi var og skefjalaus.

Hvað snertir þetta umtal að fara að taka upp ensku hér í stórfyrirtækjum þá fannst mér það nú jaðra við landráð; sem betur fer er þetta ekki til umræðu í dag vonandi. Þegar þjóðin hafnar íslenskunni þá erum við búin að vera sem þjóð.

Mótmælin - Búsáhaldabyltingin

Fréttir af mótmælum komu til okkar landsbyggðafólks vitanlega úr fjölmiðlum. Mér finnst það svo sem nokkuð eðlilegt að fólki hitnaði í hamsi þegar í ljós kom að þeirra ævisparnaður brann upp í bönkunum og mótmæltu harðlega óréttlætinu. Í góðu lagi að berja potta og pönnur til að fá útrás fyrir reiðina. Líka til að krefjast úrbóta. En svo fóru hlutir að fara úrskeiðis og alls konar villingalýður eyðilagði þessi friðsömu mótmæli. Þá var farið að berja á lögreglunni, kasta grjóti í Alþingishúsið og Dómkirkjuna, eggjum og öðrum matvælum í þingmenn og fleiri. Úr þessu urðu svo skrílslæti sem mér finnst alveg forkastanleg. Ekki síst þar sem þetta þing var að reyna að bæta úr mistökum fyrri stjórnar sem allt vildi einkavæða, bankana og annað án þess að setja neinar skorður við þetta margnefnda „fjármagnsflæði“samkvæmt EES-reglum! Einu sinni áður hef ég mótmælt gerðum stjórnvalda; það var þegar stjórnvöld létu sig hafa það að brjóta stjórnarskrána með því að setja ekki EES-samninginn til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í stjórnarskrá er mælt fyrir um að þjóðin sé til kvödd ef um er að ræða samning sem skerði fullveldi Íslands; sem þessi samningur gerði ótvírætt. Við risum þá upp þrjár konur úr „grasrótinni“ og söfnuðum undirskriftum um áskorun á forseta um að vísa málinu í þjóðaratkvæði. Undirskriftir urðu um 35000 en ekki dugði það til!

Kreppan

Eins og ég tók fram í upphafi þá var kreppan komin hér fyrir löngu. Ég er fædd í kreppu. Þá kom sér vel að búa í sveit; þar voru úrræði sem bæjarbúar höfðu ekki.  Það var allt nýtt; slátur, kjöt, mest af gamalám því lömbin fóru í sláturhús og þó ekki væru þau mörg þá áttu þau að duga fyrir því sem þurfti að kaupa; mjölvöru o.fl. og efni í nauðsynlegasta fatnað.  Svo var farið á sjó frá hafnlausri strönd, einusinni eða tvisvar á sumri og fiskur saltaður.  2 kýr sáu fólki fyrir mjólk, skyri og smjöri. Móðir mín sagði mér að eitt vorið hafi verið til 10 kr. í peningum sem átti að nota í brýnni þörf á sumrinu. Þær tíu krónur voru til um haustið þar sem þörfin var ekki metin það brýn um sumarið að ekki dygði úttektin í kaupfélaginu. Ég held að kaupfélögin hafi bjargað þjóðinni að miklu leyti í þessari kreppu, a.m.k. í dreifðari byggðum.

Þessi kreppa hefur ekki haft nein áhrif á mínar neysluvenjur. Uppeldi í fyrri kreppu hefur kannske kennt mér nýtni sem ég held að löngu sé horfin í þessu neysluþjóðfélagi. Ég veit um fjölskyldu sem flutti til Reykjavíkur um 1935; þar var bara daglaunavinna föðurins til að treysta á. Þau áttu 5 syni og einn þeirra sagði mér að þeir hefðu oft verið svangir. Oft var heimilisfaðirinn án vinnu dögum saman. Á vorin var sagt upp leigunni á smákjallaraholu en móðirin réði sig í kaupavinnu með yngsta barnið en hinir komust í sveit sem matvinnungar. Faðirinn fékk að vera í einhverju kytruskoti og svo að hausti varð að finna einhverja kjallaraholu til að hírast í yfir veturinn. En svo kom stríðið!  Þá batnaði hagurinn með nægri vinnu. 

Ég vona að þjóðin læri eitthvað af þessari kreppu; kannske helst að styðja við innlenda framleiðslu til lands og sjávar. Okkar landbúnaðarvörur eru viðurkenndar þær bestu í heimi og hreinustu. Og guð forði okkur frá að tapa slitrunum af sjálfstæðinu í ESB; það bjargar okkur ekki frá kreppum framtíðarinnar; fremur mergsýgur okkur.  (Svör nr.2010-890  hjá Þjms; mótt: 14.9.2009/15.2.2011)

Kraftaverk

Það er nú ekki margt sem ég get sagt frá kraftaverkum, þrátt fyrir það að ég er sannfærð um að slíkt á sér stað. Eitt vil ég þó nefna sem öll þjóðin fylgdist raunar með, en það er þegar breskum sjómönnum var bjargað af togaranum „Dhoon“ undir Látrabjargi. Það var eitt stórt kraftaverk að enginn skyldi farast við þessar aðstæður; hvorki björgunarmenn eða skipbrotsmenn nema þeir þrír skipverjar sem fórust áður en björgunarmenn komu á vettvang. Ég ætla ekki að rekja þetta hér enda nýverið gerð góð skil í fjölmiðlum á 50 ára afmæli þessa atburðar. Þegar mennirnir voru þarna í fjörunni hrundu steinar og klakastykki úr hömrunum og lentu á milli mannanna. Ekki hefði þurft um að binda ef slíkt hefði lent á þeim úr mikilli hæð. Þegar menn fóru í þessa björgun vissu þeir að kraftaverk þyrfti til ef allir kæmu heilir aftur.

Sjálf hef ég reynslu af að maður fær hjálp sem ekki verður skýrð með rökum. Ég held að flestir fullorðnir Íslendingar hafi heyrt um eða kynnst fólki sem virðist hafa kraft og hæfileika til að hjálpa í veikindum og öðrum erfiðleikum.

Ég veit ekki hvort það getur talist til kraftaverka, þær einkennilegu tilviljanir sem komu mér til hjálpar eftir að maðurinn minn veiktist 1986. Ég var hjá honum í Reykjavík eftir að hann veiktist en hann var mjög háður mér, enda lamaður að mestu. Þegar ég sá að þetta yrði löng dvöl að heiman þá sá ég að ég yrði að útvega mér dvalarstað í borginni því ekki gengi að búa hjá vinum og vandamönnum svo vikum og mánuðum skipti. Ég skrapp hingað heim fáa daga að tína saman nauðsynlegt dót án þess að hafa getað leyst málið enda fjármagn takmarkað og lítið framboð á húsnæði sem hentaði. Kvöldið áður en ég fór aftur suður er barið að dyrum og þar voru komin hjón frá Selfossi, góðir vinir okkar en hittumst sjaldan enda langt á milli. Við vorum að ræða málið um kvöldið um þessi vandkvæði mín í íbúðarmálum. Vinkona mín fór þá að róta í veski sínu og kemur svo með lykil sem hún fær mér með þeim ummælum að ég fari bara í lítinn gamlan bæ sem þau áttu í Vesturbænum og notuðu sem svefnstað ef þau þurftu að gista í Reykjavík vegna sinna starfa. Þessi gamli bær var örstutt frá Landakoti þar sem bóndi minn lá inni.

Þetta var í júlí og þarna var ég fram á haust. Þá fór ég að fá slæma samvisku yfir dvölinni þarna, þau notuðu þetta húsnæði meira að vetrinum. Þá átti gamall kunningi og sveitungi 50 ára afmæli. Ég ætlaði nú ekki að heimsækja hann en mér fannst endilega að ég ætti að fara út á Álftanes en þar býr hann. En í veislunni hitti ég konu sem ég þekki sem sagði mér að systir sín og hennar maður væru að ljúka við að innrétta litla íbúð í kjallara húss síns sem þau myndu leigja. Stutt frá sagt fékk ég þessa íbúð og þar vorum við (ég og bóndi minn eftir að hann fór að geta komið heim um helgar) til vors en þá komust við heim.  Þegar svona gerist hvað eftir annað fer maður að hugsa hvort maður hafi ekki einhvers staðar aðstoð sem ekki ber mikið á í daglega lífinu. Fleira gæti ég rakið en þetta á kannske ekki heima hér svo ég læt þá staðar numið.  (Svör nr.12856  hjá Þjms; mótt: 1.10.1997.)